Lagasafn. Íslensk lög 15. apríl 2018. Útgáfa 148b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um umboðsmann skuldara
2010 nr. 100 2. júlí
Ferill málsins á Alþingi.
Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. ágúst 2010 nema brbákv. II sem tók gildi 6. júlí 2010. Breytt með l. 135/2010 (tóku gildi 2. des. 2010), l. 151/2010 (tóku gildi 29. des. 2010), l. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011), l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011), l. 166/2011 (tóku gildi 1. jan. 2012), l. 23/2012 (tóku gildi 27. mars 2012), l. 9/2014 (tóku gildi 1. febr. 2014), l. 12/2015 (tóku gildi 27. febr. 2015) og l. 130/2016 (tóku gildi 1. júlí 2017).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við
félags- og jafnréttismálaráðherra eða
velferðarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna
hér.
1. gr.

Embætti umboðsmanns skuldara er ríkisstofnun sem umboðsmaður skuldara veitir forstöðu. Stofnunin, sem heyrir undir [ráðherra],
1) skal gæta hagsmuna og réttinda skuldara svo sem nánar er kveðið á um í lögum.

Hlutverk umboðsmanns skuldara er að:
a. veita einstaklingum sem eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum endurgjaldslausa aðstoð við að öðlast heildarsýn á fjármál sín og leita leiða til lausnar,
b. hafa milligöngu um samskipti og samninga við lánardrottna með hagsmuni skuldara að leiðarljósi,
c. veita atbeina til tilrauna til samninga um greiðsluaðlögun,
d. útbúa framfærsluviðmið og uppfæra það reglulega,
e. taka við erindum og ábendingum skuldara um ágalla á lánastarfsemi og senda áfram til viðeigandi eftirlitsstjórnvalds,
f. gæta hagsmuna skuldara og veita þeim aðstoð þegar við á,
g. veita alhliða ráðgjöf og fræðslu um fjármál heimilanna,
[h. taka ákvörðun um hvort veita skuli fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta samkvæmt lögum um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta].
2)
1)L. 126/2011, 534. gr. 2)L. 9/2014, 10. gr.
2. gr.

Ráðherra skipar umboðsmann skuldara til fimm ára í senn sem fer með forstöðu stofnunarinnar og ber faglega, fjárhagslega og stjórnunarlega ábyrgð á rekstri hennar. Skal hann hafa menntun á háskólastigi og búa yfir víðtækri þekkingu og reynslu af málefnum á starfssviði stofnunarinnar.

[Um laun og önnur launakjör umboðsmanns skuldara fer skv.
39. gr. a laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.]
1)

Umboðsmaður skuldara stjórnar starfsemi og rekstri stofnunarinnar og ræður aðra starfsmenn. Umboðsmanni skuldara er heimilt að gera þjónustusamning við utanaðkomandi aðila um vinnslu mála fyrir stofnunina. Ef um vinnslu persónuupplýsinga er að ræða skal vinnslan fullnægja skilyrðum 8. og eftir atvikum
9. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Einnig skulu umboðsmaður skuldara og vinnsluaðili gera með sér vinnslusamning í samræmi við
13. gr. sömu laga.

Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um þjónustusamninga við utanaðkomandi aðila um vinnslu mála fyrir stofnunina þar sem m.a. verði kveðið á um verkefni og fjárhæðir greiðslna.

…
2)

Ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um skipulag og starfsemi umboðsmanns skuldara.
1)L. 130/2016, 8. gr. 2)L. 12/2015, 1. gr.
3. gr.

Umboðsmaður skuldara getur krafið stjórnvöld um allar þær upplýsingar sem hann telur nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu lögum samkvæmt, jafnvel þótt lög mæli fyrir um þagnarskyldu stjórnvalds. Með sama hætti er fyrirtækjum og samtökum skylt að veita umboðsmanni skuldara allar upplýsingar sem að mati stofnunarinnar eru nauðsynlegar til að hún geti sinnt hlutverki sínu. Stofnunin getur þó ekki krafist upplýsinga er varða öryggi ríkisins eða utanríkismál sem leynt skulu fara nema með leyfi ráðherra þess sem í hlut á.

[Upplýsingasöfnun umboðsmanns skuldara er háð því skilyrði að hún sé nauðsynleg og varði upplýsingarnar tiltekinn skuldara skal samþykki hans fyrir vinnslunni liggja fyrir. Þegar upplýsinga er aflað frá öðrum en skuldara skal fylgja ákvæðum
21. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, um fræðsluskyldu umboðsmanns skuldara.

Sé ekki orðið við beiðni umboðsmanns skuldara um að veita upplýsingar skv. 1. mgr. innan hæfilegs frests getur hann ákveðið að viðkomandi aðili skuli greiða dagsektir þar til upplýsingarnar hafa verið látnar í té.

Aðila sem ákvörðun um dagsektir skv. 3. mgr. beinist að skal veittur fjórtán daga frestur til að koma að skriflegum andmælum áður en ákvörðun er tekin. Tilkynningu umboðsmanns skuldara um fyrirhugaða ákvörðun um dagsektir og ákvörðun um dagsektir skal fylgja rökstuðningur. Að öðru leyti gilda stjórnsýslulög um ákvörðun um dagsektir. Ákvörðun skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Dagsektir falla á hvern dag frá og með fyrsta virka degi frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun þar til upplýsingaskyldu er sinnt og þær falla niður þegar umboðsmaður skuldara telur að upplýsingaskyldan sé uppfyllt. Dagsektir geta numið frá 10.000 kr. til 1 millj. kr. fyrir hvern dag. Við ákvörðun fjárhæðar dagsekta skal m.a. líta til fjölda starfsmanna þess aðila sem ákvörðun beinist að og hversu umsvifamikill viðkomandi atvinnurekstur er.

Dagsektir eru aðfararhæfar án undangengins dóms og renna í ríkissjóð.]
1)
1)L. 12/2015, 2. gr.
4. gr.

Umboðsmanni skuldara og starfsmönnum stofnunarinnar er óheimilt að skýra frá þeim atriðum sem þeir verða áskynja um í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
5. gr.

[[Aðilar sem hafa leyfi til að stunda starfsemi skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr.
3. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir og vátryggingafélög skulu standa straum af kostnaði við rekstur umboðsmanns skuldara með greiðslu sérstaks gjalds í samræmi við ákvæði laga þessara. Hið sama á við um fjármálafyrirtæki sem er stýrt af skilanefnd, slitastjórn eða bráðabirgðastjórn samkvæmt
lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, óháð því hvort viðkomandi fyrirtæki hefur starfsleyfi, takmarkað starfsleyfi eða starfsleyfi þess verið afturkallað, enda stundi það eða hafi stundað starfsemi skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr.
3. gr. þeirra laga.]
1)

Þrátt fyrir 1. mgr. skulu Lánasjóður sveitarfélaga og Byggðastofnun undanþegin greiðslu gjaldsins.

Um greiðslu gjaldsins fer samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.]
2)
1)L. 23/2012, 1. gr. 2)L. 166/2011, 11. gr.
[6. gr.

Heimilt er að kæra ákvarðanir samkvæmt lögum þessum til ráðherra. Um málsmeðferð stjórnsýslukæru gilda ákvæði stjórnsýslulaga.

Þegar ákvörðun um dagsektir skv. 3. mgr. 3. gr. er kærð til ráðherra skal ráðherra kveða upp úrskurð eins fljótt og unnt er og að jafnaði innan mánaðar frá því að kæra barst til úrskurðar. Óheimilt er að innheimta dagsektir fyrr en ráðherra hefur úrskurðað í málinu. Dagsektir leggjast ekki á meðan kæra er til meðferðar hjá ráðherra. Staðfesti ráðherra ákvörðun umboðsmanns skuldara um dagsektir halda dagsektir áfram að leggjast á frá og með fyrsta virka degi frá dagsetningu úrskurðar ráðherra.]
1)
1)L. 12/2015, 3. gr.
[7. gr.]1)

Umboðsmaður skuldara gefur ráðherra árlega skýrslu um starfsemi stofnunarinnar. Þær upplýsingar sem koma fram í skýrslunni skulu vera á samandregnu formi þannig að einstakir aðilar séu ekki persónugreinanlegir. Skýrsluna skal birta opinberlega.
1)L. 12/2015, 3. gr.
[8. gr.]1)

Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 2010. Þó öðlast ákvæði til bráðabirgða II þegar gildi.
1)L. 12/2015, 3. gr.
Ákvæði til bráðabirgða.
I.

Við gildistöku laga þessara skal starfsmönnum Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna boðið starf hjá umboðsmanni skuldara. Um réttarvernd starfsmanna til starfa hjá umboðsmanni skuldara fer eftir ákvæðum
laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum. Ákvæði
7. gr. laga nr. 70/1996 gilda ekki við ráðstöfun starfa samkvæmt þessu ákvæði.
II.

[Ráðherra]
1) skal þegar skipa þriggja manna starfshóp sem undirbúa skal gildistöku laga þessara, m.a. bjóða starfsmönnum Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna annað starf hjá umboðsmanni skuldara frá 1. ágúst 2010, sbr. ákvæði til bráðabirgða I. Starfshópurinn skal eftir skipan umboðsmanns skuldara vera honum til ráðgjafar um starfsemi stofnunarinnar fyrsta starfsárið.
1)L. 126/2011, 534. gr.
III.

Útreikningi á kostnaði og greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara fyrir þann hluta ársins 2010 sem eftir er þegar lög þessi öðlast gildi skal háttað með sama hætti og kveðið er á um í 5. gr., þó þannig að miða skal við drög að áætlun sem starfshópur samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II gerir eins fljótt og auðið er eftir að lögin hafa verið samþykkt. Fer álagning gjaldsins fram svo fljótt sem unnt er eftir það. [Við gjaldtöku vegna ársins 2010 skal miða við upplýsingar um umfang útlána gjaldskyldra aðila í lok ársins 2009 og skal gjalddagi gjaldsins vera 31. desember 2010.]
1)

Endurskoða skal ákvæði 5. gr. um greiðslu kostnaðar af rekstri umboðsmanns skuldara innan þriggja ára frá gildistöku laga þessara.
1)L. 135/2010, 16. gr.
[IV.

[Ráðherra er fer með málefni fjármálamarkaðar]
1) er heimilt að fela umboðsmanni skuldara að hafa eftirlit með útreikningum fjármálafyrirtækja samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XI í
lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, óska eftir upplýsingum um forsendur útreikninga og kveða á um úrbætur ef þörf krefur.]
2)
1)L. 126/2011, 534. gr. 2)L. 151/2010, 5. gr.