Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 268. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 504  —  268. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um aðgerðaáætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni.


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa nefnd sérfræðinga í málvísindum og upplýsingatækni sem geri áætlun um aðgerðir er miði að því að gera íslensku gjaldgenga í stafrænni upplýsingatækni og stuðla að notkun hennar á þeim vettvangi. Áætlunin feli í sér tímasett yfirlit um aðgerðir og áfanga, kostnaðarmat og fjármögnun. Nefndin leggi áætlun sína fram í síðasta lagi 15. maí 2014.

Greinargerð.

    Hinn 12. mars 2009 samþykkti Alþingi þingsályktun um íslenska málstefnu. Henni til grundvallar lá ritið Íslenska til alls, tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu. Einn kafli þess rits fjallar um íslensku í tölvuheiminum. Þar er sett það meginmarkmið að „íslensk tunga verði nothæf – og notuð – á öllum þeim sviðum innan tölvu- og upplýsingatækninnar sem varða daglegt líf alls almennings“. Lokaskýrsla nefndar sem mennta- og menningarmálaráðuneytið skipaði „til að fylgja eftir stefnu um notendaviðmót á íslensku í skólum og til að gera áætlun um aðrar aðgerðir sem eru tilgreindar í málstefnunni um íslensku í tölvuheiminum“ var gefin út sumarið 2012 og ber heitið Íslenska í tölvuheiminum. Haustið 2012 birtist ritið Íslensk tunga á stafrænni öld sem var afrakstur viðamikils Evrópuverkefnis sem Máltæknisetur tók þátt í. Þá fjallaði ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu árið 2012 um stöðu og horfur íslenskunnar innan tölvu- og upplýsingatækninnar. Greint var frá því að mikið skortir á að tungumálið búi við þann tæknilega stuðning sem því er nauðsynlegur til að eiga trygga framtíð á þessu mikilvæga sviði en raunin er sú að af 30 Evróputungumálum stendur íslenska næstverst að vígi hvað þetta snertir.
    Auk þess að fjalla um íslenska tungu í stafrænu umhverfi tölvuheimsins eiga fyrrgreind rit það sameiginlegt að öll liggja þau fyrir á rafrænu formi. Má kalla það tímanna tákn. Rafræn miðlun ritaðs máls og talmáls eykst í sífellu og að sama skapi fjölgar notkunarmöguleikum tungumálsins er það verður tjáskiptatæki milli manna og véla með hjálp talgervla og forrita sem breyta talmáli í stafræn boð og stafrænum merkjum í málhljóð. Málnotkun hefur færst inn á nýjan og áður ókunnan vettvang og aðrar væntingar og þarfir beinast að tungumálinu.
    Þeim stórfelldu breytingum sem hin stafræna upplýsinga- og samskiptatækni hefur haft í för með sér á notkun og notagildi tungumála er stundum líkt við þær meginbreytingar sem þróun og útbreiðsla prenttækninnar olli á miðlun ritmáls og þær hugmyndir sem hún færði með sér. Prenttæknin náði ekki til allra málsvæða og örlög þeirra tungumála sem urðu afskipt blasa við. Þau eru horfin af vettvangi eftir að hafa skrimt um hríð sem deyjandi jaðarmál.
    Hið fámenna íslenska málsamfélag bar gæfu til að ná tökum á prenttækninni á nýöld og enda þótt einungis um 330.000 manns noti íslensku til daglegra tjáskipta nú á tímum er staða hennar í íslensku samfélagi sterk og ótvíræð – enn sem komið er, er rétt að bæta við, því að nokkrar vísbendingar eru um það að íslenskan kunni að verða svo vanbúin til að mæta kröfum hins stafræna heims að hún verði þar sniðgengin og önnur tungumál, betur vædd til stafrænna verka, tekin fram yfir.
    Máltækni er til mikillar gagnsemi fyrir allan almenning á tímum rafrænna samskipta en nýtist auk þess ýmsum samfélagshópum með sérstökum hætti. Það á t.d. við um blinda, lesblinda, heyrnarlausa og hreyfihamlaða. Máltækni gerir fólki kleift að stýra ýmsum tækjum og nota tæknibúnað sér til mikils gagns og ánægju. Það dylst til dæmis engum hversu notadrjúgir talgervlar eru fyrir blinda og sjónskerta.
    Ýmiss konar atvinnustarfsemi nýtur góðs af máltækni. Nefna má að talgreining gæti sparað verulegt fé í heilbrigðisgeiranum, m.a. við ritun sjúkraskýrslna, en sú tækni er notuð í því skyni í Noregi með góðum árangri. Þjónustufyrirtæki geta einnig haft mikinn hag af máltækni, t.d. fyrirtæki sem starfrækja þjónustuver sem veita viðskiptavinum upplýsingar og leiðbeiningar, svo sem bankar, tryggingafélög, símafyrirtæki og opinberar stofnanir af ýmsu tagi.
    Það er afar mikilvægt fyrir Íslendinga að geta notað móðurmál sitt á hliðstæðan hátt og á sömu sviðum og aðrar þjóðir nota sitt móðurmál. Sá einstaklingur sem ekki getur notað móðurmál sitt við einhverjar aðstæður í landi sínu er settur skör lægra en aðrir og vísast hér til laga nr. 61/2011, um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.
    Árabilið 2000–2004 stóð menntamálaráðuneytið fyrir átaki til að efla íslenska máltækni og þótti það skila ágætum árangri á mörgum sviðum. Máltæknisetur, sem er samstarfsvettvangur vísindastofnana, var sett á stofn árið 2005 í framhaldi af máltækniátakinu og hafa ýmis máltækniverkefni komist til framkvæmda á vegum þess. Ekki er hægt að láta nauðsynlegar rannsóknir í þessum málaflokki ráðast af úthlutun samkeppnissjóða þar sem um hagnýtar rannsóknir er að ræða sem eru nauðsynlegar til að framfylgja markmiðum laga nr. 61/2011 og íslenskrar málstefnu frá árinu 2009.
    Sökum þess hve íslenska málsamfélagið er fámennt sjá einkafyrirtæki sér yfirleitt ekki hag í að þróa máltæknibúnað á markaðsforsendum. Ekki er líklegt að miklar breytingar verði á því þótt vera kunni að íslenskan eigi eftir að njóta atbeina erlendra hugbúnaðarframleiðenda á máltæknisviði í einhverjum mæli. En auðvitað er það fyrst og fremst Íslendinga að rækja skyldur sínar við tungumál sitt og búa því þau skilyrði að það lifi og nýtist í hinum stafræna samtíma. Þessari þingsályktunartillögu er ætlað að stuðla að því að svo geti orðið.