Ferill 333. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 444  —  333. mál.
Stjórnartillaga.Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2017 um breytingu á VII. viðauka (Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) og X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn.


Frá utanríkisráðherra.    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2017, um breytingu á VII. viðauka (Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) og X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/55/ESB frá 20. nóvember 2013 um breytingu á tilskipun 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi og á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012 um samvinnu á sviði stjórnsýslu fyrir tilstilli upplýsingakerfisins fyrir innri markaðinn („reglugerðin um IM-upplýsingakerfið“).

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2017, um breytingu á VII. viðauka (Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) og X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 (sbr. fylgiskjal I), og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/55/ESB frá 20. nóvember 2013 um breytingu á tilskipun 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi og á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012 um samvinnu á sviði stjórnsýslu fyrir tilstilli upplýsingakerfisins fyrir innri markaðinn („reglugerðin um IM-upplýsingakerfið“) (sbr. fylgiskjal II).
    Þar sem lagastoð var ekki fyrir hendi fyrir framangreindri gerð var ákvörðun nr. 94/2017 tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir. Hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið gerður þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþings fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/55/ESB frá 20. nóvember 2013 um breytingu á tilskipun 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi og á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012 um samvinnu á sviði stjórnsýslu fyrir tilstilli upplýsingakerfisins fyrir innri markaðinn („reglugerðin um IM-upplýsingakerfið“).
    Með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/55/ESB frá 20. nóvember 2013 er mælt fyrir um breytingar á tilskipun 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Helstu nýmæli og breytingar sem tilskipunin mælir fyrir um eru eftirfarandi:

Evrópskt fagskírteini.
    Með tilskipuninni er tekið upp svokallað „evrópskt fagskírteini“ (e. European Professional Card). Evrópska fagskírteininu er ætlað að ýta undir frjálsa för fagfólks og tryggja skilvirkari og gagnsærri viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Með evrópska fagskírteininu geta umsækjendur sótt um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi með rafrænum hætti fyrir þær starfsgreinar sem falla undir evrópska fagskírteinið.

Takmarkaður aðgangur að starfsgrein.
    Samkvæmt tilskipuninni skal heimilt að veita takmarkaðan aðgang að starfsgrein (e. partial access). Slíkt á við ef svo mikill munur er á þeim kröfum sem gerðar eru til viðkomandi starfsgreinar í heimaríki viðkomandi og væntanlegu gistiríki að kröfur í því síðarnefnda jafngiltu því að umsækjandinn þyrfti að ljúka fullu námi og þjálfun í gistiríkinu til að fá fullan aðgang að viðkomandi starfsgrein í því ríki.

Upplýsinga- og þjónustumiðstöð.
    Tilskipunin mælir fyrir um að aðildarríki skuli nýta upplýsinga- og þjónustumiðstöðvar (Points of Single Contact, PSC) sem komið var á fót í samræmi við kröfur þjónustutilskipunar Evrópusambandsins (tilskipun 2006/123/EB) til þess að auðvelda viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Í þeim tilgangi skulu upplýsinga- og þjónustumiðstöðvarnar m.a. hafa aðgengilegar upplýsingar um efnið, þ.m.t. skrá yfir allar lögverndaðar starfsgreinar í viðkomandi aðildarríki.

Sameiginlegar menntunarkröfur og sameiginlegt lokapróf.
    Heimilt verður taka upp sameiginlegar menntunarkröfur eða sameiginlegt lokapróf fyrir starfsgreinar þar sem þess er óskað og koma þannig á sjálfkrafa viðurkenningu fyrir þær greinar.

Starfsnám í öðru EES-ríki.
    Nemendur í starfsnámi skulu eiga þess kost að fá viðurkennt starfsnám eða starfsreynslutíma innan löggiltra starfsgreina sem fer fram í öðru EES-ríki en í heimalandinu.

Athugun á núgildandi fyrirkomulagi lögverndunar starfsgreina.
    Tilskipunin mælir enn fremur fyrir um að rýna beri frekar núgildandi fyrirkomulag lögverndunar starfsgreina, einkum til að tryggja að núgildandi kröfur feli ekki í sér beina eða óbeina mismunun á grundvelli ríkisfangs eða búsetu, að þær séu settar á grundvelli brýnna almannahagsmuna og að kröfur um lögverndun starfsréttinda séu til þess fallnar að ná þeim markmiðum sem stefnt er að og gangi ekki lengra en nauðsynlegt er að til að ná þeim markmiðum.

    Tilskipun 2005/36/EB var tekin upp á Íslandi með lögum nr. 26/2010, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, reglugerð nr. 879/2010 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, reglugerð nr. 461/2011 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum og reglugerð nr. 585/2011 um viðurkenningu á menntun og starfsreynslu til starfa í löggiltri iðn hér á landi.
    Með tilskipun 2013/55/ESB verða ekki grundvallarbreytingar á tilhögun viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi á Evrópska efnahagssvæðinu. Réttur manna til viðurkenningar er hinn sami og áður, en tekin eru skref til að tryggja að framkvæmdin verði enn einfaldari og skjótvirkari, m.a. með innleiðingu evrópsks fagskírteinis fyrir einstakar starfsgreinar þar sem afgreiðslufrestir eru styttir.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing tilskipunar 2013/55/ESB kallar á breytingar á lögum nr. 26/2010, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi. Mennta- og menningarmálaráðherra mun leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögunum á yfirstandandi löggjafarþingi.Fylgiskjal I.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2017, frá 5. maí 2017.

www.althingi.is/altext/pdf/148/fylgiskjol/s0444-f_I.pdf
Fylgiskjal II.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/55/ESB frá 20. nóvember 2013 um breytingu á tilskipun 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi og á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012 um samvinnu á sviði stjórnsýslu fyrir tilstilliupplýsingakerfisins fyrir innri markaðinn („reglugerðin um IM-upplýsingakerfið“).

www.althingi.is/altext/pdf/148/fylgiskjol/s0444-f_II.pdf