Ferill 425. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.Þingskjal 633  —  425. mál.Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 75/2013 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir,
staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)
    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 75/2013, frá 3. maí 2013, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010, frá 20. október 2010, um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað, framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 363/2012, frá 23. febrúar 2012, um reglur um málsmeðferð við viðurkenningu og afturköllun á viðurkenningu fyrir vöktunarstofnanir eins og kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010, og framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 607/2012, frá 6. júlí 2012, um ítarlegar reglur varðandi kerfi áreiðanleikakannana og varðandi tíðni og eðli eftirlits með vöktunarstofnunum sem kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1.    Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 75/2013, frá 3. maí 2013, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 995/2010, frá 20. október 2010, um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað, framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 363/2012, frá 23. febrúar 2012, um reglur um málsmeðferð við viðurkenningu og afturköllun á viðurkenningu fyrir vöktunarstofnanir eins og kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 995/2010, og framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 607/2012, frá 6. júlí 2012, um ítarlegar reglur varðandi kerfi áreiðanleikakannana og varðandi tíðni og eðli eftirlits með vöktunarstofnunum sem kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 995/2010.
    Með reglugerðunum er reynt að stemma stigu við ólöglegu skógarhöggi og tengdum viðskiptum með því að lágmarka áhættuna á því að timbur sem er ólöglega höggvið eða vörur úr slíku timbri séu settar á markað innan Evrópska efnahagssvæðisins. Reglugerðirnar setja skorður við markaðssetningu á timbri og vörum úr timbri sem hefur verið höggvið með ólöglegum hætti. Þá er aðilum sem selja timbur og timburvörur gert að tryggja rekjanleika vörunnar. Jafnframt er í reglugerðunum kveðið á um sérstakt aðgátskerfi fyrir rekstraraðila sem setja timbur og vörur úr timbri í fyrsta sinn á markað, viðurkenningar á vöktunarstofnunum sem geta viðhaldið og metið aðgátskerfin, og eftirlit af hálfu lögbærra yfirvalda.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðanna sem hér um ræðir, en þær fela ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðunum.

2.    Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur slíkur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að leita ber eftir samþykki Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt með viðeigandi lagabreytingu, en einnig getur Alþingi heimilað stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir og 7. mgr. 45. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, sem kveður á um að stjórnskipulegum fyrirvara skv. 103. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið beri að aflétta með þingsályktun, er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3.    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 995/2010, frá 20. október 2010, um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað, framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 363/2012, frá 23. febrúar 2012, um reglur um málsmeðferð við viðurkenningu og afturköllun á viðurkenningu fyrir vöktunarstofnanir eins og kveðið er á um í reglugerð (EB) nr. 995/2010, og framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 607/2012, frá 6. júlí 2012, um ítarlegar reglur varðandi kerfi áreiðanleikakannana og varðandi tíðni og eðli eftirlits með vöktunarstofnunum sem kveðið er á um í reglugerð (EB) nr. 995/2010.
    Sem fyrr segir setja reglugerðirnar skorður við markaðssetningu á timbri og vörum úr timbri sem hefur verið höggvið með ólöglegum hætti. Kveðið er á um bann við markaðssetningu slíks timburs og timburvara, en reglugerðirnar hafa að geyma skilgreiningu á löglegu og ólöglegu höggnu timbri. Þá skulu aðilar sem setja slíkar vörur í fyrsta sinn á markað notast við sérstakt aðgátskerfi, eða kerfi áreiðanleikakannana, til þess að koma í veg fyrir að ólöglega höggvið timbur eða timburvörur rati á markað. Mælt er nánar fyrir um aðgátskerfin í reglugerðunum. Einnig er gerð sú krafa að kaupmenn í aðfangakeðjunni veiti grunnupplýsingar um birgja sína og kaupendur til þess að hægt sé að rekja timbur og timburvörur. Ríki skulu tilnefna lögbært yfirvald til þess að hafa eftirlit með því að ákvæðum reglugerðanna sé fylgt eftir. Jafnframt er unnt að tilnefna sérstakar vöktunarstofnanir til þess að hafa eftirlit með aðgátskerfunum og er í reglugerðunum mælt fyrir um málsmeðferð við viðurkenningar á vöktunarstofnunum auk þess sem taldar eru þær kröfur sem slíkar stofnanir þurfa að uppfylla. Lögbær yfirvöld skulu hafa reglulegt eftirlit með vöktunarstofnunum ásamt því að fylgjast með því að rekstraraðilar uppfylli þær skyldur sem kveðið er á um í reglugerðunum. Þá skulu ríki jafnframt sjá til þess að viðurlög við brotum á reglugerðunum séu skilvirk.

4.    Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Til þess að innleiða reglugerð (ESB) nr. 995/2010 þarf lagastoð og er stefnt að því að leggja fram frumvarp þess efnis á yfirstandandi löggjafarþingi. Gerðin verður í kjölfarið innleidd í íslenskan rétt í formi reglugerðar með stoð í þeim lögum.
    Hinar nýju reglur munu hafa helst áhrif á framleiðendur timburs og timburvara, innflytjendur, dreifendur og aðra rekstraraðila sem koma að sölu timburs og timburvara auk neytenda sem munu verða betur upplýstir um uppruna þeirrar vöru sem þeir kaupa. Að auki mun reglugerðin hafa í för með sér aukin verkefni fyrir hið opinbera. Því er ljóst að aukinn kostnaður mun falla til vegna hinna nýju reglna. Hins vegar liggja frumvarpsdrög ekki fyrir og hefur frumvarpið því ekki verið kostnaðarmetið. Eftir er að útfæra ákveðin ákvæði reglugerðarinnar og er því ekki hægt að leggja nákvæmt mat á hvaða kostnaður mun falla á hið opinbera annars vegar og hins vegar á þá rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað. Það liggur þó fyrir að frumvarpið mun hafa í för með sér kostnað fyrir Mannvirkjastofnun sem verður að öllum líkindum sú stofnun sem mun hafa með framkvæmd reglnanna að gera. Kostnaðurinn mun fyrst og fremst felast í markaðseftirliti, en stofnunin sinnir nú þegar markaðseftirliti með annars konar vörum, t.d. byggingarvörum. Að auki mun kostnaður lenda á rekstraraðilum, en rekstraraðili er skilgreindur sem einstaklingur eða lögaðili sem setur timbur eða timburvöru á markað. Reglugerðin kveður á um skyldu þeirra aðila til að viðhafa áreiðanleika og beita ákveðnum verklagsreglum við markaðssetningu timburs og timburvara. Á þessu stigi málsins liggur ekki fyrir nákvæmlega hversu hár sá kostnaður verður. Þegar drög að frumvarpinu liggja fyrir verður það sett í opið umsagnarferli og sent helstu haghöfum til umsagnar.
Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 75/2013

frá 3. maí 2013

um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar,
prófanir og vottun) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN
með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „EES-samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        Fella ber inn í EES-samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/ 2010 frá 20. október 2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað ( 1 ).

2)        Fella ber inn í EES-samninginn framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 363/2012 frá 23. febrúar 2012 um reglur um málsmeðferð við viðurkenningu og afturköllun á viðurkenningu fyrir vöktunarstofnanir eins og kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað ( 2 ).

3)        Fella ber inn í EES-samninginn framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 607/2012 frá 6. júlí 2012 um ítarlegar reglur varðandi kerfi áreiðanleikakannana og varðandi tíðni og eðli eftirlits með vöktunarstofnunum sem kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað ( 3 ).

4)        II. viðauki við EES-samninginn breytist því í samræmi við það.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.Eftirfarandi bætist við á eftir lið 9bi (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 308/2008) í XVII. kafla II. viðauka við EES-samninginn:


„9c.     32010 R 0995: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010 frá 20. október 2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað (Stjtíð. ESB L 295, 12.11.2010, bls. 23).

        Ákvæði reglugerðarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

        a)    Ákvæði fyrstu málsgreinar 3. gr. gilda ekki að því er varðar EFTA-ríkin.

        b)    Í stað orðanna „viðauka A, B eða C við reglugerð (EB) nr. 338/97“ í annarri málsgrein 3. gr. komi orðin „viðeigandi hlutum löggjafar um framkvæmd samningsins um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu í því EFTA-ríki“.

        c)    Í stað orðsins „framkvæmdastjórnin(a)“ í 3., 5. og 6. mgr. 8. gr., ef vöktunarstofnanir EFTA-ríkis eru annars vegar og með fyrirvara um bókun 1 við samninginn, komi orðin „Eftirlitsstofnun EFTA“.

9ca.     32012 R 0363: Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 363/2012 frá 23. febrúar 2012 um reglur um málsmeðferð við viðurkenningu og afturköllun á viðurkenningu fyrir vöktunarstofnanir eins og kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað (Stjtíð. ESB L 115, 27.4.2012, bls. 12).

        Ákvæði reglugerðarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

        Í stað orðsins „framkvæmdastjórnin“ ef vöktunarstofnanir EFTA-ríkis eru annars vegar og með fyrirvara um bókun 1 við samninginn, komi orðin „Eftirlitsstofnun EFTA“.

9cb.     32012 R 0607: Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 607/2012 frá 6. júlí 2012 um ítarlegar reglur varðandi kerfi áreiðanleikakannana og varðandi tíðni og eðli eftirlits með vöktunarstofnunum sem kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað (Stjtíð. ESB L 177, 7.7.2012, bls. 16).

        Ákvæði reglugerðarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

        Í stað orðsins „framkvæmdastjórnin“ í staflið b) í 2. mgr. 6. gr., ef vöktunarstofnanir í EFTA-ríki eru annars vegar og með fyrirvara um bókun 1 við samninginn, komi orðin „Eftirlitsstofnun EFTA“.“

2. gr.Íslenskur og norskur texti reglugerða (ESB) nr. 995/2010, (ESB) nr. 363/2012 og (ESB) nr. 607/2012, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.Ákvörðun þessi öðlast gildi 4. maí 2013, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 3. maí 2013.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar

Gianluca Grippa

formaður.

Fylgiskjal II.


REGLUGERÐ EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS (ESB) nr. 995/2010
frá 20. október 2010
um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins, einkum 1. mgr. 192. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópusambandsins ( 1 ),
að höfðu samráði við svæðanefndina,
í samræmi við almenna lagasetningarmeðferð ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)        Skógar gefa af sér víðtækan umhverfislegan, efnahagslegan og félagslegan ávinning, þ.m.t. vörur úr timbri og aðrar skógarafurðir og umhverfislegir þættir sem eru nauðsynlegir mönnum, s.s. að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni og virkni vistkerfa og að vernda loftslagskerfið.
2)        Vegna aukinnar eftirspurnar eftir timbri og timburvörum á heimsvísu, ásamt vanbúnaði hjá stofnunum og stjórnum í tengslum við skógrækt í fjölda landa sem framleiða timbur, veldur ólöglegt skógarhögg og tengd viðskipti sífellt meiri áhyggjum.
3)        Ólöglegt skógarhögg er útbreitt vandamál sem er verulegt alþjóðlegt áhyggjuefni. Skógum stafar umtalsverð hætta af ólöglegu skógarhöggi þar sem það veldur skógeyðingu og hnignun skóga sem orsakar um 20% af losun koltvísýrings á heimsvísu, ógnar líffræðilegri fjölbreytni og grefur undan sjálfbærri skógarstjórnun og þróun, þ.m.t. viðskiptalegri afkomu rekstraraðila sem starfa í samræmi við gildandi löggjöf. Það á einnig sinn þátt í eyðimerkurmyndun og jarðvegseyðingu og getur ýtt undir veðurhamfarir og flóð. Þar að auki hefur það félagsleg, stjórnmálaleg og hagræn áhrif, sem geta oft grafið undan framþróun í átt til góðra stjórnunarhátta og ógna afkomu sveitarfélaga sem eru háð skógunum, og það getur tengst vopnuðum átökum. Þess er vænst að baráttan gegn ólöglegu skógarhöggi innan ramma þessarar reglugerðar muni eiga sinn þátt í átaki Sambandsins til að draga úr loftslagsbreytingum á kostnaðarhagkvæman hátt og skal líta á hana sem viðbót við aðgerðir og skuldbindingar Sambandsins í tengslum við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.
4)        Í ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1600/ 2002/EB frá 22. júlí 2002 um sjöttu aðgerðaáætlun Bandalagsins á sviði umhverfismála ( 3 ) er það talin forgangsaðgerð að skoða möguleikann á því að grípa til virkra aðgerða til að koma í veg fyrir og berjast gegn viðskiptum með ólöglega höggvinn við ásamt áframhaldandi virkri þátttöku Sambandsins og aðildarríkjanna í framkvæmd hnattrænna og svæðisbundinna ályktana og samninga um málefni tengd skógum.
5)        Í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar frá 21. maí 2003, sem ber yfirskriftina „Löggæsla, góðir stjórnunarhættir og viðskipti á skógræktarsvæðum (FLEGT): tillaga að aðgerðaáætlun ESB“, eru tillögur um tilteknar ráðstafanir til að styrkja alþjóðlegt átak til að berjast gegn ólöglegu skógarhöggi og tengdum viðskiptum í tengslum við heildarátak Sambandsins til að ná fram sjálfbærri skógarstjórnun.
6)        Evrópuþingið og ráðið fögnuðu þessari orðsendingu og viðurkenndu þörfina á því að Sambandið leggi sitt af mörkum til hnattrænnar viðleitni til að stemma stigu við ólöglegu skógarhöggi.
7)        Í samræmi við markmið orðsendingarinnar, þ.e. að tryggja að aðeins séu fluttar inn í Sambandið timburvörur sem eru framleiddar í samræmi við löggjöf í landinu þar sem timbrið er framleitt, hefur Sambandið verið í samningaviðræðum við lönd sem framleiða timbur (samstarfslönd) varðandi valfrjálsa samstarfssamninga (valfrjálsir FLEGT-samstarfssamningar) sem fela í sér lagalega bindandi skyldur fyrir samningsaðilana um að koma í framkvæmd leyfiskerfi og setja reglur um viðskipti með timbur og timburvörur sem tilgreind eru í valfrjálsu FLEGT-samstarfssamningunum.
8)        Þar sem vandamálið er viðamikið og brýnt er nauðsynlegt að styðja á virkan hátt baráttuna gegn ólöglegu skógarhöggi og tengdum viðskiptum, styðja og styrkja framtaksverkefnið um valfrjálsa FLEGT-samstarfssamninga og bæta samvirkni milli stefna sem miða að því að vernda skóga og ná víðtækri umhverfisvernd, þ.m.t. að berjast gegn loftslagsbreytingum og minnkandi líffræðilegri fjölbreytni.
9)        Viðurkenna skal átak landa sem hafa gert valfrjálsa FLEGT-samstarfssamninga við Sambandið og samþykkt meginreglur samninganna, einkum að því er varðar skilgreininguna á löglega framleiddu timbri, og hvetja skal lönd í auknum mæli að gera valfrjálsa FLEGT-samstarfssamninga. Taka skal tillit til þess að samkvæmt FLEGT-leyfiskerfinu er einungis timbur sem er höggvið í samræmi við viðeigandi landslöggjöf og timburvörur úr slíku timbri flutt út til Sambandsins. Timbur í timburvörum, sem tilgreindar eru í II. og III. viðauka við reglugerð ráðsins (EB) nr. 2173/2005 frá 20. desember 2005 um að koma á fót FLEGT- leyfiskerfi fyrir innflutning á timbri til Evrópubandalagsins ( 1 ), og er upprunnið í samstarfslöndum, sem tilgreind eru í I. viðauka við þá reglugerð, skal því teljast vera löglega höggvið að því tilskildu að timburvörurnar samræmist fyrrgreindri reglugerð og öllum framkvæmdarákvæðum.
10)        Einnig skal taka tillit til þess að með samningnum um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu er sú krafa gerð að aðilar að samningnum veiti einungis leyfi samkvæmt samningnum fyrir útflutningi ef tegundir sem tilgreindar eru í samningnum hafa verið nýttar, m.a. í samræmi við landslöggjöf í útflutningslandinu. Timbur af tegundum, sem eru tilgreindar í viðauka A, B eða C við reglugerð ráðsins (EB) nr. 338/97 frá 9. desember 1996 um vernd villtra dýra og plantna með því að setja reglur um viðskipti með þau ( 2 ), skal því teljast vera löglega höggvið að því tilskildu að það samræmist fyrrgreindri reglugerð og öllum framkvæmdarákvæðum.
11)         Með það í huga að hvetja skuli til notkunar endurunnins timburs og timburvara og það að slíkar vörur falli undir gildissvið þessarar reglugerðar myndi leggja óhóflegar byrðar á rekstraraðila skulu timbur og timburvörur, sem lokið hafa endingartíma sínum og væri annars fargað sem úrgangi, falla utan gildissviðs þessarar reglugerðar.
12)         Ein af ráðstöfununum í þessari reglugerð skal vera bann við setningu timburs sem er ólöglega höggvið, eða timburvara úr slíku timbri, í fyrsta skipti á innri markaðinn. Með tilliti til þess hversu flókið ólöglegt skógarhögg er, undirliggjandi ástæðna fyrir því og áhrifa þess skal grípa til sértækra ráðstafana, s.s. þeirra sem beinast að atferli rekstraraðila.
13)         Í tengslum við FLEGT-aðgerðaáætlunina getur framkvæmdastjórnin og, eftir því sem við á, aðildarríkin stutt og annast athuganir og rannsóknir varðandi umfang og eðli ólöglegs skógarhöggs í mismunandi löndum og gert slíkar upplýsingar aðgengilegar öllum, ásamt að styðja að rekstraraðilum séu veittar hagnýtar leiðbeiningar um gildandi löggjöf í löndum sem framleiða timbur.
14)         Ef alþjóðlega samþykkt skilgreining er ekki fyrir hendi skal löggjöfin í landinu þar sem timbrið er höggvið, þ.m.t. reglugerðir ásamt framkvæmd í því landi á viðeigandi alþjóðasamningum sem landið er aðili að, vera grunnurinn fyrir skilgreininguna á því hvað telst ólöglegt skógarhögg.
15)         Margar timburvörur eru unnar á margs konar hátt áður og eftir að þær eru settar á innri markaðinn í fyrsta skipti. Í því skyni að koma í veg fyrir óþarfa stjórnsýslubyrði skulu einungis rekstraraðilar sem setja timbur og timburvörur á innri markaðinn í fyrsta skipti falla undir kerfi áreiðanleikakannana en gerð skal sú krafa að kaupmenn í aðfangakeðjunni veiti grunnupplýsingar um birgja þeirra og kaupendur til að hægt sé að rekja timbur og timburvörur.
16)        Rekstraraðilar, sem setja timbur og timburvörur í fyrsta skipti á innri markaðinn, skulu, á grundvelli kerfisbundinnar nálgunar, gera viðeigandi ráðstafanir til að ganga úr skugga um að timbur sem er ólöglega höggvið og timburvörur úr slíku timbri séu ekki sett á innri markaðinn. Í því skyni skulu rekstraraðilar sýna áreiðanleika með því að nota kerfi sem felur í sér ráðstafanir og verklagsreglur til að lágmarka áhættuna á að timbur sem er ólöglega höggvið og timburvörur úr slíku timbri séu sett á innri markaðinn.
17)         Kerfi áreiðanleikakannana tekur til þriggja þátta sem felast í áhættustjórnun: aðgangi að upplýsingum, áhættumats og að draga úr greindri áhættu. Kerfi áreiðanleikakannana skal veita aðgang að upplýsingum um uppruna og birgja timbursins og timburvaranna sem eru sett á innri markaðinn í fyrsta skipti, þ.m.t. viðeigandi upplýsingar um hvort farið sé að gildandi löggjöf, um landið þar sem skógarhögg fer fram, tegundir, magn og, eftir því sem við á, svæðið í landinu þar sem timbrið er höggvið og sérleyfi til skógarhöggs. Rekstraraðilar skulu annast áhættumat á grundvelli fyrrgreindra upplýsinga. Ef áhætta uppgötvast skulu rekstraraðilar draga úr slíkri áhættu í réttu hlutfalli við viðkomandi áhættu með það í huga að koma í veg fyrir að timbur sem er ólöglega höggvið og timburvörur úr slíku timbri séu sett á innri markaðinn.
18)         Í því skyni að koma í veg fyrir óþarfa stjórnsýslubyrði skal þess ekki krafist að rekstraraðilar, sem þegar nota kerfi eða verklagsreglur sem samræmast kröfum þessarar reglugerðar, komi á fót nýjum kerfum.
19)         Í því skyni að viðurkenna góðar starfsvenjur í skógræktargeiranum má nota vottun eða önnur sannprófuð kerfi þriðju aðila, sem fela í sér sannprófun á því hvort farið sé að gildandi löggjöf, við áhættumatsferlið.
20)         Timburgeirinn er afar mikilvægur fyrir hagkerfi Sambandsins. Stofnanir rekstraraðila gegna mikilvægu hlutverki innan geirans þar sem þær annast hagsmuni þeirra síðarnefndu í stórum dráttum og eiga samskipti við mismunandi hagsmunaaðila. Þessar stofnanir búa einnig yfir sérþekkingu og getu til að greina viðkomandi löggjöf og auðvelda að aðilar þeirra hlíti henni en skulu ekki nota þessa hæfni til að ráða yfir markaðnum. Til að auðvelda framkvæmd þessarar reglugerðar og til að stuðla að þróun góðra starfsvenja þykir rétt að viðurkenna stofnanir sem hafa þróað kerfi áreiðanleikakannana sem uppfylla kröfurnar í þessari reglugerð. Viðurkenning og afturköllun viðurkenningar á vöktunarstofnunum skal framkvæma á sanngjarnan og gagnsæjan hátt. Birta skal skrá yfir slíkar viðurkenndar stofnanir til að rekstraraðilar geti nýtt sér þær.
21)         Lögbær yfirvöld skulu hafa reglulegt eftirlit með vöktunarstofnunum til að sannprófa að þær uppfylli skyldurnar, sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð, á skilvirkan hátt. Lögbær yfirvöld skulu ennfremur leitast við að framkvæma eftirlit þegar þau hafa undir höndum upplýsingar sem skipta máli, þ.m.t. rökstuddar áhyggjur þriðju aðila.
22)         Lögbær yfirvöld skulu fylgjast með því að rekstraraðilar uppfylli skyldurnar, sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð, á skilvirkan hátt. Í þeim tilgangi skulu lögbær yfirvöld, eins og við á, framkvæma opinbert eftirlit í samræmi við áætlun sem getur falið í sér eftirlit með athafnasvæði rekstraraðilanna og úttekt á svæðinu, og þau skulu, ef nauðsyn krefur, geta krafið rekstraraðilana um aðgerðir til úrbóta. Lögbær yfirvöld skulu ennfremur leitast við að framkvæma eftirlit þegar þau hafa undir höndum upplýsingar sem skipta máli, þ.m.t. rökstuddar áhyggjur þriðju aðila.
23)         Lögbær yfirvöld skulu halda skrár yfir eftirlit og viðeigandi upplýsingar skulu gerðar aðgengilegar í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/4/EB frá 28. janúar 2003 um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál ( 1 ).
24)        Með tilliti til alþjóðlegs eðlis ólöglegs skógarhöggs og tengdra viðskipta skulu lögbær yfirvöld vinna saman og með stjórnvöldum þriðju landa og framkvæmdastjórninni.
25)         Til að auðvelda rekstraraðilum, sem setja timbur eða timburvörur á innri markaðinn, að uppfylla kröfurnar í þessari reglugerð, með tilliti til aðstæðna lítilla og meðalstórra fyrirtækja, geta aðildarríkin, með hjálp framkvæmdastjórnarinnar þar sem það á við, veitt rekstraraðilum tækniaðstoð og aðra aðstoð ásamt því að auðvelda upplýsingaskipti. Slík aðstoð skal ekki leysa rekstraraðila undan þeirri skyldu að sýna áreiðanleika.
26)         Kaupmenn og vöktunarstofnanir skulu forðast að grípa til ráðstafana sem gætu stofnað markmiði þessarar reglugerðar í hættu.
27)         Aðildarríkin skulu sjá til þess að viðurlög við brotum á þessari reglugerð, þ.m.t. brot af hálfu rekstraraðila, kaupmanna og vöktunarstofnana, séu skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi. Í landsreglum er heimilt að kveða á um, eftir að viðurlögum sem eru skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi hefur verið beitt vegna brota á banninu við setningu timburs sem er ólöglega höggvið eða timburvara úr slíku timbri á innri markaðinn, að slíku timbri og timburvörum skuli ekki endilega eytt heldur sé þess í stað hægt að nýta eða ráðstafa þeim í þágu almannahagsmuna.
28)         Framkvæmdastjórnin skal hafa umboð til að samþykkja framseldar gerðir, í samræmi við 290. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins varðandi málsmeðferðarreglurnar fyrir viðurkenningu og afturköllun viðurkenningar á vöktunarstofnunum, varðandi frekari viðeigandi viðmiðanir vegna áhættumats, sem geta verið nauðsynlegar sem viðbót við þær sem þegar er kveðið á um í þessari reglugerð og varðandi skrána yfir timbur og timburvörur sem falla undir þessa reglugerð. Einkum er mikilvægt að framkvæmdastjórnin hafi viðeigandi samráð meðan á undirbúningsvinnu hennar stendur, þ.m.t. við sérfræðinga.
29)         Til að tryggja samræmd skilyrði við framkvæmd skal fela framkvæmdastjórninni framkvæmdarvald til að samþykkja ítarlegar reglur að því er varðar tíðni og eðli eftirlits lögbærra yfirvalda með vöktunarstofnunum og kerfum áreiðanleikakannana, nema að því er varðar frekari viðeigandi viðmiðanir vegna áhættumats. Í samræmi við 291. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins skal mæla fyrirfram fyrir um reglur og almennar meginreglur um tilhögun eftirlits aðildarríkjanna með framkvæmdastjórninni þegar hún beitir framkvæmdavaldi sínu í reglugerð sem samþykkt er í samræmi við almenna lagasetningarmeðferð. Þar til þessi nýja reglugerð verður samþykkt gildir ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 1 ) áfram, að undanskilinni reglunefndarmeðferðinni með grannskoðun, sem gildir ekki.
30)         Rekstraraðilar og lögbær yfirvöld skulu fá hæfilegan frest til að þau geti búið sig undir að uppfylla kröfurnar í þessari reglugerð.
31)         Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiði þessarar reglugerðar, sem er að berjast gegn ólöglegu skógarhöggi og tengdum viðskiptum, og því verður betur náð á vettvangi Sambandsins, vegna umfangs, er Sambandinu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við nálægðarregluna eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans um Evrópusambandið. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari reglugerð til að ná þessu markmiði.

SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:

1. gr.
Viðfangsefni

Í þessari reglugerð er mælt fyrir um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á innri markað í fyrsta sinn og skyldur kaupmanna.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „timbur og timburvörur“: timbur og timburvörur sem tilgreind eru í viðaukanum, að undanskildum timburvörum eða íhlutum í slíkum vörum sem eru framleiddar úr timbri eða timburvörum sem hafa lokið endingartíma sínum og væri annars fargað sem úrgangi eins og skilgreint er í 1. mgr. 3. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2008/98/EB frá 19. nóvember 2008 um úrgang ( 2 ),
b)    „setning á markað“: að setja með hvaða hætti sem er, óháð söluaðferð, timbur eða timburvörur í fyrsta skipti á innri markaðinn til dreifingar eða notkunar í tengslum við viðskiptastarfsemi, gegn gjaldi eða endurgjaldslaust. Hún tekur einnig til sölu um fjarsamskiptamiðla eins og skilgreint er í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB frá 20. maí 1997 um neytendavernd að því er varðar fjarsölusamninga ( 1 ). Sala á innri markaði á timburvörum úr timbri eða timburvörum sem þegar hafa verið settar á innri markað telst ekki til setningar á markað,
c)    „rekstraraðili“: hver sá einstaklingur eða lögaðili sem setur timbur eða timburvörur á markað,
d)    „kaupmaður“: einstaklingur eða lögaðili sem, í tengslum við viðskiptastarfsemi, selur eða kaupir á innri markaði timbur eða timburvörur sem þegar hafa verið settar á innri markaðinn,
e)    „land þar sem skógarhögg fer fram“: landið eða yfirráðasvæðið þar sem timbrið eða timbrið í timburvörunum var höggvið,
f)    „löglega höggvið“: merkir að höggvið er í samræmi við gildandi löggjöf í landinu þar sem skógarhöggið fer fram,
g)    „ólöglega höggvið“: merkir að höggvið er í bága við gildandi löggjöf í landinu þar sem skógarhöggið fer fram,
h)    „gildandi löggjöf“: löggjöf sem er í gildi í landinu þar sem skógarhöggið fer fram og felur í sér eftirfarandi:
    –    réttinn til skógarhöggs innan löglega skjalfestra svæðamarka,
    –    greiðslu fyrir réttinn til skógarhöggs og fyrir timbur, þ.m.t. skyldur sem tengjast skógarhöggi,
    –    skógarhögg, þ.m.t. umhverfislöggjöf og löggjöf í tengslum við skóga, m.a. skógarstjórnun og verndun líffræðilegrar fjölbreytni, sem tengjast beint skógarhöggi,
    –    lagalegan rétt þriðju aðila, að því er varðar notkun og ábúð, sem verða fyrir áhrifum vegna skógarhöggs og
    –    viðskipti og tolla að því marki sem varðar skógræktargeirann.

3. gr.

Staða timburs og timburvara sem falla undir löggæslu, góða stjórnunarhætti og viðskipti á skógræktarsvæðum (FLEGT) og samning um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu (CITES)

Timbur í timburvörum, sem tilgreindar eru í II. og III. viðauka við reglugerð (EB) nr. 2173/2005 og eru upprunnar í samstarfslöndum, sem tilgreind eru í I. viðauka við þá reglugerð, og eru í samræmi við reglugerðina og framkvæmdarákvæði hennar, skal teljast vera löglega höggvið að því er varðar þessa reglugerð.
Timbur af þeim tegundum sem tilgreindar eru í viðauka A, B eða C við reglugerð (EB) nr. 338/97 og er í samræmi við fyrrgreinda reglugerð og framkvæmdarákvæði hennar skal teljast vera löglega höggvið að því er varðar þessa reglugerð.

4. gr.
Skyldur rekstraraðila

1.     Bannað er að setja á markað timbur úr ólöglega höggnu timbri og timburvörur úr slíku timbri.
2.     Rekstraraðilar skulu sýna áreiðanleika þegar þeir setja timbur eða timburvörur á markað. Í því skyni skulu þeir beita ákveðnum verklagsreglum og ráðstöfunum (hér á eftir nefndar kerfi áreiðanleikakannana) eins og sett er fram í 6. gr.
3.     Hver rekstraraðili skal viðhalda og meta reglulega kerfi áreiðanleikakannana sem hann notar, nema ef rekstraraðilinn notar kerfi áreiðanleikakannana sem vöktunarstofnun, sem um getur í 8. gr., kemur á. Nota má núverandi eftirlitskerfi samkvæmt landslöggjöf og hugsanleg valfrjáls umsjónarkerfi sem uppfylla kröfurnar í þessari reglugerð sem grunn fyrir kerfi áreiðanleikakannana.

5. gr.
Skyldur er varða rekjanleika

Kaupmenn skulu, í allri aðfangakeðjunni, geta staðfest deili á:
a)     rekstraraðilunum eða kaupmönnunum sem afhentu timbrið og timburvörurnar og,
b)     ef við á, kaupmennina sem þeir hafa afhent timbrið og timburvörurnar.
Kaupmenn skulu geyma upplýsingarnar, sem um getur í fyrstu málsgrein, í a.m.k. fimm ár og skulu þeir afhenda lögbærum yfirvöldum þessar upplýsingar fari þau þess á leit.

6. gr.
Kerfi áreiðanleikakannana

1.     Kerfi áreiðanleikakannana, sem um getur í 2. mgr. 4. gr., skal fela í sér eftirfarandi þætti:
a)     ráðstafanir og verklagsreglur sem veita aðgang að eftirfarandi upplýsingum um birgðir rekstraraðila af timbri eða timburvörum sem settar eru á markað:
    –    lýsingu, þ.m.t. viðskiptaheiti og vörutegund auk almenns heitis viðkomandi trjátegundar og, eftir atvikum, fullt vísindaheiti hennar,
    –    landið, þar sem skógarhöggið fór fram, og eftir atvikum:
        i.    svæðið í landinu þar sem timbrið var höggvið og
        ii.     sérleyfi til skógarhöggs,
    –    magn (gefið upp sem rúmmál, þyngd eða einingafjöldi),
    –    nafn og heimilisfang birgis rekstraraðilans,
    –    nafn og heimilisfang kaupmannsins sem hefur fengið afhent timbrið og timburvörurnar,
    –    skjöl eða aðrar upplýsingar sem gefa til kynna að timbrið og timburvörurnar eru í samræmi við gildandi löggjöf,
b)     verklagsreglur vegna áhættumats sem gera rekstraraðilanum kleift að greina og meta áhættu í tengslum við timbur sem er ólöglega höggvið eða timburvörur úr slíku timbri við setningu á markað.
    Slíkar verklagsreglur skulu taka mið af upplýsingunum í a-lið og viðeigandi viðmiðunum vegna áhættumats, þ.m.t.:
    –    fullvissa um að farið sé að gildandi löggjöf sem getur falið í sér vottun eða aðra tilhögun á vegum þriðja aðila sem tekur til þess hvort farið sé að gildandi löggjöf,
    –    útbreiðsla á ólöglegu skógarhöggi tiltekinna trjátegunda,
    –    útbreiðsla á ólöglegu skógarhöggi eða ólöglegum starfsháttum í landinu þar sem skógarhöggið fer fram og/eða á svæðinu í landinu þar sem timbrið var höggvið, þ.m.t. er tekið tillit til algengi vopnaðra átaka,
    –    viðurlög af hálfu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og ráðs Evrópusambandsins í tengslum við inn- og útflutning á timbri,
    –    hversu flókin aðfangakeðjan er að því er varðar timbur og timburvörur,
c)     nema áhættan, sem tilgreind er í samræmi við verklagsreglurnar vegna áhættumatsins sem um getur í b-lið, sé óveruleg, ráðstafanir til að draga úr áhættu, sem samanstanda af ráðstöfunum og verklagsreglum sem eru fullnægjandi og í réttu hlutfalli til að lágmarka áhættuna á skilvirkan hátt, og sem geta falið í sér kröfu um viðbótarupplýsingar eða gögn og/eða kröfu um sannprófun þriðja aðila.
2.     Samþykkja skal ítarlegar reglur, í samræmi við reglunefndarmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 18. gr., sem nauðsynlegar eru til að tryggja samræmda framkvæmd 1. mgr., nema að því er varðar frekari viðeigandi viðmiðanir vegna áhættumats sem um getur í öðrum málslið b-liðar 1. mgr. Þessar reglur ber að samþykkja fyrir 3. júní 2012.
3.     Með tilliti til markaðsþróunar og reynslunnar sem fæst við framkvæmd þessarar reglugerðar, einkum með upplýsingaskiptunum sem um getur í 13. gr. og skýrslugjöfinni sem um getur í 3. mgr. 20. gr., er framkvæmdastjórninni heimilt að samþykkja framseldar gerðir, í samræmi við 290. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins, að því er varðar frekari viðeigandi viðmiðanir vegna áhættumats, sem geta verið nauðsynlegar sem viðbót þær sem um getur í öðrum málslið b-liðar 1. mgr. þessarar greinar, í því skyni að tryggja markvirkni kerfi áreiðanleikakannana.
Sú málsmeðferð, sem sett er fram í 15., 16. og 17. gr., gildir fyrir framseldu gerðirnar sem um getur í þessari málsgrein.

7. gr.
Lögbær yfirvöld

1.     Hvert aðildarríki skal tilnefna eitt eða fleiri lögbær yfirvöld til að bera ábyrgð á beitingu þessarar reglugerðar.
Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um heiti og heimilisföng þessara lögbæru yfirvalda eigi síðar en 3. júní 2011. Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um allar breytingar á heitum og heimilisföngum lögbæru yfirvaldanna.
2.     Framkvæmdastjórnin skal gera skrá yfir lögbær yfirvöld aðgengilega öllum, m.a. á Netinu. Skráin skal uppfærð reglulega.

8. gr.
Vöktunarstofnanir

1.     Vöktunarstofnun skal:
a)    viðhalda og meta reglulega kerfi áreiðanleikakannana sem sett er fram í 6. gr. og veita rekstraraðilum rétt til að nota það,
b)     sannprófa rétta notkun þeirra rekstraraðila á kerfi áreiðanleikakannana,
c)     gera viðeigandi ráðstafanir ef rekstraraðili notar kerfi áreiðanleikakannana ekki á réttan hátt, þ.m.t. að tilkynna lögbærum yfirvöldum ef röng notkun rekstraraðila á kerfinu er stórvægileg eða endurtekin.
2.     Stofnun getur sótt um viðurkenningu sem vöktunarstofnun ef hún uppfyllir eftirfarandi kröfur:
a)    hún hefur réttarstöðu lögaðila og hefur lagalega staðfestu í Sambandinu,
b)    hún hefur viðeigandi sérþekkingu og getuna til að sinna þeim störfum sem um getur í 1. mgr. og
c)    hún sér til þess að engir hagsmunaárekstrar eigi sér stað þegar hún sinnir sínum störfum.
3.     Framkvæmdastjórnin skal, að höfðu samráði við viðkomandi aðildarríki, viðurkenna umsækjanda, sem uppfyllir kröfurnar í 2. mgr., sem vöktunarstofnun.
Framkvæmdastjórnin skal tilkynna þá ákvörðun um að viðurkenna vöktunarstofnun til lögbærra yfirvalda í öllum aðildarríkjunum.
4.     Lögbæru yfirvöldin skulu framkvæma eftirlit með reglulegu millibili til að sannprófa hvort vöktunarstofnanirnar, sem starfa innan lögsögu lögbæru yfirvaldanna, haldi áfram að sinna þeim störfum sem mælt er fyrir um í 1. mgr. og uppfylli kröfurnar sem mælt er fyrir um í 2. mgr. Eftirlit má einnig fara fram þegar lögbært yfirvald viðkomandi aðildarríkis hefur undir höndum upplýsingar sem skipta máli, þ.m.t. rökstuddar áhyggjur þriðju aðila, eða ef það hefur fundið annmarka á beitingu rekstraraðila á kerfi áreiðanleikakannana sem vöktunarstofnun kom á fót. Skýrsla um eftirlitið skal gerð aðgengileg í samræmi við tilskipun 2003/4/EB.
5.     Komist lögbært yfirvald að þeirri niðurstöðu að vöktunarstofnun sinnir ekki lengur þeim störfum, sem mælt er fyrir um í 1. mgr., eða uppfyllir ekki lengur kröfurnar, sem mælt er fyrir um í 2. mgr., skal það láta framkvæmdastjórnina vita þegar í stað.
6.     Framkvæmdastjórnin skal afturkalla viðurkenningu vöktunarstofnunar ef, einkum á grundvelli upplýsinga sem lagðar eru fram skv. 5. mgr., hún hefur komist að þeirri niðurstöðu að vöktunarstofnunin sinnir ekki lengur þeim störfum sem mælt er fyrir um í 1. mgr. eða uppfyllir ekki lengur kröfurnar sem mælt er fyrir um í 2. mgr. Áður en framkvæmdastjórnin afturkallar viðurkenningu vöktunarstofnunar skal hún tilkynna það viðkomandi aðildarríkjum.
Framkvæmdastjórnin skal tilkynna þá ákvörðun um að afturkalla viðurkenningu vöktunarstofnunar til lögbærra yfirvalda í öllum aðildarríkjunum.
7.     Í því skyni að bæta við reglurnar um málsmeðferð að því er varðar viðurkenningu og afturköllun viðurkenningar vöktunarstofnana og, ef reynslan sýnir að þess sé þörf, að breyta þeim getur framkvæmdastjórnin samþykkt framseldar gerðir í samræmi við 290. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins og jafnframt tryggt að viðurkenning og afturköllun viðurkenningar fari fram á sanngjarnan og gagnsæjan hátt.
Sú málsmeðferð, sem sett er fram í 15., 16. og 17. gr., gildir fyrir framseldu gerðirnar sem um getur í þessari málsgrein. Þessar gerðir ber að samþykkja fyrir 3. mars 2012.
8.     Samþykkja skal ítarlegar reglur, í samræmi við reglunefndarmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 18. gr., varðandi tíðni og eðli eftirlits, sem um getur í 4. mgr., sem nauðsynlegar eru til að tryggja skilvirkt eftirlit með vöktunarstofnunum og samræmda framkvæmd þeirrar málsgreinar. Þessar reglur ber að samþykkja fyrir 3. júní 2012.

9. gr.
Skrá yfir vöktunarstofnanir

Framkvæmdastjórnin skal birta skrána yfir vöktunarstofnanir í C-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og gera hana aðgengilega á vefsetri sínu. Skráin skal uppfærð reglulega.

10. gr.
Eftirlit með rekstraraðilum

1.     Lögbær yfirvöld skulu annast eftirlit til að sannprófa hvort rekstraraðilar uppfylli kröfurnar sem settar eru fram í 4. og 6. gr.
2.     Eftirlitið, sem um getur í 1. mgr., skal fara fram í samræmi við áætlun, sem er reglulega endurskoðuð, í kjölfar nálgunar sem byggist á áhættumati. Þar að auki getur eftirlit einnig farið fram þegar lögbært yfirvald hefur undir höndum upplýsingar sem skipta máli, þ.m.t. rökstuddar áhyggjur af hálfu þriðju aðila, og varða það hvort rekstraraðili farið að ákvæðum þessarar reglugerðar.
3.     Eftirlitið, sem um getur í 1. mgr., getur m.a. falið í sér:
a)    athugun á kerfi áreiðanleikakannana, þ.m.t. áhættumat og ráðstafanir til að draga úr áhættu,
b)    athugun á gögnum og skrám þar sem sýnt er fram á að kerfi áreiðanleikakannana og verklagsreglurnar virki á réttan hátt,
c)    athugun á vettvangi, þ.m.t. úttekt á svæðinu.
4.     Rekstraraðilar skulu veita alla þá aðstoð sem er nauðsynleg til að auðvelda eftirlitið sem um getur í 1. mgr., einkum að því er varðar aðgang að starfsstöðvum og framsetningu gagna eða skráa.
5.     Með fyrirvara um 19. gr. og í kjölfar eftirlitsins sem um getur í 1. mgr. geta lögbær yfirvöld, ef annmarkar hafa fundist, gefið viðkomandi rekstraraðila fyrirmæli um að grípa til aðgerða til úrbóta. Að auki, og með hliðsjón af eðli þeirra annmarka sem hafa fundist, geta aðildarríki gripið til tafarlausra tímabundinna ráðstafana, m.a. eftirfarandi:
a)    haldlagning timburs og timburvara,
b)    bann við setningu timburs og timburvara á markað.

11. gr.
Skrár yfir eftirlit

1.     Lögbær yfirvöld skulu halda skrár yfir eftirlitið sem um getur í 1. mgr. 10. gr., þar sem m.a. kemur fram eðli þess og niðurstöður, ásamt hugsanlegum fyrirmælum um aðgerðir til úrbóta sem gefin eru út skv. 5. mgr. 10. gr. Varðveita skal skrár yfir allt eftirlit í a.m.k. 5 ár.
2.     Upplýsingarnar sem um getur í 1. mgr. skulu gerðar aðgengilegar í samræmi við tilskipun 2003/ 4/EB.

12. gr.
Samstarf

1.     Lögbær yfirvöld skulu starfa saman og með stjórnvöldum þriðju landa og framkvæmdastjórninni til að tryggja að farið sé að ákvæðum þessarar reglugerðar.
2.     Lögbær yfirvöld skulu skiptast á upplýsingum við lögbær yfirvöld í öðrum aðildarríkjum og framkvæmdastjórnina um alvarlega annmarka sem hafa fundist við eftirlitið, sem um getur í 4. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 10. gr., og um hvers kyns viðurlög sem beitt er í samræmi við 19. gr.

13. gr.
Tækniaðstoð, leiðbeiningar og upplýsingaskipti

1.     Með fyrirvara um skyldur rekstraraðilanna að sýna áreiðanleika, skv. 2. mgr. 4. gr., geta aðildarríkin, með aðstoð framkvæmdastjórnarinnar eftir því sem við á, veitt rekstraraðilum tækniaðstoð, aðra aðstoð og leiðbeiningar, með tilliti til aðstæðna lítilla og meðalstórra fyrirtækja, til að auðvelda að farið sé að ákvæðum þessarar reglugerðar, einkum í tengslum við framkvæmd kerfi áreiðanleikakannana í samræmi við 6. gr.
2.     Aðildarríkin, með aðstoð framkvæmdastjórnarinnar eftir því sem við á, geta auðveldað skipti og útbreiðslu á þeim upplýsingum sem skipta máli varðandi ólöglegt skógarhögg, einkum með það í huga að aðstoða rekstraraðila að meta áhættu, eins og hún er sett fram í b-lið 1. mgr. 6. gr., og bestu starfsvenjur varðandi framkvæmd þessarar reglugerðar.
3.     Aðstoð skal veitt á þann hátt að hún hafi ekki áhrif á ábyrgð lögbæru yfirvaldanna og varðveiti sjálfstæði þeirra við framfylgd þessarar reglugerðar.

14. gr.
Breytingar á viðaukanum

Til að taka tillit til annars vegar reynslunnar sem fæst við framkvæmd þessarar reglugerðar, einkum með skýrslugjöfinni sem um getur í 3. og 4. mgr. 20. gr. og upplýsingaskiptunum eins og um getur í 13. gr., og hins vegar þróunar að því er varðar tæknilega eiginleika, endanlega notendur og framleiðsluferli fyrir timbur og timburvörur, er framkvæmdastjórninni heimilt að samþykkja framseldar gerðir í samræmi við 290. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins með breytingu á og viðbótum við skrána yfir timbur og timburvörur sem sett er fram í viðaukanum. Slíkar gerðir skulu ekki hafa í för með sér óhóflegar byrðar á rekstraraðila.
Sú málsmeðferð sem sett er fram í 15., 16. og 17. gr., gildir fyrir framseldu gerðirnar sem um getur í þessari grein.

15. gr.
Meðferð framsalsheimilda

1.     Framkvæmdastjórninni skal falið vald til að samþykkja framseldar gerðir, sem um getur í 3. mgr. 6. gr., 7. mgr. 8. gr. og 14. gr., í sjö ár á tímabili sem hefst 2. desember 2010. Framkvæmdastjórnin skal taka saman skýrslu, að því er varðar framsal valds, eigi síðar en þremur mánuðum fyrir lok þriggja ára tímabils eftir gildistökudag þessarar reglugerðar. Framsal valds skal sjálfkrafa framlengt um jafn langan tíma, nema Evrópuþingið eða ráðið afturkalli það í samræmi við 16. gr.
2.     Um leið og framkvæmdastjórnin samþykkir framselda gerð skal hún samtímis tilkynna það Evrópuþinginu og ráðinu.
3.     Framkvæmdastjórninni er falið vald til að samþykkja framseldar gerðir með fyrirvara um skilyrðin sem mælt er fyrir um í 16. og 17. gr.

16. gr.
Afturköllun framsalsheimilda

1.     Evrópuþinginu eða ráðinu er hvenær sem er heimilt að afturkalla framsal valds sem um getur í 3. mgr. 6. gr., 7. mgr. 8. gr. og 14. gr.
2.     Sú stofnun, sem hafið hefur innri málsmeðferð til að skera úr um hvort afturkalla eigi framsal valds, skal leitast við að upplýsa hina stofnunina og framkvæmdastjórnina um það með hæfilegum fyrirvara áður en endanleg ákvörðun er tekin og tilgreina hvaða vald, sem hefur verið framselt, gæti verið afturkallað og hugsanlegar ástæður fyrir því.
3.     Með ákvörðun um afturköllun skal bundinn endi á framsal þeirra valdheimilda sem tilgreindar eru í ákvörðuninni. Skal hún öðlast gildi tafarlaust eða síðar, eftir því sem tilgreint er í ákvörðuninni. Hún skal ekki hafa áhrif á lögmæti framseldra gerða sem þegar eru í gildi. Hún skal birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

17. gr.
Andmæli við framseldar gerðir

1.     Evrópuþingið eða ráðið getur andmælt framseldri gerð innan tveggja mánaða frá tilkynningardegi. Þetta tímabil skal framlengt um tvo mánuði að frumkvæði Evrópuþingsins eða ráðsins.
2.     Ef hvorki Evrópuþingið né ráðið hefur andmælt framseldri gerð þegar þetta tímabil rennur út skal hún birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og öðlast gildi á þeim degi sem þar er tilgreindur.
Áður en þetta tímabil rennur út má birta framseldu gerðina í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og hún öðlast gildi ef bæði Evrópuþingið og ráðið hafa upplýst framkvæmdastjórnina um þá fyrirætlun sína að hreyfa ekki andmælum.
3.     Ef Evrópuþingið eða ráðið andmælir framseldri gerð öðlast hún ekki gildi. Sú stofnun, sem andmælir framseldu gerðinni, skal tilgreina ástæðurnar fyrir því.

18. gr.
Nefnd

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndarinnar um löggæslu, góða stjórnunarhætti og viðskipti á skógræktarsvæðum (FLEGT) sem komið var á fót með 11. gr. reglugerðar (EB) nr. 2173/2005.
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
Fresturinn, sem mælt er fyrir um í 6. mgr. 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.

19. gr.
Viðurlög

1.     Aðildarríkin skulu setja reglur um viðurlög við brotum gegn ákvæðum reglugerðar þessarar og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim sé beitt.
2.     Viðurlögin skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi og geta m.a. falið í sér:
a)    sektir í réttu hlutfalli við umhverfisspjöllin, gildi viðkomandi timburs eða timburvara, skattalegt tap og þann efnahagslega skaða sem leiðir af brotinu, þar sem fjárhæðir slíkra sekta eru reiknaðar á þann hátt að tryggt sé að þeir sem bera ábyrgð verði sviptir þeim efnahagslega ávinningi sem leiðir af alvarlegum brotum, með fyrirvara um lögmætan rétt til að stunda vinnu, og að fjárhæðir slíkra sekta hækki við alvarleg og endurtekin brot,
b)    haldlagningu timburs og timburvara,
c)    tafarlausa, tímabundna ógildingu leyfis til að eiga viðskipti.
3.     Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um þessi ákvæði og skulu tilkynna henni, án tafar, um síðari breytingar sem hafa áhrif á þau.

20. gr.

Skýrslugjöf

1.     Aðildarríkin skulu leggja fyrir framkvæmdastjórnina, eigi síðar en 30. apríl annað hvert ár eftir 3. mars 2013, skýrslu um beitingu þessarar reglugerðar á næstliðnum tveimur árum.
2.     Á grundvelli þessara skýrslna skal framkvæmdastjórnin taka saman skýrslu sem leggja skal fyrir Evrópuþingið og ráðið á tveggja ára fresti. Við undirbúning skýrslunnar skal framkvæmdastjórnin taka tillit til þeirrar framþróunar sem orðið hefur við gerð og beitingu valfrjálsu FLEGT-samstarfssamninganna, samkvæmt reglugerð (EB) nr. 2173/2005, og framlags þeirra til að lágmarka timbur sem er ólöglega höggvið og timburvörur úr slíku timbri á innri markaðinum.
3.     Eigi síðar en 3. desember 2015 og á sex ára fresti eftir það skal framkvæmdastjórnin, á grundvelli skýrslugjafarinnar um og reynslunnar af beitingu þessarar reglugerðar, endurskoða framkvæmd og skilvirkni reglugerðarinnar, m.a. varðandi það að koma í veg fyrir setningu timburs sem er ólöglega höggvið og timburvara úr slíku timbri á markað. Framkvæmdastjórnin skal einkum taka til athugunar stjórnsýslulegar afleiðingar fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki ásamt því hvaða vörur falla þar undir. Skýrslunni mega fylgja tillögur að nýrri löggjöf, ef nauðsyn krefur.
4.     Fyrsta skýrslan sem um getur í 3. mgr. skal innihalda mat á núverandi efnahagslegri og viðskiptalegri stöðu Sambandsins með tilliti til varanna sem tilgreindar eru í 49. kafla sameinuðu nafnaskrárinnar, einkum með tilliti til samkeppnishæfni viðeigandi geira, til að taka til athugunar hvort það skuli færa þær í skrána yfir timbur og timburvörur sem sett er fram í viðaukanum við þessa reglugerð.
Skýrslan, sem um getur í fyrstu undirgrein, skal einnig innihalda mat á skilvirkni bannsins við að setja timbur sem er ólöglega höggvið og timburvörur úr slíku timbri á markað eins og sett er fram í 1. mgr. 4. gr., ásamt kerfi áreiðanleikakannana sem sett er fram í 6. gr.

21. gr.
Gildistaka og beiting

Reglugerð þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Hún gildir frá og með 3. mars 2013. Hins vegar gilda 6. gr. (2. mgr.), 7. gr. (1. mgr.) og 8. gr. (7. og 8. mgr.) frá og með 2. desember 2010.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Strassborg 20. október 2010.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
J. BUZEK O. CHASTEL
forseti. forseti.

_____VIÐAUKI


Timbur og timburvörur samkvæmt flokkuninni í sameinuðu nafnaskránni sem sett er fram í I. viðauka við reglugerð ráðsins nr. 2658/87 (
1 ), sem þessi reglugerð gildir um

          4401 Eldiviður í bolum, bútum, greinum, hrísknippum eða áþekkri mynd; viður sem spænir eða agnir; sag og viðarúrgangur og viðarrusl, einnig mótað í boli, kubba, köggla eða áþekka mynd

          4403 Trjábolir óunnir, einnig birktir eða safaviður fjarlægður, eða gróflega tilhöggnir

          4406 Brautarbitar fyrir járnbrautir eða sporbrautir (þvertré) úr viði

          4407 Viður sagaður eða höggvinn eftir endilöngu, flagaður eða birktur, einnig heflaður, slípaður eða endaskeyttur, yfir 6 mm að þykkt
          4408 Þynnur til spónlagningar (þar með taldar þynnur fengnar með því að flaga lagskipaðan við), í krossvið eða áþekkan lagskipaðan við og annar viður, sagaður eftir endilöngu, flagaður eða birktur, einnig heflaður, slípaður, splæstur eða endaskeyttur, ekki yfir 6 mm á þykkt

          4409 Viður (þar með taldar lengjur og myndræmur í parketgólf, ósamsett) samfellt unninn (e. continuously shaped) (plægður, grópaður, fasaður, sniðheflaður, v-skeyttur, skrautheflaður, mótaður, rúnnaður eða þess háttar) á hvaða brún, enda eða hlið sem er, einnig heflaður, slípaður eða endaskeyttur

          4410 Spónaplötur, aspenítplötur og áþekkar plötur (t.d. flöguplötur) úr viði eða öðrum viðarkenndum efnum, einnig mótaðar með resínum eða öðrum lífrænum bindiefnum

          4411 Trefjaplötur og áþekkar plötur úr viði eða öðrum viðarkenndum efnum, einnig límdar saman með resínum eða öðrum lífrænum efnum

          4412 Krossviður, spónlagðar plötur og áþekkur lagskiptur viður

          44130000 Hertur viður, í blokkum, plötum, ræmum eða prófíllaga

          441400 Viðarrammar fyrir málverk, ljósmyndir, spegla eða áþekka hluti

          4415 Umbúðakassar, öskjur, grindur, hylki og áþekkar umbúðir, úr viði; kapalkefli úr viði; vörubretti, kassabretti og önnur farmbretti, úr viði; skjólborð fyrir vörubretti, úr viði

        (Ekki pökkunarefni sem eingöngu er notað sem pökkunarefni til að styðja við, vernda eða flytja aðra vöru sem setja skal á markað)

          44160000 Ámur, tunnur, ker, balar og aðrar beykisvörur og hlutar til þeirra, úr viði, þ.m.t. tunnustafir

          4418 Trésmíðavörur til bygginga, þar með talið holviðarþiljur, samsett gólfborð og þakspónn

          Pappírsmauk og pappír í 47. og 48. kafla í sameinuðu nafnaskránni, þó ekki úr bambus og endurheimtum vörum (úrgangur og rusl)

          940330, 940340, 94035000, 940360 og 94039030 viðarhúsgögn

          94060020 Forsmíðaðar byggingar

____________


Fylgiskjal III.


FRAMSELD REGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (ESB) NR. 363/2012
frá 23. febrúar 2012
um reglur um málsmeðferð við viðurkenningu og afturköllun á viðurkenningu fyrir vöktunarstofnanir eins og kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað


FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins,
með hliðsjón af reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010 frá 20. október 2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað ( 1 ), einkum 7. mgr. 8. gr.,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)        Markmiðið með reglugerð (ESB) nr. 995/2010 er einkum að lágmarka áhættuna á að ólöglegt timbur og vörur úr slíku timbri séu sett á innri markaðinn. Vöktunarstofnanir skulu aðstoða rekstraraðila við að uppfylla kröfurnar í þeirri reglugerð. Þær skulu í því skyni þróa kerfi áreiðanleikakannana, veita rekstraraðilum rétt til að nota það og sannprófa rétta notkun þess.
2)        Framkvæmdastjórnin skal nota sanngjarna, gagnsæja og óháða málsmeðferð við viðurkenningu vöktunarstofnana. Umsækjendur skulu því metnir að höfðu samráði við lögbær yfirvöld aðildarríkjanna og eftir að fullnægjandi upplýsingum um umsækjanda hefur verið aflað. Öflun upplýsinga skal, ef nauðsyn krefur, fela í sér heimsóknir á athafnasvæði umsækjanda.
3)        Nauðsynlegt er að tilgreina þá viðeigandi sérþekkingu og getu sem vöktunarstofnanir þurfa að búa yfir til að ákvarða að viður sé í samræmi við viðkomandi löggjöf í landinu þar sem skógarhögg fer fram og til að geta lagt fram tillögur um ráðstafanir til að meta áhættuna á að setja timbur sem er ólöglega höggvið og timburvörur úr slíku timbri á markaðinn. Ef áhættan sem er tilgreind er ekki óveruleg skulu vöktunarstofnanir einnig geta lagt fram tillögur um fullnægjandi ráðstafanir til að lágmarka hana á skilvirkan hátt.
4)        Tryggja skal að vöktunarstofnanir sinni sínum störfum á gegnsæjan og óháðan hátt, forðist allan hagsmunaárekstur sem orðið getur vegna starfa þeirra og veiti rekstraraðilum þjónustu sína á jafnréttisgrundvelli.
5)        Framkvæmdastjórnin skal taka ákvörðun um afturköllun á viðurkenningu samkvæmt málsmeðferð sem er sanngjörn, gegnsæ og óháð. Áður en ákvörðun er tekin skal framkvæmdastjórnin hafa samráð við viðkomandi lögbær yfirvöld aðildarríkjanna og skal hún afla fullnægjandi upplýsinga, þ.m.t. vettvangsheimsóknir ef nauðsyn krefur. Viðkomandi vöktunarstofnunum skal gefið tækifæri til að leggja fram athugasemdir áður en ákvörðun er tekin.
6)        Ef vöktunarstofnun sinnir ekki lengur störfunum eða uppfyllir ekki lengur kröfurnar sem mælt er fyrir um í 8. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010 skal framkvæmdastjórninni vera heimilt, í samræmi við meðalhófsregluna, að afturkalla viðurkenningu annaðhvort tímabundið og/eða með skilyrðum eða varanlega á grundvelli umfangs þeirra annmarka sem hafa fundist.
7)        Nauðsynlegt er að tryggja að verndun einstaklinga að því er varðar vinnslu persónuupplýsinga þeirra innan gildissviðs þessarar reglugerðar, einkum að því er varðar vinnslu persónuupplýsinga í umsóknunum um viðurkenningu vöktunarstofnunar, uppfylli kröfurnar sem mælt er fyrir um í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga ( 1 ) og í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 45/2001 frá 18. desember 2000 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga, sem stofnanir og aðilar Bandalagsins hafa unnið, og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga ( 2 ).

SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:

1. gr.
Skilgreiningar

Auk skilgreininganna, sem mælt er fyrir um í 2. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010, er merking eftirfarandi hugtaka í þessari reglugerð sem hér segir:
1)    „viðkomandi lögbær yfirvöld“: lögbær yfirvöld í þeim aðildarríkjum þar sem vöktunarstofnun eða stofnun sem sótt hefur um viðurkenningu sem vöktunarstofnun hefur lagalega staðfestu, veitir þjónustu eða ætlar að veita þjónustu í skilningi tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB ( 3 ),
2)    „vitnisburður um formlega menntun og hæfi“: prófskírteini, vottorð og annar vitnisburður sem yfirvöld, sem ríki tilnefnir samkvæmt lögum eða stjórnsýslufyrirmælum ríkisins, gefa út og sýna fram á að faglegu námi hafi verið lokið á fullnægjandi hátt,
3)    „starfsreynsla“: raunveruleg og lögmæt stundun viðkomandi starfsgreinar.

2. gr.
Umsókn um viðurkenningu

1.     Hverjum þeim aðila, opinberum eða innan einkageirans, sem er félag, fyrirtæki, firma, atvinnufyrirtæki, stofnun eða yfirvald og hefur lagalega staðfestu í Sambandinu, er heimilt að leggja umsókn fyrir framkvæmdastjórnina um að verða viðurkenndur sem vöktunarstofnun.
Aðilinn skal leggja umsóknina fram á einhverju af opinberum tungumálum Sambandsins ásamt skjölunum sem tilgreind eru í viðaukanum.
2.     Til að umsækjandi verði viðurkenndur sem vöktunarstofnun skal hann sýna fram á að hann uppfylli allar kröfurnar sem kveðið er á um í 2. mgr. 8. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010 og 5.–8. gr. þessarar reglugerðar.
3.     Framkvæmdastjórnin skal staðfesta viðtöku umsóknar og veita umsækjanda tilvísunarnúmer innan 10 virkra daga frá viðtökudegi.
Hún skal einnig veita umsækjandanum leiðbeinandi frest sem felur í sér hvenær hún mun taka ákvörðun um umsóknina. Framkvæmdastjórnin skal tilkynna umsækjandanum í hvert sinn sem hún endurskoðar þennan leiðbeinandi frest vegna nauðsynjar þess að afla viðbótarupplýsinga eða -skjala fyrir matið á umsókninni.
4.     Ef þrír mánuðir hafa liðið frá viðtöku umsóknar eða síðustu skriflegu orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar til umsækjanda, hvort sem síðar verður, og framkvæmdastjórnin hefur ekki samþykkt ákvörðun um viðurkenningu eða hafnað umsókninni, skal framkvæmdastjórnin tilkynna umsækjandanum skriflega um framvindu matsins á umsókninni.
Fyrsta undirgrein getur átt við oftar en einu sinni við afgreiðslu einnar umsóknar.
5.     Framkvæmdastjórnin skal senda afrit af umsókninni og fylgiskjölum til viðkomandi lögbærra yfirvalda sem er heimilt að leggja fram athugasemdir varðandi umsóknina innan eins mánaðar frá dagsetningu sendingar.

3. gr.
Viðbótarskjöl og aðgangur að athafnasvæði

1.     Umsækjandi eða viðkomandi lögbær yfirvöld skulu, að fenginni beiðni frá framkvæmdastjórninni, leggja fram allar viðbótarupplýsingar eða -skjöl sem framkvæmdastjórnin gerir kröfu um innan tiltekins frests.
2.     Umsækjandinn skal veita framkvæmdastjórninni aðgang að athafnasvæði sínu til að sannreyna að allar kröfurnar sem kveðið er á um í 8. gr. reglugerðar (ESB) nr. 955/2010 og í 5.–8. gr. séu uppfylltar. Framkvæmdastjórnin skal tilkynna umsækjandanum um heimsóknina með fyrirvara. Viðkomandi lögbærum yfirvöldum er heimilt að taka þátt í heimsókninni.
Umsækjandinn skal veita alla þá aðstoð sem er nauðsynleg til að auðvelda slíkar heimsóknir.

4. gr.
Ákvörðun um viðurkenningu

Ef framkvæmdastjórnin hefur samþykkt ákvörðun um viðurkenningu, skv. 3. mgr. 8. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010, skal hún tilkynna það viðkomandi umsækjanda innan 10 virkra daga frá því að ákvörðunin var samþykkt.
Framkvæmdastjórnin skal einnig án tafar veita umsækjandanum viðurkenningarvottorð og tilkynna lögbærum yfirvöldum allra aðildarríkja um ákvörðunina í samræmi við aðra undirgrein 3. mgr. 8. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010 innan þeirra tímamarka sem um getur í fyrstu málsgrein.

5. gr.
Réttarstaða lögaðila og lagaleg staðfesta í Sambandinu

1.     Ef umsækjandi hefur lagalega staðfestu í fleiri en einu aðildarríki skal hann veita upplýsingar um skráða skrifstofu hans, yfirstjórn eða aðalstarfsstöð innan Sambandsins og einnig um öll umboð, útibú eða dótturfélög sem hefur verið komið á fót innan yfirráðasvæðis aðildarríkis. Umsækjandinn skal einnig lýsa því yfir í hvaða aðildarríki hann ætlar að veita þjónustu.
2.     Ef umsækjandi er yfirvald eða er hluti af yfirvaldi aðildarríkis skal þess ekki krafist að hann leggi fram sönnun þess að hann hafi réttarstöðu lögaðila og lagalega staðfestu í Sambandinu.

6. gr.
Viðeigandi sérþekking

1.     Í þeim tilgangi að tryggja eðlilega starfsemi vöktunarstofnunar, eins og krafist er í b-lið 2. mgr. 8. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010, skal tæknilega hæft starfsfólk umsækjanda standast eftirfarandi lágmarksviðmiðanir, sem staðfestar eru með vitnisburði um formlega menntun og hæfi og starfsreynslu:
a)     formleg starfsþjálfun innan greinar sem viðkemur störfum vöktunarstofnunar,
b)    fyrir yfirmenn í tæknilegum stöðum: a.m.k. fimm ára starfsreynsla í starfi sem tengist störfum vöktunarstofnunar.
Að því er varðar a-lið fyrstu undirgreinar skulu greinar, sem tengjast skógrækt, umhverfismálum, lögfræði, rekstrarstjórnun, áhættustjórnun, viðskiptum, endurskoðun, fjármálastjórn eða rekstri aðfangakeðju, teljast viðkomandi greinar.
2.     Umsækjandi skal halda skrár þar sem skjalfestar eru skyldur og ábyrgð starfsfólksins. Umsækjandinn skal hafa til staðar verklagsreglur fyrir vöktun á frammistöðu og tæknilegri færni starfsfólksins.

7. gr.
Geta til að sinna störfum sem vöktunarstofnun

1.     Umsækjandi skal sýna fram á að hann hafi til staðar eftirfarandi:
a)    stjórnskipulag innan stofnunar sem tryggir eðlilega starfsemi vöktunarstofnunarinnar,
b)    kerfi áreiðanleikakannana sem gert er aðgengilegt rekstraraðilum og þeir hafa afnot af,
c)    stefnur og verklagsreglur til að meta og bæta kerfi áreiðanleikakannana,
d)    verklagsreglur og ferli til að sannprófa tilhlýðilega notkun rekstraraðila á kerfi áreiðanleikakannana,
e)    verklagsreglur um aðgerðir til úrbóta sem framkvæma þarf ef rekstraraðili notar ekki kerfi áreiðanleikakannana á tilhlýðilegan hátt.
2.     Til viðbótar við kröfurnar í 1. mgr. skal umsækjandi sýna fram á að hann búi yfir fjárhagslegri og tæknilegri getu til að sinna störfum vöktunarstofnunar.

8. gr.
Engir hagsmunaárekstrar fyrir hendi

1.     Umsækjandi skal skipulagður þannig að hlutlægni og óhlutdrægni starfsemi hans sé tryggð.
2.     Umsækjandi skal sanngreina, greina og halda skrár þar sem skjalfest er áhætta á hagsmunaárekstrum sem verða vegna starfa hans sem vöktunarstofnun, þ.m.t. allur ágreiningur sem verður vegna sambanda við tengdar stofnanir eða undirverktaka.
3.     Ef áhætta á hagsmunaárekstrum hefur verið sanngreind skal umsækjandinn hafa til staðar skriflegar stefnur og verklagsreglur til að forðast hagsmunaárekstra á fyrirtækja- og einstaklingsstigi. Skriflegu stefnunum og verklagsreglunum skal beitt og þær framkvæmdar. Þessar stefnur og verklagsreglur geta tekið til úttektar þriðja aðila.

9. gr.
Upplýsingar um síðari breytingar

1.     Vöktunarstofnun skal án tafar tilkynna framkvæmdastjórninni um allar eftirfarandi aðstæður sem geta komið upp eftir viðurkenningu hennar:
a)    breytingar sem geta haft áhrif á hæfni vöktunarstofnunarinnar til að uppfylla kröfurnar í 5.–8. gr. sem hafa átt sér stað eftir viðurkenninguna,
b)     vöktunarstofnunin kemur á fót umboðum, útibúum eða dótturfélögum innan Sambandsins, öðrum en þeim sem tilgreind eru í umsókninni,
c)    vöktunarstofnunin ákveður að veita þjónustu í öðru aðildarríki en því sem tilgreint er í umsókninni, eða í aðildarríki þar sem hún hefur tilgreint að hún hafi hætt að veita þjónustu í samræmi við d-lið,
d)    vöktunarstofnunin hættir að veita þjónustu í aðildarríki.
2.     Framkvæmdastjórnin skal veita viðkomandi lögbæru yfirvaldi allar upplýsingar sem fást skv. 1. mgr.

10. gr.
Endurskoðun ákvörðunarinnar um viðurkenningu

1.     Framkvæmdastjórninni er heimilt hvenær sem er að endurskoða ákvörðun um viðurkenningu vöktunarstofnunar.
Framkvæmdastjórnin skal taka ákvörðunina til endurskoðunar við allar eftirfarandi aðstæður:
a)    ef viðkomandi lögbært yfirvald tilkynnir framkvæmdastjórninni að það hafi komist að þeirri niðurstöðu að vöktunarstofnun sinni ekki lengur þeim störfum sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 8. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010 eða uppfylli ekki lengur kröfurnar sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 8. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010 eins og tilgreint er í 5.–8. gr. þessarar reglugerðar,
b)    ef framkvæmdastjórnin hefur undir höndum upplýsingar sem skipta máli, þ.m.t. rökstuddar áhyggjur af hálfu þriðju aðila, um að vöktunarstofnun uppfylli ekki lengur kröfurnar sem mælt er fyrir um í 1. og 2. mgr. 8. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010 og í 5.–8. gr. þessarar reglugerðar,
c)    ef vöktunarstofnun hefur tilkynnt framkvæmdastjórninni um breytingar sem um getur í a-lið 1. mgr. 9. gr. þessarar reglugerðar.
2.     Þegar endurskoðun er hafin skal framkvæmdastjórnin njóta aðstoðar hóps endurskoðenda sem framkvæmir endurskoðunina og sinnir eftirliti.
3.     Umsækjandi skal veita endurskoðendahópnum aðgang að athafnasvæði sínu til að sannreyna að allar kröfurnar sem kveðið er á um í 8. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010 og í 5.–8. gr. þessarar reglugerðar séu uppfylltar. Viðkomandi lögbærum yfirvöldum er heimilt að taka þátt í heimsókninni.
Umsækjandinn skal veita alla þá aðstoð sem er nauðsynleg til að auðvelda slíkar heimsóknir.
4.     Endurskoðendahópurinn skal gera skýrslu þar sem gerð er grein fyrir niðurstöðum hans. Stoðefni skal fylgja með endurskoðunarskýrslunni.
Endurskoðunarskýrslan skal fela í sér ráðleggingar um hvort viðurkenningin á vöktunarstofnun skuli vera afturkölluð.
Endurskoðendahópurinn skal senda endurskoðunarskýrsluna til viðkomandi lögbærra yfirvalda. Þessi yfirvöld geta lagt fram athugasemdir innan þriggja vikna frá þeim degi er skýrslan var afhent.
Endurskoðendahópurinn skal láta viðkomandi vöktunarstofnun í té samantekt á niðurstöðunum og ályktununum úr skýrslunni. Stofnunin getur lagt fram athugasemdir fyrir endurskoðendahópinn innan þriggja vikna frá þeim degi er skýrslan var afhent.
5.     Endurskoðendahópurinn skal í endurskoðunarskýrslunni mæla með afturköllun á viðurkenningu tímabundið og/eða með skilyrðum eða varanlega, á grundvelli umfangs þeirra annmarka sem hafa fundist, ef hann kemst að þeirri niðurstöðu að vöktunarstofnunin sinnir ekki lengur störfunum eða uppfyllir ekki lengur kröfurnar sem mælt er fyrir um í 8. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010.
Endurskoðendahópurinn getur í stað þessa mælt með því að framkvæmdastjórnin gefi út fyrirmæli um aðgerðir til úrbóta eða opinbera viðvörun eða að framkvæmdastjórnin muni ekki grípa til frekari aðgerða.

11. gr.
Ákvörðun um afturköllun á viðurkenningu

1.     Framkvæmdastjórnin skal ákveða hvort afturkalla eigi viðurkenningu á vöktunarstofnun tímabundið og/eða með skilyrðum eða varanlega með tilliti til endurskoðunarskýrslunnar sem um getur í 10. gr.
2.     Framkvæmdastjórninni er heimilt að gefa út fyrirmæli um aðgerðir til úrbóta eða opinbera viðvörun þegar umfang þeirra annmarka sem hafa fundist, í samræmi við 6. mgr. 8. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010, leiða ekki að þeirri niðurstöðu að vöktunarstofnunin sinni ekki lengur störfunum eða uppfylli ekki lengur kröfurnar sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 8. gr. þeirrar reglugerðar.
3.     Tilkynna skal viðkomandi vöktunarstofnun og viðkomandi lögbærum yfirvöldum allra aðildarríkjanna, í samræmi við 6. mgr. 8. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010, um ákvörðun um afturköllun á viðurkenningu á vöktunarstofnun, ásamt fyrirmælum eða viðvörunum skv. 2. mgr., innan 10 virkra daga frá því hún var samþykkt.

12. gr.

Gagnavernd

Þessi reglugerð skal ekki hafa áhrif á reglurnar varðandi vinnslu persónuupplýsinga sem mælt er fyrir um í tilskipun 95/46/EB og reglugerð (EB) nr. 45/2001.

13. gr.
Lokaákvæði

Reglugerð þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 23. febrúar 2012
Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,
José Manuel BARROSO
forseti.

_____
VIÐAUKI


Skrá yfir fylgiskjöl


Réttarstaða lögaðila, lagaleg staðfesta, þjónustustarfsemi:

–     vottuð afrit af gögnum eins og kveðið er á um í viðeigandi landslöggjöf,

–     skrá yfir aðildarríki þar sem umsækjandi ætlar að veita þjónustu.

Viðeigandi sérþekking:

–     lýsing á stofnuninni og skipulagi einingarinnar,

–     skrá yfir tæknilega hæft starfsfólk og afrit af ferilskrám,

–     lýsing á skyldum og ábyrgð og skiptingu þeirra,

–     nákvæm lýsing á verklagsreglum fyrir vöktun á frammistöðu og færni tæknilega hæfa starfsfólksins.

Geta til að sinna störfum sem vöktunarstofnun:


Nákvæm lýsing á eftirfarandi þáttum:

–     kerfi áreiðanleikakannana,

–    stefnur og verklagsreglur til að meta og bæta kerfi áreiðanleikakannana,

–     stefnur og verklagsreglur til að bregðast við kvörtunum rekstraraðila eða þriðju aðila,

–     verklagsreglur og ferli til að sannprófa tilhlýðilega notkun rekstraraðila á kerfi áreiðanleikakannana,

–     verklagsreglur um aðgerðir til úrbóta sem framkvæma þarf ef rekstraraðili notar ekki kerfi áreiðanleikakannana á tilhlýðilegan hátt,

–     skráningarkerfi.

Fjárhagsleg geta:


–     afrit af reikningsskilum fyrir síðasta fjárhagsár, eða

–     yfirlýsing varðandi veltuna, eða

–     önnur sönnunargögn ef gild ástæða er fyrir því að umsækjandinn getur ekki lagt fram þau gögn sem um getur hér að framan,

–     sönnun fyrir ábyrgðartryggingu.

Engir hagsmunaárekstrar fyrir hendi:


–     yfirlýsing um að engir hagsmunaárekstrar séu fyrir hendi,

–     lýsing á skriflegum stefnum og verklagsreglum til að forðast hagsmunaárekstra á fyrirtækja- og einstaklingsstigi, sem getur tekið til úttektar þriðja aðila.

Undirverktakastarfsemi:


–     lýsing á verkefnum sem unnin eru af undirverktaka,

–     sönnun þess að allir undirverktakar eða dótturfélög, ef þau hafa staðfestu, uppfylli viðeigandi kröfur hér að framan.

____________


Fylgiskjal IV.


FRAMKVÆMDARREGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (ESB) nr. 607/2012
frá 6. júlí 2012
um ítarlegar reglur varðandi kerfi áreiðanleikakannana og varðandi tíðni og eðli eftirlits með vöktunarstofnunum sem kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010 frá 20. október 2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað


FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins,
með hliðsjón af reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010 frá 20. október 2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað ( 1 ), einkum 2. mgr. 6. gr. og 8. mgr. 8. gr.,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)    Í reglugerð (ESB) nr. 995/2010 eru rekstraraðilar skyldaðir til að beita ákveðnum verklagsreglum og ráðstöfunum (hér á eftir nefndar kerfi áreiðanleikakannana) til að lágmarka áhættuna á því að timbur sem er ólöglega höggvið eða vörur úr timbri sem er ólöglega höggvið séu settar á innri markaðinn.
2)    Nauðsynlegt er að skýra í hvaða tilvikum skuli leggja fram upplýsingar um fullt vísindaheiti trjátegundar, svæðið í landinu þar sem timbrið var höggvið og sérleyfi til skógarhöggs.
3)    Nauðsynlegt er að tilgreina tíðni og eðli eftirlits lögbærra yfirvalda með vöktunarstofnunum.
4)    Verndun einstaklinga að því er varðar vinnslu persónuupplýsinga þeirra innan gildissviðs þessarar reglugerðar, einkum að því er varðar vinnslu persónuupplýsinga sem aflað er í tengslum við eftirlit, skal falla undir kröfurnar sem mælt er fyrir um í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga ( 2 ) og í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 45/2001 frá 18. desember 2000 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga, sem stofnanir og aðilar Bandalagsins hafa unnið, og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga ( 3 ).
5)    Ráðstafanirnar, sem kveðið er á um í þessari reglugerð, eru í samræmi við álit nefndarinnar um löggæslu, góða stjórnunarhætti og viðskipti á skógræktarsvæðum.

SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:

1. gr.
Efni

Í þessari reglugerð er mælt fyrir um ítarlegar reglur varðandi kerfi áreiðanleikakannana og varðandi tíðni og eðli eftirlits með vöktunarstofnunum.

2. gr.
Beiting kerfis áreiðanleikakannana

1.     Rekstraraðilar skulu beita kerfi áreiðanleikakannananna með tilliti til hverrar tiltekinnar tegundar timburs eða timburvöru sem tiltekinn birgir afhendir á innan 12 mánaða tímabils, að því tilskildu að trjátegundirnar, landið eða löndin þar sem skógarhöggið fer fram eða, eftir atvikum, svæðið eða svæðin í landinu eða löndunum þar sem skógarhöggið fer fram og sérleyfið eða -leyfin til skógarhöggs haldist óbreytt.
2.     Fyrsta málsgreinin er með fyrirvara um skyldu rekstraraðila að viðhalda ráðstöfunum og verklagsreglum sem veita aðgang að upplýsingunum sem um getur í a-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010 varðandi hverja sendingu af timbri og timburvörum sem rekstraraðilinn setur á markað.

3. gr.
Upplýsingar varðandi birgðir rekstraraðila

1.     Upplýsingarnar um birgðir rekstraraðilans af timbri eða timburvörum sem um getur í a-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010 skal leggja fram í samræmi við 2., 3. og 4. mgr.
2.     Gefa skal upp fullt vísindaheiti trjátegundarinnar, sem um getur í fyrsta undirlið a-liðar 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010, ef notkun almenna heitisins er tvíræð.
3.     Upplýsingar um svæðið í landinu þar sem timbrið er höggvið, sem um getur í öðrum undirlið a-liðar 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010, skal leggja fram þegar áhættan á ólöglegu skógarhöggi er breytileg milli slíkra svæða.
4.     Upplýsingar um sérleyfi til skógarhöggs, sem um getur í öðrum undirlið a-liðar 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010, skal leggja fram þegar áhættan á ólöglegu skógarhöggi er breytileg milli sérleyfa til skógarhöggs í landi eða á svæði í landi.
Að því er varðar fyrstu undirgrein skal hvert það fyrirkomulag sem varðar réttinn til skógarhöggs á skilgreindu svæði teljast sérleyfi til skógarhöggs.

4. gr.
Áhættumat og ráðstafanir til að draga úr áhættu

Taka má tillit til vottunar eða annarrar tilhögunar á vegum þriðja aðila, sem um getur í fyrsta undirlið annarrar málsgreinar b-liðar 1. mgr. 6. gr. og í c-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010, í áhættumati og ráðstöfunum til að draga úr áhættu, ef eftirfarandi viðmiðanir eru uppfylltar:
a)    að með þeim hafi verið komið á fót kerfi krafna sem er aðgengilegt öllum og þriðji aðili hefur afnot af, sem felur í sér a.m.k. allar viðkomandi kröfur gildandi löggjafar,
b)    að með þeim sé tilgreint að þriðji aðili framkvæmi viðeigandi eftirlit, þ.m.t. vettvangsvitjanir með reglulegu millibili í mest 12 mánuði, til að sannprófa að farið sé að gildandi löggjöf,
c)    að þær feli í sér aðferðir, sem eru sannprófaðar af þriðja aðila, til að rekja timbur, sem er höggvið í samræmi við gildandi löggjöf, og timburvörur úr slíku timbri, á hvaða tímapunkti sem er í aðfangakeðjunni áður en slíkt timbur eða timburvörur eru settar á markað,
d)    að þær feli í sér tæki til eftirlits, sem eru sannprófuð af þriðja aðila, til að tryggja að timbur eða timburvörur af óþekktum uppruna eða timbur eða timburvörur, sem ekki er höggvið í samræmi við gildandi löggjöf, fari ekki inn í aðfangakeðjuna.

5. gr.
Skráahald rekstraraðila

1.     Upplýsingar um birgðir rekstraraðila, eins og kveðið er á um í a-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010, og beitingu ráðstafana til að draga úr áhættu, skulu skjalfestar í viðeigandi skrám sem skulu varðveittar í fimm ár og gerðar aðgengilegar lögbæra yfirvaldinu til eftirlits.
2.     Þegar rekstraraðilar beita kerfi áreiðanleikakannana skulu þeir geta sýnt fram á hvernig upplýsingarnar sem aflað var voru bornar saman við viðmiðanirnar vegna áhættu sem kveðið er á um í b-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010, hvernig ákvörðun var tekin um ráðstafanir til að draga úr áhættu og hvernig rekstraraðilinn ákvarðaði áhættustigið.

6. gr.
Tíðni og eðli eftirlits með vöktunarstofnunum

1.     Lögbæru yfirvöldin skulu tryggja að eftirlitið með reglulegu millibili, sem um getur í 4. mgr. 8. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010, fari fram a.m.k. einu sinni á tveggja ára fresti.
2.     Eftirlitið, sem um getur í 4. mgr. 8. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010, skal einkum fara fram í eftirfarandi tilvikum:
a)    ef lögbært yfirvald hefur við eftirlit með rekstraraðilum fundið annmarka á skilvirkni eða beitingu rekstraraðila á kerfi áreiðanleikakannana sem vöktunarstofnun kom á fót eða
b)    ef framkvæmdastjórnin hefur tilkynnt lögbæru yfirvöldunum að vöktunarstofnun hafi gengist undir síðari breytingar eins og kveðið er á um í 2. mgr. 9. gr. framseldrar reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 363/2012 frá 23. febrúar 2012 um reglur um málsmeðferð við viðurkenningu og afturköllun á viðurkenningu fyrir vöktunarstofnanir eins og kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010 um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað ( 1 ).
3.     Eftirlit skal fara fram án nokkurs fyrirvara, nema þegar fyrirframtilkynning til vöktunarstofnana er nauðsynleg til að tryggja megi skilvirkni eftirlitsins.
4.     Lögbæru yfirvöldin skulu framkvæma eftirlit í samræmi við skjalfestar verklagsreglur.
5.     Lögbær yfirvöld skulu framkvæma eftirlit til að tryggja að farið sé að ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 995/2010 og það eftirlit skal einkum fela í sér eftirfarandi aðgerðir, þegar við á:
a)    athugun á vettvangi, þ.m.t. úttekt á svæðinu,
b)    athugun á gögnum og skrám vöktunarstofnananna,
c)    viðtöl við stjórnendur og starfsfólk vöktunarstofnananna,
d)    viðtöl við rekstraraðila og kaupmenn eða aðra viðkomandi aðila,
e)    athugun á gögnum og skrám rekstraraðila,
f)    athugun á sýnum úr birgðum rekstraraðila sem nota kerfi áreiðanleikakannana viðkomandi vöktunarstofnunar.

7. gr.
Skýrslur um eftirlit með vöktunarstofnunum

1.     Lögbæru yfirvöldin skulu taka saman skýrslur um hvert tilvik eftirlits sem þau hafa framkvæmt og í þeim skal vera lýsing á ferlinu og aðferðunum sem var beitt og niðurstöður og ályktanir þeirra.
2.     Lögbæru yfirvöldin skulu láta vöktunarstofnun, sem hefur sætt eftirliti, í té niðurstöðurnar og ályktanirnar úr skýrsludrögunum.
Vöktunarstofnunin getur látið lögbæru yfirvöldunum í té athugasemdir innan þeirra tímamarka sem lögbæru yfirvöldin setja.
3.     Lögbæru yfirvöldin skulu taka saman skýrslurnar, sem um getur í 4. mgr. 8. gr. reglugerðar (ESB) nr. 995/2010, á grundvelli skýrslnanna um hvert tilvik eftirlits.

8. gr.
Gildistaka

Reglugerð þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 6. júlí 2012.
Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,
José Manuel BARROSO
forseti.

_____


Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 295, 12.11.2010, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 115, 27.4.2012, bls. 12.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. ESB L 177, 7.7.2012, bls. 16.
Neðanmálsgrein: 4
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 5
(1)    Stjtíð. ESB C 318, 23.12.2009, bls. 88.
Neðanmálsgrein: 6
(2)    Afstaða Evrópuþingsins frá 22. apríl 2009 (Stjtíð. ESB C 184 E, 8.7.2010, bls. 145), afstaða ráðsins eftir fyrstu umræðu frá 1. mars 2010 (Stjtíð. ESB C 114 E, 4.5. 2010, bls. 17) og afstaða Evrópuþingsins frá 7. júlí 2010 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindunum).
Neðanmálsgrein: 7
(3)    Stjtíð. EB L 242, 10.9.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 8
(1)    Stjtíð. ESB L 347, 30.12.2005, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 9
(2)    Stjtíð. EB L 61, 3.3.1997, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 10
(1)    Stjtíð. ESB L 41, 14.2.2003, bls. 26.
Neðanmálsgrein: 11
(1)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 12
(2)    Stjtíð. ESB L 312, 22.11.2008, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 13
(1)    Stjtíð. EB L 144, 4.6.1997, bls. 19.
Neðanmálsgrein: 14
(1)    Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2658/87 frá 23. júlí 1987 um tollskrár- og hagtöluflokkunarkerfið og sameiginlegu tollskrána (Stjtíð. EB L 256, 7.9.1987, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 15
(1)    Stjtíð. ESB L 295, 12.11.2010, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 16
(1)    Stjtíð. EB L 281, 23.11.1995, bls. 31.
Neðanmálsgrein: 17
(2)    Stjtíð. EB L 8, 12.1.2001, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 18
(3)    Stjtíð. ESB L 376, 27.12.2006, bls. 36.
Neðanmálsgrein: 19
(1)    Stjtíð. ESB L 295, 12.11.2010, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 20
(2)    Stjtíð. EB L 281, 23.11.1995, bls. 31.
Neðanmálsgrein: 21
(3)    Stjtíð. EB L 8, 12.1.2001, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 22
(1)    Stjtíð. ESB L 115, 27.4.2012, bls. 12.