Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 268. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 712  —  268. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um notkun íslensku
í stafrænni upplýsingatækni.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Baldur Sigurðsson frá menntavísindasviði Háskóla Íslands, Kolbrúnu Halldórsdóttur frá Bandalagi íslenskra listamanna, Jón Guðnason frá Háskólanum í Reykjavík, Heiðdísi Dögg Eiríksdóttur frá málnefnd um íslenskt táknmál, Eirík Rögnvaldsson frá Máltæknisetri og Pétur H. Hannesson frá Landspítala. Umsagnir bárust frá Bandalagi íslenskra listamanna, Háskólanum í Reykjavík, málnefnd um íslenskt táknmál, Máltæknisetri, Menntavísindasviði Háskóla Íslands, og Pétri H. Hannessyni, yfirlækni röntgendeildar Landspítala.
    Þingsályktunartillagan felur í sér að skipuð verði nefnd sérfræðinga í málvísindum og upplýsingatækni sem fái það hlutverk að gera aðgerðaáætlun um innleiðingu tiltekinna þátta í opinberri málstefnu, þ.e. notkun hennar í stafrænni upplýsingatækni. Auk þess verði nefndinni falið að kostnaðarmeta innleiðinguna og gera áætlun um fjármögnun hennar.
    Nefndin bendir á að fram kemur í ritinu Íslensk tunga á stafrænni öld, sem var afrakstur Evrópuverkefnis þar sem gerð var könnun á stöðu 30 tungumála í Evrópu, að 2/ 3 tungumálanna eru í hættu, þ.e. þau ná ekki að fylgja hraðri þróun tölvutækninnar og verða því ekki nothæf á mikilvægum sviðum þjóðlífsins í náinni framtíð ef svo fer sem horfir. Íslensk tunga er þar á meðal en hún stendur næstverst að vígi hvað þetta snertir. Í ljósi þessa, mikillar þróunar í stafrænni upplýsingatækni og að samskipti á erlendum tungumálum eru að aukast, er þróun og útfærsla á máltækni fyrir íslenska tungu afar mikilvæg að mati nefndarinnar.
    Fram kom á fundum nefndarinnar að einungis 25% landsmanna nota íslenskt notendaviðmót í stafrænni upplýsingatækni. Nefndinni þykir því einsýnt að mikið starf er óunnið við að tryggja framtíð íslenskunnar sem fullgilds þátttakanda í upplýsingasamfélagi nútímans. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi uppbyggingarstarf og nýta þá þekkingu og kunnáttu sem byggð hefur verið upp til þess að koma í veg fyrir að íslenskan dragist enn lengra aftur úr öðrum Evrópumálum í máltæknilegu tilliti.
    Í ljósi þess að með lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011, hlaut táknmál opinbera staðfestingu á stöðu sinni, beinir nefndin því til þeirra sérfræðinga sem skipa munu nefndina að kanna nýtingu máltækni við varðveislu og miðlun íslensks táknmáls á sviði stafrænnar upplýsingatækni.
    Í þingsályktunartillögunni kemur fram að nefndin skuli leggja áætlun sína fram í síðasta lagi 15. maí nk. Í ljósi þess hve skammur tími er til stefnu leggur nefndin til þá breytingu að áætlun nefndarinnar skuli liggja frammi í síðasta lagi 1. september 2014.
         Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    3. málsl. tillögugreinarinnar orðist svo: Nefndin leggi áætlun sína fram í síðasta lagi 1. september 2014.

Alþingi, 11. mars 2014.



Unnur Brá Konráðsdóttir,


form.


Svandís Svavarsdóttir,


frsm.


Páll Valur Björnsson.



Líneik Anna Sævarsdóttir.


Elsa Lára Arnardóttir.


Guðbjartur Hannesson.



Helgi Hrafn Gunnarsson.


Jóhanna María Sigmundsdóttir.


Vilhjálmur Árnason.