Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 227. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1148  —  227. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu
EES-nefndarinnar nr. 113/2013 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar
reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Kjartansdóttur og Önnu Katrínu Vilhjálmsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Hafstein Pálsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
    Utanríkismálanefnd hefur áður, í samræmi við reglur um þinglega meðferð EES-mála, fjallað um reglugerð (ESB) nr. 305/2011, er varðar byggingarvörur, sbr. 2. gr. reglnanna, til mats á því hvort efnislegra aðlagana sé þörf. Málið var þá komið til umfjöllunar í vinnuhópi EFTA um umhverfismál og var utanríkismálanefnd upplýst um málið, skv. 2. mgr. 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, sbr. 2. og 7. gr. framangreindra reglna, með skeyti frá utanríkisráðuneyti, dags. 8. desember 2012, ásamt fylgigögnum. Í því ferli hlaut tilskipunin efnislega umfjöllun í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.
    Með tillögunni er nú leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 113/2013, frá 14. júní 2013, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 305/2011, frá 9. mars 2011, um samræmd skilyrði fyrir markaðssetningu byggingarvara og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 89/106/EBE. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 14. desember 2013. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Tilskipunin kveður á um upplýsingagjöf um eiginleika byggingarvara, svo sem um öryggi og hollustu, ákvæði um ábyrgð, hlutverk og skyldur aðila, þar á meðal hvað varðar framleiðendur, innflytjendur, dreifingaraðila, tæknimatsstofnanir, tilkynnta aðila og markaðseftirlitsstofnanir. Þá hefur reglugerðin að geyma skýrari ákvæði um markaðseftirlit en gilt hafa fram til þessa.
    Innleiðing framangreindrar reglugerðar ESB kallar á lagabreytingar hér á landi og hefur umhverfis- og auðlindaráðherra þegar lagt fram frumvarp til laga um byggingarvörur (heildarlög, EES-reglur), sbr. 61. mál. Umhverfis- og samgöngunefnd hefur fjallað um frumvarpið og skilaði nefndaráliti með breytingartillögu, dags. 13. desember 2013, sem laut einkum að kröfum um leiðbeiningar og upplýsingar með byggingarvörum.
    Eftir að breytingartillaga umhverfis- og samgöngunefndar við frumvarpið kom fram gerði Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) athugasemdir, dags. 17. febrúar 2014, við III. kafla frumvarpsins. Um var að ræða athugasemdir vegna tilkynningar ráðuneytisins um tæknilegar reglur á grundvelli tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 98/34/EB sem setur reglur um tilhögun upplýsingaskipta vegna tæknilegra reglna. Hefur umhverfis- og samgöngunefnd fjallað um athugasemdirnar og er með til skoðunar að bregðast við þeim, eftir atvikum með útgáfu framhaldsnefndarálits með breytingartillögu.
    Meiri hlutinn telur af þessu tilefni rétt að athugun fari fram á með hvaða hætti er best fyrir komið og tímasett annars vegar: tilkynning ráðuneytis um tæknilegar reglur á grundvelli tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 98/34/EB sem setur reglur um tilhögun upplýsingaskipta vegna tæknilegra reglna, og hins vegar: úrvinnsla athugasemda frá ESA og framlagning frumvarps til innleiðingar á Alþingi. Þar er átt við tæknilegar reglur í skilningi ákvæða laga nr. 57/2000, um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu.
    Málið sem hér er til umfjöllunar er stjórnskipulegur hluti frumvarps í 61. máli er varðar byggingarvörur, sbr. 7. mgr. 45. gr. þingskapa um að stjórnskipulegum fyrirvara, sbr. 21. gr. stjórnarskrárinnar, skuli aflétt með ályktun Alþingis í stað frumvarps beint. Meiri hlutinn gerir athugasemdir við að þingleg meðferð á frumvarpi til innleiðingar hafi verið langt komin og málið afgreitt út úr þingnefnd án þess að þingsályktunartillagan hafi verið rædd, eða komin til nefndar. Meiri hlutinn telur eðlilegri röð mála vera þá að aflétting stjórnskipulegs fyrirvara fari fram fyrir fram eða samhliða því sem frumvarp til innleiðingar er til umfjöllunar á Alþingi. Er það jafnframt í samræmi við fyrrgreinda 7. mgr. 45. gr. þingskapa.
Meiri hlutinn telur sýnt að þótt stjórnskipulegum fyrirvara verði aflétt nú á vorþingi með samþykkt þessarar þingsályktunartillögu, þá þurfi fyrirliggjandi frumvarp (61. mál) frekari skoðunar við, m.a. í ljósi athugasemda sem fram hafa komið frá ESA.
    Samkvæmt kostnaðarmati með frumvarpinu í 61. máli er reiknað með að útgjöld Mannvirkjastofnunar aukist um 10 millj. kr. fyrsta árið vegna nýrra verkefna tengdra reglugerð ESB. Á móti gerir skrifstofa opinberra fjármála í fjármála- og efnahagsráðuneyti ráð fyrir að Mannvirkjastofnun, sem fjármögnuð er að fullu með mörkuðum tekjum, einkum tekjum vegna byggingaröryggisgjalds, geti staðið straum af áætluðum kostnaði vegna ákvæða frumvarpsins. Í heildina segir í kostnaðarumsögninni að afkoma ríkissjóðs geti haldist óbreytt verði frumvarpið samþykkt. Meiri hlutinn leggur af þessu tilefni ríka áherslu á að öllum kostnaði verði haldið innan marka við undirbúning og framkvæmd lagasetningar til innleiðingar á efnisreglum reglugerðarinnar.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Frosti Sigurjónsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Silja Dögg Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. maí 2014.

Birgir Ármannsson,
form., frsm.
Ásmundur Einar Daðason. Vilhjálmur Bjarnason.
Árni Þór Sigurðsson. Óttarr Proppé.