Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 96. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 695  —  96. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um endurskoðun laga og reglna
með tilliti til myglusveppa og tjóns af völdum þeirra.

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Á fundi nefndarinnar komu Árni Davíðsson frá Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis, Ingibjörg H. Elíasdóttir og Rósa Magnúsdóttir frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Trausti Baldursson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Björn Karlsson frá Mannvirkjastofnun, Lúðvík E. Gústafsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Guðni A. Jóhannesson frá Orkustofnun og Kristinn Tómasson frá Vinnueftirlitinu.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirliti Suðurlandssvæðis, Mannvirkjastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Ómari Einarssyni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum iðnaðarins og Vinnueftirlitinu.
    Samkvæmt tillögunni ályktar Alþingi að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að skipa starfshóp sem taki til heildstæðrar endurskoðunar lög og reglur á sviði byggingarmála með tilliti til myglusveppa og þess tjóns sem þeir geta valdið. Starfshópurinn skili skýrslu með niðurstöðum sínum og tillögum að úrbótum fyrir 1. júlí 2014 sem ráðherra greini opinberlega frá.
    Í umræðu um málið kom fram að til að myglusveppir myndist þá þurfi að koma til samspil fjögurra atriða, þ.e. raka, hita, næringar og tíma. Þá kom fram að oft myndast myglusveppir vegna rangrar efnisnotkunar, raka í byggingarefnum vegna rangra ákvarðana er varða efnisval, rakaþéttingar, loftunar og annars frágangs. Einnig skiptir notkun á mannvirki miklu máli hvað varðar hitun, loftræstingu og rakamyndun í rýminu sem um ræðir.
    Umsagnaraðilar voru almennt mjög jákvæðir gagnvart tillögunni en bentu á nokkur atriði sem umræddur starfshópur mætti hafa að leiðarljósi í vinnu sinni. Þeir bentu á að auka þyrfti þekkingu á byggingareðlisfræði og því flókna samspili sem ætti sér stað í aðdraganda myglumyndunar og að hvetja þyrfti til frekari rannsókna, fræðslu og útgáfu leiðbeininga um góðar byggingaraðferðir. Nefndin tekur undir þetta og það að mikilvægt sé að hvetja þá sem standa að menntun hönnuða og iðnmeistara að efla fræðslu um byggingareðlisfræði og aðdraganda myglumyndunar. Þá kom fram í umræðunni að skipulag upplýsinga um vandamálið skortir. Tölur og rannsóknir um framangreint er að finna á víð og dreif. Nefndin telur að á þessu verði að gera úrbætur. Líkt og Náttúrufræðistofnun Íslands bendir á í umsögn sinni er mikilvægt að góður þekkingargrunnur verði til um þennan hóp lífvera og um vandamálið almennt hér á landi. Hjá öðrum Norðurlandaþjóðum hefur verið unnið mikið starf sem hægt væri að hafa gagn af og nota sem fyrirmyndir. Nefndin telur nauðsynlegt að starfshópurinn skili tillögum um hvernig bæta megi skipulag upplýsinga um vandamálið. Þá tekur nefndin undir þau sjónarmið að mikilvægt sé að umræddur starfshópur hafi samráð við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Jón Þór Ólafsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. mars 2014.Höskuldur Þórhallsson,


form.


Katrín Júlíusdóttir,


frsm.

Willum Þór Þórsson.Valgerður Gunnarsdóttir.


Brynjar Níelsson.


Katrín Jakobsdóttir.Róbert Marshall.