Ferill 384. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1716  —  384. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um Seðlabanka Íslands og lögum um neytendalán (erlend lán, varúðarreglur).

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Fyrirliggjandi frumvarpi er ætlað að samræma heimildir til að veita lán tengd erlendum gjaldmiðlum með varúðarsjónarmið að leiðarljósi. Eftirlitsstofnun EFTA telur algert bann íslenskra laga við gengistryggingu lána ekki samræmast meginreglu EES-samningsins um frjálst fjármagnsflæði. Samkvæmt gildandi VI. kafla laga um vexti og verðtryggingu er óheimilt að binda lánsfjárhæð í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla en lögin banna hins vegar ekki lánveitingar í erlendum gjaldmiðli. Frá sjónarmiði fjármálastöðugleika eru lán í erlendum gjaldmiðlum og gengistryggð lán svipuð með tilliti til þeirrar áhættu sem þeim fylgir fyrir lántaka, lánveitanda og þjóðarbúið.
    Frumvarpinu er ætlað leitast við að samræma umgjörð um lán sem tengjast erlendum gjaldmiðlum og er í 1. gr. frumvarpsins lagt til að sömu heimildir verði látnar gilda um lán­veitingar í erlendum gjaldmiðlum og gengistryggð lán í íslenskum krónum. Í 3. gr. er lagt til að Seðlabanka Íslands verði heimilt í þágu fjármálastöðugleika að setja lánastofnunum reglur um hámark á útlánum tengdum erlendum gjaldmiðlum til aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu. Með því er leitast við að koma í veg fyrir að slíkar lánveitingar skapi kerfislega áhættu í fjármálakerfinu eða ógni fjármálastöðugleika. Loks eru lagðar til breyt­ingar á lögum um neytendalán sem miða að því að óheimilt verði að veita neytendum lán tengd erlendum gjaldmiðlum nema að uppfylltri skyldu lánveitanda um að framkvæma greiðslumat. Minni hlutinn bendir á að frumvarp svipað þessu var lagt fram á 144. löggjafar­þingi (561. mál) og fékk það greinargóða umfjöllun í efnahags- og viðskiptanefnd og fram hefur komið að leitast hefur verið við að koma til móts við þau sjónarmið sem þá voru helst til umræðu í frumvarpinu sem hér liggur fyrir.

Um greiðslumat vegna lána tengdra erlendum gjaldmiðlum.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að afnema fortakslaust bann við gengistryggðum lánum. og verða við kröfu Eftirlitsstofnunar EFTA um að það sé gert. Minni hlutinn leggur til að farið sé með gát þegar veitt eru lán tengd erlendum gjaldmiðlum. Í því samhengi bendir minni hlutinn á að í a-lið 7. gr. frumvarpsins er lagt til að greiðslumat skuli ávallt framkvæmt þegar neytandi tekur lán tengt erlendum gjaldmiðlum. Enn fremur er gert ráð fyrir að óheimilt verði að veita slíkt lán nema þegar greiðslumat leiðir í ljós að viðkomandi lántaki hafi nægilegar tekjur í þeim gjaldmiðli sem lánið tengist til að standa undir greiðslubyrði vegna þess, hann stenst greiðslumat þar sem gert er ráð fyrir verulegum gengisbreytingum og verulegum hækkunum á vöxtum eða stenst greiðslumat skv. 7. gr. frumvarpsins og leggur fram viðeigandi fjárhagslegar tryggingar sem eyða gjaldeyrisáhættu hans vegna lánsins á lánstímanum. Þannig á að vera tryggt að neytandi hafi viðhlítandi fjárhagslega burði til að standast verulegar breytingar, hvort heldur sem er á gengi eða vöxtum, á lánstímanum. Í ljósi þessa telur minni hlutinn að það samræmist varúðarsjónarmiðum að heimila lánastofnunum að veita neytendum lán sem tengjast erlendum gjaldmiðlum að því gefnu að neytandi standist greiðslumat eins og lagt er til í frumvarpinu.
    Þá bendir minni hlutinn á í þessu sambandi að unnið er að tillögum til breytinga á sveitar­stjórnarlögum sem miða að því að takmarka heimildir sveitarfélaga til þess að taka lán tengd erlendum gjaldmiðlum sem munu takmarka áhættu þjóðarbúsins enn frekar. Þar getur komið til álita að takmarka lántökur sveitarfélaga sérstaklega, óháð þeim heildartakmörkunum sem eru til umræðu í þessu frumvarpi. Á meðan engar slíkar tillögur liggja fyrir er nauðsynlegt að sveitarfélögin falli undir heimildina í 3. gr.

Heimildir Seðlabanka skv. 3. gr.
    Í umsögnum var nokkuð rætt um hvort heimildir löggjafans til að fela Seðlabanka Íslands að setja lánastofnunum reglur á þann hátt sem mælt er fyrir um í 3. gr. frumvarpsins standist lagaáskilnaðarreglur stjórnarskrár. Minni hlutinn tekur undir sjónarmið sem rakin eru í minnisblaði sem barst frá fjármála- og efnahagsráðuneyti 14. mars síðastliðinn. Þar segir að ekki eigi að leika vafi á heimild löggjafans til þess að fela Seðlabanka Íslands að setja lána­stofnunum reglur sem að stuðla að fjármálastöðugleika, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands. Í 3. gr. er mælt fyrir um þær leiðir sem Seðlabankinn getur valið telji hann þörf á að mæta aðstæðum sem líklegar eru til að ógna fjármálastöðugleika. Bankinn getur sett reglur um hámörk, lengd lánstíma og/eða nauðsynlegar tryggingar. Minni hlutinn tekur undir með meiri hlutanum sem telur ljóst af ákvæðinu að slíkar reglur verði ekki settar nema í þágu fjármálastöðugleika og við afmörkun hans er byggt á ákvæðum laga nr. 66/2014, um fjármálastöðugleikaráð, eins og fram kemur í minnisblaði ráðuneytis. Gert er ráð fyrir að reglurnar verði kynntar fjármálastöðugleikaráði áður en þær taka gildi.

Breytiréttur neytenda.
    Í frumvarpi til laga um fasteignalán til neytenda sem lagt var fram síðastliðinn vetur (383. mál) er í 21. gr. að finna ákvæði samhljóða 8. gr. frumvarps þessa þar sem kveðið er á um sérstakar skyldur við greiðslumat í tengslum við lán tengd erlendum gjaldmiðli. Í 32. gr. frumvarps til laga um fasteignalán til neytenda er jafnframt að finna ákvæði þess efnis að neytandi skuli upplýstur um gengisbreytingar auk þess sem í ákvæðinu er kveðið á um skilyrðislausan rétt neytenda til að breyta eftirstöðvum láns hafi reglulegar eftirstöðvar þess hækkað um 30% eða meira á síðastliðnum fimm árum. Ákvæði þess efnis er ekki að finna í því frumvarpi sem hér liggur fyrir og telur minni hlutinn þörf á að kveðið sé á um upplýs­ingaskyldu og breytirétt lánveitanda til að upplýsa neytanda með sambærilegum hætti þegar um neytendalán er að ræða sem ekki telst vera fasteignalán. Minni hlutinn leggur því til breytingartillögu til að koma til móts við þessi sjónarmið.
    Minni hlutinn styður jafnframt þær tvær smávægilegu leiðréttingar sem meiri hlutinn leggur til á 6. og 8. gr. frumvarpsins. Annars vegar til að leiðrétta hugtakanotkun í 6. gr. þar sem réttara er að nota orðið „neytandi“ í stað „lántaki“. Hins vegar til leiðréttingar á fyrir­sögn í 8. gr. þar sem eðlilegra er að nota orðið „lána“ í stað orðsins „fasteignalána“.
    Í ljósi framangreinds leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breyt­ingu sem lögð er til á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 27. september 2016.

Brynjar Níelsson,
frsm.
Sigríður Á. Andersen. Vilhjálmur Bjarnason.