Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 868, 148. löggjafarþing 331. mál: Matvælastofnun.
Lög nr. 30 7. maí 2018.

Lög um Matvælastofnun.


1. gr.

Matvælastofnun.
     Matvælastofnun er ríkisstofnun undir yfirstjórn ráðherra. Stofnunin fer með stjórnsýslu matvælamála samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum sem stofnunin starfar eftir.
     Matvælastofnun skal með starfsemi sinni stuðla að neytendavernd, heilbrigði og velferð dýra, heilbrigði plantna og öryggi, heilnæmi og gæðum matvæla.

2. gr.

Hlutverk.
     Hlutverk Matvælastofnunar er að:
  1. fara með stjórnsýslu og eftirlit í samræmi við lög þessi og önnur lög, m.a. varðandi matvæli, dýraheilbrigði, dýravelferð, jarðrækt, fóður, sóttvarnir og viðbragðsáætlanir, fiskeldi, kjötmat, inn- og útflutningseftirlit og stuðningsgreiðslur í landbúnaði,
  2. veita ráðherra ráðgjöf um þá málaflokka sem falla undir starfssvið stofnunarinnar, þ.m.t. aðstoð við stefnumótun, undirbúning laga og stjórnvaldsfyrirmæla og alþjóðlegt samstarf,
  3. veita öðrum stjórnvöldum ráðgjöf og umsagnir um mál á starfssviði stofnunarinnar,
  4. vinna að samræmingu og skilvirkni opinbers eftirlits á starfssviði sínu,
  5. vinna að aðgengi fyrir íslenskar afurðir að erlendum mörkuðum,
  6. veita hagsmunaaðilum og almenningi fræðslu um málefni á starfssviði stofnunarinnar.


3. gr.

Skipulag o.fl.
     Ráðherra skipar forstjóra Matvælastofnunar til fimm ára í senn. Hann ber ábyrgð á starfsemi og rekstri stofnunarinnar, mótar helstu áherslur, verkefni og starfshætti og annast daglega stjórn hennar.
     Matvælastofnun skiptist í svið eftir viðfangsefnum. Forstjóri ræður sviðsstjóra yfir hvert svið. Ráðherra skipar þó sviðsstjóra yfir sérstöku sviði sem fer með málefni dýrasjúkdóma og varna gegn þeim og dýravelferðar. Sá sviðsstjóri skal vera dýralæknir að mennt og nefnast yfirdýralæknir. Hann er skipaður til fimm ára. Ráðherra setur honum erindisbréf með hliðsjón af þeim verkefnum sem yfirdýralækni eru sérstaklega falin í lögum. Yfirdýralæknir heyrir undir forstjóra. Forstjóri ræður annað starfsfólk nema annað sé tekið fram í lögum.
     Matvælastofnun starfrækir umdæmisstofur sem sinna eftirlitsstörfum og ákveður ráðherra fjölda umdæma og mörk milli þeirra. Forstjóri ákveður staðsetningu umdæmisstofa og ræður dýralækni sem veitir hverri stofu forstöðu og fer með þau verkefni sem héraðsdýralækni eru falin með lögum.
     Matvælastofnun starfrækir landamærastöðvar eftir þörfum til að hafa eftirlit með innflutningi búfjárafurða, sjávarafurða og lifandi ferskvatns- eða sjávardýra frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
     Matvælastofnun skal árlega gera áætlun um störf stofnunarinnar, birta skýrslu um starfsemi sína og setja stefnu um starfsemi sína og meginverkefni í samræmi við ákvæði laga um opinber fjármál.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um skipulag og starfsemi Matvælastofnunar að fengnum tillögum forstjóra.

4. gr.

Samstarfsráð.
     Matvælastofnun skal hafa samvinnu og samráð við þá aðila, félög, samtök og stofnanir sem tengjast starfsemi hennar. Við stofnunina skal starfa samstarfsráð þar sem reglubundið samráð og miðlun upplýsinga á sér stað. Meðal annars skal leggja fram til umræðu í ráðinu áætlun skv. 3. gr. og kynna nýjar áherslur og fyrirhugaðar breytingar á starfi stofnunarinnar. Ráðherra skipar samstarfsráðið, ákveður fjölda fulltrúa og hverjir tilnefna þá auk Matvælastofnunar. Ráðið skal koma saman eigi sjaldnar en tvisvar á ári, en ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um starfsemi þess.

5. gr.

Samningar við aðila um framkvæmd eftirlits.
     Ráðherra getur ákveðið að Matvælastofnun skuli með samningi fela aðilum að annast afmarkaða hluta af lögbundnu eftirliti fyrir sína hönd. Ákvörðun um framsal eftirlits sem fellur undir gildissvið EES-samningsins skal þó tekin af Matvælastofnun.
     Aðili skv. 1. mgr. skal eftir atvikum hafa fullnægjandi menntun, starfsréttindi eða viðeigandi faggildingu. Ráðherra skal með reglugerð mæla nánar fyrir um hvaða kröfur skuli gerðar hverju sinni til aðila sem fara með eftirlit.
     Aðila skv. 1. mgr. verður ekki, nema á grundvelli lagaheimildar, falið að taka ákvörðun um innheimtu gjalda eða beitingu viðurlaga eða aðrar sambærilegar ákvarðanir um rétt eða skyldu þeirra sem eftirlit beinist að.
     Aðilar skv. 1. mgr. og starfsmenn þeirra skulu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd eftirlits og leynt á að fara. Um þagnarskylduna gilda ákvæði 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, sem og þau lögmæltu þagnarskylduákvæði sem gilda um starfsmenn Matvælastofnunar sjálfrar eftir þeim sérlögum sem mæla fyrir um viðkomandi eftirlit. Brot á þagnarskyldu samkvæmt þessari málsgrein skal varða refsingu skv. 136. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum.
     Um samning skv. 1. mgr. fer eftir 40. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, að því leyti sem strangari eða ítarlegri kröfur koma ekki fram í lögum þessum eða öðrum lögum sem stofnunin starfar eftir og mæla fyrir um eftirlit.

6. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög um Matvælastofnun, nr. 80/2005, með síðari breytingum.

Samþykkt á Alþingi 26. apríl 2018.