Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 196. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 244  —  196. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um varðveislu menningararfleifðar á stafrænu formi.


Flm.: Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson,
Vilhjálmur Árnason, Vilhjálmur Bjarnason.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að setja fram markvissa, heildstæða og metnaðarfulla stefnu um varðveislu íslenskrar menningararfleifðar á stafrænu formi og leggja drög að því að verkið verði unnið á næstu 10–20 árum eftir því hversu umfangsmikið það verður talið.


Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður flutt á 139. löggjafarþingi (þskj. 789, 487. mál), 140. löggjafarþingi (þskj. 118, 118. mál) og 141. löggjafarþingi (þskj. 158, 158. mál). Á 140. þingi fjallaði allsherjar- og menntamálanefnd um málið og lagði til í nefndaráliti sínu að tillagan yrði samþykkt óbreytt (þskj. 1209). Tillagan er nú endurflutt óbreytt.
    Kveikjan að þessari þingsályktunartillögu er grein eftir Styrmi Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóra, sem ber heitið „Risavaxið menningarverkefni sem hefja þarf vinnu við“ (Sunnudagsmogginn, 23. janúar 2011). Í greininni segir m.a.: „Snemma í janúar var frá því skýrt í Brussel að nefnd þriggja vísra manna hefði komizt að þeirri niðurstöðu að kostnaður við að koma bókasöfnum, öðrum söfnum og þjóðskjalasöfnum í stafrænt form og varðveita með þeim hætti evrópska menningararfleifð mundi nema um 100 milljörðum evra … Markmiðið með slíku verkefni væri annars vegar að auðvelda fólki aðgang að þeirri samansöfnun þekkingar sem þar væri að finna og hins vegar að koma í veg fyrir að þessi menningarverðmæti yrðu eyðilögð vegna hernaðarátaka eða náttúruhamfara. Í því sambandi var minnt á að innrás Bandaríkjanna í Írak leiddi til þess að ein milljón bóka, 10 milljónir skjala og 14 þúsund fornleifamunir eyðilögðust.“
    Styrmir Gunnarsson fjallar og í grein sinni um mikilvægi þess að við Íslendingar varðveitum menningararfleifð okkar, mikilvægi þess að komandi kynslóðir geti kynnt sér og þekki sögu lands og þjóðar sem þjóðarvitund okkar byggist á að verulegu leyti.
    Það er að sönnu ekki hægt að bera saman hugsanlega eyðileggingu eða glötun menningarverðmæta á Íslandi og í stríðshrjáðum löndum. Eigi að síður er umræðan um varðveislu menningararfleifðar okkar umhugsunarverð. Við hljótum að spyrja þeirra spurninga hvernig varðveita megi menningararfleifð okkar og gera hana aðgengilega komandi kynslóðum.
    Markmið þessarar þingsályktunartillögu er annars vegar að koma í veg fyrir að menningarverðmæti glatist eða eyðileggist og hins vegar að auðvelda fólki aðgang að menningarverðmætum sem væri að finna á stafrænu formi.
    Í mars 2006 kom menntamálaráðuneytið á fót vinnuhópi til að fjalla um tæknileg málefni er varða varðveislu rafrænna gagna. Vinnuhópurinn starfaði á vegum nefndar um endurskoðun laga um Þjóðskjalasafn Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Í vinnuhópnum voru Halla Björg Baldursdóttir forsætisráðuneyti, formaður, Bjarni Þórðarson frá Þjóðskjalasafni, Guðmundur Halldór Kjærnested frá menntamálaráðuneyti, Ingibjörg Sverrisdóttir frá Landsbókasafni – Háskólabókasafni og Kjartan Ólafsson frá Fakta.
    Vinnuhópnum var ætlað að láta gera úttekt á því hvernig staðið er að varðveislu rafrænna gagna í þeim löndum sem lengst eru komin í þeim efnum og í framhaldi af því að gera tillögur um val á stöðlum og tillögur um tæknilegar aðferðir við varðveislu rafrænna gagna og aðgengi að þeim. Einnig var hópnum ætlað að leggja fram verkefnaáætlun við innleiðingu lausnanna.
    Nefnda úttekt gerðu þau Björn Þór Jónsson, PhD í tölvunarfræði, dósent við Háskólann í Reykjavík, og Margrét Eva Árnadóttir, BA í bókasafns- og upplýsingafræði og BSc í verkfræði. Skýrsla þeirra kom út í lok janúar 2007 og bar heitið Skýrsla um stöðu þekkingar og færni í langtímavarðveislu stafræns efnis. Í skýrslunni er fjallað um sérstöðu stafræns efnis en hún felst einkum í því að það varðveitist ekki af sjálfu sér eins og pappír getur gert, heldur þarf það nánast gjörgæslu vegna síbreytilegrar tækni. Lykilatriði er því að hin stafrænu gögn séu ætíð aðgengileg með tölvubúnaði hvers tíma.
    Með mótun markvissrar, heildstæðrar og metnaðarfullrar stefnu þarf að tryggja að bókmenntaverk, tónverk, myndverk og önnur menningarverðmæti fyrri alda, áratuga og ára verði alltaf tiltæk almenningi á stafrænu formi.
    Tækniframfarir eru hraðar og miklar og ný tæki, t.d. til lestrar, eru að ryðja sér til rúms. Má þess vænta að innan tíðar verði slík tæki orðin mjög almenn. Þess vegna þarf að hefja þetta verk og koma menningararfleifð okkar í það form sem nýjasta tækni gefur kost á.
    Slíkt menningarverkefni er umfangsmikið og krefst verulegra fjármuna en með því að setja raunhæf markmið til nokkurra ára ætti verkefnið að geta orðið fjárhagslega framkvæmanlegt. Í náinni framtíð eru tvö stórafmæli á Íslandi, 100 ára afmæli fullveldis 1. desember 2018 og 1100 ára afmæli Alþingis 2030. Þjóðargjöfin gæti verið sú að hefjast handa við þetta verkefni í ár og ljúka því árið 2030.