Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 70. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 845  —  70. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tryggva Þórhallsson og Svandísi Ingimundardóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Þóru Jónsdóttur og Margréti Júlíu Rafnsdóttur frá Barnaheillum, Lárus Blöndal frá Hagstofu Íslands, Ástríði Jóhannesdóttur og Sólveigu J. Guðmundsdóttur frá Þjóðskrá Íslands, Öglu K. Smith og Hallveigu Thordarson frá Tryggingastofnun, Heimi Hilmarsson, Karvel A. Jónsson og Birgi Grímsson frá Félagi um foreldrajafnrétti, Kristínu Tómasdóttur frá Félagi einstæðra foreldra og Guðgeir Eyjólfsson frá Sýslumannafélagi Íslands. Þá hafa nefndinni borist umsagnir um málið frá Barnaheillum, Barnaverndarstofu, Félagi um foreldrajafnrétti, Jafnréttisstofu, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Svalbarðsstrandarhreppi, sveitarfélaginu Árborg, Sýslumannafélagi Íslands, Tryggingastofnun ríkisins, umboðsmanni barna og Þjóðskrá Íslands.
    Þingsályktunartillagan felur í sér að innanríkisráðherra verði falið að skipa þriggja manna starfshóp sem skili tillögum um það hvernig útfæra megi jafnt búsetuform barna sem búa jafnt og til skiptis hjá báðum foreldrum sínum á tveimur heimilum. Markmið starfshópsins verði að útfæra leiðir til að eyða þeim mikla aðstöðumun sem er á heimilum þegar foreldrar búa ekki saman en ákveða að ala börn sín upp saman. Í því skyni skuli starfshópurinn taka afstöðu til þess hvort taka skuli upp kerfi sem heimilar börnum að hafa tvöfalt lögheimili eða hvort annað fyrirkomulag jafnrar búsetu henti betur. Samkvæmt tillögunni er ætlunin að hópurinn skili af sér niðurstöðum fyrir árslok 2014 og að ráðherra leggi fram frumvarp byggt á niðurstöðum starfshópsins eigi síðar en á haustþingi 2015.
    Gestir og umsagnaraðilar eru almennt jákvæðir í garð tillögunnar sem felur fyrst og fremst í sér könnun á þeim aðstöðumun sem kann að vera milli foreldra sem fara sameiginlega með forsjá yfir barni sínu. Nefndin bendir á að forsenda þess að hægt sé að leggja fram tillögur að breyttu lagaumhverfi sé að kannað sé ítarlega á hvaða sviðum er um aðstöðumun að ræða og í hverju hann felist. Ljóst er að ýmis réttindi fylgja ávallt lögheimili barns og má þar sem dæmi nefna ýmsa félagslega aðstoð almannatryggingakerfisins sem og félagslega þjónustu við fötluð börn en þau njóta slíkrar þjónustu aðeins á lögheimili sínu. Þá er það foreldri sem barn hefur lögheimili hjá skráð í opinberri skráningu sem einstætt foreldri þó svo forsjáin sé sameiginleg og barnið búi til jafns hjá báðum foreldrum. Nefndin leggur þó áherslu á að vinna sem þessi verður ávallt að hafa hagsmuni barnsins í fyrirrúmi. Við mat á því hvort breytinga sé þörf á því kerfi sem við lýði er í dag verður að horfa til þess hvort þær hafi jákvæð áhrif á hagsmuni barnsins og að hvaða leyti. Þótt jöfn staða beggja foreldra eigi eðli málsins samkvæmt að skila sér í bættum hag barna þarf það að vera hafið yfir vafa ef gera á grundvallarbreytingar á lagaumhverfinu.
    Að mati nefndarinnar þarf verkefni starfshópsins að vera rýmra en fram kemur í tillögugreininni. Ekki sé nægilegt að horfa aðeins til lögheimilisskráningar eða annars konar búsetuskráningar heldur þurfi að horfa á allt stuðningsnet almannatryggingakerfisins fyrir foreldra. Þróunin síðustu ár hefur verið í þá átt að flestir foreldrar velja að fara sameiginlega með forsjá barna við skilnað og börn búa oft til jafns hjá báðum foreldrum. Nefndin leggur því til breytingu á tillögugreininni þannig að starfshópurinn verði stærri, verkefni hans verði rýmra, að málinu komi ekki einungis innanríkisráðherra heldur einnig félags- og húsnæðismálaráðherra og að ráðherra skili þinginu skýrslu um niðurstöður starfshópsins eigi síðar en 1. mars 2015.
    Nefndin leggur til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:


    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra í samstarfi við félags- og húsnæðismálaráðherra að skipa fimm manna starfshóp sem kanni með hvaða leiðum megi jafna stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barna sinna með tilliti til réttinda, skyldna og skráningar sem fylgir lögheimili barns. Markmið starfshópsins verði að útfæra leiðir til að eyða þeim mikla aðstöðumun sem er á heimilum þegar foreldrar sem búa ekki saman ákveða að ala börn sín upp saman á tveimur heimilum. Í því skyni taki hópurinn m.a. afstöðu til þess hvort taka skuli upp kerfi sem heimilar börnum að hafa tvöfalt lögheimili eða hvort annað fyrirkomulag jafnrar búsetu henti betur. Ráðherra skili þinginu skýrslu um niðurstöður starfshópsins eigi síðar en 1. mars 2015.

    Elín Hirst ritar undir álit þetta með vísan til 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.
    Þórunn Egilsdóttir og Ásmundur Friðriksson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 26. mars 2014.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form.


Björt Ólafsdóttir,


frsm.


Elín Hirst.



Guðbjartur Hannesson.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Páll Jóhann Pálsson.



Unnur Brá Konráðsdóttir.