Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 86, 142. löggjafarþing 25. mál: almannatryggingar og málefni aldraðra (frítekjumörk, tekjutengingar).
Lög nr. 86 11. júlí 2013.

Lög um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum (frítekjumörk og tekjutengingar).


I. KAFLI
Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum.

1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
  1. Í stað „480.000 kr.“ í b-lið 2. mgr. kemur: 1.315.200 kr.
  2. 3. mgr. orðast svo:
  3.      Þegar um er að ræða elli- og örorkulífeyri skv. 17. og 18. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr.
  4. 4. mgr. orðast svo:
  5.      Þegar um er að ræða tekjutryggingu skv. 22. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr.


2. gr.

     Í stað ártalsins „2013“ í 14. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum kemur: 2014.

II. KAFLI
Breyting á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

3. gr.

     Í stað „480.000 kr.“ í b-lið 1. mgr. 26. gr. laganna kemur: 1.315.200 kr.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda frá 1. júlí 2013.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Vegna lífeyrissjóðstekna annars vegar og atvinnutekna ellilífeyrisþega hins vegar á árinu 2013 skal Tryggingastofnun ríkisins dreifa tekjunum í samræmi við 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, og 5. mgr. 26. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Þó getur lífeyrisþegi eða heimilismaður óskað eftir því við Tryggingastofnun að tekjum hans verði skipt niður í tímabil fyrir og eftir 1. júlí 2013.

Samþykkt á Alþingi 4. júlí 2013.