Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 44. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 578  —  44. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um aukið samstarf við Færeyjar og Grænland
á sviði heilbrigðisþjónustu.

Frá utanríkismálanefnd.

    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Unni Brá Konráðsdóttur, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, og Þórð Þórarinsson, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins. Kostnaðarmat barst um málið frá velferðarráðuneyti.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að gera samninga við stjórnvöld Færeyja og Grænlands um aukið samstarf á sviði heilbrigðisþjónustu, einkum hvað varðar skurðlækningar. Sérhæfing hvers lands á mismunandi sviðum skurðlækninga verði nýtt þar sem því verði við komið. Skorað er á heilbrigðisráðherra landanna að útvíkka slíkt samstarf til annarra sviða og ná samkomulagi um þátttöku allra landanna þannig að þau geti bæði verið veitendur og viðtakendur þjónustunnar.
    Í kostnaðarmati velferðarráðuneytis kemur fram að samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði heilbrigðisþjónustu á sér langa sögu og eru helstu samningar og samráð reifuð. Heilbrigðisráðherra hefur þegar tekið tillögurnar til umræðu á fundum ráðherranna í Þórshöfn og mótað tillögur um samninga og aukið samstarf. Í framhaldinu verður betur unnt að kostnaðarmeta tillögurnar.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að tillagan um samstarf á sviði heilbrigðisþjónustu væri til þess fallin að lækka kostnað hjá hverju landi fyrir sig.
    Tillagan byggist á ályktun nr. 2/2013 sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins 20. ágúst 2013 í Narsarsuaq á Suður-Grænlandi en þar er áskorun þessa efnis beint til ríkisstjórnar Íslands og landsstjórna Færeyja og Grænlands.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Össur Skarphéðinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 21. janúar 2014.



Birgir Ármannsson,


form.


Guðlaugur Þór Þórðarson,      frsm.


Ásmundur Einar Daðason.



Frosti Sigurjónsson.


Óttarr Proppé.


Silja Dögg Gunnarsdóttir.



Vilhjálmur Bjarnason.


Bjarkey Gunnarsdóttir.