Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 335. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Nr. 44/143.

Þingskjal 1246  —  335. mál.


Þingsályktun

um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu, til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild.


     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að endurskoða stefnu í vímuefnamálum á grundvelli lausnamiðaðra og mannúðlegra úrræða, á forsendum heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfis ins, til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstand end um þeirra og samfélaginu í heild.
    Heilbrigðisráðherra skipi í þessu skyni starfshóp til að vinna að mótun stefnunnar. Land læknir, stjórn SÁÁ, ríkislögreglustjóri, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans, Rauði kross Íslands og velferðarsvið Reykjavíkurborgar tilnefni einn fulltrúa hver en þrjá fulltrúa skipi heilbrigðisráðherra án tilnefningar og verði einn þeirra formaður starfshópsins.
    Verkefni starfshópsins verði að:
     a.      gera úttekt á gildandi lagaumhverfi svo afmarka megi viðfangsefnið nákvæmlega og undirbúa lagabreytingar og/eða nýja löggjöf,
     b.      líta til löggjafar annarra ríkja þar sem horfið hefur verið frá refsistefnu tengdri neyslu ólöglegra vímuefna og tillagna alþjóðlegra nefnda og stofnana á sviði rannsókna í forvörnum gegn vímuefnaneyslu,
     c.      skapa heildstæða stefnu, sem leggur höfuðáherslu á mannúðlega nálgun og vernd mannréttinda, sem dregur úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu og með því stuðla að auknu trausti jaðarhópa til samfélagsins og þeirra stofnana sem eiga að veita þeim þjónustu og skjól.
    Við starfið verði leitað aðstoðar og leiðsagnar hagsmunaaðila og hjálparsamtaka, sem og innlendra og erlendra sérfræðinga eftir þörfum.
    Heilbrigðisráðherra upplýsi Alþingi um framgang verkefnisins á haustþingi 2014 og skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshóps, sbr. c-lið 3. mgr., fyrir 1. maí 2015.

Samþykkt á Alþingi 16. maí 2014.