Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 43. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 346  —  43. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um samstarf við Færeyjar og Grænland um námskeið fyrir starfandi og upprennandi rithöfunda í löndunum þremur.


Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Unni Brá Konráðsdóttur, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, og Þórð Þórarinsson, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins. Kostnaðarmat barst um málið frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að koma á samstarfi við stjórnvöld í Færeyjum og á Grænlandi um skipulagningu námskeiða fyrir starfandi og upprennandi rithöfunda í samvinnu við rithöfundasambönd landanna með það að markmiði að styrkja ritlist og sagnahefð í löndunum.
    Í kostnaðarmati mennta- og menningarmálaráðuneytis er vísað til rammasamnings milli landanna þriggja sem fyrir hendi er og varðar menntun, menningu og rannsóknir. Miðað hafi verið við að hvert landanna greiði um 150 þús. dkr. fyrir hvert verkefni, eða sem nemur 3,3 millj. kr.
    Tillagan byggist á ályktun nr. 1/2012 sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins 6. september 2012 í Gjógv og Þórshöfn í Færeyjum en þar er áskorun þessa efnis beint til ríkisstjórnar Íslands og landsstjórna Færeyja og Grænlands.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Guðlaugur Þór Þórðarson, Óttarr Proppé og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 10. desember 2013.



Birgir Ármannsson,


form.


Silja Dögg Gunnarsdóttir, frsm.


Árni Þór Sigurðsson.



Frosti Sigurjónsson.


Sigurður Páll Jónsson.


Vilhjálmur Bjarnason.