Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1467, 131. löggjafarþing 700. mál: Landbúnaðarstofnun.
Lög nr. 80 24. maí 2005.

Lög um Landbúnaðarstofnun.


1. gr.

     Ríkið starfrækir stofnun sem nefnist Landbúnaðarstofnun. Aðsetur stofnunarinnar er þar sem ráðherra ákveður. Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til.

2. gr.

     Hlutverk stofnunarinnar er:
  1. að annast starfsemi sem yfirdýralækni er falin samkvæmt lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, lögum nr. 93/1995, um matvæli, lögum nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, lögum nr. 15/1994, um dýravernd, sóttvarnalögum, nr. 19/1997, lögum nr. 94/1962, um almannavarnir, lögum nr. 67/1990, um Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, lögum nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, lyfjalögum, nr. 93/1994, lögum nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar, lögum nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl., og lögum nr. 55/2002, um útflutning hrossa,
  2. að annast starfsemi sem aðfangaeftirlitinu er falin samkvæmt lögum nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, og lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr,
  3. að annast starfsemi sem landbúnaðarráðherra hefur falið plöntueftirliti Landbúnaðarháskóla Íslands samkvæmt lögum nr. 51/1981, um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum,
  4. að annast starfsemi sem kjötmatsformanni er falin samkvæmt lögum nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum,
  5. að annast starfsemi sem veiðimálastjóra er falin samkvæmt lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði,
  6. að annast starfsemi sem Bændasamtök Íslands hafa annast skv. 1. og 2. mgr. 38. gr., 4. mgr. 39. gr., a-lið 1. mgr. 42. gr., 2. mgr. 44. gr., 1. og 3. mgr. 53. gr., 2. mgr. 54. gr. og 2. mgr. 82. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, og 4. gr., 11. gr. og 13. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl.,
  7. að annast verkefni sem landbúnaðarráðherra eru falin skv. 4. og 5. gr. laga nr. 162/1994, um lífræna landbúnaðarframleiðslu.


3. gr.

     Við stofnunina starfar forstjóri skipaður af landbúnaðarráðherra til fimm ára í senn. Skal forstjóri hafa háskólamenntun. Hann skal jafnframt hafa öðlast stjórnunarreynslu. Forstjóri fer með yfirstjórn stofnunarinnar, mótar stefnu í störfum hennar og ber ábyrgð á fjárhagslegum rekstri hennar.

4. gr.

     Landbúnaðarstofnun skiptist í svið eftir viðfangsefnum. Forstjóri ræður sviðsstjóra yfir hvert svið og skulu þeir hafa aflað sér bæði háskólamenntunar og sérþekkingar á viðkomandi sviði. Þó skal landbúnaðarráðherra skipa sviðsstjóra yfir sérstöku sviði sem fara skal með dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Sá sviðsstjóri skal vera dýralæknir að mennt og nefnast yfirdýralæknir. Skal hann heyra undir forstjóra sem jafnframt setur honum erindisbréf með hliðsjón af þeim verkefnum sem yfirdýralækni eru sérstaklega falin með lögum. Yfirdýralæknir skal vera staðgengill forstjóra. Forstjóri ræður annað starfsfólk nema annað sé tekið fram í lögum.
     Landbúnaðarráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um skipulag og starfsemi stofnunarinnar að fengnum tillögum forstjóra.

5. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2006.
     Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 78/1935, um einkarétt ríkisstjórnarinnar til þess að flytja trjáplöntur til landsins, og um eftirlit með innflutningi trjáfræs. Auk þess eru stofnanir aðfangaeftirlits, yfirdýralæknis og veiðimálastjóra lagðar niður en Landbúnaðarstofnun tekur við réttindum og skyldum þessara stofnana gagnvart einstaklingum, lögaðilum og stofnunum. Við gildistöku laga þessara renna eignir aðfangaeftirlitsins, yfirdýralæknis og veiðimálastjóra til Landbúnaðarstofnunar. Að auki fellur skipun forstöðumanna þessara stofnana niður frá og með gildistöku laga þessara og fer um réttindi og skyldur þeirra samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Skipun kjötmatsformanns fellur niður frá og með sama tíma og fer um réttindi og skyldur hans samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Við gildistöku laga þessara renna eignir embættis kjötmatsformanns til Landbúnaðarstofnunar og tekur hún við réttindum og skyldum embættisins gagnvart einstaklingum, lögaðilum og stofnunum. Eins fellur niður við gildistöku laga þessara skipun landbúnaðarráðherra í störf héraðsdýralækna og dýralæknis fisksjúkdóma og fer um réttindi og skyldur þeirra samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Á sama tíma færist plöntueftirlit Landbúnaðarháskóla Íslands yfir til Landbúnaðarstofnunar.
     Stjórnvaldsfyrirmæli sem sett hafa verið samkvæmt lögum sem nefnd eru í 2. gr. halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þau brjóta ekki í bága við ný lög þar til ný stjórnvaldsfyrirmæli hafa verið sett.
     Leyfi sem gefin hafa verið út á grundvelli laga sem nefnd eru í 2. gr. halda gildi sínu þar til gildistími þeirra rennur út, þau uppfylla ekki lengur skilyrði laga, eða þar til ný leyfi eru útgefin.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Störf hjá aðfangaeftirlitinu, yfirdýralækni, veiðimálastjóra, kjötmatsformanni og plöntueftirliti Landbúnaðarháskóla Íslands eru lögð niður við gildistöku þessara laga. Starfsfólki framangreindra skulu boðin störf hjá Landbúnaðarstofnun. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði.

II.
     Þrátt fyrir 5. gr. skal forstjóri Landbúnaðarstofnunar skipaður frá 1. ágúst 2005 og skal hann frá þeim tíma undirbúa gildistöku laga þessara í samstarfi við landbúnaðarráðuneytið.

Samþykkt á Alþingi 11. maí 2005.