Lagasafn. Íslensk lög 15. apríl 2018. Útgáfa 148b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um greiðsluaðlögun einstaklinga
2010 nr. 101 2. júlí
Ferill málsins á Alþingi.
Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. ágúst 2010. Breytt með l. 128/2010 (tóku gildi 19. okt. 2010), l. 135/2010 (tóku gildi 2. des. 2010), l. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011), l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011) og l. 85/2015 (tóku gildi 1. jan. 2016 nema 2. gr. og ákvæði til bráðabirgða I sem tóku gildi 24. júlí 2015).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við
félags- og jafnréttismálaráðherra eða
velferðarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna
hér.
I. kafli.
Almenn ákvæði.
1. gr.
Markmið laganna.

Markmið laga þessara er að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð.

Að uppfylltum skilyrðum laga þessara er einstaklingum heimilt í kjölfar gagnaöflunar að fara þess á leit við umboðsmann skuldara að hann samþykki umsókn um heimild til að leita eftir greiðsluaðlögun með samningi við kröfuhafa. Sá samningur getur bæði tekið til krafna sem tryggðar eru með veðrétti í eign skuldara og krafna sem engin slík trygging er fyrir eða einungis til krafna af öðrum hvorum meiði.
2. gr.
Hverjir leitað geta greiðsluaðlögunar.

Einstaklingur sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar getur leitað greiðsluaðlögunar í samræmi við lög þessi.

Einstaklingur telst ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar þegar ætla má að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.

Hjón eða einstaklingar í óvígðri sambúð geta í sameiningu leitað greiðsluaðlögunar.

Þeir einir geta leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum þessum sem eiga lögheimili og eru búsettir hér á landi. Frá þessu skilyrði má þó víkja ef:
a. sá sem leitar greiðsluaðlögunar er [tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hefur áður átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í a.m.k. þrjú ár samfleytt.],
1) enda leiti hann hennar einungis vegna skuldbindinga sem stofnast hafa hér á landi við lánardrottna sem eiga hér heimili, eða
b. greiðsluaðlögun er eingöngu ætlað að taka til veðkrafna sem hvíla á fasteign hér á landi, enda sé eigandi hennar [einungis tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi áður átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í a.m.k. þrjú ár samfleytt].
1)
1)L. 135/2010, 1. gr.
3. gr.
Kröfur sem greiðsluaðlögun tekur til.

Greiðsluaðlögun tekur til allra annarra krafna á hendur skuldara en þeirra sem hér greinir:
a. krafna sem orðið hafa til eftir að umsókn um greiðsluaðlögun hefur verið tekin til greina,
b. krafna um annað en peningagreiðslu sem verður fullnægt eftir aðalefni sínu,
c. krafna sem nytu stöðu skv. 109., 110. eða 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. ef bú skuldara hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta á þeim degi sem umsókn hans um greiðsluaðlögun var tekin til greina,
d. krafna sem yrði fullnægt með skuldajöfnuði ef bú skuldara hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta,
e. krafna að óverulegri fjárhæð sem eru sérstaklega undanþegnar áhrifum greiðsluaðlögunar með því að þær greiðist að fullu,
f. fésekta sem ákveðnar hafa verið með dómi eða af stjórnvaldi eða með sátt áður en umsókn um greiðsluaðlögun var tekin til greina, krafna um vangoldinn virðisaukaskatt, krafna um afdregna vangoldna staðgreiðslu opinberra gjalda og krafna um skaðabætur vegna tjóns sem samkvæmt dómi hefur verið valdið með refsiverðu athæfi,
g. [krafna Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna námslána]
1) að öðru leyti en því að ákveða má við greiðsluaðlögun að afborganir af þeim og vextir falli niður á greiðsluaðlögunartíma. [Almenn skuldabréf sem stofnuð eru vegna vanskila, ofgreiðslu námslána eða markaðskjaralána teljast ekki kröfur vegna námslána],
1)
[h. krafna viðskiptabanka vegna tímabundinnar fyrirgreiðslu sem námsmanni er veitt vegna framfærslu á grundvelli væntanlegs láns frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, enda hafi samhliða verið samið um að láninu skuli ráðstafa að fullu til uppgjörs á fyrirgreiðslu viðskiptabankans. Ef umsækjandi fullnægir ekki skilyrðum lánasjóðsins um framvindu náms skal farið með fyrirgreiðslu viðskiptabanka, eða eftir atvikum þann hluta hennar sem ekki fæst greiddur með láni frá sjóðnum, sem samningskröfu og tekur greiðsluaðlögun þá til kröfunnar],
1)
[i. ]
1) uppsafnaðra skulda við opinbera aðila vegna meðlags og fer um uppsafnaða skuld samkvæmt ívilnunarúrræðum laga um Innheimtustofnun
sveitarfélaga, nr. 54/1971.

Lánardrottinn skuldarans getur afsalað sér réttindum skv. 1. mgr. þannig að greiðsluaðlögun hafi áhrif á kröfu hans, en það skal gert með skriflegri yfirlýsingu sem gerð er við undirbúning umsóknar um greiðsluaðlögun eða meðan á umleitunum til hennar stendur. Binda má slíka yfirlýsingu því skilyrði að hún feli því aðeins í sér endanlegt réttindaafsal að greiðsluaðlögun nái fram að ganga.

Greiðsluaðlögun leiðir til brottfalls skulda sem yrði skipað í skuldaröð skv. 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. ef bú skuldarans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Með greiðsluaðlögun má kveða á um algera eftirgjöf einstakra krafna, hlutfallslega lækkun þeirra, gjaldfrest á þeim, skilmálabreytingar, greiðslu þeirra með hlutdeild í afborgunarfjárhæð sem greiðist með ákveðnu millibili á tilteknu tímabili, breytt form á greiðslu krafna eða allt framangreint í senn.
1)L. 135/2010, 2. gr.
II. kafli.
Heimild til að leita greiðsluaðlögunar.
4. gr.
Umsókn um greiðsluaðlögun.

Skuldari skal leggja umsókn um greiðsluaðlögun fram hjá umboðsmanni skuldara. Í umsókninni skal koma fram:
1. Fullt nafn skuldara, kennitala hans, lögheimili og dvalarstaður ef hann er annar en lögheimili.
2. Sundurliðaðar upplýsingar um eignir skuldara.
3. Sundurliðaðar upplýsingar um fjárhæð skulda sem þegar eru gjaldfallnar, svo og fjárhæð ógjaldfallinna skulda og ábyrgða og eftir atvikum upplýsingar um afborgunarkjör, gjalddaga, vexti og verðtryggingu þeirra.
4. Hverjar tekjur skuldara eru, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðast, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skal greina hvort hann muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra.
5. Hvort skuldari hafi borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, einn eða í félagi við aðra, og ef svo er, hve stór hluti skulda hans stafi frá atvinnurekstrinum.
6. Mat skuldara á meðaltali mánaðarlegra útgjalda sinna, þar á meðal vegna framfærslu, opinberra gjalda, húsnæðis og afborgana af skuldum.
7. Mat skuldara með hliðsjón af framansögðu á því hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa við skuldbindingar sínar.
8. Lýsing skuldara á því hvað valdið hafi skuldastöðu hans og hvers vegna hann geti ekki eða sjái ekki fram á að geta staðið að fullu við skuldbindingar sínar.
9. Hvort einhverjar ráðstafanir hafi verið gerðar sem kynnu að vera riftanlegar við gjaldþrotaskipti á búi skuldara.
10. Hverjir kunna að vera ábyrgðarmenn skuldara, samskuldarar eða hafa veitt veð fyrir skuldum hans og hvort hann beri sjálfur ábyrgð á skuldbindingum annarra.
11. Yfirlýsing um að umboðsmanni skuldara sé heimilt að staðreyna gefnar upplýsingar og afla nánari upplýsinga, án þess að þagnarskylda þeirra sem búa yfir slíkum upplýsingum hindri það, sé talin þörf á því.

Upplýsingar skv. 1. mgr. skal einnig gefa um maka skuldara og þá sem teljast til heimilis með honum.

Umsókninni skulu fylgja gögn til staðfestingar þeim upplýsingum sem hún hefur að geyma, vottorð um hjúskaparstöðu og fjölskyldu og síðustu fjögur skattframtöl skuldara.

Skuldari á rétt á endurgjaldslausri aðstoð frá umboðsmanni skuldara við að semja umsókn um greiðsluaðlögun og afla gagna í samræmi við ákvæði laga þessara. Skuldari skal þó jafnan sjálfur útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara.

Umboðsmaður skuldara skal að fengnu samþykki skuldara og eftir atvikum maka skuldara og annars heimilisfólks, sbr. 2. mgr., afla nauðsynlegra gagna frá opinberum stofnunum sem og þekktum lánardrottnum. Skylt er þeim aðilum að senda umboðsmanni skuldara umbeðin gögn.
5. gr.
Rannsóknarskylda umboðsmanns skuldara.

Umboðsmaður skuldara skal ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur hann ef þörf krefur krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með skriflegum gögnum.

Umboðsmaður skuldara skal auk þess afla frekari upplýsinga sem hann telur geta skipt máli varðandi skuldir, eignir, tekjur og framferði skuldara, áður en hann tekur ákvörðun um hvort veita skuli heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Komi til þess skal veita skuldara fræðslu í samræmi við ákvæði
21. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, um fræðsluskyldu ábyrgðaraðila þegar upplýsinga er aflað frá öðrum en hinum skráða. Ef þörf krefur er umboðsmanni skuldara heimilt að kalla skuldara eða aðra sem málið varðar á sinn fund til að afla upplýsinganna.
6. gr.
Aðstæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð.

Synja skal um heimild til greiðsluaðlögunar ef:
a. fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laga þessara til að leita greiðsluaðlögunar,
b. fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar,
c. aðstæður við stofnun skulda eða síðari ráðstafanir skuldara benda ótvírætt til þess að hann hafi hegðað sér á óheiðarlegan hátt til þess að geta leitað greiðsluaðlögunar,
d. skuldari hefur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu,
e. skuldari hefur áður fengið samþykkta greiðsluaðlögun eða nauðasamning til greiðsluaðlögunar [á síðustu þremur árum].
1) Þó er umboðsmanni skuldara heimilt að samþykkja umsókn í slíkum tilvikum ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. [Jafnframt er heimilt að samþykkja umsókn hafi einstaklingur fengið nauðasamning til greiðsluaðlögunar fyrir gildistöku laga þessara.]
1)

Einnig er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á slíku skal taka sérstakt tillit til þess hvort:
a. stofnað hafi verið til meginhluta skuldanna nýlega og ekki sé um að ræða eðlilega lántöku til endurfjármögnunar eða öflunar nauðsynlegs íbúðarhúsnæðis,
b. stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar,
c. skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað,
d. skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu,
e. skuldari hafi efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar,
f. skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt,
g. skuldari hafi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans eru þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.
1)L. 135/2010, 3. gr.
7. gr.
Ákvörðun um greiðsluaðlögun.

Umboðsmaður skuldara skal taka ákvörðun um afgreiðslu á umsókn skuldara innan tveggja vikna frá því að hún liggur fyrir fullbúin.

Samþykki umboðsmaður skuldara umsóknina skal hann upplýsa skuldara um skyldur hans skv. 12. gr.

[Hafi umboðsmaður skuldara samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun þegar skuldari hefur gildan nauðasamning til greiðsluaðlögunar, sbr. e-lið 1. mgr. 6. gr., fellur nauðasamningur sjálfkrafa úr gildi og skal umboðsmaður tilkynna kröfuhöfum og sýslumanni um ógildinguna.]
1)

Ekki er unnt að kæra ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki á umsókn. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til [úrskurðarnefndar velferðarmála]
2) innan [tveggja vikna]
1) frá því að honum berst tilkynning um ákvörðun umboðsmanns skuldara.

Skuldari getur hvenær sem er á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana dregið umsókn sína um greiðsluaðlögun til baka og fellur þá niður greiðslufrestur skv. 11. gr. Hafi umsjónarmaður verið skipaður skal hann tilkynna þeim kröfuhöfum sem vitað er um ákvörðun skuldara um að draga umsókn til baka. Hafi umsjónarmaður ekki verið skipaður skal umboðsmaður skuldara tilkynna um þetta.
1)L. 135/2010, 4. gr. 2)L. 85/2015, 13. gr.
8. gr.
Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana.

Með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefst tímabil greiðsluaðlögunarumleitana og getur það orðið allt að þrír mánuðir.
III. kafli.
Upphaf greiðsluaðlögunarumleitana.
9. gr.
Skipun umsjónarmanns.

Hafi umboðsmaður skuldara samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun skal hann þegar í stað skipa umsjónarmann með greiðsluaðlögun. Umsjónarmaður getur verið starfsmaður umboðsmanns skuldara og skal hann þá hafa lokið embættisprófi eða meistaraprófi í lögfræði, en ella skal hann vera lögmaður sem umboðsmaður skuldara ræður til verksins.
10. gr.
Innköllun til lánardrottna.

Umsjónarmaður skal tafarlaust eftir skipun sína gefa út og fá birta tvívegis í Lögbirtingablaði innköllun þar sem skorað er á þá, sem telja sig eiga kröfur á hendur skuldaranum, að lýsa kröfum fyrir umsjónarmanni innan fjögurra vikna frá því að innköllunin birtist fyrra sinni.

Nú nýtur lánardrottinn veðréttar eða ábyrgðar annars aðila fyrir kröfum á hendur skuldaranum án þess að veðið eða ábyrgðin taki til ákveðinnar skuldar, og skal þá lánardrottinn tiltaka í kröfulýsingu hvaða skuld eigi þar undir.

Vanlýst krafa skal falla undir greiðsluaðlögunina, en viðkomandi kröfuhafa er þá ekki heimilt að hafa afskipti af greiðsluaðlögunarumleitunum.

Þeim kröfuhöfum sem vitað er um, þar á meðal ábyrgðarmönnum og samskuldurum skuldara, skal kunngert að greiðsluaðlögunarumleitanir séu hafnar með því að umsjónarmaður sendir þeim afrit af innkölluninni. Þar skal einnig upplýst hvaða kröfur skuldari hefur gefið upp að viðkomandi kröfuhafar eigi og tilkynna þeim um frestun greiðslna skv. 11. gr.
11. gr.
Frestun greiðslna á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn hefst tímabundin frestun greiðslna, sbr. þó 3. mgr. Á meðan á frestun greiðslna stendur er lánardrottnum óheimilt að:
a. krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum,
b. gjaldfella skuldir samkvæmt samningsbundnum heimildum,
c. gera fjárnám, kyrrsetningu eða löggeymslu í eigum skuldarans eða fá þær seldar nauðungarsölu,
d. fá bú skuldarans tekið til gjaldþrotaskipta,
e. neita að afhenda gegn staðgreiðslu eða viðunandi tryggingum þær vörur eða þjónustu sem skuldari þarf á að halda vegna framfærslu sinnar eða heimilismanna vegna fyrri vanefnda,
f. krefjast greiðslu hjá ábyrgðarmanni skuldarans [eða ráðast í hvers konar aðgerðir til innheimtu kröfu],
1)
[g. ráðast í hvers konar aðgerðir til innheimtu krafna sem tryggðar eru með veði í fasteign þriðja aðila.]
1)

Vextir falla á skuldir meðan á frestun greiðslna stendur en þeir eru ekki gjaldkræfir. Vextir af kröfum sem tryggðar eru með veði í eign sem skuldari fær að halda gjaldfalla þó í samræmi við samninga þar um, að því marki sem veð svarar til verðmætis hinnar veðsettu eignar.

Frestun greiðslna nær ekki til krafna sem verða til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt.

[Sé krafa tryggð með lögveði þegar frestun greiðslna hefst skal sá tími sem frestun greiðslna er í gildi vera undanskilinn lögbundnum fyrningarfresti lögveðs.]
1)
1)L. 135/2010, 5. gr.
12. gr.
Skyldur skuldara við greiðsluaðlögun.

Á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skal skuldari:
a. leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða,
b. segja upp leigusamningum og öðrum samningum um útgjöld í framtíðinni sem ekki tengjast vöru og þjónustu sem er nauðsynleg honum eða heimili hans til lífsviðurværis eða eðlilegs heimilishalds,
c. ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla,
d. ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna [nema skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða].
1)

Telji umsjónarmaður skuldara hafa brugðist skyldum sínum skv. 1. mgr. skal umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður skv. 15. gr.
1)L. 135/2010, 6. gr.
13. gr.
Sala eigna skuldara.

Umsjónarmaður getur ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Ef umsjónarmanni þykir ástæða til getur hann leitað afstöðu lánardrottna áður en slík ákvörðun er tekin.

Eignir skal selja með þeim hætti að tryggt sé að sem hæst verð fáist fyrir þær. Umsjónarmaður ákveður hvernig sala fer fram og annast söluna sjálfur, nema hann feli það öðrum. Er skuldara skylt að annast söluna ef umsjónarmaður ákveður það.

Umsjónarmaður skal gera þeim sem njóta veðréttar í eign skuldarans viðvart um ákvörðun um sölu hennar með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara. Þegar fram er komið tilboð í eignina sem umsjónarmaður telur fært að taka skal hann tafarlaust kynna það fyrir þeim veðhöfum í eigninni sem ekki mundu fá fullnustu krafna sinna af söluverðinu og gefa þeim kost á að gera hærra boð eða ganga eftir atvikum inn í fram komið boð. Skulu veðhafar hafa frest í þessu skyni svo lengi sem boð er skuldbindandi fyrir tilboðsgjafa.

Að sölu lokinni falla niður þau veðréttindi sem ekki fékkst greitt upp í af söluandvirðinu sé um veðsettar eignir að ræða. Umsjónarmaður skal óska eftir aflýsingu veðkrafna gegn staðfestingu umboðsmanns skuldara á að umsókn skuldara til greiðsluaðlögunar hafi verið samþykkt, yfirlýsingu umsjónarmanns um að sala eignarinnar hafi verið gerð vegna greiðsluaðlögunar og afriti samnings um söluna.

Framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns skv. 1. mgr. eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skal umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður skv. 15. gr.
14. gr.
Mat á eignum sem skuldari heldur eftir.

Umsjónarmaður skal eftir þörfum afla mats á verðmæti þeirra eigna sem skuldara er ekki gert að selja.

Lánardrottinn sem ekki unir mati sem umsjónarmaður aflar getur á eigin kostnað fengið dómkvaddan mann til að meta verðmæti eignar. Sé slíkrar matsgerðar aflað skal hún ráða niðurstöðu um verðmæti eignarinnar.
15. gr.
Niðurfelling greiðsluaðlögunarumleitana.

Ef fram koma upplýsingar sem ætla má að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laga þessara skal umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið tekur afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun er tekin. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana getur skuldari kært til [úrskurðarnefndar velferðarmála]
1) innan [tveggja vikna]
2) frá því að ákvörðunin barst honum og skal þá tímabil greiðsluaðlögunarumleitana standa þar til niðurstaða [úrskurðarnefndar]
1) liggur fyrir.

Umboðsmaður skuldara skal tilkynna þekktum lánardrottnum um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana.
1)L. 85/2015, 13. gr. 2)L. 135/2010, 7. gr.
IV. kafli.
Samningur um greiðsluaðlögun.
16. gr.
Frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun.

Umsjónarmaður skal, eins fljótt og auðið er eftir að kröfulýsingarfrestur er liðinn, gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Frumvarpið skal samið í samráði við skuldara.

Í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun skal kveðið á um lengd greiðsluaðlögunartímabils, en það skal að jafnaði vera eitt til þrjú ár frá því að samningur tekur gildi. Tiltaka skal viðeigandi upplýsingar til að gefa heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu skuldara, m.a. upplýsingar um tekjur, skuldir, eignir og mánaðarleg útgjöld. Þá skal fylgja listi yfir allar kröfur sem vitað er um og tillaga umsjónarmanns um hvernig farið verði með kröfurnar, í samræmi við 3. og 21. gr. Jafnframt skal tiltaka allar verðmætar eignir sem skal selja eða halda eftir og verðmæti þeirra, sbr. 13. og 14. gr. Þá skal koma fram í frumvarpinu sá frestur sem lánardrottnar hafa til að taka afstöðu til þess.

Frumvarp umsjónarmanns skal vera á þann veg að framfærsla skuldara og fjölskyldu hans sé tryggð og að raunhæft megi telja að öðru leyti að hann geti staðið við skuldbindingar sínar, endurskipulagt fjármál sín og komið á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu.

Feli frumvarp umsjónarmanns í sér að skuldari inni af hendi reglulegar afborganir á tilteknu tímabili skal umsjónarmaður miða við að skuldari haldi eftir svo miklu af tekjum sínum að dugi til að sjá honum og heimilisfólki hans farborða og þeim einstaklingum sem hann hefur framfærsluskyldu við samkvæmt lögum. Skal umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Ef skuldari hefur rétt til umgengni við börn skal tekið tillit til eðlilegra útgjalda í tengslum við hana.

Afborgunarfjárhæð skv. 4. mgr. skal bundin við launavísitölu eða á annan hátt við tilteknar mælingar á verðlagsbreytingum sem svara til þess hvernig skuldari hyggst afla tekna til að standa undir greiðslu hennar.

Ef umsjónarmaður telur það nauðsynlegt eða lánardrottinn krefst þess getur hann boðað til sérstaks fundar með þeim og skuldara til að ræða greiðsluaðlögunina áður en frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun er gert. Sé ástæða til skulu einnig boðaðir á fundinn ábyrgðarmenn skuldara, samskuldarar hans og þeir sem veitt hafa veð í eignum sínum til tryggingar kröfu á hendur skuldaranum.
17. gr.
Samþykki samnings um greiðsluaðlögun.

Umsjónarmaður sendir frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun á sannanlegan hátt til allra lánardrottna sem þekktir eru og málið varðar. Lánardrottnum skal gefinn þriggja vikna frestur til að taka afstöðu til frumvarpsins frá því að það er sent og skal skýrlega koma fram í frumvarpi hvenær fresturinn er á enda.

Umsjónarmaður skal að eigin frumkvæði leitast við að fá samþykki lánardrottna fyrir frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun.

Hafi lánardrottinn athugasemdir við frumvarpið eða leggist hann gegn því skal hann láta umsjónarmanni í té skriflegan rökstuðning fyrir afstöðu sinni innan frestsins sem hann nýtur til að taka afstöðu til frumvarpsins. Komi ekki á þennan hátt fram upplýsingar sem valdið geta niðurfellingu umleitana til greiðsluaðlögunar skal umsjónarmaður leitast við að fá lánardrottin til að endurskoða afstöðu sína, eftir atvikum með því að gera í samráði við skuldara breytingar á frumvarpinu sem skal þá sent öðrum lánardrottnum á nýjan leik. Stjórnvöld, innheimtumaður eða fyrirsvarsmaður stofnunar eða félags í opinberri eigu geta samþykkt frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun án tillits til ákvæða í öðrum lögum, reglugerðum eða samþykktum hvað varðar aðrar kröfur en sektir.

Frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun telst samþykkt þegar allir lánardrottnar sem málið snertir hafa samþykkt það. Lánardrottinn sem hefur fengið senda tilkynningu í samræmi við 1. mgr. og hefur ekki lýst yfir við umsjónarmann að hann leggist gegn frumvarpinu áður en þriggja vikna fresturinn rann út telst hafa samþykkt það.

Ef frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun telst samþykkt skulu skuldari, umsjónarmaður og umboðsmaður skuldara undirrita það og tekur samningurinn þá þegar gildi. Hann skal þegar í stað sendur öllum þekktum lánardrottnum skuldarans.
V. kafli.
Undirbúningur nauðasamningsumleitana til greiðsluaðlögunar og greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.
18. gr.
Ákvörðun um að leita nauðasamnings og greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna.

Nú hefur samningur ekki tekist um greiðsluaðlögun eftir ákvæðum IV. kafla, en skuldari hefur lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings í því skyni og eftir atvikum greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Skal umsjónarmaður þá innan tveggja vikna taka rökstudda afstöðu til þess í skriflegri greinargerð hvort hann mæli með því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á, en áður skal hann gefa skuldaranum kost á að endurskoða frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun í ljósi athugasemda sem lánardrottnar gerðu við það. Við mat á því hvort mælt sé með að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum skv. 12. gr. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til hennar til sín taka.

Mæli umsjónarmaður gegn því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á skal hann tilkynna það skuldara tafarlaust. Skuldari getur skotið þeirri ákvörðun til [úrskurðarnefndar velferðarmála]
1) innan [tveggja vikna]
2) frá því að ákvörðun var tekin og skal nefndin taka afstöðu til kærunnar innan tveggja vikna. Staðfesti nefndin ákvörðun umsjónarmanns lýkur greiðsluaðlögunarumleitunum þá þegar og skal umboðsmaður skuldara tilkynna þekktum lánardrottnum skuldarans um þau málalok. Hrindi [úrskurðarnefndin]
1) ákvörðun umsjónarmanns skal hann fara svo að sem í 19. og 20. gr. segir.

Meðan beðið er ákvörðunar skv. 1. eða 2. mgr. um hvort leitað skuli nauðasamnings og eftir atvikum greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna haldast áhrif greiðsluaðlögunarumleitana skv. 11. gr. Sé síðan eftir því leitað skulu þau áhrif standa áfram þar til þeirri málaleitan lýkur.
1)L. 85/2015, 13. gr. 2)L. 135/2010, 7. gr.
19. gr.
Frumvarp til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Þegar afráðið er að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar skal umsjónarmaður innan tveggja vikna gera frumvarp til samningsins sem taka skal til annarra krafna á hendur skuldara en þeirra sem tryggðar eru með veði eða annars konar tryggingarréttindum í eignum hans, en í frumvarpinu skal eftirfarandi koma fram:
a. hvað skuldari bjóðist til að greiða af skuldum sínum, sem frumvarpið tekur til, og með hvaða kjörum,
b. hvaða þekktir lánardrottnar eigi þessar kröfur og hversu mikið þeir fái í sinn hlut,
c. hvort trygging verði sett fyrir greiðslum og hver hún þá sé.

Frumvarp skv. 1. mgr. skal ásamt greinargerð umsjónarmanns og eftir atvikum úrskurði [úrskurðarnefndar velferðarmála]
1) skv. 18. gr. sent til allra þekktra lánardrottna skuldarans.

Um framhald máls fer samkvæmt því sem mælt er fyrir um í X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
1)L. 85/2015, 13. gr.
20. gr.
Frumvarp til greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

Þegar afráðið er að leita greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, hvort sem það er gert samhliða því að leita nauðasamnings skv. 19. gr. eða án þess, skal umsjónarmaður gera frumvarp til slíkrar greiðsluaðlögunar og boða veðhafa innan tveggja vikna til fundar eftir fyrirmælum 5. gr. laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Um framhald máls fer samkvæmt því sem mælt er fyrir um í þeim lögum án þess að dómsúrskurður gangi um heimild til greiðsluaðlögunar, en umsjónarmaður sem skipaður hefur verið skv. 9. gr. skal gegna hlutverki umsjónarmanns eftir reglum þeirra laga.
VI. kafli.
Greiðsla til lánardrottna.
21. gr.
Skipting greiðslna milli lánardrottna.

Greiðslur sem skipta skal milli lánardrottna samkvæmt samningi um greiðsluaðlögun skiptast hlutfallslega eftir fjárhæð krafna með eftirfarandi undantekningum:
a. Ef skuldari heldur eftir eignum sem veðkröfur á hendur honum hvíla á skal hann greiða fastar mánaðargreiðslur af þeim veðkröfum, sem eru innan matsverðs eignar, á tímabili greiðsluaðlögunar og skal þeim varið til greiðslu krafna eftir ákvæðum 2. mgr.
7. gr. laga nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Fastar mánaðargreiðslur mega ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má samkvæmt mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður er umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu til greiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri leigu. Þessar kröfur falla ekki niður þegar greiðsluaðlögun lýkur. Sá hluti veðtryggðra krafna sem er yfir matsverði þeirrar eignar sem stendur til tryggingar skal greiddur samkvæmt greiðsluaðlöguninni á sama hátt og óveðtryggðar kröfur. Þegar minna en þrír mánuðir eru til loka tímabils greiðsluaðlögunar en áður en það er á enda getur skuldari leitað eftir því að veðbönd verði máð af fasteign eftir reglum
12. gr. laga nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, enda sé fullnægt öllum almennum skilyrðum fyrir þeirri aðgerð samkvæmt þeim lögum.
b. Kröfur sem greiðsluaðlögun tekur ekki til, sbr. 1. mgr. 3. gr., skulu greiðast að fullu.

Efndir kröfu í samræmi við samning um greiðsluaðlögun hafa sömu áhrif og ef krafan hefði verið efnd eftir upphaflegu efni sínu.

Umboðsmaður skuldara skal sjá til þess í tæka tíð áður en komið er að fyrsta gjalddaga samkvæmt greiðsluaðlögun að skuldari komi því til leiðar að fjármálafyrirtæki miðli fyrir hann greiðslum samkvæmt henni.
22. gr.
Umdeildar kröfur.

Ef krafa er umdeild að mati umsjónarmanns skal leggja fjármuni til hliðar til að mæta henni í samræmi við skilmála samnings um greiðsluaðlögun. Komi í ljós að skuldara beri að greiða kröfuna fellur hún undir ákvæði samningsins. Ef ekki eru gerðar ráðstafanir, með málshöfðun eða öðrum aðgerðum, til þess að fá skorið úr gildi kröfunnar innan sex mánaða frá því að samningur um greiðsluaðlögun komst á skal umboðsmaður skuldara skipta fjármununum milli þeirra lánardrottna sem samningurinn nær til.
23. gr.
Ábyrgðarkröfur.

Ef skuldari er skuldbundinn til að greiða fé samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu sem hann hefur gefið áður en umsókn um greiðsluaðlögun var samþykkt, en skylda samkvæmt þeirri yfirlýsingu er enn ekki virk þegar samningur um greiðsluaðlögun tekur gildi, skal ekki gert ráð fyrir skuldbindingunni við greiðsluaðlögunina. Verði ábyrgðarskuldbinding virk síðar skal farið eftir ákvæðum laga þessara um breytingar á greiðsluaðlögun eins og við getur átt. Skuldara ber þó ekki að greiða meira af þeirri skuld sem hann hefur tekið ábyrgð á en nemur því hlutfalli af óveðtryggðum kröfum sem honum ber að greiða samkvæmt greiðsluaðlöguninni.
VII. kafli.
Breyting, riftun eða ógilding samnings um greiðsluaðlögun.
24. gr.
Breyting á samningi um greiðsluaðlögun að kröfu skuldara.

Skuldari getur krafist þess að gerðar verði breytingar á skilmálum samnings um greiðsluaðlögun ef á greiðsluaðlögunartímabilinu koma upp ófyrirsjáanlegar aðstæður sem veikja getu hans til þess að uppfylla skyldur sínar samkvæmt samningnum.

Ef skuldara hefur eftir að greiðsluaðlögunartímabil hófst verið gert kunnugt um skuld sem stofnaðist áður en umsókn hans um greiðsluaðlögun var samþykkt verður skuldin felld undir greiðsluaðlögunina. Skal greitt af henni í samræmi við það sem greitt er af samsvarandi kröfum, þó einungis frá þeim tíma sem krafan var kynnt skuldara. Skuldara er óheimilt að greiða kröfuna utan greiðsluaðlögunar.

Ekki er unnt að krefjast breytinga á samningi um greiðsluaðlögun í samræmi við 1. mgr. fyrr en skuldari hefur fullreynt að ná þeim fram með samningum við alla lánardrottna. Náist slíkt samkomulag skal það lagt fyrir umboðsmann skuldara og taka breytingarnar ekki gildi fyrr en umboðsmaður skuldara hefur samþykkt þær. Telji umboðsmaður skuldara breytingarnar ósanngjarnar eða óhæfilegar skal hann hafna þeim. Ákvörðun umboðsmanns skuldara þess efnis getur skuldari eða lánardrottnar kært til [úrskurðarnefndar velferðarmála]
1) innan [tveggja vikna]
2) frá því að ákvörðun umboðsmanns berst þeim.
1)L. 85/2015, 13. gr. 2)L. 135/2010, 7. gr.
25. gr.
Breyting, riftun eða ógilding samnings um greiðsluaðlögun.

Lánardrottinn, sem greiðsluaðlögunin nær til, getur krafist þess að gerðar verði breytingar á greiðsluaðlögun ef fjárhagsstaða skuldara batnar umtalsvert á greiðsluaðlögunartímabilinu. Hafi fjárhagsstaðan batnað vegna þess að skuldari hefur fengið í hendur háa fjárhæð getur lánardrottinn krafist þess að fénu verði skipt að hluta eða að fullu milli lánardrottna án þess að samningnum um greiðsluaðlögun sé breytt að öðru leyti.

Lánardrottinn, sem samningur um greiðsluaðlögun nær til, getur krafist þess að honum verði rift eða hann ógiltur ef skuldari hefur vanrækt verulega skyldur sínar samkvæmt samningnum.

Samningur um greiðsluaðlögun fellur sjálfkrafa úr gildi ef skuldari fær heimild til að leita nauðasamnings, bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta eða hann fellur frá og dánarbú hans er tekið til skipta án þess að erfingjar taki á sig ábyrgð á skuldbindingum hans.
26. gr.
Málsmeðferð vegna breytinga, riftunar eða ógildingar á samningi um greiðsluaðlögun.

Kröfu um breytingu á samningi um greiðsluaðlögun skal beint til umboðsmanns skuldara með skriflegu erindi. Umboðsmaður skuldara sendir aðilum sem málið varðar fram komið erindi og kallar eftir nauðsynlegum upplýsingum. Boðað skal til fundar ef lánardrottinn eða skuldari krefst þess eða umboðsmaður skuldara telur það nauðsynlegt. Umboðsmaður skuldara skal taka ákvörðun um erindið innan mánaðar frá því að krafa berst. Ákvörðun umboðsmanns skuldara getur skuldari eða lánardrottinn kært til [úrskurðarnefndar velferðarmála]
1) innan [tveggja vikna]
2) frá því að ákvörðun umboðsmanns berst þeim. Að fengnum úrskurði nefndarinnar er heimilt að höfða einkamál til ógildingar á ákvörðuninni.

Kröfu um riftun eða ógildingu samnings um greiðsluaðlögun getur lánardrottinn haft uppi fyrir dómi í einkamáli á hendur skuldaranum.
1)L. 85/2015, 13. gr. 2)L. 135/2010, 7. gr.
27. gr.
Upplýsingaskylda skuldara gagnvart lánardrottnum.

Ef upp koma aðstæður sem veita lánardrottnum rétt til að krefjast breytinga á samningi um greiðsluaðlögun, ógildingu hans eða riftun skal skuldari innan eins mánaðar og á tryggan hátt upplýsa lánardrottna um þær aðstæður.
VIII. kafli.
Ýmis ákvæði.
28. gr.
Skráning greiðsluaðlögunar o.fl.

[Þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn skuldara um greiðsluaðlögun skal hann þá þegar óska eftir því að athugasemd um samþykki á umsókn skuldara um greiðsluaðlögun verði skráð í þinglýsingabækur, eftir því sem við á. Slík skráning ber ekki þinglýsingagjöld.]
1)

Umboðsmaður skuldara skal halda skrá yfir alla sem fengið hafa heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Þegar greiðsluaðlögunartímabil er liðið skulu yfirvöld og eftirlitsaðilar einungis nota upplýsingar um greiðsluaðlögun skuldara til að kanna hvort skuldari hafi áður fengið greiðsluaðlögun í samræmi við lög þessi.

Hafi skuldari fengið að halda eftir veðsettum eignum meðan á greiðsluaðlögunartímabili stendur samkvæmt lögum þessum og eignirnar eru skráðar í opinberum skrám skal [umboðsmaður óska eftir skráningu athugasemdar]
1) um greiðsluaðlögunina þar.
1)L. 135/2010, 8. gr.
29. gr.
Yfirlýsing afmáð eftir að greiðsluaðlögunartímabili er lokið.

[Þegar greiðsluaðlögunartímabili er lokið eða hafi skuldari dregið umsókn sína til baka í samræmi við 5. mgr. 7. gr. skal umboðsmaður skuldara óska eftir aflýsingu athugasemdar skv. 1. mgr. 28. gr.]
1)
1)L. 135/2010, 9. gr.
30. gr.
Greiðsla kostnaðar.

Umboðsmaður skuldara ber kostnað við meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og störf umsjónarmanna. Lánardrottnar bera þann kostnað sem á þá fellur af meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar. Kostnaður af sölu eignar greiðist af söluandvirði hennar.
31. gr.
Kröfur sem hefur ekki verið tilkynnt um.

Kröfur sem urðu til áður en umsókn um greiðsluaðlögun var samþykkt og skuldari hefur ekki verið krafinn um á greiðsluaðlögunartímabilinu falla niður þegar því lýkur.
32. gr.
[Kærur til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Heimilt er að skjóta ákvörðunum samkvæmt ákvæðum laga þessara til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála.]
1)
1)L. 85/2015, 13. gr.
33. gr.
Áhrif greiðsluaðlögunar á rétt skuldara til greiðslna eða aðstoðar frá ríki eða sveitarfélögum.

Sá hluti skulda sem felldur er niður samkvæmt greiðsluaðlögun skerðir ekki rétt skuldara til hvers konar greiðslna eða aðstoðar frá ríki eða sveitarfélögum.
34. gr.
[Reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga.

[Ráðherra]
1) setur að fenginni umsögn umboðsmanns skuldara reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga þar sem m.a. skal kveða á um starfsemi umsjónarmanna og samræmda framkvæmd greiðsluaðlögunar.]
2)
1)L. 126/2011, 535. gr. 2)L. 135/2010, 10. gr.
35. gr.
Gildistaka.

Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 2010.
36. gr.
Breytingar á öðrum lögum. …
Ákvæði til bráðabirgða.
I.

Þrátt fyrir gildistöku laga þessara skal ljúka meðferð beiðni um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar á grundvelli X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.
fl., nr. 21/1991, sem lögð hefur verið fyrir héraðsdóm fyrir gildistöku laga þessara, enda falli skuldari ekki frá beiðni sinni. Réttaraðstoð má veita á grundvelli
laga nr. 65/1996 til að ljúka meðferð slíkrar beiðni.
[II.

Frá gildistöku laga þessara til 1. júlí 2011 hefst tímabundin frestun greiðslna skv. 11. gr. laganna þegar umboðsmaður hefur móttekið umsókn um greiðsluaðlögun. Frestunin tekur einnig til umsókna sem umboðsmaður hefur móttekið fyrir gildistöku laga þessara.

Móttaka umboðsmanns skuldara á umsókn leiðir þó ekki til tímabundinnar frestunar greiðslna ef umsókn umsækjanda um greiðsluaðlögun hefur verið hafnað á síðustu þremur mánuðum.

Þegar umboðsmaður skuldara hefur móttekið umsókn skal stofnunin óska eftir því að athugasemd um að umsókn um greiðsluaðlögun hafi borist umboðsmanni verði skráð í þinglýsingabækur, eftir því sem við á, og skal sambærilegrar skráningar óskað vegna þeirra umsókna sem borist hafa fyrir gildistöku laga þessara. Umboðsmaður skal jafnframt birta skráningu um tímabundna frestun greiðslna í Lögbirtingablaði.

Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 11. gr. laganna nær tímabundin frestun greiðslna samkvæmt ákvæði þessu ekki til krafna sem verða til eftir að frestun greiðslna hefst.

Skyldur skuldara við greiðsluaðlögun, sbr. 12. gr. laganna, eiga við þegar umsókn hefur verið móttekin af umboðsmanni skuldara og greiðslum frestað tímabundið í samræmi við ákvæði þetta.

Dragi skuldari umsókn sína til baka fellur tímabundin frestun greiðslna skv. 11. gr. laganna þá þegar niður. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til greiðsluaðlögunar fellur tímabundin frestun greiðslna niður þegar kærufrestur skv. 3. mgr. 7. gr. laganna er liðinn. Kæri skuldari synjun umboðsmanns skuldara framlengist tímabundin frestun greiðslna þar til niðurstaða [úrskurðarnefndar velferðarmála]
1) liggur fyrir. Staðfesti [úrskurðarnefnd velferðarmála]
1) niðurstöðu umboðsmanns skuldara fellur tímabundin frestun greiðslna þá þegar niður. Skal umboðsmaður tilkynna sýslumanni án tafar um niðurfellingu tímabundinnar frestunar greiðslna og óska skráningar á henni í þinglýsingabók. Umboðsmaður skuldara skal jafnframt birta tilkynningu um niðurfellingu í Lögbirtingablaði.

Ekki ber að greiða þinglýsingargjald af skráningum í þinglýsingabækur samkvæmt ákvæði þessu.

[Á meðan á frestun greiðslna stendur og áður en umsjónarmaður er skipaður í samræmi við 9. gr. skal umboðsmanni skuldara vera heimilt að veita samþykki til ráðstöfunar eigna skuldara. Ráðstöfun eigna skal ekki heimiluð nema hún verði talin til þess fallin að auðvelda skuldara að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu. Sala eigna skal eftir því sem við á vera í samræmi við 13. gr., eðlilegt verð skal koma fyrir eignir og sé hagnaður eftir greiðslu áhvílandi veðskulda skal hann varðveittur þannig að hann liggi fyrir óskertur við lok frestunar greiðslna. Þrátt fyrir ákvæði 11. gr. skal lánardrottnum sem njóta veðréttar í hinni seldu eign heimilt að taka við greiðslu á kröfum sínum.

Umboðsmaður skuldara skal tryggja að ráðstöfun eigna sé í samræmi við 8. mgr. og að hagnaður af sölu eigna sé varðveittur á sérstökum vörslureikningi umboðsmanns skuldara á meðan á frestun greiðslna stendur.]
2)]
3)
1)L. 85/2015, 13. gr. 2)L. 135/2010, 11. gr. 3)L. 128/2010, 1. gr.