Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 13. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 916  —  13. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum (notkun fánans).

Frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ágúst Geir Ágústsson frá forsætisráðuneyti, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur frá innanríkisráðuneyti, Halldór Runólfsson og Ásu Þórhildi Þórðardóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Sigurð Eyþórsson frá Bændasamtökum Íslands, Bjarna Jónsson frá Sambandi garðyrkjubænda, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins, Ragnheiði Héðinsdóttur og Sigurð B. Halldórsson frá Samtökum iðnaðarins og Pál Rúnar Mikael Kristjánsson frá Félagi atvinnurekenda, Höllu Helgadóttur frá Hönnunarmiðstöð Íslands og Tryggva Axelsson og Þorleif Þór Jónsson frá Íslandsstofu.
    Umsagnir bárust frá Bændasamtökum Íslands, Félagi atvinnurekenda, Hönnunarmiðstöð Íslands, Íslandsstofu, Neytendastofu, Sambandi garðyrkjubænda, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum iðnaðarins og Einkaleyfastofu.
    Með frumvarpinu er lagt til að skýrðar verði nánar heimildir til notkunar á íslenska þjóðfánanum við markaðssetningu á íslenskum vörum.

Forsaga málsins.
    Með breytingum á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið var forsætisráðherra heimilað að veita leyfi til notkunar fánans í vörumerki eða söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu enda væri starfsemi sú sem í hlut ætti að gæðum samkvæmt því sem ráðuneytið mælti fyrir um í reglugerð og fánanum ekki óvirðing gerð. Markmiðið með breytingunni var að auka frjálsræði um notkun fánans með sérstöku tilliti til markaðssetningar á íslenskri framleiðslu. Umrædd reglugerð hefur aldrei verið sett, m.a. vegna vandkvæða við að setja gæðastaðla fyrir vörur.
    Á fundum nefndarinnar var fjallað um málið og ýmis álitaefni sem því tengjast, þ.e. hvenær vara telst íslensk, muninn á íslenskri hönnun og framleiðslu, upprunamerkingar, reglur nágrannaþjóðanna um notkun fána á vöru, reglugerðarheimildir o.fl.

Íslenskur uppruni.
    Í frumvarpinu er lagt til að með vöru af íslenskum uppruna sé m.a. átt við búvöru sem er ræktuð hér á landi, vöru sem er framleidd hér á landi á garðyrkjubýli, gróðrarstöð eða garðyrkjustöð, nytjastofna sjávar sem veiddir eru af íslenskum skipum innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi. Fyrir nefndinni komu fram ábendingar varðandi a-lið a-liðar 1. gr. frumvarpsins um að almennt væri talað um að framleiða búvöru af dýrum sem eru ræktuð hér á landi og leggur meiri hlutinn til lagfæringu á orðalagi til að mæta því. Þá var einnig nefnt að skýrara væri að telja einnig upp afurðir nytjajurta en með því er bæði átt við þær sem eru ræktaðar á garðyrkjubýlum, gróðra- eða garðyrkjustöðvum, þ.e. grænmeti, ávexti og krydd eða vaxa villt eins og fjallagrös, bláber, krækiber, söl, krydd og slíkt. Meiri hlutinn telur rétt að bæta því við ákvæðið auk þess sem rétt er að afurðir af hlunnindum jarða falli einnig undir ákvæðið, svo sem dúnn.

Íslensk hönnun og framleiðsla.
    Í d-lið a-liðar 1. gr. frumvarpsins er lagt til að vara teljist íslensk ef hún er hönnuð og framleidd hér á landi þó að hráefni komi erlendis frá. Fyrir nefndinni kom fram að mikilvægt væri að aðgreina hönnun og handverk. Þannig er hönnun sjaldnast handgerð af einstaklingum eins og handverkið er gjarnan, en hönnun byrjar oft með handverki sem síðan er sett í þróun og framleiðslu. Samkvæmt frumvarpinu er hægt að merkja íslenskt handverk með fánamerkingunni en ekki íslenska hönnun sem er byggð á íslensku hugviti og framleidd er erlendis. Ástæðan fyrir því er sú að framleiðslugetan á Íslandi er það takmörkuð að nánast öll hönnunarfyrirtæki verða að leita til erlendra framleiðenda. Fyrir nefndinni kom fram að þar með væri komið í veg fyrir að þekkt íslensk hönnun sem er fjöldaframleidd erlendis geti nýtt fánamerkinguna. Meiri hlutinn telur mikilvægt að unnt sé að merkja íslenska hönnun með fánanum og leggur því til breytingar á d-lið því til samræmis. Meiri hlutinn leggur til að ákvæðið verði rýmkað þannig að nægilegt sé að eitt af þessum skilyrðum sé uppfyllt, þ.e. hönnuð, framleidd hér á landi eða úr innlendum hráefnum.

Vörur á markaði í 50 ár.
    Í e-lið a-liðar 1. gr. frumvarpsins er lagt til að undir skilgreininguna vöru af íslenskum uppruna falli matvæli, önnur en matvæli skv. a–c-lið, sem hafa verið framleidd hér á landi í a.m.k. 50 ár eða samkvæmt sérstakri íslenskri hefð. Á fundum nefndarinnar kom fram að það kunni að vera of strangar kröfur og takmarkandi að miða við a.m.k. 50 ár þar sem það séu í reynd ekki margar vörur sem „lifa“ svo lengi á markaði. Þá sé ákveðin gróska í framleiðslu á nýjum íslenskum vörum sem hafa ekki verið lengi á markaði, t.d. sælgæti og bjór. Meiri hlutinn tekur undir að ákvæðið geti falið í sér hindranir og leggur því til þá breytingu að í stað 50 ára verði miðað við 30 ár.

Leyfi ráðherra.
    Samkvæmt lögunum er óheimilt að nota fánann í firmamerki. Ekki eru lagðar til breytingar á því fyrirkomulagi í frumvarpinu en fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að óþarft sé að hafa slíkt ákvæði þar sem notkunin sé heimil með skilyrðum. Meiri hlutinn telur engu síður nauðsynlegt að halda ákvæðinu óbreyttu eins og lagt er til í frumvarpinu þar sem hér er um þjóðfána að ræða og tekur einnig fram að það er í samræmi við reglur annarra Norðurlanda að leyfi ráðuneytis þurfi fyrir notkun þjóðfána í vörumerki sem skal skrásetja.

Landkynning.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að reglur um notkun væru það strangar að ekki væri unnt að veita heimild fyrir því að nota fánann á erlend samstarfsverkefni en Íslandsstofa hefur beitt sér fyrir því að fá slíka heimild. Var nefnt sem dæmi merki sameiginlegrar ferðasýningar sem merkt er með þjóðfánum þeirra landa sem taka þátt. Meiri hlutinn telur rétt að rýmka/skýra heimildir til notkunar fánans að þessu leyti og leggur til að heimilt verði að nota fánann á merki sameiginlegra sýninga þar sem fleiri þjóðlönd taka þátt og leggur til breytingu á frumvarpinu þar að lútandi.

Eftirlit.
    Á fundum nefndarinnar var einnig rætt um eftirlit með brotum á fánareglum en samkvæmt gildandi lögum fer lögreglan með eftirlitið. Meiri hlutinn telur, þegar litið er til þess eftirlits sem Neytendastofu er falið samkvæmt lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, að henni ætti einnig að fela eftirlit með notkun fánamerkinga á vörum, auglýsingum og sambærilegum viðskiptaháttum samkvæmt greininni fremur en ráðherra og verði einnig falið að skera úr um álitaefni varðandi leyfilega notkun fánans og leggur því til breytingu á 2. efnismgr. b-liðar 1. gr. í þá veru.

Reglugerðarheimild.
    Mismunandi sjónarmið komu fram um hversu langt ætti að ganga og hvort það ætti að setja nokkrar takmarkanir á notkun fánans á vörur. Meiri hlutinn telur rétt að heimila notkun að ákveðnum skilyrðum uppfylltum eins og lagt er til í frumvarpinu. Nefndin fjallaði í því sambandi um hvaða kröfur ætti að gera til merkingarinnar, þ.e. hvort það ætti að vera samræmi í merkingunum, þ.e. hvernig liti mætti nota, hversu stór fáninn mætti vera og hvort hann mætti umlykja vöruna eða hvort fánamerkingin ætti að vera í tilteknu stærðarhlutfalli við pakkninguna/vöruna. Meiri hlutinn telur eðlilegt að fela ráðherra að útfæra slík atriði nánar með reglugerð og bendir á að rétt sé að hafa samráð við Staðlaráð Íslands við þá vinnu.

Niðurstaða.
    Meiri hlutinn telur að með samþykkt frumvarpsins verði auðveldara að auðkenna sérstöðu íslenskra vara og koma þeim á framfæri við neytendur. Það geti örvað íslenskt viðskiptalíf ef eftirspurn eykst.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að þjóðfánanum verði ekki óvirðing gerð og að hann beri að umgangast af virðingu hér eftir sem hingað til.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr.
     a.      Við bætist nýr stafliður sem verði a-liður og orðist svo: 3. mgr. orðast svo:
                      Heimilt er að nota hinn almenna þjóðfána í merki sýninga sem haldnar eru með öðrum þjóðlöndum.
     b.      Orðin „eða starfsemi“ í 1. efnismálslið a-liðar falli brott.
     c.      A-liður a-liðar orðist svo: afurðir af dýrum sem alin eru á Íslandi og hlunnindum jarða.
     d.      B-liður a-liðar orðist svo: afurðir af nytjajurtum sem vaxa villtar og eru ræktaðar á Íslandi.
     e.      Á undan orðunum „nytjastofna sjávar“ í c-lið a-liðar komi: afurðum.
     f.      Í stað orðanna „hönnuð og framleidd hér á landi þó að hráefni komi erlendis frá“ í d-lið a-liðar komi: hönnuð eða framleidd hér á landi eða úr innlendu hráefni.
     g.      Í stað orðanna „50 ár“ í e-lið a-liðar komi: 30 ár.
     h.      Í stað orðanna „Ráðherra er heimilt í reglugerð að“ í 1. efnismgr. b-liðar komi: Ráðherra skal í reglugerð.
     i.      2. efnismgr. b-liðar orðist svo:
                      Neytendastofa hefur eftirlit með og sker úr um álitaefni varðandi leyfilega notkun fánans skv. 4. mgr.

Alþingi, 27. mars 2014.



Ögmundur Jónasson,


form.


Karl Garðarsson.


Pétur H. Blöndal.



Sigrún Magnúsdóttir,


frsm.


Willum Þór Þórsson.