Ferill 740. máls. Ferill 741. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1549  —  740. og 741. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 og tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2017–2021.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.


    Tillögur til þingsályktunar um fjármálaáætlun og fjármálastefnu fyrir árin 2017–2021, sem fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram í apríllok, eru samdar til að uppfylla skyldu til stefnumörkunar í opinberum fjármálum sem lögð er á ríkisstjórn í lögum nr. 123/2015, um opinber fjármál, sem tóku gildi 1. janúar 2016. Þingsályktunartillögurnar eru því þær fyrstu sinnar tegundar.
    Á undanförnum árum hafa verið gerðar ýmsar ráðstafanir af hálfu löggjafar- og framkvæmdarvalds í því skyni að bæta opinbera fjárstjórn, fjárumsýslu og upplýsingagjöf um opinber fjármál. Lög um opinber fjármál, nr. 123/2015, sem komu í stað laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, eru veigamesti þátturinn í nýskipan á þessum vettvangi og hafði verið unnið að þeim um alllangt skeið, m.a. í samvinnu við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, áður en frumvarp til laga um opinber fjármál var fyrst lagt fyrir Alþingi sem 508. mál 143. löggjafarþings. Umrædd lög mynda grundvöll og ramma undir og utan um opinber fjármál með tilliti til stefnumörkunar, áætlanagerðar og framsetningar fjárlaga. Fyrirliggjandi þingsályktunartillögur fela hins vegar í sér útlistanir á stefnumiðum og áherslum stjórnvalda í fjármálum hins opinbera hverju sinni auk markmiðasetningar og spár um þróun opinberra fjármála á gildistímanum. Þingsályktunartillögurnar eru þannig stefnumótandi, ekki síður en lögin, og bera merki ríkjandi afla hverju sinni.
    Ráðstafanir til að færa meðferð opinberra fjármála í betra horf voru vissulega tímabærar og verða vonandi til góðs fyrir íslenskt samfélag. Í því ljósi er fyrirliggjandi þingsályktunartillaga fagnaðarefni en hið sama verður ekki sagt um ýmsar ráðagerðir og stefnumál sem þar eru kynnt og sumar forsendna tillögunnar virðast hæpnar, ekki síst þær sem snúa að verðmati á þeim eignum sem féllu í hlut ríkisins vegna svonefnds stöðugleikaframlags.

Fjármálaáætlun, fjármálastefna og fjármálaráð.
    Samkvæmt lögum nr. 123/2015, um opinber fjármál, ber að leggja fram ár hvert þingsályktunartillögu um fjármálastefnu og aðra um fjármálaáætlun. Milli þessara þingsályktunartillagna þarf að vera röklegt samhengi, eigi þær að koma að tilætluðum notum, en því er ekki fyrir að fara. Fjármálastefnunni er að því leyti áfátt að þar er ekki að finna greinargerð um hvernig fylgt verði grunngildum sem kveðið er á um í 2. mgr. 6. gr. laga um opinber fjármál né umfjöllun um skilyrði fjármálastefnu og fjármálaáætlunar skv. 7. gr. laganna, en samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 4. gr. ætti fjármálastefna að innihalda slíkt efni. Þar sem svo er ekki myndar fjármálastefnan ekki þann grundvöll undir fjármálaáætlunina sem henni er ætlað. Þá er það athugavert að tillögunum var útbýtt sama dag á Alþingi og þær teknar til fyrri umræðu á sama þingfundinum en vitaskuld ætti þingið að taka fjármálastefnuna til meðferðar áður en fjármálaáætlun kemur til umfjöllunar þannig að stefnan hefði verið rædd, vegin og metin áður en að áætluninni kæmi. Er þess vænst að þetta sleifarlag verði ekki viðhaft framvegis enda kemur það illa niður á gagnsemi þeirra aðferða sem beita skal samkvæmt því verklagi sem innleitt er með lögum um opinber fjármál.
    Þá er það og ljóður á framkvæmd laga um opinber fjármál í þessu samhengi að fjármálaráð hefur ekki fjallað um tillögurnar eins og vera ber skv. 13. gr. laganna. Mat ráðsins á því hvort fylgt sé grunngildum fjármálastefnunnar og farið að skilyrðum um hana liggur því ekki fyrir eins og skylt er.

Rammar, mörk og markmið.
    Sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi eru grunngildin sem fjármálastefna og fjármálaáætlun skulu byggjast á samkvæmt 1.–5. tölul. 6. gr. laga um opinber fjármál og í 7. gr. laganna er mælt fyrir um að þessar áætlanir skuli uppfylla þau skilyrði að heildarjöfnuður á fimm ára tímabili verði ávallt jákvæður og árlegur halli fari aldrei yfir 2,5% af landsframleiðslu og enn fremur verði heildarskuldir, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum og að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum, lægri en 30% af vergri landsframleiðslu. Fyrrgreind skilyrði sættu allmikilli gagnrýni úr ýmsum áttum, þar á meðal af hálfu þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem lögðust gegn þessum ákvæðum þegar frumvarp til laga um opinber fjármál var til umfjöllunar á vettvangi Alþingis og sér þessa víða stað í umræðum í þingsal og í innsendum erindum. Bent var á að hin þröngu skilyrði laganna gætu orðið til þess að takmarka möguleika hins opinbera til að bregðast við efnahagsörðugleikum með örvunaraðgerðum og minnt á að strangar og íþyngjandi reglur gætu reynst svo hamlandi og andstæðar settum markmiðum að þær stæðu í vegi fyrir efnahagslegri uppbyggingu. Getur þá svo farið að reglurnar verði sniðgengnar eða brögðum beitt til að komast fram hjá þeim. Gagnrýnin á viðmiðin sem sett var fram í aðdraganda setningar laga um opinber fjármál er enn í góðu gildi og skal hún áréttuð hér.
    Meginmarkmið laga um opinber fjármál, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna, er að stuðla að góðri hagstjórn og styrkri og ábyrgri stjórn opinberra fjármála. Þetta á einnig við um þingsályktanir um fjármálastefnu og fjármálaáætlun sem gerðar eru á grundvelli laganna og tekur nefndarálit þetta mið af þessum forsendum.

Skattstefna og tekjuöflunaráform stuðla að ójöfnuði.
    Samkvæmt þeim áformum sem þingsályktunartillaga um fjármálaáætlun lýsir verður hlutfall tekjuskatts af vergri landsframleiðslu óbreytt á gildistíma hennar eða 18,1–18,2%. Þá er gert ráð fyrir að hlutfall skatta af vöru og þjónustu af vergri landsframleiðslu hækki úr 11,5% í 11,9% á næsta ári og verði nálægt því til loka áætlunartímabilsins.
    Sem kunnugt er hefur verið dregið úr hlut tekjuskatts í fjáröflun ríkisins á starfstíma núverandi ríkisstjórnar og enn fremur horfið frá beitingu tekjuskattsálagningar í tekjujöfnunarskyni sem innleidd hafði verið á starfstíma vinstri stjórnarinnar á árunum 2009–2013 með þriggja þrepa skattkerfi þar sem álagningarprósenta réðst af fjárhæð tekna og álagningu auðlegðarskatts. Núverandi ríkisstjórn lét það verða meðal sinna fyrstu verka að falla frá frekari álagningu auðlegðarskatts, álagningarprósenta tekjuskatts á einstaklinga hefur verið lækkuð og milliþrep skattstigans verður afnumið um áramótin 2016/2017. Eins og gefur að skilja koma þessar ráðstafanir ekki öðrum skattgreiðendum að gagni en þeim sem eru vel haldnir með tekjur og dregið var úr tekjujöfnunaráhrifum tekjuskattsálagningarinnar með framangreindum skattkerfisbreytingum.
    Stjórnvöld hafa einnig fellt niður almenn vörugjöld og tollar á annan varning en matvæli hafa verið felldir niður eða niðurfelling þeirra boðuð. Þá var gerð veigamikil breyting á virðisaukaskattskerfinu er lægra þrep þess var hækkað úr 7% í 11% en almenna þrepið lækkað úr 25,5% í 24%. Þessar breytingar tóku gildi 1. janúar 2015 og var markmið þeirra til lengri tíma að auka tekjur ríkisins af virðisaukaskatti. Breytingar síðustu ár á álagningu óbeinna skatta hafa hins vegar orðið til þess að hlutdeild þeirra í skatttekjum ríkisins hefur lækkað nokkuð en ætlunin er að aukin hlutdeild virðisaukaskatts verði til þess að hækka hlutfall óbeinna skatta á ný á áætlunartímabilinu. Er gert ráð fyrir því að beinir skattar nemi um 43% allra skatttekna A-hluta ríkissjóðs á árunum 2017–2021 en skattar á vöru og þjónustu verði um 51% skatttekna á sama tímabili.
    Rétt er að halda því til haga að úr röðum framsóknarmanna á Alþingi heyrðust andmæli gegn fyrrnefndum virðisaukaskattsbreytingum sem fólu það í sér að skattlagning á matvæli jókst. Þau sem mölduðu í móinn gáfust þó upp á andstöðu sinni gegn fyrirheitum um tilteknar skattkerfisbreytingar til mótvægis. Var þar um að ræða hækkun barna- og vaxtabóta sem var þegar til kom að mestu tekin til baka með tilfærslu á skerðingarmörkum en almenningur sat uppi með hærri matarreikning og lægri ráðstöfunartekjur.
    Hið háa hlutfall skatta á vöru og þjónustu, þar sem hlutdeild virðisaukaskatts er yfirgnæfandi, ber vott um að við mótun skattstefnunnar hefur verið litið fram hjá hlutverki skattkerfisins við kjarajöfnun. Neytendur vöru og þjónustu greiða allir sama virðisaukaskatthlutfallið án tillits til tekna eða efnahags og þar sem virðisaukaskattur leggst á ýmsar nauðsynjar sem almenningur þarfnast er augljóst að hlutfallsleg skattbyrði þeirra sem hafa úr það litlu að spila að tekjur þeirra renna allar til framfærslu verður snöggtum hærri en hinna tekjuhærri sem geta lagt hluta tekna sinna til hliðar. Er þetta að sjálfsögðu gagnrýnivert enda merki þess að stjórnvöld hirða lítt um að beita skattkerfinu til kjarajöfnunar. Skattstefnan sem birtist í fjármálaáætluninni mun verða til þess að auka bilið milli ríkra og fátæka á Íslandi og hafnar 2. minni hluti henni því eindregið.

Óraunhæf áform um lækkun ríkisskulda.
    Ríkisskuldir og stefna stjórnvalda í þeim efnum skipa veigamikinn sess í þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021. Er það að vonum þar sem skuldastaða ríkisins er ávallt mikilvægur þáttur ríkisfjármála. Við fjármálahrunið haustið 2008 lentu miklar skuldir á ríkissjóði sem enn gætir í verulegum mæli og er því þessi þáttur ríkisfjármálanna fyrirferðarmeiri en ella væri og stefnumörkun í skuldamálum ríkisins mikilvæg að sama skapi.
    Í árslok 2012 jafngiltu skuldir ríkissjóðs um 87% af vergri landsframleiðslu og var það fyrsta árið eftir fjármálahrunið sem heildarskuldir ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu lækkuðu. Var það meðal vísbendinga um að vinstri stjórnin hafði náð tökum á ríkisfjármálunum og lagt þann grunn sem þau hafa síðan staðið á. Þetta hlutfall var um 67% í lok ársins 2015 og samkvæmt þingsályktunartillögunni er stefnt að því að þegar í lok ársins 2017 verði það um 30% eins og gert er ráð fyrir í fjármálareglu um skuldaviðmið fyrir ríkissjóð í 2. tölul. 7. gr. laga um opinber fjármál. Þess ber að geta að fyrri ríkisstjórn gerði áætlanir um jöfnuð í ríkisfjármálum tvisvar á starfstíma sínum. Þáverandi fjármálaráðherra lagði skýrsluna Áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013 fyrir Alþingi í júní 2009 og haustið 2011 kom ritið Ríkisbúskapurinn 2012–2015. Skýrsla um áætlun í ríkisfjármálum frá fjármálaráðuneytinu. Í fyrrgreindum ritum er lýst markmiðum um lækkun ríkisskulda miðað við stöðu efnahagsmála og horfur á ritunartíma þeirra og mörkuð sú meginstefna sem enn er fylgt.
    Lækkun ríkisskulda niður fyrir hið lögbundna hámarkshlutfall og efnahagslegur stöðugleiki eru kynnt sem leiðarhnoða stjórnvalda. Í samræmi við þetta áforma stjórnvöld að nýta svokölluð stöðugleikaframlög sem slitabú fallinna fjármálafyrirtækja greiddu í tengslum við uppgjör þeirra og fyrirheit um afléttingu gjaldeyrishafta.
    Skuldareglan í lögum um opinber fjármál er vissulega krefjandi og knýr stjórnvöld til þess að lækka opinberar skuldir verulega. Ekkert er við það að athuga að stefnt verði að lækkun ríkisskulda hér eftir sem hingað til, enda eru miklar skuldir íþyngjandi, en vakin skal athygli á því að áform um aðgerðir í þessa veru byggjast á ærið veikum forsendum og virðast á stundum ganga gegn settum markmiðum. Víða í hinum vestræna heimi eru hagfræðingar og stjórnmálamenn að hverfa frá slíkum viðmiðum og jafnframt hefur komið fram gagnrýni á þá niðurskurðarstefnu sem einkennt hefur ráðstafanir í opinberum fjármálum á Vesturlöndum og talin er geta dýpkað og lengt kreppur með þeim afleiðingum að ójöfnuður aukist og velferðarkerfið veikist.
    Samkvæmt áætlunum stjórnvalda um lækkun brúttóskulda ríkisins er gert ráð fyrir því að vaxtagreiðslur ríkisins verði um 20 milljörðum kr. lægri við lok áætlunartímabilsins en þær voru árið 2015. Á það fé sem þannig verður handbært að ganga til uppbyggingar á innviðum samfélagsins, til að lækka skatta og til að treysta grunnþjónustu ríkisins.
    Með tilliti til þess að talin er hætta á að eftirspurnarþensla verði til þess að hrinda af stað verðbólgu og skapa viðskiptahalla við útlönd vekja fyrirheit um lækkun skatta og annarra opinberra gjalda athygli og undrun enda eru slíkar ráðstafanir síst til þess fallnar að draga úr eftirspurnarþenslu. En þótt áætlun stjórnvalda virðist helst til laus í reipunum hvað þetta snertir, og andstæð þeim sjónarmiðum sem hafa ítrekað birst í skýrslum peningastefnunefndar þar sem varað er við skattalækkunum og þær taldar stríða gegn markmiðum um að lækka stýrivexti, ber þó enn meira á ágöllum hennar þegar litið er til hinna svonefndu stöðugleikaframlaga og ætluðum þætti þeirra í lækkun ríkisskulda.
    Ekki verður hjá því komist að rifja það upp í þessari umfjöllun að þegar áætlanir stjórnvalda um uppgjör slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja og afléttingu fjármagnshafta voru kynntar í júní 2015 var gert ráð fyrir 39% stöðugleikaskatti á heildareignir slitabúa fjármálafyrirtækjanna sem féllu haustið 2008 og gerðu áætlanir stjórnvalda ráð fyrir því að slíkur skattur gæti skilað allt að 850 milljörðum kr. í ríkissjóð. Voru í tengslum við þetta sett lög um stöðugleikaskatt, nr. 60/2015. Lyktir mála urðu hins vegar þær að gengið var til nauðasamninga um uppgjör slitabúanna. Það leiddi til þess að í stað skattsins greiddu slitabúin ríkissjóði stöðugleikaframlög og var heildarupphæð þeirra metin tæpir 379 milljarðar kr. við gerð nauðasamninganna. Eftir þessa gerninga á ríkissjóður allt hlutafé Íslandsbanka, 98,2% hlutafjár í Landsbankanum og 13% hlutafjár í Arion banka. Stærsti einstaki hluti stöðugleikaframlaganna fólst í hlutafé í Íslandsbanka sem verðmetið var á 184,7 milljarða kr. við uppgjörið. Mat á verðmæti hlutafjár í bönkunum sem gekk upp í greiðslu stöðugleikaframlags byggðist á bókfærðu virði eigin fjár þeirra árið 2015.
    Ekki hefur verið gert verðmat á eign ríkissjóðs í hlutafé í bönkunum né teknar ákvarðanir um sölu hlutafjár utan að samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2016 er ætlunin að selja 30% eignarhlut ríkisins í Landsbankanum og nota söluandvirðið til að greiða niður skuldabréfaflokkinn RIKH 18. Engu að síður hvíla áform um lækkun ríkisskulda mjög á sölu hlutafjár ríkisins í viðskiptabönkunum og verður að segjast að þar ríkir mikil óvissa um útkomuna. Verðmæti hlutafjár í evrópskum bönkum hefur farið mjög lækkandi á þessu ári og þótt það gefi ekki endilega fyrirheit um sambærilega þróun hér á landi blasir við að verðmat á þeim eigum ríkisins sem bundnar eru í hlutafé í viðskiptabönkunum er háð mikilli óvissu og getur af þeim sökum ekki orðið grundvöllur trúverðugrar áætlunar um lækkun ríkisskulda.
    Það er einnig gagnrýnivert að ekki er í áætlunum stjórnvalda brugðist við því hversu veikburða áform þeirra um lækkun ríkisskulda eru. Engin önnur leið er kynnt en sala hlutafjár í viðskiptabönkunum né lögð fram áætlun um viðbrögð við því ef þau áform ganga ekki eftir en á því eru einmitt allverulegar líkur og er raunar komið fram að ekki er áformað að selja hlut ríkisins í Landsbankanum á þessu ári.

Velferðarkerfið og fjármálaáætlun áranna 2017–2021.
    Hið almenna velferðarkerfi felur það í sér að hið opinbera tekur ábyrgð á framkvæmd tiltekinna grunnþátta varðandi velferð og öryggi allra einstaklinga í tilteknu samfélagi og aflar til þess fjár með skattheimtu. Almenna velferðarkerfið grundvallast á samtryggingu þannig að fjármunir færast milli tekjuhópa og viðfangsefna með það að markmiði að unnt verði að tryggja öllum heilbrigðisþjónustu, framfærslu, menntun, húsnæði og viðhlítandi löggæslu svo nefndir séu nokkrir mikilvægir þættir hins almenna velferðarkerfis sem hefur í senn að viðfangsefni að tryggja velferð í samtímanum og byggja hana upp til framtíðar.
    Þess er ítrekað getið í þingsályktunartillögunni um fjármálaáætlun að áætlanir stjórnvalda um þróun opinberra fjármála séu til þess fallnar að styrkja velferðarkerfið og bæta þjónustu þess við landsmenn. Þessar fullyrðingar eiga sér hins vegar enga stoð í þeim áformum sem lýst er.
    Því er haldið fram að unnt sé að gera hvort tveggja í senn, að bæta velferðarkerfið og lækka skatta. Þessar ráðagerðir grundvallast á því að verulegur árangur náist við lækkun ríkisskulda en eins og þegar hefur verið bent á eru áform um það lítt útfærð.
    Heilbrigðismál eru meðal stærstu og mikilvægustu þátta velferðarkerfisins og útgjöld til þeirra mikilvæg að sama skapi. Áætlun stjórnvalda gerir ráð fyrir því að á árabilinu 2017– 2021 aukist framlög ríkisins til heilbrigðismála um 30 milljarða kr. umfram launa- og verðlagsbreytingar. Í þeirri upphæð munu vera 45% þess útgjaldasvigrúms sem á að myndast í tengslum við afkomumarkmið þau sem sett eru í fjármálaáætluninni og áformað er að leyfi útgjöld upp á 42 milljarða kr. Gangi þessar áætlanir eftir er reiknað með að heildarútgjöld til heilbrigðismála aukist um 18% að raunvirði á tímabilinu.
    Ekki skal gert lítið úr þeim útgjaldaauka sem ætlaður er til heilbrigðismála á tímabilinu en þar sem áform um aukin útgjöld til málaflokksins eru mjög tengd afkomumarkmiðum sem byggjast á ströngu aðhaldi í fjárfestingum ríkisins og útgjöldum þess verður að telja líklegt að áætlanirnar séu hreint ekki til þess fallnar að styrkja velferðarkerfið í heild sinni. Þess er og að geta að greint er frá því í áætluninni að nákvæm útfærsla á því hvernig áætluðu útgjaldasvigrúmi skuli varið til einstakra málaflokka liggur ekki fyrir en boðað er að áform um það verði að finna í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017. Mat á fyrirætlunum stjórnvalda í þessum efnum hlýtur því að bíða enn um sinn uns þær skýrast.
    Þótt fjármálaáætlunin sé laus í reipunum og upplýsingagildi hennar rýrt hvað heilbrigðismál varðar kemur þó fram að áformað er að reisa þrjú ný hjúkrunarheimili á áætlunartímabilinu og er kostnaðarhlutdeild ríkisins metin á 4,7 milljarða kr. Þessi áform eru ekki útskýrð á neinn hátt utan að hjúkrunarheimilin þrjú muni verða á höfuðborgarsvæðinu. Spurningar hljóta að vakna um það á hvaða forsendum þessar áætlanir byggjast og enn fremur hlýtur að verða að svara því hvort þessi byggingaráform séu nægjanleg miðað við hækkandi hlutfall aldraðra af heildarfólksfjölda og þá miklu þörf sem þegar hefur skapast fyrir hjúkrunarrými fyrir aldraða og sýnt er að verði á komandi árum. Ekki er ljóst af áætlunum stjórnvalda hvort eða að hve miklu leyti uppbygging hjúkrunarrýma fyrir aldraða muni mæta þörfinni fyrir slíka þjónustu né hvernig ætlunin er að sinna þessum málaflokki fyrir landið í heild.
    Mennta- og menningarmál eru veigamikill þáttur velferðarkerfisins enda sá hluti þess sem byggir einstaklingana upp til framtíðar og stuðlar að félagslegum hreyfanleika. Í fjármálaáætlun áranna 2017–2021 er þess getið að helstu markmið stjórnvalda í menntamálum séu að styðja við gæðaþróun í háskóla- og rannsóknarstarfsemi og stuðla að bættri námsframvindu nemenda. Í því skyni hefur meðal annars verið lagt fram frumvarp til laga um námslán og námsstyrki en ekki kemur fram hvernig sú breyting á fyrirkomulagi námslána eigi að verða til þess að bæta námsframvindu né eru færð fyrir því rök að námsframvinda eða skortur á henni sé vandamál í skólakerfinu og tengsl þessa við gæðaþróun í háskóla- og rannsóknarstarfsemi eru með öllu óljós. Loks er ljóst að með boðuðum breytingum samkvæmt frumvarpinu er alvarlega vegið að jafnrétti til náms og félagslegir þættir fyrir borð bornir í mjög mörgum efnum.
    Fleiri kyndugar yfirlýsingar um aðgerðir eða áform í menntamálum og ætluð áhrif þeirra er að finna í fjármálaáætluninni. Því er t.d. haldið fram að stytting námstíma framhaldsskólastigsins úr fjórum vetrum í þrjá muni draga úr brottfalli nemenda á því skólastigi, en engin haldbær rök eða rannsóknir benda til að svo verði. Raunar benda fyrirliggjandi rannsóknir til þess að félagslegar aðstæður ráði meiru en lengd námstíma og ætti því að beina kröftunum að því að styrkja stoðþjónustu innan skólanna.
    Fjárhagsleg áform varðandi framhaldsskólastigið ganga út á það að framlög til þess vaxi um nálægt 3,2 milljarða kr. sem nemur um 12% að raungildi á árabilinu 2016–2021 og að auki falli til umtalsverður rekstrarsparnaður sökum styttingar námstíma. Gangi þessi áform eftir ætti fjárhagur framhaldsskólanna að vænkast verulega og er það vel enda hefur fjárhagsstaða þeirra verið bágborin undanfarin ár. Þar sem von er á verulegum umskiptum hvað þetta snertir, gangi áform stjórnvalda eftir, hefði þurft að leggja fram þó ekki væri nema grófa áætlun um árlega þróun breytinga á fjárhag framhaldsskólanna og notkun þeirra fjármuna sem ætlað er að bætist við rekstrarfé þeirra til þess að áformin virðist trúverðug. Þar sem það var ekki gert blasir við að stjórnvöld telja sig geta stundað tilraunastarfsemi með rekstur framhaldsskólanna, bæði hvað snertir starfsemi þeirra og fjárhag, og gert á þeim grundvallarbreytingar án þess að markmið með breytingunum eða leiðir til að ná þeim hafi verið skilgreind á viðhlítandi hátt. Stytting námstíma virðist fyrst og fremst þjóna sparnaðartilgangi í áætlunum stjórnvalda með því að nemendum og kennurum fækkar og því er full ástæða til að óttast um gæði skólastarfs í framhaldsskólunum.
    Vakin er athygli á því í þingsályktunartillögunni um fjármálaáætlun að gæðum kennslu á háskólastigi muni hafa hrakað nokkuð á undanförnum árum þar sem fjárveitingar til háskólanna hafa ekki fylgt fjölgun nema. Útgjaldaauki til mennta- og menningarmála beinist nær allur að byggingu Húss íslenskra fræða sem ætlunin er að rísi á áætlunartímabilinu. Boðað er að á áætlunartímabilinu verði lögð áhersla á að hækka fjárframlög á hvern nemanda en nemendum verður ekki fjölgað. Þetta hlýtur að teljast ansi ódýr leið til að fylgja eftir stefnumörkun Vísinda- og tækniráðs um að fjárframlög á hvern nemanda nái meðaltali OECD- landanna árið 2016 og Norðurlandanna árið 2020. En aðfarirnar benda til þess að stjórnvöld líti svo á að hámarksfjölda háskólanema hafi verið náð og hlutfall háskólanema af heildarfjölda í hverjum árgangi muni fara lækkandi í framtíðinni. Hefur rektor Háskóla Íslands lýst undrun sinni á þessari tilhögun og bent á að hún geti leitt til þess að nemum fækki í þúsundatali. Sætir það í sjálfu sér allmiklum tíðindum og hefði mátt fylgja þessari stefnumörkun eftir með greinargerð um þýðingu hennar fyrir möguleika fólks til að afla sér framhaldsmenntunar á komandi tímum auk einhvers konar stefnumörkunar að því er varðar menntunarstig þjóðarinnar í heild sem er full ástæða til að hafa áhyggjur af í höndum núverandi stjórnvalda. Slíkum áhyggjum er einmitt lýst í sameiginlegri yfirlýsingu rektora allra háskóla landsins þar sem segir: „Rektorar allra háskóla á Íslandi lýsa miklum vonbrigðum með að háskólar verði skildir eftir í þeirri sókn í íslensku samfélagi sem fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2017–2021 gerir ráð fyrir. Þar er gert ráð fyrir verulegri heildarútgjaldaaukningu sem endurspeglast ekki í fjárveitingum til háskóla- og rannsóknarstarfs.“ Áhyggjur rektoranna eru afar skiljanlegar í ljósi þess að samkvæmt opinberri stefnumörkun Vísinda- og tækniráðs ætti að auka framlög til háskóla- og vísindastarfsemi.
    Einnig er vikið að því í tillögunni að óbeinn stuðningur ríkisins við námsmenn í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna hafi aukist og verið um 47% af útlánum sjóðsins árið 2014. Tafla yfir heildarútgjöld til háskólastarfsemi og stuðning við námsmenn sýnir á hinn bóginn að gert er ráð fyrir nokkru lægri útgjöldum vegna stuðnings við námsmenn árið 2016 en næstu tvö ár á undan. Kemur það ekki heim og saman við fullyrðingar um síhækkandi stuðning. Stjórnvöld áforma breytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna og er auðsætt að vel þarf að gæta þess að það meginmarkmið sjóðsins að gefa Íslendingum fjárhagslegt færi á framhaldsnámi verði ekki fyrir borð borið. Frumvarp það um námslán og námsstyrki, sem mennta- og menningarmálaráðherra lagði nýverið fyrir Alþingi, gefur því miður ekki tilefni til bjartsýni um framtíðarhlutverk sjóðsins í höndum núverandi stjórnvalda.
    Húsnæðismál eru meðal mikilvægustu þátta velferðar enda þurfa allir þak yfir höfuðið. Útgjöld vegna húsnæðis – hvort sem er vegna kaupa eða leigu – eru jafnan meðal þeirra stærstu sem einstaklingar og fjölskyldur takast á við og svigrúm til útgjaldalækkunar eða hagræðingar getur reynst takmarkað. Stjórnvöld hafa að sínu leyti viðurkennt húsnæðismálin sem mikilvægan þátt velferðarkerfisins og hafa af þeim ýmis afskipti í þeim anda. Þverpólitísk vinna á vettvangi Alþingis vorið 2016 skilaði umtalsverðum breytingum og úrbótum á frumvörpum húsnæðismálaráðherra sem urðu að lögum í júní. En enda þótt það húsnæðiskerfi sem lögð voru drög að vorið 2016 reynist eins vel og björtustu vonir standa til er ljóst að þess er nokkuð að bíða að áhrifa þess taki að gæta að marki og því fyrirsjáanlegt að þúsundir einstaklinga muni búa við húsnæðisvanda á næstu árum.
    Sem kunnugt er hefur húsnæðisstefna stjórnvalda einkum miðað að því undanfarna áratugi að styðja við séreignarstefnu sem felst í eignarhaldi íbúa á því íbúðarhúsnæði sem þeir búa í. Boðað er að þeirri stefnu verði fylgt framvegis. Eins og fram kemur í fjármálaáætluninni felst meginstuðningur ríkisins við íbúðareigendur í vaxtabótum sem fela í sér að byrðar lánagreiðenda vegna fjármagnskostnaðar eru lækkaðar með opinberri niðurgreiðslu á vöxtum. Vaxtabætur eru bæði tekju- og eignatengdar og ráðast af hjúskaparstöðu. Tekju- og eignatenging hefur orðið til þess að heildarupphæð vaxtabóta lækkaði verulega á milli álagningar opinberra gjalda fyrir árin 2014 og 2015 eða um 25,7% og fjölskyldum sem njóta vaxtabóta fækkaði um 21,3% á sama tíma. Er því ljóst að meginstuðningur ríkisins við íbúðareigendur er mun minni að vöxtum nú og fellur færri í skaut en á fyrri árum.
    Einnig kemur fram í fjármálaáætluninni að ætlunin sé að endurskoða vaxtabótakerfið með það að markmiði að beina virkni þess í ríkari mæli að lágtekjufólki og er svo að skilja að þar verði fylgt ráðum sem gefin eru í úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Optimal Reform and Distributional Analysis of the Personal Income Tax, sem kom út í október árið 2015. Ætla má að umtalsverðar breytingar á meginstuðningi ríkisins við íbúðareigendur séu fram undan en þar sem ekkert hefur enn komið fram um áform stjórnvalda sem skýrir eðli þeirra eða umfang eru engin tök á að fjalla um þau hér og nú.
    Á 145. löggjafarþingi voru samþykkt lög nr. 52/2016, um almennar íbúðir, sem fela í sér nýskipan félagslega íbúðakerfisins. Lögin heimila stofnun og starfsemi almennra íbúðafélaga sem starfrækt verða sem sjálfseignarstofnanir með það að markmiði að kaupa og reka íbúðarhúsnæði. Munu félögin njóta stofnframlags ríkis og sveitarfélaga og verða þau ekki starfrækt í hagnaðarskyni. Óskandi er að þessi tilhögun verði að þeim notum sem ætlað er en um það verður ekki dæmt þar sem engin reynsla er komin á starfsemi almennu íbúðafélaganna.
    Ríkið hefur starfrækt sérstaka fjármálastofnun, Íbúðalánasjóð, til að annast lánveitingar vegna húsnæðiskaupa. Á síðustu árum hefur sjóðurinn ratað í vandræði og hlotið framlög úr ríkissjóði sem nema yfir 50 milljörðum kr. samanlagt. Fram kemur í fjármálaáætluninni að rekstur sjóðsins sé ekki talinn í jafnvægi til lengri tíma litið og því álitið vænlegast að leggja starfsemina niður. Verði það gert eru taldar líkur á að fjárhagstap gæti fallið á ríkissjóð en ekki er reynt að meta hversu mikið það gæti orðið né er gerð grein fyrir ráðstöfunum sem grípa þyrfti til varðandi þau verkefni sem Íbúðalánasjóður hefur sinnt, t.d. þau sem lúta að jöfnun búsetutækifæra og lánveitingum til félagslegra verkefna í húsnæðismálum.
    Þau áform um útgjöld ríkisins vegna húsnæðisstuðnings sem lýst er í fjármálaáætluninni fela í sér lækkun heildargreiðslna til þessa málefnasviðs um 3,7% á milli áranna 2017 og 2021 og bera vott um þá viðleitni sem víða er að finna í tillögunni að draga úr hlutdeild hins opinbera með það að markmiði að rýma til fyrir markaðsöflunum og þessar ráðagerðir vita sannarlega ekki á gott fyrir hina tekjulágu í samfélaginu.
    Fæðingarorlof og barnabætur eru meðal þeirra félagslegu ráðstafana sem miklu skipta fyrir ungar fjölskyldur og velferð barna og ungmenna. Það er hafið yfir allan vafa að tilhögun fæðingarorlofsgreiðslna hefur skipt miklu fyrir framþróun kynjajafnréttis og orðið til þess að feður taka ríkari þátt í umönnun ungbarna en áður. Málaflokkurinn er því einkar mikilvægur þáttur velferðarkerfisins og aðgerðir stjórnvalda á þessum vettvangi lýsandi fyrir stefnu þeirra og áherslur í velferðar- og jafnréttismálum.
    Fæðingarorlofssjóður er fjármagnaður með tryggingagjaldi, sbr. lög um tryggingagjald, nr. 113/1990, með síðari breytingum. Tryggingagjald var lækkað um 0,5%, úr 7,35% í 6,85% hinn 1. júlí 2016 í tengslum við kjarasamninga sem gerðir voru snemma árs 2016 og er frekari lækkun tryggingagjaldsins áformuð á næstu árum. Stjórnvöld áforma að auka hlutdeild Fæðingarorlofssjóðs í tryggingagjaldi þannig að ráðstöfunarfé sjóðsins aukist í samræmi við þann útgjaldaauka sem fyrirsjáanlegur er að verði við það að greiðslur úr sjóðnum verði með svipuðum hætti og þær voru árið 2009 en því markmiði er lýst yfir í þingsályktunartillögunni um fjármálaáætlun. Má af þessu ráða að miklar breytingar séu í vændum varðandi tryggingagjald og ráðstöfun þess og líklegt, með tilliti til þess hvers eðlis þær breytingar eru, að útgjöld ríkissjóðs vegna fæðingarorlofs séu verulega vanmetin.
    Hámarksmánaðargreiðsla fæðingarorlofs árið 2008, áður en skerðingar vegna fjármálahrunsins komu til, voru 535.700 kr. sem jafngildir um 761.000 kr. á núverandi verðlagi og þangað er stefnt samkvæmt yfirlýsingum stjórnvalda. Lækkun hámarksgreiðslna hefur orðið til þess að feður taka síður fæðingarorlof nú en á fyrri árum þegar greiðslur voru hærri. Því skal ekki dregið úr mikilvægi þess að hækka greiðslurnar en þar sem fæðingarorlof er til muna skemmra hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum ætti vitaskuld að vera markmið að lengja það til jafns við það sem þar gerist ef ætlunin væri að starfrækja hér norrænt velferðarkerfi. Slíkt markmið er ekki að finna í ríkisfjármálaáætluninni. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur ítrekað lagt fram þingmál um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla enda verður ekki við annað unað en að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, komi að boðlegum úrræðum fyrir barnafjölskyldur á því viðkvæma æviskeiði sem fellur milli kerfa í núverandi stöðu.
    Barnabætur – fjárhæð sem greidd er vegna barna á framfæri framteljenda til skatts – eru afar mikilvægar fyrir framfærslu ungra fjölskyldna og til að tryggja að engin börn verði með öllu afskipt hvað efnaleg gæði varðar og fela einnig í sér viðurkenningu á því að ætla þurfi nokkurt fé til framfærslu barna og ungmenna. Barnabætur fela þannig í sér vörn gegn fátækt og eru meðal öflugustu tækja félagskerfisins til að stuðla að jöfnuði og tryggja börnum lágmarksafkomu þar sem þessar greiðslur verða oft til að lyfta barnafjölskyldum upp fyrir fátæktarmörk. Upphæð barnabóta hér á landi ræðst af tekjum foreldra, hjúskaparstöðu og barnafjölda en annars staðar á Norðurlöndum er algengast að hverju barni sé ætluð ákveðin upphæð án tillits til tekna framfærenda.
    Tvær yfirlýsingar í þingsályktunartillögunni um fjármálaáætlun marka stefnu stjórnvalda varðandi barnabætur á árabilinu 2017–2021. Önnur felur í sér fyrirheit um endurskoðun barnabótakerfisins og einföldun þess í samræmi við tillögur í áðurnefndri greinargerð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um tekjuskattlagningu einstaklinga en hin er yfirlýsing um að framlög ríkisins vegna barnabóta verði óbreytt að raunvirði á áætlunartímanum. Gangi þessi áform eftir er sýnilega að vænta mikilla breytinga á greiðslu barnabóta og kjörum barnafjölskyldna þar með.
    Því er haldið fram í tillögunni að stjórnvöld hafi lagt áherslu á það á undanförnum árum að standa vörð um barnabætur og bæta kjör tekjulágra barnafjölskyldna. Við álagningu opinberra gjalda árið 2016 lækkuðu þó heildargreiðslur vegna barnabóta og þeim fjölskyldum sem öðlast barnabætur fækkaði um 7,4% frá fyrra ári. Þetta bendir ekki til annars en að þáttur barnabóta í fjárhag barnafjölskyldna fari minnkandi þegar á heildina er litið. Stjórnvöld hafa ekki gert grein fyrir hugmyndum sínum um tilhögun barnabóta í framtíðinni heldur aðeins vísað til skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um hugmyndir. Umfjöllun um nýja tilhögun barnabóta verður að sjálfsögðu að bíða þess að stjórnvöld sýni og skýri fyrirætlanir sínar í þessum efnum en umfjöllunin í tillögu að fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 og þróun mála upp á síðkastið gefur sterklega til kynna að þessi mikilvægi þáttur velferðarkerfisins geti verið í hættu í meðförum núverandi stjórnvalda.
    Hér verður að síðustu vikið að málefnasviðinu almanna- og réttaröryggi enda er löggæsla og vernd borgaranna gegn ofbeldi og annarri lögleysu meðal mikilvægustu velferðarmála. Þetta á ekki síst við um almenna löggæslu.
    Síðustu ár hefur þróun almennrar löggæslu einkennst af samdrætti og fækkun starfandi lögreglumanna úr 712 árið 2007 í 640 árið 2015 eða sem nemur um 10%. Hnignun almennu löggæslunnar er tilfinnanleg og augljós og viðbótarfjárveitingar á árunum 2014 og 2015 megnuðu aðeins að lagfæra ástandið lítillega. Nauðsynlegt er að fjölga í starfsliði almennu lögreglunnar um allt land til þess að öryggi almennings og lögreglumanna sjálfra verði vel borgið. Ekki síst þarf þar að huga að fræðslu og símenntun lögreglu, saksóknara og dómara á sviði kynbundins ofbeldis hvers konar en ábendingar hafa borist, m.a. frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna, um að aukinna aðgerða sé þörf gegn kynbundu ofbeldi og mansali.
    Í fjárlögum fyrir árið 2016 eru 21.496 millj. kr. ætlaðar til almanna- og réttaröryggis. Þar af er áformað að verja 12.474 millj. kr. eða um 58% til löggæslumála. Þetta er a.m.k. 10% of lítið. Áætlanir stjórnvalda ganga út á hækkun framlags til almanna- og réttaröryggis úr 21.914 millj. kr. árið 2017 í 26.220 millj. kr. árið 2021. Nemur sú hækkun 19,6% og er mikilvægt að sem stærstur hluti hennar renni til almennu löggæslunnar.

Fjárfesting hins opinbera.
    Eins og vænta mátti hafði fjármálahrunið haustið 2008 óheillavænleg áhrif á opinbera fjárfestingu sem hefur verið á bilinu 2,5–3,0% af vergri landsframleiðslu frá 2009 en gjarnan er litið svo á að þetta hlutfall megi ekki vera lægra en 4,0% til að hafa við afskriftum og tryggja eðlilega uppbyggingu innviða samfélagsins.
    Því miður gefur ríkisfjármálaáætlunin ekki fyrirheit um þann vöxt sem augljóslega þarf að verða á opinberri fjárfestingu eftir langt stöðnunar- og hnignunarskeið heldur einmitt hið gagnstæða. Gert er ráð fyrir því að árleg fjárfesting A-hluta ríkissjóðs verði um 1,3% af vergri landsframleiðslu á fyrri hluta áætlunartímabilsins og hækki aðeins í 1,5% á síðari hluta þess. Búist er við því að fjárfesting A-hluta sveitarfélaganna verði tæp 1% af vergri landsframleiðslu á tímabilinu.
    Í fréttabréfi Sambands íslenskra sveitarfélaga, 3. tbl. 2016, sem fjallar um fjárhagsáætlanir sveitarfélaganna árabilið 2016–2019 er bent á að hið lága fjárfestingastig sveitarfélaganna geti leitt til vandkvæða. Ástæðan er að fjárfestingastigið er of lágt til að hafa við þörfinni og munu afleiðingarnar birtast landsmönnum í feysknum innviðum nærsamfélagsins. Ljóst er að stjórnvöld hafa knúið fram stranga aðhaldsstefnu í fjárfestingum sveitarfélaganna í því skyni að halda aftur af þenslu í hagkerfinu en á sama tíma er stuðlað að aukinni einkaneyslu með skattkerfisbreytingum. Eins og gefur að skilja kemur þessi hagstjórnaraðferð illa við innviði sveitarfélaganna og þar með sameiginlega hagsmuni landsmanna. Af þeim sökum mótmælir 2. minni hluti henni sem skaðvaldi í félagslegu tilliti.
    Þess er og að minnast, þegar fjallað er um fjárhag sveitarfélaganna og ófullnægjandi fjárfestingaráform þeirra, að sveitarfélögin voru skylduð til að gefa eftir tekjur vegna séreignarsparnaðar sem efnt var til í tengslum við niðurfellingu verðtryggðra fasteignaveðlána – leiðréttingarinnar svonefndu. Hefur þessi tekjumissir að sjálfsögðu veikt fjárhagsgrunn sveitarfélaganna bæði í bráð og lengd og er meðal dæma um tilfærslu fjármuna frá samneyslu til einkaneyslu á yfirstandandi kjörtímabili. Nýlega fram komið frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð felur það í sér að skattaafsláttur vegna séreignarsparnaðar verður framlengdur. Horfur eru því á enn frekari tekjumissi sveitarfélaganna af þessum sökum. Þörf er á ráðstöfunum til að bæta sveitarfélögunum tekjutapið eigi þau að geta rækt hlutverk sitt og skyldur.
    Áform um opinbera fjárfestingu í innviðum eru rýr og langt frá því nægjanleg. Hlýtur þetta óhjákvæmilega að koma víða niður á samfélaginu. Látið skal við það sitja að benda á samgöngumál og ferðaþjónustu sem dæmi um úrræðaleysi og vandræðagang stjórnvalda. Eins og kunnugt er hefur ferðamönnum fjölgað mjög hérlendis á síðustu árum og reynir þetta mjög á tiltekna innviði sem ekki eru undir það búnir að taka við öllu því fólki sem vill heimsækja landið. Þetta er kallað vaxtarverkir í áætlunum stjórnvalda og eru álitnir geta verið háskalegir en ekkert bólar þó á raunhæfum áætlunum til að bregðast við ástandinu. Isavia, rekstraraðili flugvalla og flugleiðsögu, hefur gert viðamiklar áætlanir um uppbyggingu samgöngumannvirkja á Keflavíkurflugvelli í því skyni að bregðast við aukinni umferð um völlinn og þar standa yfir miklar framkvæmdir nú þegar. Með sama hætti hefði þurft að bregðast við þörf fyrir endurnýjun og uppbyggingu samgöngumannvirkja á landsbyggðinni, enda vitað mál að ferðafólkið staðnæmist ekki á Keflavíkurflugvelli heldur leggur leið sína um landið. Uppbygging samgangna á landsbyggðinni er hins vegar látin mæta afgangi í áætlun stjórnvalda og átelur 2. minni hluti það harðlega enda lýsir þessi vanræksla skeytingarleysi um hag samfélagsins sem mun hafa miklu víðtækari og alvarlegri afleiðingar en þeir vaxtarverkir sem fjallað er um í fjármálaáætlun stjórnvalda. Framlög til Vegagerðarinnar, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, eru langtum lægri nú en meðaltal fyrri ára og einungis er áformuð lítilvæg hækkun fram til ársins 2018. Hér er í raun verið að boða viðvarandi vanrækslu þessara mikilvægu innviða um langt árabil sem hlýtur að vera öllum landsmönnum, en ekki síst landsbyggðarfólki, ærið áhyggjuefni.

Undanhald í umhverfis- og loftslagsmálum.
    Í fjárlögum fyrir árið 2016 eru 14.075 millj. kr. ætlaðar til umhverfismála og skiptist heildarupphæðin þannig að 22,3% renna til náttúruverndar, skógræktar og landgræðslu, 22,4% til rannsókna og vöktunar á náttúru Íslands, 24,0% fara í meðhöndlun úrgangs, 9,0% í varnir gegn náttúruvá og 22,3% ganga til stjórnsýslu umhverfismála.
    Árið 2017 eru ætlaðar 14.514 millj. kr. í umhverfismál en 15.086 millj. kr. árið 2021. Breytingin milli áranna 2017 og 2021 nemur aðeins 1,2% og er það furðanlega lítil hækkun með tilliti til þess hversu mikilvægur málaflokkurinn er og enn fremur þess að áætlaður vöxtur vergrar landsframleiðslu á tímabilinu er um 14,5%. Stjórnvöld hafa því sýnilega engin áform um að sinna umhverfismálum af myndugleik og í samræmi við auknar skuldbindingar sem alþjóðlegar ráðstafanir í umhverfis- og loftslagsmálum hafa leitt af sér. Minnt er á sóknaráætlun í loftslagsmálum sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið annast og gildir til ársins 2018. Áætlunin gegnir m.a. hlutverki við að rækja alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum sem samþykktar voru á 21. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í lok ársins 2015 en hið alþjóðlega samkomulag sem þar tókst um að hemja og stöðva þær athafnir manna sem stuðla að hlýnun loftslags á jörðinni tekur gildi árið 2020. Telja má fullvíst að þá verði þörf aukins atbeina hins opinbera í loftslagsmálum en ekki er neinar upplýsingar að hafa í ríkisfjármálaáætluninni um áform stjórnvalda í þessum efnum. Áætlanir um heildarfjárveitingu til málaflokksins lýsa samdrætti og ljóst er að auknum alþjóðlegum skuldbindingum í loftslagsmálum verður ekki sinnt með viðunandi hætti nema það verði á kostnað annarra þátta sem síst mega við því. Almennt er það áhyggjuefni að umræða um loftslagsmál virðist algjörlega einangruð við umhverfismálaflokkinn þegar áform um samdrátt í losun gróðurhúsaloftteganda ættu að sjást í mun fleiri köflum fjármálaáætlunarinnar. Þannig væri um að ræða leiðarstef í samgöngumálum og atvinnumálum auk þess sem fjalla þyrfti með afgerandi hætti um græna skatta og grænkun hagkerfisins í öllum greinum.
    Áform um útgjöld til orku- og eldsneytismála og reifun á þeim ber það enn fremur með sér að áætlanir stjórnvalda á þessu sviði eru veigalitlar. Útgjaldaauki til orku- og eldsneytismála er aðeins ætlaður 4,0% milli áranna 2017 og 2021 eða um 10% undir áætluðum vexti vergrar landsframleiðslu á þessu árabili. Samkvæmt því sem fram kemur í fjármálaáætluninni er stefnt að því að nýta sem fyrst olíu og gas sem kynni að finnast í efnahagslögsögu Íslands. Ekki er greint frá því hvernig sú nýting ætti að falla að markmiðum um samdrátt í útblæstri koltvísýrings eða öðrum markmiðum í umhverfis- og loftslagsmálum en ljóst er að fjármunum verður varið í þessu skyni. Bent skal á að heillavænlegra væri að nýta það fé til að minnka notkun jarðefnaeldsneytis hér á landi og stuðla að enn frekari notkun endurnýjanlegra orkugjafa, t.d. með því að þeir verði nýttir í almenningssamgöngum.

Hægra megin við velferðarsamfélagið.
    Því er haldið fram í þingsályktunartillögunni um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 að stefnan sem þar er útlistuð sé velferðarstefna en raunin er allt önnur. Tillagan felur einmitt ekki í sér stuðning við helstu þætti velferðarkerfisins. Erindi hennar er hið gagnstæða: að draga úr jöfnuði, að hamla uppbyggingu innviða, að sneiða af félagslega kerfinu. Slík stefna er ekki velferðarstefna heldur er hér komin dæmigerð og vel þekkt hægri stefna sem snýst ekki um velferð almennings eða samtryggingu heldur fer fram hjá henni inn á vaxtarsvæði sérhyglinnar þar sem hver er sjálfum sér næstur.
    Bent hefur verið á mörg dæmi um það hér að framan í umfjöllun um einstaka þætti tillögunnar hversu fjarri hún er velferðarstefnu og er sú umfjöllun þó alls ekki tæmandi. Hið augljósa blasir við: stefnt er í átt frá velferðarkerfinu í stað þess að styrkja það og heildarhagsmunum samfélagsins er stefnt í tvísýnu með áformum um vanrækslu á viðhaldi og uppbyggingu innviða. Stefna í loftslagsmálum og umhverfismálum virðist afar laus í reipunum og metnaðarlaus og fjarri því að vera í samræmi við mikilvægi þessara málaflokka eða þær skuldbindingar sem gerðar hafa verið í umhverfis- og loftslagsmálum. Af þessum sökum fellst 2. minni hluti ekki á þingsályktunartillögur um fjármálaáætlun og fjármálastefnu fyrir árin 2017–2021.

Alþingi, 17. ágúst 2016.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.