Ferill 803. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Nr. 13/144.

Þingskjal 1456  —  803. mál.


Þingsályktun

um Jafnréttissjóð Íslands.


    Alþingi ályktar, í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarrétt með stjórnarskrárbreytingu 19. júní 1915, að stofnaður verði Jafnréttissjóður Íslands sem njóti framlaga af fjárlögum næstu fimm ár, 2016–2020, 100 millj. kr. á ári. Jafnréttissjóður Íslands styrki verkefni sem auka jafnrétti kynjanna og hafi að markmiði að fjármagna eða styrkja:
     a.      verkefni sem eru til þess fallin að vinna gegn launamun kynjanna og efla almennt jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og í atvinnulífinu,
     b.      verkefni sem varpa ljósi á samfélagslegan, um­hverfislegan og efnahagslegan ávinning af auknu jafnrétti og styrkja jafnrétti á alþjóðavísu, t.d. með kynningu á íslenskum lausnum og áherslu á bætta stöðu kvenna í þróunarlöndum og á norðurslóðum,
     c.      verkefni sem er ætlað að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi,
     d.      þróunarverkefni í skólakerfinu sem er ætlað að stuðla að sterkri og jákvæðri sjálfsmynd pilta og stúlkna, svo sem með aukinni fræðslu í kynjafræðum,
     e.      verkefni sem eru til þess fallin að hvetja ungt fólk af báðum kynjum til aukinnar þátttöku í samfélagslegum verkefnum og stjórnmálastarfi og stuðla að aukinni kosningaþátttöku þess,
     f.      rannsóknarverkefni sem eru til þess fallin að varpa ljósi á stöðu kynjanna jafnt í samtíð sem fortíð.
    Alþingi kjósi þriggja manna stjórn sjóðsins og jafnmarga til vara.
    Stjórn sjóðsins tilkynni um úthlutanir úr sjóðnum 19. júní ár hvert.
    Stjórn sjóðsins eigi samvinnu við samtök kvenna, aðila á vinnumarkaði, ráðuneyti, skóla, sjóði og stofnanir um viðfangsefni hans.
    Miðað verði við að verulegum hluta árlegs ráðstöfunarfjár Jafnréttissjóðs Íslands verði varið til verkefna sem tengjast auknu kynjajafnrétti á alþjóðavísu, sbr. b-lið 1. mgr.
    Jafnréttissjóður Íslands taki á starfstíma sínum við rannsóknarverkefnum Jafnréttissjóðs sem starfar samkvæmt reglum nr. 513/2006.
    Stjórnsýsla Jafnréttissjóðs Íslands, þ.m.t. varsla sjóðsins og dagleg umsýsla hans, heyri undir forsætisráðuneytið.
    Forsætisráðherra setji nánari reglur um úthlutun úr sjóðnum að fengnum tillögum sjóðstjórnar. Reglurnar skulu birtar í Stjórnartíðindum.

Samþykkt á Alþingi 19. júní 2015.