Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 43. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 43  —  43. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um samstarf við Færeyjar og Grænland um námskeið fyrir starfandi
og upprennandi rithöfunda í löndunum þremur.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að koma á samstarfi við stjórnvöld í Færeyjum og á Grænlandi um skipulagningu námskeiða fyrir starfandi og upprennandi rithöfunda í samvinnu við rithöfundasambönd landanna með það að markmiði að styrkja ritlist og sagnahefð í löndunum.

Greinargerð.

    Tillaga þessi, sem var áður flutt á 141. löggjafarþingi (þingskjal 1283, 688. mál), er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 1/2012 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 6. september 2012 í Gjógv og Þórshöfn í Færeyjum.
    Vestur-Norðurlönd eiga margt sameiginlegt þegar kemur að ritlist og sagnahefð og hafa grænlenskir, færeyskir og íslenskir rithöfundar með starfi sínu lagt sitt af mörkum til að auka skilning á menningu landanna þriggja. Á tímum hnattvæðingar er nauðsynlegt að styrkja menningu lítilla samfélaga til að auka sjálfsvitund og skilning á menningu þeirra.
    Sagnahefð meðal vestnorrænna þjóða hefur séreinkenni sem verður að leggja rækt við og mega ekki glatast. Því er mikilvægt að Vestur-Norðurlönd geti í sameiningu styrkt og rutt brautina fyrir upprennandi rithöfunda með rithöfundanámskeiðum. Íslendingar búa að langri og merkri bókmenntasögu sem margt má læra af. Í Færeyjum er sagnahefðin auðug og Grænlendingar eiga þjóðsagnaarf sem ungt fólk þar í landi sýnir áhuga.
    Með því að skipuleggja rithöfundanámskeið með þátttöku frá löndunum þremur er kominn vettvangur til að miðla ólíkri reynslu landanna, skiptast á skoðunum, ábendingum og ráðum til starfandi og upprennandi rithöfunda á metnaðarfullan hátt.
    Stjórnvöld landanna eru hvött til að beita sér fyrir því að styrkja og tryggja sameiginlegar aðgerðir til að styrkja ritmenningu og rithöfunda landanna á enn metnaðarfyllri hátt en hingað til hefur verið gert.