Ferill 577. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1172  —  577. mál.
Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um ábyrgðarmenn og greiðsluaðlögun.


     1.      Með hvaða hætti uppfyllir embætti umboðsmanns skuldara leiðbeiningarskyldu sína samkvæmt stjórnsýslulögum gagnvart ábyrgðarmönnum skuldara í greiðsluaðlögun, umfram það að senda þeim skriflegt bréf, sbr. svar við fyrirspurn á þingskjali 781? Koma í slíkum bréfum fram:
                  a.      upplýsingar um rétt ábyrgðarmanns til að lýsa kröfu fyrir umsjónarmanni og öðlast andmælarétt gagnvart frumvarpi um greiðsluaðlögun,
                  b.      leiðbeiningar um könnun á skuldbindingargildi ábyrgða, ógildingu þeirra og úrræði sem hægt er að leita í því skyni, og hver eru þau úrræði,
                  c.      leiðbeiningar um hvernig ábyrgðarmaður, sem hefur tapað hluta af endurkröfu sinni vegna greiðsluaðlögunar aðalskuldara, getur sótt um lækkun tekjuskattsstofns skv. 65. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003?
    Í þeim tilvikum þegar embætti umboðsmanns skuldara annast upplýsingaöflun á grundvelli samþykkis umsækjanda aflar embættið upplýsinga frá kröfuhöfum um hvaða kröfur þeir eiga á hendur umsækjanda og hverjir séu ábyrgðarmenn vegna skulda hans. Slík upplýsingaöflun fer fram áður en tekin er stjórnvaldsákvörðun um hvort samþykkja beri umsókn um greiðsluaðlögun, sbr. 5. mgr. 4. gr. og 5. gr. laga nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, með síðari breytingum.

a)
    Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, með síðari breytingum, skal ábyrgðarmönnum kunngert að greiðsluaðlögunarumleitanir séu hafnar með þeim hætti að umsjónarmaður sendir þeim afrit af innköllun í Lögbirtingablaði. Þá skal upplýst um frestun greiðslna, svokallað „greiðsluskjól“, skv. 11. gr. laganna. Ábyrgðarmenn eru þannig upplýstir um, með sérstöku bréfi, að kröfuhöfum sé óheimilt að krefjast greiðslu hjá ábyrgðarmanni skuldarans eða ráðast í hvers konar aðgerðir til innheimtu kröfu á meðan greiðsluskjóli stendur. Í bréfinu er vakin athygli á því að greiðsluaðlögun aðalskuldara geti leitt til þess að ábyrgð viðkomandi verði virk. Bréfinu fylgir afrit af innköllun í Lögbirtingablaði. Sú innköllun hvetur alla kröfuhafa að lýsa kröfum í ferli greiðsluaðlögunar. Innköllunin er jafnframt hvatning til ábyrgðarmanns að lýsa kröfu í ferli greiðsluaðlögunar ef hann telur sig eiga kröfu á hendur skuldara. Þess ber þó að geta að reynslan hefur sýnt að kröfur ábyrgðamanna á hendur skuldara eru ekki orðnar virkar á þessum tíma þannig að það er sjaldan sem ábyrgðamenn geti lýst kröfum í ferli greiðsluaðlögunar.

b)
    Í fyrrgreindu bréfi sem sent er ábyrgðarmanni til upplýsinga um að kröfuhöfum sé óheimilt að krefjast greiðslu eða ráðast í innheimtuaðgerðir meðan á greiðsluskjóli stendur koma ekki fram almennar leiðbeiningar um skuldbindingargildi ábyrgða, þar sem embættið fylgir ákvæði 10. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga um efni slíks bréfs. Í ljósi þess að umboðsmaður skuldara er eingöngu í samskiptum við þann einstakling sem leitar greiðsluaðlögunar en ekki ábyrgðarmenn á skuldbindingum hans veitir embættið, eftir atvikum hverju sinni, skuldara upplýsingar um skuldbindingargildi ábyrgða í þeim tilgangi að hann geti upplýst ábyrgðamenn sína.
    Allir ábyrgðarmenn sem leita til embættisins vegna ábyrgðarskuldbindinga sinna fá leiðbeiningar og ráðgjöf. Sæki ábyrgðarmaður um ráðgjöf vegna fjárhagsvanda er framkvæmt heildstætt greiðsluerfiðleikamat þar sem leitað er leiða til lausna, þar á meðal með því að hvetja ábyrgðarmann að skoða gildi ábyrgðarskuldbindingar. Embættið veitir ekki þá þjónustu að kanna gildi ábyrgðarskuldbindinga fyrir ábyrgðarmenn en veitir hins vegar ítarlegar leiðbeiningar á heimasíðu, www.ums.is/frodleikur/abyrgdarskuldbindingar/. Þar koma m.a. fram upplýsingar um til hvaða atriða litið er til við mat á því hvort ábyrgðaskuldbinding er gild eða ógild, hvað ábyrgðamaður geti gert til að kanna það og einnig að sé ágreiningur um gildi ábyrgðarskuldbindingar geti ábyrgðarmaður leitað til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Þá getur ráðgjafi umboðsmanns skuldara annast milligöngu í samningaviðræðum við kröfuhafa um viðhlítandi lausn, t.d. varðandi greiðslu ábyrgðarskuldbindinga. Í sumum tilfellum er fjárhagsvandinn slíkur að ábyrgðarmanni er leiðbeint að sækja um úrræði greiðsluaðlögunar hjá embættinu. Þá býður embættið jafnframt upp á fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta, sbr. lög nr. 9/2014, um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.

c)
    Ráðgjafar umboðsmanns skuldara hafa leiðbeint aðilum varðandi lækkun á tekjuskattstofni vegna greiddra ábyrgðarskuldbindinga skv. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, auk þess sem embættið bendir á þann möguleika í „spurt og svarað“ á heimsíðu embættisins.

     2.      Kemur til greina að upplýsa að öðru leyti um almennt innihald slíkra bréfa, svo sem með því að birta sýnishorn af stöðluðum eða dæmigerðum texta þeirra?
    Meðfylgjandi er sýniseintak af stöðluðu bréfi sem sent er til ábyrgðarmanna til að upplýsa um að greiðsluaðlögunarumleitanir séu hafnar. Í bréfinu kemur m.a. fram að tímabundin frestun greiðslna skv. 11. gr. laga nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, með síðari breytingum, sé hafin og hvaða kröfum ábyrgðarmaður sé í ábyrgð fyrir. Vakin er athygli á því að greiðsluaðlögun geti leitt til þess að ábyrgð verði virk.

     3.      Gefst ábyrgðarmönnum skuldara í greiðsluaðlögun kostur á aðstoð frá embætti umboðsmanns skuldara við gerð kröfulýsingar og aðra nauðsynlega réttindagæslu í tengslum við greiðsluaðlögun aðalskuldara? Er ábyrgðarmönnum boðin slík aðstoð eða þurfa þeir að sækjast sérstaklega eftir henni og þá hvernig?
    Í ákvæði 2. mgr. 1. gr. laga nr. 100/2010, um umboðsmann skuldara, með síðari breytingum, er hlutverk umboðsmann skuldara rakið. Af ákvæðinu fæst ráðið að aðstoð til handa kröfuhöfum við gerð kröfulýsinga, þar á meðal ábyrgðarmönnum, fellur ekki undir hlutverk embættisins. Með vísan til þess veitir embætti umboðsmanns skuldara ekki slíka aðstoð. Embættið veitir hins vegar upplýsingar um hvað beri að koma fram í kröfulýsingu sé leitað eftir slíkum upplýsingum.
    Eins og fram hefur komið hefur framkvæmdin sýnt að ábyrgðarmenn hafa alla jafna ekki átt virkan endurkröfurétt þegar skuldari leitar greiðsluaðlögunar þar sem þeir hafa ekki þurft, á þeim tímapunkti, að greiða af kröfunni. Þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn skuldara er gefin út innköllun þar sem lýsa skal kröfum innan fjögurra vikna frá því að innköllun birtist í Lögbirtingablaði. Þar sem kröfur ábyrgðamanna eru að jafnaði ekki virkar á þeim tíma geta þeir ekki lýst kröfum í ferli greiðsluaðlögunar.

     4.      Í hversu mörgum tilvikum hafa ábyrgðarmenn lýst kröfum fyrir umsjónarmönnum vegna ábyrgða sem féllu á þá við greiðsluaðlögun skuldara, samanborið við heildarfjölda tilfella þar sem greiðsluaðlögun hefur virkjað slíkar ábyrgðir, sundurliðað eftir árum?
    Ítrekað er að reynslan hefur sýnt að ábyrgðamenn hafa alla jafna ekki átt virkan endurkröfurétt þegar skuldari leitar greiðsluaðlögunar og hafa þeir því öllu jöfnu ekki lýst kröfum í ferli greiðsluaðlögunar. Umboðsmaður skuldara getur ekki framkvæmt greiningu á því í hversu mörgum tilvikum ábyrgðarmenn hafa lýst kröfum í ferli greiðsluaðlögunar þar sem endurkröfuréttur hefur orðið virkur áður en ferli greiðsluaðlögunar hófst. Þá hefur embættið ekki tök á að nálgast upplýsingar um í hversu mörgum tilfellum greiðsluaðlögun hefur virkjað slíkar ábyrgðir. Það er undir hlutaðeigandi kröfuhafa komið að taka ákvörðun um það hvort eða hvenær hann hefur innheimtuaðgerðir, að því gefnu að hann hafi heimild til þess. Umboðsmaður skuldara býr því ekki yfir upplýsingum um það hvort eða hvenær kröfuhafar ráðast í innheimtuaðgerðir vegna ábyrgðarskuldbindinga eftir að greiðsluskjóli lýkur í einstaka málum.

     5.      Hvernig er ábyrgðarmönnum skuldara sem sjá ekki fram á að geta staðið undir ábyrgðum sem falla á þá vegna greiðsluaðlögunar aðalskuldara leiðbeint um úrræði sem þeir geta leitað vegna þess og hver eru þau úrræði?
    Vísað er til svars við 1. tölul. fyrirspurnar þessarar.

     6.      Fulltrúa hverra hefur ráðherra í hyggju að kalla til samráðs við endurskoðun laga um greiðsluaðlögun einstaklinga og setningu reglugerðar á grundvelli þeirra og hvernig hyggst ráðherra tryggja að sjónarmið viðskiptamanna fjármálastofnana komist á framfæri í því starfi?
    Drög að frumvarpi verður sent helstu hagsmunaaðilum til umsagnar, þar á meðal Hagsmunasamtökum heimilanna, þegar þau liggja fyrir. Enn fremur verður frumvarpið sett inn á samráðsgáttina á Ísland.is, sem opnuð var 5. febrúar sl., þar sem öllum verður frjálst að senda inn umsagnir og ábendingar.


Fylgiskjal.

Umboðsmaður skuldara:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Sýnishorn af stöðluði bréfi til ábyrgðarmanna.