Ferill 4. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 308  —  4. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um stimpilgjald.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund hennar komu Guðrún Þorleifsdóttir, Ingibjörg Helga Helgadóttir, Margrét Ágústa Sigurðardóttir og Maríanna Jónasdóttir frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Árni Jóhannsson frá Samtökum iðnaðarins, Ásta Sólveig Andrésdóttir og Ingi Þór Finnsson frá Þjóðskrá Íslands, Jónas Rafn Tómasson frá KPMG ehf., Þórólfur Halldórsson frá Sýslumannafélagi Íslands, Jóna Björk Guðnadóttir frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Ragna Pálsdóttir frá Íslandsbanka hf. og Jón Þór Sturluson frá Fjármálaeftirlitinu. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Þjóðskrá Íslands, Sýslumannafélagi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Byggðastofnun, KPMG ehf., Neytendasamtökunum, Samtökum fjármálafyrirtækja, Viðskiptaráði Íslands, Seðlabanka Íslands, Félagi fasteignasala og sameiginleg umsögn frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins.
    Með frumvarpinu er stefnt að því að einfalda innheimtu stimpilgjalds. Gjaldskylda mun samkvæmt frumvarpinu aðeins ná til eignayfirfærsluskjala fasteigna og skrásettra skipa yfir 5 brúttótonnum að stærð og lagt til að felld verði niður skylda til að greiða stimpilgjald vegna ýmissa skjala sem eru stimpilgjaldsskyld samkvæmt gildandi lögum. Á móti kemur að lagt er til að gjaldhlutföll eignayfirfærsluskjala verði hækkuð enda byggist frumvarpið á þeirri stefnumörkun að álögð stimpilgjöld skili óbreyttum tekjum í ríkissjóð.

Einföldun stimpilgjaldskerfisins.
    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum frumvarpsins er það að mestu leyti afurð starfshóps sem vann samkvæmt því markmiði að einfalda álagningu stimpilgjalds og framkvæmd innheimtu. Vinna starfshópsins fór m.a. fram vegna ákvarðana Eftirlitsstofnunar EFTA sem hafði komist að þeirri niðurstöðu að stimpilgjald af skjölum er vörðuðu skilmálabreytingar lána væri samkeppnishamlandi og gengi mögulega gegn fjórfrelsisákvæðum EES-samningsins. Í ljósi þess vann starfshópurinn einnig samkvæmt því markmiði að skapa samkeppnishæfara umhverfi á fjármálamarkaði. Þá lá það grundvallarmarkmið að baki vinnunni að gjaldtakan yrði sanngjarnari en áður án þess að tekjur ríkissjóðs yrðu skertar.
    Langflestir umsagnaraðila og gesta nefndarinnar fögnuðu áætlunum um að einfalda lagaumhverfi stimpilgjalda. Flestir virðast telja marga þætti frumvarpsins til mikilla bóta. Var því sérstaklega fagnað að frumvarpið fæli í sér áætlanir um niðurfellingu stimpilgjalda af ýmsum viðskiptabréfum sem m.a. hefði í för með sér lækkun stimpilgjalds einstaklinga sem fjármagna fasteignakaup með lántökum.
    Mat nefndarinnar er að einföldun umhverfis stimpilgjalda geti eflt samkeppni á fjármálamarkaði, fyrirtækjum og einstaklingum til hagsbóta. Standa vonir nefndarinnar til þess að frumvarpið verði fyrsta skrefið af mörgum í lækkun stimpilgjalda sem á endanum muni leiða til afnáms þeirra.
Staða opinberra lánastofnana.
    Athygli nefndarinnar var vakin á því að frumvarpið kynni að hafa áhrif á stöðu tveggja opinberra lánastofnana. Þannig kom annars vegar fram að frumvarpið gæti haft bein áhrif á lánasafn Byggðastofnunar og Íbúðalánasjóðs þar sem hagstæðara yrði að greiða upp lán hjá stofnununum. Þannig var bent á að uppgreiðsluáhætta kynni að aukast þegar frumvarpið fengi lagagildi. Hins vegar kom fram að kostnaður Byggðastofnunar mundi hækka þar sem gert væri ráð fyrir að stimpilgjald vegna eignayfirfærslu lögaðila hækkaði.
    Frumvarpið boðar m.a. þá meginbreytingu að skuldaskjöl verði ekki stimpilgjaldsskyld. Vísi að slíkri reglu er þó þegar að finna í gildandi lögum um stimpilgjald. Skv. 24. gr. b. þeirra er óskylt að greiða stimpilgjald af þeim hluta nýs fasteignaveðskuldabréfs sem svarar til uppreiknaðs virðis eldra bréfs ásamt vanskilum þegar fasteignaveðskuldabréf einstaklings er endurnýjað með nýju bréfi sem kemur í stað þess eldra að hluta eða öllu leyti samkvæmt áritun á skuldabréf sem gefið er út til endurfjármögnunar. Þessi heimild kom inn í meginmál laganna í desember 2012 en bráðabirgðaákvæði sama efnis hafði þó verið í gildi frá nóvember 2008.
    Nefndinni virðist sem sumir umsagnaraðilar hafi ofmetið þá áhættuaukningu sem frumvarpið kann að hafa í för með sér fyrir Íbúðalánasjóð, a.m.k. virðist áhyggjuefnið nú þegar til staðar í gildandi löggjöf. Ætti að bregðast við slíku þyrfti nefndin að leggja til breytingu á frumvarpinu sem fæli í sér að lokað yrði á þær uppgreiðsluheimildir sem er að finna í 24. gr. b laganna. Eins og fram hefur komið er þeirri einföldun sem frumvarpið felur í sér m.a. ætlað að efla samkeppni milli fjármálafyrirtækja. Verði dregið úr einfölduninni og raskað því jafnvægi sem ríkir í frumvarpinu er líklegt að efling samkeppni verði minni fyrir vikið. Ef unnið yrði gegn útlánaáhættu lánastofnana með slíkum hætti yrðu viðskiptavinir þeirra í raun fastir í viðskiptasambandi við þær. Ljóst verður að telja að hagsmunir borgaranna verði best tryggðir með auknu svigrúmi í viðskiptum við fjármálastofnanir. Þannig má draga í efa að frávik frá markmiðinu um aukna samkeppni fjármálafyrirtækja hafi þjóðhagslegan ávinning í för með sér til langs tíma litið.
    Að mati nefndarinnar þarf að taka á vanda opinberra lánastofnana á öðrum vettvangi. Það getur vart talist eðlilegt að þróun í átt til aukinnar hagkvæmni í viðskiptalífi líði beinlínis fyrir erfiðleika tengda rekstri opinberra lánastofnana. Þannig væri eðlilegt að bregðast við vanda þeirra með breytingum á innri virkni eða innspýtingu fjármagns þar sem þess gerist þörf. Til að mynda má benda á að skv. 15. gr. reglugerðar nr. 522/2004, um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, er ráðherra heimilt að ákveða að aukaafborganir og uppgreiðsla ÍLS-veðbréfa séu aðeins heimilar gegn greiðslu uppgreiðslugjalds.

Skjöl er varða eignayfirfærslu.
    Í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að stimpilgjald verði greitt af skjölum er varða eignaryfirfærslu fasteigna og skipa. Samkvæmt athugasemdum frumvarpsins er þannig gert ráð fyrir að gjaldskyldan nái til afsala, kaupsamninga, gjafagerninga og annarra gerninga sem kveða á um eignaryfirfærslu. Skv. 3. mgr. 3. gr. ræðst gjaldskyldan af þeim réttindum sem skjal veitir en ekki efni þess eða formi.

Samrunar og skipting.
    Nefndinni bárust ábendingar þess efnis að Hæstiréttur Íslands hefði með dómi frá 27. janúar 2005 (Hrd. 306/2004) staðfest að skjöl sem kvæðu á um breytingu á eigandaskráningu fasteigna í kjölfar samruna félaga teldust ekki stimpilgjaldsskyld enda kvæðu þau ekki á um eigendaskipti í skilningi gildandi laga um stimpilgjald. Var nefndin hvött til þess að tryggja að ekki léki vafi á að sama skilning ætti að leggja í 3. gr. frumvarpsins.
    Fyrir nefndinni var því sjónarmiði hreyft hvort ekki væri eðlilegt að stimpilgjaldsskylda næði til skjala sem kvæðu á um réttindatilfærslu yfir fasteignum í kjölfar samruna ellegar skjala sem kvæðu á um umskráningu í kjölfar skiptingar félaga. Bent var á að ella væri í raun boðið upp á tækifæri til sniðgöngu stimpilgjaldsskyldu og eðlilegra væri að tryggja að raunverulegir hagsmunir lægju til grundvallar ákvörðunum um samruna og skiptingu félaga. Þá var vísað til samkeppnissjónarmiða og bent á að stór félög hefðu e.t.v. betri tök á að færa eignir til með stofnun og samruna eða skiptingu félaga en þau sem minni væru og slíkt skapaði ósanngjarnan aðstöðumun.
    Að mati nefndarinnar eru þau rök sem hafa verið færð fyrir stimpilgjaldsskyldu skjala sem kveða á um umskráningu fasteigna fyrir samruna eða skiptingu nokkuð knýjandi. Skilningur nefndarinnar er að með frumvarpinu séu lagðar til breytingar á því hvaða gerningar geta legið til grundvallar gjaldskyldum skjölum. Þannig er gjaldskyldan rýmkuð og látin ná til skjala sem kveða á um eignaryfirfærslu fasteigna og tiltekinna skipa en hingað til hefur hún náð til þeirra skjala sem sérstaklega eru tilgreind í lögunum og kveða á um eigendaskipti. Í eigendaskiptum í skilningi gildandi laga um stimpilgjald felst að eignarréttur skiptir um hendur, nýr eigandi kemur í stað fyrri eiganda og endurgjald kemur fyrir. Slíkum skilningi bregður m.a. fyrir í áðurgreindum dómi Hæstaréttar Íslands frá 27. janúar 2005. Í eignaryfirfærslu felst hins vegar sérhver tilfærsla eigna milli eigenda óháð endurgjaldi, svo sem við samruna félaga í skilningi félagaréttar. Í því ljósi telur nefndin sýnt að skjöl sem kveða á um eignaryfirfærslu í kjölfar samruna og skiptingar félaga séu gjaldskyld samkvæmt frumvarpinu.

Eignaryfirfærslur innan félagasamstæða.
    Fyrir nefndinni kom það sjónarmið fram að eðlilegt væri að fella inn í frumvarpið undanþágu frá greiðslu stimpilgjalds af skjölum sem varða tilfærslu eigna milli félaga innan félagssamstæða. Talið var að sjónarmiðið ætti að fá aukið vægi þar sem gert væri ráð fyrir hækkun stimpilgjalds á lögaðila og slíkar undanþágur væru vel þekktar erlendis. Hvað fjármálastofnanir varðar kom fram að slíkum stofnunum gæti verið nauðsynlegt að reka dótturfélög í þeim tilgangi að halda utan um tilteknar eignir. Til dæmis fælu bankar dótturfélögum gjarnan að bera ábyrgð á umsýslu og ráðstöfun fullnustueigna sem þeir eignast í kjölfar fullnustugerða eða annars konar skuldaskila og hafa í hyggju að selja. Var því haldið fram að frumvarpið fæli í sér mikinn kostnaðarauka þegar að slíkri eignaumsýslu kæmi og að hið sama ætti við um slit dótturfélaga að breyttu breytanda.
    Að mati nefndarinnar hefur yfirfærsla eignarréttar ávallt einhvern tilgang. Í sumum tilvikum er sá tilgangur einungis skipulagslegur en oftar hefur eignaryfirfærsla milli félaga eitthvert annað hagræði í för með sér, t.d. tilfærslu eða takmörkun áhættu. Þeir sem ráðast í slíka yfirfærslu bera af henni kostnað og vega og meta hvort hagræði yfirvegur kostnað. Nefndin telur ekki óeðlilegt að eignaryfirfærslur innan félagasamstæður séu gjaldskyldar.

Kaupleiga.
    Fyrir nefndinni voru leiddar líkur að því að með frumvarpinu væru auknar álögur lagðar á fjármögnun fasteigna í formi kaupleigu. Þannig kom fram að í kaupleigusamningi um fasteign fælist að samið væri um að hún yrði tekin á leigu en að leigjandinn gæti sjálfkrafa orðið eigandi fasteignarinnar þegar samanlagðar leigugreiðslur hans hefðu náð tilskilinni upphæð. Sú leiga sem greidd hefur verið verður þá hluti kaupverðsins eða jafngildi þess. Þá kom fram að slíkum samningum fylgdu tvær eignaryfirfærslur vegna sama samnings. Annars vegar þyrfti leigusali að kaupa leiguhlutinn, fasteignina, til að geta leigt hana og skjöl sem kvæðu á um eignaryfirfærslu sem fylgdi slíkum kaupum yrðu stimpilgjaldsskyld. Hins vegar þyrfti nýr eigandi, leigjandinn, að taka við fasteigninni að leigutíma loknum og skjöl sem kvæðu á um þá eignaryfirfærslu væru einnig stimpilgjaldsskyld. Voru áætlanir um hækkun gjaldhlutfalls þegar rétthafi er lögaðili taldar sérstaklega íþyngjandi í tilviki kaupleigu. Á fundi nefndarinnar kom einnig fram að viðskiptavinir kaupleigusala nytu hagræðis af því að leigja fasteignir kaupleigu, annars vegar skattalegs hagræðis og hins vegar hagræðis þegar kæmi að nýtingu fjárheimilda.
    Af dómaframkvæmd Hæstaréttar má sjá að hann hefur litið svo á að kaupleigusamningar séu í raun lánasamningar í skilningi laga um vexti og verðtryggingu. Virðist Hæstiréttur í slíkum tilvikum hafa litið sérstaklega til þess að hin leigða eign verði eign leigjanda að leigutíma liðnum. Skilningur nefndarinnar er sá að áhætta eiganda hvíli á leigusala allt þar til eignaryfirfærsla á sér stað undir lok kaupleigusamnings. Slíka áhættu er þó að miklu leyti hægt að flytja yfir á leigjandann með ákvæðum samningsins.
    Kaupleigu fasteigna virðist í sumum tilvikum fylgja nokkurt hagræði. Kaupleigusali hefur möguleika á að verðleggja leigugjald þannig að hann sitji ekki uppi með kostnað sem fellur til vegna eignarhalds og eignaryfirfærslu innan samningssambandsins. Kaupleigukaupandi getur á móti dreift kostnaði vegna kaupa á fasteign yfir allan leigutímann. Í flestum tilvikum virðist samningstími kaupleigusamninga um fasteignir nokkuð langur og því dreifist samningskostnaður á langan tíma. Nefndin hefur enn sem komið er ekki séð ástæðu til þess að undanþiggja gjaldskyldu skjöl sem kveða á um eignaryfirfærslu vegna kaupleigu eða veita afslátt af stimpilgjaldi vegna þeirra.

Gjaldstofn.
    Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að það verð fasteignar sem tilgreint er í skjali sem kveður á um eignaryfirfærslu myndi gjaldstofn stimpilgjalds.
    Fyrir nefndinni voru gerðar verulegar athugasemdir við markaðsverð fasteigna sem gjaldstofn stimpilgjalds. Þannig kom fram að slíkt kynni að hafa í för með sér hættu á að kaupendur og seljendur fasteigna gæfu upp lægra verð en raunverulega væri greitt fyrir fasteignir til þess að hafa áhrif á fjárhæð stimpilgjalds sem þeim bæri að greiða. Þá var bent á að upp gæti komið aðstæður þar sem kaupendur og seljendur vildu gæta trúnaðar um kaupverð fasteigna og frumvarpið kæmi í veg fyrir að það væri mögulegt. Þá var gagnrýnt að sýslumönnum væri í sumum tilvikum fengnar rúmar heimildir til töku ákvarðana um álagningu stimpilgjalds. Einnig var gagnrýnt að með því að gera markaðsverð fasteigna að gjaldstofni væri vikið frá því markmiði að einfalda stimpilgjaldskerfið þar sem vinna sýslumanna við að ákvarða rétt markaðsverð gæti orðið umfangsmikil, flókin og kostnaðarsöm.
    Í framsöguræðu fjármála- og efnahagsráðherra kom m.a. fram að hann teldi það geta verið einfaldara að miða gjaldtökuna við fasteignamatsverð enn um sinn og óskaði hann eftir því að nefndin tæki þetta atriði til sérstakrar skoðunar. Athugun nefndarinnar hefur leitt í ljós að það getur verið erfiðleikum háð að gera markaðsverð fasteigna að gjaldstofni stimpilgjalds. Á það ekki síst við þegar ágreiningur kemur upp um hvað sé rétt markaðsverð. Þannig er hugsanlegt að við slíkar aðstæður muni taka langan tíma að ákvarða verðið auk þess sem verðákvörðun getur kallað á kostnaðarsamar og flóknar aðgerðir af hálfu sýslumanna. Af þessum sökum leggur nefndin til breytingu á 4. gr. frumvarpsins. Annars vegar verði 2. mgr. 4. gr. breytt þannig að hún kveði á um að stimpilgjald af gjaldskyldu skjali sem kveður á um eignaryfirfærslur fasteigna skuli ákvarðast eftir matsverði fasteignar eins og það er skráð í fasteignaskrá. Í því ljósi leggur nefndin einnig til að 2. málsl. 11. mgr. 4. gr. verði felldur brott.
    Skilningur nefndarinnar er að breytingar sem orðið hafa á framkvæmd fasteignamats síðustu ár miðist við að fasteignamatsverð fasteigna endurspegli markaðsverð eins og unnt er. Afar brýnt er að vinnu við þessar breytingar verði haldið áfram og stefnt verði að því að fasteignamatsverð endurspegli markaðsverð sem víðast.

Gjaldhlutfall.
    Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að gjaldhlutfall einstaklinga verði 0,8% af gjaldskyldu skjali en að gjaldhlutfall lögaðila verði 1,6%.
    Fyrir nefndinni voru gerðar athugasemdir við þetta fyrirkomulag og gagnrýnt að ætlunin væri að hækka verulega stimpilgjald sem lagt væri á lögaðila en hafa gjald einstaklinga óbreytt miðað við tiltekna skuldsetningu. Bent var á að lánsfjármögnun lögaðila hefði hingað til að miklu leyti verið tryggð með tryggingabréfum sem borið hefðu 0,5% stimpilgjald.
    Í 9. lið þingsályktunar um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi (9. mál á 142. löggjafarþingi) samþykkti Alþingi að stefna að afnámi stimpilgjalda vegna kaupa einstaklinga á húsnæði til eigin nota. Eins og fram hefur komið er frumvarpið lagt fram með einföldun stimpilgjaldakerfisins að leiðarljósi ásamt því sem stefnt er að því að tryggja óbreyttar tekjur ríkissjóðs af stimpilgjöldum.
    Að mati nefndarinnar er tvímælalaust rétt að einstaklinga vera í forgrunni við einföldun stimpilgjaldakerfisins. Vera kann að af þeim sökum þurfi lögaðilar að sæta auknum álögum, a.m.k. tímabundið á meðan undið er ofan af stimpilgjöldum. Þannig telur nefndin að tilgangurinn helgi meðalið, ríkissjóður og lögaðilar verði að takast á við breyttar aðstæður þar til æskilegar kerfisbreytingar hafa náð fram að ganga.
    
Undanþága vegna fyrstu íbúðakaupa.
    Í 35. gr. a gildandi laga um stimpilgjald eru skuldabréf og tryggingarbréf sem tryggð eru með veði í fasteign og gefin eru út til fjármögnunar fyrstu kaupa á íbúðarhúsnæði einstaklings gerð stimpilfrjáls að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Aftur á móti eru skjöl er veita eða framselja réttindi yfir slíku húsnæði stimpilskyld.
    Gestir og umsagnaraðilar gerðu verulegar athugasemdir við að ekkert sambærilegt ákvæði væri að finna í frumvarpinu. Þannig kom fram að stimpilgjald við fyrstu íbúðakaup mundi tvöfaldast við gildistöku laganna. Bent var á að staða ungs fólks sem er að feta sín fyrstu spor á fasteignamarkaði væri afar erfið og margir ættu erfitt með að fjármagna fyrstu kaup. Þá væri leiguverð íbúða almennt svo hátt að margir hefðu ekki efni á því að leigja íbúð. Fram kom að sú ívilnun sem felst í ákvæði gildandi laga hafi reynst mjög vel enda um væri fyrsta innkoma inn á fasteignamarkað oft mjög þung.
    Nefndin er sammála framangreindri gagnrýni. Nauðsynlegt er að veita þeim sem kaupa íbúð í fyrsta sinn ívilnun og auðvelda þeim innkomu á fasteignamarkað. Aðstæður sem hér hafa skapast í kjölfar efnahagsáfalla árið 2008 gera stöðu þessa hóps enn erfiðari en áður. Þá hefur þróun leiguverðs reynst þessum hópi afskaplega óhagstæð. Í því ljósi leggur nefndin til að sex nýjar málsgreinar bætist við 5. gr. frumvarpsins. Þar verði kveðið á um að einstaklingar sem kaupa í fyrsta sinn íbúðarhúsnæði greiði hálft stimpilgjald af gjaldskyldu skjali. Því afsláttarviðmiði er ætlað að gera stöðu þessa fólks sem næst þá sömu og hún er samkvæmt gildandi lögum. Afslátturinn verður þó háður tilteknum skilyrðum eins og verið hefur. Þannig megi kaupandinn ekki áður hafa verið þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði og hann þarf að verða þinglýstur eigandi að a.m.k. helmingi keyptrar eignar. Um nánari skýringu ákvæðisins vísast til laga nr. 126/2011 * og lögskýringargagna að breyttu breytanda. Þá leggur nefndin til að ráðherra verði gert að kveða nánar á um fyrirkomulag afsláttarins og gerir hún tillögu um breytingu á 14. gr. frumvarpsins í því skyni.

Gjalddagi og eindagi stimpilgjalda.
    Fyrir nefndinni kom fram að þeirri viðskiptavenju væri almennt fylgt að kaupsamningar og afsöl er varða eignaryfirfærslu fasteigna væru færðir til þinglýsingar af fasteignasölum sem önnuðust skjalagerð vegna fasteignakaupa. Undantekningarlítið greiddi kaupandi fasteignasalaum þinglýsingar- og stimpilgjald vegna skjalanna við undirritun kaupsamnings til fasteignasalans. Fasteignasalinn hefði milligöngu um að færa skjölin til þinglýsingar, að jafnaði innan fárra daga frá undirritun. Í ljósi þessarar venju var talið ástæðulaust að ákveða gjalddaga stimpilgjalds tveimur mánuðum eftir að gjaldskylda stofnast og bent á að nær væri að gjalddagi væri þegar gjaldskylda stofnast en að eindagi væri tveimur mánuðum síðar.
    Nefndin felst á framangreind rök og leggur til breytingu á 7. gr. frumvarpsins. Þannig verði í 2. mgr. hennar kveðið á um að gjalddagi vegna gjaldskylds skjals verði þegar gjaldskylda stofnast, sbr. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins en eindagi verði tveimur mánuðum síðar. Þá leggur nefndin til að hnykkt verði á greiðsluskyldu stimpilgjalds og kveðið verði á um það í 3. mgr. að greiða skuli stimpilgjald þegar gjaldskylt skjal er afhent til þinglýsingar.

Heimild til að fella niður álag á stimpilgjald.
    Í 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins er kveðið á um skyldu til að greiða álag til viðbótar því stimpilgjaldi sem greiða bar ef stimpilgjald er ekki greitt á gjalddaga. Í 3. mgr. er aftur á móti lagt til að sýslumönnum verði heimilt að fella álagið niður færi gjaldandi gildar ástæður sér til málsbóta. Nefndin velti fyrir sér hvort sýslumönnum væri fengið of rúmt mat við niðurfellingu álagsins og hvort ástæða væri til þess að ramma það betur inn.
    Skoðun nefndarinnar leiddi í ljós að ákvæði um niðurfellingu álags er að finna á nokkrum stöðum í skattalöggjöf. Í slíkum ákvæðum í tekjuskattslögum virðast mögulegar ástæður niðurfellingar tilgreindar á örlítið nákvæmari hátt en gert er í 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins. Þannig er tekið fram í 108. gr. laga um tekjuskatt að fella megi niður álag ef maður færir rök fyrir því að honum verði eigi kennt um annmarka á framtali eða vanskil framtals, eða að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann skilaði framtali á réttum tíma, bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess. Ákvæði virðisaukaskattslaga er hins vegar hvað orðalag snertir sambærilegt 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins.
    Í framkvæmd yfirskattanefndar má sjá dæmi þess að reynt hafi á ákvæði um niðurfellingu álags í framangreindum lögum. Virðist yfirskattanefnd í ríkum mæli hafa byggt úrskurði á því að skattaðila verði ekki kennt um t.d. annmarka á framtali eða vanskil á virðisaukaskatti. Virðist þannig sem ströngu mati sé beitt og t.d. litið svo á að þótt endurskoðandi skattaðila hafi gert mistök við framtalsgerð eða fyrirsvarsmaður gert mistök við skattskil þá geti það ekki talist nægileg ástæða til þess að heimild til lækkunar álags verði nýtt.
    Skilningur nefndarinnar er sá að gildar ástæður í skilningi ákvæðisins vísi til þess að skattaðila verði ekki kennt um að skylda til greiðslu stimpilgjalds hafi ekki verið virt réttilega. Þannig sé komið í veg fyrir að gjaldendur geti borið fyrir sig vanþekkingu, gleymsku eða annað slíkt sem ástæðu þess að stimpilgjald hafi ekki verið greitt. Hins vegar gæti rafmagnsleysi eða óveður sem sannanlega kemur í veg fyrir réttar efndir talist til gildra ástæðna.

Viðurlagaákvæði.
    Í 5. mgr. 12. gr. frumvarpsins er heimild til að gera lögaðila fésekt fyrir brot á lögum um stimpilgjald óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans.
    Að mati nefndarinnar á ekki að skipta máli í þessu tillit þótt ekki verði staðreynt hvort fyrirsvarsmaður eða starfsmaður hafi átt í hlut. Heimilt eigi að vera að refsa lögaðila þrátt fyrir að ekki teljist sannað hvor þeirra átti sök á málinu. Því leggur nefndin til breytingu á ákvæðinu þannig að framangreind afstaða komi skýrlega fram í frumvarpstextanum.
    
Niðurstaða.
    Að öllu framangreindu sögðu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Vilhjálmur Bjarnason ritar undir nefndarálitið með þeim fyrirvara að hann telur gjaldlagningu skjala sem kveða á um eignaryfirfærslu í kjölfar samruna eða skiptingar félaga fara gegn tilgangi slíkra gerninga.
    Pétur H. Blöndal ritar undir nefndarálitið með þeim fyrirvara að hann telur gjaldlagningu samkvæmt frumvarpinu of mikla.
    Ragnheiður Ríkharðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir nefndarálit þetta skv. 4. gr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 4. desember 2013.



Frosti Sigurjónsson,


form.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir,


frsm.

Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.



Willum Þór Þórsson.


Árni Páll Árnason,


með fyrirvara.


Guðmundur Steingrímsson.



Líneik Anna Sævarsdóttir.


Steingrímur J. Sigfússon.


Vilhjálmur Bjarnason,


með fyrirvara.






*     Leiðrétting: Hér mun átt við lög nr. 59/2008.