Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 465. máls.

Þingskjal 599  —  465. mál.


Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 200/2012 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 200/2012, frá 26. október 2012, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 66/2010, frá 25. nóvember 2009, um umhverfismerki ESB.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 200/2012, frá 26. október 2012, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 66/2010, frá 25. nóvember 2009, um umhverfismerki ESB.
    Með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 66/2010 er kveðið á um stofnun og notkun á valfrjálsu umhverfismerkjakerfi Evrópusambandsins og lýst þeim kröfum sem þarf að uppfylla vegna notkunar umhverfismerkis sambandsins.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 66/2010, frá 25. nóvember 2009, um umhverfismerki ESB.
    Reglugerðin kveður á um stofnun og notkun á valfrjálsu umhverfismerkjakerfi Evrópusambandsins. Reglugerðin kemur í stað reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1980/2000, um sama efni. Fram kemur að reynslan sem fengist hefur af framkvæmd þeirrar reglugerðar hafi sýnt að þörf væri á að breyta kerfinu um veitingu umhverfismerkja í því skyni að auka skilvirkni og hagræða í rekstri þess.
    Í aðfaraorðum reglugerðarinnar er tekið fram að markmið kerfisins sé að hvetja til notkunar vara, sem eru afar vistvænar, með því að nota umhverfismerki ESB. Það er gert með því að heimila notkun umhverfismerkis sambandsins á vörur, sem settar eru til dreifingar, neyslu eða notkunar á markaði sambandsins, er teljast afar vistvænar.
    Í reglugerðinni eru settar almennar kröfur um þær viðmiðanir um vistvænleika vara sem gilda skulu vegna notkunar umhverfismerkisins. Ákvarða skal viðmiðanirnar á vísindalegum grundvelli, að teknu tilliti til alls vistferils vara. Meðal annars skal líta til áhrifa vöru á loftslagsbreytingar, á náttúruna og á líffræðilegan fjölbreytileika, orku- og auðlindanýtingu, myndun úrgangs og losun hættulegra efna. Tillögugerð og endanlegt ákvörðunarvald varðandi setningu einstakra viðmiðana er í höndum framkvæmdastjórnarinnar.
    Kveðið er á um það í reglugerðinni að hvert aðildarríki skuli tilnefna einn eða fleiri aðila sem annist í viðkomandi ríki þau verkefni sem kveðið er á um í reglugerðinni, þ.m.t. að taka afstöðu til umsókna einstakra rekstraraðila (svo sem framleiðanda eða innflytjanda) og hafa eftirlit með að vörur sem fengið hafa umhverfismerkið uppfylli skilyrði reglugerðarinnar. Hér á landi er þetta verkefni í höndum Umhverfisstofnunar. Í reglugerðinni er kveðið nánar á um fyrirkomulag varðandi umsóknir og veitingu umhverfismerkisins, sem og nánari skilyrði fyrir notkun þess og gjaldtöku í tengslum við afgreiðslu umsókna um veitingu merkisins. Þá er kveðið á um í reglugerðinni að öll notkun merkisins eða auglýsing vöru og/eða þjónustu sem gefi til kynna að umhverfismerki hafi verið veitt án þess að formleg viðurkenning þess efnis liggi fyrir sé óheimil.
    Í reglugerðinni er enn fremur kveðið á um að framkvæmdastjórnin skuli koma á fót umhverfismerkinganefnd sem samanstandi af þeim aðilum sem tilnefndir hafa verið sem ábyrgðaraðilar í einstökum ríkjum, ásamt öðrum hagsmunaaðilum. Umhverfismerkinganefndin skal taka þátt í þróun og endurskoðun viðmiðananna fyrir umhverfismerkið og vera framkvæmdastjórninni til ráðgjafar varðandi hvers konar endurskoðun á framkvæmd umhverfismerkjakerfisins.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing reglugerðar (EB) nr. 66/2010 kallar á setningu löggjafar hér á landi um umhverfismerkjakerfið og notkun umhverfismerkja hér á landi. Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, til innleiðingar á ákvæðum reglugerðarinnar (þskj. 320, 287. mál). Ekki er gert ráð fyrir því að verulegur fjárhagslegur eða stjórnsýslulegur kostnaður hljótist af innleiðingu reglugerðarinnar hér á landi, enda er kveðið á um það í reglugerðinni að umsýslukostnaður verði innheimtur í tengslum við afgreiðslu umsókna um heimildir til notkunar umhverfismerkisins.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 200/2012

frá 26. október 2012

um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „EES-samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         Fella ber inn í EES-samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 66/2010 frá 25. nóvember 2009 um umhverfismerki ESB ( 1 ), sbr. leiðréttingar sem birtust í Stjtíð. ESB L 108, 29.4.2010, bls. 355.

2)         Samkvæmt ákvæðum reglugerðar (EB) nr. 66/2010 fellur úr gildi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1980/2000 ( 2 ), en sú gerð hefur verið felld inn í EES-samninginn og ber því að fella hana úr EES-samningnum.

3)         XX. viðauki við EES-samninginn breytist því í samræmi við það.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Texti liðar 2a (reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1980/2000) í XX. viðauka við EES-samninginn hljóði svo:

32010 R 0066: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 66/2010 frá 25. nóvember 2009 um umhverfismerki ESB (Stjtíð. ESB L 27, 30.1.2010, bls. 1), sbr. leiðréttingar sem birtust í Stjtíð. ESB L 108, 29.4.2010, bls. 355.“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti reglugerðar (EB) nr. 66/2010, sbr. leiðréttingar sem birtust í Stjtíð. ESB L 108, 29.4.2010, bls. 355, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 1. nóvember 2012, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 26. október 2012.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar

Atle Leikvoll

formaður.


Fylgiskjal II.


REGLUGERÐ EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS (EB) nr. 66/2010
frá 25. nóvember 2009
um umhverfismerki ESB

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 175. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópusambandsins ( 1 ),
með hliðsjón af áliti svæðanefndarinnar ( 2 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Markmið reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1980/2000 frá 17. júlí 2000 um endurskoðað kerfi um veitingu umhverfismerkis Bandalagsins ( 4 ) var að koma á fót valfrjálsu kerfi um veitingu umhverfismerkis til að koma á framfæri vörum sem hafa lítil umhverfisáhrif á öllum vistferli sínum og veita neytendum upplýsingar um umhverfisáhrif vara sem eru nákvæmar, ekki villandi og byggðar á vísindalegum grunni.
2)          Reynslan, sem fengist hefur af framkvæmd reglugerðar (EB) nr. 1980/2000, hefur sýnt að þörf er á að breyta kerfinu um veitingu umhverfismerkja í því skyni að auka skilvirkni og hagræða í rekstri þess.
3)          Breytta kerfið (hér á eftir nefnt „kerfið um veitingu umhverfismerkis ESB“) skal framkvæmt í samræmi við ákvæði sáttmálanna, einkum varúðarregluna sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 174. gr. stofnsáttmála Evrópubandalaganna.
4)          Nauðsynlegt er að tryggja samræmingu milli kerfisins um veitingu umhverfismerkis ESB og fastsetningu krafnanna í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/125/EB frá 21. október 2009 um ramma til að setja fram kröfur varðandi visthönnun að því er varðar orkutengdar vörur ( 5 ).
5)          Kerfið um veitingu umhverfismerkis ESB er hluti af stefnu Bandalagsins varðandi sjálfbæra neyslu og framleiðslu, sem miðar að því að draga úr neikvæðum áhrifum neyslu og framleiðslu á umhverfið, heilbrigði, loftslag og náttúruauðlindir. Markmið kerfisins er að hvetja til notkunar vara, sem eru afar vistvænar, með því að nota umhverfismerki ESB. Því þykir rétt að krefjast þess að viðmiðanirnar, sem vörur þurfa að uppfylla til að mega bera umhverfismerki ESB, byggi á mesta vistvænleika sem náðst hefur með tilliti til vara á markaði Bandalagsins. Þessar viðmiðanir skulu vera auðskildar og auðveldar í beitingu og byggja á vísindaþekkingu, með hliðsjón af nýjustu tækniþróun. Viðmiðanirnar skulu miðast við þarfir markaðarins og takmarkast við mikilvægustu umhverfisáhrif varanna á öllum vistferli þeirra.
6)          Til að draga úr fjölda kerfa til umhverfismerkinga og til að hvetja til meiri vistvænleika í öllum geirum, þar sem umhverfisáhrif eru þáttur í vali neytenda, skal rýmka möguleikann á því að nota umhverfismerki ESB. Að því er varðar matvæla- og fóðurvöruflokka skal gera rannsókn til að tryggja að viðmiðanirnar séu framkvæmanlegar og að tryggja megi virðisauka. Að því er varðar matvæli og fóðurvörur, ásamt óunnum landbúnaðarvörum sem falla undir gildissvið reglugerðar ráðsins (EB) nr. 834/ 2007 frá 28. júní 2007 um lífræna framleiðslu og merkingu lífrænna vara ( 6 ), skal taka til athugunar þann möguleika að einungis vörur sem vottaðar eru sem lífrænar geti fengið umhverfismerki ESB, til að forðast rugling meðal neytenda.
7)          Markmiðið með umhverfismerki ESB skal vera að skipta hættulegum efnum út fyrir öruggari efni, þar sem það er tæknilega mögulegt.
8)          Til þess að kerfið um veitingu umhverfismerkis ESB öðlist viðurkenningu almennings er nauðsynlegt að frjáls félagasamtök á sviði umhverfismála og neytendasamtök hafi mikilvægu hlutverki að gegna að því er varðar þróun og setningu viðmiðana fyrir umhverfismerki ESB.
9)          Æskilegt er að hvaða hagsmunaaðili sem er geti stjórnað þróun eða endurskoðun viðmiðana fyrir umhverfismerki ESB, að því tilskildu að sameiginlegum verklagsreglum sé fylgt og að framkvæmdastjórnin samræmi ferlið. Til að tryggja heildarsamræmi í aðgerðum Bandalagsins er einnig rétt að krefjast þess að tekið sé tillit til nýjustu stefnumótandi markmiða Bandalagsins á sviði umhverfismála, t.d. aðgerðaáætlana á sviði umhverfismála, áætlana um sjálfbæra þróun og áætlana um loftslagsbreytingar, við þróun eða endurskoðun viðmiðana fyrir umhverfismerki ESB.
10)          Til að einfalda kerfið um veitingu umhverfismerkis ESB og draga úr stjórnsýslubyrði í tengslum við notkun umhverfismerkis ESB skal einfalda mats- og sannprófunaraðferðirnar.
11)          Rétt þykir að kveða á um skilyrði fyrir notkun umhverfismerkis ESB og til að tryggja að farið sé að þeim skilyrðum skal krefjast þess af þar til bærum aðilum að þeir framkvæmi sannprófanir og banna notkun umhverfismerkis ESB þegar ekki er farið að skilyrðunum fyrir notkun. Einnig þykir rétt að krefjast þess af aðildarríkjunum að þau mæli fyrir um reglur um viðurlög við brotum á þessari reglugerð og tryggi að þeim sé framfylgt.
12)          Til að auka notkun umhverfismerkis ESB og til að hvetja aðila með vörur sem standast viðmiðanirnar um umhverfismerki ESB skal lækka kostnaðinn í tengslum við notkun umhverfismerkis ESB.
13)          Nauðsynlegt er að upplýsa almenning og auka almenningsvitund um umhverfismerki ESB með kynningar-, upplýsinga- og fræðsluátaki, á stað- eða landsbundin hátt eða á vettvangi Bandalagsins, til að vekja athygli neytenda á merkingu umhverfismerkis ESB og gera þeim kleift að taka upplýstar ákvarðanir. Það er einnig nauðsynlegt til að gera kerfið álitlegra í augum framleiðenda og smásala.
14)          Aðildarríkin skulu hafa hliðsjón af leiðbeiningum þegar þau koma á fót landsbundnum aðgerðaáætlunum sínum um umhverfisvæn opinber innkaup og geta tekið til athugunar að setja markmið um opinber innkaup á umhverfisvænum vörum.
15)          Til að auðvelda setningu vara með umhverfismerki á markað á landsbundnum vettvangi og á vettvangi Bandalagsins, takmarka aukalega vinnu fyrir fyrirtæki, einkum lítil og meðalstór fyrirtæki, og til að forðast að villa um fyrir neytendum er einnig nauðsynlegt að auka samfellu og stuðla að samræmingu milli kerfisins um veitingu umhverfismerkis ESB og landsbundinna kerfa um veitingu umhverfismerkja innan Bandalagsins.
16)          Til að tryggja samræmda beitingu kerfisins um veitingu umhverfismerkis ESB og eftirlit með markaðinum og notkun umhverfismerkis ESB í gervöllu Bandalaginu skulu þar til bærir aðilar skiptast á upplýsingum og reynslu.
17)          Nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari reglugerð skulu samþykktar í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 1 ).
18)          Einkum skal framkvæmdastjórnin hafa vald til að fastsetja þær viðmiðanir sem vörur skulu standast til að mega bera umhverfismerki ESB og til að breyta viðaukunum við þessa reglugerð. Þar sem þessar ráðstafanir eru almenns eðlis og þeim er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar reglugerðar, m.a. með því að bæta við hana nýjum, veigalitlum þáttum, skulu þær samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferðina með grannskoðun sem kveðið er á um í 5. gr. a í ákvörðun 1999/468/ EB.
19)          Til glöggvunar og í þágu réttarvissu skal þessi reglugerð því koma í stað reglugerðar (EB) nr. 1980/2000.
20)          Kveða skal á um viðeigandi umbreytingarákvæði til að tryggja að umbreytingin milli reglugerðar (EB) nr. 1980/2000 og þessarar reglugerðar gangi snurðulaust fyrir sig.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:

1. gr.
Efni

Í þessari reglugerð er mælt fyrir um reglur varðandi stofnun valfrjálsa kerfisins um veitingu umhverfismerkis ESB og beitingu þess.

2. gr.
Gildissvið

1.     Reglugerðin skal gilda um allar vörur og þjónustu sem látin er í té til dreifingar, neyslu eða notkunar á markaði Bandalagsins, hvort sem er gegn gjaldi eða án endurgjalds (hér eftir nefndar „vörur“).
2.     Þessi reglugerð skal hvorki gilda um lyf sem ætluð eru mönnum, eins og skilgreint er í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/83/EB frá 6. nóvember 2001 um Bandalagsreglur um lyf sem ætluð eru mönnum ( 1 ), dýralyf, eins og skilgreint er í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/82/EB frá 6. nóvember 2001 um Bandalagsreglur um dýralyf ( 2 ) né um nokkurs konar lækningatæki.

3. gr.
Skilgreiningar

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.    „vöruflokkur“: flokkur vara sem þjóna svipuðum tilgangi og eru svipaðar að því er varðar notkun, eða búa yfir svipuðum starfseiginleikum og eru svipaðar að mati neytenda,
2.    „rekstraraðili“: hvers konar framleiðandi, innflytjandi, þjónustuveitandi, heildsali eða smásali,
3.    „umhverfisáhrif“: allar breytingar á umhverfinu sem eru að öllu leyti eða að hluta til af völdum vöru á vistferli hennar,
4.    „vistvænleiki“: afrakstur stjórnunar framleiðanda á þeim eiginleikum vöru sem hafa umhverfisáhrif í för með sér,
5.    „sannprófun“: ferli til vottunar á því að vara samræmist tilgreindu viðmiðunum um umhverfismerki ESB.

4. gr.
Þar til bærir aðilar

1.     Hvert aðildarríki skal tilnefna einn eða fleiri aðila, innan eða utan ráðuneyta, sem bera ábyrgð á að vinna verkefnin sem kveðið er á um í þessari reglugerð („þar til bæri aðilinn“ eða „þar til bæru aðilarnir“) og tryggja að þeir séu starfhæfir. Þar sem fleiri en einn þar til bær aðili er tilnefndur skal aðildarríkið ákvarða völd hvers aðila fyrir sig og kröfur um samræmingu sem eiga við um þá.
2.     Samsetning þar til bæru aðilanna skal vera þannig að hún tryggi að þeir séu óháðir og hlutlausir og starfsreglur þeirra skulu vera þannig að þær tryggi gagnsæi við starfsemi þeirra og einnig með tilliti til þátttöku allra hagsmunaaðila.
3.     Aðildarríkin skulu tryggja að þar til bæru aðilarnir uppfylli kröfurnar sem mælt er fyrir um í V. viðauka.
4.     Þar til bæru aðilarnir skulu tryggja að sannprófunarferlið fari fram á samræmdan, hlutlausan og áreiðanlegan hátt og sé framkvæmt af aðila sem er óháður rekstraraðilanum sem verið er að sannprófa, á grundvelli alþjóðlegra, evrópskra eða landsbundinna staðla og ferla sem gilda um aðila sem sjá um að votta vörur.

5. gr.
Umhverfismerkinganefnd Evrópusambandsins

1.     Framkvæmdastjórnin skal koma á fót umhverfismerkinganefnd Evrópusambandsins (hér á eftir nefnd „umhverfismerkinganefndin“) sem skal samanstanda af fulltrúum þar til bærra aðila allra aðildarríkjanna, eins og um getur í 4. gr., og öðrum hagsmunaaðilum. Umhverfismerkinganefndin skal kjósa sér formann samkvæmt verklagsreglum sínum. Hún skal taka þátt í þróun og endurskoðun viðmiðananna fyrir umhverfismerki ESB og hvers konar endurskoðun á framkvæmd kerfisins um veitingu umhverfismerkis ESB. Hún skal einnig láta framkvæmdastjórninni í té ráð og aðstoð á þessum sviðum og einkum gefa út ráðleggingar um lágmarkskröfur varðandi vistvænleika.
2.     Framkvæmdastjórnin skal sjá til þess að í störfum sínum tryggi umhverfismerkinganefndin jafna þátttöku allra hagsmunaaðila með tilliti til hvers vöruflokks, t.d. þar til bærra aðila, framleiðenda, innflytjenda, þjónustuveitenda, heildsala, smásala, einkum lítilla og meðalstórra fyrirtækja, og umhverfisverndar- og neytendasamtaka.

6. gr.
Almennar kröfur um viðmiðanir fyrir umhverfismerki ESB

1.     Viðmiðanirnar fyrir umhverfismerki ESB skulu byggja á vistvænleika varanna, með tilliti til nýjustu stefnumótandi markmiða Bandalagsins á sviði umhverfismála.
2.     Með viðmiðununum fyrir umhverfismerki ESB skal setja fram umhverfiskröfurnar sem vara þarf að uppfylla til að mega bera umhverfismerki ESB.
3.     Ákvarða skal viðmiðanirnar fyrir umhverfismerki ESB á vísindalegum grundvelli, að teknu tilliti til alls vistferils vara. Við ákvörðun þessara viðmiðana skal taka eftirfarandi til athugunar:
a)    mikilvægustu umhverfisáhrifin, einkum áhrifin á loftslagsbreytingar, áhrifin á náttúruna og líffræðilega fjölbreytni, orku- og auðlindanýtingu, myndun úrgangs, losun til allra hluta umhverfisins, mengun vegna eðlisfræðilegra áhrifa og notkun og losun hættulegra efna,
b)    möguleikann á því að skipta út hættulegum efnum fyrir öruggari efni, annaðhvort sem slík eða með notkun staðgönguefna eða með breyttri hönnun, þar sem það er tæknilega mögulegt,
c)    möguleikann á því að draga úr umhverfisáhrifum með því að bæta endingartíma og endurnotanleika vara,
d)    hreinan mismun á ávinningi og byrði fyrir umhverfið, þ.m.t. heilbrigðis- og öryggisþættir, á hinum ýmsu stigum vistferils varanna,
e)    þegar við á, félagslega og siðferðilega þætti, t.d. með tilvísun til viðkomandi alþjóðlegra sáttmála og samninga eins og viðkomandi staðla og siðareglna Alþjóðavinnumálastofnunarinnar,
f)    viðmiðanir sem komið er á fót fyrir önnur umhverfismerki, einkum umhverfismerki af gerð I samkvæmt EN ISO 14024, sem eru opinberlega viðurkennd, lands- eða svæðisbundið, og eru til fyrir viðkomandi vöruflokk til að bæta samvirkni,
g)    eins framarlega og unnt er, það markmið að draga úr prófunum á dýrum.
4.      Viðmiðanirnar fyrir umhverfismerki ESB skulu fela í sér kröfur sem ætlað er að tryggja að vörurnar, sem bera umhverfismerkið, reynist fullnægjandi í samræmi við fyrirhugaða notkun þeirra.
5.      Áður en framkvæmdastjórnin þróar viðmiðanir fyrir umhverfismerki ESB að því er varðar matvæli og fóðurvörur, eins og skilgreint er í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002 frá 28. janúar 2002 um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla ( 1 ), skal hún gera rannsókn, í síðasta lagi 31. desember 2011, þar sem könnuð er hagkvæmni þess að koma á fót áreiðanlegum viðmiðunum varðandi vistvænleika á öllum vistferli slíkra vara, þ.m.t. fisk- og lagareldisafurðir. Í rannsókninni skal leggja sérstaka áherslu á áhrif allra viðmiðana fyrir umhverfismerki ESB að því er varðar matvæli og fóðurvörur, auk óunninna landbúnaðarafurða sem falla undir gildissvið reglugerðar (EB) nr. 834/2007. Í rannsókninni skal taka til athugunar þann möguleika að aðeins komi til greina að veita vörum, sem eru vottaðar sem lífrænar, umhverfismerki ESB, til að forðast rugling meðal neytenda.
Framkvæmdastjórnin skal, með hliðsjón af niðurstöðu rannsóknarinnar og áliti umhverfismerkinganefndar Evrópusambandsins, ákveða hvort mögulegt sé að þróa viðmiðanir fyrir umhverfismerki ESB og þá fyrir hvaða hóp matvæla eða fóðurs, í samræmi við reglunefndarmeðferðina með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 16. gr.
6.     Umhverfismerki ESB má hvorki veita vörum sem innihalda efni eða efnablöndur/samsett efni sem uppfylla viðmiðanir til flokkunar sem eitruð, hættuleg umhverfinu, krabbameinsvaldandi, stökkbreytandi eða með eiturhrif á æxlun (efni sem eru krabbameinsvaldandi eða stökkbreytandi eða efni sem hafa eiturhrif á æxlun), í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1272/2008 frá 16. desember 2008 um flokkun, merkingu og pökkun efna og blandna ( 2 ), né vörum sem innihalda efni sem um getur í 57. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1907/2006 frá 18. desember 2006 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir, að því er varðar efni (efnareglurnar (REACH)), um stofnun Efnastofnunar Evrópu ( 3 ).
7.     Framkvæmdastjórnin má samþykkja ráðstafanir um að veita megi undanþágur frá 6. mgr. að því er varðar tiltekna flokka vara sem innihalda efni sem um getur í 6. mgr. og eingöngu í tilvikum þegar ekki er tæknilega mögulegt að skipta þeim út sem slíkum eða með notkun staðgönguefna eða breyttri hönnun, eða þegar um er að ræða vörur sem eru umtalsvert vistvænni í heild miðað við aðrar vörur í sama flokki. Ekki skal veita undanþágu þegar um er að ræða efni, sem uppfylla viðmiðanirnar í 57. gr. reglugerðar (EB) nr. 1907/2006 og eru tilgreind í samræmi við málsmeðferðina sem lýst er í 1. mgr. 59. gr. þeirrar reglugerðar, sem eru fyrir hendi í blöndum eða afurð eða einhverjum einsleitum hluta flókinnar afurðar í styrk sem nemur meira en 0,1% (massahlutfall). Samþykkja skal þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar reglugerðar, í samræmi við reglunefndarmeðferðina með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 16. gr.

7. gr.
Þróun og endurskoðun viðmiðana fyrir umhverfismerki ESB

1.     Framkvæmdastjórnin, aðildarríkin, þar til bærir aðilar og aðrir hagsmunaaðilar mega, að höfðu samráði við umhverfismerkinganefnd Evrópusambandsins, hefja og stýra þróun eða endurskoðun viðmiðananna fyrir umhverfismerki ESB. Þegar öðrum slíkum hagsmunaaðilum er falið að stýra þróun viðmiðana skulu þeir sýna fram á sérþekkingu á sviði viðkomandi vöru, sem og hæfni til að stýra ferlinu á hlutlausan hátt og í samræmi við markmið þessarar reglugerðar. Í því samhengi skulu samstarfsaðilar sem samanstanda af fleiri en einum hagsmunahóp hafa forgang.
Aðilinn sem hefur og stýrir þróun eða endurskoðun viðmiðananna fyrir umhverfismerki ESB skal, í samræmi við málsmeðferðina sem sett er fram í A- hluta I. viðauka, leggja fram eftirfarandi gögn:
a)    bráðabirgðaskýrslu,
b)    uppkast með tillögum að viðmiðunum,
c)    tækniskýrslu til stuðnings uppkastinu með tillögum að viðmiðunum,
d)    lokaskýrslu,
e)    handbók fyrir mögulega notendur umhverfismerkis ESB og þar til bæra aðila,
f)    handbók fyrir yfirvöld sem bjóða út opinbera samninga.
Þessi gögn skulu lögð fyrir framkvæmdastjórnina og umhverfismerkinganefnd Evrópusambandsins.
2.     Ef viðmiðanir hafa þegar verið þróaðar með öðru kerfi um veitingu umhverfismerkis, sem uppfyllir kröfurnar um umhverfismerki af gerð I samkvæmt EN ISO 14024, fyrir vöruflokk sem engar viðmiðanir fyrir umhverfismerki ESB hafa verið þróaðar fyrir, má hvaða aðildarríki sem er, þar sem hitt kerfið um veitingu umhverfismerkis er viðurkennt , leggja til að viðkomandi viðmiðanir verði þróaðar innan kerfisins um veitingu umhverfismerkis ESB, að höfðu samráði við framkvæmdastjórnina og umhverfismerkinganefnd Evrópusambandsins.
Í slíkum tilvikum er heimilt að nota styttu málsmeðferðina til þróunar viðmiðana sem mælt er fyrir um í B-hluta I. viðauka, að því tilskildu að tillögðu viðmiðanirnar hafi verið þróaðar í samræmi við A- hluta I. viðauka. Annaðhvort framkvæmdastjórnin eða aðildarríkið, sem samkvæmt fyrstu undirgrein leggur til að nota styttu málsmeðferðina til þróunar viðmiðana, skal stýra því ferli.
3.     Ef nauðsynlegt er að endurskoða veigalitla þætti viðmiðananna kann stytta málsmeðferðin til endurskoðunar, sem mælt er fyrir um í C-hluta I. viðauka, að gilda.
4.     Umhverfismerkinganefnd Evrópusambandsins og framkvæmdastjórnin skulu sammælast um vinnuáætlun sem felur í sér stefnumótun og skrá, sem ekki er tæmandi, yfir vöruflokka, eigi síðar en 19. febrúar 2011. Í áætluninni skal taka til athugunar aðrar aðgerðir Bandalagsins (t.d. á sviði umhverfisvænna opinberra innkaupa) og hún kann að verða uppfærð til samræmis við nýjustu stefnumótandi markmið Bandalagsins á sviði umhverfismála. Þessi áætlun skal uppfærð reglulega.

8. gr.
Setning viðmiðana fyrir umhverfismerki ESB

1.     Þróa skal tillögur að viðmiðunum fyrir umhverfismerki ESB í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í I. viðauka og með tilliti til vinnuáætlunarinnar.
2.     Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en níu mánuðum eftir samráð við umhverfismerkinganefnd Evrópusambandsins, samþykkja ráðstafanir til setningar tiltekinna viðmiðana fyrir umhverfismerki ESB fyrir hvern vöruflokk. Birta skal þessar ráðstafanir í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Framkvæmdastjórnin skal í endanlegri tillögu sinni taka tillit til athugasemda umhverfismerkinganefndar Evrópusambandsins og á skýran hátt undirstrika, skjalfesta og leggja fram skýringar á rökstuðningnum að baki öllum breytingum á endanlegri tillögu hennar miðað við uppkastið með tillögum að viðmiðunum í kjölfar samráðsins við umhverfismerkinganefnd Evrópusambandsins.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar reglugerðar með því að bæta við hana, skulu samþykktar í samræmi við þá reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 16. gr.
3.     Með ráðstöfununum, sem um getur í 2. mgr., skal framkvæmdastjórnin:
a)    setja kröfur um mat á því hvort tilteknar vörur uppfylli viðmiðanirnar fyrir umhverfismerki ESB („kröfur um mat“),
b)    tilgreina þrjá mikilvæga umhverfiseiginleika fyrir hvern vöruflokk, sem hægt er að sýna á valkvæða merkimiðanum með textareit eins og lýst er í II. viðauka,
c)    tilgreina viðkomandi gildistíma viðmiðananna og krafnanna um mat fyrir hvern vöruflokk,
d)    tilgreina þann breytileika milli vara sem má vera fyrir hendi á gildistímanum sem um getur í c-lið.
4.     Þegar viðmiðanir eru settar fyrir umhverfismerki ESB skal sjá til þess að ekki séu teknar upp ráðstafanir sem geta haft í för með sér óhóflegt stjórnsýsluálag og efnahagslega byrði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.

9. gr.
Veiting umhverfismerkis ESB og skilmálar og skilyrði fyrir notkun þess

1.     Sérhver rekstraraðili sem óskar þess að nota umhverfismerki ESB skal skila inn umsókn til þar til bæru aðilanna, sem um getur í 4. gr., í samræmi við eftirfarandi reglur:
a)    ef um er að ræða vöru sem er upprunnin í einu aðildarríki skal umsókninni skilað inn til þar til bærs aðila í því aðildarríki,
b)    ef vara er upprunnin í sama formi í mörgum aðildarríkjum þá er heimilt að skila inn umsókninni til þar til bærs aðila í einu þessara aðildarríkja,
c)    ef vara er upprunnin utan Bandalagsins skal skila inn umsókninni til þar til bærs aðila í einhverju þeirra aðildarríkja þar sem á að setja vöruna á markað eða þar sem hún hefur verið sett á markað.
2.     Umhverfismerki ESB skal vera á því sniði sem er sett fram í II. viðauka.
Umhverfismerki ESB má aðeins nota í tengslum við vörur, sem eru í samræmi við viðmiðanirnar fyrir umhverfismerki ESB sem gilda um viðkomandi vörur, og sem hafa fengið umhverfismerki ESB.
3.     Í umsóknum skal tilgreina allar samskiptaupplýsingar rekstraraðilans, viðkomandi vöruflokk og gefa ítarlega lýsingu á vörunni ásamt því að gefa upp allar aðrar upplýsingar sem þar til bæri aðilinn fer fram á.
Með umsóknum skulu fylgja öll gögn sem tilgreind eru í viðkomandi viðmiðunum fyrir umhverfismerki ESB sem framkvæmdastjórnin hefur sett fyrir viðkomandi vöruflokk.
4.     Þar til bæri aðilinn sem fær umsókn skal innheimta gjöld í samræmi við III. viðauka. Aðeins má nota umhverfismerki ESB ef gjöld eru greidd innan tilskilins frests.
5.     Þar til bæri aðilinn sem um ræðir skal athuga hvort öll gögn séu til staðar innan tveggja mánaða frá móttöku umsóknar og skal senda rekstraraðilanum tilkynningu þar að lútandi. Þar til bæri aðilinn getur hafnað umsókninni ef rekstraraðilinn hefur ekki lagt fram öll gögn innan sex mánaða frá slíkri tilkynningu.
Að því tilskildu að öll gögn séu til staðar og að þar til bæri aðilinn hafi gengið úr skugga um að varan sé í samræmi við viðmiðanirnar fyrir umhverfismerki ESB og kröfur um mat, sem birtar eru í samræmi við 8. gr., skal þar til bæri aðilinn úthluta vörunni skráningarnúmeri.
Rekstraraðilar skulu bera kostnað af prófunum og mati á samræmi við viðmiðanir fyrir umhverfismerki ESB. Rekstraraðilum kann að vera gert að greiða ferða- og gistikostnað þegar sannprófun þarf að fara fram á vettvangi utan aðildarríkisins þar sem þar til bæri aðilinn er staðsettur.
6.     Ef viðmiðanir fyrir umhverfismerki ESB krefjast þess að framleiðsluaðstaðan uppfylli tilteknar kröfur skulu þessar kröfur uppfylltar alls staðar þar sem varan sem ber umhverfismerki ESB er framleidd. Þegar við á skal þar til bæri aðilinn framkvæma sannprófanir á vettvangi eða tilnefna viðurkenndan fulltrúa í þeim tilgangi.
7.     Þar til bærir aðilar skulu helst viðurkenna prófanir sem eru viðurkenndar samkvæmt ISO 17025 og sannprófanir sem eru framkvæmdar af aðilum sem eru viðurkenndir samkvæmt EN 45011 eða jafngildum alþjóðlegum staðli. Þar til bærir aðilar skulu vinna saman í því skyni að tryggja skilvirka og samræmda framkvæmd á mats- og sannprófunaraðferðunum, einkum með vinnuhópnum sem um getur í 13. gr.
8.     Þar til bæri aðilinn skal gera samning við hvern rekstraraðila, þar sem tekið er til notkunarskilyrða umhverfismerkis ESB (þ.m.t. ákvæði um veitingu og afturköllun umhverfimerkis ESB, einkum eftir endurskoðun viðmiðananna). Í því skyni skal nota staðlaðan samning í samræmi við mátið í IV. viðauka.
9.     Rekstraraðilinn má aðeins setja umhverfismerki ESB á vöruna eftir að samningurinn hefur verið gerður. Rekstraraðilinn skal einnig setja skráningarnúmerið á vöruna sem ber umhverfismerki ESB.
10.     Þar til bæri aðilinn sem hefur veitt vöru umhverfismerki ESB skal tilkynna framkvæmdastjórninni um það. Framkvæmdastjórnin skal taka saman sameiginlega skrá og uppfæra hana reglulega. Sú skrá skal vera aðgengileg öllum á vefsetri sem helgað er umhverfismerki ESB.
11.     Umhverfismerki ESB má nota á vörur sem hafa fengið umhverfismerki ESB og á kynningarefni sem tengist þeim.
12.     Veiting umhverfismerkis ESB skal vera með fyrirvara um umhverfiskröfur eða aðrar kröfur samkvæmt reglum Bandalagslaga eða landslaga sem eiga við um mismunandi stig á vistferli vörunnar.
13.     Rétturinn til að nota umhverfismerki ESB skal ekki ná til notkunar umhverfismerkis ESB sem hluta af vörumerki.

10. gr.
Markaðseftirlit og -stýring á notkun umhverfismerkis ESB

1.     Rangar eða villandi auglýsingar eða notkun hvers kyns merkis eða kennimerkis sem leiðir til þess að þeim sé ruglað saman við umhverfismerki ESB er bönnuð.
2.     Þar til bæri aðilinn skal reglulega sannprófa að vörur sem hafa fengið umhverfismerki ESB séu í samræmi við viðmiðanirnar fyrir umhverfismerki ESB og kröfur um mat skv. 8. gr. Þar til bæri aðilinn skal einnig framkvæma slíkar sannprófanir ef upp kemur kvörtun. Slíkar sannprófanir geta farið fram sem handahófskenndar skyndiskoðanir.
Þar til bæri aðilinn sem veitt hefur vörunni umhverfismerki ESB skal tilkynna notanda umhverfismerkis ESB um allar kvartanir sem koma upp í tengslum við vöruna sem ber umhverfismerki ESB og hann getur farið fram á að notandinn svari þeim kvörtunum. Þar til bæra aðilanum er heimilt að halda nafni kvartanda leyndu fyrir notanda.
3.     Notandi umhverfismerkis ESB skal leyfa þar til bæra aðilanum, sem veitti vörunni umhverfismerki ESB, að framkvæma allar rannsóknir sem nauðsynlegar eru til að vakta hvort það gæti áfram samræmis við viðmiðanirnar fyrir vöruflokkinn og við 9. gr.
4.     Notandi umhverfismerkis ESB skal, samkvæmt beiðni þar til bæra aðilans sem veitti vörunni umhverfismerki ESB, veita aðgang að athafnasvæðinu þar sem viðkomandi vara er framleidd.
Slíka beiðni má leggja fram á hvaða hæfilega tíma sem er og án fyrirvara.
5.     Ef einhver þar til bær aðili kemst að þeirri niðurstöðu, eftir að hann hefur gefið notanda umhverfismerkis ESB tækifæri til að leggja fram athugasemdir, að vara sem ber umhverfismerki ESB sé ekki í samræmi við viðkomandi viðmiðanir fyrir vöruflokkinn eða að umhverfismerki ESB sé ekki notað í samræmi við 9. gr. skal hann annaðhvort banna að umhverfismerki ESB sé notað á viðkomandi vöru eða, ef annar þar til bær aðili veitti umhverfismerki ESB, tilkynna þeim þar til bæra aðila um það. Notandi umhverfismerkis ESB skal ekki eiga rétt á endurgreiðslu gjaldanna sem um getur í 4. mgr. 9. gr., hvort sem er í heild eða að hluta til.
Þar til bæri aðilinn skal án tafar tilkynna öllum öðrum þar til bærum aðilum og framkvæmdastjórninni um bannið.
6.     Þar til bæri aðilinn sem veitti vörunni umhverfismerki ESB skal ekki láta í té upplýsingar sem hann hefur fengið aðgang að við mat á því hvort notandi umhverfismerkis ESB fari að reglunum um notkun umhverfismerkis ESB, sem settar eru fram í 9. gr., eða nota þær í nokkrum tilgangi sem ekki tengist veitingu umhverfismerkis ESB.
Hann skal gera allar eðlilegar ráðstafanir til að tryggja að skjöl sem honum er afhent séu ekki fölsuð eða misnotuð.

11. gr.
Kerfi um veitingu umhverfismerkis í aðildarríkjunum

1.     Þar sem viðmiðanir fyrir veitingu umhverfismerkis ESB eru birtar fyrir tiltekinn vöruflokk má aðeins rýmka önnur landsbundið eða svæðisbundið viðurkennd kerfi um veitingu umhverfismerkja af gerð I samkvæmt EN ISO 14024, sem ekki gilda um þann vöruflokk á birtingartímanum, þannig að þau gildi um viðkomandi vöruflokk þegar viðmiðanirnar, sem þróaðar eru samkvæmt þessum kerfum, eru a.m.k. eins strangar og viðmiðanirnar fyrir umhverfismerki ESB.
2.     Til að samræma viðmiðanir fyrir evrópsk kerfi um veitingu umhverfismerkja (EN ISO 14024, gerð I) skal í viðmiðunum fyrir umhverfismerki ESB einnig taka tillit til viðmiðana sem þegar hafa verið þróaðar í opinberlega viðurkenndum kerfum um veitingu umhverfismerkja í aðildarríkjunum.

12. gr.
Kynning á umhverfismerki ESB

1.     Aðildarríkin og framkvæmdastjórnin skulu, í samstarfi við umhverfismerkinganefnd Evrópusambandsins, sammælast um sértæka aðgerðaáætlun um að kynna notkun umhverfismerkis ESB með því að:
a)    ráðast í aðgerðir og upplýsingamiðlun til vitundarvakningar og fræðsluherferðir fyrir neytendur, framleiðendur, heildsala, þjónustuveitendur, opinbera innkaupsaðila, kaupmenn, smásala og almenning,
b)    hvetja til upptöku kerfisins, einkum að því er varðar lítil og meðalstór fyrirtæki,
og stuðla þannig að frekari þróun kerfisins.
2.     Kynning á umhverfismerki ESB má fara fram á vefsetri umhverfismerkis ESB, þar sem gefnar eru upp grunnupplýsingar og kynningarefni um umhverfismerki ESB og upplýsingar um hvar hægt sé að kaupa vörur með umhverfismerki ESB, á öllum tungumálum Bandalagsins.
3.     Aðildarríki skulu hvetja til notkunar á handbókinni fyrir yfirvöld sem bjóða út opinbera samninga, eins og tilgreint er í 5. lið A-hluta I. viðauka. Í þeim tilgangi skulu aðildarríkin taka til athugunar t.d. að setja markmið um kaup á vörum sem eru í samræmi við viðmiðanirnar sem tilgreindar eru í þeirri handbók.

13. gr.
Skipti á upplýsingum og reynslu

1.     Til að stuðla að samræmi í framkvæmd þessarar reglugerðar skulu þar til bærir aðilar reglulega skiptast á upplýsingum og reynslu, einkum er varðar beitingu 9. og 10. gr.
2.     Framkvæmdastjórnin skal koma á fót vinnuhóp þar til bærra aðila í þessum tilgangi. Vinnuhópurinn skal koma saman a.m.k. tvisvar á ári. Framkvæmdastjórnin skal greiða ferðakostnað. Vinnuhópurinn skal kjósa sér formann og setja sér starfsreglur.

14. gr.
Skýrsla

Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 19. febrúar 2015, leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið um framkvæmd kerfisins um veitingu umhverfismerkis ESB. Í skýrslunni skal einnig greina frá þáttum sem leggja má til grundvallar mögulegri endurskoðun á kerfinu.

15. gr.
Breyting á viðaukum

Framkvæmdastjórnin má breyta viðaukunum, þ.m.t. hámarksgjöldunum sem kveðið er á um í III. viðauka, með hliðsjón af þeirri nauðsyn að gjöld nægi fyrir kostnaðinum við að starfrækja kerfið.
Samþykkja skal þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar reglugerðar, í samræmi við reglunefndarmeðferðina með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 16. gr.

16. gr.
Nefndarmeðferð

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndar.
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar skulu ákvæði 1. til 4. mgr. 5. gr. a og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB gilda, með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.

17. gr.
Viðurlög

Aðildarríkin skulu setja reglur um viðurlög við brotum gegn ákvæðum þessarar reglugerðar og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim sé beitt. Viðurlögin skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brot og letjandi. Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um þessi ákvæði án tafar og skulu tilkynna henni án tafar um síðari breytingar sem hafa áhrif á þau.

18. gr.
Niðurfelling

Reglugerð (EB) nr. 1980/2000 er hér með felld úr gildi.

19. gr.
Umbreytingarákvæði

Reglugerð (EB) nr. 1980/2000 skal gilda áfram um samninga sem gerðir eru skv. 9. gr. hennar þar til gildistíminn sem tilgreindur er í þessum samningum rennur út, nema að því er varðar ákvæði hennar varðandi gjöld.
Ákvæði 4. mgr. 9. gr. og III. viðauka við þessa reglugerð skulu gilda um slíka samninga.

20. gr.
Gildistaka

Reglugerð þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Strassborg 25. nóvember 2009.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
J. BUZEK Å. TORSTENSSON
forseti. forseti.


I. VIÐAUKI
MÁLSMEÐFERÐ VEGNA ÞRÓUNAR OG ENDURSKOÐUNAR VIÐMIÐANA FYRIR UMHVERFISMERKI ESB

A.    Stöðluð málsmeðferð
    Eftirfarandi gögn skal taka saman:
     1.    Bráðabirgðaskýrsla
        Eftirtalin atriði skulu koma fram í bráðabirgðaskýrslunni:
        –    Megindlegur vísir um mögulegan umhverfislegan ávinning í tengslum við vöruflokkinn, þ.m.t. umfjöllun um ávinning í tengslum við önnur svipuð evrópsk og lands- eða svæðisbundin kerfi um veitingu umhverfismerkja af gerð I samkvæmt EN ISO 14024.
        –    Rökstuðningur fyrir vali og gildissviði vöruflokksins.
        –    Umfjöllun um mögulega þætti varðandi viðskipti.
        –    Greining á viðmiðunum fyrir önnur umhverfismerki.
        –    Núverandi lög og yfirstandandi aðgerðir á sviði löggjafar í tengslum við geirann sem vöruflokkurinn tilheyrir.
        –    Greining á möguleikum á því að skipta út hættulegum efnum fyrir öruggari efni, annaðhvort sem slík eða með notkun staðgönguefna eða með breyttri hönnun þar sem það er tæknilega mögulegt, einkum að því er varðar sérlega varasöm efni eins og um getur í 57. gr. reglugerðar (EB) nr. 1907/2006.
        –    Gögn um markað Bandalagsins varðandi geirann, þ.m.t. magn og velta.
        –    Núverandi og framtíðarmöguleikar á markaðsinnrás varanna sem bera umhverfismerki ESB.
        –    Umfang og heildarmikilvægi umhverfisáhrifanna í tengslum við vöruflokkinn, á grundvelli nýrra eða núverandi vistferilsgreininga. Einnig er heimilt að nota aðra vísindaþekkingu. Greina skal ítarlega frá málefnum sem eru afar mikilvæg eða umdeild og leggja mat á þau.
        –    Tilvísanir til gagna og upplýsinga sem aflað er og eru notuð við gerð skýrslunnar.
        Bráðabirgðaskýrslan skal gerð aðgengileg öllum á vefsetri framkvæmdastjórnarinnar, sem helgað er umhverfismerki ESB, til umsagnar og tilvísunar við þróun viðmiðananna.
        Við þróun viðmiðana fyrir matvæla- og fóðurvöruflokka skal í bráðabirgðaskýrslunni sýna fram á eftirfarandi, með tilvísun í rannsóknina sem fer fram skv. 5. mgr. 6. gr.:
        –    að þróun viðmiðana fyrir umhverfismerki ESB fyrir völdu vöruna feli í sér raunverulegt aukið umhverfisfræðilegt gildi,
        –    að umhverfismerki ESB taki til alls vistferils vörunnar og
        –    að notkun umhverfismerkis ESB á völdu vörunni valdi ekki ruglingi í samanburði við aðra merkimiða á matvælum.
     2.    Uppkast að tillögum að viðmiðunum og tengd tækniskýrsla
        Eftir að bráðabirgðaskýrslan hefur verið birt skal gera uppkast að tillögum að viðmiðunum og tækniskýrslu til stuðnings uppkastinu.
        Í uppkastinu að viðmiðunum skal fara að eftirfarandi kröfum:
        –    Þær skulu byggjast á bestu fáanlegu vörum á markaði Bandalagsins með tilliti til vistvænleika á öllum vistferli þeirra og til viðmiðunar samsvara 10–20% af bestu vörum sem fáanlegar eru á markaði Bandalagsins með tilliti til vistvænleika á þeim tíma sem þær eru samþykktar.
        –    Til að nauðsynlegur sveigjanleiki sé mögulegur skal skilgreina nákvæman hundraðshluta í hverju tilviki fyrir sig og í hverju tilviki með það að markmiði að stuðla að notkun vistvænustu varanna og tryggja að neytendum sé veitt nægilegt val.
        –    Í þeim skal taka tillit til hreins mismunar á ávinningi og byrði fyrir umhverfið, þ.m.t. heilbrigðis- og öryggisþátta, og þegar við á skal taka tillit til félagslegra og siðferðilegra þátta, t.d. með tilvísun til viðkomandi alþjóðlegra sáttmála og samninga eins og viðkomandi staðla og siðareglna Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.
        –    Þær skulu byggjast á mikilvægustu umhverfisáhrifum vörunnar, settar fram eins framarlega og unnt er með tæknilegum vísbendum vörunnar um vistvænleika og henta til mats í samræmi við reglur þessarar reglugerðar.
        –    Þær skulu byggjast á áreiðanlegum gögnum og upplýsingum sem eru eins framarlega og unnt er dæmigerð fyrir allan markað Bandalagsins.
        –    Þær skulu byggjast á gögnum um vistferil og megindlegum umhverfisáhrifum, þegar við á í samræmi við evrópsku viðmiðunarkerfin fyrir vistferilsgögn (e. European Reference Life Cycle Data Systems, ELCD).
        –    Í þeim skal taka tillit til álits allra hagsmunaaðila sem koma að samráðsferlinu.
        –    Með þeim skal tryggja samræmi við gildandi löggjöf sem á við um vöruflokkinn með tilliti til skilgreininga, prófunaraðferða og tækni- og stjórnsýsluskjala.
        –    Í þeim skal taka tillit til viðkomandi stefnumála Bandalagsins og starfs sem hefur farið fram í tengslum við aðra tengda vöruflokka.
        Uppkastið að tillögum um viðmiðanir skal sett þannig fram að það sé auðskiljanlegt þeim sem vilja beita þeim. Hver viðmiðun skal þar rökstudd og útskýra skal umhverfislegan ávinning í tengslum við hverja viðmiðun. Undirstrika skal viðmiðanirnar sem samsvara mikilvægu umhverfiseiginleikunum.
        Tækniskýrslan skal a.m.k. fela í sér eftirfarandi þætti:
        –    Vísindalegar skýringar á hverri kröfu og viðmiðun.
        –    Megindlegan vísi fyrir heildarvistvænleika, sem ætlunin er að ná með viðmiðunum í heild sinni, miðað við slíkan vistvænleika hjá almennum vörum á markaðinum.
        –    Mat á væntanlegum umhverfislegum, hagfræðilegum og félagslegum áhrifum viðmiðananna í heild.
        –    Viðkomandi prófunaraðferðir til að leggja mat á hinar ýmsu viðmiðanir.
        –    Mat á kostnaði við prófanir.
        –    Upplýsingar varðandi hverja viðmiðun um allar prófanir, skýrslur og önnur skjöl, sem notendur skulu leggja fram samkvæmt beiðni, frá þar til bærum aðila í samræmi við 3. mgr. 10. gr.
        Uppkastið að tillögum um viðmiðanir og tækniskýrslan skulu gerð aðgengileg öllum á vefsetri framkvæmdastjórnarinnar, sem helgað er umhverfismerki ESB, til umsagnar. Aðilinn, sem stýrir þróun vöruflokksins, skal dreifa tillögunni og skýrslunni til allra hagsmunaaðila.
        Að lágmarki skal halda tvo opna fundi vinnuhópsins varðandi uppkastið að viðmiðunum sem öllum hagsmunaaðilum, t.d. þar til bærum aðilum, aðilum úr iðnaði (þ.m.t. lítil og meðalstór fyrirtæki), stéttarfélögum, smásölum, innflytjendum og umhverfis- og neytendasamtökum, skal boðið til. Framkvæmdastjórnin skal einnig taka þátt í þessum fundum.
        Uppkastið að tillögum um viðmiðanir og tækniskýrslan skulu gerð aðgengileg a.m.k. einum mánuði áður en fyrsti fundur vinnuhópsins er haldinn. Síðari uppköst að tillögum um viðmiðanir skulu gerð aðgengileg a.m.k. einum mánuði áður en frekari fundir fara fram. Rökstuðningurinn fyrir öllum breytingum sem kunna að vera gerðar á viðmiðununum í síðari uppköstum skal skýrður að fullu og skjalfestur með tilvísan til umræðu á opnum fundum vinnuhópanna og athugasemda sem fengust í samráði við almenning.
        Svara skal öllum athugasemdum, sem berast meðan á þróun viðmiðananna stendur, og taka fram hvort þær séu samþykktar eða þeim hafnað og hvers vegna.
     3.    Lokaskýrsla og uppkast að viðmiðunum
        Eftirtalin atriði skulu koma fram í lokaskýrslunni:
        Skýr svör við öllum athugasemdum og tillögum þar sem fram kemur hvort þær séu samþykktar eða þeim hafnað og hvers vegna. Hagsmunaaðilar innan Evrópusambandsins og utan þess skulu fá sams konar meðferð.
        Hún skal einnig fela í sér eftirfarandi þætti:
        –    Samantekt á einni blaðsíðu um umfang stuðnings þar til bærra aðila fyrir uppkastinu að viðmiðunum.
        –    Yfirlitsskrá yfir öll skjöl sem hefur verið dreift á meðan á þróun viðmiðananna stóð og þar skal tilgreindur sendingardagur hvers skjals og hverjir hafa fengið það og afrit af skjölunum sem um er að ræða.
        –    Skrá yfir hagsmunaaðila sem taka þátt í starfinu eða haft hefur verið samráð við eða sem hafa látið álit sitt í ljós, ásamt upplýsingum um hvernig hægt er að ná til þeirra.
        –    Samantekt á aðalatriðum.
        –    Þrjá mikilvæga umhverfiseiginleika fyrir vöruflokkinn sem hægt er að sýna á valkvæða merkimiðanum með textareit eins og lýst er í II. viðauka.
        –    Tillögu um áætlun varðandi setningu vöruflokksins á markað og kynningu hans.
        Allar athugasemdir sem berast um lokaskýrsluna skulu skoðaðar og upplýsingar veittar um það sem er gert í framhaldi af athugasemdum, sé óskað eftir því.
     4.    Handbók fyrir mögulega notendur umhverfismerkis ESB og þar til bæra aðila
        Semja skal handbók til að hjálpa mögulegum notendum umhverfismerkis ESB og þar til bærum aðilum við mat á því hvort vörur séu í samræmi við viðmiðanirnar.
     5.    Handbók fyrir yfirvöld sem bjóða út opinbera samninga
        Semja skal handbók með leiðbeiningum um beitingu viðmiðananna um umhverfismerki ESB fyrir yfirvöld sem bjóða út opinbera samninga.
        Framkvæmdastjórnin lætur í té mát, þýdd á öll opinber tungumál Bandalagsins, fyrir handbókina fyrir mögulega notendur og þar til bæra aðila og fyrir handbókina fyrir yfirvöld sem bjóða út opinbera samninga.
B.    Stytt málsmeðferð þar sem viðmiðanir eru þróaðar með öðrum kerfum um veitingu umhverfismerkja af gerð I samkvæmt EN ISO 14024
    Ein skýrsla skal lögð fyrir framkvæmdastjórnina. Í þeirri skýrslu skal vera liður þar sem sýnt er fram á að kröfur um tækni og samráð, sem settar eru fram í A-hluta, hafi verið uppfylltar og einnig uppkast að tillögum að viðmiðunum, handbók fyrir mögulega notendur umhverfismerkis ESB og þar til bæra aðila, auk handbókar fyrir yfirvöld sem bjóða út opinbera samninga.
    Ef framkvæmdastjórnin telur að skýrslan og viðmiðanirnar uppfylli kröfurnar, sem settar eru fram í A- hluta, skal gera skýrsluna og uppkastið að tillögum að viðmiðunum aðgengileg öllum á vefsetri framkvæmdastjórnarinnar, sem helgað er umhverfismerki ESB, í tvo mánuði til umsagnar.
    Svara skal öllum athugasemdum, sem berast meðan samráð við almenning stendur yfir, og taka fram hvort þær eru samþykktar eða þeim hafnað og hvers vegna.
    Framkvæmdastjórnin getur skv. 8. gr. samþykkt viðmiðanirnar með fyrirvara um breytingar sem kunna að vera gerðar meðan samráð við almenning stendur yfir og ef ekkert aðildarríki fer fram á að haldinn verði opinn fundur vinnuhóps.
    Halda skal opinn fund vinnuhóps að beiðni aðildarríkis varðandi uppkastið að viðmiðunum sem allir hagsmunaaðilar, t.d. þar til bærir aðilar, aðilar úr iðnaði (þ.m.t. lítil og meðalstór fyrirtæki), stéttarfélög, smásalar, innflytjendur og umhverfis- og neytendasamtök, skulu taka þátt í. Framkvæmdastjórnin skal einnig taka þátt í þeim fundi.
    Framkvæmdastjórnin getur skv. 8. gr. samþykkt viðmiðanirnar með fyrirvara um breytingar sem kunna að vera gerðar meðan samráð við almenning eða fundur vinnuhópsins stendur yfir.
C.    Stytt málsmeðferð vegna endurskoðunar á veigalitlum þáttum viðmiðananna
    Framkvæmdastjórnin skal gera skýrslu þar sem fram koma eftirfarandi atriði:
    –    Rökstuðningur til skýringar á því hvers vegna ekki sé þörf á fullri endurskoðun á viðmiðununum og hvers vegna einföld uppfærsla á viðmiðunum og hversu strangar þær skuli vera sé nægileg.
    –    Tækniliður þar sem uppfærðar eru fyrri markaðsupplýsingar sem notaðar voru við setningu viðmiðananna.
    –    Endurskoðað uppkast með tillögum að viðmiðunum.
    –    Megindlegur vísir fyrir heildarvistvænleika, sem ætlunin er að ná með endurskoðuðu viðmiðunum í heild sinni, miðað við slíkan vistvænleika hjá almennum vörum á markaðinum.
    –    Endurskoðuð handbók fyrir mögulega notendur umhverfismerkis ESB og þar til bæra aðila.
    –    Endurskoðuð handbók fyrir yfirvöld sem bjóða út opinbera samninga.
    Skýrslan og uppkastið að tillögum um viðmiðanir skal gert aðgengilegt öllum á vefsetri framkvæmdastjórnarinnar, sem helgað er umhverfismerki ESB, í tvo mánuði til umsagnar.
    Svara skal öllum athugasemdum, sem berast meðan samráð við almenning stendur yfir, og taka fram hvort þær eru samþykktar eða þeim hafnað og hvers vegna.
    Framkvæmdastjórnin getur skv. 8. gr. samþykkt viðmiðanirnar með fyrirvara um breytingar sem kunna að vera gerðar meðan samráð við almenning stendur yfir og ef ekkert aðildarríki fer fram á að haldinn verði opinn fundur vinnuhóps.
    Halda skal opinn fund vinnuhóps að beiðni aðildarríkis varðandi endurskoðaða uppkastið að viðmiðunum sem allir hagsmunaaðilar, t.d. þar til bærir aðilar, aðilar úr iðnaði (þ.m.t. lítil og meðalstór fyrirtæki), stéttarfélög, smásalar, innflytjendur og umhverfis- og neytendasamtök, skulu taka þátt í. Framkvæmdastjórnin skal einnig taka þátt í þeim fundi.
    Framkvæmdastjórnin getur skv. 8. gr. samþykkt viðmiðanirnar með fyrirvara um breytingar sem kunna að vera gerðar meðan samráð við almenning eða fundur vinnuhópsins stendur yfir.

II. VIÐAUKI
ÚTFÆRSLA UMHVERFISMERKIS ESB

Umhverfismerki ESB skal sett fram á eftirfarandi hátt:
Merkimiði:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Valkvæður merkimiði með textareit (möguleiki rekstraraðila til að nota þennan textareit og textinn sem notaður er skulu vera í samræmi við það sem er tilgreint í viðmiðunum fyrir viðkomandi vöruflokk):

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Skráningarnúmer umhverfismerkis ESB skal einnig koma fram á vörunni. Það skal sett fram á eftirfarandi hátt:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Þar sem xxxx vísar til skráningarlands, yyy vísar til vöruflokksins og zzzzz vísar til númersins sem þar til bæri aðilinn gefur upp.
Merkið, valkvæði merkimiðinn með textareit og skráningarnúmerið skal prentað annaðhvort í tveimur litum (pantone 347 grænn fyrir lauf og stilk blómsins, „.“-merkið, veffangið og upphafsstafaorð ESB og pantone 279 fyrir alla aðra hluta, texta og ramma) eða svart á hvítu eða hvítt á svörtu.

III. VIÐAUKI
GJÖLD

1.    Umsóknargjald
    Þar til bæri aðilinn sem fær umsókn skal innheimta gjald í samræmi við raunverulegan umsýslukostnað í tengslum við meðhöndlun umsóknarinnar. Þetta gjald skal ekki vera lægra en 200 evrur og ekki hærra 1200 evrur.
    Þegar um er að ræða lítil og meðalstór fyrirtæki ( 1 ) og rekstraraðila í þróunarlöndum skal umsóknargjald ekki vera hærra en 600 evrur.
    Þegar um örfyrirtæki ( 2 ) er að ræða skal umsóknargjaldið ekki vera hærra en 350 evrur.
    Umsóknargjaldið skal lækka um 20% þegar um er að ræða umsækjendur sem skráðir eru samkvæmt umhverfisstjórnunarkerfi Bandalagsins (EMAS) og/eða vottaðir samkvæmt ISO-staðli 14001. Þessi lækkun er háð því skilyrði að umsækjandinn skuldbindi sig á skýran hátt í umhverfismálastefnu sinni til að tryggja að vörur hans, sem merktar eru umhverfismerkinu, séu í fullu samræmi við viðmiðanirnar um umhverfismerki ESB allt gildistímabil samningsins og að þessi skuldbinding sé tekin fram á viðeigandi hátt í nákvæmum umhverfismarkmiðum hans. Umsækjendur sem hafa fengið vottun samkvæmt ISO-staðli 14001 skulu árlega sýna fram á að staðið hafi verið við þessa skuldbindingu. Umsækjendur, sem eru skráðir samkvæmt umhverfisstjórnunarkerfi Bandalagsins (EMAS), skulu árlega senda afrit af staðfestri umhverfisyfirlýsingu sinni.
2.    Árgjald
    Þar til bæri aðilinn getur farið fram á að hver umsækjandi, sem hefur fengið umhverfismerki ESB, greiði árgjald sem nemur allt að 1500 evrum fyrir afnot af merkinu.
    Þegar um er að ræða lítil og meðalstór fyrirtæki og rekstraraðila í þróunarlöndum skal árgjaldið ekki vera hærra en 750 evrur.
    Þegar um örfyrirtæki er að ræða skal árgjaldið ekki vera hærra en 350 evrur.
    Tímabilið, sem árgjaldið nær til, hefst á þeim degi sem umhverfismerki ESB er veitt umsækjandanum.

IV. VIÐAUKI
STAÐLAÐUR SAMNINGUR UM NOTKUNARSKILMÁLA UMHVERFISMERKIS ESB

INNGANGSORÐ
Þar til bær aðili ....................................................................... (fullt heiti) hér á eftir nefndur „þar til bæri aðilinn“, skráður að .................. (fullt heimilisfang), sem ................... (nafn ábyrgðaraðila) er fulltrúi fyrir við undirritun, ................... (fullt nafn leyfishafa), sem framleiðandi, innflytjandi, þjónustuveitandi, heildsali eða smásali sem hefur opinbert skráð aðsetur að ...................... (fullt heimilisfang), hér á eftir nefndur „leyfishafinn“, sem ..................... (nafn ábyrgðaraðila) er fulltrúi fyrir, hafa komið sér saman um eftirfarandi að því er varðar notkun umhverfismerkis ESB, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 66/2010 frá 25. nóvember 2009 um umhverfismerki ESB ( 3 ), hér á eftir nefnd „reglugerðin um umhverfismerki ESB“:
1.     NOTKUN UMHVERFISMERKIS ESB
1.1.    Þar til bær aðili veitir leyfishafa rétt til að nota umhverfismerki ESB á vörur sínar eins og lýst er í meðfylgjandi forskriftum fyrir vörur, sem eru í samræmi við viðeigandi viðmiðanir fyrir vöruflokk sem eru í gildi fyrir tímabilið ........................., samþykktar af framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna þann ..................... (dagsetning), birtar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins frá ...................... (full tilvísun) og meðfylgjandi sem viðauki við þennan samning.
1.2.    Umhverfismerki ESB skal aðeins nota í þeirri útfærslu sem mælt er fyrir um í II. viðauka við reglugerðina um umhverfismerki ESB.
1.3.    Leyfishafi skal tryggja að varan sem á að merkja sé á öllum samningstímanum í samræmi við alla notkunarskilmála og ákvæði, sem sett eru fram í 9. gr. reglugerðarinnar um umhverfismerki ESB, við allar kringumstæður. Ekki er krafist nýrra umsókna vegna breytinga á eiginleikum vara sem ekki hafa áhrif á samræmi við viðmiðanirnar. Leyfishafi skal hins vegar tilkynna þar til bæra aðilanum um slíkar breytingar með ábyrgðarbréfi. Þar til bæra aðilanum er heimilt að framkvæma viðeigandi sannprófanir.
1.4.    Heimilt er að rýmka samninginn þannig að hann nái til fleiri vara en upphaflega var gert ráð fyrir með fyrirvara um samþykki þar til bærs aðila og með fyrirvara um það skilyrði að þær tilheyri sama vöruflokki og að þær séu í samræmi við viðmiðanir hans. Þar til bæra aðilanum er heimilt að sannprófa hvort þessi skilyrði séu uppfyllt. Viðaukanum, þar sem forskriftirnar varðandi vöruna eru tilgreindar, skal breytt eftir því sem við á.
1.5.    Leyfishafi skal ekki auglýsa eða gefa yfirlýsingar eða nota nokkurt merki eða kennimerki á þann hátt er gæti haft röng eða misvísandi áhrif eða valdið ruglingi eða skaðað ímynd umhverfismerkis ESB.
1.6.    Leyfishafi ber samkvæmt þessum samningi ábyrgð á því á hvern hátt umhverfismerki ESB er notað í sambandi við vöru hans, einkum hvað auglýsingar snertir.
1.7.    Þar til bæri aðilinn, þ.m.t. viðurkenndir fulltrúar hans sem heimilað er slíkt, getur framkvæmt allar rannsóknir sem nauðsynlegar eru til að vakta hvort leyfishafi fari stöðugt að bæði viðmiðununum fyrir vöruflokkinn sem og að notkunarskilyrðum og ákvæðum þessa samnings í samræmi við reglurnar sem mælt er fyrir um í 10. gr. reglugerðarinnar um umhverfismerki ESB.
2.    TÍMABUNDIN NIÐURFELLING OG AFTURKÖLLUN
2.1.    Ef leyfishafa verður ljóst að hann uppfyllir ekki notkunarskilmálana eða ákvæði 1. gr. þessa samnings skal hann tilkynna það þar til bæra aðilanum og ekki nota umhverfismerki ESB fyrr en notkunarskilmálarnir eða ákvæðin hafa verið uppfyllt og þar til bæra aðilanum verið skýrt frá því.
2.2.    Ef þar til bær aðili álítur að leyfishafi hafi brotið einhverja notkunarskilmála eða ákvæði þessa samnings getur hann fellt leyfi leyfishafa til að nota umhverfismerki ESB tímabundið úr gildi eða afturkallað það og gert allar nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að leyfishafi noti það áfram, þ.m.t. ráðstafanir sem er kveðið á um í 10. og 17. gr. reglugerðarinnar um umhverfismerki ESB.
3.    TAKMÖRKUN Á ÁBYRGÐ OG SKAÐABÆTUR
3.1.    Leyfishafa er ekki heimilt að láta umhverfismerki ESB vera hluta af ábyrgð eða tryggingu í sambandi við vöruna sem um getur í gr. 1.1 í þessum samningi.
3.2.    Þar til bær aðili, þ.m.t.viðurkenndir fulltrúar hans, ber ekki ábyrgð á tapi eða skaða sem leyfishafi verður fyrir vegna veitingar og/eða notkunar á umhverfismerki ESB.
3.3.    Þar til bær aðili, þar með taldir viðurkenndir fulltrúar hans, ber ekki ábyrgð á tapi eða skaða sem þriðji aðili verður fyrir vegna veitingar og/eða notkunar á umhverfismerki ESB, þ.m.t. auglýsingar.
3.4.    Leyfishafi skal bæta skaða og sjá til þess að þar til bær aðili og viðurkenndir fulltrúar hans þurfi ekki að greiða tap, skaða eða skuld sem þar til bær aðili eða viðurkenndir fulltrúar hans verða fyrir vegna samningsbrots leyfishafa, eða vegna þess að þar til bær aðili reiddi sig á upplýsingar eða gögn frá leyfishafa, þ.m.t. kröfur frá þriðja aðila.
4.    GJÖLD
4.1.    Upphæð umsóknargjaldsins og árgjaldsins skal ákvörðuð í samræmi við III. viðauka við reglugerðina um umhverfismerki ESB.
4.2.    Notkun umhverfismerkis ESB er bundin því skilyrði að öll viðeigandi gjöld hafi verið greidd á réttum tíma.
5.    SAMNINGSTÍMI OG GILDANDI LÖG
5.1.    Með fyrirvara um ákvæðin í gr. 5.2, 5.3 og 5.4 gildir þessi samningur frá þeim degi sem hann er undirritaður til (...), eða þar til viðmiðanirnar fyrir vöruflokkinn falla úr gildi, hvort heldur ber fyrr að.
5.2.    Ef leyfishafi hefur brotið gegn notkunarskilmálum eða ákvæðum þessa samnings í skilningi gr. 2.2 er þar til bærum aðila heimilt að líta á það sem samningsbrot og getur hann þá, til viðbótar við ákvæðin í gr. 2.2 slitið samningnum, með ábyrgðarbréfi til leyfishafa, fyrir daginn sem er tilgreindur í gr. 5.1 (að liðnum fresti sem þar til bær aðili ákveður).
5.3.    Leyfishafa er heimilt að slíta samningnum með þriggja mánaða fyrirvara með ábyrgðarbréfi til þar til bærs aðila.
5.4.    Ef viðmiðanirnar fyrir vöruflokkinn, sem um getur í gr. 1.1, eru framlengdar óbreyttar í tiltekinn tíma, og ef engin skrifleg tilkynning um slit hafa komið frá þar til bærum aðila minnst þremur mánuðum áður en viðmiðanirnar fyrir vöruflokkinn og samningur þessi renna út, skal þar til bær aðili greina leyfishafa frá því með minnst þriggja mánaða fyrirvara að samningurinn framlengist sjálfkrafa í þann tíma sem viðmiðanirnar fyrir vöruflokkinn eru í gildi.
5.5.    Eftir að samningurinn er útrunninn er leyfishafa ekki heimilt að nota umhverfismerki ESB í tengslum við vöruna sem um getur í gr. 1.1 og í viðaukanum við þennan samning, hvorki til merkingar né til auglýsinga. Í sex mánuði eftir að samningnum hefur verið slitið er samt sem áður heimilt að umhverfismerki ESB sé að finna á birgðum sem leyfishafi eða aðrir hafa undir höndum og voru framleiddar áður en samningnum var slitið. Þetta síðastnefnda ákvæði gildir ekki ef samningnum hefur verið slitið af þeim ástæðum sem tilgreindar eru í gr. 5.2.
5.6.    Öll deilumál milli þar til bæra aðilans og leyfishafans eða kröfur annars aðilans á hendur hinum á grundvelli þessa samnings, sem samningsaðilar hafa ekki leyst með samkomulagi sín á milli, skulu falla undir gildandi lög sem ákvörðuð eru í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 593/2008 frá 17. júní 2008 um lög sem gilda um samningsbundnar skyldur (Róm I) ( 1 ) og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 864/2007 frá 11. júlí 2007 um lög sem gilda um skyldur utan samninga (Róm II) ( 2 ).
        Eftirfarandi viðaukar skulu vera hluti af þessum samningi:
        –    eintak af reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 66/2010 frá 25. nóvember 2009 um umhverfismerki ESB, (á viðkomandi tungumáli/málum Bandalagsins),
        –    forskriftir fyrir vörur, þar sem a.m.k. koma fram upplýsingar varðandi heiti og/eða eigin tilvísunarnúmer framleiðanda, framleiðslustaði og viðkomandi skráningarnúmer umhverfismerkis ESB,
        –    eintak af ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (........................ um viðmiðanir fyrir vöruflokk),
Gjört í ............................................................ dagsetning ........................................................................
..................................................................................................................................................................
    (Þar til bær aðili)
Tilnefndur einstaklingur ...........................................................................................................................
..................................................................................................................................................................
    (Lagalega bindandi undirskrift)
..................................................................................................................................................................
    (Leyfishafi)
Tilnefndur einstaklingur ...........................................................................................................................
..................................................................................................................................................................
    (Lagalega bindandi undirskrift)

V. VIÐAUKI
KRÖFUR VIÐVÍKJANDI ÞAR TIL BÆRUM AÐILUM

1.    Þar til bær aðili skal vera óháður fyrirtækinu eða vörunni sem hann leggur mat á.
    Aðili, sem tilheyrir viðskiptasamtökum eða fagfélögum sem koma fram fyrir hönd fyrirtækja sem fást við hönnun, framleiðslu, öflun, samsetningu, notkun eða viðhald vara sem honum er falið að meta, getur talist þar til bær aðili, með því skilyrði að sýnt sé fram á að hann sé óháður og laus við hagsmunaárekstra.
2.    Þar til bær aðili, æðstu stjórnendur hans og starfsfólk sem ber ábyrgð á framkvæmd samræmismatsverkefna skulu hvorki vera hönnuðir, framleiðendur, birgjar, uppsetningaraðilar, innkaupsaðilar, eigendur, notendur eða viðhaldsaðilar varanna sem þeir meta né vera viðurkenndir fulltrúar neins þessara aðila. Þetta skal þó ekki útiloka þá notkun á vörunum, sem verið er að meta, sem er nauðsynleg fyrir starfsemi þar til bæra aðilans eða persónulega notkun á slíkum vörum.
    Þar til bær aðili, æðstu stjórnendur hans og starfsfólk, sem ber ábyrgð á framkvæmd samræmismatsverkefna skulu hvorki taka með beinum hætti þátt í hönnun, framleiðslu eða smíði, markaðssetningu, uppsetningu, notkun eða viðhaldi þessara vara né vera fulltrúar þeirra aðila sem fást við slíka starfsemi. Þau skulu ekki taka þátt í neinni starfsemi sem gæti haft áhrif á sjálfstætt mat þeirra eða heilindi í tengslum við samræmismatsstarfsemi þar sem þau eru tilnefndur aðili. Þetta gildir einkum að því er varðar ráðgjafarþjónustu.
    Þar til bærir aðilar skulu tryggja að starfsemi dótturfyrirtækja þeirra eða undirverktaka hafi ekki áhrif á trúnað, hlutlægni eða óhlutdrægni í samræmismatsstarfsemi þeirra.
3.    Þar til bærir aðilar og starfsfólk þeirra skulu annast starfsemi á sviði samræmismats af faglegri ráðvendni á hæsta stigi og með nauðsynlegri tæknikunnáttu á viðkomandi sviði og vera laus við allan þrýsting og hvatningu, einkum fjárhagslega, sem kynni að hafa áhrif á mat þeirra eða niðurstöður samræmismatsstarfsemi þeirra, einkum frá einstaklingum eða hópum einstaklinga sem eiga hagsmuna að gæta varðandi niðurstöður þessarar starfsemi.
4.    Þar til bær aðili skal vera fær um að inna af hendi öll verkefni við samræmismat, sem honum hefur verið falið samkvæmt þessari reglugerð, hvort sem verkefnin eru innt af hendi af þar til bæra aðilanum sjálfum eða fyrir hans hönd og á ábyrgð hans.
    Þar til bær aðili skal ávallt og fyrir hverja samræmismatsaðferð og hverja tegund eða flokk vöru, sem hann hefur verið tilnefndur fyrir, hafa eftirfarandi til umráða:
    a)    tækniþekkingu og nægilega og viðeigandi reynslu til að framkvæma samræmismatsverkefnin,
    b)    nauðsynlegar lýsingar á aðferðunum, sem beitt er við samræmismat, sem tryggja gagnsæi og getu til að endurtaka þessar aðferðir. Hann skal hafa tiltæka viðeigandi stefnur og aðferðir til að gera greinarmun á verkefnum sem hann framkvæmir sem þar til bær aðili og annarri starfsemi,
    c)    nauðsynlegar aðferðir til að sinna starfsemi þar sem tekið er tilhlýðilegt tillit til stærðar fyrirtækis, geirans sem það starfar í, skipulags þess, hversu flókna framleiðslutækni er um að ræða og hvort um fjölda- eða raðframleiðslu er að ræða.
    Þar til bær aðili skal hafa yfir að ráða öllum þeim úrræðum sem nauðsynleg eru til að geta framkvæmt á réttan hátt þau tæknilegu og stjórnsýslulegu störf sem tengjast samræmismatsstarfsemi og hafa aðgang að öllum nauðsynlegum búnaði eða aðstöðu.
5.    Það starfsfólk sem ber ábyrgð á að annast starfsemi á sviði samræmismats skal búa yfir eftirfarandi:
    a)    traustri þekkingu sem nær til allrar samræmismatsstarfsemi sem þar til bæra aðilanum hefur verið falið,
    b)    getu til þess að útbúa þau vottorð, skrár og skýrslur sem sýna að mat hafi verið unnið.
6.    Tryggja skal óhlutdrægni þar til bærra aðila, æðstu stjórnenda þeirra og starfsfólks sem annast matið.
    Þóknun æðstu stjórnenda og starfsfólks þar til bærs aðila sem annast mat skal hvorki vera háð fjölda matsgerða sem unnar eru né niðurstöðum slíkra matsgerða.
7.    Þar til bærir aðilar skulu taka þátt í eða tryggja að starfsfólk þeirra, sem annast matið, sé upplýst um viðeigandi starfsemi við gerð staðla og starfsemi innan vinnuhóps þar til bæru aðilanna, sem um getur í 13. gr. þessarar reglugerðar, og að stjórnsýsluákvarðanir og skjöl, sem eru afrakstur af vinnu þessa hóps, séu notuð sem almennar leiðbeiningar.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 27, 30.1.2010, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB L 237, 21.9.2000, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. ESB C 120, 28.5.2009, bls. 56.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. ESB C 218, 11.9.2009, bls. 50.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 2. apríl 2009 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindunum) og ákvörðun ráðsins frá 26. október 2009.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Stjtíð. EB L 237, 21.9.2000, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. ESB L 285, 31.10.2009, bls. 10.
Neðanmálsgrein: 9
(6)    Stjtíð. ESB L 189, 20.7.2007, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 10
(1)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 11
(1)    Stjtíð. EB L 311, 28.11.2001, bls. 67.
Neðanmálsgrein: 12
(2)    Stjtíð. EB L 311, 28.11.2001, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 13
(1)    Stjtíð. EB L 31, 1.2.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 14
(2)    Stjtíð. ESB L 353, 31.12.2008, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 15
(3)    Stjtíð. ESB L 396, 30.12.2006, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 16
(1)    Lítil og meðalstór fyrirtæki og örfyrirtæki eins og skilgreint er í tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 2003/361/EB frá 6. maí 2003 (Stjtíð. ESB L 124, 20.5.2003, bls. 36).
Neðanmálsgrein: 17
(2)    Lítil og meðalstór fyrirtæki og örfyrirtæki eins og skilgreint er í tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 2003/361/EB frá 6. maí 2003 (Stjtíð. ESB L 124, 20.5.2003, bls. 36).
Neðanmálsgrein: 18
(3)    Stjtíð. ESB L 27, 30.1.2010, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 19
(1)    Stjtíð. ESB L 177, 4.7.2008, bls. 6.
Neðanmálsgrein: 20
(2)    Stjtíð. ESB L 199, 31.7.2007, bls. 40.