Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 565. máls.

Þingskjal 982  —  565. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um heimild til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál), og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins með tilliti til framkvæmdar á alþjóðasamningi um beitingu sameiginlegrar markaðstengdrar heildarráðstöfunar um alþjóðlega losun frá flugi frá árinu 2020.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins með tilliti til framkvæmdar á alþjóðasamningi um beitingu sameiginlegrar markaðstengdrar heildarráðstöfunar um alþjóðlega losun frá flugi frá árinu 2020.
    Með reglugerðinni er gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir breytt hvað varðar flugstarfsemi til ársins 2016. Gildissvið kerfisins er þrengt þannig að skyldan til að skila inn losunarheimildum fyrir losun frá flugi nær einungis til flugumferðar innan EES en ekki til flugs til og frá svæðinu, en samkvæmt tilskipun 2003/87/EB skulu flugrekendur standa skil á losunarheimildum fyrir allt flug innan EES sem og til og frá EES. Reglugerðin kveður á um takmarkað gildissvið viðskiptakerfisins hvað varðar flugstarfsemi fram til ársins 2016, en gert er ráð fyrir að það ár liggi fyrir samningur á vettvangi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) um að koma á alþjóðlegu markaðskerfi til að draga úr losun frá flugstarfsemi á heimsvísu. Búist er við að sá samningur öðlist gildi árið 2020. Evrópusambandið mun því endurskoða framhaldið í ljósi þessa samnings árið 2016. Auk ákvæða um breytingu á gildissviði er að finna í reglugerðinni nokkrar minni breytingar eins og rakið er hér á eftir. Þá gerir reglugerðin ráð fyrir því að uppgjör losunarheimilda vegna losunar frá flugi innan EES árin 2013 og 2014 fari fram árið 2015, þ.e. að ekki þurfi að skila inn neinum losunarheimildum árið 2014.
    Gert er ráð fyrir að ákvæði reglugerðarinnar taki gildi innan Evrópusambandsins um leið og hún hefur verið birt í stjórnartíðindum ESB síðari hluta apríl 2014, en ákvæði hennar taka við af ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins 377/2013 um tímabundið frávik frá tilskipun 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins („stop the clock“ ákvörðunin). Þar sem ákvörðun 377/2013 nær einungis til losunar frá flugi fram til loka árs 2012 og frestur til að greiða losunarheimildir fyrir losun ársins 2013 rennur út 30. apríl 2014 er mikilvægt að reglugerðin verði tekin inn í samninginn fyrir þann tíma. Að öðrum kosti tekur hið upprunalega gildissvið tilskipunar 2003/87/EB aftur við í EES/EFTA-ríkjunum (Íslandi, Noregi og Liechtenstein). Slíkt væri afar óheppilegt og mundi í tilviki Íslands gefa misvísandi skilaboð til þeirra tæplega 300 erlendu flugrekenda sem Ísland hefur umsjón með samkvæmt tilskipuninni og eiga að skila skýrslu um losun, sem og losunarheimildum til Umhverfisstofnunar. Innleiðing umræddrar reglugerðar hér á landi kallar á lagabreytingar. Vegna þess hve mikilvægt það er að reglugerðin geti öðlast gildi samtímis á Evrópska efnahagssvæðinu er nauðsynlegt að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku gerðarinnar í samninginn geti tekið gildi þegar í stað, með öðrum orðum að ekki verði settur stjórnskipulegur fyrirvari af hálfu einstakra EES/EFTA-ríkja. Því er lagt til að Alþingi heimili ríkisstjórninni fyrir fram að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem kveðið verður á um upptöku reglugerðarinnar í samninginn. Umhverfis- og auðlindaráðuneyti hefur með minnisblaði til umhverfis- og samgöngunefndar gert tillögu að bráðabirgðaákvæði í loftslagslögin af þessu tilefni en frumvarp til fullnaðarinnleiðingar reglugerðarinnar mun verða lagt fyrir Alþingi haustið 2014.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Drög að reglugerðinni sem þegar hafa verið samþykkt en eru ekki komin út í endanlegri útgáfu eru prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur slíkur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér á landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að leita ber eftir samþykki Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt með viðeigandi lagabreytingu, en einnig getur Alþingi heimilað stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Innleiðing reglugerðarinnar um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins með tilliti til framkvæmdar á alþjóðasamningi um beitingu sameiginlegrar markaðstengdrar heildarráðstöfunar um alþjóðlega losun frá flugi frá árinu 2020 kallar á lagabreytingar hér á landi. Almennt eru ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar sem kalla á lagabreytingar teknar með stjórnskipulegum fyrirvara og í kjölfarið leitað heimildar Alþingis fyrir staðfestingu ákvörðunarinnar, sbr. 7. mgr. 45. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis. Setning stjórnskipulegs fyrirvara af hálfu eins EES/EFTA-ríkis hefur hins vegar í för með sér að viðkomandi ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar öðlast ekki gildi fyrr en að tilteknum tíma liðnum frá því að viðkomandi ríki lýsir því yfir að það aflétti fyrirvaranum.
    Eins og að framan greinir þá munu hinar víðtækari reglur tilskipunar 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins gilda hérlendis um losunarheimildir hvað varðar flugstarfsemi frá og með 30. apríl 2014 nema nýja reglugerðin geti öðlast gildi á öllu EES-svæðinu fyrir þann tíma. Af þessum sökum er mikilvægt að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku gerðarinnar í samninginn öðlist gildi um leið og hún verður tekin, þ.e. að ekkert EES/EFTA-ríkjanna þriggja setji stjórnskipulegan fyrirvara við ákvörðunina, enda frestar slíkt gildistöku ákvörðunarinnar, og þar með upptöku reglugerðarinnar í samninginn, þar til að eftir að fyrirvaranum hefur verið aflétt. Því er leitað fyrirframheimildar Alþingis fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta þá ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem mun kveða á um upptöku umræddrar reglugerðar í EES-samninginnn án stjórnskipulegs fyrirvara.

3. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins með tilliti til framkvæmdar á alþjóðasamningi um beitingu sameiginlegrar markaðstengdrar heildarráðstöfunar um alþjóðlega losun frá flugi frá árinu 2020.
    Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda (ETS) hefur verið virkt innan ESB frá árinu 2005. Viðskiptakerfið er meginstjórntæki ESB á sviði loftslagsmála og er ætlað að mynda hagrænan hvata til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í sambandinu. Viðskiptakerfið (tilskipun 2003/87/EB) var tekið inn í EES-samninginn árið 2007 og EFTA- ríkin hafa verið þátttakendur í því frá árinu 2008. Ísland hefur verið virkur þátttakandi í viðskiptakerfinu frá 1. janúar 2012 þegar flugstarfsemi var felld undir viðskiptakerfið og frá 1. janúar 2013 hefur það einnig náð til staðbundins iðnaðar hér á landi.
    Samkvæmt tilskipun 2003/87/EB eins og henni var breytt með tilskipun 2008/101/EB nær viðskiptakerfið til allrar flugstarfsemi innan EES, sem og til og frá svæðinu. Tilskipuninni var ætlað að draga úr losun koldíoxíðs frá flugstarfsemi innan EES. Í því skyni var flug innan sambandsins, sem og flug inn og út úr svæðinu, fellt undir viðskiptakerfið. Nokkrar tegundir flugstarfsemi eru undanskildar, þar á meðal flutningur þjóðhöfðingja og ríkisstjórna frá ríkjum utan svæðisins, hernaðar-, tollgæslu- og löggæsluflug, leitar- og björgunarflug, flug með minna en 5.700 kg flugtaksþunga og flugstarfsemi aðila sem stunda flugrekstur í atvinnuskyni ef þeir fara annaðhvort færri en 243 flugferðir á hverju tímabili af þremur samliggjandi fjögurra mánaða tímabilum eða ef flugferðir þeirra leiða til losunar sem nemur minna en 10.000 tonnum á ári.
    Sérhver flugrekandi sem fellur undir gildissvið tilskipunarinnar heyrir undir tiltekið ábyrgðarríki, þ.e. það ríki sem ber ábyrgð á að framkvæma kröfur tilskipunarinnar gagnvart viðkomandi flugrekanda. Ísland er ábyrgðarríki um 300 flugrekenda sem flestir eru frá ríkjum utan EES. Landfræðileg staða Íslands veldur því að Ísland ber þrátt fyrir smæð ábyrgð á hlutfallslega mörgum flugrekendum í viðskiptakerfinu. Með ákvörðun 377/2013 um tímabundið frávik frá tilskipun 2003/87/EB var felld niður skylda flugrekenda til að skila losunarheimildum vegna losunar frá flugi árið 2012 til og frá Evrópu og frá nokkrum tengdum ríkjum til ríkja utan Evrópu. Sú ákvörðun var tekin af Evrópusambandinu með stuttum fyrirvara þegar fyrir lá að mögulega væri hægt að ná samkomulagi á vettvangi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) um alþjóðlegt markaðskerfi til að draga úr losun frá flugstarfsemi á heimsvísu. Mikil óánægja hafði ríkt meðal ríkja utan Evrópu vegna þeirrar kröfu viðskiptakerfis ESB að greiða þyrfti losunarheimildir fyrir allt flug til og frá Evrópu. Harðar deilur voru um málið þar sem stór ríki á borð við Kína, Indland og Kanada töldu að Evrópusambandið væri með þessu að setja reglur út fyrir evrópskt umráðasvæði. Evrópusambandið mat það því svo að með því að fresta framkvæmd viðskiptakerfisins gagnvart flugi til og frá Evrópu í eitt ár mætti liðka fyrir samningum á vettvangi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar. Á 38. aðildarríkjafundi stofnunarinnar sem haldinn var 24. september til 4. október 2013 náðist samkomulag um að samningur um alþjóðlegt markaðskerfi til að draga úr losun frá flugstarfsemi skyldi liggja fyrir árið 2016 með það fyrir augum að verða fullgiltur og taka gildi árið 2020. Af því tilefni hefur Evrópusambandið nú ákveðið að ganga lengra og takmarka gildissvið viðskiptakerfisins til ársins 2016 við flug innan EES á meðan lokið er gerð hins alþjóðlega samnings. Reglugerð sú sem hér um ræðir er því nokkuð beint framhald af ákvörðun 377/2013 og tekur við þar sem ákvörðuninni sleppir.
    Til viðbótar því sem að framan hefur verið rakið um gildissvið tilskipunar 2003/87/EB hvað varðar flugstarfsemi kveður reglugerðin á um nokkrar tæknilegar breytingar til að aðlaga ákvæði er varða vöktunaráætlanir, skýrslur um losun, úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda og uppboð losunarheimilda og þess háttar að breyttu gildissviði. Þá er í reglugerðinni að finna þá mikilvægu breytingu fyrir Ísland að smáir losendur með árlega losun undir 1.000 tonnum af CO 2 verða undanskildir gildissviði viðskiptakerfisins. Það mun létta mjög stjórnsýslulega byrði hérlendis því það mun hafa í för með sér að flugrekendum undir umsjón Íslands fækkar umtalsvert. Til nánari skýringar á gildissviði reglugerðarinnar þá verður losun frá flugi innan EES til ystu svæða, svo sem Kanaríeyja og Guadeloupe, undanskilin. Losun frá flugi innan EES til Grænlands og Færeyja verður einnig undanskilin.

4. Fyrirhuguð upptaka reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. /2014 í EES- samninginn, lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Breyta þarf lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál, til að fullinnleiða reglugerðina og verður frumvarp þar um lagt fram á Alþingi næsta haust. Eins og fram hefur komið hefur umhverfis- og auðlindaráðuneyti með minnisblaði til umhverfis- og samgöngunefndar gert tillögu að bráðabirgðaákvæði í loftslagslögin til þess að taka af öll tvímæli um skyldu flugrekenda til að skila skýrslum um losun og losunarheimildum vegna ársins 2013. Umrætt bráðabirgðaákvæði frestar þessari skyldu flugrekenda fram til ársins 2015, sem er í samræmi við ákvæði reglugerðar þeirrar sem hér er til umfjöllunar.
    Helstu áhrif reglugerðarinnar felast annars vegar í því að þar sem ekki þarf að greiða fyrir losun frá flugi til og frá EES fram til 2016 munu þeir flugrekendur sem fljúga á slíkum leiðum ekki þurfa að kaupa losunarheimildir vegna þeirra. Við þetta sparast kostnaður hjá þessum flugrekendum. Hins vegar hefur hið nýja ákvæði um að flugrekendur með árlega losun undir 1.000 tonnum falli utan kerfisins í för með sér að fjöldinn allur af litlum aðilum fellur nú utan viðskiptakerfisins og þarf ekki að greiða fyrir sína losun, enda er hún mjög lítil. Það ætti líka að draga heldur úr álagi hjá Umhverfisstofnun sem hefur hingað til haft umsjón með mjög mörgum litlum flugrekendum.

Fylgiskjal.


REGLUGERÐ EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS (ESB) Nr. .../2014
um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins með tilliti til framkvæmdar á alþjóðasamningi um beitingu sameiginlegrar markaðstengdrar heildarráðstöfunar um alþjóðlega losun frá flugi frá árinu 2020
(Texti sem varðar EES)


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins, einkum 1. mgr. 192. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins,
eftir að hafa lagt drög að lagagerð fyrir þjóðþingin,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópusambandsins ( 1 ),
Að höfðu samráði við svæðanefndina,
í samræmi við almenna lagasetningarmeðferð ( 2 ) ,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)        Fluggeirinn hefur sterka alþjóðlega eiginleika. Hnattræn nálgun til að fjalla um losun frá alþjóðaflugi felur í sér bestu horfurnar til að tryggja sjálfbærni til lengri tíma litið.
2)        Sambandið leitast við að tryggja alþjóðasamninga til framtíðar til að stjórna losun gróðurhúsalofttegunda frá flugi og mun í millitíðinni takmarka, að eigin frumkvæði, áhrif loftslagsbreytinga frá flugstarfsemi til og frá flugvöllum í Sambandinu. Til að tryggja að þessi markmið styðji hvert við annað og stangist ekki á er rétt að taka tillit til þróunar á alþjóðlegum vettvangi og til afstöðu sem þar hefur verið tekin, einkum að taka tillit til ályktunar sem var samþykkt 4. október 2013 á 38. fundi þings Alþjóðaflugmálastofnunarinnar og inniheldur sameinaða yfirlýsingu um að halda áfram með stefnumál og venjur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar í tengslum við umhverfisvernd.
3)        Af þessum sökum, til að viðhalda þeim skriðþunga sem náðist á 38. fundi þings Alþjóðaflugmálastofnunarinnar árið 2013 og greiða fyrir framförum á fyrirhuguðum 39. fundi árið 2016, er æskilegt að líta tímabundið svo á að kröfurnar, sem settar eru fram í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB( 3 ), séu uppfylltar fyrir tímabilið til 31. desember 2016 að því er varðar flug til og frá flugvöllum í löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Með þessu leggur Sambandið áherslu á að unnt sé að beita lagaskilyrðum að því er varðar flug til og frá flugvöllum í ríkjum EES á sama hátt og unnt er að beita lagaskilyrðum að því er varðar losun frá flugi milli slíkra flugvalla. Til að tryggja réttarvissu að því er varðar þessa undanþágu ætti að líta svo á að flug milli flugvalla, sem eru staðsettir í ríkjum EES, og flugvalla í löndum, sem gerðust aðilar að Sambandinu árið 2013, sé flug á milli ríkja EES.
4)        Haft er í huga að samkvæmt tilskipun 2003/87/EB er það aðildarríkjanna að ákveða hvernig tekjum af uppboði á losunarheimildum er ráðstafað. Nota ætti þessar tekjur eða jafngildi þeirra metið til fjár til að bregðast við loftslagsbreytingum í Sambandinu og þriðju löndum, m.a. til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, aðlagast áhrifum af loftslagsbreytingum í Sambandinu og þriðju löndum, einkum þróunarlöndum, fjármagna rannsóknir og þróun með tilliti til takmörkunar og aðlögunar, einkum að því er varðar flugtækni og flutninga í lofti, draga úr losun með flutningum sem valda lítilli losun og til að standa undir kostnaði við stjórnun á kerfi Sambandsins. Ágóðanum af uppboðunum eða jafngildi þeirra metið til fjár ætti einnig að verja til að fjármagna framlög í alþjóðlega sjóðinn fyrir orkunýtni og endurnýjanlega orku og ráðstafanir til að koma í veg fyrir skógeyðingu. Gagnsæi við notkun tekna af uppboðum á losunarheimildum samkvæmt tilskipun 2003/87/EB er lykillinn að því að renna stoðum undir skuldbindingar Sambandsins. Samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 525/2013 ( 4 ) eiga aðildarríkin að senda framkvæmdastjórninni skýrslu um notkun tekna af uppboðum á slíkum losunarheimildum.
5)        Í undanþágunum, sem kveðið er á um í þessari reglugerð, er tekið tillit til niðurstaðna úr tvíhliða og marghliða samskiptum við þriðju lönd, sem framkvæmdastjórnin mun halda áfram að fylgja fyrir hönd Sambandsins, í því skyni að stuðla að markaðstengdu fyrirkomulagi til að draga úr losun frá flugsamgöngum.
6)        Haft er í huga að í tilskipun 2003/87/EB er gert ráð fyrir möguleika á að samþykkja ráðstafanir til að breyta flugstarfsemi sem er tilgreind í I. viðauka við þá tilskipun ef þriðja land innleiðir ráðstafanir til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga frá flugstarfsemi.
7)        Samningaviðræður um alla flugmálasamninga Sambandsins við þriðju lönd ættu að miðast að því að standa vörð um sveigjanleika Sambandsins til að grípa til aðgerða að því er varðar umhverfismál, þ.m.t. að því er varðar ráðstafanir til að draga úr áhrifum flugsamgangna á loftslagsbreytingar.
8)        Til að forðast röskun á samkeppni er mikilvægt að öll flug á sömu flugleið séu meðhöndluð á sama hátt.
9)        Til að komast enn frekar hjá óhóflegri stjórnsýslubyrði á minnstu umráðendur loftfara ætti að bæta tímabundinni undanþágu við I. viðauka við tilskipun 2003/87/EB. Umráðendur loftfara, sem eru ekki með rekstur í atvinnuskyni, sem losa minna en 1000 tonn af koltvísýringi á ári ættu af þeim sökum að vera undanþegnir gildissviði þeirrar tilskipunar frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2020.
10)        Rétt þykir að gera umráðendum loftfara, sem eru smálosendur, kleift að nota aðra aðferð til að sannprófa losun sína til að draga enn frekar úr stjórnsýsluálagi á þá. Aðildarríkjunum ætti að vera kleift að koma í framkvæmd ráðstöfunum til einföldunar þar sem einkum er tekið á þörfum umráðenda, sem eru ekki með rekstur í atvinnuskyni, sem eru smálosendur.
11)        Sérstaka áherslu ætti að leggja á að draga úr eða jafnvel leysa öll vandamál sem koma upp í tengslum við aðgengi og samkeppnishæfni ystu svæða Sambandsins. Með þetta í huga ættu flug milli flugvallar, sem er staðsettur á ysta svæði í skilningi 349. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins, og flugvallar, sem er staðsettur á öðru svæði EES, einnig að falla undir undanþáguna sem er komið á samkvæmt þessari reglugerð.
12)        Til að tryggja réttarvissu fyrir umráðendur loftfara og landsyfirvöld er rétt að heimila að framlengja lokadaga innskila og skýrslugjafar vegna losunar ársins 2013 til ársins 2015.
13)        Vegna beitingar þessarar undanþágu er mikilvægt að minnast þess að aðferðir til úthlutunar og útgáfu losunarheimilda til umráðenda loftfara eru áfram þær sem voru fastsettar samkvæmt tilskipun 2003/87/EB, þ.e.a.s. byggðar á sannprófuðum gögnum um tonnkílómetra að því er varðar viðkomandi tímabil sem þar er getið um.
14)        Eftir þing Alþjóðaflugmálastofnunarinnar árið 2016 og í ljósi niðurstöðu þess ætti framkvæmdastjórnin að afhenda Evrópuþinginu og ráðinu fullnaðarskýrslu. Í þessari skýrslu ætti framkvæmdastjórnin m.a. að taka til athugunar alla kosti vegna umfangs losunar frá flugstarfsemi og, ef við á, leggja fljótt til ráðstafanir til að tryggja að unnt sé að taka tillit til alþjóðlegrar þróunar og að unnt verði að fjalla um alla þætti sem varða beitingu undanþágunnar. Framkvæmdastjórnin ætti einnig að taka sérstakt tillit til umhverfislegs árangurs af viðskiptakerfi ESB fyrir losunarheimildir (EU ETS) og, í þessu samhengi, til sérstaks framlags fluggeirans, þ.m.t. fyrirkomulags til að samræma betur þær reglur sem gilda um flugstarfsemi og staðbundnar stöðvar, eftir því sem við á.
15)        Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiðum þessarar reglugerðar, þ.e. að innleiða tímabundna undanþágu að því er varðar vöktun, skýrslugjöf og innskil losunarheimilda vegna flugferða til og frá löndum utan EES, frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2016, til að draga úr stjórnsýslubyrði og einfalda stjórnun kerfisins og þeim verður betur náð á vettvangi Sambandsins vegna umfangs og áhrifa aðgerðarinnar er Sambandinu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við nálægðarregluna eins og fram kemur í 5. gr. sáttmálans um Evrópusambandið. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari reglugerð til að ná þessum markmiðum.
16)        Nauðsynlegt er að tryggja réttarvissu fyrir umráðendur loftfara og landsyfirvöld með tilliti til lokadags innskila, sem er 30. apríl 2014, eins og um getur í tilskipun 2003/87/EB. Til samræmis við það ætti þessi reglugerð að öðlast gildi á þeim degi sem hún er samþykkt.
17)        Breyta ber tilskipun 2003/87/EB til samræmis við það.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:

1. gr.

Tilskipun 2003/87/EB er breytt sem hér segir:
1)    Eftirfarandi grein bætist við:
    „28. gr. a
    Undanþágur sem gilda áður en alþjóðasamningur um beitingu sameiginlegrar markaðstengdrar heildarráðstöfunar kemur til framkvæmda árið 2020
    1.    Þrátt fyrir ákvæði 12. gr. (2. mgr. a), 14. gr. (3. mgr.) og 16. gr. skulu aðildarríkin líta svo á að kröfurnar, sem settar eru fram í þeim ákvæðum, séu uppfylltar og skulu ekki grípa til aðgerða gagnvart umráðendum loftfara að því er varðar:
        a)    alla losun frá flugi til og frá flugvöllum, sem eru staðsettir í löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), á hverju almanaksári frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2016,
        b)    alla losun frá flugi milli flugvallar, sem er staðsettur á ysta svæði í skilningi 349. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins, og flugvallar, sem er staðsettur á öðru svæði EES, á hverju almanaksári frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2016,
        c)    innskil losunarheimilda, sem svara til sannprófaðrar losunar fyrir árið 2013, frá flugferðum milli flugvalla sem eru staðsettir í ríkjum EES, sem eiga sér stað eigi síðar en 30. apríl 2015 í stað 30. apríl 2014, og sannprófaða losun fyrir þessi flug sem skýrsla er gefin um eigi síðar en 31. mars 2015 í stað 31. mars 2014.
        Að því er varðar ákvæði 11. gr. a, 12. gr. og 14. gr. skal líta svo á að sannprófuð losun frá flugferðum, öðrum en þeim sem um getur í fyrstu undirgrein, sé sannprófuð losun umráðanda loftfars.
    2.    Þrátt fyrir 5. mgr. 3. gr. e og 3. gr. f. skal umráðandi loftfars, sem nýtur góðs af undanþágum sem kveðið er á um í a- og b-lið 1. mgr. þessarar greinar, fá úthlutað fjölda losunarheimilda án endurgjalds sem fækkar í hlutfalli við minnkun á skuldbindingum um innskil á losunarheimildum sem kveðið er á um í þessum liðum.
        Þrátt fyrir 8. mgr. 3. gr. f skal ógilda losunarheimildir sem ekki er úthlutað vegna beitingar fyrstu undirgreinar.
        Að því er varðar starfsemi á tímabilinu frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2016 skulu aðildarríkin birta þann fjölda losunarheimilda án endurgjalds vegna flugs, sem er úthlutað til hvers umráðanda loftfars, eigi síðar en ... * .
    3.    Þrátt fyrir 3. gr. d skulu aðildarríkin bjóða upp tiltekinn fjölda losunarheimilda vegna flugs sem fækkar í hlutfalli við fækkun á heildarfjölda losunarheimilda sem er úthlutað.
    4.    Þrátt fyrir 3. mgr. 3. gr. d skal fækka þeim fjölda losunarheimilda, sem hvert aðildarríki skal bjóða upp að því er varðar tímabilið frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2016, þannig að fjöldinn samsvari hlutdeild aðildarríkisins í losun frá flugi sem rekja má til þess vegna flugferða sem falla ekki undir undanþágurnar sem kveðið er á um í a- og b-lið 1. mgr. þessarar greinar.
    5.    Þrátt fyrir 3. gr. g skal ekki krefja umráðendur loftfara um að leggja fram vöktunaráætlanir þar sem gerð er grein fyrir ráðstöfunum til að vakta og gefa skýrslu um losun að því er varðar flug sem falla undir undanþágurnar sem kveðið er á um í a- og b-lið 1. mgr. þessarar greinar.
    6.    Þrátt fyrir 3. gr. g, 12. gr., 15. gr. og 18. gr. a skal líta svo á að ef árleg heildarlosun umráðanda loftfars er minni en 25 000 tonn af koltvísýringi sé losun hans sannprófuð losun ef hún er ákvörðuð með því að nota tæki fyrir smálosendur sem er samþykkt samkvæmt reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 606/2010 * og inniheldur gögn frá Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu úr stoðbúnaði viðskiptakerfis fyrir losunarheimildir (e. ETS support facility). Aðildarríkjunum er heimilt að koma í framkvæmd einfölduðu ferli fyrir umráðendur loftfara, sem eru ekki með rekstur í atvinnuskyni, svo fremi sem slíkt ferli veiti ekki minni nákvæmni en fæst með tæki smálosenda.
    7.    Að því er varðar þessa grein skal líta svo á að flug milli flugvalla, sem eru staðsettir í ríkjum EES, og landa, sem gerðust aðilar að Sambandinu árið 2013, séu flug milli flugvalla sem eru staðsettir í ríkjum EES.
    8.    Framkvæmdastjórnin skal reglubundið og a.m.k. einu sinni á ári upplýsa Evrópuþingið og ráðið um framvindu samningaviðræðna Alþjóðaflugmálastofnunarinnar sem og um viðleitni sína til að stuðla að alþjóðlegri viðurkenningu á markaðstengdu fyrirkomulagi í þriðju löndum. Í kjölfar þings Alþjóðaflugmálastofnunarinnar árið 2016 skal framkvæmdastjórnin gefa Evrópuþinginu og ráðinu skýrslu um aðgerðir til að hrinda í framkvæmd alþjóðasamningi um markaðstengda heildarráðstöfun frá árinu 2020, sem mun draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá flugsamgöngum á jafnréttisgrundvelli, þ.m.t. um upplýsingar, sem varða notkun tekna, sem aðildarríkin leggja fram í samræmi við 17. gr. reglugerðar (ESB) nr. 525/2013.
     Í skýrslu sinni skal framkvæmdastjórnin taka til athugunar þessa þróun að því er varðar viðeigandi gildissvið fyrir umfang losunar frá starfsemi til og frá flugvöllum, sem eru staðsettir í löndum utan EES, frá 1. janúar 2017 og eftir það og, ef við á, láta fylgja tillögur til að bregðast við þessari þróun. Í skýrslu sinni skal framkvæmdastjórnin einnig taka til athugunar lausnir á öðrum málum sem kunna að koma upp við beitingu 1. til 4. mgr. þessarar greinar en varðveita jafnframt jafnræði í meðferð á öllum umráðendum loftfara á sömu flugleið.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)    Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 606/2010 frá 9. júlí 2010 um samþykki á einfölduðu tæki sem Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu (Eurocontrol) hefur þróað til að áætla eldsneytisnotkun tiltekinna umráðenda loftfara sem losa lítið (Stjtíð. ESB L 175, 10.7.2010, bls. 25).“
2)    Í I. viðauka, í dálkinn „Starfsemi“ í töflunni í viðaukanum, undir fyrirsögninni „Flugsamgöngur“, bætist eftirfarandi liður við á eftir j-lið:
    k)    frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2020: flugferðir sem myndu, ef ekki væri fyrir tilstilli þessa liðar, falla undir þessa starfsemi, á vegum umráðenda loftfara, sem eru ekki með rekstur í atvinnuskyni, sem annast flugferðir þar sem heildarlosun á ári er minni en 1000 tonn.“

2. gr.

Reglugerð þessi öðlast gildi daginn sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Hún gildir frá og með ... * .
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í ,

Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
forseti. forseti.
Or. en
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Álit var samþykkt 22. janúar 2014 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindunum).
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Afstaða Evrópuþingsins frá ... (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindunum) og ákvörðun ráðsins frá ...
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB frá 13. október 2003 um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins og um breytingu á tilskipun ráðsins 96/61/EB (Stjtíð. ESB L 275, 25.10.2003, bls. 32).
Neðanmálsgrein: 4
(4)    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 525/2013 frá 21. maí 2013 um fyrirkomulag við vöktun og skýrslugjöf að því er varðar losun gróðurhúsalofttegunda og skýrslugjöf að því er varðar aðrar upplýsingar á landsvísu og á vettvangi Sambandsins sem varða loftslagsbreytingar og um niðurfellingu á ákvörðun nr. 280/2004/EB (Stjtíð. ESB L 165, 18.6.2013, bls. 13).
Neðanmálsgrein: 5
* Réttar dagsetningar verði settar inn.
Neðanmálsgrein: 6
*     Réttar dagsetningar verði settar inn.