Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 28. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 770  —  28. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um forvarnastarf vegna krabbameins í blöðruhálskirtli.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf G. Skúlason og Rögnu Dóru Rúnarsdóttur frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Helga Sigurðsson frá Félagi íslenskra krabbameinslækna, Laufeyju Tryggvadóttur og Ragnheiði Haraldsdóttur frá Krabbameinsfélaginu, Dögg Pálsdóttur og Orra Þór Ormarsson frá Læknafélagi Íslands og Guðmund Löve frá SÍBS. Umsagnir bárust nefndinni frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félagi íslenskra krabbameinslækna, Krabbameinsfélagi Íslands, Læknafélagi Íslands, Persónuvernd og SÍBS.
    Þingsályktunartillagan felur í sér að ríkisstjórninni verði falið að undirbúa og hrinda í framkvæmd víðtæku forvarnastarfi vegna krabbameins í blöðruhálskirtli og að markmið verkefnisins verði að miðla upplýsingum um sjúkdóminn, einkenni hans, áhættuþætti, mögulegt eftirlit með áhættuþáttum og bætt meðferðarúrræði. Við skipulag verkefnisins á að koma á fót víðtækri samvinnu allra aðila innan og utan heilbrigðisþjónustunnar sem vinna að málefnum krabbameinssjúkra, svo sem í heilbrigðisþjónustu, við rannsóknir, í forvarnastarfi, fræðslu og stuðningsþjónustu.
    Líkt og fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni er krabbamein í blöðruhálskirtli algengasta krabbamein í körlum og hér á landi látast árlega um 50 karlar á aldrinum 45 til 80 ára af völdum meinsins. Það er því mikilvægt að leita leiða til að draga úr algengi sjúkdómsins og fækka þannig dauðsföllum vegna hans. Forvarnir gegna þar lykilhlutverki og auka þarf vitund og þekkingu manna á einkennum sjúkdómsins og hvert leita skuli ef einkenni koma fram. Nefndin bendir á að krabbamein í blöðruhálskirtli er dæmi um sjúkdóm sem hefur tengsl við lífsstíl fólks og hægt er að vinna gegn með ástundun heilbrigðs lífsstíls, m.a. með reglubundinni hreyfingu og hollu mataræði. Forvarnir og almenn heilsuvernd gegna sífellt stærra hlutverki sem fyrirbyggjandi og heilsueflandi þættir. Fyrir nefndinni kom fram að krabbameinið er sofandi í mörgum karlmönnum sem bera meinið með sér en eru einkennalausir og því hefur meinið ekki áhrif á lífsgæði þeirra. Almennt er viðtekið að fara beri varlega í skimun fyrir meininu þar sem margir munu þá greinast með það og fara í kjölfarið í aðgerðir sem hafa áhrif á lífsgæði þeirra en ekki er hægt að segja með vissu þegar meinið finnst við skimun hvort viðkomandi muni finna fyrir einkennum þess eða ekki.
    Nefndin bendir á að í velferðarráðuneytinu er nú starfandi ráðgjafahópur vegna vinnu við gerð krabbameinsáætlunar. Hlutverk hópsins er að veita ráðgjöf við mótun stefnu og meginmarkmiða í málaflokknum til ársins 2020. Verkefni hópsins eru fjölþætt og má þar m.a. nefna eflingu heilsuverndar og forvarna og samþættingu á kröftum þeirra aðila sem vinna að málaflokknum, allt frá grasrótarsamtökum til heilsugæslunnar og heilbrigðiskerfisins í heild. Mikilvægt er að vinna að málefninu á markvissan hátt þannig að ná megi sem bestum árangri. Að mati nefndarinnar fer best á því að sú vinna, sem lagt er til að unnin verði á grundvelli þessarar þingsályktunartillögu, verði unnin á þeim vettvangi sem er nú þegar til staðar og leggur því til þá viðbót við tillögugreinina að vinnan verði unnin af fyrrnefndum ráðgjafahóp á vegum velferðarráðuneytisins.
    Nefndin leggur til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:


    Við tillögugreinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Verkefnið verði undirbúið á vegum ráðgjafahóps vegna vinnu við gerð krabbameinsáætlunar sem starfandi er í velferðarráðuneytinu og hrint í framkvæmd samhliða krabbameinsáætlun.
    
    Ásmundur Friðriksson, Guðbjartur Hannesson og Páll Jóhann Pálsson rita undir álit þetta með vísan til 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.
    Unnur Brá Konráðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 19. mars 2014.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form.


Þórunn Egilsdóttir,


frsm.


Björt Ólafsdóttir.



Ásmundur Friðriksson.


Elín Hirst.


Guðbjartur Hannesson.



Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Páll Jóhann Pálsson.