Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 538. máls.

Þingskjal 833  —  538. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 65/2009 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 65/2009, frá 29. maí 2009, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/35/EB um mengun sem á upptök sín um borð í skipum og innleiðingu viðurlaga við brotum.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 65/2009, frá 29. maí 2009, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/35/EB um mengun sem á upptök sín um borð í skipum og innleiðingu viðurlaga við brotum.
    Megintilgangurinn með tilskipun 2005/35/EB er að innleiða í löggjöf Evrópusambandsins alþjóðlegar viðmiðanir varðandi mengun, sem á upptök sín í skipum, og tryggja að einstaklingar, sem bera ábyrgð á losun, sæti hæfilegum viðurlögum, með það að markmiði að bæta siglingaöryggi og auka vernd umvherfis sjávar gegn mengun af völdum skipa.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/35/EB um mengun sem á upptök sín um borð í skipum og um upptöku viðurlaga við brotum.
    Í tilskipun 2005/35/EB er kveðið á um þá skyldu ríkja Evrópusambandsins að innleiða í löggjöf sína ákvæði um að losun mengandi efna í hafið sé brot sem feli í sér refsiviðurlög eða stjórnsýsluviðurlög, ef slík losun á sér stað af ásetningi, gáleysi eða alvarlegri vanrækslu.
    Ábyrgur aðili er ekki einungis eigandi skips eða skipstjóri heldur getur ábyrgðin einnig náð til eiganda farms, flokkunarfélaga eða til annarra einstaklinga sem tengjast tjóninu. Tilskipunin nær yfir innsævi, landhelgi og úthafið og til allra skipa óháð skráningarlandi að undanþegnum herskipum og öðrum skipum ríkisstjórna sem ekki eru notuð sem verslunarskip. Einnig eru í tilskipuninni gerðar kröfur um ákveðna málsmeðferð vegna brota og gert er ráð fyrir að alþjóðareglur gildi jafnhliða þessum reglum.
    Í 2. málsl. 4. gr. tilskipunarinnar er kveðið á um að telja skuli losun mengandi efna í hafið refsiverðan verknað í tilteknum tilvikum. Af hálfu EFTA-ríkjanna var gerð krafa um þá aðlögun við upptöku gerðarinnar að málsliðurinn ætti ekki við við upptöku gerðarinnar í EES-samninginn þar sem refsiákvæði falla ekki undir EES-samninginn. Aðlögunartexti þessa efnis kemur fram í 1. gr. ákvörðunar nr. 65/2009. Eigi að síður styðja íslensk stjórnvöld harðari aðgerðir vegna brota er varða mengun hafsins frá skipum og fyrirhuga af þeim sökum að innleiða sambærilegar refsireglur og gert hefur verið innan margra ríkja Evrópusambandsins vegna slíkra brota.
    Gert er ráð fyrir að innleiðing tilskipunarinnar muni leiða til aukins öryggis á sjó og auka vernd vistkerfis hafsins.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Til að innleiða tilskipun 2005/35 hér á landi þarf að breyta lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda eða setja ný lög hvað varðar mengun frá skipum sem á sér stað á úthafinu. Fyrirhugað er að umhverfisráðherra leggi fram frumvarp til slíkra lagabreytinga á yfirstandandi löggjafarþingi, til innleiðingar á tilskipuninni.

Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 65/2009

um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn



SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XIII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2009 frá 24. apríl 2009( 1 ).
2)        Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/35/EB frá 7. september 2005 um mengun sem á upptök sín um borð í skipum og um upptöku viðurlaga við brotum ( 2 ), ásamt leiðréttingum sem birtust í Stjtíð. ESB L 33, 4.2.2006, bls. 87, og Stjtíð. ESB L 105, 13.4.2006, bls. 65.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.

    Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 56u (reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 336/2006) í XIII. viðauka við samninginn:

„56v.     32005 L 0035: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/35/EB frá 7. september 2005 um mengun sem á upptök sín um borð í skipum og um upptöku viðurlaga við brotum (Stjtíð. ESB L 255, 30.9.2005, bls. 11) með leiðréttingum sem birtust í Stjtíð. ESB L 33, 4.2.2006, bls. 87, og Stjtíð. ESB L 105, 13.4.2006, bls. 65.

    Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

    Ákvæði annars málsliðar 4. gr. gilda ekki.“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2005/35/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 30. maí 2009 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.



Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2005/35/EB
frá 7. september 2005
um mengun sem á upptök sín um borð í skipum og innleiðingu viðurlaga við brotum
(Texti sem varðar EES)

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 80. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
að höfðu samráði við svæðanefndina,
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 2 ) ,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Stefna Bandalagsins varðandi siglingaöryggi miðar að því að efla öryggi og umhverfisvernd og byggist á þeirri forsendu að allir aðilar, sem stunda farmflutninga á sjó, beri ábyrgð á því að tryggja að skip, sem sigla á hafsvæði Bandalagsins, fari að gildandi reglum og viðmiðunum.
2)          Viðeigandi viðmiðanir í öllum aðildarríkjunum um losun mengandi efna frá skipum byggjast á alþjóðasamningi um varnir gegn mengun frá skipum frá 1973 (Marpol-samningurinn frá ´73/´78). Þessar reglur eru þó brotnar daglega af fjölmörgum skipum, sem sigla á hafsvæði Bandalagsins, án þess að gripið sé til aðgerða til úrbóta.
3)          Framkvæmd Marpol-samningsins frá ´73/´78 er mismunandi í aðildarríkjunum og því er nauðsynlegt að samræma framkvæmd hans á vettvangi Bandalagsins. Einkum er umtalsverður munur í aðildarríkjunum á viðurlögum við losun mengandi efna frá skipum.
4)          Letjandi aðgerðir eru óaðskiljanlegur hluti af stefnu Bandalagsins varðandi siglingaöryggi þar sem þær tryggja tengsl á milli ábyrgðar hvers aðila, sem stundar flutning á mengandi farmi á sjó, og þeirrar áhættu að hann verði látinn sæta viðurlögum. Í því skyni að tryggja virka umhverfisvernd er því þörf á viðurlögum sem eru skilvirk, letjandi og í réttu hlutfalli við brotið.
5)          Nauðsynlegt er, í þessu skyni, að samræma gildandi lagaákvæði með viðeigandi lagagerningum, einkum að því er varðar nákvæma skilgreiningu á því broti sem um ræðir, undantekningartilvik, lágmarksreglur um viðurlög, bótaábyrgð og dómsvald.
6)          Við þessa tilskipun bætast ítarlegar reglur um refsiverða verknaði og viðurlög ásamt öðrum ákvæðum sem sett eru fram í rammaákvörðun ráðsins 2005/667/DIM frá 12. júlí 2005 um að herða lagarammann á sviði refsilaga til að framfylgja lögum gegn mengun sem á upptök sín í skipum ( 3 ) .
7)          Hvorki hið alþjóðlega fyrirkomulag einkaréttarábyrgðar og bóta vegna olíumengunar né mengunar af völdum annarra hættulegra eða skaðvænlegra efna, hefur nægilega fælandi áhrif til þess að aftra aðilum, sem stunda flutning á hættulegum farmi á sjó, frá því að brjóta í bága við reglur. Einungis er unnt að ná tilætluðum, letjandi áhrifum með innleiðingu viðurlaga sem hver sá sem veldur eða stuðlar að sjávarmengun skal sæta. Skipseigandi eða skipstjóri skal ekki vera sá eini sem sætir viðurlögum heldur einnig eigandi farms, flokkunarfélag eða aðrir aðilar sem eiga í hlut.
8)          Líta skal á losun mengandi efna, sem á upptök sín í skipum, sem brot ef hún er framkvæmd af ásetningi, gáleysi eða vegna alvarlegrar vanrækslu. Litið er á þessi brot sem refsiverðan verknað í tengslum við og samkvæmt aðstæðum, sem kveðið er á um í rammaákvörðun 2005/667/DIM, sem er viðbót við þessa tilskipun.
9)          Viðurlög við losun mengandi efna frá skipum eru ekki tengd einkaréttarábyrgð hlutaðeigandi aðila og falla þar af leiðandi hvorki undir hvers konar reglur, sem takmarka eða flytja einkaréttarábyrgð, né takmarka rétt tjónþola til skilvirkra bóta vegna mengunaratvika.
10)          Nauðsynlegt er að koma á skilvirkari samvinnu milli aðildarríkjanna til þess að tryggja að losun mengandi efna frá skipum uppgötvist tímanlega og brotlegir aðilar finnist. Siglingaöryggisstofnun Evrópu, sem komið var á fót með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1406/2002 frá 27. júní ( 1 ) , gegnir af þessum sökum lykilhlutverki í samvinnu við aðildarríkin um að þróa tæknilausnir og tækniaðstoð varðandi framkvæmd þessarar tilskipunar og að aðstoða framkvæmdastjórnina við að inna af hendi þau verkefni sem henni eru falin í þágu skilvirkrar framkvæmdar þessarar tilskipunar.
11)          Til að fyrirbyggja betur og berjast gegn sjávarmengun skal skapa samvirkni milli eftirlitsyfirvalda, eins og strandgæslu aðildarríkjanna. Í því samhengi skal framkvæmdastjórnin láta fara fram hagkvæmniathugun á evrópskri strandgæslu, sem sinnir mengunarvörnum og viðbrögðum við mengun, til að leiða í ljós kostnað og ávinning. Í kjölfar þessarar athugunar skal síðan lögð fram tillaga um evrópsku strandgæsluna, ef við á.
12)          Ef fyrir hendi eru skýrar, hlutlægar vísbendingar um losun sem veldur miklu tjóni eða hættu á miklu tjóni skulu aðildarríkin leggja málið fyrir lögbær yfirvöld sín svo hægt sé að hefja málsmeðferð í samræmi við 220. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1982.
13)          Framfylgd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/59/EB frá 27. nóvember 2000 um móttökuaðstöðu í höfnum fyrir úrgang skipa og farmleifar ( 2 ) er, ásamt þessari tilskipun, lykilstjórntæki í röð ráðstafana til að koma í veg fyrir mengun sem á upptök sín í skipum.
14)          Samþykkja skal nauðsynlegar ráðstafanir til að koma þessari tilskipun í framkvæmd í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 3 ) .
15)          Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiðum þessarar tilskipunar, þ.e. að taka alþjóðlegar viðmiðanir upp í lög Bandalagsins varðandi mengun, sem á upptök sín í skipum, og innleiða viðurlög – refsiviðurlög eða stjórnsýsluviðurlög – við brotum gegn þeim til þess að tryggja öflugt öryggi og umhverfisvernd á sviði sjóflutninga, og þeim verður betur náð á vettvangi Bandalagsins er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna, eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná megi þessum markmiðum.
16)          Tilskipun þessi virðir að öllu leyti sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi. Hverjum einstaklingi, sem grunaður er um hafa framið brot, verður að tryggja réttláta og óhlutdræga málsmeðferð og að viðurlög séu í réttu hlutfalli við brotið.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Markmið

1.     Markmið þessarar tilskipunar er að taka upp í lög Bandalagsins alþjóðlegar viðmiðanir varðandi mengun, sem á upptök sín í skipum, og tryggja að einstaklingar, sem bera ábyrgð á losun, sæti hæfilegum viðurlögum, eins og um getur í 8. gr., til að bæta siglingaöryggi og auka vernd umhverfis sjávar gegn mengun af völdum skipa.
2.     Tilskipun þessi kemur ekki í veg fyrir að aðildarríkin geri strangari ráðstafanir varðandi mengun, sem á upptök sín í skipum, í samræmi við þjóðarétt.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.    „Marpol-samningurinn frá ´73/´78“: alþjóðasamningur frá 1973 um varnir gegn mengun frá skipum eins og honum var breytt með bókun frá 1978 í nýjustu útgáfu,
2.    „mengandi efni“: efni sem falla undir I. viðauka (olía) og II. viðauka (fljótandi eiturefni í lausu) við Marpol-samninginn frá ´73/´78.
3.    „losun“: hvers konar losun frá skipi eins og um getur í 2. gr. Marpol-samningsins frá ´73/´78.
4.    „skip“: hafskip án tillits til þess undir hvaða fána það siglir, af hvaða gerð sem vera skal, sem er starfrækt í umhverfi sjávar, þar á meðal spaðabátar, svifnökkvar, sökkvanleg för og fljótandi för.

3. gr.
Gildissvið

1.     Tilskipun þessi skal gilda, samkvæmt þjóðarétti, um losun mengandi efna:
a)    í innhöfum aðildarríkis, að meðtöldum höfnum, að svo miklu leyti sem reglukerfi Marpol gildir,
b)    í landhelgi aðildarríkis,
c)    í sundum, sem eru notuð til alþjóðlegra siglinga og falla undir reglur um gegnumferð, eins og mælt er fyrir um í 2. þætti, III. hluta hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1982, að því marki sem aðildarríki hefur lögsögu yfir slíkum sundum,
d)    í sérefnahagslögsögu eða hliðstæðri lögsögu aðildarríkis, sem hefur verið skilgreind samkvæmt þjóðarrétti, og
e)    í úthöfunum.
2.     Tilskipun þessi skal gilda um losun mengandi efna frá öllum skipum, án tillits til þess undir hvaða fána þau sigla, að undanskildum hvers konar herskipum, hjálparskipum í flota eða öðrum skipum í ríkiseign eða ríkisrekstri sem um stundarsakir eru nýtt í þágu hins opinbera til annarra nota en í atvinnuskyni.

4. gr.
Brot

Aðildarríki skulu tryggja að litið sé á losun mengandi efna, sem á upptök sín í skipum, á hvers konar svæðum, sem um getur í 1. mgr. 3. gr., sem brot ef þau eru framin af ásetningi, gáleysi eða vegna alvarlegrar vanrækslu. Litið er á þessi brot sem refsiverðan verknað í tengslum við og samkvæmt aðstæðum, sem kveðið er á um í rammaákvörðun 2005/667/DIM, sem er viðbót við þessa tilskipun.

5. gr.
Undantekningar

1.     Ekki skal litið á losun mengandi efna á hvers konar svæðum, sem um getur í 1. mgr. 3. gr., sem brot ef hún uppfyllir skilyrði sem eru sett fram í 9. reglu, 10. reglu eða a- eða c-lið 11. reglu í I. viðauka eða 5. reglu og a- eða c-lið 6. reglu í II. viðauka við Marpol-samninginn frá ´73/´78.
2.     Ekki skal litið á losun mengandi efna á svæðum, sem um getur í c-, d- og e-lið 1. mgr. 3. gr., sem brot af hálfu eiganda, skipstjóra eða áhafnar ef hún fer fram undir stjórn skipstjóra og uppfyllir skilyrði sett fram í b-lið 11. reglu í I. viðauka og b-lið 6. reglu í II. viðauka við Marpol-samninginn frá ´73/´78.

6. gr.
Ráðstafanir til framfylgdar að því er varðar skip í höfn aðildarríkis

1.     Ef frávik eða upplýsingar gefa tilefni til grunsemda um að skip, sem er ótilneytt í höfn eða endastöð undan strönd, hafi losað eða sé að losa mengandi efni á hvers konar svæðum, sem um getur í 1. mgr. 3. gr., skal aðildarríkið tryggja að fram fari nauðsynleg skoðun í samræmi við landslög og með tilliti til viðeigandi viðmiðunarreglna sem Alþjóðasiglingamálastofnunin hefur samþykkt.
2.     Ef skoðunin, sem um getur í 1. mgr., leiðir í ljós staðreyndir sem gætu bent til brots, í skilningi 4. gr., skal upplýsa lögbær yfirvöld aðildarríkisins og fánaríkisins um það.

7. gr.
Framfylgdarráðstafanir strandríkja að því er varðar skip sem eiga leið um lögsögu þeirra

1.     Ef losun mengandi efna, sem grunur leikur á að hafi átt sér stað á svæðum, sem um getur í b-, c-, d- eða e-lið 1. mgr. 3. gr. og skipið, sem ætla má að losunin stafi frá, kemur ekki til hafnar í aðildarríki, sem hefur upplýsingar um ætlaða losun, skal eftirfarandi gilda:
a)    Ef næsta viðkomuhöfn er í öðru aðildarríki skulu hlutaðeigandi aðildarríki vinna náið saman við skoðunina, sem um getur í 1. mgr. 6. gr., og við ákvörðun viðeigandi ráðstafana vegna slíkrar losunar.
b)    Ef næsta viðkomuhöfn er höfn ríkis utan Bandalagsins skal aðildarríkið gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að yfirvald næstu viðkomuhafnar skipsins fái upplýsingar um losunina, sem grunur leikur á um, og fari fram á að ríkið, þar sem viðkomuhöfnin er, geri viðeigandi ráðstafanir vegna slíkrar losunar.
2.     Ef fyrir hendi eru skýrar, hlutlægar vísbendingar um að skip á siglingu á svæðum, sem um getur í b- eða d-lið 1. mgr. 3. gr., hafi framið brot á svæðinu, sem um getur í d-lið 1. mgr. 3. gr., með losun sem olli miklu tjóni eða hættu á miklu tjóni á strandlengju hlutaðeigandi aðildarríkis eða hagsmunum í tengslum við hana eða á hvers konar auðlindum svæðanna, sem um getur í b- eða d-lið 1. mgr. 3. gr., skal viðkomandi ríki, skv. 7. þætti XII. hluta hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1982, að því tilskildu að vísbendingar gefi tilefni til, leggja málið fyrir lögbær yfirvöld svo hægt sé að hefja málsmeðferð, þ.m.t. kyrrsetning skipsins, í samræmi við landslög.
3.     Ávallt skal upplýsa yfirvöld fánaríkisins þar að lútandi.

8. gr.
Viðurlög

1.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að brot, í skilningi 4. gr., varði viðurlög sem eru skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi og kunna að fela í sér refsiviðurlög eða stjórnsýsluviðurlög.
2.     Hvert aðildarríki skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að viðurlögin, sem um getur í 1. mgr., gildi um hvern þann einstakling sem ber ábyrgð á broti í skilningi 4. gr.

9. gr.
Farið að ákvæðum þjóðaréttar:

Aðildarríkin skulu beita ákvæðum þessarar tilskipunar án hvers konar mismununar í orði eða á borði gegn erlendum skipum og í samræmi við gildandi þjóðarétt, þ.m.t. 7. þáttur XII. hluta hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna, og tilkynna fánaríki skips og öllum öðrum hlutaðeigandi ríkjum tafarlaust um ráðstafanir sem gerðar eru í samræmi við þessa tilskipun.

10. gr.
Hliðarráðstafanir

1.     Að því er þessa tilskipun varðar skulu aðildarríkin og framkvæmdastjórnin, eftir því sem við á, eiga náið samstarf við Siglingaöryggisstofnun Evrópu og bregðast við viljandi eða óviljandi mengun sjávar, með hliðsjón af aðgerðaáætluninni, sem komið var á fót með ákvörðun nr. 2850/2000/EB ( 1 ), og ef við á, framkvæmd tilskipunar 2000/59/EB, í því skyni:
a)    að þróa upplýsingakerfi sem eru nauðsynleg fyrir skilvirka framkvæmd þessarar tilskipunar,
b)    að ákvarða sameiginlegar aðgerðir og viðmiðunarreglur á grundvelli þeirra sem gilda á alþjóðavettvangi, einkum að því er varðar:
    –    eftirlit og tímanlega auðkenningu skipa sem losa mengandi efni og er brot á þessari tilskipun, þ.m.t., eftir því sem við á, eftirlitsbúnaður um borð,
    –    áreiðanlegar aðferðir við að rekja mengandi efni í hafi til tiltekins skips og
    –     skilvirka framkvæmd þessarar tilskipunar.
2.     Siglingaöryggisstofnun Evrópu skal í samræmi við verkefni skilgreind í reglugerð (EB) nr. 1406/2002:
a)    vinna með aðildarríkjunum að þróun tæknilegra lausna og veita tækniaðstoð í tengslum við framkvæmd þessarar tilskipunar, t.d. í aðgerðum þar sem losun er rakin með gervihnattavöktun og eftirliti,
b)    aðstoða framkvæmdastjórnina við framkvæmd þessarar tilskipunar, m.a. með því að heimsækja aðildarríkin ef við á, í samræmi við 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1406/2002.

11. gr.
Hagkvæmniathugun

Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en við lok ársins 2006, leggja fyrir Evrópuþingið og ráðið hagkvæmniathugun á evrópskri strandgæslu, sem sinnir mengunarvörnum og bregst við mengun, þar sem tilgreina skal kostnað og ávinning.

12. gr.
Skýrslugjöf

Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni skýrslu á þriggja ára fresti um framkvæmd þessarar tilskipunar af hálfu lögbærra yfirvalda. Framkvæmdastjórnin skal leggja Bandalagsskýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið á grundvelli þessara skýrslna. Framkvæmdastjórnin skal m.a. meta í skýrslunni hvort æskilegt sé að gildissvið þessarar tilskipunar sé endurskoðað eða rýmkað. Hún skal enn fremur lýsa þróun dómaframkvæmdar í aðildarríkjunum og taka til athugunar hvort mögulegt sé að búa til opinberan gagnagrunn þar sem upplýsingar um viðeigandi dómaframkvæmd eru skráðar.

13. gr.
Nefndarmeðferð

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndarinnar um öryggi á höfunum og varnir gegn mengun frá skipum sem komið var á fót með 3. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2099/2002 frá 5. nóvember 2002 ( 1 ) .
2.     Þegar vísað er til þessarar greinar skulu ákvæði 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB gilda með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
Tímabilið, sem mælt er fyrir um í 6. mgr. 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, skal vera einn mánuður.

14. gr.
Tilhögun upplýsingamiðlunar

Framkvæmdastjórnin skal gera nefndinni, sem skipuð var með 4. gr. ákvörðunar nr. 2850/2000/EB, reglulega grein fyrir hvers konar fyrirhuguðum ráðstöfunum og öðrum aðgerðum sem máli skipta varðandi viðbrögð við sjávarmengun.

15. gr.
Málsmeðferð vegna breytinga

Í samræmi við 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 2099/2002 og samkvæmt málsmeðferðinni, sem um getur í 13. gr. þessarar tilskipunar, getur nefnd um öryggi á höfunum og varnir gegn mengun frá skipum undanskilið breytingar á Marpol-samningnum frá ´73/´78 frá gildissviði þessarar tilskipunar.

16. gr.
Framkvæmd

Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 1. apríl 2007 og tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessi ákvæði skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þau eru birt opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

17. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

18. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 7. september 2005.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
J. Borrell Fontelles C. Clarke
forseti. forseti.

VIÐAUKI
Samantekt til viðmiðunar á reglum Marpol-samninginn frá ´73/´78 um losun að því er varðar losun olíu og fljótandi eiturefna sem um getur í 2. mgr. 2. gr.
I. HLUTI: Olía (I. viðauki við Marpol-samninginn frá ´73/´78)

Í skilningi I. viðauka við Marpol-samninginn frá ´73/´78 merkir „olía“ jarðolía, í hvaða formi sem er, þ.m.t. óhreinsuð olía, brennsluolía, sori, olíuúrgangur og hreinsaðar afurðir (aðrar en þær sem eru unnar úr jarðolíu eða jarðgasi sem falla undir ákvæði II. viðauka við Marpol-samninginn frá ´73/´78) og „olíukennd blanda“ merkir hver konar blanda sem inniheldur olíu.
Útdráttur úr viðeigandi ákvæðum I. viðauka við Marpol-samninginn frá ´73/´78:
9. regla: Eftirlit með olíulosun
1.    Í samræmi við ákvæði 10. og 11. reglu í þessum viðauka og 2. liðar þessarar reglu skal hvers konar losun í hafið á olíu eða olíukenndum blöndum frá skipum, sem falla undir þennan viðauka, vera bönnuð nema öll eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
    a)     Að því er varðar olíuflutningaskip, nema kveðið sé á um annað í b-lið þessa liðar:
        i.    tankskipið sé ekki á sérhafsvæði,
        ii.    tankskipið sé lengra en 50 sjómílur frá næsta landi,
        iii.    tankskipið sé á siglingu,
        iv.    losunarhraði blöndu, sem inniheldur olíu, á hverju augnabliki fari ekki yfir 30 lítra á sjómílu,
        v.    heildarmagn, olíu sem losað er í hafið, fari ekki yfir 1/15000 af heildarmagni tiltekins farms, sem leifarnar voru hluti af, sé um að ræða gömul tankskip, og ekki yfir 1/30000 af heildarmagni tiltekins farms, sem leifarnar voru hluti af, ef um ný skip er að ræða og
        vi.    tankskipið noti vöktunar- og eftirlitsbúnað við losun olíu og dreggjargeyma eins og krafist er í 15. reglu í þessum viðauka.
    b)    Að því er varðar losun frá skipum öðrum en olíuflutningaskipum sem eru 400 brúttótonn eða stærri og úr austri í vélarúmi, að undanskildum austri í farmdælurými olíuflutningaskips, nema um sé að ræða blöndu af leifum olíufarms:
        i.    skipið sé ekki á sérhafsvæði,
        ii.     skipið sé á siglingu,
        iii.     olíuinnihald í frárennsli án þynningar fari ekki yfir 15 milljónarhluta og
        iv.    skipið noti búnað (vöktunar-, síunar og eftirlitsbúnað), eins og krafist er í 16. reglu í þessum viðauka.
2.    Að því er varðar skip, sem er 400 brúttótonn eða minna, annað en olíuflutningaskip, þegar það er utan sérhafsvæðis, skulu stjórnvöld (fánaríkis) tryggja, að því marki sem það er unnt og raunhæft, að það hafi uppsettan búnað sem sér til þess að geymsla olíuleifa um borð og losun þeirra í móttökuaðstöðu eða í hafið uppfylli kröfur sem eru settar fram í b-lið 1. liðar þessarar reglu.
3.    […].
4.    Ákvæði 1. liðar þessarar reglu skulu ekki gilda um losun á hreinni eða aðgreindri sjókjölfestu eða óunnum olíukenndum blöndum þar sem olíuinnihald án þynningar fer ekki yfir 15 milljónarhluta, sem eru ekki upprunnar úr austri farmdælurýmis og sem eru ekki heldur blandaðar með leifum af olíufarmi.
5.    Ekki má losa neitt í hafið sem inniheldur íðefni eða önnur efni í magni eða styrk sem er hættulegur fyrir umhverfi sjávar eða íðefni eða önnur efni sem bætt er við til að fara í kringum skilyrði losunar sem tilgreind eru í þessari reglu.
6.    Olíuleifar, sem ekki er hægt að losa í hafið, í samræmi við 1., 2. og 4. lið þessarar reglu, skal geyma um borð eða losa í móttökuaðstöðu.
7.    […].
10. regla: Aðferðir við varnir gegn olíumengun frá skipum sem eru á sérhafsvæðum
1.    Að því er þennan viðauka varðar eru sérhafsvæði Miðjarðarhafssvæðið, Eystrasaltssvæðið, Svartahafssvæðið, Rauðahafssvæðið, „Flóasvæðið“, Aden-flóasvæðið, suðurheimskautssvæðið og hafsvæði Norðvestur-Evrópu (samkvæmt eftirfarandi skilgreiningu og tilgreiningu).
2.    Með fyrirvara um ákvæði 11. reglu í þessum viðauka:
    a)    Hvers konar losun í hafið á olíu eða olíukenndri blöndu frá olíuflutningaskipi eða öðru skipi, sem er 400 brúttótonn eða meira, skal bönnuð á sérhafsvæðum. […],
    b)    […] Hvers konar losun í hafið á olíu eða olíukenndri blöndu frá skipi, öðru en olíuflutningaskipi, sem er minna en 400 brúttótonn, skal bönnuð innan sérhafsvæðis nema olíuinnihald í frárennsli án þynningar fari ekki yfir 15 milljónarhluta.
3.    a)    Ákvæði 2. liðar þessarar reglu skulu ekki gilda um losun á hreinni eða aðgreindri sjókjölfestu.
    b)    Ákvæði a-liðar 2. liðar þessarar reglu skulu ekki gilda um losun á unnu kjölvatni úr vélarúmi, að því tilskildu að öll eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
        i.    kjölvatnið sé ekki upprunnið úr austri í farmdælurými,
        ii.    kjölvatnið sé ekki blandað leifum af olíufarmi,
        iii.    skipið sé á siglingu,
        iv.    olíuinnihald í frárennsli án þynningar fari ekki yfir 15 milljónarhluta,
        v.    skipið noti olíusíubúnað, eins og krafist er í 5. lið 16. reglu í þessum viðauka, og
        vi.    síubúnaðurinn hafi stöðvunarbúnað sem sér til þess að losun hætti sjálfkrafa ef olíuinnihald í frárennsli fer yfir 15 milljónarhluta.
4.    a)    Ekki má losa neitt í hafið sem inniheldur íðefni eða önnur efni í magni eða styrk sem er hættulegur fyrir umhverfi sjávar eða íðefni eða önnur efni sem bætt er við til að fara í kringum skilyrði losunar sem tilgreind eru í þessari reglu.
    b)    Olíuleifar sem ekki er hægt að losa í sjóinn, í samræmi við 2. og 3. gr. þessarar reglu, skal geyma um borð eða losa í móttökuaðstöðu.
5.    Ekkert í þessari reglu bannar skipi á siglingaleið, sem einungis er að hluta til innan sérhafsvæðis, losun utan sérhafsvæðis í samræmi við 9. reglu í þessum viðauka.
7.    […].
8.    […].
9.    […].
11. regla: Undantekningar
Ákvæði 9. og 10. reglu þessa viðauka gilda ekki:
    a)    um losun í hafið á hvers konar olíu eða olíukenndri blöndu sem er nauðsynleg til að tryggja öryggi skipsins eða bjarga mannslífum á sjó eða
    b)    um losun í hafið á hvers konar olíu eða olíukenndri blöndu vegna tjóns á skipi eða búnaði þess:
        i.    að því tilskildu að allar viðunandi varúðarráðstafanir hafi verið gerðar, eftir að tjón varð eða losun uppgötvaðist, í þeim tilgangi að koma í veg fyrir losun eða draga úr henni eins og kostur er og
        ii.    nema eigandinn eða skipstjórinn olli tjóninu af ásetningi eða gáleysi, vitandi að tjón myndi líklega hljótast af eða
    c)    um losun í hafið á efnum, sem innihalda olíu, með samþykki stjórnvalda (fánaríkis), í þeim tilgangi að berjast gegn sérstökum mengunaratvikum til þess að draga úr tjóni af völdum mengunar eins og kostur er; öll slík losun skal fara fram að fengnu samþykki ríkisstjórnar í þeirri lögsögu þar sem ráðgert er að losunin muni eiga sér stað.

II. hluti: Fljótandi eiturefni (II. viðauki við Marpol-samninginn frá '73/'78)

Útdráttur úr viðeigandi ákvæðum II. viðauka við Marpol-samninginn frá '73/'78:
3. regla: Flokkun og upptalning fljótandi eiturefna
1.     Að því er varðar reglur þessa viðauka skal fljótandi eiturefnum skipt í eftirfarandi fjóra flokka:
    a)    Flokkur A: fljótandi eiturefni sem, ef þau væru losuð í hafið, vegna hreinsunar á tönkum eða losunar á sjókjölfestu, myndu hafa í för með sér mikla hættu fyrir auðlindir sjávar eða heilbrigði manna eða valda alvarlegum skaða á eftirsóknarverðum þáttum í umhverfinu eða öðrum réttmætum notum af hafinu og því er réttlætanlegt að beita ströngum ráðstöfunum um mengunarvarnir.
    b)    Flokkur B: fljótandi eiturefni sem, ef þau væru losuð í hafið, vegna hreinsunar á tönkum eða losunar á sjókjölfestu, myndu hafa í för með sér hættu fyrir auðlindir sjávar eða heilbrigði manna eða valda skaða á eftirsóknarverðum þáttum í umhverfinu eða öðrum réttmætum notum af hafinu og því er réttlætanlegt að beita sérstökum ráðstöfunum um mengunarvarnir.
    c)    Flokkur C: fljótandi eiturefni, sem ef þau væru losuð í hafið, vegna hreinsunar á tönkum eða losunar á sjókjölfestu, myndu hafa í för með sér minniháttar hættu fyrir auðlindir sjávar eða heilbrigði manna eða valda minniháttar skaða á eftirsóknarverðum þáttum í umhverfinu eða öðrum réttmætum notum af hafinu og því þarf að uppfylla sérstök skilyrði við meðhöndlun efnanna.
    d)    Flokkur D: fljótandi eiturefni, sem ef þau væru losuð í hafið, vegna hreinsunar á tönkum eða losunar á sjókjölfestu, myndu hafa í för með sér greinanlega hættu fyrir auðlindir sjávar eða heilbrigði manna eða valda minniháttar skaða á eftirsóknarverðum þáttum í umhverfinu eða öðrum réttmætum notum af hafinu og því þarf að huga að skilyrðum í tengslum við meðhöndlun efnanna.
2.    [...].
3.    […].
4.    […].
(Frekari viðmiðunarreglur um flokkun efna, þ.m.t. skrá yfir flokkuð efni, er að finna í 2. til 4. lið í 3. og 4. reglu og viðbætum við II. viðauka Marpol-samninginn frá ´73/´78.)
5. regla: Losun fljótandi eiturefna
Efni í flokki A, B og C utan sérhafsvæða og efni í flokki D á öllum hafsvæðum
Með fyrirvara um ákvæði […] 6. reglu í þessum viðauka:
1.    Losun í hafið á efnum í flokki A, eins og þau eru skilgreind í a-lið 1. liðar 3. reglu í þessum viðauka eða á efnum sem eru metin til bráðabirgða í þeim flokki, eða á kjölfestuvatni, skolvatni úr tönkum eða öðrum leifum eða blöndum sem innihalda slík efni, er bönnuð. Ef skola þarf tanka, sem innihalda slík efni eða blöndur, skal losa tilheyrandi efnaleifar í móttökuaðstöðu þar til styrkur efnis í frárennsli til slíkrar móttöku er 0,1% eða lægri, miðað við þyngd, og þar til tankurinn er tómur, að hvítu eða gulu fosfóri undanskildu en styrkur efnaleifa þess skal vera 0,01% miðað við þyngd eða lægri. Losun í hafið á hvers konar vatni, sem síðar er bætt í tankinn, er leyfileg ef öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
    a)    skipið er á siglingu á a.m.k. 7 hnúta hraða, ef um er að ræða skip knúin með eigin vélarafli, og a.m.k. 4 hnúta hraða ef um er að ræða skip sem ekki eru knúin með eigin vélarafli.
    b)    losunin fer fram fyrir neðan sjólínu, að teknu tilliti til staðsetningar sjóinntaks og
    c)    losunin fer fram í fjarlægð sem ekki er minni en 12 sjómílur frá næsta landi og þar sem dýpi er ekki minna en 25 metrar.
2.    Losun í hafið á efnum í flokki B, eins og þau eru skilgreind í b-lið 1. mgr. 3. reglu í þessum viðauka eða á efnum sem eru metin til bráðabirgða í þeim flokki eða á kjölfestuvatni, skolvatni úr tönkum eða öðrum leifum eða blöndum sem innihalda slík efni, er bönnuð nema öll eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
    a)    skipið er á siglingu á a.m.k. 7 hnúta hraða, ef um er að ræða skip knúin með eigin vélarafli, og a.m.k. 4 hnúta hraða ef um er að ræða skip sem ekki eru knúin með eigin vélarafli.
    b)    verklagsreglur og fyrirkomulag losunar eru samþykktar af hálfu stjórnvalda (fánaríkis); slíkar verklagsreglur og fyrirkomulag skulu byggjast á viðmiðunum, sem Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO) hefur þróað, og tryggja að styrkur og losunarhraði frárennslis í kjölfari skips fari ekki yfir 1 milljónarhluta,
    c)    hámarksmagn farms, sem losað er úr hverjum tanki og tengdu lagnakerfi, fer ekki yfir hámarksmagn, sem samþykkt er í samræmi við aðferðir, sem um getur í b-lið þessa liðar, og má aldrei vera meira en 1 m 3 eða 1/3000 af rúmtaki tanks í 1 m 3,
    d)    losunin fer fram fyrir neðan sjólínu, að teknu tilliti til staðsetningar sjóinntaks og
    e)    losunin fer fram í fjarlægð, sem ekki er minni en 12 sjómílur frá næsta landi, og þar sem dýpi er ekki minna en 25 metrar.
3.    Losun í hafið á efnum í flokki C, eins og þau eru skilgreind í c-lið 1. liðar 3. reglu í þessum viðauka eða á efnum, sem eru metin til bráðabirgða í þeim flokki, eða á kjölfestuvatni, skolvatni úr tönkum eða öðrum leifum eða blöndum, sem innihalda slík efni, er bönnuð nema öll eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
    a)    skipið er á siglingu á a.m.k. 7 hnúta hraða, ef um er að ræða skip knúin með eigin vélarafli, og a.m.k. 4 hnúta hraða ef um er að ræða skip sem ekki eru knúin með eigin vélarafli.
    b)    verklagsreglur og fyrirkomulag losunar eru samþykktar af hálfu stjórnvalda (fánaríkis); slíkar verklagsreglur og fyrirkomulag skulu byggjast á viðmiðunum, sem Alþjóðasiglingamálastofnunin hefur þróað, og tryggja að styrkur og losunarhraði frárennslis í kjölfari skips fari ekki yfir 10 milljónarhluta,
    c)    hámarksmagn farms, sem losað er úr hverjum tanki og tengdu lagnakerfi, fer ekki yfir hámarksmagn, sem samþykkt er í samræmi við aðferðir, sem um getur í b-lið þessa liðar, og má aldrei vera meira en 1 m 3 eða 3/1000 af rúmtaki tanks í 1 m 3,
    d)    losunin fer fram fyrir neðan sjólínu, að teknu tilliti til staðsetningar sjóinntaks og
    e)    losunin fer fram í fjarlægð, sem ekki er minni en 12 sjómílur frá næsta landi, og þar sem dýpi er ekki minna en 25 metrar.
4.    Losun í hafið á efnum í flokki D, eins og þau eru skilgreind í d-lið 1. liðar 3. reglu í þessum viðauka eða á efnum, sem eru metin til bráðabirgða í þeim flokki, eða á kjölfestuvatni, skolvatni úr tönkum eða öðrum leifum eða blöndum, sem innihalda slík efni, er bönnuð nema öll eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
    a)    skipið er á siglingu á a.m.k. 7 hnúta hraða, ef um er að ræða skip knúin með eigin vélarafli, og a.m.k. 4 hnúta hraða ef um er að ræða skip sem ekki eru knúin með eigin vélarafli.
    b)    styrkur slíkra blanda er ekki meiri en einn hluti efnisins í tíu hlutum vatns og
    c)    losunin fer fram í fjarlægð sem ekki er minni en 12 sjómílur frá næsta landi.
5.    Heimilt er að nota loftræstiaðferðir, sem stjórnvöld (fánaríkis) hafa samþykkt, til þess að fjarlægja farmleifar úr tanki. Slíkar verklagsreglur skulu byggjast á viðmiðunum sem Alþjóðasiglingamálastofnunin hefur þróað. Litið er svo á að vatn, sem sett er á tankinn síðar, sé hreint og falli ekki undir 1., 2., 3. eða 4. lið. þessarar reglu.
6.    Losun í hafið á efnum, sem ekki hafa verið flokkuð, metin til bráðabirgða eða áætlun gerð um þau, eins og um getur í 1. lið 4. reglu þessa viðauka, eða á kjölfestuvatni, skolvatni úr tönkum, eða öðrum leifum eða blöndum sem innihalda slík efni, er bönnuð.
Efni í flokki A, B og C á sérhafsvæðum (samkvæmt skilgreiningu í 1. reglu II. viðauka við Marpol-samninginn frá ´73/´78, að Eystrasalti meðtöldu)
Með fyrirvara um ákvæði […] 6. reglu í þessum viðauka:
7.    Losun í hafið á efnum í flokki A, eins og þau eru skilgreind í a-lið 1. liðar 3. reglu í þessum viðauka eða á efnum, sem eru metin til bráðabirgða í þeim flokki, eða á kjölfestuvatni, skolvatni úr tönkum eða öðrum leifum eða blöndum sem innihalda slík efni, er bönnuð. Ef hreinsa þarf tanka, sem innihalda slík efni eða blöndur, skal losa tilheyrandi efnaleifar í móttökuaðstöðu, sem ríki, sem eiga landamæri að sérhafsvæði, skulu koma á fót í samræmi við 7. reglu, þar til styrkur efnis í frárennsli til slíkrar móttöku er 0,05% eða lægri, miðað við þyngd, og þar til tankurinn er tómur, að hvítu eða gulu fosfóri undanskildu, en styrkur efnaleifa þess skal vera 0,005% miðað við þyngd eða lægri. Losun í hafið á hvers konar vatni, sem síðar er bætt í tankinn, er leyfileg ef öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
    a)    skipið er á siglingu á a.m.k. 7 hnúta hraða, ef um er að ræða skip knúin með eigin vélarafli, og a.m.k. 4 hnúta hraða ef um er að ræða skip sem ekki eru knúin með eigin vélarafli.
    b)    losunin fer fram fyrir neðan sjólínu, að teknu tilliti til staðsetningar sjóinntaks og
    c)    losunin fer fram í fjarlægð, sem ekki er minni en 12 sjómílur frá næsta landi, og þar sem dýpi er ekki minna en 25 metrar.
8.    Losun í hafið á efnum í flokki B, eins og þau eru skilgreind í b-lið 1. liðar 3. reglu í þessum viðauka eða á efnum, sem eru metin til bráðabirgða í þeim flokki, eða á kjölfestuvatni, skolvatni úr tönkum eða öðrum leifum eða blöndum, sem innihalda slík efni, er bönnuð nema öll eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
    a)    tankurinn hefur verið skolaður áður í samræmi við verklagsreglur, samþykktar af stjórnvöldum (fánaríkis), sem byggjast á viðmiðunum sem Alþjóðasiglingamálastofnunin hefur þróað, og skolvatn, sem kemur frá tankinum, er losað í móttökuaðstöðu,
    b)    skipið er á siglingu á a.m.k. 7 hnúta hraða, ef um er að ræða skip knúin með eigin vélarafli, og a.m.k. 4 hnúta hraða ef um er að ræða skip sem ekki eru knúin með eigin vélarafli.
    c)    verklagsreglur og fyrirkomulag losunar og meðferðar skolvatns séu samþykktar af stjórnvöldum (fánaríkis); slíkar verklagsreglur og fyrirkomulag skulu byggjast á viðmiðunum, sem Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO) hefur þróað, og tryggja að styrkur og losunarhraði frárennslis í kjölfari skips fari ekki yfir 1 milljónarhluta,
    d)    losunin fer fram fyrir neðan sjólínu, að teknu tilliti til staðsetningar sjóinntaks og
    e)    losunin fer fram í fjarlægð, sem ekki er minni en 12 sjómílur frá næsta landi, og þar sem dýpi er ekki minna en 25 metrar.
9.    Losun í hafið á efnum í flokki C, eins og þau eru skilgreind í c-lið 1. liðar 3. reglu í þessum viðauka eða á efnum, sem eru metin til bráðabirgða í þeim flokki, eða á kjölfestuvatni, skolvatni úr tönkum eða öðrum leifum eða blöndum, sem innihalda slík efni, er bönnuð nema öll eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
    a)    skipið er á siglingu á a.m.k. 7 hnúta hraða, ef um er að ræða skip knúin með eigin vélarafli, og a.m.k. 4 hnúta hraða ef um er að ræða skip sem ekki eru knúin með eigin vélarafli.
    b)    verklagsreglur og fyrirkomulag losunar eru samþykktar af hálfu stjórnvalda (fánaríkis); slíkar verklagsreglur og fyrirkomulag skulu byggjast á viðmiðunum, sem Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO) hefur þróað, og tryggja að styrkur og losunarhraði frárennslis í kjölfari skips fari ekki yfir 1 milljónarhluta,
    c)    hámarksmagn farms, sem losað er úr hverjum tanki og tengdu lagnakerfi, fari ekki yfir hámarksmagn, sem samþykkt er í samræmi við verklagsreglur, sem um getur í b-lið þessa liðar, og má aldrei vera meira en 1 m 3 eða 1/3000 af rúmtaki tanks í 1 m 3.
    d)    losunin fer fram fyrir neðan sjólínu, að teknu tilliti til staðsetningar sjóinntaks og
    e)    losunin fer fram í fjarlægð, sem ekki er minni en 12 sjómílur frá næsta landi, og þar sem dýpi er ekki minna en 25 metrar.
10.    Heimilt er að nota loftræstiaðferðir, sem stjórnvöld (fánaríkis) hafa samþykkt, til þess að fjarlægja farmleifar úr tanki. Slíkar verklagsreglur skulu byggjast á viðmiðunum sem Alþjóðasiglingamálastofnunin hefur þróað. Litið er svo á að vatn, sem sett er á tankinn síðar, sé hreint og falli ekki undir 7., 8. eða 9. lið þessarar reglu.
11.    Losun í hafið á efnum sem ekki hafa verið flokkuð, metin til bráðabirgða eða áætlun gerð um þau, eins og um getur í 1. lið 4. reglu þessa viðauka, eða á kjölfestuvatni, skolvatni úr tönkum, eða öðrum leifum eða blöndum, sem innihalda slík efni, er bönnuð.
12.    Ekkert í þessari reglu bannar að skip geymi um borð leifar af farmi í flokki B eða C og losi slíkar leifar í hafið utan sérhafsvæðis, í samræmi við 2. eða 3. lið þessarar reglu, eftir því sem við á.
6. regla: Undantekningar
Ákvæði 5. reglu þessa viðauka skulu ekki gilda:
a)    um losun í hafið á fljótandi eiturefnum eða blöndum, sem innihalda slík efni, sem er nauðsynleg til að tryggja öryggi skips eða bjarga mannslífum á sjó eða
b)    um losun í hafið á fljótandi eiturefnum eða blöndum, sem innihalda slík efni, vegna tjóns á skipi eða búnaði þess:
    i.    að því tilskildu að allar viðunandi varúðarráðstafanir hafi verið gerðar, eftir að tjón varð eða losun uppgötvaðist, í þeim tilgangi að koma í veg fyrir losun eða draga úr henni eins og kostur er og
    ii.    nema eigandinn eða skipstjórinn olli tjóninu af ásetningi eða gáleysi, vitandi að tjón myndi líklega hljótast af eða
c)    losun í hafið á fljótandi eiturefnum eða blöndum, sem innihalda slík efni, með samþykki stjórnvalda (fánaríkis), ef notkunin er í þeim tilgangi að berjast gegn sérstökum mengunaratvikum til þess að draga úr tjóni af völdum mengunar eins og kostur er. Öll slík losun skal vera að fengnu samþykki ríkisstjórnar í þeirri lögsögu þar sem ráðgert er að losunin muni eiga sér stað.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 162, 25.6.2009, bls. 31, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 33, 25.6.2009, bls. 19.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 255, 30.9.2005, bls. 11.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. ESB C 220, 16.9.2003, bls. 72.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Álit Evrópuþingsins frá 13. janúar 2004 (Stjtíð. ESB C 92 E, 16.4.2004, bls. 77), sameiginleg afstaða ráðsins frá 7. október 2004 (Stjtíð. ESB C 25 E, 1.2.2005, bls. 29), afstaða Evrópuþingsins frá 23. febrúar 2005 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 12. júlí 2005.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Stjtíð. ESB L 255, 30.9.2005, bls. 164.
Neðanmálsgrein: 7
(1)    Stjtíð. EB L 208, 5.8.2002, bls. 1. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 724/2004 (Stjtíð. EB L 129, 29.4.2004, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 8
(2)    Stjtíð. EB L 332, 28.12.2000, bls. 81. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 2002/84/EB (Stjtíð. EB L 324, 29.11.2002, bls. 53).
Neðanmálsgrein: 9
(3)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 10
(1)    Ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2850/2000/EB frá 20. desember 2000 um að setja ramma um samstarf innan Bandalagsins varðandi viljandi eða óviljandi mengun sjávar (Stjtíð. EB L 332, 28.12.2000, bls. 1). Ákvörðuninni var breytt með ákvörðun nr. 787/2004/EB (Stjtíð. ESB L 138, 30.4.2004, bls. 12).
Neðanmálsgrein: 11
(1)    Stjtíð. EB L 324, 29.11.2002, bls. 1. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 415/2004 (Stjtíð. EB L 68, 6.3.2004, bls. 10).