Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 62. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 696  —  62. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um skrásetningu kjörsóknar
eftir fæðingarári í kosningum á Íslandi frá vori 2014.


Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Skúla Guðmundsson frá innanríkisráðuneyti, Magnús S. Magnússon og Sigríði Vilhjálmsdóttur frá Hagstofu Íslands, Ástríði Jóhannesdóttur frá Þjóðskrá Íslands og Hörð Helga Helgason frá Persónuvernd.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Hagstofu Íslands, Persónuvernd, yfirkjörstjórn Suðurkjördæmis og Þjóðskrá Íslands.
    Með tillögunni er lagt til að forsætisráðherra verði falið að hlutast til um að Hagstofa Íslands kalli eftir upplýsingum frá kjörstjórnum um kjörsókn eftir fæðingarári við kosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur frá og með árinu 2014, auk hefðbundinnar tölfræði, sbr. XIX. kafla laga um kosningar til Alþingis.

Þróun kosningaþátttöku.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að mörg önnur lönd vinna slíka tölfræði um þátttöku í kosningum og er því unnt að átta sig á hvernig hún þróast eftir tímabilum. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að ýmsar rannsóknir sýni að ánægja með lýðræðið almennt, sem og traust í garð stjórnvalda, hefur sterka fylgni við kosningaþátttöku einstaklinga. Þá segir einnig í greinargerðinni að vísbendingar um litla eða minnkandi kosningaþátttöku sé áhyggjuefni fyrir stjórnvöld hvarvetna og að á sama tíma og kosningaþátttaka hafi almennt farið minnkandi á heimsvísu hafi sú þróun verið sérstaklega áberandi meðal yngstu kjósendahópanna. Fyrir nefndinni kom fram að hér hafi verið reynt að ná til ungs fólks sem er að kjósa í fyrsta skipti með sérstöku kynningarefni. Þá hafi Danir brugðist sérstaklega við dvínandi kosningaþátttöku, m.a. ungs fólks, með sérstöku kynningarefni, upplýsingum og einnig með því að auðvelda kjósendum almennt að greiða atkvæði utan kjörfundar, t.d. með færanlegum kjörfundarstöðum eða með því að heimila atkvæðagreiðsluna á fjölförnum stöðum.
    Á fundum nefndarinnar var einnig fjallað um að áhugavert væri að kanna hver þátttaka íslenskra ríkisborgara búsettra erlendis væri við kosningar. Í þessu sambandi má geta þess að við alþingiskosningarnar síðastliðið vor voru tæplega þrettán þúsund kjósendur skráðir með lögheimili erlendis eða 5,4 af hundraði kjósendatölunnar. Langflestir þeirra voru skráðir búsettir á öðrum Norðurlöndum. Miðað við alþingiskosningarnar árið 2009 hafði þessum kjósendum fjölgað um tæplega þrjú þúsund eða rúmlega 28 af hundraði. Aftur á móti voru nýir kjósendur, þeir sem höfðu rétt til að greiða atkvæði í fyrsta sinn til Alþingis, tæplega nítján þúsund eða 7,8 af hundraði kjósendatölunnar.

Sveitarstjórnarkosningar.
    Efni tillögunnar er afmarkað við kjörsókn eftir fæðingarári við kosningar til Alþingis og þjóðaratkvæðagreiðslur. Nefndin telur einnig rétt að fá slíka tölfræði um þátttöku í sveitarstjórnarkosningum og leggur til breytingar á tillögugreininni í þá veru þannig að við næstu kosningar sem fara fram 31. maí nk. verði slíkri tölfræði safnað saman, sbr. 88. gr. í XI. kafla um kosningaúrslit í lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998.
    Nefndin telur einnig áhugavert að tölfræði um þátttöku erlendra ríkisborgara í sveitarstjórnarkosningum verði safnað saman en í 3. mgr. 2. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna er kveðið á um að danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag og aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt fyrir kjördag eigi kosningarrétt við kosningar til sveitarstjórna.

Rafræn kjörskrá.
    Kjörskráin er enn á pappírsformi og því hefur verið vandkvæðum bundið að beita rafrænum aðferðum við talningu eða gerð tölfræði upp úr skránni. Fyrir liggur því að samþykkt tillögunnar mun hafa það í för með sér að meiri vinna leggst á kjörstjórnir við framkvæmd kosninga og skil á mun ítarlegri upplýsingum til Hagstofu Íslands. Nefndin telur þó mikilvægt að fá fram þessar upplýsingar við næstu sveitarstjórnarkosningar og enn fremur að vinnu við gerð rafrænnar kjörskrár sem nú er hafin verði fram haldið.

Persónuverndarsjónarmið.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að með aukinni tækni er auðveldara að vinna tölfræðilegar upplýsingar byggðar á kennitölum kjósenda. Nefndin tekur í því sambandi fram að í ákvæði til bráðabirgða V í sveitarstjórnarlögum er kveðið á um ítarlega útfærslu á rafrænum kosningum, m.a. hvað varðar framkvæmd, undirbúning og öryggismál. Kveðið er á um að ráðuneytið skuli í reglugerð mæla fyrir um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag rafrænna kosninga, gerð og notkun rafrænnar kjörskrár, meðferð kjörgagna, tímafresti, öryggi við framkvæmd sem tryggir leynd kosninga, gerð kosningakerfa, dulkóðun og framkvæmd öryggisúttektar, kröfur til auðkenningar, framkvæmd talningar, kosningakærur og eyðingu gagna úr kosningakerfum að afloknum kosningum, hlutverk Þjóðskrár Íslands við umsjón vefsvæðis o.fl. Í ákvæðinu er einnig kveðið á um að ráðherra skuli skipa þriggja manna ráðgjafanefnd til að fylgjast með framkvæmd rafrænna íbúakosninga og gerð rafrænnar kjörskrár. Slík reglugerð var sett í fyrra.
    Nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að ætíð sé gætt að öryggisatriðum við meðferð kjörskrár. Þá skipti einnig miklu hvernig tölfræðin er kynnt og unnið er með hana þannig að út frá upplýsingunum sé ekki hægt að greina kosningahegðun einstaklinga, t.d. hvort þeir hafi mætt á kjörstað.
    Nefndin telur að samþykkt tillögunnar verði til þess að unnt sé að safna mikilvægum tölfræðiupplýsingum um kosningaþátttöku mismunandi samfélagshópa og þróun til lengri tíma litið.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á undan orðunum „kosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur“ komi: almennar.
     2.      Við tillögugreinina bætist: og 88. gr. í XI. kafla laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998.

    Birgitta Jónsdóttir, Karl Garðarsson, Pétur H. Blöndal og Sigrún Magnúsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Brynhildur Pétursdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 5. mars 2014.


Ögmundur Jónasson,


form.


Helgi Hjörvar,


frsm.


Brynjar Níelsson.



Valgerður Bjarnadóttir.


Willum Þór Þórsson.