Ferill 562. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1102  —  562. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988 (kaup og sala þjónustu milli landa, áskriftir og sala fréttablaða o.fl.).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt S. Benediktsson, Hlyn Ingason, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur og Steinar Örn Steinarsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Kristján Gunnarsson, Jón Tryggvason, Óskar Albertsson og Jarþrúði Jóhannsdóttur frá ríkisskattstjóra. Nefndinni bárust umsagnir frá Blaðamannafélagi Íslands, Félagi rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði, Myndformi ehf., ríkisskattstjóra, Símanum hf. og Sýn hf.
    Í frumvarpinu er í fyrsta lagi kveðið á um breytingar á lögum um virðisaukaskatt að því er varðar kaup og sölu á vöru og þjónustu á milli landa, sbr. 1. og 5. gr. frumvarpsins, en núgildandi ákvæði laganna þar að lútandi eru að stofni til frá árinu 1997 og komin til ára sinna vegna örra tækniframfara og breyttra viðskiptahátta. Breytingarnar byggjast einkum á skýrslu starfshóps um kaup og sölu á vöru og þjónustu milli landa en í þeim felst sú meginregla að skattlagningarstaður á veitingu þjónustu í milliríkjaviðskiptum verður sá staður þar sem neysla þjónustunnar á sér stað út frá búsetu kaupanda þjónustunnar. Í umsögn ríkisskattstjóra um málið er tekið fram að embættið telji breytingarnar einfalda skattframkvæmd þar sem ekki verður lengur fyrir hendi sama þörf á að greina og leggja mat á viðskiptasamninga til þess að leiða í ljós hvar seld þjónusta frá Íslandi og aðkeypt þjónusta erlendis frá teljist vera nýtt og þar með skattskyld. Leggur embættið áherslu á að átt sé við sölu eða afhendingu á þjónustu sem fellur undir gildissvið virðisaukaskattslaga og telur nefndin einsýnt að svo sé.
    Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum um rafræna sölu og áskriftir á tímaritum og fréttablöðum í samræmi við tillögur nefndar um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Er sala rafrænnar útgáfu tímarita og blaða færð í neðra þrep virðisaukaskatts líkt og gert var við rafrænar bækur og rafræna útgáfu tónlistar með lögum nr. 121/2011 og líkt og við á um sölu tímarita og dagblaða á pappírsformi. Jafnframt falla áskriftargjöld útvarps- og sjónvarpsstöðva undir neðra skattþrep en í umsögn Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði (FRÍSK) til nefndarinnar er gagnrýnt að hið sama eigi ekki við um t.d. kvikmyndahús og myndveituþjónustu (VOD), ekki síst þar sem slík þjónusta eigi undir högg að sækja vegna erlendrar samkeppni. Nefndin hefur skilning á sjónarmiðum FRÍSK hvað þetta varðar og telur nauðsynlegt að huga að samkeppnisstöðu þessara aðila gagnvart erlendum efnisveitum á borð við Netflix. Í umsögn FRÍSK er m.a. bent á könnun sem Gallup gerði fyrir rúmu ári síðan og sýndi að 44% íslenskra heimila væru með áskrift að Netflix. Notkun slíkra efnisveitna hefur aukist mjög eftir að þær opnuðu fyrir löglega þjónustu hér á landi og má því ætla að markaðshlutdeild þeirra hafi aukist frá því að framangreind könnun var gerð. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að þessi sjónarmið verði tekin til skoðunar.
    Í þriðja lagi er í frumvarpinu kveðið á um að rekstraraðilum fólksbifreiða sem fengið hafa sérstakt leyfi Samgöngustofu til farþegaflutninga í ferðaþjónustu, sbr. 10. gr. laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017, verði heimilt að telja skatt af aðföngum vegna þeirra viðskipta sem innskatt.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, styður þetta nefndarálit.
    Þorsteinn Víglundsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir nefndarálitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda.

Alþingi, 5. júní 2018.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Þorsteinn Víglundsson. Brynjar Níelsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Oddný G. Harðardóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Karl Liljendal Hólmgeirsson. Ásgerður K. Gylfadóttir.