Ferill 107. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 107  —  107. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað (starfskostnaður).

Flm.: Andrés Ingi Jónsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen, Guðmundur Andri Thorsson, Björn Leví Gunnarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir.


1. gr.

    Í stað orðanna „1. mgr. 9. gr.“ í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: 9. gr.

2. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 9. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að starfskostnaður þingmanna verði einungis endurgreiddur samkvæmt reikningum og heimild til að greiða starfskostnað sem fasta fjárhæð mánaðarlega falli brott. Jafnframt er lagt til að ráðherrar eigi ekki rétt á endurgreiðslu starfskostnaðar enda starfskostnaður þeirra greiddur af ráðuneytum.

Tilurð ákvæðis um starfskostnað alþingismanna.
    Núverandi fyrirkomulagi á greiðslu starfskostnaðar þingmanna var komið á með samþykkt laga nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað á 119. löggjafarþingi. Á næsta löggjafarþingi á eftir var ákvæði um starfskostnað sérstaklega breytt með lögum nr. 119/1995 þannig að fastar greiðslur starfskostnaðar urðu skattskyldar og hefur ákvæðið haldist efnislega óbreytt síðan. Fyrir setningu laga nr. 88/1995 höfðu engar skýrar reglur gilt um starfskostnað þingmanna og markaði lagasetningin að því leytinu til nokkra framför.
    Við meðferð frumvarps til nýrra heildarlaga um þingfararkaup, sem varð að lögum nr. 88/1995 (47. mál á 119. löggjafarþingi), varð nokkur umræða um það hvernig best væri að útfæra slíkar starfskostnaðargreiðslur. Var sérstaklega deilt um það hvort slíkar greiðslur ættu að vera skattfrjálsar, en jafnframt hvort ætti einvörðungu að endurgreiða starfskostnað samkvæmt reikningum. Í greinargerð með frumvarpinu er sú ráðstöfun að greiða starfskostnað sem fasta fjárhæð mánaðarlega útskýrð með eftirfarandi hætti: „Fyrirkomulag líkt þessu er viðhaft í þingum nágrannalandanna enda þykir eðlilegt að þingmenn hafi sjálfdæmi innan ákveðins ramma um hvernig fé er ráðstafað í starfskostnað en eigi það ekki undir ákvörðunum embættismanna þingsins eða stjórnarráðsins.“
    Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagðist í áliti sínu gegn þessari heimild, sérstaklega í ljósi ákvæða frumvarpsins um að slíkar fastar greiðslur starfskostnaðar skyldu vera skattfrjálsar. Við lokaafgreiðslu frumvarpsins á vordögum 1995 naut ákvæðið, sem lagt er til að falli brott með frumvarpi þessu, stuðnings allra greiddra atkvæða utan fjögurra þingmanna Þjóðvaka og eins úr þingflokki Alþýðubandalagsins og óháðra.
    Á grundvelli laga nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, setti forsætisnefnd Alþingis reglur um þingfararkostnað 28. ágúst 1995. Þær reglur fylgja sem viðauki við frumvarp þetta, en 9. gr. þeirra varðar almennan starfskostnað alþingismanna. Samanburður við gildandi reglur um starfskostnað sýnir að í grunninn er um sama ramma að ræða og gildir enn. Einna helst hefur reglunum verið breytt til samræmis við breytta starfshætti þingmanna, t.d. að þörf fyrir endurgreiðslu vegna kostnaðar við faxtæki er nokkru minni nú en hún var árið 1995.

Skattfrelsi starfskostnaðar afnumið í kjölfar mótmæla.
    Talsverð umræða varð á sínum tíma í samfélaginu um fyrirkomulag endurgreiðslu starfskostnaðar. Forsætisnefnd ákvarðaði endurgreiðslu starfskostnaðar þingmanna á sama tíma og Kjaradómur úrskurðaði nærri 10% hækkun á kjörum þingmanna og ýmissa háttsettra embættismanna – og tæplega 20% hækkun til ráðherra. Innan verkalýðshreyfingarinnar heyrðust háværar raddir um að forsendur kjarasamninga væru brostnar og vísað sérstaklega til starfskostnaðargreiðslunnar, sem í fyrstu var skattfrjáls. Munaði enda um minna – á þessum tíma nam þingfararkaup 195 þús. kr. á mánuði, en skattfrjáls starfskostnaðargreiðslan var 40 þús. kr. á mánuði. Að teknu tilliti til skattfrelsisins nam starfskostnaðargreiðslan því um þriðjungshækkun á grunnlaunum þingmanna haustið 1995, væri hún tekin sem föst greiðsla.
    Gagnrýnin varð til þess að strax á haustþingi 1995 flutti forsætisnefnd ásamt formönnum þingflokka annarra en þingflokks Þjóðvaka frumvarp um breytingu á lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað, þar sem lagt var til að skattfrelsi fastrar endurgreiðslu starfskostnaðar yrði afnumið (84. mál á 120. löggjafarþingi).
    Við afgreiðslu þess þingmáls lagði minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar fram breytingartillögu (þskj. 122 á 120. löggjafarþingi) þess efnis að ráðherrar ættu ekki kost á endurgreiðslu starfskostnaðar, með vísan til þess að þar sem venjan sé að ráðuneytin greiði allan starfskostnað ráðherra hafi þetta atriði „orðið til þess að fólkið í landinu hafi alls ekki sannfærst um að hér væri um að ræða starfskostnaðargreiðslu til alþingismanna en ekki viðbótarlaunagreiðslu,“ eins og Jóhanna Sigurðardóttir, flutningsmaður breytingartillögunnar, orðaði það.
    Þá lagði Ögmundur Jónasson, þingmaður Alþýðubandalagsins og óháðra, fram breytingartillögu (þskj. 145 á 120. löggjafarþingi) þess efnis að greiðsla á fastri fjárhæð yrði ekki heimil og einvörðungu yrði endurgreiddur starfskostnaður samkvæmt reikningum. Taldi Ögmundur að með því fyrirkomulagi sem lagt var til í frumvarpinu sætu alþingismenn uppi með greiðslu sem er blanda af starfskostnaði og launahækkunum. Benti hann jafnframt á að með þeirri ákvörðun að skattleggja starfskostnaðinn væri í raun verið að viðurkenna að þar væri um launahækkun að ræða, a.m.k. að hluta til.
    Við lokaafgreiðslu frumvarps til laga um breytingu á lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað á haustdögum 1995 hlaut hvorug fyrrgreind breytingartillagan brautargengi. Frumvarpið varð að lögum með öllum greiddum atkvæðum – utan þingflokks Þjóðvaka, tveggja þingmanna Alþýðubandalags og óháðra, og einnar þingkonu Samtaka um kvennalista – og hafa ákvæði laga um starfskostnað alþingismanna verið óbreytt síðan.

Ábyrgð og gagnsæi við ráðstöfun opinbers fjár.
    Stór hluti af þeirri hörðu gagnrýni sem höfð var uppi á greiðslu starfskostnaðar þingmanna árið 1995 snýst um það hvort hætt sé við að litið sé á greiðslurnar sem launagreiðslur. Sú virðist hafa orðið raunin, eins og birtist með skýrum hætti í janúar 2017. Þá brást forsætisnefnd við bréfi frá formönnum stjórnmálaflokkanna þar sem þess er farið á leit við nefndina að hún endurskoði reglur um þingfararkostnað. Tilefnið var tæpra 45% hækkun Kjararáðs á þingfararkaupi. Varð tillaga forsætisnefndar að lækka greiðslur fyrir ferðakostnað í kjördæmi um 54 þús. kr. og starfskostnað um 50 þús. kr. Í tilkynningu forsætisnefndar er þessum upphæðum jafnað til launagreiðslu, þannig að „samanlagt má jafna þessari lækkun við 150 þús. kr. fyrir skatt“. 1
    Undanfarin misseri hefur mikil umræða átt sér stað um það hvernig æskilegt sé að haga endurgreiðslum á útlögðum kostnaði kjörinna fulltrúa vegna starfa þeirra. Vegna gagnrýni á óhóflegar endurgreiðslu aksturskostnaðar þingmanna vegna notkunar á eigin bifreiðum hefur mikið starf verið unnið innan forsætisnefndar Alþingis til þess annars vegar að skerpa á reglum og hins vegar að tryggja gagnsæi.
    Við það tilefni kom enn fram með skýrum hætti að ekki sé litið á endurgreiðslu starfskostnaðar sem eðlilegan útgangspunkt en fasta greiðslu án reikninga sem undantekninguna: „Almennt fá þingmenn greiddan fastan starfskostnað og greiða af honum staðgreiðslu. Þeim er þó heimilt að leggja fram reikning og kemur fjárhæð þeirra þá til lækkunar á staðgreiðslugrunni.“ 2 Þykir flutningsmönnum þessi afgreiðsla forsætisnefndar sýna að full innistæða hafi verið fyrir áhyggjum þeirra sem árið 1995 óttuðust að litið yrði á starfskostnað sem launagreiðslur, og þar með laun sem þingmenn ákvarða fyrir sjálfa sig.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að hætt verði að greiða fastan starfskostnað mánaðarlega, enda virðist hann í mörgum tilvikum í raun þjóna hlutverki launauppbótar sem forsætisnefnd skammti þingmönnum. Ekki er lagt til að hrófla við upphæðinni sem slíkri, heldur einungis að hún verði greidd gegn framvísun reikninga. Þá væri eðlilegt að birta afrit þeirra reikninga á upplýsingasíðu á vef Alþingis líkt og gert hefur verið með fastar launagreiðslur til þingmanna og fastar kostnaðargreiðslur frá 27. febrúar 2018.
    Með því að þrengja reglur um starfskostnað þingmanna með þessum hætti, auk þess að tryggja gagnsæi við endurgreiðslu þess kostnaðar, er það von flutningsmanns að hægt sé að stuðla að auknu trausti til Alþingis og sýna fram á ábyrga ráðstöfun opinbers fjár.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting á 5. gr. laganna að þingmenn eigi ekki rétt á endurgreiðslu starfskostnaðar skv. 9. gr. laganna þann tíma sem þeir gegna ráðherraembætti. Í 5. gr. er kveðið á um að ráðherra eigi rétt til greiðslna samkvæmt lögunum nema skv. 7. gr. um ferðakostnað og 1. mgr. 9. gr. varðandi skrifstofuaðstöðu og nauðsynlegan búnað sem Alþingi leggur til. Með greininni er lagt til að undanþágan verði víkkuð út og nái einnig til starfskostnaðar enda starfskostnaður ráðherra greiddur af ráðuneytum.
    Samsvarandi ákvæði var lagt fram af Jóhönnu Sigurðardóttur, þingmanni Þjóðvaka, sem breytingartillaga minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar við frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað á 120. löggjafarþingi (þskj. 122).
    Með 2. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting á 9. gr. laganna að heimild til að greiða starfskostnað þingmanna sem fasta mánaðarlega greiðslu verði felld brott. Verði breytingin að lögum verður einungis heimilt að greiða samsvarandi upphæð til þingmanna gegn framvísun reikninga, en um hámarksupphæð og framkvæmd endurgreiðslunnar fer eftir sem áður samkvæmt ákvörðun forsætisnefndar.
    Samsvarandi ákvæði var lagt fram af Ögmundi Jónassyni, þingmanni Alþýðubandalagsins og óháðra, sem breytingartillaga við frumvarp til laga breytingu á lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað á 120. löggjafarþingi (þskj. 145).


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




1     www.althingi.is/thingmenn/tilkynningar-um-thingmenn/laekkun-a-greidslum-til-thingmanna-samthykkt-i-forsaetisnefnd
2     www.althingi.is/media/frettir/FerdakostnadurGreinargerdHB7.pdf