Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1398, 145. löggjafarþing 457. mál: veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald (heimagisting, veitingastaðir án áfengisveitinga, ótímabundin rekstrarleyfi).
Lög nr. 67 10. júní 2016.

Lög um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007 (heimagisting, veitingastaðir án áfengisveitinga, ótímabundin rekstrarleyfi).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „til lengri eða skemmri tíma“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: að hámarki í 30 daga samfleytt í senn.
 2. Í stað 2. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Heimagisting er gisting gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings eða í einni annarri fasteign sem hann hefur til persónulegra nota og er í hans eigu. Fjöldi útleigðra daga í báðum eignum samanlagt skal ekki fara yfir 90 daga á hverju almanaksári eða samanlagðar tekjur af leigu eignanna skulu ekki nema hærri fjárhæð en kveðið er á um í 3. tölul. 4. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.
 3. Í stað flokka IV og V í 3. mgr. kemur einn nýr flokkur, Flokkur IV, svohljóðandi: Gististaður með áfengisveitingum.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 4. gr. laganna:
 1. Flokkur II orðast svo: Umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemin er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist, og staðir sem kalla ekki á mikið eftirlit og/eða löggæslu.
 2. Flokkur III orðast svo: Umfangsmiklir áfengisveitingastaðir, svo sem þar sem leikin er hávær tónlist, og staðir sem kalla á meira eftirlit og/eða löggæslu.


3. gr.

     Í stað orðanna „4. mgr. 18. gr.“ í 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: 17. gr.

4. gr.

     Í stað orðsins „hæfi“ í 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: hæfni.

5. gr.

     1. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo: Sá sem hyggst stunda starfsemi sem fellur undir gistiflokka II–IV og veitingastaðaflokka II og III skal hafa til þess rekstrarleyfi útgefið af leyfisveitanda.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 8. gr. laganna:
 1. Orðið „annarra“ í a-lið fellur brott.
 2. Í stað fjárhæðarinnar „500.000 kr.“ í g-lið kemur: 1.000.000 kr.


7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Útgáfa rekstrarleyfis samkvæmt lögum þessum er háð því að kröfur á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga um matvæli séu uppfyllt og, eftir því sem við á, að starfsleyfi sem gefin eru út af heilbrigðisnefndum sveitarfélaga fáist fyrir þeirri starfsemi sem umsókn lýtur að.
 3. 1. tölul. 4. mgr. orðast svo: Sveitarstjórnar sem m.a. staðfestir eftirfarandi atriði:
  1. að starfsemi sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála,
  2. að lokaúttekt hafi farið fram á húsnæðinu,
  3. að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um,
  4. að starfsemi sé í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga um matvæli og, þegar við á, mat heilbrigðisnefndar á grenndaráhrifum starfseminnar, þ.m.t. hljóðvist,
  5. að kröfum um brunavarnir sé fullnægt samkvæmt mati slökkviliðs.
 4. 2., 3. og 5. tölul. 4. mgr. falla brott.


8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Rekstrarleyfi til starfsemi samkvæmt lögum þessum skal vera ótímabundið. Leyfishafi skal tafarlaust og í samræmi við 2. mgr. 12. gr. tilkynna leyfisveitanda að hann hyggist hætta hinni leyfisskyldu starfsemi.
 3. 1. málsl. 2. mgr. fellur brott.
 4. Orðin „gildistími leyfis“ í 1. málsl. 3. mgr. falla brott.
 5. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 6.      Í rekstrarleyfi skal koma fram númer sem leyfisveitandi úthlutar leyfishafa. Leyfishafi skal nota númerið í allri markaðssetningu á starfsemi sinni, svo sem í auglýsingum, á vefsíðum og bókunarsíðum, innlendum sem erlendum.


9. gr.

     1. málsl. 6. mgr. 12. gr. laganna fellur brott.

10. gr.

     13. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Skráningarskylda.
     Hver sem hyggst bjóða upp á heimagistingu í samræmi við 1. mgr. 3. gr. skal tilkynna sýslumanni í viðkomandi umdæmi að hann hyggist leigja út lögheimili sitt eða eina aðra fasteign í sinni eigu. Aðila ber að staðfesta við skráningu að húsnæðið uppfylli kröfur í reglugerð um brunavarnir, það hafi hlotið samþykki sem íbúðarhúsnæði og að húsnæðið sé fullnægjandi með tilliti til hollustuhátta samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
     Endurnýja þarf skráningu á ári hverju og við lok hvers almanaksárs skal aðili með skráða heimagistingu skila til sýslumanns yfirliti yfir þá daga sem húsnæði var leigt út ásamt upplýsingum um leigutekjur. Skil á upplýsingum skv. 1. málsl. er skilyrði fyrir endurnýjun skráningar á næsta almanaksári. Sýslumanni er heimilt að senda upplýsingar skv. 1. málsl. til skattyfirvalda.
     Við skráningu heimagistingar skal sýslumaður úthluta aðila númeri skráningar og ber aðila að nota númerið í allri markaðssetningu og kynningu, þ.m.t. á vefsíðum, bókunarsíðum, á sjálfri fasteigninni og í auglýsingum hvers konar.
     Um skráningarskylda aðila gilda, eftir því sem við á, ákvæði 19. og 26. gr.
     Heimagisting sem uppfyllir skilyrði laga þessara telst ekki fara fram í atvinnuhúsnæði í skilningi laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995.
     Í reglugerð skal kveða nánar á um framkvæmd skráningarskyldu, upplýsingar sem veita skal og kröfur til notkunar skráningarnúmers. Ráðherra er í reglugerð enn fremur heimilt að kveða á um að öll skráning, vinnsla og/eða allt eftirlit með heimagistingu geti farið fram hjá einu sýslumannsembætti.

11. gr.

     Fyrirsögn III. kafla laganna verður: Leyfisveitingar og skráningarskylda.

12. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
 1. 1. málsl. 1. mgr. fellur brott.
 2. Orðið „jafnframt“ í 2. málsl. 1. mgr. fellur brott.
 3. Orðin „þótt leyfistími sé ekki liðinn“ í 1. málsl. 6. mgr. falla brott.
 4. Á eftir 6. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 5.      Sýslumanni er heimilt að fella niður rekstrarleyfi hafi ekki verið nein starfsemi af hálfu leyfishafa á þeim veitingastað, gististað eða skemmtistað sem fram kemur í leyfinu í samfellt tólf mánuði. Skal leyfishafa tilkynnt skriflega um að niðurfelling standi til og honum heimilað að gera athugasemdir við niðurfellinguna. Sýslumanni er heimilt að senda tilkynningar samkvæmt ákvæði þessu með rafrænum hætti á netfang leyfishafa.


13. gr.

     Á eftir 15. gr. laganna kemur ný grein, 15. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Afskráning og synjun skráningar.
     Sýslumaður skal afskrá heimagistingu verði aðili uppvís að því að leigja út húsnæði sitt til lengri tíma en 90 daga á ári hverju eða fyrir hærri fjárhæð en kveðið er á um í 3. tölul. 4. gr. laga um virðisaukaskatt.
     Áður en kemur til afskráningar skal sýslumaður senda skráningaraðila tilkynningu þar um þar sem fram kemur tilefni afskráningar og skal skráningaraðila gefinn frestur til að andmæla eða bæta úr annmörkum sé það mögulegt.
     Sýslumaður skal enn fremur synja um skráningu hafi heimagisting ítrekað verið afskráð, nýtingaryfirliti og upplýsingum um leigutekjur ekki verið skilað eða aðili ítrekað misnotað skráningu sína.
     Sýslumanni er heimilt að senda tilkynningar samkvæmt ákvæði þessu með rafrænum hætti á uppgefið tölvupóstfang skráningaraðila.

14. gr.

     Fyrirsögn IV. kafla laganna verður: Synjun, brottfall, afturköllun og svipting rekstrarleyfis og afskráning.

15. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
 1. Orðin „og eru til þess fallnir að valda ónæði, svo sem vegna hávaða“ í 1. mgr. falla brott.
 2. 4. málsl. 1. mgr. fellur brott.
 3. Á eftir 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 4.      Sækja þarf um tækifærisleyfi til áfengisveitinga við einstök tækifæri í atvinnuskyni hvort sem um beina sölu veitinganna er að ræða eða afhendingu þeirra, svo sem í kynningarskyni, á sýningum eða sem lið í hvers konar samkomu- og/eða ráðstefnuhaldi, hvort sem er innan dyra, undir berum himni eða í tjaldi. Slík leyfi verða eingöngu gefin út þegar atburður fer fram á stað sem ekki hefur rekstrarleyfi en þó almennt ekki oftar en tólf sinnum ár hvert vegna sama staðar. Tækifærisleyfi til áfengisveitinga má þó samþykkja sem viðbót við gilt rekstrarleyfi, svo sem vegna tímabundins viðbótarafgreiðslutíma áfengisveitinga.
       Ekki þarf tækifærisleyfi fyrir einkasamkvæmum.
 5. Í stað orðanna „einnar viku“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: þriggja vikna.
 6. 1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Leyfisveitandi getur bundið leyfi eftirfarandi skilyrðum að fengnum umsögnum lögreglustjóra, heilbrigðisnefnda, sveitarstjórnar, slökkviliðs og eftir atvikum annarra umsagnaraðila skv. 10. gr.
 7. Í stað orðsins „hann“ í 2. tölul. 3. mgr. kemur: lögreglustjóri.
 8. Á eftir orðinu „lögreglumenn“ í 3. tölul. 3. mgr. kemur: eða öryggisvakt slökkviliðs.
 9. Á eftir orðinu „lögreglustjóri“ í 4. tölul. 3. mgr. kemur: eða slökkviliðsstjóri.
 10. 4. mgr. fellur brott.


16. gr.

     18. gr. laganna fellur brott.

17. gr.

     Við 20. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Leyfisveitandi skal enn fremur birta lista yfir skráða heimagistingu í miðlægu kerfi og á heimasíðu sinni. Nánar skal kveðið á um birtingu upplýsinga í reglugerð.

18. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
 1. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 2.      Sýslumenn skulu hafa eftirlit með skráðum og skráningarskyldum aðilum, svo sem varðandi skráningarskyldu, tímalengd útleigu í heimagistingu og skil á nýtingaryfirliti og upplýsingum um leigutekjur. Sýslumenn geta leitað atbeina lögreglu við eftirlit með skráðum og skráningarskyldum aðilum. Þá skulu sýslumenn einnig sinna eftirliti með notkun á leyfisnúmeri í rekstrarleyfisskyldri starfsemi, sbr. 4. mgr. 11. gr.
 3. 3. mgr. orðast svo:
 4.      Heilbrigðisnefnd skal tilkynna viðkomandi leyfisveitanda ef fyrirhuguð er svipting starfsleyfis eða ef starfsemi uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru til heimagistingar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og um frávik sem koma fram í eftirliti. Leyfisveitandi skal tilkynna heilbrigðisnefnd ef fyrirhuguð er svipting rekstrarleyfis eða afskráning heimagistingar.
 5. Á eftir orðunum „rekstur leyfishafa“ í 4. mgr. kemur: eða skráðs aðila; og í stað orðanna „endurnýjun þess“ í sömu málsgrein kemur: skráningu.


19. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
 1. Fyrri málsliður 1. mgr. orðast svo: Hver sá sem brýtur gegn 4. mgr. 4. gr. um nektarsýningar eða 5. gr. um dvöl ungmenna á veitingastöðum eða rekur leyfisskylda starfsemi án tilskilins leyfis, sbr. 7., 12. og 17. gr., skal sæta sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
 2. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Hver sá sem rekur heimagistingu án skráningar skal sæta sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
 4. Í stað orðanna „1. og 2. mgr.“ í 3. og 4. mgr. kemur: 1.–3. mgr.


20. gr.

     Á eftir 22. gr. laganna kemur ný grein, 22. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Stjórnvaldssektir.
     Sýslumaður getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem rekur heimagistingu án skráningar skv. 13. gr., stundar útleigu lengur en 90 daga á hverju almanaksári eða fyrir hærri fjárhæð en kveðið er á um í 3. tölul. 4. gr. laga um virðisaukaskatt.
     Einnig er sýslumanni heimilt að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann sem ekki notar númer rekstrarleyfis eða skráningar í markaðssetningu skv. 4. mgr. 11. gr. og 3. mgr. 13. gr.
     Stjórnvaldssektir geta numið frá 10 þús. kr. til 1 millj. kr. fyrir hvert brot, eru aðfararhæfar og skulu renna í ríkissjóð. Við ákvörðun sekta skal tekið tillit til alvarleika brots.
     Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
     Stjórnvaldssektum má beita óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
     Aðili máls getur skotið ákvörðun sýslumanns um stjórnvaldssektir til ráðherra innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málskot til ráðherra frestar aðför.

21. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
 1. Orðin „útrunnið rekstrarleyfi hefur ekki verið endurnýjað“ í a-lið 1. mgr. falla brott.
 2. Í stað „18. gr.“ í c-lið 1. mgr. kemur: 17. gr.
 3. Við 1. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Þegar rökstuddur grunur er um að fram fari nektarsýningar eða að með öðrum hætti sé gert út á nekt starfsmanna eða annarra sem eru á staðnum.
 4. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 5.      Sýslumaður getur farið fram á að lögreglustjóri, án fyrirvara eða aðvörunar, stöðvi skráningarskylda starfsemi sem fram fer án skráningar. Heimilt er að útfæra þetta úrræði nánar í reglugerð.


22. gr.

     Í stað orðanna „Um gjald“ í 24. gr. laganna kemur: Um skráningargjald og gjald.

23. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða I og II í lögunum falla brott.

24. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2017.

25. gr.

Breyting á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á 11. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum:
 1. 20. tölul. orðast svo: Gistileyfi og skráningargjald skv. 3. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald
  1. flokkur I (skráningargjald) 8.000 kr.
  2. flokkur II 30.000 kr.
  3. flokkur III 38.000 kr.
  4. flokkur IV 250.000 kr.
 2. 21. tölul. orðast svo: Veitingaleyfi skv. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald
  1. flokkur II 200.000 kr.
  2. flokkur III 250.000 kr.
 3. 22. tölul. orðast svo: Tækifærisleyfi fyrir skemmtun skv. 17. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald 10.000 kr.
 4. 23. tölul. orðast svo: Tækifærisleyfi fyrir áfengisveitingar skv. 17. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald 31.500 kr.
 5. 24. tölul. fellur brott.


Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Öll rekstrarleyfi sem gefin hafa verið út á grundvelli laga nr. 85/2007 halda gildi sínu fram að endurnýjun samkvæmt leyfisbréfi enda komi ekki til niðurfellingar eða sviptingar. Þegar leyfi hefur runnið út skal sækja um nýtt rekstrarleyfi á grundvelli laganna.

II.
     Þegar kemur að lokum gildistíma er leyfisveitanda heimilt að gefa út rekstrarleyfi til bráðabirgða með sömu skilmálum og giltu um hið fyrra leyfi til allt að þriggja mánaða. Á gildistíma bráðabirgðaleyfis skal leyfishafi sækja um nýtt leyfi á grundvelli nýrra laga eða skrá starfsemi sína í samræmi við ákvæði þar um. Einungis er heimilt að framlengja bráðabirgðaleyfi ef umsækjanda verður ekki kennt um tafir á útgáfu nýs leyfis eða skráningu.

Samþykkt á Alþingi 31. maí 2016.