Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 528, 125. löggjafarþing 173. mál: málefni aldraðra (heildarlög).
Lög nr. 125 31. desember 1999.

Lög um málefni aldraðra.


I. KAFLI
Markmið og skilgreiningar.
Markmið.

1. gr.

     Markmið þessara laga er að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagslegu þjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast miðað við þörf og ástand hins aldraða.
     Einnig er markmið laganna að aldraðir geti, eins lengi og unnt er, búið við eðlilegt heimilislíf en að jafnframt sé tryggð nauðsynleg stofnanaþjónusta þegar hennar er þörf.
     Við framkvæmd laganna skal þess gætt að aldraðir njóti jafnréttis á við aðra þjóðfélagsþegna og að sjálfsákvörðunarréttur þeirra sé virtur.

Skilgreiningar.

2. gr.

     Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
  1. Aldraður: Sá sem náð hefur 67 ára aldri.
  2. Öldrunarmál: Þau mál sem varða aldraða og eru undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Til þeirra teljast þeir þjónustuþættir sem aldraðir eiga rétt á samkvæmt lögum þessum og Framkvæmdasjóður aldraðra.
  3. Vistunarmat aldraðra: Faglegt, einstaklingsbundið mat á þörf fyrir vistun á stofnun.
  4. Starfssvæði þjónustuhóps aldraðra: Umdæmi heilsugæslustöðva í læknishéruðum landsins samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu.
  5. Vistmannaráð: Kjörnir fulltrúar íbúa stofnunar mynda vistmannaráð.


II. KAFLI
Stjórn öldrunarmála og skipulag öldrunarþjónustu.
Yfirstjórn.

3. gr.

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fer með yfirstjórn öldrunarmála.
     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið skal annast stefnumótun og áætlanagerð fyrir landið í heild um málefni aldraðra og hafa eftirlit með framkvæmd laganna og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra. Jafnframt skal ráðuneytið beita sér fyrir almennri umræðu og kynningu á stöðu og valkostum aldraðra.

Samstarfsnefnd um málefni aldraðra.

4. gr.

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipar fimm manna samstarfsnefnd um málefni aldraðra eftir hverjar almennar alþingiskosningar. Skal einn nefndarmaður tilnefndur af Landssambandi eldri borgara, einn af Öldrunarráði Íslands og einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og tveir skulu skipaðir án tilnefningar, þar af skal annar hafa faglega þekkingu á málefnum aldraðra. Ráðherra skipar formann úr hópi nefndarmanna. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og aðalmenn.
     Sérstakur starfsmaður öldrunarmála í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu skal vera ritari samstarfsnefndar um málefni aldraðra.

5. gr.

     Samstarfsnefnd um málefni aldraðra skal hafa eftirtalin verkefni:
  1. Að vera heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og ríkisstjórn til ráðuneytis um málefni aldraðra.
  2. Að vera tengiliður milli ráðuneyta, stofnana og samtaka sem starfa að málefnum aldraðra.
  3. Að stjórna Framkvæmdasjóði aldraðra og gera tillögur til ráðherra um úthlutun úr sjóðnum, sbr. 9. og 11. gr.


Þjónustuhópur aldraðra.

6. gr.

     Í hverju heilsugæsluumdæmi, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu, skal starfa þjónustuhópur aldraðra. Sveitarfélög geta sameinast um þjónustuhóp aldraðra sé það talið hagkvæmt.
     Kostnaður af starfi þjónustuhóps aldraðra greiðist af sveitarfélögum á starfssvæði hans í hlutfalli við fjölda íbúa í hverju sveitarfélaganna.

7. gr.

     Sveitarstjórnir í heilsugæsluumdæmi, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu, skipa fimm fulltrúa í þjónustuhóp aldraðra að loknum sveitarstjórnarkosningum. Héraðslæknir tilnefnir lækni, með sérmenntun á sviði öldrunar- eða heimilislækninga, og hjúkrunarfræðing, með þekkingu á öldrunarþjónustu, samtök eldri borgara á svæðinu tilnefna einn fulltrúa úr sínum röðum og tveir fulltrúar eru skipaðir án tilnefningar.
     Sveitarstjórnir velja þjónustuhópnum formann úr hópi nefndarmanna.

8. gr.

     Þjónustuhópur aldraðra skal hafa eftirtalin verkefni á starfssvæði sínu:
  1. Að fylgjast með heilsufari og félagslegri velferð aldraðra og samhæfa þjónustu.
  2. Að gera tillögur til sveitarstjórna um öldrunarþjónustu.
  3. Að leitast við að tryggja að aldraðir fái þá þjónustu sem þeir þarfnast og kynna öldruðum þá kosti sem í boði eru.
  4. Að meta vistunarþörf aldraðra, sbr. 14. og 15. gr.

     Þjónustuhópurinn skal í störfum sínum hafa að leiðarljósi markmið laganna, sbr. 1. gr.

III. KAFLI
Framkvæmdasjóður aldraðra.

9. gr.

     Framkvæmdasjóður aldraðra skal stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um land allt.
     Fjármagni úr Framkvæmdasjóði aldraðra skal varið til að styrkja:
  1. Byggingu þjónustumiðstöðva og dagvista, sbr. 13. gr., og byggingu stofnana fyrir aldraða, sbr. 14. gr.
  2. Nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu fyrir aldraða.
  3. Sveitarfélög og heilsugæslustöðvar til að þróa skipulagða heimaþjónustu fyrir aldraða.
  4. Rekstur stofnanaþjónustu fyrir aldraða í sérstökum tilvikum, sbr. 14. gr.
  5. Rannsóknir, kennslu og kynningu á öldrunarmálum.
  6. Önnur verkefni sem eru í samræmi við markmið laganna.

     Um framkvæmdir skv. 2. mgr. fer, eftir því sem við á, samkvæmt lögum um skipan opinberra framkvæmda.

10. gr.

     Framkvæmdasjóður aldraðra fær tekjur af sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á þá sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skal gjaldið nema 4.065 kr. á hvern gjaldanda og kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert.
     Undanþegin gjaldinu eru börn innan 16 ára aldurs og þeir sem eru 70 ára og eldri í lok tekjuárs. Einnig eru þeir undanþegnir gjaldinu sem hafa tekjuskattsstofn sem nemur 701.594 kr. eða lægri upphæð á tekjuárinu 1997. Tekjuviðmiðun þessi skal breytast árlega í samræmi við þær breytingar sem verða á persónuafslætti skv. A-lið 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og innheimtuhlutfalli viðkomandi staðgreiðsluárs samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 9. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum. Skattstjóri skal fella gjald þetta niður af þeim elli- og örorkulífeyrisþegum, undir 70 ára aldri, sem dveljast á dvalar- og hjúkrunarheimilum.
     Við álagningu og innheimtu gjalds þessa skulu gilda sömu reglur og um álagningu og innheimtu tekjuskatts samkvæmt lögum nr. 75/1981, með síðari breytingum, eftir því sem við á. Í stað tíu gjalddaga skal þó gjalddagi vera einn, 1. ágúst ár hvert. Dragist framlagning álagningarskrár fram yfir 1. ágúst færist gjalddagi til 1. dags næsta mánaðar eftir framlagningu álagningarskrár.
     Tekjur Framkvæmdasjóðs aldraðra skulu einnig vera frjáls framlög, aðrar tekjur er til kunna að falla og vaxtatekjur.
     Í miðmánuði hvers ársfjórðungs skal fjármálaráðuneytið skila Framkvæmdasjóði aldraðra fjórðungi tekna sjóðsins á því ári.

11. gr.

     Framkvæmdasjóður aldraðra skal vera í vörslu Tryggingastofnunar ríkisins. Samstarfsnefnd um málefni aldraðra annast stjórn sjóðsins, sbr. 3. tölul. 5. gr. Þegar nefndin fjallar um málefni Framkvæmdasjóðs aldraðra skal fulltrúi tilnefndur af fjárlaganefnd Alþingis taka sæti í henni.
     Samstarfsnefnd um málefni aldraðra gerir árlega tillögur til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um úthlutun.

12. gr.

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um Framkvæmdasjóð aldraðra og setur honum jafnframt starfsreglur.

IV. KAFLI
Öldrunarþjónusta.
Opin öldrunarþjónusta.

13. gr.

     Til opinnar öldrunarþjónustu samkvæmt lögum þessum telst:
  1. Heimaþjónusta veitt öldruðum sem búa heima. Þjónustan skal miðast við einstaklingsbundið mat á þjónustuþörf og byggjast á hjálp til sjálfshjálpar. Þjónustan er tvíþætt. Annars vegar er heilbrigðisþáttur heimaþjónustu sem er í höndum starfsfólks heilsugæslustöðva, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu. Hins vegar er félagslegur þáttur heimaþjónustu viðkomandi sveitarfélaga eða aðila sem sveitarfélög semja við, sbr. lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Veita skal heimaþjónustu um kvöld, nætur og helgar þegar þess er þörf. Leitast skal við að skipuleggja og samhæfa heilbrigðis- og félagslega þætti heimaþjónustunnar með velferð og þarfir hins aldraða að leiðarljósi.
  2. Þjónustumiðstöðvar aldraðra sem eru starfræktar af sveitarfélögum til að tryggja eldri borgurum félagsskap, næringu, hreyfingu, tómstundaiðju, skemmtun og heilsufarslegt eftirlit. Þjónustumiðstöðvar geta starfað sjálfstætt eða í tengslum við aðra þjónustu sem aldraðir njóta.
  3. Dagvist aldraðra sem er stuðningsúrræði við þá sem að staðaldri þurfa eftirlit og umsjá til að geta búið áfram heima. Í dagvist aldraðra skal veitt hjúkrunarþjónusta og vera aðstaða til þjálfunar og læknisþjónustu. Boðið skal upp á flutningsþjónustu að og frá heimili einstaklingsins, mat á heilsufari, þjálfun, tómstundaiðju, félagslegan stuðning, fræðslu, ráðgjöf og aðstoð við athafnir daglegs lífs. Um framkvæmda- og rekstrarleyfi fyrir dagvist aldraðra fer skv. 16. og 17. gr.
  4. Þjónustuíbúðir aldraðra sem geta verið sjálfseignar-, leigu- og búseturéttaríbúðir. Áður en bygging þjónustuíbúða fyrir aldraða hefst ber að afla framkvæmdaleyfis hjá heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sbr. 16. gr. Í þjónustuíbúð fyrir aldraða skal vera öryggiskerfi og völ á fjölbreyttri þjónustu, svo sem mat, þvotti og þrifum, og aðgangur að félagsstarfi. Um greiðslu fyrir veitta þjónustu fer skv. 20. gr. Íbúar þjónustuíbúða skulu eiga rétt á sömu heima- og vaktþjónustu og aðrir íbúar sveitarfélagsins.


Stofnanir fyrir aldraða.

14. gr.

     Stofnanir fyrir aldraða samkvæmt lögum þessum eru:
  1. Dvalarheimili, sambýli og íbúðir, sérhannað fyrir þarfir aldraðra sem ekki eru færir um að annast heimilishald þrátt fyrir heimaþjónustu. Á stofnunum þessum skal vera varsla allan sólarhringinn, öryggiskerfi í hverri íbúð og völ á fjölbreyttri þjónustu, svo sem mat, þvotti, þrifum og félags- og tómstundastarfi. Aðstaða skal vera fyrir hjúkrun, læknishjálp og endurhæfingu. Þjónusta skal byggð á einstaklingsbundnu mati á þörfum hins aldraða og skal byggjast á hjálp til sjálfshjálpar.
  2. Hjúkrunarheimili eða hjúkrunarrými á öldrunarstofnunum ætluð öldruðum einstaklingum sem eru of lasburða til að dveljast á dvalarheimilum, sambýlum eða í sérhönnuðum íbúðum, sbr. 1. tölul. Þar skal veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta og vera endurhæfing. Sérstök aðstaða skal vera fyrir aldraða með heilabilunareinkenni. Þjónusta skal byggð á einstaklingsbundnu mati á heilsufarslegum og félagslegum þörfum hins aldraða. Möguleiki skal vera á að einstaklingar geti komið þar til skammtímavistunar, sé þess þörf. Við hönnun skal þess sérstaklega gætt að stofnunin sé heimilisleg og að sem flestir íbúar hafi eigið herbergi.

     Um framkvæmda- og rekstrarleyfi fyrir stofnanir skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. fer skv. 16. og 17. gr.

Vistunarmat.

15. gr.

     Stjórn dagvistar, sbr. 3. tölul. 13. gr., tekur ákvörðun um dagvistun og ásamt stjórn stofnunar fyrir aldraða, sbr. 14. gr., um vistun fólks á viðkomandi stofnun enda hafi öðrum skilyrðum þessarar greinar verið fullnægt.
     Engan má vista til langdvalar á stofnun fyrir aldraða skv. 14. gr. nema að undangengnu mati á vistunarþörf. Mat á vistunarþörf skal að jafnaði vera í höndum þjónustuhóps aldraðra.
     Hafi aldraður einstaklingur verið lengur en sex vikur á sjúkrahúsi án sérstakrar meðferðar skal meta þörf einstaklingsins fyrir vistun á öldrunarstofnun eða fyrir önnur úrræði.
     Í reglugerð skal setja ákvæði um vistunarmat og framkvæmd þess.

Framkvæmdaleyfi.

16. gr.

     Áður en framkvæmdir hefjast við dagvist fyrir aldraða skv. 3. tölul. 13. gr. eða stofnun fyrir aldraða skv. 14. gr. skal afla framkvæmdaleyfis heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.
     Áður en bygging þjónustuíbúða fyrir aldraða hefst skv. 4. tölul. 13. gr. ber að afla framkvæmdaleyfis hjá heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Sama á við um eldra húsnæði sem tekið er til slíkra nota. Gildir þetta jafnt um framkvæmdir á vegum sveitarfélaga og á frjálsum markaði. Enn fremur skal afla samþykkis heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins á teikningum áður en framkvæmdir hefjast og skýra ráðuneytinu frá því hver muni bera ábyrgð á rekstri sameignar og sameiginlegrar þjónustu í húsnæðinu.
     Beiðni um framkvæmdaleyfi fyrir dagvist eða stofnun fyrir aldraða skulu fylgja upplýsingar um verksvið stofnunar og staðsetningu, svo og uppdrættir af byggingum, lóð og umhverfi og afstöðu til nágrennis ásamt lýsingu á húsakynnum. Enn fremur skal fylgja greinargerð um eigendur og fjárhag þeirra. Beiðninni skal og fylgja umsögn þjónustuhóps aldraðra á því starfssvæði þar sem stofnunin mun verða.
     Sama gildir um allar meiri háttar breytingar á húsakynnum og starfsemi stofnunar fyrir aldraða.
     Áður en ráðherra heimilar framkvæmdir skal umsóknin send til umsagnar samstarfsnefndar um málefni aldraðra. Ef um hjúkrunarrými er að ræða skal umsóknin einnig send til umsagnar landlæknis og viðkomandi héraðslæknis.

Rekstrarleyfi.

17. gr.

     Áður en rekstur dagvistar skv. 3. tölul. 13. gr. og stofnunar fyrir aldraða skv. 14. gr. getur hafist skal sækja um rekstrarleyfi hjá heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.
     Umsókn um rekstrarleyfi skal fylgja greinargerð um eigendur stofnunar og fjárhag þeirra og skýrsla um starfsáætlun, stjórn, starfsfólk, rekstrarfyrirkomulag og hve mörgum vistmönnum stofnuninni er ætlað að sinna.
     Ráðherra veitir rekstrarleyfi ef stofnunin fullnægir heilbrigðiskröfum og ákvæðum þessara laga og ætla má að hún geti leyst verkefni sín á viðunandi hátt, sbr. og lög um heilbrigðisþjónustu.

Stjórn stofnana.

18. gr.

     Eigendur stofnana fyrir aldraða, sbr. 14. gr., skipa stjórn stofnunarinnar.
     Sé stofnunin í beinum starfstengslum við sjúkrahús gilda um stjórn stofnunar ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu.
     Starfsmannaráð tilnefnir einn mann af sinni hálfu til setu á fundum stjórnar stofnunar fyrir aldraða með málfrelsi og tillögurétti. Sama gildir um vistmannaráð.

V. KAFLI
Kostnaður við öldrunarþjónustu.

19. gr.

     Þeir sem þjónustu dagvistar njóta skulu taka þátt í kostnaði af dagvistinni að hámarki sem nemur óskertum grunnlífeyri einstaklings samkvæmt almannatryggingalögum. Að öðru leyti greiðist kostnaður vegna dagvistar af Tryggingastofnun ríkisins.

20. gr.

     Íbúar í þjónustuíbúðum, sbr. 4. tölul. 13. gr., greiða sjálfir þá þjónustu sem þar er veitt, aðra en heimaþjónustu, sbr. 24. gr., samkvæmt ákvörðun rekstraraðila.

21. gr.

     Dvalarkostnaður á stofnunum fyrir aldraða skv. 14. gr. greiðist af Tryggingastofnun ríkisins, sbr. þó 22. gr.
     Með dvalarkostnaði á stofnun fyrir aldraða er átt við daggjald eins og það er ákveðið af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sbr. 39. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar.

22. gr.

     Vistmenn, sem hafa tekjur umfram 30.386 kr. á mánuði, skulu taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar á stofnunum fyrir aldraða, sbr. 14. gr.
     Með tekjum sínum, sem eru umfram 30.386 kr. á mánuði, skal vistmaður greiða dvalarkostnað sinn að hluta eða öllu leyti.
     Setja skal reglugerð með nánari ákvæðum um þátttöku vistmanna í greiðslu dvalarkostnaðar, m.a. um hækkun viðmiðunartekna.

23. gr.

     Vistmaður á stofnun fyrir aldraða, sbr. 14. gr., sem ekki hefur aðrar tekjur en bætur almannatrygginga, fær ráðstöfunarfé frá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. lög um almannatryggingar.

24. gr.

     Kostnaður af rekstri heimaþjónustu skiptist þannig að sveitarfélög bera kostnað af félagslegum þætti hennar en ríkissjóður af heilbrigðisþættinum.
     Sveitarstjórnir geta ákveðið greiðsluþátttöku einstaklinga í þeirri heimaþjónustu sem þær veita, sbr. lög um félagsþjónustu sveitarfélaga.
     Undanþegnir gjaldskyldu vegna heimaþjónustu skulu þeir sem ekki hafa aðrar tekjur en ellilífeyri og tekjutryggingu samkvæmt almannatryggingalögum.

VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.

25. gr.

     Þær stofnanir fyrir aldraða, sem starfandi eru við gildistöku þessara laga, skulu í hvívetna háðar ákvæðum þeirra.

26. gr.

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, m.a. um húsnæði, búnað stofnana fyrir aldraða og aðbúnað og þjónustu fyrir vistmenn, svo og starfsfólk stofnana eftir starfsemi þeirra.

27. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 82/1989, um málefni aldraðra.

Samþykkt á Alþingi 21. desember 1999.