Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 88. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 88  —  88. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um stuðning við sjálfsákvörðunarrétt íbúa Vestur-Sahara.


Flm.: Steinunn Þóra Árnadóttir, Katrín Jakobsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon,
Birgitta Jónsdóttir, Róbert Marshall, Helgi Hjörvar,
Björk Vilhelmsdóttir, Höskuldur Þórhallsson.


    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að sjálfsákvörðunarréttur íbúa Vestur-Sahara verði virtur.


Greinargerð.

    Vestur-Sahara er land á norðvesturströnd Afríku. Landið er fámennt og strjálbýlt, rétt um hálf milljón manna á um 270 þúsund ferkílómetra svæði, þar af flestir í höfuðstaðnum El- Aalún. Til ársins 1975 laut Vestur-Sahara stjórn Spánverja og nefndist þá Spænska-Sahara.
    Brotthvarf Spánverja leiddi ekki til þess að heimamenn, Sahrawi-þjóðin, fengju stofnað sitt eigið ríki heldur seildust grannríkin Máritanía og Marokkó til áhrifa í landinu. Fór svo að lokum að Marokkó hernam landið og hefur farið þar með völd til þessa dags. Yfirráð Marokkós hafa einkennst af rányrkju auðlinda og markvissri viðleitni til innlimunar svæðisins. Sahrawi-þjóðin býr nú ýmist innan landamæra Vestur-Sahara eða í flóttamannabúðum í Alsír.
    Alþjóðasamfélagið hefur aldrei viðurkennt innlimun Marokkós á Vestur-Sahara og skilgreina Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðadómstóllinn landið sem „svæði sem ekki nýtur sjálfstjórnar“. Ítrekað hefur þess verið krafist að Marokkóstjórn viðurkenni sjálfsákvörðunarrétt íbúa Vestur-Sahara, þ.m.t. flóttamanna, og að landsmönnum sjálfum verði leyft að ákvarða framtíð sína.
    Ógæfa Sahrawi-þjóðarinnar er hins vegar sú að vera fámenn og afskekkt. Örlög Vestur- Sahara skipta stórveldi heimsins litlu máli, auk þess sem einstök ríki og ríkjabandalög sjá sér hag í að halda góðum tengslum við stjórnvöld í Marokkó.
    Það liggur þó beint við að Íslendingar láti sig málefni Vestur-Sahara varða. Í báðum tilvikum er um að ræða fámennar þjóðir í strjálbýlum löndum við Atlantshaf. Ísland hefur lagt sig eftir því á vettvangi alþjóðamála að styðja við baráttuna fyrir sjálfsákvörðunarrétti smáþjóða. Má í því samhengi sérstaklega nefna stuðning við sjálfstæðisbaráttu Austur-Tímor. Með því að tala máli Sahrawi-fólksins á alþjóðavettvangi gætu íslensk stjórnvöld lagt mikilvægt lóð á vogarskálar friðar og lýðræðis í Norðvestur-Afríku.