Ferill 858. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.Þingskjal 1625  —  858. mál.Tillaga til þingsályktunar

um fullgildingu Parísarsamningsins.

(Lögð fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)
    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd Parísarsamning Sameinuðu þjóðanna sem gerður var í París 12. desember 2015.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað eftir heimild Alþingis til að fullgilda Parísarsamning Sameinuðu þjóðanna sem samþykktur var í París 12. desember 2015. Umhverfis- og auðlindaráðherra skrifaði undir samninginn fyrir Íslands hönd á formlegri undirskriftarathöfn í Sameinuðu þjóðunum í New York 22. apríl 2016. Samningurinn er birtur sem fylgiskjal með þingsályktunartillögu þessari (sbr. fskj. I og II). Fullgilding samningsins kallar ekki á lagabreytingar á Íslandi.
    Viðurkennt er að loftslagsbreytingar ógna mönnum, samfélögum og jörðinni allri. Loftslagsbreytingar eru sameiginlegt viðfangsefni alls mannkyns og af þeim sökum er mikilvægt að ríki heims sameinist og vinni saman að lausn vandans.
    Þing aðila að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna) samþykkti í París í desember 2015 sögulegan samning um samvinnu í baráttunni við loftslagsbreytingar. Samningurinn myndar ramma utan um skuldbindingar sem ríkin hafa sjálfviljug sett fram, svokölluð landsákvörðuð framlög, með það að markmiði að halda hækkun hitastigs jarðar vel undir 2°C miðað við meðalhitastig jarðar fyrir iðnvæðingu, en að leitað skuli jafnframt leiða til þess að halda hækkun hitastigs undir 1,5°C miðað við hitastig jarðar fyrir iðnvæðingu.

1. Innleiðing og bakgrunnur.
    Þegar Parísarsamningurinn tekur gildi verður hann lagalega bindandi samningur undir loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna tók gildi árið 1994 og fjallar um loftslagsbreytingar af manna völdum. Alls hafa 197 ríki fullgilt loftslagssamninginn sem þýðir að nær öll ríki heims eru aðilar að honum. Markmið loftslagssamningsins er að halda styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu innan þeirra marka að komið verði í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu af manna völdum. Þegar samningurinn öðlaðist gildi árið 1994 voru færri vísindalegar sannanir fyrir raunverulegum áhrifum af loftslagsbreytingum. Aðildarríki samningsins eru bundin af því að bregðast við með hagsmuni öryggis mannkyns að leiðarljósi. Loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna gerir ráð fyrir að þróuð ríki, eða svokölluð ríki í viðauka I, séu í fararbroddi þar sem þau séu ábyrg fyrir mestri losun gróðurhúsalofttegunda hingað til.
    Þróuð ríki hafa á grundvelli loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna samþykkt að styrkja aðgerðir gegn loftslagsbreytingum í þróunarríkjum með því að styðja við þau fjárhagslega. Þróuð ríki skulu einnig deila tækni með minna þróuðum ríkjum.
    Samkvæmt loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna þurfa þróuð ríki að upplýsa reglulega um stefnu og aðgerðir í loftslagsmálum sem og málefni sem snerta Kýótó-bókunina við samninginn. Þau þurfa að skila inn árlegri skýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda sem og upplýsingum um losun á grunnárinu 1990 og á öllum árum eftir það.
    Kýótó-bókunin var samþykkt árið 1997 í Kýótó í Japan. Hún skuldbindur þróuð ríki, sem talin eru upp í viðauka I, til þess að setja lagalega bindandi mörk fyrir losun gróðurhúsalofttegunda. Meginákvæði bókunarinnar er að finna í 3. gr. hennar þar sem framangreindum ríkjum er gert að takmarka sameiginlega og hverju um sig útstreymi sex gróðurhúsalofttegunda, þannig að samanlagt árlegt útstreymi þeirra á fyrsta skuldbindingartímabilinu 2008–2012 yrði að meðaltali 5,2% minna en viðmiðunarárið 1990. Þessu markmiði skyldu þau ná með því að takmarka útstreymi gróðurhúsalofttegunda og með því að binda kolefni með ræktun. Jafnframt var þróuðum ríkjum gert að færa bókhald um útstreymi gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis og greina frá aðgerðum til framkvæmdar bókunarinnar og útstreymisbókhaldi í árlegum skýrslum til skrifstofu samningsins. Kýótó-bókunin tók gildi 16. febrúar 2005. Í dag eru 192 aðilar að henni.
    Doha-breytingin á Kýótó-bókuninni, sem tekur til annars skuldbindingartímabils bókunarinnar (2013–2020), var samþykkt á aðildarríkjaþingi í Doha í Katar í desember 2012. Eins og er hafa 65 ríki skrifað undir breytinguna, en hún hefur ekki tekið gildi enn. Ísland fullgilti Doha-breytinguna 7. október 2015.
    Kýótó-bókuninni er ekki settur gildistími en annað skuldbindingartímabil hennar rennur út árið 2020. Óvíst er hverju hlutverki bókunin mun gegna eftir 2020, en ljóst þykir að Parísarsamningurinn og ákvæði hans munu að mestu leyti taka yfir hlutverk hennar.
    Á þingi aðildarríkja sem haldið var í Durban árið 2011 var settur á fót vinnuhópur um Durban-stefnuskrána fyrir efldar aðgerðir (e. Durban Platform for Enhanced Action) sem hafði það hlutverk að vinna að bókun eða annars konar lagalega bindandi verkfæri eða samkomulagi undir loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og leggja niðurstöðu sína fyrir 21. aðildarríkjaþing loftslagssamningsins í París.

2. Parísarsamningurinn – meginefni.
    Parísarsamningurinn tekur gildi 30 dögum eftir að a.m.k. 55 aðilar sem eru ábyrgir fyrir a.m.k. 55% af útblæstri í heiminum hafa fullgilt samninginn. Þessi tvö skilyrði þurfa að vera uppfyllt svo að samningurinn öðlist gildi á heimsvísu.
    Parísarsamningurinn myndar ramma utan um skuldbindingar ríkjanna sem nefnast „landsákvörðuð framlög“. Ríkin tilkynna reglulega landsákvörðuð framlög sín til skrifstofu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna sem innihalda markmið ríkja um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda og upplýsingar um fleiri aðgerðir í loftslagsmálum, ýmist til fimm eða tíu ára. Áætluð landsákvörðuð framlög, sem flest ríki tilkynntu fyrir Parísarfundinn, verða að staðfestum framlögum þegar samningurinn hefur öðlast gildi. Aðgerðir ríkja til þess að ná framlögunum eru ekki hluti af samningnum og eru útfærð í framhaldinu. Frá og með árinu 2020 skulu landsákvörðuð framlög uppfærð á fimm ára fresti og endurspegla metnaðarfyllstu viðleitni ríkja. Ætlast er til að þróuð ríki hafi forystu varðandi loftslagsfjármögnun og aðstoði þróunarríki með margvíslegum hætti
    Í 2. gr. samningsins kemur fram það markmið að halda hækkun hitastigs jarðar vel undir 2°C miðað við meðalhitastig jarðar fyrir iðnvæðingu, en að leitað skuli jafnframt leiða til þess að halda hækkun hitastigs undir 1,5°C miðað við hitastig jarðar fyrir iðnvæðingu.
    Í 2. mgr. 2. gr. segir að samningurinn verði framkvæmdur á þann hátt að það endurspegli sanngirni og meginregluna um sameiginlegar en ólíkar skyldur og hæfni í ljósi ólíkra landsaðstæðna.
    Í samningnum er í 4. gr. kveðið á um að hámarki losunar gróðurhúsalofttegunda skuli náð sem fyrst þannig að markmið skv. 2. gr. náist. Jafnframt að hvert ríki setji fram landsákvarðað framlag sem muni framvegis endurspegla metnaðarfyllstu viðleitni ríkisins.
    Í 4. gr. segir að þróuð ríki skuli halda áfram að leiða það verkefni að draga úr losun í öllu hagkerfinu. Þróunarríki eiga á sama tíma að halda áfram að reyna að draga úr losun og eru hvött til þess með tímanum að taka upp markmið sem ná yfir allt hagkerfið í ljósi ólíkra landsaðstæðna. Þróunarríki skulu fá stuðning frá þróuðu ríkjunum við framkvæmd samningsins. Ríki skuli upplýsa um landsákvarðað framlag sitt á fimm ára fresti. Ríki mega auk þess hvenær sem er herða skuldbindingar sínar eða tilkynna metnaðarfyllri áform. Ríkin eiga enn fremur að gera grein fyrir landsákvörðuðum framlögum sínum. Ríkjunum er heimilt að uppfylla skuldbindingar sínar sameiginlega en hver aðili að slíku samkomulagi skal vera ábyrgur fyrir sínum hlut. Parísarsamningurinn kveður ekki á um kröfur sem einstök ríki taka á sig.
    Hvert ríki skal gefa reglulega upplýsingar um bókhald um losun gróðurhúsalofttegunda og upptöku kolefnis úr andrúmslofti, auk upplýsinga um árangur í tengslum við landsákvarðað framlag. Á fundum aðildarríkja skal gera reglulega alhliða úttekt á framkvæmd Parísarsamningsins, svonefnda „hnattræna athugun á stöðu“.
    Hér á eftir er fjallað stuttlega um efni í nokkrum einstökum greinum samningsins, sem eru mikilvæg varðandi markmið hans og framkvæmd, og ekki er fjallað um hér að framan:

Viðtakar og forði (5. gr.).
    Í Parísarsamningnum eru aðilar hvattir til að varðveita og efla viðtaka og forða fyrir gróðurhúsalofttegundir, þ.m.t. skóga. Bent er á gagnsemi hvatakerfa til að draga úr skógareyðingu og auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti, sem hafi einnig annan ávinning í för með sér.

Aðgerðir á markaði og utan markaðar (6. gr.).
    Í þessari grein er fjallað um aðgerðir sem aðilar geta unnið í samvinnu sín á milli, en þar er m.a. átt við aðgerðir sem líkjast svokölluðum sveigjanleikaákvörðunum Kýótó- bókunarinnar, þar sem heimilað er að eiga viðskipti milli ríkja með losunarheimildir eða telja sér til tekna að styðja loftslagsvæn verkefni í öðrum ríkjum. Rík áhersla er lögð á að tryggja traust bókhald varðandi slíkar aðgerðir til að forðast að ávinningur af þeim sé tvítalinn. Einnig er settur upp rammi fyrir samvinnu ríkja um aðgerðir í loftslagsmálum sem ekki byggjast á markaði eða viðskiptum með losunarheimildir.

Aðlögun (7. gr.).
    Parísarsamningurinn kemur á hnattrænu markmiði til að auka aðlögunargetu, styrkja viðnám og draga úr varnarleysi gagnvart loftslagsbreytingum með stuðningi og alþjóðlegri samvinnu. Það er einnig viðurkennt að aðlögun er hnattræn áskorun sem allir jarðarbúar standa frammi fyrir. Allir aðilar eiga að skila inn og uppfæra reglulega aðlögunartilkynningu, forgangsröðun, framkvæmda- og stuðningsþarfir, áætlanir og aðgerðir. Þróunarríki fá aukinn stuðning vegna aðlögunaraðgerða.

Tjón og skaði (8. gr.).
    Í Parísarsamningnum er aukið verulega við alþjóðlega Varsjárkerfið fyrir tjón og skaða sem verður notað til að þróa aðferðir til að aðstoða viðkvæm ríki að fóta sig vegna afleiðinga af loftslagsbreytingum, einnig vegna ofsaveðurs og atburða sem gerast hægt eins og hækkun yfirborðs sjávar. Í samningnum er að finna ramma fyrir aðila til að auka skilning, aðgerðir og stuðning með tilliti til tjóns og skaða.

Stuðningur (9., 10. og 11. gr.).
    Parísarsamningurinn staðfestir enn frekar skyldur þróaðra ríkja til að styðja viðleitni þróunarríkja til að byggja upp hreina, loftslagsþolna framtíð. Þróunarríki eru einnig í fyrsta skipti hvött til frjálsra framlaga. Aukinn fjárstuðningur ætti að miða að því að styrkja aðlögun og að draga úr losun og tryggja þarf jafnvægi þarna á milli. Þróuð ríki skulu, auk þess að gefa skýrslu um þá fjárstyrki sem veittir hafa verið, skuldbinda sig til þess að gefa upplýsingar á tveggja ára fresti sem gefa til kynna væntanlega styrki, þ.m.t. áætlaða upphæð opinberra fjárstyrkja. Parísarsamningurinn gerir ráð fyrir að fjármagnskerfi loftslagssamningsins, þ.m.t. Græni loftslagssjóðurinn, þjóni einnig Parísarsamningnum. Alþjóðleg samvinna um þróun öruggrar loftslagstækni, miðlun tækni og uppbygging getu í þróunarríkjum er einnig styrkt. Tæknirammi er settur á fót og aðgerðir til að efla getu til að bregðast við loftslagsbreytingum verða styrktar, m.a. með auknum stuðningi til aðgerða í þróunarríkjum og með viðeigandi stofnanaúrræðum.

Gagnsæi (13. gr.).
    Í Parísarsamningnum er gengið út frá traustu gagnsæis- og bókhaldskerfi sem á að leiða til skýrra og mælanlegra aðgerða og fjárstuðnings af hálfu aðila, með sveigjanleika í ljósi ólíkrar hæfni þeirra. Auk þess að skila skýrslu um samdrátt í losun, aðlögun og stuðning gerir samningurinn kröfu um að upplýsingar sem hver aðili sendir skuli gangast undir alþjóðlega endurskoðun. Samningurinn hefur einnig að geyma verkfæri sem munu auðvelda innleiðingu og stuðla að framfylgni sem er leiðbeinandi og felur ekki í sér viðurlög.

Hnattræn athugun á stöðu (14. gr.).
    „Hnattræn athugun á stöðu“ mun fara fram árið 2023 og á fimm ára fresti eftir það. Með athuguninni verður heildarárangur metinn í ljósi markmiða samningsins á aðgengilegan hátt. Niðurstöðurnar munu upplýsa aðilana um ákvarðanir til að uppfæra landsákvörðuð framlög, efla aðgerðir og stuðning og að styrkja alþjóðlega samvinnu.

Ákvörðun 1/CP.21.
    Samkomulagið sem náðist í París byggist á tveimur stoðum. Annars vegar er Parísarsamningurinn, sem er lagalega bindandi samkomulag og þarfnast fullgildingar samkvæmt viðeigandi ferlum. Hins vegar var gengið frá ákvörðun aðildarríkjaþingsins sem ríki samningsins skuldbinda sig til að framkvæma, en telst ekki lagalega bindandi. Í ákvörðun 1/CP.21 eru fjölmörg ákvæði sem styðja við Parísarsamninginn og hjálpa til við útfærslu hans og framkvæmd. Ákvörðunin geymir m.a. ákvæði um leiðir til að efla aðgerðir fyrir árið 2020, þar á meðal með því að styrkja tækniskoðunarferilinn, ráðstafanir vegna knýjandi þarfar til fjármögnunar, tækni og stuðning og aðgerðir til að styrkja skuldbindingar.

3. Landsákvarðað framlag Íslands.
    Íslensk stjórnvöld skiluðu áætluðu landsákvörðuðu framlagi til skrifstofu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna 30. júní 2015. Þar kemur fram að stefnt sé að því í samstarfi við aðildarríki Evrópusambandsins (ESB) að ná 40% samdrætti í losun árið 2030 miðað við útblástur árið 1990. Jafnframt kemur fram að eftir sé að semja við ESB og mögulega önnur ríki um hver skuldbinding Íslands verði innan slíks samkomulags. Ísland muni tryggja að 40% takmarkinu verði náð með því að: 1) halda áfram þátttöku í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir og 2) ákvarða losunarmarkmið utan viðskiptakerfisins með því að beita sömu aðferðafræði og ríki ESB. Einnig kemur fram að komi til þess að samkomulag náist ekki við ESB muni Ísland ákvarða framlag með öðrum hætti. Noregur sendi inn sambærilegt áætlað landsákvarðað framlag og því var ljóst að stefnt yrði að sameiginlegu framlagi 30 ríkja, sem öll taka þátt í evrópskum markaði með losunarheimildir.
    Endanlega útfærðar skuldbindingar Íslands fram til ársins 2030 innan ramma Parísarsamningsins munu ekki liggja fyrir fyrr en eftir að samið hefur verið við ESB. Ísland hefur ásamt Noregi átt óformlega fundi með ESB um sameiginlega framkvæmd og fyrir liggur yfirlýstur pólitískur vilji aðila til að ná samkomulagi. Formlegar samningaviðræður hefjast á næstunni og er áætlað að þeim ljúki á árinu 2017.
    Í Kýótó-bókuninni eru tölulegar skuldbindingar ríkja tilteknar í bókuninni sjálfri og eru lagalega bindandi. Því voru sterk rök fyrir því að bíða með fullgildingu uns þær skuldbindingar lágu endanlega fyrir í lokaútfærslu ýmissa ákvæða bókunarinnar, nokkrum árum síðar. Parísarsamningurinn myndar ramma utan um landsframlögin en framlögin sjálf eru ekki hluti af samningnum. Fullgilding Parísarsamningsins þarf því ekki að bíða endanlegrar útfærslu á landsákvörðuðu framlagi Íslands.

4. Fullgilding Íslands á Parísarsamningnum.
    Fullgilding Íslands á Parísarsamningnum nú sendir jákvæð skilaboð um að Ísland vilji vera metnaðarfullt í loftslagsmálum og að vilji sé fyrir hendi til þess að hefja vinnu samkvæmt ákvæðum samningsins sem fyrst. Jafnframt stuðlar fullgilding samningsins að gildistöku hans á heimsvísu.
    Ísland stendur að mörgu leyti vel varðandi viðleitni til að byggja upp loftslagsvænt samfélag og framtíð og munar þar mest um að nær öll orkuframleiðsla til rafmagns og hitunar fer fram með endurnýjanlegri orku. Ísland getur gert enn betur og er nú unnið að margvíslegum verkefnum til að draga úr nettólosun og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi í loftslagsmálum, m.a. á grunni aðgerðaáætlunar til að mæta kröfum Kýótó-bókunarinnar 2010–2020 og sóknaráætlunar í loftslagsmálum, sem ríkisstjórnin kynnti í aðdraganda Parísarfundarins haustið 2015. Mikil vinna er fram undan við að setja fram metnaðarfull markmið í loftslagsmálum á næstu árum og áratugum og vinna að aðgerðum til að ná þeim. Ljóst er að stjórnvöld, atvinnulíf og almenningur þurfa að koma að málum. Ísland var í hópi þeirra ríkja sem vildi metnaðarfullan samning um loftslagsmál í París. Fullgilding Parísarsamningsins nú á árinu 2016 gefur skýr skilaboð um að Ísland vilji áfram vera í fararbroddi ríkja í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum.


Fylgiskjal I.


Viðauki


     Parísarsamningurinn

    Aðilar að þessum Parísarsamningi,
     sem eru aðilar að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, hér á eftir nefndur „samningurinn“,
     samkvæmt Durban-vettvanginum fyrir auknar aðgerðir (e. Durban Platform for Enhanced Action) sem komið var á fót með ákvörðun 1/CP.17 á ráðstefnu aðila að samningnum á sautjánda fundi þeirra,
     til að fylgja eftir markmiði samningsins og með meginreglur hans að leiðarljósi, þ.m.t. meginreglan um sanngirni og sameiginlega en mismunandi ábyrgð og getu hverju sinni, í ljósi mismunandi landsaðstæðna,
     viðurkenna þörf fyrir skilvirk og framsækin viðbrögð við bráðri ógn, sem stafar af loftslagsbreytingum, sem byggjast á bestu, fáanlegu vísindaþekkingu,
     viðurkenna einnig sérstakar þarfir og sérstakar aðstæður aðila, sem eru þróunarlönd, einkum þeirra sem eru sérstaklega viðkvæm fyrir skaðlegum áhrifum loftslagsbreytinga eins og kveðið er á um í samningnum,
     taka fullt tillit til sérstakra þarfa og sérstakra aðstæðna landa sem eru skemmst á veg komin að því er varðar þróun með tilliti til fjármögnunar og yfirfærslu á tækni,
     viðurkenna að ekki einungis loftslagsbreytingar geta haft áhrif á aðila heldur einnig þær ráðstafanir sem gripið er til í því skyni að bregðast við loftslagsbreytingunum,
     leggja áherslu á eðlislægt samband aðgerða á sviði loftslagsbreytinga, viðbragða og áhrifa við jafnan aðgang að sjálfbærri þróun og útrýmingu fátæktar,
     viðurkenna grundvallarforgang þess að tryggja fæðuöryggi og útrýma hungri og sérstaka veikleika matvælaframleiðslukerfa gagnvart neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga,
     taka tillit til þess að brýn þörf er á sanngjarnri aðlögun vinnuafls og tilurð mannsæmandi starfa og gæðastarfa í samræmi við forgangsverkefni á sviði þróunar sem eru skilgreind í hverju landi fyrir sig,
     viðurkenna að loftslagsbreytingar eru sameiginlegt viðfangsefni mannkynsins; þegar aðilar grípa til aðgerða til að bregðast við loftslagsbreytingum ættu þeir að virða, stuðla að og taka til athugunar skuldbindingar sínar m.t.t. mannréttinda, réttinda til heilbrigðis, réttinda frumbyggja, nærsamfélaga, farandfólks, barna, einstaklinga með fötlun og fólks í viðkvæmri stöðu og réttinda til þroska ásamt jafnrétti kynjanna, valdeflingu kvenna og sanngirni milli kynslóða,
     viðurkenna mikilvægi varðveislu og betri nýtingar, eins og við á, viðtaka og forða fyrir gróðurhúsalofttegundir sem um getur í samningnum,
     gera sér grein fyrir mikilvægi þess að tryggja heilleika allra vistkerfa, þ.m.t. höfin, og vernda líffræðilega fjölbreytni, sem ýmis menningarsamfélög þekkja sem „Móður jörð“, og gera sér grein fyrir mikilvægi hugtaksins um „loftslagsréttlæti“ þegar gripið er til aðgerða til að bregðast við loftslagsbreytingum,
     staðfesta mikilvægi menntunar, þjálfunar, almenningsvitundar, þátttöku almennings, aðgangs almennings að upplýsingum og samvinnu á öllum stigum að því er varðar málefnin sem fjallað er um í Parísarsamningnum,
     viðurkenna að þátttaka hins opinbera á öllum stigum og ýmissa þátttakenda, í samræmi við landslöggjöf aðilanna, eftir því sem við á, í að bregðast við loftslagsbreytingum er mikilvæg,
     viðurkenna einnig að sjálfbær lífsstíll og sjálfbær neyslu- og framleiðslumynstur, þar sem aðilar sem eru þróuð lönd sýna frumkvæði, gegna mikilvægu hlutverki í að bregðast við loftslagsbreytingum,
    hafa orðið ásáttir um eftirfarandi:

1. gr.

    Í Parísarsamningnum gilda skilgreiningarnar sem er að finna í 1. gr. samningsins. Auk þess:
     (a)      „Samningur“: rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem var samþykktur í New York 9. maí 1992.
     (b)      „Ráðstefna aðila“: ráðstefna aðila að samningnum.
     (c)      „Aðili“: aðili að Parísarsamningnum.

2. gr.

1.     Parísarsamningurinn miðar að því, í því skyni að bæta framkvæmd samningsins, þ.m.t. markmið hans, að styrkja hnattræn viðbrögð við þeirri ógn sem stafar af loftslagsbreytingum, að teknu tilliti til sjálfbærrar þróunar og viðleitni til að útrýma fátækt, þ.m.t. með því að:
     (a)      halda hækkun á hitastigi á heimsvísu vel undir 2 °C yfir gildum fyrir iðnvæðingu og fylgja eftir viðleitni til að takmarka hækkun hitastigs við 1,5 °C yfir gildum fyrir iðnvæðingu í viðurkenningu á því að þetta muni draga umtalsvert úr áhættu og áhrifum loftslagsbreytinga,
     (b)      auka getu til að aðlagast neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga og hlúa að viðnámi gegn loftslagsbreytingum og þróun á lítilli losun gróðurhúsalofttegunda á þann hátt að það ógni ekki matvælaframleiðslu og
     (c)      gera fjármagnsflæði samrýmanlegt við ferli í átt að lítilli losun gróðurhúsalofttegunda og þróun viðnáms gegn loftslagsbreytingum.
2.     Þessum Parísarsamningi verður komið þannig í framkvæmd að það endurspegli sanngirni og sameiginlega en mismunandi ábyrgð og getu, í ljósi mismunandi landsaðstæðna.

3. gr.

    Allir aðilar eiga að takast á hendur og tilkynna um metnaðarfulla viðleitni, eins og skilgreint er í 4., 7., 9., 10., 11. og 13. gr., sem landsákvarðað framlag til hnattrænna viðbragða við loftslagsbreytingum, með það fyrir augum að ná markmiði Parísarsamningsins eins og sett er fram í 2. gr. Viðleitni allra aðila mun fela í sér framvindu með tímanum jafnframt því að viðurkenna þörf á að styðja aðila, sem eru þróunarlönd, við skilvirka framkvæmd Parísarsamningsins.

4. gr.

1.     Í því skyni að ná fram langtímamarkmiðinu um hitastig, sem sett er fram í 2. gr., stefna aðilarnir að því að ná hnattrænu hámarki á losun gróðurhúsalofttegunda eins fljótt og auðið er, en viðurkenna að það tekur aðila, sem eru þróunarlönd, lengri tíma að ná hámarkinu, og að takast á hendur að draga skjótt úr losun eftir það, í samræmi við bestu fyrirliggjandi vísindi, til þess að ná jafnvægi milli losunar gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum frá uppsprettum og upptöku þeirra í viðtaka á síðari helmingi þessarar aldar, á grundvelli sanngirni, og í tengslum við sjálfbæra þróun og viðleitni til að útrýma fátækt.
2.     Hver aðili skal undirbúa og tilkynna landsákvörðuð framlög, sem eru áframhaldandi, og viðhalda þeim. Aðilar skulu fylgja eftir innlendum ráðstöfunum til að draga úr losun með það fyrir augum að ná markmiðunum með slíkum framlögum.
3.     Áframhaldandi landsákvarðað framlag hvers aðila mun fela í sér framvindu sem gengur lengra en yfirstandandi landsákvarðað framlag aðilans á þeim tíma og endurspegla mesta mögulega metnað hans, sem endurspeglar sameiginlega en mismunandi ábyrgð hans og getu, í ljósi mismunandi landsaðstæðna.
4.     Aðilar sem eru þróuð lönd ættu að halda áfram að sýna frumkvæði með því að takast á hendur skilyrðislaus losunarskerðingarmarkmið sem hafa áhrif á allt hagkerfið. Aðilar, sem eru þróunarlönd, ættu að halda áfram að auka viðleitni sína til að draga úr losun og eru hvattir til þess að færa sig með tímanum í áttina að losunarskerðingar- eða takmörkunarmarkmiðum, sem hafa áhrif á allt hagkerfið, í ljósi mismunandi landsaðstæðna.
5.     Veita skal aðilum, sem eru þróunarlönd, stuðning við framkvæmd þessarar greinar, í samræmi við 9., 10. og 11. gr., og viðurkennt er að aukinn stuðningur við aðila, sem eru þróunarlönd, muni stuðla að meiri metnaði í aðgerðum þeirra.
6.     Lönd sem eru skemmst á veg komin í þróun og þróunarríki sem eru lítil eyríki geta undirbúið og tilkynnt um áætlanir, skipulagsáætlanir og aðgerðir til þróunar á lítilli losun gróðurhúsalofttegunda sem endurspegla sérstakar aðstæður þeirra.
7.     Viðbótarávinningur af því að draga úr losun, sem leiðir af aðlögunaraðgerðum aðilanna og/eða áætlunum um efnahagslega fjölbreytni, getur stuðlað að bættum niðurstöðum um að draga úr losun samkvæmt þessari grein.
8.     Þegar aðilarnir tilkynna um landsákvarðað framlag sitt skulu þeir allir veita þær upplýsingar sem þörf er á til glöggvunar, gagnsæis og skilnings, í samræmi við ákvörðun 1/CP.21 og allar ákvarðanir ráðstefnu aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, sem máli skipta.
9.     Hver aðili skal tilkynna um landsákvarðað framlag á fimm ára fresti, í samræmi við ákvörðun 1/CP.21 og allar ákvarðanir ráðstefnu aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, sem skipta máli og taka tillit til niðurstaðna úr hnattrænni athugun á stöðu sem um getur í 14. gr.
10.     Ráðstefna aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, skal á fyrsta fundi sínum taka til athugunar almenna tímaramma fyrir landsákvörðuð framlög.
11.     Aðili getur hvenær sem er aðlagað yfirstandandi landsákvarðað framlag sitt með það fyrir augum að hækka metnaðarstig sitt í samræmi við leiðbeiningar sem ráðstefna aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, samþykkir.
12.     Landsákvörðuð framlög sem aðilarnir tilkynna um skulu skráð í opinbera skrá sem skrifstofan viðheldur.
13.     Aðilar skulu gera grein fyrir landsákvörðuðum framlögum sínum. Þegar aðilar gera grein fyrir losun af mannavöldum og upptöku, sem svarar til landsákvarðaðra framlaga þeirra skulu þeir stuðla að umhverfisheilleika (e. environmental integrity), gagnsæi, nákvæmni, heildstæðni, samanburðarhæfi og samkvæmni og tryggja að komist sé hjá tvítalningu, í samræmi við leiðbeiningar sem ráðstefna aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, samþykkir.
14.     Þegar aðilar viðurkenna og hrinda í framkvæmd aðgerðum til að draga úr losun, að því er varðar losun af mannavöldum og upptöku, ættu þeir, í tengslum við landsákvörðuð framlög sín, að taka tillit til, eins og við á, fyrirliggjandi aðferða og leiðbeininga samkvæmt samningnum í ljósi ákvæða 13. mgr. þessarar greinar.
15.     Við framkvæmd Parísarsamningsins skulu aðilar taka tillit til hagsmuna aðila þar sem hagkerfið verður fyrir mestum áhrifum af viðbragðsráðstöfunum, einkum aðila sem eru þróunarlönd.
16.     Aðilar, þ.m.t. svæðisstofnanir um efnahagssamvinnu og aðildarríki þeirra, sem hafa náð samkomulagi um að koma fram sameiginlega skv. 2. mgr. þessarar greinar, skulu tilkynna skrifstofunni um skilmála samkomulagsins, þ.m.t. losunarmagn sem hverjum aðila er úthlutað innan viðkomandi tímabils, þegar þeir tilkynna um landsákvörðuð framlög sín. Skrifstofan skal síðan upplýsa aðilana og undirritunaraðila samningsins um skilmála samkomulagsins.
17.     Hver aðili að slíku samkomulagi skal bera ábyrgð á losunarmagni sínu, eins og sett er fram í samkomulaginu sem um getur í 16. mgr. þessarar greinar, í samræmi við 13. og 14. mgr. þessarar greinar og 13. og 15. gr.
18.     Ef aðilar, sem koma fram sameiginlega, gera slíkt innan ramma og ásamt svæðisstofnun um efnahagssamvinnu, sem sjálf er aðili að Parísarsamningnum, skal hvert aðildarríki þeirrar svæðisstofnunar um efnahagssamvinnu, hvert um sig og ásamt svæðisstofnuninni um efnahagssamvinnu, bera ábyrgð á losunarmagni sínu eins og sett er fram í samkomulaginu sem tilkynnt er um skv. 16. mgr. þessarar greinar, í samræmi við 13. og 14. mgr. þessarar greinar og 13. og 15. gr.
19.     Allir aðilar ættu að leitast við að setja saman og tilkynna þróunaráætlanir til langs tíma um litla losun gróðurhúsalofttegunda með 2. gr. í huga að teknu tilliti til sameiginlegrar en mismunandi ábyrgðar þeirra og getu, í ljósi mismunandi landsaðstæðna.

5. gr.

1.     Aðilar ættu að grípa til aðgerða til að varðveita og efla, eins og við á, viðtaka og forða fyrir gróðurhúsalofttegundir, eins og um getur í d-lið 1. mgr. 4. gr. samningsins, þ.m.t. skógar.
2.     Aðilar eru hvattir til að grípa til aðgerða til að koma í framkvæmd og styðja við, þ.m.t. með árangursmiðuðum greiðslum, fyrirliggjandi ramma eins og sett er fram í tengdum leiðbeiningum og ákvörðunum sem þegar hafa verið samþykktar samkvæmt samningnum að því er varðar: leiðir við stefnumótun og jákvæða hvatningu vegna starfsemi í tengslum við að draga úr losun frá skógeyðingu og hnignun skóga og hlutverk varðveislu, sjálfbærrar stjórnunar skóga og aukningar á kolefnisbirgðum skóga í þróunarlöndum og aðrar leiðir við stefnumótun, s.s. sameiginlegar leiðir til að draga úr losun og til aðlögunar vegna nauðsynlegrar og sjálfbærrar stjórnunar skóga, jafnframt því að árétta mikilvægi jákvæðrar hvatningar til ávinninga án kolefnis, eins og við á, í tengslum við slíkar leiðir.

6. gr.

1.     Aðilar viðurkenna að einhverjir aðilar kjósa að stefna að valfrjálsri samvinnu við framkvæmd landsákvarðaðra framlaga sinna til að gera aðgerðir þeirra til að draga úr losun og til aðlögunar metnaðarfyllri og til að stuðla að sjálfbærri þróun og umhverfisheilleika.
2.     Þegar aðilar taka sjálfviljugir þátt í samstarfi sem felur í sér notkun á alþjóðlega yfirfærðum niðurstöðum um að draga úr losun til að ná landsákvörðuðum framlögum skulu þeir stuðla að sjálfbærri þróun og tryggja umhverfisheilleika og gagnsæi, þ.m.t. við stjórnunarhætti, og nota traust bókhald til að tryggja m.a. að komist sé hjá tvítalningu sem er í samræmi við leiðbeiningar sem ráðstefna aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, samþykkir.
3.     Notkun á alþjóðlega yfirfærðum niðurstöðum um að draga úr losun til að ná landsákvörðuðum framlögum samkvæmt Parísarsamningnum skal vera valfrjáls og heimiluð af hálfu þeirra aðila sem taka þátt.
4.     Kerfi til að stuðla að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og styðja við sjálfbæra þróun er hér með komið á fót, til valfrjálsrar notkunar af hálfu aðilanna, undir stjórn og leiðsögn ráðstefnu aðila sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum. Stofnun sem ráðstefna aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, tilnefnir skal hafa eftirlit með kerfinu sem skal miða að því að:
     (a)      stuðla að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda jafnframt því að hlúa að sjálfbærri þróun,
     (b)      hvetja til og stuðla að því að almenningur og einkaaðilar, sem hafa heimild frá aðila, taki þátt í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda,
     (c)      stuðla að því að draga úr losunarmagni heimaaðila sem mun njóta góðs af aðgerðum til að draga úr losun sem leiðir til losunarskerðingar sem annar aðili getur einnig notað til að uppfylla landsákvarðað framlag sitt, og
     (d)      leiða til heildarminnkunar á hnattrænni losun.
5.     Ekki skal nota losunarskerðingu, sem leiðir af kerfinu sem um getur í 4. mgr. þessarar greinar, til að sýna fram á að heimaaðili hafi náð landsákvörðuðu framlagi ef annar aðili notar hana til að sýna fram á að hann hafi náð landsákvörðuðu framlagi sínu.
6.     Ráðstefna aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, skal tryggja að hluti af ávinningnum af aðgerðum samkvæmt kerfinu, sem um getur í 4. mgr. þessarar greinar, sé notaður til að standa straum af stjórnunarkostnaði sem og til að aðstoða aðila, sem eru þróunarlönd, sem eru sérstaklega viðkvæm fyrir skaðlegum áhrifum loftslagsbreytinga, við að bera kostnað af aðlögun.
7.     Ráðstefna aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, skal samþykkja reglur, fyrirkomulag og málsmeðferðarreglur fyrir kerfið, sem um getur í 4. mgr. þessarar greinar, á fyrsta fundi sínum.
8.     Aðilarnir viðurkenna mikilvægi þess að samþættar, heildrænar og jafnvægar aðferðir utan markaðar standi aðilum til boða til að aðstoða þá við framkvæmd landsákvarðaðra framlaga í tengslum við sjálfbæra þróun og útrýmingu fátæktar, á samræmdan og skilvirkan hátt, þ.m.t. með því m.a. að draga úr losun, aðlögun, fjármögnun, tækniyfirfærslu og efla getu, eins og við á. Þessar aðferðir skulu miða að því að:
     (a)      stuðla að metnaði til að draga úr losun og til aðlögunar,
     (b)      auka þátttöku opinbera geirans og einkageirans í framkvæmd landsákvarðaðra framlaga og
     (c)      auðvelda tækifæri til samræmingar þvert á gerninga og hlutaðeigandi stofnanafyrirkomulag.
9.     Rammi fyrir aðferðir utan markaðar til sjálfbærrar þróunar er hér með skilgreindur til að stuðla að aðferðum utan markaðar sem um getur í 8. mgr. þessarar greinar.

7. gr.

1.     Aðilarnir koma hér með á fót hnattrænu markmiði um að auka aðlögunargetu, styrkja viðnám gegn loftslagsbreytingum og draga úr varnarleysi gagnvart þeim með það fyrir augum að stuðla að sjálfbærri þróun og tryggja fullnægjandi aðlögunarviðbrögð í tengslum við markmiðið um hitastig sem um getur í 2. gr.
2.     Aðilar viðurkenna að aðlögun er hnattræn áskorun, sem allir standa frammi fyrir, með staðbundnum, undirþjóðlegum, landsbundnum, svæðisbundnum og alþjóðlegum víddum og sem er lykilþáttur í og stuðlar að hnattrænum langtímaviðbrögðum við loftslagsbreytingum til að vernda fólk, lífsviðurværi og vistkerfi, að teknu tilliti til brýnna og aðkallandi þarfa þeirra aðila, sem eru þróunarlönd, sem eru sérstaklega viðkvæm fyrir skaðlegum áhrifum loftslagsbreytinga.
3.     Aðlögunarviðleitni aðila, sem eru þróunarlönd, skal viðurkennd í samræmi við fyrirkomulag sem ráðstefna aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, mun samþykkja á fyrsta fundi sínum.
4.     Aðilarnir viðurkenna að núverandi þörf fyrir aðlögun er umtalsverð og að aukin skerðing á losun geti dregið úr þörf fyrir viðbótarframtak til aðlögunar og að meiri þörf á aðlögun geti falið í sér hærri aðlögunarkostnað.
5.     Aðilarnir hafa í huga að aðlögunaraðgerð ætti að fylgja aðferð sem er landsmiðuð, þar sem tekið er tillit til kynjasjónarmiða, sem byggist á þátttöku og er fyllilega gagnsæ, að teknu tilliti til viðkvæmra hópa, samfélaga og vistkerfa, og ætti að byggja á og fylgja bestu, fyrirliggjandi vísindum og, eins og við á, hefðbundinni þekkingu, þekkingu frumbyggja og staðbundnum þekkingarkerfum, með það fyrir augum að samþætta aðlögun við viðeigandi félagsleg og hagræn og umhverfisleg stefnumál og aðgerðir, eins og við á.
6.     Aðilarnir viðurkenna mikilvægi stuðnings við og alþjóðlega samvinnu um aðlögunarviðleitni og mikilvægi þess að taka tillit til þarfa aðila, sem eru þróunarlönd, einkum þeirra sem eru sérstaklega viðkvæm fyrir skaðlegum áhrifum loftslagsbreytinga.
7.     Aðilarnir ættu að styrkja samvinnu sína um að auka aðgerðir varðandi aðlögun, með tilliti til Cancun-aðlögunarrammans (e. Cancun Adaptation Framework), þ.m.t. með tilliti til þess að:
     (a)      deila upplýsingum, góðum starfsvenjum, reynslu og lærdómi, þ.m.t., eins og við á, sem varða vísindi, áætlanagerð, stefnumál og framkvæmd í tengslum við aðlögunaraðgerðir,
     (b)      styrkja stofnanafyrirkomulag, þ.m.t. samkvæmt fyrirkomulagi samkvæmt samningnum sem þjónar Parísarsamningnum, til að styðja við samantekt upplýsinga og þekkingar sem skipta máli og veita aðilum tæknilegan stuðning og leiðbeiningar,
     (c)      styrkja vísindalega þekkingu um loftslag, þ.m.t. rannsóknir, kerfisbundnar athuganir á loftslagskerfinu og snemmviðvörunarkerfi, þannig að það sé loftslagstengdri þjónustu til upplýsingar og styðji við ákvarðanatöku,
     (d)      aðstoða aðila, sem eru þróunarlönd, við að skilgreina skilvirkt verklag við aðlögun, aðlögunarþarfir, forgangsröð, veittan og fenginn stuðning við aðlögunaraðgerðir og -viðleitni og áskoranir og eyður, með þeim hætti að það sé í samræmi við að hvetja til góðra starfsvenja og
     (e)      bæta skilvirkni og endingu aðlögunaraðgerða.
8.     Sérstofnanir og skrifstofur Sameinuðu þjóðanna eru hvattar til að styðja viðleitni aðilanna við að framkvæma aðgerðirnar, sem um getur í 7. mgr. þessarar greinar, að teknu tilliti til ákvæða 5. mgr. þessarar greinar.
9.     Hver aðili skal, eins og við á, taka þátt í skipulagsferli við aðlögun og framkvæmd aðgerða, þ.m.t. þróun eða styrking á viðkomandi áætlunum, stefnumálum og/eða framlögum sem geta falið í sér:
     (a)      framkvæmd á aðlögunaraðgerðum, skuldbindingum og/eða viðleitni,
     (b)      ferli til að setja saman og framkvæma landsáætlanir um aðlögun,
     (c)      mat á áhrifum loftslagsbreytinga og varnarleysi gagnvart þeim með það fyrir augum að móta forgangsraðaðar landsákvarðaðar aðgerðir að teknu tilliti til einstaklinga, staða og vistkerfa sem eru í viðkvæmri stöðu,
     (d)      að vakta og meta og draga lærdóm af aðlögunaráætlunum, stefnumálum, áætlunum og aðgerðum og
     (e)      að byggja upp viðnám félagshagfræðilegra og vistfræðilegra kerfa, þ.m.t. með efnahagslegri fjölbreytni og sjálfbærri stjórnun náttúruauðlinda.
10.     Hver aðili ætti, eins og við á, að leggja fram aðlögunarskýrslu og uppfæra hana reglulega, sem getur innihaldið forgangsröðun hans, framkvæmdar- og stuðningsþarfir, áætlanir og aðgerðir, án þess að valda auknu álagi á aðila sem eru þróunarlönd.
11.     Aðlögunarskýrslan, sem um getur í 10. mgr. þessarar greinar, skal, eins og við á, lögð fram og uppfærð reglulega sem hluti af eða í tengslum við aðrar skýrslur eða gögn, þ.m.t. landsáætlun um aðlögun, landsákvarðað framlag eins og um getur í 2. mgr. 4. gr. og/eða landsskýrslu.
12.     Aðlögunarskýrslan, sem um getur í 10. mgr. þessarar greinar, skal skráð í opinbera skrá sem skrifstofan viðheldur.
13.     Veita skal aðilum, sem eru þróunarlönd, samfelldan og aukinn alþjóðlegan stuðning við framkvæmd 7., 9., 10. og 11. mgr. þessarar greinar, í samræmi við ákvæði 9., 10. og 11. gr.
14.     Hnattræn athugun á stöðu, sem um getur í 14. gr., skal m.a.:
     (a)      viðurkenna aðlögunarviðleitni aðila sem eru þróunarlönd,
     (b)      styrkja framkvæmd aðlögunaraðgerða, að teknu tilliti til aðlögunarskýrslunnar sem um getur í 10. mgr. þessarar greinar,
     (c)      endurskoða hvort aðlögun og stuðningur, sem veittur er til aðlögunar, séu fullnægjandi og skilvirk og
     (d)      endurskoða heildarframvindu við að ná hnattræna markmiðinu um aðlögun sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar.

8. gr.

1.     Aðilar viðurkenna mikilvægi þess að afstýra, lágmarka og bregðast við tjóni og skaða sem tengjast skaðlegum áhrifum loftslagsbreytinga, þ.m.t. veðurhamfarir og atburðir sem eru lengi að koma fram, og hlutverks sjálfbærrar þróunar við að draga úr áhættu á tjóni og skaða.
2.     Alþjóðlega Varsjárkerfið fyrir tjón og skaða (e. The Warsaw International Mechanism for Loss and Damage) í tengslum við áhrif loftslagsbreytinga skal falla undir stjórn og leiðsögn ráðstefnu aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, og kerfið má bæta og styrkja eins og ráðstefna aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, ákveður.
3.     Aðilar ættu að auka skilning, aðgerðir og stuðning, þ.m.t. með milligöngu alþjóðlega Varsjárkerfisins fyrir tjón og skaða, eins og við á, á grundvelli samvinnu og stuðnings að því er tekur til tjóns og skaða í tengslum við skaðleg áhrif loftslagsbreytinga.
4.     Til samræmis við það geta samvinna og fyrirgreiðsla til að auka skilning, aðgerðir og stuðning falið í sér:
     (a)      snemmviðvörunarkerfi,
     (b)      neyðarviðbúnað,
     (c)      atburði sem eru lengi að koma fram,
     (d)      atburði sem geta falið í sér óafturkallanlegt og varanlegt tjón og skaða,
     (e)      alhliða áhættumat og -stjórnun,
     (f)      áhættutryggingakerfi, sameiginlegan loftslagsáhættusjóð (e. climate risk pooling) og aðrar tryggingalausnir,
     (g)      tap, sem er ekki af efnahagslegum toga, og
     (h)      viðnám samfélaga, lífsviðurværis og vistkerfa.
5.     Alþjóðlega Varsjárkerfið fyrir tjón og skaða skal starfa með aðilum og sérfræðingahópum sem fyrir eru samkvæmt Parísarsamningnum sem og með viðkomandi stofnunum og sérfræðingahópum utan Parísarsamningsins.

9. gr.

1.     Aðilar sem eru þróuð lönd skulu leggja fram fjármagn til að aðstoða aðila, sem eru þróunarlönd, bæði að því er varðar að draga úr losun og til aðlögunar, við að halda áfram með gildandi skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.
2.     Aðrir aðilar eru hvattir til að veita eða halda áfram að veita slíka aðstoð sjálfviljugir.
3.     Aðilar sem eru þróuð lönd ættu, sem hluti af átaki á heimsvísu, að halda áfram að sýna frumkvæði við að kalla eftir loftslagsfjármögnun frá ýmsum uppsprettum, gerningum og leiðum, sem og að veita mikilvægu hlutverki opinberra sjóða athygli, með ýmsum aðgerðum, þ.m.t. stuðningur við landsmiðaðar áætlanir, og að teknu tilliti til þarfa og forgangsröðunar aðila sem eru þróunarlönd. Slíkt kall eftir loftslagsfjármögnun ætti að vera til marks um framvindu sem gengur lengra en fyrri viðleitni.
4.     Framlagning aukins fjármagns ætti að miða að því að ná fram jafnvægi milli aðlögunar og þess að draga úr losun, að teknu tilliti til landsmiðaðra áætlana, og forgangsröðunar og þarfa aðila, sem eru þróunarlönd, einkum þeirra sem eru sérstaklega viðkvæm fyrir skaðlegum áhrifum loftslagsbreytinga og búa við umtalsverðar takmarkanir á getu, s.s. lönd sem eru skemmst á veg komin í þróun og þróunarríki sem eru lítil eyríki, að teknu tilliti til þarfar fyrir opinber aðlögunarúrræði og aðlögunarúrræði sem byggjast á fjárstyrk.
5.     Annað hvert ár skulu aðilar, sem eru þróuð lönd, tilkynna um leiðbeinandi tölulegar og efnislegar upplýsingar sem tengjast 1. og 3. mgr. þessarar greinar, eftir því sem við á, þ.m.t. eftir því sem tiltækt er, um áætlað opinbert fjármagn sem á að veita aðilum sem eru þróunarlönd. Aðrir aðilar sem veita fjármagn eru hvattir til að tilkynna slíkar upplýsingar valfrjálst annað hvert ár.
6.     Við hnattræna athugun á stöðu, sem um getur í 14. gr., skal taka tillit til viðeigandi upplýsinga sem aðilar, sem eru þróuð lönd, og/eða Parísarsamningsaðilar leggja fram um viðleitni í tengslum við loftslagsfjármögnun.
7.     Aðilar sem eru þróuð lönd skulu veita gagnsæjar og samræmdar upplýsingar um stuðning við aðila, sem eru þróunarlönd, sem er veittur og virkjaður með opinberri íhlutun annað hvert ár í samræmi við fyrirkomulag, málsmeðferðarreglur og leiðbeiningar sem ráðstefna aðila, sem er jafnframt fundur aðila að þessum Parísarsamningi, mun samþykkja á fyrsta fundi sínum eins og mælt er fyrir um í 13. mgr. 13. gr. Aðrir aðilar eru hvattir til að gera slíkt hið sama.
8.     Fjármálakerfi samningsins, þ.m.t. rekstrareiningar hans, skal gegna hlutverki fjármálakerfis fyrir Parísarsamninginn.
9.     Stofnanir sem þjóna Parísarsamningnum, þ.m.t. rekstrareiningar fjármálakerfis samningsins, skulu miða að því að tryggja skilvirkan aðgang að fjármagni með einfaldaðri málsmeðferð við samþykki og auknum stuðningi sem er til reiðu fyrir aðila, sem eru þróunarlönd, einkum fyrir lönd sem eru skemmst á veg komin í þróun og þróunarríki sem eru lítil eyríki, í tengslum við landsbundnar loftslagsáætlanir þeirra og -stefnur.

10. gr.

1.     Aðilar eiga sameiginlega langtímasýn um mikilvægi þess að nýta til fullnustu tækniþróun og -yfirfærslu í því skyni að auka viðnám gegn loftslagsbreytingum og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
2.     Aðilar, sem gera sér grein fyrir mikilvægi tækni fyrir framkvæmd aðgerða til að draga úr losun og til aðlögunar samkvæmt Parísarsamningnum og viðurkenna núverandi viðleitni til að nýta tækni og dreifa henni, skulu styrkja samvinnuaðgerðir um tækniþróun og -yfirfærslu.
3.     Tæknilega fyrirkomulagið, sem komið var á fót samkvæmt samningnum, skal þjóna Parísarsamningnum.
4.     Hér með er komið á fót tækniramma til að veita heildstæðar leiðbeiningar fyrir starf tæknilega fyrirkomulagsins við að stuðla að og greiða fyrir auknum aðgerðum um tækniþróun og -yfirfærslu í því skyni að styðja við framkvæmd Parísarsamningsins til að fylgja eftir þeirri langtímasýn sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar.
5.     Að því er varðar skilvirk, hnattræn langtímaviðbrögð við loftslagsbreytingum og til að stuðla að hagvexti og sjálfbærri þróun er mikilvægt að hraða, hvetja til og stuðla að nýsköpun. Slík viðleitni skal studd, eins og við á, þ.m.t. með tæknilega fyrirkomulaginu og af fjármálakerfi samningsins með fjármunum, til samvinnuaðferða við rannsóknir og þróun og til að auðvelda aðgang aðila, sem eru þróunarlönd, að tækni, einkum á fyrstu stigum tækniferilsins.
6.     Veita skal aðilum, sem eru þróunarlönd, stuðning, þ.m.t. fjárstuðningur, til framkvæmdar á þessari grein, þ.m.t. til að styrkja samvinnuaðgerðir um tækniþróun og -yfirfærslu á mismunandi stigum tækniferilsins með það fyrir augum að ná fram jafnvægi milli stuðnings við það að draga úr losun og við aðlögun. Við hnattræna athugun á stöðu, sem um getur í 14. gr., skal taka tillit til fyrirliggjandi upplýsinga um viðleitni í tengslum við stuðning fyrir aðila, sem eru þróunarlönd, við tækniþróun og -yfirfærslu.

11. gr.

1.     Efling getu samkvæmt Parísarsamningnum ætti að auka getu og hæfni aðila, sem eru þróunarlönd, einkum landa sem búa yfir minnstri getu, s.s. lönd sem eru skemmst á veg komin í þróun og þau sem eru sérstaklega viðkvæm fyrir skaðlegum áhrifum loftslagsbreytinga, s.s. þróunarríki sem eru lítil eyríki, til að grípa til skilvirkra loftslagsbreytingaaðgerða, þ.m.t. meðal annars að framkvæma aðgerðir til aðlögunar og til að draga úr losun, og ætti að auðvelda þróun, dreifingu og nýtingu tækni, aðgang að loftslagsfjármögnun, viðeigandi þætti menntunar, þjálfunar og almenningsvitundar og gagnsæja, tímanlega og nákvæma sendingu upplýsinga.
2.     Efling getu ætti að vera landsmiðuð, byggð á landsbundnum þörfum og taka mið af þeim og hlúa að eignarhaldi ríkis aðilanna, einkum aðila sem eru þróunarlönd, þ.m.t. á landsbundnum, undirþjóðlegum og staðbundnum vettvangi. Efling getu ætti að fylgja þeirri reynslu sem fengist hefur, þ.m.t. af starfsemi við eflingu á getu samkvæmt samningnum, og ætti að vera skilvirkt, endurtekið ferli sem byggist á þátttöku, er þverlægt og þar sem tekið er tillit til kynjasjónarmiða.
3.     Allir aðilar ættu að vinna saman að því að auka getu aðila, sem eru þróunarlönd, til að framkvæma Parísarsamninginn. Aðilar, sem eru þróuð lönd, ættu að auka stuðning við aðgerðir til að efla getu aðila sem eru þróunarlönd.
4.     Allir aðilar sem auka getu aðila, sem eru þróunarlönd, til að framkvæma Parísarsamninginn, þ.m.t. með svæðisbundnum, tvíhliða og marghliða aðferðum, skulu tilkynna reglulega um þessar aðgerðir eða ráðstafanir til að efla getu. Aðilar, sem eru þróunarlönd, ættu að tilkynna reglulega um framvindu sem orðið hefur við framkvæmd áætlana um eflingu getu, stefnumál, aðgerðir eða ráðstafanir til framkvæmdar á Parísarsamningnum.
5.     Auka skal aðgerðir til að efla getu með viðeigandi stofnanafyrirkomulagi til að styðja við framkvæmd Parísarsamningsins, þ.m.t. viðeigandi stofnanafyrirkomulag sem komið var á fót samkvæmt samningnum sem þjónar Parísarsamningnum. Ráðstefna aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, skal, á fyrsta fundi sínum, taka til athugunar og samþykkja ákvörðun um upphaflegt stofnanafyrirkomulag til að efla getu.

12. gr.

    Aðilar skulu vinna saman að því að grípa til ráðstafana, eins og við á, til að auka menntun, þjálfun, almenningsvitund, þátttöku almennings og aðgang almennings að upplýsingum m.t.t. loftslagsbreytinga, í viðurkenningu á mikilvægi þessara þrepa að því er varðar eflingu aðgerða samkvæmt Parísarsamningnum.

13. gr.

1.     Í því skyni að byggja upp gagnkvæmt traust og trúnað og til að stuðla að skilvirkri framkvæmd er hér með komið á fót ramma með auknu gagnsæi til aðgerða og stuðnings með innbyggðum sveigjanleika þar sem tekið er tillit til mismunandi getu aðilanna og byggt á sameiginlegri reynslu.
2.     Gagnsæisramminn skal veita þeim aðilum, sem eru þróunarlönd og þurfa á því að halda með hliðsjón af getu sinni, sveigjanleika við framkvæmd ákvæða þessarar greinar. Fyrirkomulag, málsmeðferðarreglur og leiðbeiningar, sem um getur í 13. mgr. þessarar greinar, skulu endurspegla slíkan sveigjanleika.
3.     Gagnsæisramminn skal byggjast á og efla gagnsæisráðstafanir samkvæmt samningnum, með viðurkenningu á sérstökum aðstæðum landa sem eru skemmst á veg komin í þróun og þróunarríkja sem eru lítil eyríki, og framfylgt á grundvelli stuðnings, án röskunar og án refsiákvæða, með virðingu fyrir fullveldi þjóða og án þess að leggja óhóflega byrði á aðilana.
4.     Gagnsæisráðstafanir samkvæmt samningnum, þ.m.t. landsskýrslur, tveggja ára skýrslur og tveggja ára uppfærðar skýrslur, alþjóðlegt mat og endurskoðun og alþjóðlegt samráð og greining, skulu mynda hluta af þeirri reynslu sem byggt er á við þróun fyrirkomulags, málsmeðferðarreglna og leiðbeininga skv. 13. mgr. þessarar greinar.
5.     Tilgangurinn með rammanum um gagnsæi aðgerða er að skapa skýran skilning á loftslagsbreytingaaðgerðum í ljósi markmiða samningsins, eins og sett er fram í 2. gr. hans, þ.m.t. skýrleiki og að rekja framvindu við að ná landsákvörðuðum framlögum einstakra aðila skv. 4. gr. og við aðlögunaraðgerðir aðilanna skv. 7. gr., þ.m.t. góðar starfsvenjur, forgangsröðun, þarfir og eyður, til upplýsingar fyrir hnattræna athugun á stöðu skv. 14. gr.
6.     Tilgangurinn með rammanum um gagnsæi stuðnings er að veita gagnsæi að því er varðar stuðning sem viðkomandi einstakir aðilar hafa veitt og fengið í tengslum við loftslagsbreytingaaðgerðir skv. 4., 7., 9., 10. og 11. gr. og, að því marki sem mögulegt er, láta í té heildaryfirlit yfir samanlagðan fjárstuðning sem veittur er, til upplýsingar fyrir hnattræna athugun á stöðu skv. 14. gr.
7.     Hver aðili skal veita eftirfarandi upplýsingar reglulega:
     (a)      skýrslu um landsskrá yfir losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum frá uppsprettum og upptöku þeirra í viðtaka, sem tekin er saman með því að nota aðferðafræði við góðar starfsvenjur sem milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar samþykkir og ráðstefna aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, fellst á og
     (b)      upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að rekja framvindu hans við framkvæmd og við að ná landsákvörðuðu framlagi skv. 4. gr.
8.     Hver aðili ætti einnig að leggja fram upplýsingar í tengslum við áhrif af loftslagsbreytingum og aðlögun skv. 7. gr., eins og við á.
9.     Aðilar, sem eru þróuð lönd, skulu veita, og aðrir aðilar, sem veita stuðning, ættu að veita, upplýsingar um stuðning við fjármögnun, tækniyfirfærslu og eflingu getu sem aðilum, sem eru þróunarlönd, er veittur skv. 9., 10. og 11. gr.
10.     Aðilar, sem eru þróunarlönd, ættu að veita upplýsingar um stuðning við fjármögnun, tækniyfirfærslu og eflingu getu sem þeir þarfnast og þeim er veittur skv. 9., 10. og 11. gr.
11.     Upplýsingar, sem hver aðili leggur fram skv. 7. og 9. mgr. þessarar greinar, skulu fara í gegnum sérfræðilega úttekt í samræmi við ákvörðun 1/CP.21. Endurskoðunarferlið skal fela í sér aðstoð við að skilgreina þörf fyrir eflingu getu að því er varðar aðila, sem eru þróunarlönd, sem þurfa á því að halda með hliðsjón af getu sinni. Auk þess skal hver aðili taka þátt í styðjandi, marghliða mati á framförum að því er tekur til viðleitni skv. 9. gr. og eigin framkvæmdar og árangurs við að ná landsákvörðuðu framlagi.
12.     Sérfræðileg úttekt samkvæmt þessari málsgrein skal taka til mats á veittum stuðningi aðilans, eftir því sem skiptir máli, og framkvæmd hans og árangri við að ná landsákvörðuðu framlagi sínu. Úttektin skal einnig tilgreina umbótasvið fyrir aðilann og innihalda endurskoðun á samkvæmni upplýsinga við fyrirkomulag, málsmeðferðarreglur og leiðbeiningar, sem um getur í 13. mgr. þessarar greinar, að teknu tilliti til sveigjanleikans sem aðilanum er veittur skv. 2. mgr. þessarar greinar. Í úttektinni skal gefa sérstakan gaum að landsbundinni getu og aðstæðum hvers aðila, sem er þróunarland, fyrir sig.
13.     Ráðstefna aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, skal, á fyrsta fundi sínum, á grundvelli reynslu af fyrirkomulagi í tengslum við gagnsæi samkvæmt samningnum og til útfærslu á ákvæðum þessarar greinar, samþykkja sameiginlegt fyrirkomulag, málsmeðferðarreglur og leiðbeiningar, eins og við á, til að aðgerðir og stuðningur verði gagnsæ.
14.     Veita skal aðilum, sem eru þróunarlönd, stuðning til framkvæmdar þessarar greinar.
15.     Einnig skal veita aðilum, sem eru þróunarlönd, samfelldan stuðning til að efla getu í tengslum við gagnsæi.

14. gr.

1.     Ráðstefna aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, skal taka stöðuna á framkvæmd Parísarsamningsins (sem kallast „hnattræn athugun á stöðu“) með reglulegu millibili til að meta sameiginlega framvindu við að ná markmiði Parísarsamningsins og langtímamarkmiðum hans. Þetta skal hún gera á yfirgripsmikinn og styðjandi hátt, að teknu tilliti til minnkunar á losun, aðlögunar og framkvæmdar- og stuðningsmáta og í ljósi sanngirni og bestu, fyrirliggjandi vísinda.
2.     Ráðstefna aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, skal takast á hendur fyrstu hnattræna athugun sína á stöðunni á árinu 2023 og á fimm ára fresti eftir það nema ráðstefna aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, ákveði annað.
3.     Niðurstaða úr hnattrænni athugun á stöðu skal vera til upplýsingar fyrir aðilana þegar þeir uppfæra og efla landsákvarðaðar aðgerðir sínar og stuðning í samræmi við viðeigandi ákvæði Parísarsamningsins sem og þegar þeir efla alþjóðlega samvinnu í loftslagsaðgerðum.

15. gr.

1.     Hér með er komið á fót kerfi til að greiða fyrir framkvæmd og stuðla að því að farið sé að ákvæðum Parísarsamningsins.
2.     Kerfið, sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar, skal samanstanda af nefnd sem skal mönnuð sérfræðingum og skal vera til stuðnings og starfa á gagnsæjan hátt sem er án andmæla og án refsiákvæða. Nefndin skal gefa sérstakan gaum að landsbundinni getu og aðstæðum hvers aðila fyrir sig.
3.     Nefndin skal starfa samkvæmt fyrirkomulagi og málsmeðferðarreglum sem ráðstefna aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, samþykkir á fyrsta fundi sínum og gefa ráðstefnu aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, skýrslu árlega.

16. gr.

1.     Ráðstefna aðila, æðsta stofnun samningsins, skal jafnframt vera fundur aðila að Parísarsamningnum.
2.     Aðilum að samningnum, sem eru ekki aðilar að Parísarsamningnum, er heimilt að taka þátt, sem áheyrnarfulltrúar, í málsmeðferð á öllum fundum ráðstefnu aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum. Þegar ráðstefna aðilanna er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum skulu einungis þeir sem eru aðilar að Parísarsamningnum taka ákvarðanir samkvæmt honum.
3.     Þegar ráðstefna aðilanna er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum skal öllum meðlimum skrifstofu ráðstefnu aðilanna, sem koma fram fyrir hönd aðila að samningnum en eru á þeim tíma ekki aðilar að Parísarsamningnum, skipt út fyrir viðbótaraðila sem aðilar að Parísarsamningnum eiga að kjósa úr sínum hópi.
4.     Ráðstefna aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, skal endurskoða framkvæmd Parísarsamningsins reglulega og taka, samkvæmt umboði sínu, þær ákvarðanir sem eru nauðsynlegar til að stuðla að skilvirkri framkvæmd hans. Hún skal inna þau störf af hendi sem henni eru ætluð samkvæmt Parísarsamningnum og skal:
     (a)      koma á fót þeim undirnefndum sem taldar eru nauðsynlegar til framkvæmdar Parísarsamningnum og
     (b)      inna af hendi öll önnur störf sem kunna að vera nauðsynleg til framkvæmdar Parísarsamningnum.
5.     Starfsreglum ráðstefnu aðilanna og fjárhagslegri málsmeðferð, sem beitt er samkvæmt samningnum, skal beitt, að breyttu breytanda, samkvæmt Parísarsamningnum nema ráðstefna aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, ákveði annað með samhljóða samþykki.
6.     Skrifstofan skal boða til fyrsta fundar ráðstefnu aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, í tengslum við fyrsta fund ráðstefnu aðilanna sem er áætlaður eftir gildistökudag Parísarsamningsins. Síðari reglulegir fundnir ráðstefnu aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, skulu haldnir í tengslum við reglulega fundi ráðstefnu aðilanna nema ráðstefna aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, ákveði annað.
7.     Aukafundir ráðstefnu aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, skulu haldnir á öðrum tímum þegar ráðstefna aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, kann að telja það nauðsynlegt eða samkvæmt skriflegri beiðni hvaða aðila sem er, að því tilskildu að beiðnin sé studd af a.m.k. þriðjungi aðilanna innan sex mánaða frá því að skrifstofan sendir aðilunum beiðnina.
8.     Sameinuðu þjóðunum og sérstofnunum þeirra og Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni, sem og sérhverju ríki sem er aðili eða áheyrnarfulltrúi að þeim en ekki aðili að samningnum, er heimilt að senda áheyrnarfulltrúa sína á fundi ráðstefnu aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum. Hverri stofnun eða sérstofnun, hvort heldur landsbundin eða alþjóðleg, opinber eða ekki, sem býr yfir hæfi í málefnum sem falla undir Parísarsamninginn og hefur upplýst skrifstofuna um þá ósk sína að senda áheyrnarfulltrúa á fund ráðstefnu aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, er heimilt að fá aðgang að fundinum nema a.m.k. þriðjungur aðila, sem eru viðstaddir, mótmæli því. Aðgangur og þátttaka áheyrnarfulltrúa skal falla undir þær starfsreglur sem um getur í 5. mgr. þessarar greinar.

17. gr.

1.     Skrifstofan, sem komið var á fót með 8. gr. samningsins, skal jafnframt vera skrifstofa fyrir Parísarsamninginn.
2.     Ákvæði 2. mgr. 8. gr. samningsins um hlutverk skrifstofunnar og 3. mgr. 8. gr. samningsins um ráðstafanir sem gerðar eru varðandi starfsemi skrifstofunnar skulu gilda, að breyttu breytanda, um Parísarsamninginn. Auk þess skal skrifstofan inna af hendi þau störf sem henni eru falin samkvæmt Parísarsamningnum og af hálfu ráðstefnu aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum.

18. gr.

1.     Undirnefndin fyrir vísinda- og tækniráðgjöf og undirnefndin fyrir framkvæmd, sem komið var á fót með 9. og 10. gr. samningsins, skal jafnframt vera undirnefndin fyrir vísinda- og tækniráðgjöf og undirnefndin fyrir framkvæmd að því er varðar Parísarsamninginn. Ákvæði samningsins, sem varða starf þessara tveggja nefnda, skulu gilda, að breyttu breytanda, um Parísarsamninginn. Fundir undirnefndarinnar fyrir vísinda- og tækniráðgjöf og undirnefndarinnar fyrir framkvæmd Parísarsamningsins skulu haldnir í tengslum við fundi undirnefndarinnar fyrir vísinda- og tækniráðgjöf og undirnefndarinnar fyrir framkvæmd samningsins.
2.     Aðilum að samningnum, sem eru ekki aðilar að Parísarsamningnum, er heimilt að taka þátt, sem áheyrnarfulltrúar, í málsmeðferð á öllum fundum undirnefnda. Þegar undirnefndirnar eru jafnframt undirnefndir Parísarsamningsins skulu einungis þeir sem eru aðilar að Parísarsamningnum taka ákvarðanir samkvæmt honum.
3.     Þegar undirnefndirnar, sem komið er á fót skv. 9. og 10. gr. samningsins, inna störf sín af hendi, að því er varðar málefni sem varða Parísarsamninginn, skal öllum meðlimum skrifstofa þessara undirnefnda, sem koma fram fyrir hönd aðila að samningnum en eru á þeim tíma ekki aðilar að Parísarsamningnum, skipt út fyrir viðbótaraðila sem aðilar að Parísarsamningnum eiga að kjósa úr sínum hópi.

19. gr.

1.     Undirnefndir eða annað stofnanafyrirkomulag, sem komið er á fót með samningnum eða samkvæmt honum, annað en það sem um getur í Parísarsamningnum, skal þjóna Parísarsamningnum með ákvörðun ráðstefnu aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum. Ráðstefna aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, skal tilgreina þau störf sem slíkar undirnefndir eða fyrirkomulag eiga að inna af hendi.
2.     Ráðstefnu aðila, sem er jafnframt fundur aðila að Parísarsamningnum, er heimilt að veita slíkum undirnefndum og stofnanafyrirkomulagi frekari leiðbeiningar.

20. gr.

1.     Parísarsamningurinn skal lagður fram til undirritunar og með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki ríkja og svæðisstofnana um efnahagssamvinnu sem eru aðilar að samningnum. Hann skal liggja frammi til undirritunar í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York frá 22. apríl 2016 til 21. apríl 2017. Eftir það skal Parísarsamningurinn liggja frammi til aðildar frá deginum eftir að frestur til undirritunar er liðinn. Skjöl um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild skulu afhent vörsluaðila.
2.     Svæðisstofnun um efnahagssamvinnu, sem gerist aðili að Parísarsamningnum án þess að nokkurt aðildarríkja hennar sé aðili að honum, skal vera bundin af öllum skuldbindingum samkvæmt Parísarsamningnum. Ef um er að ræða svæðisstofnanir um efnahagssamvinnu, þar sem eitt eða fleiri aðildarríki eru aðilar að Parísarsamningnum, skulu stofnunin og aðildarríki hennar taka ákvörðun um hvernig hvert og eitt þeirra efnir skuldbindingar sínar samkvæmt Parísarsamningnum. Í slíkum tilvikum geta stofnunin og aðildarríkin ekki neytt réttar síns samkvæmt Parísarsamningnum samtímis.
3.     Svæðisstofnanir um efnahagssamvinnu skulu í skjölum sínum um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild tilgreina hvert valdsvið þeirra nær í málefnum sem Parísarsamningurinn nær til. Þessar stofnanir skulu enn fremur tilkynna vörsluaðila, sem síðan tilkynnir það aðilum, ef veruleg breyting verður á valdsviði þeirra.

21. gr.

1.     Parísarsamningurinn skal öðlast gildi á þrítugasta degi eftir þann dag sem a.m.k. 55 aðilar að samningnum, sem áætlað er að séu í heildina ábyrgir fyrir a.m.k. 55% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu, hafa afhent skjöl sín um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild. 
2.     „Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu“ merkir, einungis að því er varðar 1. mgr. þessarar greinar, réttasta magn sem tilkynnt er um á eða fyrir þann dag sem aðilar að samningnum samþykkja Parísarsamninginn.
3.     Að því er varðar hvert ríki eða svæðisstofnun um efnahagssamvinnu, sem fullgildir, staðfestir, samþykkir eða gerist aðili að Parísarsamningnum eftir að skilyrðin, sem sett eru fram í 1. mgr. þessarar greinar að því er varðar gildistöku, hafa verið uppfyllt skal Parísarsamningurinn öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að skjal viðkomandi ríkis eða svæðisstofnunar um efnahagssamvinnu um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild hefur verið afhent til vörslu.
4.     Að því er varðar 1. mgr. þessarar greinar skal ekki líta svo á að skjal, sem svæðisstofnun um efnahagssamvinnu afhendir til vörslu, komi til viðbótar þeim skjölum sem aðildarríki hennar afhenda til vörslu.

22. gr.

    Ákvæði 15. gr. samningsins um samþykkt breytinga við samninginn skulu gilda, að breyttu breytanda, um Parísarsamninginn.

23. gr.

1.     Ákvæði 16. gr. samningsins um samþykkt viðauka við samninginn og breytingar á þeim skulu gilda, að breyttu breytanda, um Parísarsamninginn.
2.     Viðaukar við Parísarsamninginn eru óaðskiljanlegur hluti hans og ef ekki er beinlínis kveðið á um annað telst tilvísun í Parísarsamninginn jafnframt tilvísun til allra viðauka við hann. Slíkir viðaukar skulu takmarkast við skrár, eyðublöð og annað lýsandi efni sem er vísindalegs, tæknilegs, málsmeðferðartengds eða stjórnsýslulegs eðlis.

24. gr.

    Ákvæði 14. gr. samningsins um lausn deilumála skulu gilda, að breyttu breytanda, um Parísarsamninginn.

25. gr.

1.     Hver aðili skal hafa eitt atkvæði með þeirri undantekningu sem kveðið er á um í 2. mgr. þessarar greinar.
2.     Svæðisstofnanir um efnahagssamvinnu skulu, í málum sem eru á valdsviði þeirra, neyta atkvæðisréttar síns með sama fjölda atkvæða og fjöldi aðildarríkja þeirra, sem eru aðilar að Parísarsamningnum, segir til um. Slík stofnun skal ekki neyta atkvæðisréttar síns ef eitthvert aðildarríki hennar neytir atkvæðisréttar síns og öfugt.

26. gr.

    Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna er vörsluaðili Parísarsamningsins.

27. gr.

    Óheimilt er að gera fyrirvara við Parísarsamninginn.

28. gr.

1.     Aðili getur sagt upp aðild sinni að Parísarsamningnum með skriflegri tilkynningu til vörsluaðila hvenær sem er að þremur árum liðnum frá því að Parísarsamningurinn öðlaðist gildi gagnvart honum.
2.     Hver slík uppsögn öðlast gildi þegar eitt ár er liðið frá því að vörsluaðili tók við tilkynningu um uppsögn eða þann dag, að liðnu þessu ári, sem kann að vera tilgreindur í tilkynningu um uppsögn.
3.     Litið skal svo á að hver sá aðili sem segir upp aðild sinni að samningnum hafi einnig sagt upp aðild sinni að Parísarsamningnum.

29. gr.

    Frumrit Parísarsamningsins skal falið aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu, en textar hans á arabísku, ensku, frönsku, kínversku, rússnesku og spænsku eru jafngildir.

    GJÖRT í París tólfta dag desembermánaðar tvö þúsund og fimmtán.
    ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirrituð, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað Parísarsamninginn.Fylgiskjal II.


Annex


     Paris Agreement


     The Parties to this Agreement,
     Being Parties to the United Nations Framework Convention on Climate Change, hereinafter referred to as “the Convention”,
     Pursuant to the Durban Platform for Enhanced Action established by decision 1/CP.17 of the Conference of the Parties to the Convention at its seventeenth session,
     In pursuit of the objective of the Convention, and being guided by its principles, including the principle of equity and common but differentiated responsibilities and respective capabilities, in the light of different national circumstances,
     Recognizing the need for an effective and progressive response to the urgent threat of climate change on the basis of the best available scientific knowledge,
     Also recognizing the specific needs and special circumstances of developing country Parties, especially those that are particularly vulnerable to the adverse effects of climate change, as provided for in the Convention,
     Taking full account of the specific needs and special situations of the least developed countries with regard to funding and transfer of technology,
     Recognizing that Parties may be affected not only by climate change, but also by the impacts of the measures taken in response to it,
     Emphasizing the intrinsic relationship that climate change actions, responses and impacts have with equitable access to sustainable development and eradication of poverty,
     Recognizing the fundamental priority of safeguarding food security and ending hunger, and the particular vulnerabilities of food production systems to the adverse impacts of climate change,
     Taking into account the imperatives of a just transition of the workforce and the creation of decent work and quality jobs in accordance with nationally defined development priorities,
     Acknowledging that climate change is a common concern of humankind, Parties should, when taking action to address climate change, respect, promote and consider their respective obligations on human rights, the right to health, the rights of indigenous peoples, local communities, migrants, children, persons with disabilities and people in vulnerable situations and the right to development, as well as gender equality, empowerment of women and intergenerational equity,
     Recognizing the importance of the conservation and enhancement, as appropriate, of sinks and reservoirs of the greenhouse gases referred to in the Convention,
     Noting the importance of ensuring the integrity of all ecosystems, including oceans, and the protection of biodiversity, recognized by some cultures as Mother Earth, and noting the importance for some of the concept of “climate justice”, when taking action to address climate change,
     Affirming the importance of education, training, public awareness, public participation, public access to information and cooperation at all levels on the matters addressed in this Agreement,
     Recognizing the importance of the engagements of all levels of government and various actors, in accordance with respective national legislations of Parties, in addressing climate change,
     Also recognizing that sustainable lifestyles and sustainable patterns of consumption and production, with developed country Parties taking the lead, play an important role in addressing climate change,
    Have agreed as follows:

Article 1

    For the purpose of this Agreement, the definitions contained in Article 1 of the Convention shall apply. In addition:
     (a)      “Convention” means the United Nations Framework Convention on Climate Change, adopted in New York on 9 May 1992;
     (b)      “Conference of the Parties” means the Conference of the Parties to the Convention;
     (c)      “Party” means a Party to this Agreement.

Article 2

1.     This Agreement, in enhancing the implementation of the Convention, including its objective, aims to strengthen the global response to the threat of climate change, in the context of sustainable development and efforts to eradicate poverty, including by:
     (a)      Holding the increase in the global average temperature to well below 2 °C above pre-industrial levels and pursuing efforts to limit the temperature increase to 1.5 °C above pre-industrial levels, recognizing that this would significantly reduce the risks and impacts of climate change;
     (b)      Increasing the ability to adapt to the adverse impacts of climate change and foster climate resilience and low greenhouse gas emissions development, in a manner that does not threaten food production; and
     (c)      Making finance flows consistent with a pathway towards low greenhouse gas emissions and climate-resilient development.
2.     This Agreement will be implemented to reflect equity and the principle of common but differentiated responsibilities and respective capabilities, in the light of different national circumstances.

Article 3

    As nationally determined contributions to the global response to climate change, all Parties are to undertake and communicate ambitious efforts as defined in Articles 4, 7, 9, 10, 11 and 13 with the view to achieving the purpose of this Agreement as set out in Article 2. The efforts of all Parties will represent a progression over time, while recognizing the need to support developing country Parties for the effective implementation of this Agreement.

Article 4

1.     In order to achieve the long-term temperature goal set out in Article 2, Parties aim to reach global peaking of greenhouse gas emissions as soon as possible, recognizing that peaking will take longer for developing country Parties, and to undertake rapid reductions thereafter in accordance with best available science, so as to achieve a balance between anthropogenic emissions by sources and removals by sinks of greenhouse gases in the second half of this century, on the basis of equity, and in the context of sustainable development and efforts to eradicate poverty.
2.     Each Party shall prepare, communicate and maintain successive nationally determined contributions that it intends to achieve. Parties shall pursue domestic mitigation measures, with the aim of achieving the objectives of such contributions.
3.     Each Party's successive nationally determined contribution will represent a progression beyond the Party's then current nationally determined contribution and reflect its highest possible ambition, reflecting its common but differentiated responsibilities and respective capabilities, in the light of different national circumstances.
4.     Developed country Parties should continue taking the lead by undertaking economy- wide absolute emission reduction targets. Developing country Parties should continue enhancing their mitigation efforts, and are encouraged to move over time towards economy- wide emission reduction or limitation targets in the light of different national circumstances.
5.     Support shall be provided to developing country Parties for the implementation of this Article, in accordance with Articles 9, 10 and 11, recognizing that enhanced support for developing country Parties will allow for higher ambition in their actions.
6.     The least developed countries and small island developing States may prepare and communicate strategies, plans and actions for low greenhouse gas emissions development reflecting their special circumstances.
7.     Mitigation co-benefits resulting from Parties' adaptation actions and/or economic diversification plans can contribute to mitigation outcomes under this Article.
8.     In communicating their nationally determined contributions, all Parties shall provide the information necessary for clarity, transparency and understanding in accordance with decision 1/CP.21 and any relevant decisions of the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement.
9.     Each Party shall communicate a nationally determined contribution every five years in accordance with decision 1/CP.21 and any relevant decisions of the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement and be informed by the outcomes of the global stocktake referred to in Article 14.
10.     The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement shall consider common time frames for nationally determined contributions at its first session.
11.     A Party may at any time adjust its existing nationally determined contribution with a view to enhancing its level of ambition, in accordance with guidance adopted by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement.
12.     Nationally determined contributions communicated by Parties shall be recorded in a public registry maintained by the secretariat.
13.     Parties shall account for their nationally determined contributions. In accounting for anthropogenic emissions and removals corresponding to their nationally determined contributions, Parties shall promote environmental integrity, transparency, accuracy, completeness, comparability and consistency, and ensure the avoidance of double counting, in accordance with guidance adopted by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement.
14.     In the context of their nationally determined contributions, when recognizing and implementing mitigation actions with respect to anthropogenic emissions and removals, Parties should take into account, as appropriate, existing methods and guidance under the Convention, in the light of the provisions of paragraph 13 of this Article.
15.     Parties shall take into consideration in the implementation of this Agreement the concerns of Parties with economies most affected by the impacts of response measures, particularly developing country Parties.
16.     Parties, including regional economic integration organizations and their member States, that have reached an agreement to act jointly under paragraph 2 of this Article shall notify the secretariat of the terms of that agreement, including the emission level allocated to each Party within the relevant time period, when they communicate their nationally determined contributions. The secretariat shall in turn inform the Parties and signatories to the Convention of the terms of that agreement.
17.     Each party to such an agreement shall be responsible for its emission level as set out in the agreement referred to in paragraph 16 of this Article in accordance with paragraphs 13 and 14 of this Article and Articles 13 and 15.
18.     If Parties acting jointly do so in the framework of, and together with, a regional economic integration organization which is itself a Party to this Agreement, each member State of that regional economic integration organization individually, and together with the regional economic integration organization, shall be responsible for its emission level as set out in the agreement communicated under paragraph 16 of this Article in accordance with paragraphs 13 and 14 of this Article and Articles 13 and 15.
19.     All Parties should strive to formulate and communicate long-term low greenhouse gas emission development strategies, mindful of Article 2 taking into account their common but differentiated responsibilities and respective capabilities, in the light of different national circumstances.

Article 5

1.     Parties should take action to conserve and enhance, as appropriate, sinks and reservoirs of greenhouse gases as referred to in Article 4, paragraph 1(d), of the Convention, including forests.
2.     Parties are encouraged to take action to implement and support, including through results-based payments, the existing framework as set out in related guidance and decisions already agreed under the Convention for: policy approaches and positive incentives for activities relating to reducing emissions from deforestation and forest degradation, and the role of conservation, sustainable management of forests and enhancement of forest carbon stocks in developing countries; and alternative policy approaches, such as joint mitigation and adaptation approaches for the integral and sustainable management of forests, while reaffirming the importance of incentivizing, as appropriate, non-carbon benefits associated with such approaches.

Article 6

1.     Parties recognize that some Parties choose to pursue voluntary cooperation in the implementation of their nationally determined contributions to allow for higher ambition in their mitigation and adaptation actions and to promote sustainable development and environmental integrity.
2.     Parties shall, where engaging on a voluntary basis in cooperative approaches that involve the use of internationally transferred mitigation outcomes towards nationally determined contributions, promote sustainable development and ensure environmental integrity and transparency, including in governance, and shall apply robust accounting to ensure, inter alia, the avoidance of double counting, consistent with guidance adopted by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement.
3.     The use of internationally transferred mitigation outcomes to achieve nationally determined contributions under this Agreement shall be voluntary and authorized by participating Parties.
4.     A mechanism to contribute to the mitigation of greenhouse gas emissions and support sustainable development is hereby established under the authority and guidance of the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement for use by Parties on a voluntary basis. It shall be supervised by a body designated by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement, and shall aim:
     (a)      To promote the mitigation of greenhouse gas emissions while fostering sustainable development;
     (b)      To incentivize and facilitate participation in the mitigation of greenhouse gas emissions by public and private entities authorized by a Party;
     (c)      To contribute to the reduction of emission levels in the host Party, which will benefit from mitigation activities resulting in emission reductions that can also be used by another Party to fulfil its nationally determined contribution; and
     (d)      To deliver an overall mitigation in global emissions.
5.     Emission reductions resulting from the mechanism referred to in paragraph 4 of this Article shall not be used to demonstrate achievement of the host Party's nationally determined contribution if used by another Party to demonstrate achievement of its nationally determined contribution.
6.     The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement shall ensure that a share of the proceeds from activities under the mechanism referred to in paragraph 4 of this Article is used to cover administrative expenses as well as to assist developing country Parties that are particularly vulnerable to the adverse effects of climate change to meet the costs of adaptation.
7.     The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement shall adopt rules, modalities and procedures for the mechanism referred to in paragraph 4 of this Article at its first session.
8.     Parties recognize the importance of integrated, holistic and balanced non-market approaches being available to Parties to assist in the implementation of their nationally determined contributions, in the context of sustainable development and poverty eradication, in a coordinated and effective manner, including through, inter alia, mitigation, adaptation, finance, technology transfer and capacity-building, as appropriate. These approaches shall aim to:
     (a)      Promote mitigation and adaptation ambition;
     (b)      Enhance public and private sector participation in the implementation of nationally determined contributions; and
     (c)      Enable opportunities for coordination across instruments and relevant institutional arrangements.
9.     A framework for non-market approaches to sustainable development is hereby defined to promote the non-market approaches referred to in paragraph 8 of this Article.

Article 7

1.     Parties hereby establish the global goal on adaptation of enhancing adaptive capacity, strengthening resilience and reducing vulnerability to climate change, with a view to contributing to sustainable development and ensuring an adequate adaptation response in the context of the temperature goal referred to in Article 2.
2.     Parties recognize that adaptation is a global challenge faced by all with local, subnational, national, regional and international dimensions, and that it is a key component of and makes a contribution to the long-term global response to climate change to protect people, livelihoods and ecosystems, taking into account the urgent and immediate needs of those developing country Parties that are particularly vulnerable to the adverse effects of climate change.
3.     The adaptation efforts of developing country Parties shall be recognized, in accordance with the modalities to be adopted by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement at its first session.
4.     Parties recognize that the current need for adaptation is significant and that greater levels of mitigation can reduce the need for additional adaptation efforts, and that greater adaptation needs can involve greater adaptation costs.
5.     Parties acknowledge that adaptation action should follow a country-driven, gender- responsive, participatory and fully transparent approach, taking into consideration vulnerable groups, communities and ecosystems, and should be based on and guided by the best available science and, as appropriate, traditional knowledge, knowledge of indigenous peoples and local knowledge systems, with a view to integrating adaptation into relevant socioeconomic and environmental policies and actions, where appropriate.
6.     Parties recognize the importance of support for and international cooperation on adaptation efforts and the importance of taking into account the needs of developing country Parties, especially those that are particularly vulnerable to the adverse effects of climate change.
7.     Parties should strengthen their cooperation on enhancing action on adaptation, taking into account the Cancun Adaptation Framework, including with regard to:
     (a)      Sharing information, good practices, experiences and lessons learned, including, as appropriate, as these relate to science, planning, policies and implementation in relation to adaptation actions;
     (b)      Strengthening institutional arrangements, including those under the Convention that serve this Agreement, to support the synthesis of relevant information and knowledge, and the provision of technical support and guidance to Parties;
     (c)      Strengthening scientific knowledge on climate, including research, systematic observation of the climate system and early warning systems, in a manner that informs climate services and supports decision-making;
     (d)      Assisting developing country Parties in identifying effective adaptation practices, adaptation needs, priorities, support provided and received for adaptation actions and efforts, and challenges and gaps, in a manner consistent with encouraging good practices; and
     (e)      Improving the effectiveness and durability of adaptation actions.
8.     United Nations specialized organizations and agencies are encouraged to support the efforts of Parties to implement the actions referred to in paragraph 7 of this Article, taking into account the provisions of paragraph 5 of this Article.
9.     Each Party shall, as appropriate, engage in adaptation planning processes and the implementation of actions, including the development or enhancement of relevant plans, policies and/or contributions, which may include:
     (a)      The implementation of adaptation actions, undertakings and/or efforts;
     (b)      The process to formulate and implement national adaptation plans;
     (c)      The assessment of climate change impacts and vulnerability, with a view to formulating nationally determined prioritized actions, taking into account vulnerable people, places and ecosystems;
     (d)      Monitoring and evaluating and learning from adaptation plans, policies, programmes and actions; and
     (e)      Building the resilience of socioeconomic and ecological systems, including through economic diversification and sustainable management of natural resources.
10.     Each Party should, as appropriate, submit and update periodically an adaptation communication, which may include its priorities, implementation and support needs, plans and actions, without creating any additional burden for developing country Parties.
11.     The adaptation communication referred to in paragraph 10 of this Article shall be, as appropriate, submitted and updated periodically, as a component of or in conjunction with other communications or documents, including a national adaptation plan, a nationally determined contribution as referred to in Article 4, paragraph 2, and/or a national communication.
12.     The adaptation communications referred to in paragraph 10 of this Article shall be recorded in a public registry maintained by the secretariat.
13.     Continuous and enhanced international support shall be provided to developing country Parties for the implementation of paragraphs 7, 9, 10 and 11 of this Article, in accordance with the provisions of Articles 9, 10 and 11.
14.     The global stocktake referred to in Article 14 shall, inter alia:
     (a)      Recognize adaptation efforts of developing country Parties;
     (b)      Enhance the implementation of adaptation action taking into account the adaptation communication referred to in paragraph 10 of this Article;
     (c)      Review the adequacy and effectiveness of adaptation and support provided for adaptation; and
     (d)      Review the overall progress made in achieving the global goal on adaptation referred to in paragraph 1 of this Article.

Article 8

1.     Parties recognize the importance of averting, minimizing and addressing loss and damage associated with the adverse effects of climate change, including extreme weather events and slow onset events, and the role of sustainable development in reducing the risk of loss and damage.
2.     The Warsaw International Mechanism for Loss and Damage associated with Climate Change Impacts shall be subject to the authority and guidance of the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement and may be enhanced and strengthened, as determined by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement.
2.     Parties should enhance understanding, action and support, including through the Warsaw International Mechanism, as appropriate, on a cooperative and facilitative basis with respect to loss and damage associated with the adverse effects of climate change.
4.     Accordingly, areas of cooperation and facilitation to enhance understanding, action and support may include:
     (a)      Early warning systems;
     (b)      Emergency preparedness;
     (c)      Slow onset events;
     (d)      Events that may involve irreversible and permanent loss and damage;
     (e)      Comprehensive risk assessment and management;
     (f)      Risk insurance facilities, climate risk pooling and other insurance solutions;
     (g)      Non-economic losses; and
     (h)      Resilience of communities, livelihoods and ecosystems.
5.     The Warsaw International Mechanism shall collaborate with existing bodies and expert groups under the Agreement, as well as relevant organizations and expert bodies outside the Agreement.

Article 9

1.     Developed country Parties shall provide financial resources to assist developing country Parties with respect to both mitigation and adaptation in continuation of their existing obligations under the Convention.
2.     Other Parties are encouraged to provide or continue to provide such support voluntarily.
3.     As part of a global effort, developed country Parties should continue to take the lead in mobilizing climate finance from a wide variety of sources, instruments and channels, noting the significant role of public funds, through a variety of actions, including supporting country-driven strategies, and taking into account the needs and priorities of developing country Parties. Such mobilization of climate finance should represent a progression beyond previous efforts.
4.     The provision of scaled-up financial resources should aim to achieve a balance between adaptation and mitigation, taking into account country-driven strategies, and the priorities and needs of developing country Parties, especially those that are particularly vulnerable to the adverse effects of climate change and have significant capacity constraints, such as the least developed countries and small island developing States, considering the need for public and grant-based resources for adaptation.
5.     Developed country Parties shall biennially communicate indicative quantitative and qualitative information related to paragraphs 1 and 3 of this Article, as applicable, including, as available, projected levels of public financial resources to be provided to developing country Parties. Other Parties providing resources are encouraged to communicate biennially such information on a voluntary basis.
6.     The global stocktake referred to in Article 14 shall take into account the relevant information provided by developed country Parties and/or Agreement bodies on efforts related to climate finance.
7.     Developed country Parties shall provide transparent and consistent information on support for developing country Parties provided and mobilized through public interventions biennially in accordance with the modalities, procedures and guidelines to be adopted by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement, at its first session, as stipulated in Article 13, paragraph 13. Other Parties are encouraged to do so.
8.     The Financial Mechanism of the Convention, including its operating entities, shall serve as the financial mechanism of this Agreement.
9.     The institutions serving this Agreement, including the operating entities of the Financial Mechanism of the Convention, shall aim to ensure efficient access to financial resources through simplified approval procedures and enhanced readiness support for developing country Parties, in particular for the least developed countries and small island developing States, in the context of their national climate strategies and plans.

Article 10

1.     Parties share a long-term vision on the importance of fully realizing technology development and transfer in order to improve resilience to climate change and to reduce greenhouse gas emissions.
2.     Parties, noting the importance of technology for the implementation of mitigation and adaptation actions under this Agreement and recognizing existing technology deployment and dissemination efforts, shall strengthen cooperative action on technology development and transfer.
3.     The Technology Mechanism established under the Convention shall serve this Agreement.
4.     A technology framework is hereby established to provide overarching guidance to the work of the Technology Mechanism in promoting and facilitating enhanced action on technology development and transfer in order to support the implementation of this Agreement, in pursuit of the long-term vision referred to in paragraph 1 of this Article.
5.     Accelerating, encouraging and enabling innovation is critical for an effective, long-term global response to climate change and promoting economic growth and sustainable development. Such effort shall be, as appropriate, supported, including by the Technology Mechanism and, through financial means, by the Financial Mechanism of the Convention, for collaborative approaches to research and development, and facilitating access to technology, in particular for early stages of the technology cycle, to developing country Parties.
6.     Support, including financial support, shall be provided to developing country Parties for the implementation of this Article, including for strengthening cooperative action on technology development and transfer at different stages of the technology cycle, with a view to achieving a balance between support for mitigation and adaptation. The global stocktake referred to in Article 14 shall take into account available information on efforts related to support on technology development and transfer for developing country Parties.

Article 11

1.     Capacity-building under this Agreement should enhance the capacity and ability of developing country Parties, in particular countries with the least capacity, such as the least developed countries, and those that are particularly vulnerable to the adverse effects of climate change, such as small island developing States, to take effective climate change action, including, inter alia, to implement adaptation and mitigation actions, and should facilitate technology development, dissemination and deployment, access to climate finance, relevant aspects of education, training and public awareness, and the transparent, timely and accurate communication of information.
2.     Capacity-building should be country-driven, based on and responsive to national needs, and foster country ownership of Parties, in particular, for developing country Parties, including at the national, subnational and local levels. Capacity-building should be guided by lessons learned, including those from capacity-building activities under the Convention, and should be an effective, iterative process that is participatory, cross-cutting and gender- responsive.
3.     All Parties should cooperate to enhance the capacity of developing country Parties to implement this Agreement. Developed country Parties should enhance support for capacity- building actions in developing country Parties.
4.     All Parties enhancing the capacity of developing country Parties to implement this Agreement, including through regional, bilateral and multilateral approaches, shall regularly communicate on these actions or measures on capacity-building. Developing country Parties should regularly communicate progress made on implementing capacity-building plans, policies, actions or measures to implement this Agreement.
5.     Capacity-building activities shall be enhanced through appropriate institutional arrangements to support the implementation of this Agreement, including the appropriate institutional arrangements established under the Convention that serve this Agreement. The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement shall, at its first session, consider and adopt a decision on the initial institutional arrangements for capacity-building.

Article 12

    Parties shall cooperate in taking measures, as appropriate, to enhance climate change education, training, public awareness, public participation and public access to information, recognizing the importance of these steps with respect to enhancing actions under this Agreement.

Article 13

1.     In order to build mutual trust and confidence and to promote effective implementation, an enhanced transparency framework for action and support, with built-in flexibility which takes into account Parties' different capacities and builds upon collective experience is hereby established.
2.     The transparency framework shall provide flexibility in the implementation of the provisions of this Article to those developing country Parties that need it in the light of their capacities. The modalities, procedures and guidelines referred to in paragraph 13 of this Article shall reflect such flexibility.
3.     The transparency framework shall build on and enhance the transparency arrangements under the Convention, recognizing the special circumstances of the least developed countries and small island developing States, and be implemented in a facilitative, non-intrusive, non- punitive manner, respectful of national sovereignty, and avoid placing undue burden on Parties.
4.     The transparency arrangements under the Convention, including national communications, biennial reports and biennial update reports, international assessment and review and international consultation and analysis, shall form part of the experience drawn upon for the development of the modalities, procedures and guidelines under paragraph 13 of this Article.
5.     The purpose of the framework for transparency of action is to provide a clear understanding of climate change action in the light of the objective of the Convention as set out in its Article 2, including clarity and tracking of progress towards achieving Parties' individual nationally determined contributions under Article 4, and Parties' adaptation actions under Article 7, including good practices, priorities, needs and gaps, to inform the global stocktake under Article 14.
6.     The purpose of the framework for transparency of support is to provide clarity on support provided and received by relevant individual Parties in the context of climate change actions under Articles 4, 7, 9, 10 and 11, and, to the extent possible, to provide a full overview of aggregate financial support provided, to inform the global stocktake under Article 14.
7.     Each Party shall regularly provide the following information:
     (a)      A national inventory report of anthropogenic emissions by sources and removals by sinks of greenhouse gases, prepared using good practice methodologies accepted by the Intergovernmental Panel on Climate Change and agreed upon by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement; and
     (b)      Information necessary to track progress made in implementing and achieving its nationally determined contribution under Article 4.
8.     Each Party should also provide information related to climate change impacts and adaptation under Article 7, as appropriate.
9.     Developed country Parties shall, and other Parties that provide support should, provide information on financial, technology transfer and capacity-building support provided to developing country Parties under Articles 9, 10 and 11.
10.     Developing country Parties should provide information on financial, technology transfer and capacity-building support needed and received under Articles 9, 10 and 11.
11.     Information submitted by each Party under paragraphs 7 and 9 of this Article shall undergo a technical expert review, in accordance with decision 1/CP.21. For those developing country Parties that need it in the light of their capacities, the review process shall include assistance in identifying capacity-building needs. In addition, each Party shall participate in a facilitative, multilateral consideration of progress with respect to efforts under Article 9, and its respective implementation and achievement of its nationally determined contribution.
12.     The technical expert review under this paragraph shall consist of a consideration of the Party's support provided, as relevant, and its implementation and achievement of its nationally determined contribution. The review shall also identify areas of improvement for the Party, and include a review of the consistency of the information with the modalities, procedures and guidelines referred to in paragraph 13 of this Article, taking into account the flexibility accorded to the Party under paragraph 2 of this Article. The review shall pay particular attention to the respective national capabilities and circumstances of developing country Parties.
13.     The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement shall, at its first session, building on experience from the arrangements related to transparency under the Convention, and elaborating on the provisions in this Article, adopt common modalities, procedures and guidelines, as appropriate, for the transparency of action and support.
14.     Support shall be provided to developing countries for the implementation of this Article.
15.     Support shall also be provided for the building of transparency-related capacity of developing country Parties on a continuous basis.

Article 14

1.     The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement shall periodically take stock of the implementation of this Agreement to assess the collective progress towards achieving the purpose of this Agreement and its long-term goals (referred to as the “global stocktake”). It shall do so in a comprehensive and facilitative manner, considering mitigation, adaptation and the means of implementation and support, and in the light of equity and the best available science.
2.     The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement shall undertake its first global stocktake in 2023 and every five years thereafter unless otherwise decided by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement.
3.     The outcome of the global stocktake shall inform Parties in updating and enhancing, in a nationally determined manner, their actions and support in accordance with the relevant provisions of this Agreement, as well as in enhancing international cooperation for climate action.

Article 15

1.     A mechanism to facilitate implementation of and promote compliance with the provisions of this Agreement is hereby established.
2.     The mechanism referred to in paragraph 1 of this Article shall consist of a committee that shall be expert-based and facilitative in nature and function in a manner that is transparent, non-adversarial and non-punitive. The committee shall pay particular attention to the respective national capabilities and circumstances of Parties.
3.     The committee shall operate under the modalities and procedures adopted by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement at its first session and report annually to the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement.

Article 16

1.     The Conference of the Parties, the supreme body of the Convention, shall serve as the meeting of the Parties to this Agreement.
2.     Parties to the Convention that are not Parties to this Agreement may participate as observers in the proceedings of any session of the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement. When the Conference of the Parties serves as the meeting of the Parties to this Agreement, decisions under this Agreement shall be taken only by those that are Parties to this Agreement.
3.     When the Conference of the Parties serves as the meeting of the Parties to this Agreement, any member of the Bureau of the Conference of the Parties representing a Party to the Convention but, at that time, not a Party to this Agreement, shall be replaced by an additional member to be elected by and from amongst the Parties to this Agreement.
4.     The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement shall keep under regular review the implementation of this Agreement and shall make, within its mandate, the decisions necessary to promote its effective implementation. It shall perform the functions assigned to it by this Agreement and shall:
     (a)      Establish such subsidiary bodies as deemed necessary for the implementation of this Agreement; and
     (b)      Exercise such other functions as may be required for the implementation of this Agreement.
5.     The rules of procedure of the Conference of the Parties and the financial procedures applied under the Convention shall be applied mutatis mutandis under this Agreement, except as may be otherwise decided by consensus by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement.
6.     The first session of the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement shall be convened by the secretariat in conjunction with the first session of the Conference of the Parties that is scheduled after the date of entry into force of this Agreement. Subsequent ordinary sessions of the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement shall be held in conjunction with ordinary sessions of the Conference of the Parties, unless otherwise decided by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement.
7.     Extraordinary sessions of the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement shall be held at such other times as may be deemed necessary by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement or at the written request of any Party, provided that, within six months of the request being communicated to the Parties by the secretariat, it is supported by at least one third of the Parties.
8.     The United Nations and its specialized agencies and the International Atomic Energy Agency, as well as any State member thereof or observers thereto not party to the Convention, may be represented at sessions of the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement as observers. Any body or agency, whether national or international, governmental or non-governmental, which is qualified in matters covered by this Agreement and which has informed the secretariat of its wish to be represented at a session of the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement as an observer, may be so admitted unless at least one third of the Parties present object. The admission and participation of observers shall be subject to the rules of procedure referred to in paragraph 5 of this Article.

Article 17

1.     The secretariat established by Article 8 of the Convention shall serve as the secretariat of this Agreement.
2.     Article 8, paragraph 2, of the Convention on the functions of the secretariat, and Article 8, paragraph 3, of the Convention, on the arrangements made for the functioning of the secretariat, shall apply mutatis mutandis to this Agreement. The secretariat shall, in addition, exercise the functions assigned to it under this Agreement and by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement.

Article 18

1.     The Subsidiary Body for Scientific and Technological Advice and the Subsidiary Body for Implementation established by Articles 9 and 10 of the Convention shall serve, respectively, as the Subsidiary Body for Scientific and Technological Advice and the Subsidiary Body for Implementation of this Agreement. The provisions of the Convention relating to the functioning of these two bodies shall apply mutatis mutandis to this Agreement. Sessions of the meetings of the Subsidiary Body for Scientific and Technological Advice and the Subsidiary Body for Implementation of this Agreement shall be held in conjunction with the meetings of, respectively, the Subsidiary Body for Scientific and Technological Advice and the Subsidiary Body for Implementation of the Convention.
2.     Parties to the Convention that are not Parties to this Agreement may participate as observers in the proceedings of any session of the subsidiary bodies. When the subsidiary bodies serve as the subsidiary bodies of this Agreement, decisions under this Agreement shall be taken only by those that are Parties to this Agreement.
3.     When the subsidiary bodies established by Articles 9 and 10 of the Convention exercise their functions with regard to matters concerning this Agreement, any member of the bureaux of those subsidiary bodies representing a Party to the Convention but, at that time, not a Party to this Agreement, shall be replaced by an additional member to be elected by and from amongst the Parties to this Agreement.

Article 19

1.     Subsidiary bodies or other institutional arrangements established by or under the Convention, other than those referred to in this Agreement, shall serve this Agreement upon a decision of the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement. The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement shall specify the functions to be exercised by such subsidiary bodies or arrangements.
2.     The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Agreement may provide further guidance to such subsidiary bodies and institutional arrangements.

Article 20

1.     This Agreement shall be open for signature and subject to ratification, acceptance or approval by States and regional economic integration organizations that are Parties to the Convention. It shall be open for signature at the United Nations Headquarters in New York from 22 April 2016 to 21 April 2017. Thereafter, this Agreement shall be open for accession from the day following the date on which it is closed for signature. Instruments of ratification, acceptance, approval or accession shall be deposited with the Depositary.
2.     Any regional economic integration organization that becomes a Party to this Agreement without any of its member States being a Party shall be bound by all the obligations under this Agreement. In the case of regional economic integration organizations with one or more member States that are Parties to this Agreement, the organization and its member States shall decide on their respective responsibilities for the performance of their obligations under this Agreement. In such cases, the organization and the member States shall not be entitled to exercise rights under this Agreement concurrently.
3.     In their instruments of ratification, acceptance, approval or accession, regional economic integration organizations shall declare the extent of their competence with respect to the matters governed by this Agreement. These organizations shall also inform the Depositary, who shall in turn inform the Parties, of any substantial modification in the extent of their competence.

Article 21

1.     This Agreement shall enter into force on the thirtieth day after the date on which at least 55 Parties to the Convention accounting in total for at least an estimated 55 per cent of the total global greenhouse gas emissions have deposited their instruments of ratification, acceptance, approval or accession. 
2.     Solely for the limited purpose of paragraph 1 of this Article, “total global greenhouse gas emissions” means the most up-to-date amount communicated on or before the date of adoption of this Agreement by the Parties to the Convention.
3.     For each State or regional economic integration organization that ratifies, accepts or approves this Agreement or accedes thereto after the conditions set out in paragraph 1 of this Article for entry into force have been fulfilled, this Agreement shall enter into force on the thirtieth day after the date of deposit by such State or regional economic integration organization of its instrument of ratification, acceptance, approval or accession.
4.     For the purposes of paragraph 1 of this Article, any instrument deposited by a regional economic integration organization shall not be counted as additional to those deposited by its member States.

Article 22

    The provisions of Article 15 of the Convention on the adoption of amendments to the Convention shall apply mutatis mutandis to this Agreement.

Article 23

1.     The provisions of Article 16 of the Convention on the adoption and amendment of annexes to the Convention shall apply mutatis mutandis to this Agreement.
2.     Annexes to this Agreement shall form an integral part thereof and, unless otherwise expressly provided for, a reference to this Agreement constitutes at the same time a reference to any annexes thereto. Such annexes shall be restricted to lists, forms and any other material of a descriptive nature that is of a scientific, technical, procedural or administrative character.

Article 24

    The provisions of Article 14 of the Convention on settlement of disputes shall apply mutatis mutandis to this Agreement.

Article 25

1.     Each Party shall have one vote, except as provided for in paragraph 2 of this Article.
2.     Regional economic integration organizations, in matters within their competence, shall exercise their right to vote with a number of votes equal to the number of their member States that are Parties to this Agreement. Such an organization shall not exercise its right to vote if any of its member States exercises its right, and vice versa.

Article 26

    The Secretary-General of the United Nations shall be the Depositary of this Agreement.

Article 27

    No reservations may be made to this Agreement.

Article 28

1.     At any time after three years from the date on which this Agreement has entered into force for a Party, that Party may withdraw from this Agreement by giving written notification to the Depositary.
2.     Any such withdrawal shall take effect upon expiry of one year from the date of receipt by the Depositary of the notification of withdrawal, or on such later date as may be specified in the notification of withdrawal.
3.     Any Party that withdraws from the Convention shall be considered as also having withdrawn from this Agreement.

Article 29

    The original of this Agreement, of which the Arabic, Chinese, English, French, Russian and Spanish texts are equally authentic, shall be deposited with the Secretary-General of the United Nations.

    DONE at Paris this twelfth day of December two thousand and fifteen.
    IN WITNESS WHEREOF, the undersigned, being duly authorized to that effect, have signed this Agreement.