Ferill 16. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Nr. 1/144.

Þingskjal 567  —  16. mál.


Þingsályktun

um kjöraðstæður fyrir hagnýtingu internetsins og um réttindavernd netnotenda.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp til að móta stefnu um kjöraðstæður fyrir hagnýtingu internetsins og annarrar upplýsingatækni og um réttindavernd netnotenda og leggja til nauðsynlegar lagabreytingar þar að lútandi.
    Í þessu skyni verði:
     a.      skipaður starfshópur til að vinna að markmiðum tillögunnar þar sem Samtök upplýsingatæknifyrirtækja, Samtök gagnavera, Samtök leikjaframleiðenda, Samtök verslunar og þjónustu, Viðskiptaráð Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Klak Innovit, IMMI, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið og innanríkisráðuneytið skipi einn aðila hvert. Jafnframt komi Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst sér saman um skipan eins fulltrúa. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipi formann starfshópsins,
     b.      litið til löggjafar annarra ríkja með það að markmiði að sameina það besta til að skapa kjöraðstæður fyrir hagnýtingu internetsins og annarrar upplýsingatækni ásamt vernd á réttindum notenda, þ.m.t. til friðhelgi einkalífs og upplýsingafrelsis,
     c.      gerð úttekt á lagaumhverfinu svo hægt sé að afmarka viðfangsefnið og undirbúa lagabreytingar eða nýja löggjöf sem stjórnvöld leggja fram.
    Markmið vinnunnar verði að skapa, innleiða og uppfæra heildstæða stefnu um kjöraðstæður á Íslandi fyrir hagnýtingu internetsins og annarrar upplýsingatækni ásamt vernd á réttindum notenda.
    Við starfið verði leitað aðstoðar erlendra sem og innlendra sérfræðinga eftir þörfum.
    Ráðherra leggi árlega fram skýrslu um vinnu starfshópsins þar sem gerð verði grein fyrir vinnu starfshópsins, tillögum hans til ráðherra, hvaða tillögum unnið sé að og hvernig starfinu almennt miðar.

Samþykkt á Alþingi 19. nóvember 2014.