Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 73. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 469  —  73. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli
ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Alþýðulýðveldisins Kína.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergdísi Ellertsdóttur, Högna S. Kristjánsson og Ragnar Kristjánsson frá utanríkisráðuneyti, Evu Margréti Kristinsdóttur frá velferðarráðuneyti, Ernu Bjarnadóttur frá Bændasamtökum Íslands, Þórð H. Hilmarsson frá Íslandsstofu, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins, Andrés Magnússon frá Samtökum verslunar og þjónustu, Almar Guðmundsson frá Félagi atvinnurekenda, Magnús Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands, Sonju Ýri Þorbergsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Arnþór Helgason, Kristján Jónsson, Guðrúnu Margréti Þrastardóttur og Ólaf Egilsson frá Kínversk-íslenska menningarfélaginu, Hörð Helga Helgason frá Íslandsdeild Amnesty International, Jónu Aðalheiði Pálmadóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands og Hafþór Sævarsson.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bændasamtökum Íslands, Félagi atvinnurekenda og Íslensk-kínverska viðskiptaráðinu, Hafþóri Sævarssyni, Íslandsstofu, Íslandsdeild Amnesty International, Kínversk-íslenska menningarfélaginu, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum verslunar og þjónustu. Einnig bárust nefndinni minnisblöð frá utanríkisráðuneyti, annars vegar um viðskipti milli Nýja-Sjálands og Kína í kjölfar fríverslunarsamnings ríkjanna og hins vegar um 59. gr. í fríverslunarsamningi Íslands og Kína sem kveður á um þagnarskyldu. Þá lét ráðuneytið nefndinni í té samkomulag Íslands og Kína um samstarf á sviði vinnumála og eru drög að þýðingu þess birt sem fylgiskjal við nefndarálit þetta. Þá afhentu Íslandsdeild Amnesty International, Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Hafþór Sævarsson nefndinni ýmis gögn um stöðu mannréttindamála í Kína.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á fríverslunarsamningi milli ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Alþýðulýðveldisins Kína sem undirritaður var af utanríkisráðherra Íslands og viðskiptaráðherra Kína 15. apríl 2013. Samhliða undirritun samningsins gáfu forsætisráðherrar Íslands og Kína út sameiginlega yfirlýsingu um reglubundið pólitískt samráð.

Bakgrunnur.
    Samningaviðræður Íslands og Kína um fríverslun fóru fram í sex lotum frá árinu 2007 til 2013. Í athugasemdum við þingsályktunartillöguna kemur fram að víðtækt samráð var haft við hagsmunaaðila meðan á samningaferlinu stóð, m.a. aðila vinnumarkaðarins og fyrirtæki sem eiga í viðskiptum við Kína. Þá komu flest ráðuneyti að viðræðunum, þ.m.t. atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, velferðarráðuneyti, innanríkisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti, auk sérfræðinga ýmissa stofnana, t.d. Útlendingastofnunar, Vinnumálastofnunar, tollstjóra og Einkaleyfastofu. Meðan á viðræðunum stóð var Alþingi ítrekað upplýst um gang þeirra, m.a. í skýrslum utanríkisráðherra og svörum hans við fyrirspurnum þingmanna en ekki síst á fundum með utanríkismálanefnd.
    Í athugasemdum við þingsályktunartillöguna kemur enn fremur fram að fríverslunarsamningurinn við Kína er byggður upp að fyrirmynd og með sama hætti og þeir fríverslunarsamningar sem Ísland hefur þegar unnið að og gert í samvinnu við önnur aðildarríki EFTA. Líkt og fríverslunarsamningar EFTA inniheldur fríverslunarsamningur Íslands og Kína kafla um vöru- og þjónustuviðskipti, upprunareglur, fjárfestingar, hugverkavernd, samkeppnismál, samvinnu á ýmsum sviðum, stofnanaákvæði og ákvæði um lausn ágreiningsmála. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að íslenska samninganefndin bjó að þeirri miklu reynslu sem fengist hefur með þátttöku í gerð fríverslunarsamninga á vettvangi EFTA og hafði jafnframt aðgang að sérfræðingum á skrifstofu EFTA til ráðgjafar á meðan á samningaferlinu stóð. Líta ber á samninginn við Kína sem viðbót við þéttriðið net fríverslunarsamninga sem íslensk stjórnvöld hafa átt aðild að gerð um allan heim á vettvangi EFTA. Í samvinnu við hin EFTA- ríkin, Sviss, Noreg og Liechtenstein, hefur Ísland gert 26 fríverslunarsamninga við 36 ríki. Þá hefur Ísland gert tvíhliða samning við Færeyjar sem er kenndur við Hoyvík og tók gildi árið 2006. Ástæða þess að fríverslunarsamningurinn við Kína var ekki unnin á vettvangi EFTA er sú að kínversk stjórnvöld kusu fremur að fara í tvíhliða fríverslunarviðræður við einstök EFTA-ríki. Frá því fríverslunarsamningur Íslands og Kína var undirritaður hafa Kína og Sviss einnig lokið við gerð fríverslunarsamnings. Þá á Kína formlega í fríverslunarviðræðum við Noreg þrátt fyrir að þær viðræður hafi legið niðri um tíma.

Hagsmunir af fríverslun við Kína.
    Fríverslunarsamningur Íslands og Kína inniheldur kafla um vöru- og þjónustuviðskipti, upprunareglur, fjárfestingar, hugverkavernd, samkeppnismál, samvinnu á ýmsum sviðum, stofnanaákvæði og ákvæði um lausn ágreiningsmála. Samningurinn kveður á um niðurfellingu tolla á öllum helstu útflutningsafurðum Íslendinga. Samningurinn nær einnig til þjónustuviðskipta eins og til dæmis ferðaþjónustu og sjóflutninga.
    Í athugasemdum með þingsályktunartillögunni kemur fram að markmið fríverslunarsamninga Íslands við önnur ríki sé að bæta aðgang íslenskra fyrirtækja að viðkomandi mörkuðum með því að draga úr eða afnema viðskiptahindranir. Gerð fríverslunarsamninga er liður í því að tryggja alþjóðlega samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs til lengri tíma. Kína er fjölmennasta ríki heims og íslenskir útflytjendur hafa lengi horft til þess gríðarstóra markaðar sem þar hefur verið að þróast. Undir þetta er tekið í öllum umsögnum sem nefndinni bárust úr ranni atvinnulífsins en þar er eindregið hvatt til fullgildingar fríverslunarsamningsins. Í umsögnum og málflutningi gesta sem komu fyrir nefndina af hálfu atvinnulífsins var lögð áhersla á að með samningnum væri verið að greiða fyrir viðskiptum við ríki sem senn yrði stærsta hagkerfi heims og mikil sóknarfæri væru fyrir íslenskt atvinnulíf á kínverskum markaði. Fyrir útflutning frá Íslandi til Kína skiptir lækkun og niðurfelling tolla á sjávarafurðum mestu máli þar sem um 90% vöruútflutnings til Kína eru sjávarafurðir. Hvað innflutning varðar er bent á að íslenskir innflytjendur hafa búið við erfiða stöðu við innflutning frá Asíu, en svokölluð tvítollun hefur verið algeng á vörum sem fluttar hafa verið inn frá Kína í gegnum Evrópu. Smæð íslenska markaðarins hefur orðið til þess að íslenskir innflytjendur hafa að miklu leyti flutt inn vöru frá Kína í gegnum evrópska milliliði og birgja og hefur það haft tvítollun í för með sér. Með fullgildingu fríverslunarsamningsins við Kína ætla fulltrúar atvinnulífsins að innflutningsfyrirtæki muni leggja kapp á beinan og milliliðalausan innflutning frá Kína til þess að nýta það tollfrelsi sem af samningnum hlýst. Mun það skila sér í auknum viðskiptum og lægra vöruverði til neytenda.
    Nefndin kannaði sérstaklega hvaða áhrif samningurinn kynni að hafa á svigrúm til fjárfestinga Kínverja hérlendis. Fríverslunarsamningurinn hefur engar breytingar í för með sér varðandi heimildir Kínverja til fjárfestinga á Íslandi. Samningur ríkjanna frá 1994 um vernd fjárfestinga heldur gildi sínu og er til hans vísað í samningnum, en hann felur ekki í sér sjálfstæða heimild til fjárfestinga. Íslensk löggjöf og reglur á þessu sviði kveða á um að ekkert ríki utan EES geti fjárfest hérlendis án þess að fá til þess sérstakt leyfi. Kysu íslensk stjórnvöld svo kæmi ekkert í fríverslunarsamningi Íslands og Kína í veg fyrir að hægt væri að hafna allri fjárfestingu frá Kína. Á hinn bóginn er mögulegt að fríverslunarsamningurinn glæði fjárfestingar vestrænna fyrirtækja á Íslandi. Fram kom á fundi nefndarinnar að í fríverslunarsamningnum fælust tækifæri til að laða hingað til lands fyrirtæki frá Kanada, Bandaríkjum og Evrópu með það fyrir augum að vera með virðisaukandi framleiðslu hér og flytja út til Kína.
    Nefndin kannaði einnig sérstaklega hvaða áhrif samningurinn kynni að hafa á mögulegan innflutning vinnuafls. Af þeirri könnun er ljóst að skuldbindingar Íslands eru í samræmi við það sem gert hefur verið í öðrum fríverslunarsamningum og rúmast innan gildandi laga og reglna á Íslandi. Í þeim er aldrei samið um frjálsa för fólks, líkt og um ræðir á grundvelli EES-samningsins. Fram hefur komið að ein af megináherslum Kína á fyrri stigum viðræðna var aukið frelsi varðandi aðgang þjónustuveitenda að íslenskum vinnumarkaði. Á það féllust íslensk stjórnvöld ekki og gildir íslensk löggjöf óbreytt um þau efni. Nefndin undirstrikar því að fríverslunarsamningurinn veitir engar auknar heimildir til komu kínversks vinnuafls hingað til lands umfram það sem heimilt er samkvæmt gildandi lögum og reglum. Að þessu leyti er fríverslunarsamingur Íslands og Kína frábrugðinn fríverslunarsamningi Nýja-Sjálands og Kína þar sem aðgangsheimild er veitt fyrir kínverska þjónustuveitendur að nýsjálenskum vinnumarkaði fyrir allt að 1800 manns. Sem fyrr segir er engin slík heimild í fríverslunarsamingi Íslands og Kína og gengur sá samningur því lengra í varúðarátt en nýsjálenski samningurinn.
    Nefndin undirstrikar enn fremur að í fríverslunarsamningnum er vísað til fjölbreytts samstarfs sem nú þegar er til staðar á milli Íslands og Kína á öðrum sviðum en viðskiptum og látin í ljós sú ósk að það verði aukið, m.a. á sviði jafnréttismála, vísinda-, mennta-, menningar- og orkumála. Samningurinn kveður einnig á um að ríkin skuli auka samstarf sitt á sviði umhverfisverndar og vinnumála, sem og þróunarmála.

Mannréttindi, vinnuréttindi og pólitískt samráð.
    Nefndin fjallaði ítarlega um stöðu mannréttindamála í Kína í tengslum við umfjöllun málsins, en áhyggjuefni flestra gesta og umsagnaraðila laut að stöðu þeirra mála. Eins og að framan greinir gáfu forsætisráðherrar Íslands og Kína út sameiginlega yfirlýsingu um reglubundið pólitískt samráð samhliða undirritun fríverslunarsamningsins. Yfirlýsingin tryggir vettvang til að taka upp hver þau mál sem stjórnvöld telja mikilvægt að ræða, en gert er ráð fyrir samráðsfundum annað hvert ár. Samráðið tekur m.a. til mannréttindamála, en í yfirlýsingunni er ítrekað að báðir aðilar framfylgja þeim hugsjónum sem Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegir mannréttindasáttmálar fela í sér og að ríkin muni efla og vernda mannréttindi með virkum hætti.
    Þá hefur verið gengið frá samkomulagi um samstarf Íslands og Kína á sviði vinnumála sem bíður formlegrar staðfestingar. Samkvæmt samkomulaginu ítreka ríkin þær skuldbindingar sem þau hafa gengist undir sem aðilar að Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO). Með samkomulaginu er formlegum samráðsvettvangi komið á fót en fyrirhugað samstarf mun m.a. taka til löggjafar og stefnumótunar á sviði vinnuverndar, og þess að auka vitund um lagaleg réttindi og skyldur vinnuveitenda og launþega. Gert er ráð fyrir að samráðsfundir fari fram á tveggja ára fresti en upplýsingaskipti og annað samstarf geti farið fram á milli funda. Samkvæmt samkomulaginu geta ríkin, hvort fyrir sig, boðið launþegasamtökum og samtökum vinnuveitenda til þátttöku í samstarfinu. Samkvæmt upplýsingum sem nefndin hefur aflað sér frá utanríkisráðuneyti er ráðgert að samkomulagið verði formlega staðfest á vordögum og mælist nefndin til þess að það verði gert áður en fríverslunarsamningur Íslands og Kína tekur gildi.
    Andstaða við fríverslunarsamning Íslands og Kína kom fram í nokkrum umsögnum, m.a. frá samtökum launþega, ASÍ og BSRB. Þar segir að kínversk stjórnvöld hafi hunsað skyldur sínar og grundvallarsamþykktir ILO og komið í veg fyrir stofnun frjálsra stéttarfélaga launafólks. Í umsögn ASÍ er sérstaklega tekið fram að samtökin gerðu kröfu um að samkomulag um samstarf á sviði vinnumarkaðsmála yrði gert samhliða fríverslunarsamningnum og að samtök launafólks ættu aðild að samstarfinu. Þess skal getið að samkomulag um vinnumál, sem fjallað er um í síðustu málsgrein, lá ekki fyrir þegar ASÍ sendi inn sína umsögn. Í gögnum frá BSRB kemur fram að Alþjóðasamtök stéttarfélaga (ITUC), sem bandalagið á aðild að, hafa ályktað sérstaklega um mannréttindabrot og stöðu vinnuafls í Kína og nauðsyn þess að önnur lönd leggi sitt á vogarskálarnar svo bágar aðstæður launafólks í Kína verði ekki óátaldar.
    Nefndin hefur kynnt sér ólík sjónarmið varðandi áhrif frjálsra viðskipta á stöðu og þróun mannréttinda í ríkjum, þar sem staða þeirra fyrir er bágborin. Með nokkurri einföldun má segja að tvö andstæð sjónarmið séu uppi. Annars vegar það sjónarmið að aukin viðskipti og tengsl við umheiminn auki hagsæld og lífskjör manna og opni augu stjórnvalda jafnt sem almennings fyrir gildi mannréttinda. Því meiri tengsl sem ríki hefur við umheiminn því fleiri leiðir eru til að halda mannréttindamálum á lofti og þrýsta á um umbætur á því sviði. Þessu sjónarmiði fylgir að með því að eiga ekki viðskipti við ríki vegna bágborins ástands mannréttinda, kunni það að koma niður á lífskjörum almennings, stöðu mannréttindamála geti hrakað og stjórnvöld geti einangrast og orðið fráhverfari hugsanlegum umbótum en ella. Gagnstætt sjónarmið segir að ekki eigi að veita stjórnvöldum í ríkjum, þar sem mannréttindabrot eiga sér stað, þá viðurkenningu og lögmæti sem felst í alþjóðlegum samningum um viðskipti auk þess sem ábati viðskipta gæti tryggt slík stjórnvöld í sessi.
    Í umsögnum mannréttindasamtaka er dregin upp dökk mynd af stöðu mannréttindamála í Kína, m.a. í Tíbet. Amnesty International hefur fylgst mjög grannt með stöðu mannréttinda í landinu og sent frá sér ítarlegar skýrslur sem greint var frá í umsögn og þegar fulltrúi samtakanna kom fyrir nefndina. Nefndin leggur áherslu á að Amnesty International leggst ekki gegn fullgildingu fríverslunarsamnings Íslands og Kína þrátt fyrir gagnrýni sína á ástand mannréttinda í landinu. Amnesty International hefur þá stefnu að leggjast ekki gegn viðskiptasamningum við ríki þar sem mannréttindabrot eiga sér stað.
    Nefndin er almennt þeirrar skoðunar að til framfara á sviði mannréttinda og vinnumála sé heilladrýgra að eiga í samskiptum við ríki í stað þess að einangra sig í samskiptum við þau og útiloka. Því meiri samræða og samskipti sem eiga sér stað, þeim mun meiri líkur eru á að aðstæður batni. Á þetta bæði við öll milliríkjasamskipti, hvort sem þau eru tvíhliða eða á alþjóðavettvangi. Hvað varðar Kína er ljóst að bæði með reglubundnu pólitísku samráði, sem kveðið er á um í yfirlýsingu forsætisráðherranna og rædd var að framan, og samstarfi um vinnumál skapast vettvangur fyrir íslensk stjórnvöld til að eiga samræður við kínversk stjórnvöld um mannréttindamál og vinnumál sem ekki var til staðar fyrir gerð fríverslunarsamnings ríkjanna. Ísland er því með fríverslunarsamningnum í betri stöðu til að koma sjónarmiðum sínum á þessu sviði á framfæri við Kína.

Niðurlag.
    Í ljósi stöðu Kína sem ört vaxandi efnahagsveldis, sem búist er við að taki við sessi Bandaríkjanna sem stærsta hagkerfi heims innan 10 ára, telur nefndin afar veigamikla hagsmuni og tækifæri felast í fríverslunarsamningi Íslands og Kína. Viðskipti ríkjanna hafa aukist hratt og útlit fyrir áframhaldandi vöxt á næstu árum. Viðskipti Íslands við Kína hafa einkennst af miklum viðskiptahalla en von er til þess að lækkun og niðurfelling tolla á sjávarafurðir, sem eru 90% útflutnings Íslands til Kína, ýti undir útflutning og stuðli að meiri jöfnuði í viðskiptum landanna. Nefndin styður almennt uppbyggingu fríverslunarnets Íslands í gegnum EFTA og tvíhliða samninga með það fyrir augum að tryggja viðgang og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og telur fríverslunarsamninginn við Kína afar mikilvægt skref í því sambandi.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Árni Þór Sigurðsson og Óttarr Proppé gera fyrirvara við álitið sem lýtur að því að samkomulag Íslands og Kína um samstarf á sviði vinnumála verði formlega samþykkt.
    Birgitta Jónsdóttir er áheyrnarfulltrúi í utanríkismálanefnd og er ekki samþykk áliti þessu. Andstaða hennar lýtur m.a. að stöðu mannréttindamála í Kína, þ.m.t. kúgun kínverskra stjórnvalda á Tíbetum (sbr. 206. mál á 143. löggjafarþingi) og öðrum þjóðarbrotum, nauðungarvinnu fanga og skertu tjáningarfrelsi, og enn fremur af misgóðri reynslu Nýja-Sjálands af fríverslunarsamningi við Kína. Birgitta deilir áhyggjum sem koma fram í umsögnum frá m.a. Alþýðusambandi Íslands sem mótmælir harðlega samþykkt samningsins á þeim grundvelli að kínversk stjórnvöld viðurkenni ekki mannréttindi og vinnuverndarréttindi kínversks verkafólks. Því telur þingmaðurinn afar ólíklegt, þrátt fyrir góð fyrirheit sem gefin eru í samningnum og umfjöllun um hann, að samningurinn muni bæta mannréttindavernd í Kína. Þvert á móti muni samþykkt samningsins veikja stöðu þeirra sem háð hafa baráttu fyrir mannréttindum þar í landi.
    Guðlaugur Þór Þórðarson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 19. desember 2013.



Birgir Ármannsson,


form., frsm.


Árni Þór Sigurðsson,


með fyrirvara.


Frosti Sigurjónsson.



Óttarr Proppé,


með fyrirvara.


Sigurður Páll Jónsson.


Silja Dögg Gunnarsdóttir.



Vilhjálmur Bjarnason.


Össur Skarphéðinsson.




Fylgiskjal.

Drög að þýðingu.

Viljayfirlýsing
um samvinnu á sviði vinnumála.


    Velferðarráðuneyti lýðveldisins Íslands og mannauðs- og almannatryggingaráðuneyti Alþýðulýðveldisins Kína (hér á eftir nefndir „samningsaðilarnir“, eða „samningsaðili“ hver fyrir sig, nema annað leiði af samhenginu),
     *      sem æskja þess að styrkja vaxandi efnahagslegt og pólitískt samband milli lýðveldisins Íslands og Alþýðulýðveldisins Kína,
     *      sem hafa bæði að markmiði að efla heilbrigða vinnumálastefnu og starfsvenjur á því sviði á Íslandi og í Kína til þess að stuðla að nánari og víðtækari samvinnu og auka getu og hæfni beggja landa, þ.m.t. í óopinbera geiranum, til að fjalla um vinnumál,
     *      sem hafa í huga markmið Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem báðir samningsaðilar eiga aðild að,
     *      sem einsetja sér að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi en jafnframt að taka tillit til félagslegra, umhverfislegra, menningarlegra og efnahagslegra aðstæðna beggja landa,
     *      sem æskja þess að styrkja tvíhliða samvinnu í því skyni að stuðla að þróun viðeigandi heildaraðferða að því er varðar málefni sjálfbærrar þróunar,
     *      sem fallast á að báðir samningsaðilar einsetji sér að bæta vinnuskilyrði og lífskjör í hvoru landi og vernda, efla og framfylgja grundvallarréttindum launafólks, að teknu tilliti til mismunandi þróunarstigs landanna sem og menningarlegs og sögulegs bakgrunns,
     *      sem árétta þá skuldbindingu samningsaðilanna að þróa inntak tvíhliða áætlunar sinnar og deila þeirri þekkingu og reynslu sem fæst á sviði vinnumála, starfsþjálfunar og stefnu varðandi vinnueftirlit,
     *      sem eru sannfærð um að samvinna milli samningsaðilanna á framangreindum sviðum muni þjóna sameiginlegum hagsmunum þeirra og verða til þess að styrkja vináttutengsl milli landanna tveggja,
hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

1. gr. – Almenn ákvæði.

     1.      Samningsaðilar árétta skuldbindingar sínar vegna aðildar að Alþjóðavinnumálastofnuninni, þ.m.t. skuldbindingar samkvæmt yfirlýsingu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um grundvallarviðmið og réttindi við vinnu og ályktunar um hvernig henni verður fylgt eftir.
     2.      Samningsaðilar virða fullveldisrétt sinn og ákvarða stefnu og forgangsröðun í sínu ríki og setja, framkvæma og framfylgja eigin vinnulöggjöf og -reglugerðum.
     3.      Samningsaðilar viðurkenna að ekki sé viðeigandi að setja og beita vinnulöggjöf og -reglugerðum og stefnu og starfsvenjum á því sviði í þágu verndarstefnu í viðskiptum.
     4.      Samningsaðilar viðurkenna að ekki sé viðeigandi að örva viðskipti eða fjárfestingar með því að veikja eða draga úr þeirri vernd sem felst í innlendri vinnulöggjöf og -reglugerðum og stefnu og starfsvenjum á því sviði.
     5.      Samningsaðilar viðurkenna að æskilegt sé að stefna og starfsvenjur á vinnumarkaði séu skýrar og vel skiljanlegar og að fram fari víðtækt samráð á landsvísu við innlenda hagsmunaaðila við stefnumörkun á vinnumarkaði.

2. gr. – Gildissvið og leiðir til samvinnu.

     1.      Samningsaðilar samþykkja, að teknu tilliti til eigin forgangsröðunar og tiltækra úrræða, að eiga samvinnu um vinnumál sem varða sameiginlega hagsmuni þeirra og ávinning. Samningsaðilar skulu taka sameiginlega ákvörðun um tiltekin samstarfsverkefni á sviði vinnumála.
     2.      Samstarfsverkefni geta falið í sér, en takmarkast ekki við:
       a.      vinnulöggjöf og stefnu og starfsvenjur á því sviði, þ.m.t. skoðanaskipti milli aðila, ásamt því að efla vitund um lagaleg réttindi og skyldur vinnuveitenda og launþega, til þess að gera sæmandi vinnuskilyrði að veruleika,
       b.      kerfi fyrir reglufylgni og framfylgd og vinnueftirlit,
       c.      traust samskipti aðila vinnumarkaðarins, þ.m.t. samráð milli launafólks og atvinnurekenda, samvinnu og lausn vinnudeilna,
       d.      vinnuskilyrði,
       e.      þróun mannauðs, starfsþjálfun og ráðningarhæfi.
     3.      Samstarfsaðgerðir geta átt sér stað með margvíslegum hætti, t.d. með miðlun á bestu starfsvenjum og upplýsingum, sameiginlegum verkefnum, rannsóknum, skiptiheimsóknum, heimsóknum, vinnufundum og skoðanaskiptum, þ.m.t. í tengslum við alþjóðlegan vettvang á sviði vinnumála.

3. gr. – Stofnanafyrirkomulag.

     1.      Í því skyni að tryggja framkvæmd þessarar viljayfirlýsingar, setja á fót samvinnuáætlun sem framkvæmd verður innan tiltekins tíma og til að samræma samstarfsverkefni sem um getur í viljayfirlýsingunni, skal hvor samningsaðili tilnefna samræmingaraðila innan sex mánaða frá gildistöku þessarar viljayfirlýsingar til þess að auðvelda samskipti milli samningsaðila.
     2.      Samningsaðilar skulu taka ákvarðanir um fjármögnun verkefna í hverju tilviki fyrir sig og skal hún ráðast af fyrirliggjandi fjárlögum og falla undir lög og reglugerðir sem gilda í hvoru landi. Gera má sérstakan samning um hverja sérstaka aðgerð eða verkefni sem tekin er sameiginleg ákvörðun um að koma á fót, ef nauðsyn krefur.
     3.      Samningsaðilar, þ.m.t. háttsettir embættismenn þeirra opinberu stofnana sem bera ábyrgð á vinnumálum eins og við á, skulu koma saman innan árs frá því að þessi viljayfirlýsing öðlast gildi og reglulega upp frá því, eða á tveggja ára fresti nema annað sé ákveðið í sameiningu, í því skyni að:
       a.      koma á fót samþykktri vinnuáætlun um samstarfsverkefni,
       b.      hafa umsjón með og meta samstarfsverkefni,
       c.      vera farvegur fyrir skoðanaskipti um málefni er varða sameiginlega hagsmuni,
       d.      endurskoða beitingu og afrakstur þessarar viljayfirlýsingar,
       e.      vera vettvangur til viðræðna og skoðanaskipta um hagsmunamál og athugunarefni á sviði vinnumála með það að markmiði að samningsaðilar komist að samkomulagi um viðkomandi mál.
     4.      Hvorum samningsaðila er heimilt, eftir því sem við á, að bjóða þeim samtökum sem eru helst í fyrirsvari fyrir aðila vinnumarkaðarins í hvoru landi til þess að greina hugsanleg samstarfssvið og takast á hendur samstarfsverkefni.
     5.      Samningsaðilum er heimilt að skiptast á upplýsingum og samræma aðgerðir milli funda með tölvupósti, myndfundum eða eftir öðrum samskiptaleiðum. Einnig er heimilt með gagnkvæmum samningi að fundir skv. 3. mgr. 3. gr. fari fram í gegnum myndfundabúnað.

4. gr. – Viðræður.

     1.      Rísi ágreiningur um túlkun eða beitingu þessarar viljayfirlýsingar getur samningsaðili farið fram á viðræður við hinn samningsaðilann í gegnum samræmingaraðilann. Samningsaðilar munu leita allra leiða til þess að ná samkomulagi um deilumál með samvinnu, viðræðum og skoðanaskiptum.
     2.      Fari samningsaðili fram á fund milli samningsaðila til þess að greiða fyrir lausn slíks ágreinings munu samningsaðilar eiga fund svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en 90 dögum eftir að slík beiðni er sett fram, nema annað sé ákveðið í sameiningu.
     3.      Heimilt er að tjá sameiginlegum fundi samningsaðila, sem hugsanlega er með þátttöku ráðherra, um slíkan ágreining í því skyni að efna til viðræðna.

5. gr. – Lokaákvæði.

     1.      Þessi viljayfirlýsing mun taka gildi við undirritun og skal gilda um óákveðinn tíma nema annar hvor samningsaðilanna tilkynni hinum samningsaðilanum um uppsögn hennar með sex mánaða fyrirvara.
     2.      Uppsögn þessarar viljayfirlýsingar hefur ekki áhrif á gildi annarra samninga sem þegar hafa verið gerðir samkvæmt viljayfirlýsingunni.
     3.      Þessi viljayfirlýsing skal gilda jafnt um aðila eða stofnanir sem kunna að verða arftaki velferðarráðuneytis lýðveldisins Íslands og mannauðs- og almannatryggingaráðuneytis Alþýðulýðveldisins Kína.

    Gjört í tvíriti (í) ________ hinn ________ á ensku og kínversku og eru báðir textarnir jafngildir. Rísi ágreiningur um túlkun skal enski textinn ráða.

______________________________
Fyrir hönd velferðarráðuneytis
lýðveldisins Íslands.
______________________________
Fyrir hönd mannauðs- og almanna-
tryggingaráðuneytis Alþýðulýðveldisins
Kína.