Ferill 803. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Prentað upp.

Þingskjal 1445  —  803. mál.
Leiðréttur texti.
Tillaga til þingsályktunar


um Jafnréttissjóð Íslands.


Flm.: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bjarni Benediktsson, Árni Páll Árnason,
Katrín Jakobsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Birgitta Jónsdóttir.


    Alþingi ályktar, í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarrétt með stjórnarskrárbreytingu 19. júní 1915, að stofnaður verði Jafnréttissjóður Íslands sem njóti framlaga af fjárlögum næstu fimm ár, 2016–2020, 100 millj. kr. á ári. Jafnréttissjóður Íslands styrki verkefni sem auka jafnrétti kynjanna og hafi að markmiði að fjármagna eða styrkja:
     a.      verkefni sem eru til þess fallin að vinna gegn launamun kynjanna og efla almennt jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og í atvinnulífinu,
     b.      verkefni sem varpa ljósi á samfélagslegan, um­hverfislegan og efnahagslegan ávinning af auknu jafnrétti og styrkja jafnrétti á alþjóðavísu, t.d. með kynningu á íslenskum lausnum og áherslu á bætta stöðu kvenna í þróunarlöndum og á norðurslóðum,
     c.      verkefni sem er ætlað að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi,
     d.      þróunarverkefni í skólakerfinu sem er ætlað að stuðla að sterkri og jákvæðri sjálfsmynd pilta og stúlkna, svo sem með aukinni fræðslu í kynjafræðum,
     e.      verkefni sem eru til þess fallin að hvetja ungt fólk af báðum kynjum til aukinnar þátttöku í samfélagslegum verkefnum og stjórnmálastarfi og stuðla að aukinni kosningaþátttöku þess,
     f.      rannsóknarverkefni sem eru til þess fallin að varpa ljósi á stöðu kynjanna jafnt í samtíð sem fortíð.
    Alþingi kjósi þriggja manna stjórn sjóðsins og jafnmarga til vara.
    Stjórn sjóðsins tilkynni um úthlutanir úr sjóðnum 19. júní ár hvert.
    Stjórn sjóðsins eigi samvinnu við samtök kvenna, aðila á vinnumarkaði, ráðuneyti, skóla, sjóði og stofnanir um viðfangsefni hans.
    Miðað verði við að verulegum hluta árlegs ráðstöfunarfjár Jafnréttissjóðs Íslands verði varið til verkefna sem tengjast auknu kynjajafnrétti á alþjóðavísu, sbr. b-lið 1. mgr.
    Jafnréttissjóður Íslands taki á starfstíma sínum við rannsóknarverkefnum Jafnréttissjóðs sem starfar samkvæmt reglum nr. 513/2006.
    Stjórnsýsla Jafnréttissjóðs Íslands, þ.m.t. varsla sjóðsins og dagleg umsýsla hans, heyri undir forsætisráðuneytið.
    Forsætisráðherra setji nánari reglur um úthlutun úr sjóðnum að fengnum tillögum sjóðstjórnar. Reglurnar skulu birtar í Stjórnartíðindum.

Greinargerð.

    Á þessu ári minnast Íslendingar þess að 100 ár eru liðin frá því að íslenskar konur, 40 ára og eldri, fengu kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis. Þessa hefur verið minnst með margvíslegum hætti víða um land og verður svo áfram á þessu ári. Afmælisnefnd, sem var kjörin af fulltrúum íslenskra kvenna samkvæmt ályktun Alþingis 11. mars 2013, hefur haft um þetta efni samráð við félagasamtök, ­sveitarfélög og einstaklinga um land allt.
    Hápunktur afmælisársins er 19. júní, en þann dag 1915 staðfesti Kristján tíundi stjórnarskipunarlögin sem veittu konum, 40 ára og eldri, kosningarrétt og kjörgengi. Árið 1920 var stjórnarskránni breytt og þá varð kosningarréttur karla og kvenna jafn. Ártölin 1915 og 1920 marka því bæði mikilvæga áfanga í átt til jafnrar þátttöku kynjanna í lýðræðissamfélagi.
    Almennur kosningarréttur og kjörgengi til Alþingis er forsenda þeirrar lýðræðisskipunar sem Íslendingar búa við. Þessi réttindi eru jafnframt hluti af lýðræðisvitund þjóðarinnar því að í þeim felast þau grundvallarmannréttindi að geta haft áhrif á mótun samfélagsins. Alþingi hefur því ríka ástæðu til að minnast 100 ára afmælis kosningarréttar kvenna með veglegum hætti. Í því sambandi er horft til þess að sú réttarbót sem konur hlutu 1915 var um leið þýðingarmikið skref í jafnréttismálum kynjanna. Það er því tillaga flutningsmanna að afmælisins verði minnst með því að stofna Jafnréttissjóð Íslands. Sjóðnum er ætlað að starfa í fimm ár og hafa það hlutverk að fjármagna eða styrkja fjölþætt verkefni sem ætlað er að stuðla að frekari framþróun á sviði jafnréttismála hérlendis og erlendis.
    Tillagan gerir ráð fyrir að stjórn Jafnréttissjóðs Íslands verði skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara, kjörnum til fimm ára af Alþingi. Lögð er áhersla á að stjórn sjóðsins eigi samvinnu við samtök kvenna, aðila á vinnumarkaði, ráðuneyti, skóla, sjóði og stofnanir um viðfangsefni sjóðsins. Miðað er við að sjóðurinn fái til verkefna sinna 100 millj. kr. á ári frá ársbyrjun 2016 til ársloka 2020. Kveðið er á um að úthlutun úr sjóðnum fari fram 19. júní ár hvert og er með því lögð áhersla á þann sess sem kvenréttindadagurinn skipar í íslensku samfélagi.
    Með hliðsjón af þeim fjölþættu verkefnum sem Jafnréttissjóði Íslands er ætlað að sinna þykir heppilegt að stjórnsýsla sjóðsins, bæði varsla hans og dagleg umsýsla, heyri undir forsætisráðuneytið. Innan ráðuneytisins er nú starfandi rannsóknarsjóður samkvæmt reglum nr. 513/2006 sem er ætlað að efla kynja­rannsóknir en hér er lagt til að Jafnréttissjóður Íslands taki við rannsóknarverkefnum þess sjóðs þann tíma sem hann starfar.
    Það er vissulega uppörvandi að Ísland hefur síðastliðin sex ár skipað efsta sætið á lista Alþjóðaefnahagsráðsins yfir kynjajafnrétti. Sú niðurstaða endurspeglar þann árangur sem náðst hefur á sviði jafnréttismála á síðustu áratugum. Það er hins vegar óumdeilt að fjölmargt má betur fara í jafnréttismálum. Þannig hefur í skýrslum Alþjóðaefnahagsráðsins m.a. verið bent á viðvarandi kynbundinn launamun hér á landi. Þá benda greiningar til að einn stærsti félagslegi vandi sem enn steðjar að konum felist í kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi. Úrbætur á þessum sviðum eru meðal þeirra mörgu verkefna sem vinna þarf að á sviði jafnréttismála og tilgreind eru í tillögunni sem mikilvæg viðfangsefni þess sjóðs sem stofna á samkvæmt henni. Nauðsynlegt er að takast á við þessi verkefni og halda þannig áfram uppbyggingu samfélags jafnréttis og lýðræðis. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á að aukið jafnrétti getur aukið lífsgæði allra því að aukið kynjajafnrétti hefur jákvæð áhrif á hagvöxt og efnahagsstöðugleika auk þess að bæta samkeppnisstöðu ríkja.
    Þegar litið er til góðs árangurs Íslendinga á sviði jafnréttismála í alþjóðlegum samanburði er rökrétt að þeir leggi sitt af mörkum til þess að styðja enn frekar við jafnréttisstarf víða um heim, ekki síst í samstarfslöndum Íslands á sviði þróunarsamvinnu, enda hefur jafnrétti kynjanna verið forgangsmál og sérstakt markmið í íslenskri þróunarsamvinnu. Þá hefur Ísland verið leiðandi í umræðu um jafnréttismál á norðurslóðum. Tillagan gerir því ráð fyrir að verulegum hluta árlegs ráðstöfunarfjár Jafnréttissjóðs Íslands verði varið til verkefna sem tengjast auknu kynjajafnrétti á alþjóðavísu.
    Tillagan er flutt í samkomulagi þeirra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi.