Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 348. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1064  —  348. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um mótmæli gegn ofsóknum
gegn samkynhneigðum í Úganda.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríu Erlu Marelsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Engilbert Guðmundsson og Þórdísi Sigurðardóttur frá Þróunarsamvinnustofnun Íslands.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi fordæmi harðlega nýlega samþykkt þingsins í Úganda og staðfestingu forseta landsins á lögum sem heimila ofsóknir gegn samkynhneigðum. Þá er lagt til að Alþingi álykti að fela utanríkisráðherra að setja fram hörð mótmæli íslenskra stjórnvalda gagnvart stjórnvöldum í Úganda vegna þeirra mannréttindabrota sem í löggjöfinni felast og jafnframt að hagræða þróunaraðstoð við Úganda með það fyrir augum að stórauka fjárframlög til samtaka samkynhneigðra í landinu án þess að draga úr heildarframlögum til landsins að sinni. Loks er lagt til að Alþingi feli utanríkisráðherra að kynna afstöðu þingsins þeim ríkjum sem eiga í þróunarsamvinnu við Úganda, einkum Norðurlöndunum, og leita samstöðu um að fleiri ríki hagi viðbrögðum sínum með sama hætti.
    Fram kom á fundi nefndarinnar að íslensk stjórnvöld hafa þegar brugðist við lagasetningu í Úganda sem heimila ofsóknir gegn samkynhneigðum af festu. Hinn 24. febrúar sl., sama dag og forseti Úganda undirritaði lögin, birti utanríkisráðherra yfirlýsingu þar sem hann harmaði undirritun þeirra og lagði áherslu á stuðning íslenskra stjórnvalda við réttindabaráttu hinsegin fólks á alþjóðavettvangi. Sagði ráðherra ákvæði laganna brjóta gegn mannréttindum sem tryggð eru í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, mannréttindasáttmála Afríku og í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Hinn 28. febrúar sl. skrifaði Ísland undir sameiginlega yfirlýsingu líkt þenkjandi ríkja sem eiga í þróunarsamvinnu við Úganda þar sem lögin voru fordæmd. Þá átti utanríkisráðherra fund með fjármálaráðherra Úganda 11. apríl sl. þar sem gagnrýni íslenskra stjórnvalda var komið á framfæri og stuðningur ítrekaður við samkynhneigða í Úganda.
    Nefndin fagnar fram komnum viðbrögðum stjórnvalda en telur engu síður brýnt að Alþingi álykti um málið og bregðist þannig við samþykkt þingsins í Úganda á fyrrnefndum lögum.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    2. mgr. tillögugreinarinnar orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að ítreka hörð mótmæli íslenskra stjórnvalda gagnvart stjórnvöldum í Úganda vegna þeirra mannréttindabrota sem í löggjöfinni felast og jafnframt að fara yfir fyrirkomulag þróunaraðstoðar við Úganda með það fyrir augum að auka fjárframlög til samtaka samkynhneigðra í landinu og annarra frjálsra félagasamtaka án þess að draga úr heildarframlögum til landsins að sinni.

    Frosti Sigurjónsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Óttarr Proppé voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. maí 2014.

Birgir Ármannsson,
form., frsm.
Ásmundur Einar Daðason. Svandís Svavarsdóttir.
Silja Dögg Gunnarsdóttir. Vilhjálmur Bjarnason. Össur Skarphéðinsson.