Ferill 409. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 550  —  409. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.


Frá félags- og jafnréttismálaráðherra.



    Alþingi ályktar að samþykkja eftirfarandi áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess og að gert verði ráð fyrir framkvæmd hennar við gerð fjárlaga.

I. FRAMTÍÐARSÝN OG VIÐFANGSEFNI

    Ísland verði í fararbroddi þegar kemur að aðgerðum gegn ofbeldi í samfélaginu og hvernig tekist er á við afleiðingar þess. Það verði gert almennt með forvörnum og fræðslu, hugað verði að bættum viðbrögðum og málsmeðferð í réttarvörslukerfinu og unnið verði að valdeflingu þolenda með þverfaglegt starf að leiðarljósi.
    Við framkvæmd áætlunarinnar verði tekið mið af því að með ofbeldi sé átt við líkamlegt, kynferðislegt, andlegt og ekki síst kynbundið ofbeldi, einelti, haturstal og myndbirtingar á stafrænum miðlum sem hvetja til ofbeldis. Horft verði meðal annars til frásagna og umræðu sem birtist í samfélaginu undir myllumerkinu #églíka/#metoo. Aðgerðir taki einkum til forvarna, fræðslu og bættrar málsmeðferðar svo og valdeflingar í kjölfar ofbeldis gagnvart fullorðnum. Aðgerðir sem lúta að réttindum barna og vernd þeirra gegn ofbeldi taki einkum til forvarna og fræðslu, auk aðgerða sem séu til þess fallnar að bæta málsmeðferð í slíkum málum.

II. MARKMIÐ OG ÁHERSLUR

    Alþingi álykti að ofbeldi sé alvarlegt þjóðfélagsmein sem vinna þurfi gegn með öllum tiltækum ráðum. Meginmarkmið stjórnvalda með aðgerðaáætluninni verði að stuðla að vakningu um málefnið með forvörnum og fræðslu, bæta verklag og málsmeðferð innan réttarvörslukerfisins og efla stuðning við þolendur. Sérstök áhersla er lögð á þessa þætti:
     1.      Að ofbeldi í íslensku samfélagi verði ekki liðið
     2.      Að komið verði á markvissri fræðslu og forvörnum gegn hvers konar ofbeldi, einkum í skólakerfinu, á íþrótta- og æskulýðsvettvanginum, á vinnustöðum og í stafrænum heimi.
     3.      Að stuðlað verði að heildstæðari umgjörð um meðferð ofbeldismála innan réttarvörslukerfisins sem leiði af sér aukna skilvirkni, betri samskipti milli stofnana og upplýstara starfsumhverfi.
     4.      Að þolendur eigi greiðan aðgang að upplýsingum, þjónustu og úrræðum án tafar í kjölfar ofbeldis.
     5.      Að samstarf og samhæfing verði efld til muna í þjónustu við þolendur ofbeldis, meðal annars á milli ríkisstofnana, sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka.

    Áætluninni verði skipað niður í þrjá þætti:
     A.      Vakningu sem felur í sér forvarnir og fræðslu með áherslu á heilbrigð samskipti, ráðgjöf og snemmtæk viðbrögð.
     B.      Viðbrögð við ofbeldi með áherslu á bætt verklag og málsmeðferð innan réttarvörslukerfisins.
     C.      Valdeflingu með áherslu á samhæfingu og þverfaglegt samstarf í þjónustu við þolendur ofbeldis.

III. AÐGERÐAÁÆTLUN

    Alþingi ályktar að unnið skuli í samræmi við eftirfarandi aðgerðaáætlun til að tryggja framgang markmiða hennar:

A. Vakning – fræðsla og forvarnir.
A.1. Fræðsla um ofbeldi til þeirra sem vinna með börnum í skóla-, íþrótta- og æskulýðsstarfi.
    Fræðslu um ofbeldi og viðbrögð við því verði komið á og viðhaldið reglulega meðal þeirra sem vinna með börnum og ungmennum. Samstarfsaðilar tryggi að allt starfsfólk á þessum vettvangi sé upplýst um mikilvægi forvarnarstarfs, helstu birtingarmyndir ofbeldis og tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum.
          Markmið: Að þeir sem vinna með börnum og ungmennum þekki helstu birtingarmyndir ofbeldis og bregðist fyrr við og á réttan hátt þegar grunur er um ofbeldi.
          Kostnaðaráætlun: 1 millj. kr. árið 2019, 2 millj. kr. árið 2020, 2 millj. kr. árið 2021 og 1 millj. kr. árið 2022.
          Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Velferðarráðuneytið, Menntamálastofnun, Barnaverndarstofa, Embætti landlæknis, umboðsmaður barna, sveitarfélög, fagstéttir og stéttarfélög í skólum og í íþrótta- og æskulýðsstarfi og frjáls félagasamtök.
          Mælikvarði: Að tilkynningum til barnaverndaryfirvalda fjölgi árlega samkvæmt tölulegum upplýsingum Barnaverndarstofu á tímabili áætlunarinnar.

A.2. Þekking á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins verði efld og hann verði grundvöllur í starfi með börnum.
    Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna verði reglulega kynntur börnum, foreldrum, starfsfólki í skólum og í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Þar með verði hann grundvöllur í öllu starfi með börnum. Réttindaskóli Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), sem byggist á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, verði innleiddur í sem flesta skóla og sveitarfélög. Árlega verði 20. nóvember helgaður mannréttindum barna.
          Markmið: Að auka og viðhalda þekkingu á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna meðal barna, foreldra og þeirra sem vinna með börnum og að börn og ungmenni fái sterkari rödd í samfélaginu.
          Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr. árlega.
          Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Dómsmálaráðuneytið, velferðarráðuneytið, sveitarfélög, Menntamálastofnun, umboðsmaður barna, UNICEF, Embætti landlæknis (heilsueflandi skólar), frjáls félagasamtök og ungmennaráð.
          Mælikvarði: Þekking á barnasáttmálanum verði könnuð meðal barna, foreldra og þeirra sem vinna með börnum árið 2019 og eftir það á fimm ára fresti.

A.3. Gæðakröfur og vottun um fyrirmyndarstarf í íþrótta- og æskulýðsstarfi.
    Settar verði gæðakröfur um fyrirmyndarstarf í íþrótta- og æskulýðsstarfi með áherslu á jafnrétti, heilbrigð samskipti og menningu þar sem ofbeldi þrífist ekki. Lögð verði áhersla á tæka samvinnu og gæðakröfur endurskoðaðar í handbók Íþróttasambands Íslands um fyrirmyndarsamstarf frá árinu 2004. Kynning og innleiðing verði skipulögð í samráði við samstarfsaðila og viðeigandi fræðsla veitt ásamt eftirfylgni í samræmi við aðgerðir á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins í kjölfar frásagna úr íþróttahreyfingunni í tengslum við #églíka/#metoo. Fundinn verði vettvangur sem votti fyrirmyndarstarfið og hafi virkt eftirlit með því.
          Markmið: Að koma í veg fyrir hvers konar ofbeldi í íþrótta- og æskulýðsstarfi.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Íþrótta- og æskulýðsvettvangurinn og önnur frjáls félagasamtök, sveitarfélög og ungmennaráð.
          Mælikvarði. Öll íþrótta- og æskulýðsfélög hafi fengið vottun um fyrirmyndarstarf árið 2022.

A.4. Fagráð eineltismála fyrir öll skólastig og íþrótta- og æskulýðsstarf.
    Komið verði á heildstæðu fagráði eineltismála sem veiti ráðgjöf um einelti og úrlausn einstakra flókinna eineltismála sem ekki hefur tekist að leysa innan stofnunar, félags eða sveitarfélags. Fagráðið leiðbeini um gerð eineltisáætlana fyrir leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf. Byggt verði á grunni núverandi fagráðs grunn- og framhaldsskóla sem sjái til þess að fræðsluefni um forvarnir og gagnreyndar aðferðir gegn einelti verði aðgengilegt.
          Markmið: Að brugðist verði við eineltismálum á faglegan og skilvirkan hátt.
          Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr. árlega.
          Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Menntamálastofnun, sveitarfélög, umboðsmaður barna, Embætti landlæknis, skólar, frjáls félagasamtök og ungmennaráð.
          Mælikvarði: Sameiginlegt fagráð fyrir öll skólastig og íþrótta- og æskulýðsstarf hafi tekið til starfa fyrir árslok 2020.

A.5. Fræðsluefni um ofbeldi fyrir leikskólabörn.
    Fræðsluefni sem hentar leikskólabörnum verði útbúið og komið í notkun í leikskólum. Fræðsluefninu fylgi leiðbeiningar til starfsfólks leikskóla um notkun þess og viðbrögð í kjölfar fræðslu, þar á meðal um tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum og samskipti við forsjáraðila.
          Markmið: Að fræða börn um rétt þeirra til lífs án ofbeldis.
          Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr. árið 2019, 2 millj. kr. árið 2020, 2 millj. kr. árið 2021 og 1 millj. kr. árið 2022.
          Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Menntamálastofnun, Barnaverndarstofa, Embætti landlæknis, sveitarfélög, háskólar og frjáls félagasamtök.
          Mælikvarði: Að fræðsluefni hafi verið dreift til allra leikskóla landsins fyrir árslok 2022.

A.6. Kennsla um kynheilbrigði og kynhegðun verði efld í grunn- og framhaldsskólum.
    Nemendur í grunn- og framhaldsskólum fái markvissa og viðvarandi kennslu um kynheilbrigði og kynhegðun, þar með talið kennslu um mikilvægi samþykkis og persónulegra marka. Einnig fari fram fræðsla um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi. Þetta stuðli að því að einstaklingar taki ábyrga afstöðu til kynlífs, kláms, kynbundins ofbeldis og kynferðislegra birtingarmynda eineltis og haturstals sem og eigin framkomu á netmiðlum og birtingu myndefnis. Kennsla verði endurskipulögð í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur séð stað í samfélaginu undir myllumerkinu #églíka/#metoo, þar með talin kennsla til nemenda, kennara og annarra sem vinna með börnum. Kennsla í skólum um kynheilbrigði og kynhegðun hafi það að leiðarljósi að hjálpa einstaklingum að öðlast jákvæðan skilning á kynlífi í víðri merkingu þess orðs og veiti þeim þekkingu umfram það sem finna má á netmiðlum. Lögð verði áhersla á námsefnið Örugg saman sem Embætti landlæknis hefur gefið út og hentar efstu bekkjum grunnskóla, fyrstu árgöngum framhaldsskóla, félagsmiðstöðvum og íþróttahópum. Þá verði notast við fræðsluefnið sem framleitt var sem hluti af vitundarvakningu um ofbeldi gegn börnum.
          Markmið: Að nemendur í grunn- og framhaldsskólum taki ábyrga afstöðu í nánum samskiptum.
          Kostnaðaráætlun: 1 millj. kr. árlega.
          Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Menntamálastofnun, fjölmiðlar, kennaramenntunarstofnanir, Embætti landlæknis, Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar á landsvísu, sveitarfélög, frjáls félagasamtök og ungmennaráð.
          Mælikvarði: Markvissri kennslu um kynheilbrigði og kynhegðun verði komið á fyrir árslok 2020 í skólum í samræmi við aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla og grunnþáttinn Heilbrigði og velferð sem þar er að finna.

A.7. Samræmd heilsuvernd skólabarna á landsvísu.
    Halda áfram að styrkja heilsuvernd skólabarna á landsvísu þar sem nemendur fá samræmda skipulagða heilbrigðisfræðslu með áherslu á að hvetja til heilbrigðra lífshátta. Fjallað verði um líkamann, líkamsímynd, kynþroska, kynheilbrigði, samskipti, kvíða, tilfinningar, hópþrýsting og geðheilbrigði. Fræðslan stuðli meðal annars að því að einstaklingar taki ábyrga afstöðu til kynlífs, kláms og kynbundins ofbeldis.
          Markmið: Að nemendur fái samræmda skipulagða árangursmetna fræðslu um kynþroska og kynheilbrigði.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar á landsvísu, heilsugæslustöðvar, Embætti landlæknis.
          Mælikvarði: Að minnsta kosti 80% nemenda í 9. bekk fái fræðslu um kynþroska og kynheilbrigði í skipulagðri heilbrigðisfræðslu fyrir árslok 2022.

A.8. Vitundarvakning í samfélaginu gegn haturstali.
    Vitundarvakningu gegn haturstali í samfélaginu verði ýtt úr vör með samfélagssáttmála og fræðslu sem verði sniðin annars vegar að börnum og ungmennum og hins vegar fullorðnum. Talið er að aukin þekking í samfélaginu um eðli og afleiðingar haturstals leiði til þess að fólk taki afstöðu gegn því. Í sáttmálanum fælist yfirlýsing um að haturstal verði ekki liðið í opinberri umræðu, fjölmiðlum eða í samskiptum manna í milli og að barist verði gegn því. Starfshópi á forræði Mannréttindaskrifstofu Íslands verði falið að útfæra verkefnið nánar, hann útbúi meðal annars tillögu að samfélagssáttmála og leggi til hugmyndir að ýmiss konar fræðsluefni.
          Markmið: Að samfélagið sameinist gegn haturstali.
          Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr. árið 2019, 2 millj. kr. árið 2020, 2 millj. kr. árið 2021 og 1 millj. kr. árið 2022.
          Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
          Samstarfsaðilar: Mannréttindaskrifstofa Íslands, velferðarráðuneytið, fjölmiðlanefnd, Menntamálastofnun, SAFT (Samfélag, fjölskylda og tækni), skólar, íþrótta- og æskulýðsvettvangurinn og frjáls félagasamtök og ungmennaráð.
          Mælikvarði: Vitundarvakning hefjist fyrir árslok 2020.

A.9. Vitundarvakning um einelti og ofbeldi á vinnustöðum.
    Einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum verði ekki liðið og atvinnurekendur bregðist við á grundvelli áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað, þegar þeir verða varir við slíka hegðun innan vinnustaðarins. Farið verði í fræðslu- og eftirlitsátak þar sem atvinnurekendur verði upplýstir um skyldur þeirra samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Í átakinu felist meðal annars kynning, útgáfa, fræðsla og leiðbeiningar um gerð skriflegrar áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað, þar á meðal áætlanir um forvarnir með sérstakri áherslu á sálfélagslegt vinnuumhverfi. Einnig verði lögð áhersla á þessa þætti í eftirlitsheimsóknum í fyrirtæki. Vinna við átakið hefjist í október 2018.
          Markmið: Að 60% vinnustaða á innlendum vinnumarkaði hafi gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, þar á meðal áætlanir um forvarnir með sérstakri áherslu á sálfélagslegt vinnuumhverfi, í lok árs 2020.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma ársins 2019, 10 millj. kr. árið 2020 og 10 millj. kr. árið 2021.
          Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Vinnueftirlitið.
          Mælikvarði: Hlutfall vinnustaða á innlendum vinnumarkaði sem hefur gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, þar á meðal áætlanir um forvarnir, með sérstaka áherslu á sálfélagslegt vinnuumhverfi, í lok árs 2019, 2020 og 2021.

A.10. Fræðsla um úrræði fyrir þolendur ofbeldis um allt land.
    Bæklingi um ofbeldi og úrræði í kjölfar ofbeldis verði dreift skipulega um land allt. Bæklingurinn byggist á fyrirliggjandi efni og verði staðfærður í samvinnu við lykilaðila á þessu sviði í hverjum landshluta. Bæklingurinn verði aðgengilegur á nokkrum tungumálum og uppfærður reglulega á upplýsingavef, sbr. aðgerð C.2. Sérstök áhersla verði lögð á að fræðslan nái til fatlaðs fólks, aldraðra og fólks af erlendum uppruna.
          Markmið: Að upplýsa landsmenn um ofbeldi og úrræði í kjölfar ofbeldis.
          Kostnaðaráætlun: 4 millj. kr. árið 2020.
          Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Sveitarfélög og hlutaðeigandi stofnanir og samtök, þ.m.t. Fjölmenningarsetur og réttindagæslumenn fatlaðs fólks.
          Mælikvarði: Bæklingnum verði dreift vorið 2020.

B. Viðbrögð – verklag og málsmeðferð.
B.1. Stuðlað að menntun um ofbeldismál fyrir þá sem starfa innan réttarvörslukerfisins.
    Fræðslu um ofbeldismál í víðu samhengi verði ýtt úr vör til þeirra sem starfa innan réttarvörslukerfisins. Lögð verði áhersla á að fræðslan snúist um eðli og afleiðingar ofbeldis, birtingarmyndir þess og þá einkum á sérstöðu tiltekinna viðkvæmra hópa, þ.m.t. innflytjendur, fatlað fólk og aldraðir, í því skyni að efla getu starfsmanna til að bregðast við ofbeldismálum. Eftirtöldum aðilum verði falið að annast framkvæmd slíkrar fræðslu: Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar og Embætti ríkissaksóknara. Með þessu móti verði hægt að auka þekkingu þeirra sem starfa innan réttarvörslukerfisins á ofbeldismálum sem skili sér í betri rannsóknum og meðferð ofbeldismála innan réttarvörslukerfisins.
          Markmið: Bætt verklag við rannsókn og málsmeðferð ofbeldismála innan réttarvörslukerfisins.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar, Embætti ríkislögreglustjóra, Embætti ríkissaksóknara, neyðarmóttaka og áfallateymi Landspítalans og réttindagæslumenn fatlaðs fólks.
          Mælikvarði: Reglubundin fræðsla verði komin á í árslok 2020.

B.2. Lagaákvæði og reglur um þagnarskyldu hindri ekki framvindu mála.
    Dómsmálaráðuneytið mun kanna hvort ákvæði gildandi laga um þagnarskyldu hindri með einhverju móti eðlilega framvindu ofbeldismála innan kerfisins og geri tillögur að úrbótum verði þess talið þörf. Athugað verði sérstaklega hvort nauðsynlegt sé að rýmka heimildir lögreglu til að miðla nauðsynlegum upplýsingum til viðeigandi stofnana við rannsókn einstakra mála. Þá skuli þessi vinna unnin samhliða og með hliðsjón af innleiðingu Istanbúl-samningsins ásamt innleiðingu dómsmálaráðuneytisins á tilskipun Evrópusambandsins um vinnslu og miðlun persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.
          Markmið: Þverfaglegt samráð og samstarf sé óhindrað við rannsókn og meðferð ofbeldismála.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Velferðarráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Embætti landlæknis, Barnaverndarstofa, Embætti ríkislögreglustjóra, Embætti héraðssaksóknara, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Embætti ríkissaksóknara, Persónuvernd.
          Mælikvarði: Niðurstaða liggi fyrir í árslok 2020.

B.3. Heimildir stofnana og félagasamtaka til að afla upplýsinga úr sakaskrá ríkisins.
    Dómsmálaráðuneytið skipi starfshóp sem verði falið að greina núverandi heimildir stofnana og félagasamtaka sem starfa með börnum til að afla upplýsinga úr sakaskrá og meta þörfina á mögulegum úrbótum. Lögð er áhersla á að starfshópurinn hafi hliðsjón af lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga við gerð tillagna til úrbóta.
          Markmið: Stofnanir geti með fullnægjandi hætti tryggt öryggi skjólstæðinga sinna með því að afla allra upplýsinga úr sakaskrá ríkisins.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Embætti ríkissaksóknara, Persónuvernd, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Barnaverndarstofa, Embætti ríkislögreglustjóra.
          Mælikvarði: Tillögur liggi fyrir árslok 2019.

B.4. Sáttamiðlun í sakamálum.
    Dómsmálaráðuneytið taki til skoðunar hvernig til hefur tekist með sáttamiðlun í ofbeldismálum og kanni hvort þörf sé á lagabreytingum, eftir atvikum með setningu sérlaga eða breytingum á lögum um meðferð sakamála. Við þá vinnu verði rík hliðsjón höfð af skýrslu nefndar um tilraunaverkefni um sáttamiðlun í sakamálum frá árinu 2009 og afrakstur og árangur af verkefninu metinn sérstaklega.
          Markmið: Sáttamiðlun verði nýtt í auknum mæli.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Embætti ríkissaksóknara, Embætti ríkislögreglustjóra, embætti héraðssaksóknara, lögregluembættin.
          Mælikvarði: Niðurstaða liggi fyrir í árslok 2020.

B.5. Bætt áverkaskráning í Slysaskrá Íslands.
    Safnað verði ítarlegri upplýsingum um slys og áverka í Slysaskrá Íslands til að kortleggja betur umfang og áhættuþætti.
          Markmið: Ítarlegri upplýsingar um slys og áverka liggi fyrir og umfang og áhættuþættir verði kortlagðir.
          Kostnaðaráætlun: 10 millj. kr. árið 2021 og 10 millj. kr. árið 2022.
          Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Embætti landlæknis, heilbrigðisstofnanir, Embætti ríkislögreglustjóra, Samgöngustofa, Vinnueftirlitið og frjáls félagasamtök.
          Mælikvarði: Allar viðeigandi stofnanir skrái í endurbætta Slysaskrá Íslands í lok árs 2022.

C. Valdefling – samstarf og samhæfing.
C.1. Starfsemi Bjarkarhlíðar – þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis fest í sessi.
    Tilraunaverkefnið Bjarkarhlíð er þverfaglegur samstarfsvettvangur opinberra stofnana og frjálsra félagasamtaka og er mikilvægur samstarfsaðili í þessari aðgerðaáætlun. Í Bjarkarhlíð fá fullorðnir þolendur ofbeldis samhæfða þjónustu og ráðgjöf undir sama þaki en þar starfa félagsráðgjafar og rannsóknarlögreglumaður í fullu starfi, auk samstarfsaðila sem eru með reglulega viðveru. Stjórn og framkvæmdastjórn Bjarkarhlíðar vinni að því að renna stoðum undir reksturinn og tryggja starfsemi miðstöðvarinnar til frambúðar. Framlag velferðarráðuneytisins hefur verið 20 millj. kr. á ári sem rennur út í árslok 2018. Þá munu stjórnvöld leggja Bjarkarhlíð til 20 millj. kr. árlega á tímabilinu 2019–2021 í samræmi við Aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu.
          Markmið: Að þolendur ofbeldis fái viðeigandi þverfaglega aðstoð án tafar sem og úrlausn sinna mála í kjölfar ofbeldis í þeirri umgjörð sem boðið er upp á í Bjarkarhlíð.
          Kostnaðaráætlun: 15 millj. kr. á árinu 2019 og 20 millj. kr. frá og með árinu 2020. Sjá nánari skýringu í greinargerð.
          Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Dómsmálaráðuneytið, Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og önnur lögregluumdæmi, Landspítalinn og frjáls félagasamtök.
          Mælikvarði: Rekstur Bjarkarhlíðar verði tryggður til frambúðar haustið 2018.

C.2. Upplýsingavefur um ofbeldi.
    Opnaður verði upplýsingavefur með margþættu efni um ofbeldismál. Vefurinn innihaldi meðal annars upplýsingar um birtingarmyndir ofbeldis, forvarnir, feril mála innan réttarvörslukerfisins og tiltæk stuðningsúrræði í kjölfar ofbeldis. Á vefnum verði einnig birtar skýrslur og niðurstöður rannsókna á þessu sviði, bæði innlendar og erlendar. Vefurinn verði hýstur í Bjarkarhlíð – þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis.
          Markmið: Að hafa upplýsingar og fræðsluefni um ofbeldi, forvarnir og viðbrögð aðgengilegt á einum stað.
          Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr. stofnkostnaður árið 2020.
          Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Bjarkarhlíð, Jafnréttisstofa, dómsmálaráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Menntamálastofnun, Barnaverndarstofa, Embætti landlæknis, Vinnueftirlitið, Mannréttindaskrifstofa Íslands, sveitarfélög, Hagstofa Íslands, háskólasamfélagið og mögulega fleiri.
          Mælikvarði: Vefurinn verði opnaður árið 2020.

C.3. Stuðningur við þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi.
    Unnið er að stofnun þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi sem staðsett verður á Akureyri. Um er að ræða þróunarverkefni til tveggja ára sem yrði sambærilegt Bjarkarhlíð á höfuðborgarsvæðinu. Þar verði veitt samhæfð þjónusta og ráðgjöf fyrir fullorðna einstaklinga sem beittir hafa verið ofbeldi, þ.m.t. kynferðisofbeldi, ofbeldi í nánum samböndum eða eru brotaþolar í mansalsmálum og/eða vændi. Þar mun einnig verða veitt fræðsla og fjallað um birtingarmyndir, eðli og afleiðingar ofbeldis. Þjónustumiðstöðin mun verða starfrækt á ábyrgð stofnaðila á Norðurlandi. Verkefnið verði metið af óháðum aðila að tveimur árum liðnum.
          Markmið: Að þolendur ofbeldis á Norðurland fái á einum stað nauðsynlega þjónustu í kjölfar ofbeldis.
          Kostnaðaráætlun: 6 millj. kr. árlega 2019 og 2020.
          Ábyrgð:
Velferðarráðuneytið.
          Samstarfsaðilar:
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, Akureyrarbær, Aflið, Háskólinn á Akureyri, Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Kvennaráðgjöfin, Samtök um kvennaathvarf, Mannréttindaskrifstofa Íslands og ráðuneyti dómsmála, félags- og jafnréttismála og mennta- og menningarmála.
          Mælikvarði: Að starfsemi verði hafin árið 2019.

C.4. Viðbragðsteymi um sérhæfða ráðgjöf til þolenda ofbeldis á landsbyggðinni.
    Sett verði af stað tilraunaverkefni, í umsjá Bjarkarhlíðar, þar sem myndað verði teymi félagsráðgjafa, geðlækna, sálfræðinga og eftir atvikum annarra sérfræðinga sem veiti þolendum ofbeldis á landsbyggðinni viðeigandi aðstoð í kjölfar ofbeldis. Gert er ráð fyrir að félagsþjónusta, lögregla, heilbrigðisþjónusta og samtök sem styðja þolendur ofbeldis geti án tafar kallað eftir aðstoð sérfræðings sem kæmi á staðinn og veitti brotaþola sérhæfða ráðgjöf.
          Markmið: Að þolendur ofbeldis um allt land eigi kost á sérhæfðri ráðgjöf í kjölfar ofbeldis svo fljótt sem auðið er.
          Kostnaðaráætlun: 12 millj. kr. árlega 2020–2021.
          Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Bjarkarhlíð, fagfélög sérfræðinga, félagsþjónusta sveitarfélaga, lögregla, neyðarmóttaka og áfallateymi Landspítala og heilsugæsla.
          Mælikvarði: Mat á verkefni fari fram í ársbyrjun 2022.

C.5. Tímabundið leyfi frá störfum í kjölfar ofbeldis.
    Starfshópi verði falið að kanna og koma með tillögur um hvernig unnt sé að koma til móts við þolendur ofbeldis, sem eru virkir þátttakendur á vinnumarkaði, þegar þeir eru frá vinnu í kjölfar ofbeldis. Er hér meðal annars átt við þegar þeir þurfa að sækja sér heilbrigðis- og félagsþjónustu eða sinna erindum tengdum málsmeðferð í réttarvörslukerfinu.
          Markmið: Að gefa þolanda svigrúm til þess að vinna úr afleiðingum ofbeldis án þess að það hafi neikvæð áhrif á atvinnuþátttöku viðkomandi.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Samtök aðila vinnumarkaðarins.
          Mælikvarði: Hópurinn skili tillögum í september 2019.

C.6. Stuðningur við svæðisbundið samráð um aðgerðir gegn ofbeldi.
    Árlega verði tilteknu fjármagni af safnliðum fjárlaga, vegna verkefna á sviði félagsmála, varið til styrktar svæðisbundnu samstarfi eða til ákveðinna verkefna sem styðja við aðgerðir gegn ofbeldi. Þegar hefur verið lagður grunnur að samstarfi milli lykilaðila á þessu sviði í hverjum landshluta. Gert er ráð fyrir að samstarfsaðilar á hverju svæði geti sem dæmi sótt um styrki til ákveðinna verkefna sem lúta að vitundarvakningu í samfélaginu, styrkingu viðbragðsaðila og valdeflingu þolenda í kjölfar ofbeldis.
          Markmið: Að efla svæðisbundið samráð um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Félagasamtök í samstarfi við opinbera aðila á hverju svæði.
          Mælikvarði: Fyrsta úthlutun fari fram vorið 2020 og mat lagt á árangur árið 2023.

C.7. Fjölbreyttari meðferðarúrræði fyrir gerendur í ofbeldismálum.
    Komið verði á fjölbreyttari úrræðum fyrir gerendur í ofbeldismálum. Meðal annars verði tekið mið af niðurstöðum starfshóps sem mun kortleggja og skilgreina þjónustuþörf fyrir fullorðna gerendur í hvers kyns ofbeldismálum og þá sem eru líklegir til að fremja ofbeldisbrot.
          Markmið: Að koma í veg fyrir endurtekin ofbeldisbrot.
          Kostnaðaráætlun: 12 millj. kr. árlega frá og með árinu 2021.
          Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Sveitarfélög, heilbrigðisyfirvöld, fangelsismálayfirvöld, lögreglan, fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar, Vinnumálastofnun og VIRK.
          Mælikvarði: Ný úrræði bjóðist gerendum eigi síðar en árið 2021.

C.8. Hagsmunagæsla aldraðra þegar grunur er um að þeir séu beittir ofbeldi.
    Skipaður verði starfshópur sem kortleggi tiltæk úrræði þar sem grunur leikur á að aldrað fólk hafi verið beitt ofbeldi og komi með tillögur að úrbótum. Úrræðin verði ætluð öldruðum og þeim sem stöðu sinnar vegna, tengsla eða starfa verða varir við ofbeldi gegn öldruðum einstaklingi, svo sem líkamlegt, andlegt, kynferðislegt eða fjárhagslegt ofbeldi.
          Markmið: Að viðbrögð við ofbeldi gegn öldruðum verði skilvirkari.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Landssamband eldri borgara, lögregluembættin, Embætti landlæknis, heilsugæslan, félagsþjónusta sveitarfélaga, Öldrunarfræðafélag Íslands, sérfræðingar í öldrunarþjónustu og Háskóli Íslands.
          Mælikvarði: Starfshópur skili skýrslu með tillögum í árslok 2019.

C.9. Mat á þörf fyrir kvennaathvörf á landsbyggðinni.
    Myndaður verði starfshópur sem kortleggi og meti þörf fyrir úrræði á borð við kvennaathvarf á landsbyggðinni. Þetta verði gert með áherslu á aðgang óháð búsetu.
          Markmið: Að ganga úr skugga um hvort fýsilegt sé að bjóða upp á kvennaathvörf víðar á landsbyggðinni.
          Kostnaðaráætlun: 1 millj. kr. árið 2020.
          Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
          Samstarfsaðilar:
Samtök um kvennaathvarf, Bjarkarhlíð, frjáls félagasamtök, sveitarfélög og lögreglan.
          Mælikvarði: Starfshópur skili skýrslu í júní 2020.

C.10. Samræmd velferðarþjónusta fyrir þolendur mansals fest í sessi.
    Framkvæmdateymi um einstök mansalsmál, sem velferðarráðuneytið hefur haft umsjón með, fái aðstöðu í Bjarkarhlíð. Velferðarþjónusta við þolendur mansals og meinta þolendur verði formgerð og samræmd í því skyni að tryggja nauðsynlega velferðarþjónustu svo fljótt sem auðið er, þ.m.t. öruggt húsnæði, framfærslu, félagslega ráðgjöf og heilbrigðisþjónustu í samræmi við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri glæpastarfsemi og bókun við þann samning til að koma í veg fyrir, berjast gegn og refsa fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn, svokölluð Palermó-bókun. Bjarkarhlíð verði falin umsjón með verkefninu og þar verði tekið á móti þolendum sem þess óska og þjónustuaðilum veitt ráðgjöf.
          Markmið: Að tryggja þolendum mansals nauðsynlega velferðarþjónustu.
          Kostnaðaráætlun: 3 millj. kr. árlega.
          Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Bjarkarhlíð, sveitarfélög, heilbrigðisstofnanir, lögregluumdæmi, Útlendingastofnun, stéttarfélög, dómsmálaráðuneytið og Samtök um kvennaathvarf.
          Mælikvarði: Bjarkarhlíð hafi tekið við verkefninu í janúar 2019.

C.11. Leiðbeinandi reglur um velferðarþjónustu fyrir þolendur mansals.
    Samdar verði leiðbeinandi reglur um velferðarþjónustu við þolendur mansals fyrir sveitarfélög, heilbrigðisþjónustu, stéttarfélög og eftir atvikum fleiri. Reglurnar fjalli um verklag við velferðarþjónustu við þolendur/meinta þolendur mansals, samstarf milli hlutaðeigandi stjórnvalda og stuðning og ráðgjöf til þolenda.
          Markmið: Samþætta og styrkja velferðarþjónustu við þolendur mansals.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma
          Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Dómsmálaráðuneytið, heilbrigðisstofnanir, Útlendingastofnun, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Bjarkarhlíð, sveitarfélög og stéttarfélög.
          Mælikvarði: Leiðbeinandi reglur verði tilbúnar í árslok 2019.

C.12. Árlegur landssamráðsfundur um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.
    Árlega verði haldinn landssamráðsfundur með fulltrúum opinberra stofnana og frjálsra félagasamtaka og öðrum viðeigandi aðilum. Á landssamráðsfundinum verði meðal annars rætt um stöðu svæðisbundins samstarfs um aðgerðir gegn ofbeldi, mál sem eru efst á baugi hverju sinni eða sérstakt málefni tekið fyrir, eftir því sem við á.
          Markmið: Að viðhalda vitundarvakningu um ofbeldi og stuðla að auknu samstarfi milli stofnana, frjálsra félagasamtaka og annarra sem láta sig ofbeldismál varða, hvort sem er á sviði vakningar, viðbragða eða valdeflingar.
          Kostnaðaráætlun: 1 millj. kr. árlega.
          Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Dómsmálaráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið.
          Mælikvarði: Að fyrsti landssamráðsfundurinn verði haldinn haustið 2019.

C.13. Eftirfylgni með aðgerðaáætlun þessari.
    Ráðuneytin þrjú sem eiga aðild að þessari aðgerðaáætlun beri ábyrgð á framkvæmd hennar. Ráðinn verði verkefnisstjóri og eftirfylgni tryggð í samstarfi ráðuneytanna.
          Markmið: Að fylgja eftir aðgerðaáætluninni með tilliti til tímaramma og kostnaðaráætlunar.
          Kostnaðaráætlun: 10 millj. kr. árið 2019 og svo 15 millj. kr. árlega til ársins 2023.
          Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Dómsmálaráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið.
          Mælikvarði: Að aðgerðaáætlunin hafi komist til framkvæmda í árslok 2022.

Greinargerð.

    Félags- og jafnréttismálaráðherra leggur tillögu þessa til þingsályktunar fram og ber á henni stjórnsýslulega ábyrgð. Þingsályktunartillagan er unnin í miklu og nánu samstarfi þriggja ráðuneyta með aðkomu dómsmálaráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra, heilbrigðisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra. Hlutaðeigandi ráðuneyti bera ábyrgð á framkvæmd hennar eftir því sem við á.

1. Forsaga og verklag.
    Ofbeldi er alvarlegt þjóðfélagsmein, ekki síst kynbundið ofbeldi, sem birtist svo rækilega í frásögnum einstaklinga sem stigið hafa fram undir myllumerkinu #églíka/#metoo á síðastliðnum misserum. Frásagnirnar koma ekki á óvart en umfangið er líklega langt umfram það sem nokkurn grunaði. Samtök um kvennaathvarf voru stofnuð 1982 og sama ár var Kvennaathvarfið stofnað. Stígamót hófu starfsemi 1990 og lagði sjálfboðastarf kvenna grunninn að hvoru tveggja. Nefnd um aðgerðir gegn ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum var skipuð 2003 og starfaði um árabil. Lét nefndin vinna fræðsluefni undir heitinu Ofbeldi í nánum samböndum. Samstarfsteymi gegn heimilisofbeldi starfaði einnig um árabil og fór um landið og hélt námskeið um þverfaglega samvinnu í heimilisofbeldismálum. Á sama hátt hefur stýrihópurinn, sem vinnur þessa aðgerðaáætlun, farið um landið og hvatt lykilaðila til að vinna saman gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Í kjölfar funda hópsins hafa fulltrúar verkefnisins Byggjum brýr – brjótum múra farið á sömu svæði og efnt til samráðs um varnir og viðbrögð við ofbeldi í nánum samböndum.
    Á árunum 2012–2015 unnu þrjú ráðuneyti að verkefni sem kennt var við vitundarvakningu með það markmið að veita fræðslu og sinna forvörnum til að sporna við ofbeldi gegn börnum í anda Lanzarote-samningsins. Aðstandendur vitundarvakningarinnar létu vinna fjölbreytt og gagnlegt fræðsluefni. Margir aðrir hafa lagt hönd á plóginn, bæði félagasamtök og opinberir aðilar, á þessari vegferð. Aðgerðaáætlunin sem hér er sett fram er einn hlekkur í ferlinu.
    Afleiðingar ofbeldis á þolendur og aðstandendur þeirra geta verið bæði grafalvarlegar og varanlegar. Þá ber samfélagið allt mikinn skaða af en erlendar rannsóknir sýna að ofbeldi hefur í för með sér mikinn kostnað í félags- og heilbrigðisþjónustu. Þá leiðir ofbeldi til lægri framleiðni á vinnustöðum, meiri starfsmannaveltu og þar með lægri þjóðarframleiðslu.

Samstarfsyfirlýsing þriggja ráðherra.
    Í desember 2014 undirrituðu Eygló Harðardóttir, þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, Ólöf Nordal, þáverandi innanríkisráðherra, og Illugi Gunnarsson, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, samstarfsyfirlýsingu um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Með yfirlýsingunni staðfestu ráðherrarnir vilja sinn til að vinna saman gegn ofbeldi í íslensku samfélagi og niðurbrjótandi áhrifum þess sem og vilja til að auka fræðslu og forvarnarstarf, bæta samvinnu og verklag við að draga úr ofbeldi og styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála.
    Ráðherrarnir voru sammála um að efna til samráðs bæði á landsvísu og innan svæða milli félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda, mennta- og heilbrigðiskerfis, lögreglu og ákæruvalds. Athyglinni yrði einkum beint að ofbeldi gegn börnum, ofbeldi í nánum samböndum, kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi, og ofbeldi gagnvart fötluðu fólki og öðrum berskjölduðum hópum. Markmiðið var ekki síst að bæta verklag við fyrirbyggjandi aðgerðir og rannsóknir ofbeldismála. Yfirlýsingin tók einnig til hatursorðræðu. Þá átti að stofna stýrihóp sem hefði umsjón með samstarfinu og skyldi hann einnig vinna áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi. Stýrihópur var skipaður sumarið 2015 með tveimur fulltrúum frá hverju ráðuneytanna þriggja undir forystu velferðarráðuneytisins.

Landssamráðsfundur.
    Efnt var til landssamráðsfundar í þeim tilgangi að kynna samstarfsyfirlýsinguna og verkefnið fram undan fyrir stofnunum og félagasamtökum sem yrðu kölluð til vegna vinnu við aðgerðaáætlunina. Þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra og menntamálaráðherra, ásamt aðstoðarmanni innanríkisráðherra, fluttu ávörp og tóku þátt í pallborðsumræðum þar sem rætt var um mikilvægi þess að ná fram heildaryfirsýn yfir sviðið og að sett yrði fram skýr stefna um það hvernig samfélagið ætlaði að sameinast gegn ofbeldi. Félags- og húsnæðismálaráðherra lagði til að haldinn yrði fundur með þjóðfundarformi þar sem gestir fundarins, ásamt fleiri hlutaðeigandi aðilum, kæmu saman og legðu grunn að fyrirhugaðri aðgerðaáætlun gegn ofbeldi í íslensku samfélagi. Sá fundur var haldinn í Iðnó 28. janúar 2016.

Vinnufundur í Iðnó og V-in þrjú.
    Umræddur vinnufundur í Iðnó, sem stýrihópurinn stóð fyrir, var fjölmennur og þar var grunnur lagður að aðgerðaáætlun þessari. Á fundinn mættu fulltrúar opinberra stofnana, sveitarfélaga, frjálsra félagasamtaka og aðrir sem þekkja til eða starfa við málaflokkinn, alls rúmlega 100 manns. Þátttakendur komu meðal annars frá sveitarfélögum, heilbrigðisstofnunum, Landspítala, Embætti landlæknis, stéttarfélögum, háskólum, ráðuneytum og fjölmörgum félagasamtökum. Viðfangsefnið var afar fjölþætt og því hafði stýrihópurinn skipt því í þrjá flokka. Við undirbúninginn kynnti stýrihópurinn sér erlendar aðgerðaáætlanir og horfði sérstaklega til breskrar áætlunar um ofbeldi gegn konum og stúlkum. Sú áætlun var höfð til hliðsjónar með tilliti til efnistaka en hún skiptist í eftirfarandi flokka:
     A.      Vakning – forvarnir og fræðsla.
     B.      Viðbrögð – verklag og málsmeðferð.
     C.      Valdefling – samstarf og samhæfing.
    Þátttakendur á fundinum svöruðu eftirfarandi spurningum fyrir hvern flokk:
          Hvað hefur gengið vel þegar kemur að meginþema flokkanna þriggja?
          Hvað má betur fara í tengslum við samstarf og samráð eða aðra þætti?
          Hver ættu að vera helstu forgangsverkefni sem stjórnvöld ættu að beita sér fyrir?
          Fleira sem ætti að vera liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn ofbeldi í samfélaginu?
    Vinnudagurinn skilaði góðum árangri og fjölmörgum ábendingum og tillögum sem nýttar voru til þess að leggja grunninn að áætluninni. Þegar leið á vinnuna voru einnig kallaðir til ýmsir sérfræðingar sem veittu hópnum frekari upplýsingar og ábendingar um hvar aðgerða væri helst þörf og hvernig mætti útfæra þær.

Endurnýjuð samstarfsyfirlýsing 2017.
    Í kjölfar alþingiskosninga á haustmánuðum 2016 skapaðist nokkur óvissa um framtíð verkefnisins. Þegar ný ríkisstjórn hafði verið mynduð lýsti stýrihópurinn sig reiðubúinn til þess að halda starfinu áfram. Þáverandi ráðherrar voru sammála um mikilvægi verkefnisins og 24. mars 2017 undirrituðu Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra, Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra og Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, endurnýjaða samstarfsyfirlýsingu og staðfestu þar með framhald verkefnisins.
    Aftur var kosið til Alþingis haustið 2017 og ný ríkisstjórn mynduð 30. nóvember 2017. Ráðherrarnir Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Sigríður Andersen dómsmálaráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hafa gripið boltann og sammælst um að leggja þingsályktunartillöguna fram en að félags- og jafnréttismálaráðherra geri það í sínu nafni.

Svæðisbundið samráð.
    Í samstarfsyfirlýsingunni var kveðið á um að komið yrði á svæðisbundnu samstarfi milli lykilaðila á hverju landsvæði, þ.m.t. félagsþjónustu, sérfræðiþjónustu sveitarfélaga, barnaverndaryfirvalda, lögreglu, heilbrigðisþjónustu og skólastjórnenda. Stýrihópurinn skipti landinu í níu svæði: Suðurland, Norðurland eystra, Norðurland vestra, Austurland, Vestfirði, Vesturland, Suðurnes, Vestmannaeyjar og höfuðborgarsvæðið. Hópurinn hefur þegar haldið fundi á sjö landsvæðum með það að markmiði að leggja grunn að svæðisbundnu samstarfi um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Fundirnir hafa verið vel sóttir og ævinlega með þátttöku framangreindra aðila. Samtalið við landsbyggðina hefur að mati stýrihópsins skilað góðum árangri. Umræðuefni hafa verið ólík á milli svæða og alls staðar hefur komið fram mikill áhugi og vilji meðal heimamanna til að efla samstarf á þessu sviði. Skiptingin í framangreind níu landsvæði hefur verið kynnt og rædd á fundum stýrihópsins á hverju svæði og alls staðar verið tekið jákvætt undir að þessi skipting geti reynst vel til svæðisbundins samstarfs og samvinnu um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Má meðal annars sjá merki svæðisbundins samstarfs á þessu sviði í nýjum verkefnum á Norðurlandi eystra og Austurlandi.

Skipan stýrihóps og samráð.
    Í kjölfar undirritunar fyrri samstarfsyfirlýsingarinnar var myndaður stýrihópur undir forystu velferðarráðuneytisins. Í hópnum sátu:
    Ingibjörg Broddadóttir formaður, fulltrúi velferðarráðuneytisins,
    Ingi Valur Jóhannsson, fulltrúi velferðarráðuneytisins,
    Guðrún Ögmundsdóttir, fulltrúi innanríkisráðuneytisins,
    Sveinn Helgason, fulltrúi innanríkisráðuneytisins,
    Jóna Pálsdóttir, fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins,
    Guðni Olgeirsson, fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins,
    Lovísa Lilliendahl og Guðríður Bolladóttir, starfsmenn velferðarráðuneytisins.
    Eftir undirritun síðari samstarfsyfirlýsingarinnar fóru Sveinn Helgason og Guðrún Ögmundsdóttir úr hópnum og í þeirra stað komu María Rut Kristinsdóttir og Ívar Már Ottason sem fulltrúar dómsmálaráðuneytisins. Þá kom Sveinn Magnússon í hópinn sem fulltrúi velferðarráðuneytisins í stað Inga Vals Jóhannssonar. Undirrituðu báðir ráðherrarnir í velferðarráðuneytinu, félags- og jafnréttismálaráðherra og heilbrigðisráðherra, skipunarbréf stýrihópsins í maí 2017. Í janúar 2018 tóku Hinrika Sandra Ingimarsdóttir og Kjartan Ólafsson við sem fulltrúar dómsmálaráðuneytisins í stýrihópnum.
    Við undirbúning aðgerðaáætlunarinnar hefur stýrihópurinn fengið á sinn fund marga sérfræðinga sem hafa kynnt hvar þeir telja aðgerða helst þörf sem og mögulegar útfærslur. Í þessu samhengi er rétt að nefna að stýrihópurinn hafði þegar aflað sér víðtækra upplýsinga á fundinum í Iðnó. Eftirtalin hafa komið til fundar við hópinn:
    Alda Hrönn Jóhannsdóttir, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu,
    Andri Valur Ívarsson, Bandalagi háskólamanna (BHM),
    Anna Kristín Newton, Fangelsismálastofnun,
    Auður Þorsteinsdóttir, Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ),
    Ásta Snorradóttir, Vinnueftirlitinu,
    Bergsteinn Jónsson, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF),
    Bjarnheiður Gautadóttir, velferðarráðuneytinu,
    Bragi Guðbrandsson, Barnaverndarstofu,
    Drífa Snædal, Starfsgreinasambandinu,
    Eðvald Stefánsson, umboðsmanni barna,
    Einar Gylfi Jónsson, Heimilisfriði,
    Eyrún Eyþórsdóttir, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu,
    Guðrún Marinósdóttir, Barnavernd Reykjavíkur,
    Heiða Björg Pálmadóttir, Barnaverndarstofu,
    Hermann Sigurðsson, Æskulýðsvettvanginum (ÆV),
    Hjördís Eva Þórðardóttir, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF),
    I. Jenný Ingudóttir, Embætti landlæknis,
    Jóhann Friðriksson, Vinnueftirlitinu,
    Kolbrún Benediktsdóttir, héraðssaksóknara,
    Margrét Júlía Rafnsdóttir, Barnaheillum,
    Ragnhildur Skúladóttir, Íþróttasambandi Íslands,
    Sigríður Hjaltested, Héraðsdómi Reykjavíkur,
    Sigrún Ingvarsdóttir, Reykjavíkurborg,
    Sigurður Sigurðsson, Landssambandi æskulýðsfélaga,
    Svava Jónsdóttir, Vinnueftirlitinu,
    Thelma Ásdísardóttir, Drekaslóð,
    Þórunn Sveinbjörnsdóttir, Landssambandi eldri borgara.
    Aðgerðir sem lúta að Bjarkarhlíð hafa verið kynntar fyrir stjórn og starfsmönnum Bjarkarhlíðar.

2. Aðgerðaáætlun 2018–2021.
Almenn umfjöllun.
    Aðgerðaáætlunin tekur mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun þar sem meðal annars kemur fram að stuðla skuli að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir alla menn, tryggja öllum jafnan aðgang að réttarkerfi og byggja upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir fyrir alla menn á öllum sviðum.
    Þá tekur aðgerðaáætlunin mið af samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, samningi Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali, samningi Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri glæpastarfsemi og bókun við þann samning til að koma í veg fyrir, berjast gegn og refsa fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn.
    Í þessari aðgerðaáætlun eru margar aðgerðir sem lúta að réttindum barna og vernd þeirra gegn ofbeldi. Þær taka einkum til forvarna og fræðslu og falla undir A-hlutann en einnig eru nokkrar aðgerðir í B-hluta til þess fallnar að vernda börn og bæta málsmeðferð í málum er varða þau. Kafli C, um valdeflingu, samstarf og samhæfingu, fjallar á hinn bóginn fyrst og fremst um úrræði, stuðning og samráð í málum fullorðinna þolenda ofbeldis en ekki er um að ræða tillögur að aðgerðum í málum barna sem hafa verið beitt ofbeldi. Stuðningur, ráðgjöf og önnur úrræði fyrir börn í kjölfar ofbeldis fer eftir ákvæðum barnaverndarlaga, nr. 80/2002.
    Stýrihópurinn hefur fjallað um nokkur málefni sem ekki koma fram í formi aðgerða í þessari áætlun en talið er rétt að halda til haga. Má þar nefna aðstoð við þolendur eineltis á vinnustað þar sem brýn þörf er að bæta aðgang að ráðgjöf sérfræðinga og uppbyggilegri meðferð. Þörf er á heildarvitundarvakningu í samfélaginu um að ofbeldi verði ekki þolað, hvorki á vinnustöðum, í félagastarfi né á heimilum, en um þetta mætti gera víðtækan samfélagssáttmála. Á síðari stigum í vinnu hópsins voru aðgerðir tengdar frásögnum sem fram hafa komið undir myllumerkinu #églíka/#metoo og full ástæða þykir að skoða stöðu viðkvæmra hópa enn frekar í því ljósi.
    Einnig hefur verið rætt um að þörf sé á fleiri rannsóknum á sviði ofbeldis sem snúi meðal annars að birtingarmyndum ofbeldis, umfangi þess, forvörnum, aðkomu réttarvörslukerfisins og stöðu þolenda. Slíkar rannsóknir eru forsenda stefnumótunar stjórnvalda á þessu sviði. Í þessari aðgerðaáætlun er áhersla lögð á að úttektir séu unnar af óháðum fagaðilum á sviði félags- og heilbrigðisvísinda. Þá er rétt að geta þess að þrjár umfangsmiklar rannsóknir standa nú yfir; ein lýtur að kostnaði heilbrigðiskerfisins vegna ofbeldisbrota, önnur að öflun ítarlegra upplýsinga um umfang og eðli ofbeldis á Íslandi og sú þriðja um áhrif áfalla á heilsufar kvenna.
    Í fyrstu drögum aðgerðaáætlunarinnar var að finna aðgerðir sem felldar voru út þar sem þær var einnig að finna í skjali dómsmálaráðuneytisins Um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins – Tillögur að aðgerðum 2018–2022 sem stjórnvöld hafa þegar samþykkt. Þar er meðal annars að finna tillögur að aðgerðum sem stýrihópurinn ræddi sérstaklega og lúta að réttarvörslukerfinu og viðkvæmum hópum, svo sem um aðkomu réttindagæslumanna fatlaðs fólks við rannsókn mála þar sem grunur leikur á ofbeldi í garð seinfærs fólks.

Um einstakar aðgerðir.


A. Vakning – fræðsla og forvarnir.
    Þessi hluti áætlunarinnar fjallar um margvíslegar aðgerðir til fræðslu og forvarna gegn hvers konar ofbeldi, einkum í skólakerfinu, á íþrótta- og æskulýðsvettvanginum, á vinnustöðum og í stafrænum heimi. Fræðsla og markviss vinnubrögð eru mikilvægur þáttur í forvörnum og vitundarvakningu um að ofbeldi verði ekki liðið. Víðtækt samstarf stuðlar að bættu samfélagi og er nauðsynlegt til að samhæfa viðbrögð við hvers kyns ofbeldi og auka samstöðu um aðgerðir þegar ofbeldi af einhverju tagi á sér stað.

A.1. Fræðsla um ofbeldi til þeirra sem vinna með börnum í skóla-, íþrótta- og æskulýðsstarfi.
    Fræðsla til þeirra sem vinna með börnum í skóla-, íþrótta- og æskulýðsstarfi er þegar fyrir hendi í einhverjum mæli en hún er hvorki reglubundin né skipulögð. Einnig hefur þótt skorta á að verklag sé skilgreint vegna tilkynningarskyldu samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga en þörf er á að kynna enn betur ábyrgð allra þeirra sem vinna með börnum í skólum og íþrótta- og æskulýðsstarfi. Aðgerðin krefst aðkomu margra bæði við vinnslu fræðsluefnis og miðlun þess fyrir þennan hóp þar sem meðal annars verði leitað eftir nýstárlegum leiðum við miðlun efnis. Einnig þarf að skipuleggja reglulega fræðslu um þessi málefni og tilnefna sérstaka leiðtoga og tengiliði innan hverrar stofnunar eða félags og veita þeim stuðning. Með frjálsum félagasamtökum er hér meðal annars átt við Barnaheill, Blátt áfram, UNICEF sem og umsjónaraðila námskeiðsins Verndum þau.

A.2. Þekking á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins verði efld og hann verði grundvöllur í starfi með börnum.
    Barnasáttmálinn var lögfestur hér á landi í febrúar 2013. Auka þarf þekkingu barna, foreldra og starfsfólks sem vinnur með börnum á sáttmálanum og mikilvægt er að inntak hans sé ávallt haft að leiðarljósi í starfi með börnum. Samkvæmt upplýsingum frá umboðsmanni barna og UNICEF sýna kannanir að íslensk börn búa yfir takmarkaðri þekkingu á réttindum sínum og rugla gjarnan saman grundvallarhugtökum á borð við forréttindi og réttindi. Þekking á barnasáttmálanum er forsenda þess að börn njóti þeirra réttinda sem þar er kveðið á um. Regluleg könnun á þekkingu barnasáttmálans tryggir að gripið sé til viðeigandi aðgerða þegar þess er þörf. Sáttmálinn verði kynntur börnum með hliðsjón af aldri þeirra og þroska. Árlegur dagur mannréttinda barna var haldinn 2016 og 2017 en festa þarf daginn í sessi til að auka vitund og vitneskju um mannréttindi barna. UNICEF hefur unnið að þróunarverkefni í nokkrum grunnskólum og frístundaheimilum um réttindaskóla, meðal annars með stuðningi frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og sýna niðurstöður að mikil breyting verður á þekkingu á barnasáttmálanum og eðli hans við innleiðinguna. Æskilegt væri að gera UNICEF kleift að innleiða réttindaskólana í fleiri skóla á næstu árum sem er afar skilvirk leið til að barnasáttmálinn verði grundvöllur starfs með öllum börnum í anda grunnþáttar um mannréttindi og lýðræði í aðalnámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla.

A.3. Gæðakröfur og vottun um fyrirmyndarstarf í íþrótta- og æskulýðsstarfi.
    Hér átt við alla aðila sem vinna að íþrótta- og æskulýðsstarfi á vegum íþróttafélaga, sem heyra undir Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Æskulýðsvettvanginn (ÆV), sem er samstarfsvettvangur Ungmennafélags Íslands, Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi og Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Í ljósi aukinnar umræðu um ofbeldi í samfélaginu, ekki síst frásagna undir myllumerkinu #églíka/#metoo, þ.m.t. í íþrótta- og æskulýðsstarfi, er mikilvægt að setja opinberar gæðakröfur og viðmið um jafnrétti og heilbrigð samskipti þar sem ofbeldi fær ekki þrifist. Þrátt fyrir hið metnaðarfulla verkefni Fyrirmyndarfélag ÍSÍ, gæðaverkefni íþróttahreyfingarinnar sem hófst 2004 og nær til fjölda íþróttafélaga, hefur ekki tekist að útrýma ofbeldi í starfinu. Sérstaklega er mikilvægt að skoða kynbundið og kynferðislegt ofbeldi ásamt kynferðislegri áreitni og einelti á þessum vettvangi. Mikilvægt er að byggja á þessum grunni og útfæra gæðakröfur og viðmið nánar til að ná markmiði þessarar aðgerðar. Í þeirri vinnu þarf að kalla eftir víðtæku samráði þeirra sem koma að íþrótta- og æskulýðsstarfi, þar á meðal starfsmanna, sjálfboðaliða, foreldra og iðkenda. Sérstaklega er mikilvægt að fylgja eftir innleiðingu viðmiðanna með virku eftirliti og koma á miðlægri vottun. Skoða þarf möguleika á að stöðva opinber framlög til félaga sem ekki standast gæðakröfur og setja skýr ákvæði þess efnis í alla samninga sem gerðir eru.

A.4. Fagráð eineltismála fyrir öll skólastig og íþrótta- og æskulýðsstarf.
    Í íþrótta- og æskulýðsstarfi er hér átt við alla aðila sem vinna að íþrótta- og æskulýðsstarfi á vegum íþróttafélaga, sem heyra undir Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Æskulýðsvettvanginn (ÆV), sem er samstarfsvettvangur Ungmennafélags Íslands, Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi og Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Einnig er hér átt við félagasamtök á borð við Heimili og skóla og Barnaheill. Fagráð eineltismála hefur starfað hjá Menntamálastofnun undanfarin ár í samræmi við ákvæði í grunnskólalögum og verið er að bæta framhaldsskólastiginu við í samræmi við lög um framhaldsskóla. Þessi tillaga miðast við að starfssvið fagráðs í eineltismálum hjá Menntamálastofnun verði útvíkkað enn frekar þannig að það nái til allra skólastiga og íþrótta- og æskulýðsstarfs þannig að um samhæfðan vettvang verði að ræða vegna flókinna eineltismála. Kostnaður sem hlýst af aðgerðinni með útvíkkun á starfssviði fagráðsins verði athugaður og fjárveitingar aflað. Einnig er æskilegt að Menntamálastofnun haldi úti vefsíðu með upplýsingum og leiðbeiningum um fræðslu og úrræði eineltismála.

A.5. Fræðsluefni um ofbeldi fyrir leikskólabörn.
    Það er áhyggjuefni hve fáar tilkynningar berast til barnaverndarnefnda frá leikskólum. Börn í 2. bekk allra grunnskóla fá heimsókn frá Brúðuleikhúsinu með leiksýninguna Krakkarnir í hverfinu. Börnin taka þátt í sýningunni og fylgst er með viðbrögðum þeirra og brugðist við vakni grunur um ofbeldi í garð þeirra. Sambærilegt fræðsluefni vantar fyrir leikskólabörn og er lagt til að starfshópi verði falið að útbúa slíkt efni, svo sem stutt myndbönd, veggspjöld, leikrit eða spuna, í þeim tilgangi að gera börnum kleift að segja frá hafi þau verið beitt ofbeldi eða upplifað það með öðrum hætti. Samhliða verði útbúnar leiðbeiningar fyrir starfsfólk um notkun fræðsluefnisins og viðeigandi viðbrögð í kjölfar frásagna barna. Gert er ráð fyrir að sveitarfélögin innleiði fræðsluefnið í samstarfi fræðslu-, félagsmála- og barnaverndaryfirvalda. Gert er ráð fyrir að Menntamálastofnun haldi utan um framleiðslu og dreifingu á efninu til sveitarfélaga.

A.6. Kennsla um kynheilbrigði og kynhegðun verði efld í grunn- og framhaldsskólum.
    Hugtakið kynheilbrigði nær bæði til kynlífsheilbrigðis (e. sexual health) og frjósemisheilbrigðis (e. reproductive health). Kynheilbrigði er almenn líkamleg, andleg, félagsleg og tilfinningaleg vellíðan í öllu sem viðkemur kynlífi og æxlun, en ekki aðeins að vera án sjúkdóma. Fjöldi vísbendinga er um að kennslu í grunn- og framhaldsskólum um kynheilbrigði og kynhegðun sé ábótavant en eðlilegt er að hefja þá kennslu strax við upphaf grunnskólagöngu. Mikil þörf er á umræðu meðal barna og ungmenna um kynhegðun og kynheilbrigði, samskipti og sambönd fólks, þ.m.t. kennslu um mikilvægi samþykkis og persónulegra marka sem stuðla að því að einstaklingar taki ábyrga afstöðu til kynlífs, kláms, kynbundins ofbeldis og kynferðislegra birtingarmynda eineltis og hatursorðræðu; einnig um eigin framkomu á netmiðlum og birtingu myndefnis. Þá er mikilvægt að styrkja þekkingargrunn í skólum til þess að takast á við þessa umræðu á fjölbreytilegan hátt. Nemendur telja sig einkum fá kynfræðslu í gegnum netmiðla og kennarar telja sig almennt ekki vera í stakk búna til að annast þessa kennslu í samræmi við aðalnámskrá.
    Margvíslegt námsefni er fyrir hendi sem væri hægt að nýta inn í skilgreindar námsgreinar og áfanga í grunn- og framhaldsskólum. Má þar nefna kennslu- og fræðsluefni sem framleitt var á vegum vitundarvakningarverkefnis velferðarráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og innanríkisráðherra á árunum 2011–2014, þar á meðal stuttmyndirnar Fáðu já og Stattu með þér og annað fræðsluefni sem finna má á vefsíðu velferðarráðuneytisins: www.stjornarradid.is/verkefni/felags-og-fjolskyldumal/malefni-barna/ofbeldi-gegn-bornum-fraedsluefni/. Einnig er lögð áhersla á fræðsluefnið Örugg saman frá Embætti landlæknis sem hentar fyrir skóla, félagsmiðstöðvar og íþróttahópa. Um er að ræða kennarahefti og nemendahefti sem fjallar um andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi í nánum samskiptum og hvernig megi bregðast við því. Efnið byggist á gagnreyndum aðferðum og hefur verið aðlagað að íslenskum aðstæðum.
    Ungt fólk nýtir í auknum mæli alls konar miðla til að senda af sér nektarmyndir eða myndir sem sýna kynlífsathafnir. Hætta er á að slíkar myndir séu misnotaðar og notaðar gegn viðkomandi sem flokkast bæði undir ofbeldi og hefndarklám. Hefndarklám dregur nafn sitt af því að myndefninu er stundum dreift í hefndarskyni að loknu ástarsambandi en jafnframt getur verið um að ræða dreifingu myndefnis sem einstaklingur hefur sent í góðri trú. Þessi þróun undirstrikar nauðsyn þess að auka kennslu um kynheilbrigði og kynhegðun í öllu skólakerfinu.

A.7. Samræmd heilsuvernd skólabarna á landsvísu.
    Heilsuvernd skólabarna er hluti af heilsugæslunni og framhald af ung- og smábarnavernd. Markmiðið er að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Helstu áherslur eru forvarnir fræðsla, skimanir og bólusetningar og er unnið samkvæmt leiðbeiningum Embættis landlæknis. Skipulögð heilbrigðisfræðsla fer fram í öllum árgöngum og er áhersla á að hvetja til heilbrigðra lífshátta. Fræðsla um kynþroska og kynheilbrigði fer fram í 5.–10. bekk og fræðsla um líðan fer fram í öllum bekkjum. Í 1., 4., 7. og 9. bekk fá allir nemendur heilsueflingarviðtal þar sem þeir eru hvattir til að tjá sig um líðan og heilsuhegðun með áhugahvetjandi samtali. Yfirlit yfir skipulagða fræðslu í skólaheilsugæslunni:
          1. bekkur: Líkaminn minn (forvarnarfræðsla gegn kynferðislegu ofbeldi) þar sem markmiðið er að börnin viti að þau eiga sinn líkama sjálf, að kynferðisleg misnotkun er alltaf röng og aldrei þeirra sök, að þau mega segja NEI (æfa það) og viti að þau eiga að segja frá verði þau fyrir óþægilegri reynslu (aldrei að eiga vond leyndarmál). Þessari fræðslu er síðan oft fylgt eftir með myndinni Leyndarmálið – segjum nei, segjum frá!
          2. bekkur: Tilfinningar og líðan. Ný fræðsla innleidd veturinn 2018–2019. Markmiðið að börnin þekki og geti tjáð sig um tilfinningar sínar og líðan.
          4. bekkur: Kvíði. Ný fræðsla innleidd veturinn 2018–2019. Markmiðið er að börnin þekki einkenni kvíða og að kvíði geti verið eðlilegur. Farið yfir og æfð úrræði við kvíða (slökunaræfingar kenndar).
          5. bekkur: Samskipti. Markmiðið er að börnin beri virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, virði skoðanir annarra og æfi sig í að setja sig í spor annarra. Ný viðbót við þessa fræðslu 2018–2019 er Samskipti á netinu, hvernig eru þau öðruvísi, neteinelti, stafræn fótspor o.fl.
          6. bekkur: Kynþroskinn. Meðal annars er komið inn á líkamsbreytingar, sjálfsfróun, kynhneigð og kynferðislegt ofbeldi.
          8. bekkur: Hópþrýstingur. Hvernig þekkjum við hann? Enn og aftur er áhersla á sterka sjálfsmynd og að krakkarnir taki sínar eigin ákvarðanir. Líkamsímynd. Hvað hefur áhrif á hana? Fögnum fjölbreytileikanum.
          9. bekkur: Kynheilbrigði. Hvað einkennir góð sambönd, kynhneigð, tilfinningar? Mörk. Mörk í kynlífi, væntingar og mörk, ef farið er yfir mörkin. Kynferðislegt ofbeldi, kynsjúkdómar og getnaðarvarnir.
          10. bekkur: Sambönd. Ást, menning og trú, ástarsorg, kynferðislegar hugsanir. Samfarir, hvenær er maður tilbúinn? Samfarir, væntingar og mörk, kynhneigð, trans, daður, áreitni, mörk og kynferðisofbeldi, erótík, klám, list eða dónaskapur, klámvæðing, staðalímyndir.
          10. bekkur: Geðheilbrigði. Ný fræðsla innleidd veturinn 2018–2019. Markmiðið er að sporna við fordómum og að nemendur þekki einkenni geðsjúkdóma og viti hvert þau geta leitað eftir aðstoð, einnig farið í bjargráð svo sem slökun, núvitund og tengingu hugsana, tilfinninga og hegðunar.

A.8. Vitundarvakning í samfélaginu gegn haturstali.
    Besta leiðin til að vinna gegn haturstali er vitundarvakning í samfélaginu og fræðsla um fjölbreytileika samfélagsins þrátt fyrir að einnig þurfi að endurskoða ýmislegt í lögum og reglum. Í því skyni er sérstaklega vakin athygli á stefnumótun og heildaraðgerðum norskra stjórnvalda til að stemma stigu við haturstali í samfélaginu: www.regjeringen.no/no/ dokumenter /regjeringens-strategi-mot-hatefulle-ytringer-2016---2020/id2520975/.
    Mannréttindaskrifstofa Íslands gaf árið 2013 út skýrsluna Hatursorðræða: Yfirlit yfir gildandi lög og reglur – ábendingar til framtíðar. Í skýrslunni eru fjölmargar ábendingar um aðgerðir til að stemma stigu við haturstali hér á landi. Fara þarf yfir ábendingarnar og vinna að umbótum á laga- og regluramma samhliða vitundarvakningu gegn haturstali í samfélaginu með þátttöku fjölmiðla. Evrópunefnd gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi (ECRI-nefnd Evrópuráðsins) fjallar ítarlega um hatursglæpi og hatursorðræðu í 5. skýrslu sinni um Ísland sem kom út 2016 og leggur til ýmsar aðgerðir til úrbóta. Nefndin telur hatursorðræðu í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum vera sérstakt áhyggjuefni á Íslandi, ekki aðeins vegna þess að hún er iðulega fyrsta skrefið að líkamlegu ofbeldi, heldur einnig vegna skaðlegra tilfinningalegra og sálfræðilegra áhrifa á þá sem ráðist er að. Viðbrögð sem hæfa hatursorðræðu eru aðferðir löggæslu (refsiviðurlög, einkaréttarviðurlög og stjórnsýsluviðurlög) en einnig aðrar aðferðir sem nefndar eru í skýrslunni: .www.ruv.is/sites/default/files/isl-cbc-v-2017-003-ice-embargo_0.pdf.
    Haturstal sem látið er óáreitt elur á fordómum sem grafa undan rótum samfélagsins og mynda gjá milli hópa. Fjöldi hatursvefsíðna og hópa á samfélagsmiðlum sem deila haturstali hefur margfaldast á síðustu árum, bæði hér á landi og erlendis, og hafa samskiptasíður líkt og Twitter, Facebook, Snapchat og Instagram verið nýttar í því skyni til að dreifa slíku efni og fölskum fréttum til að kynda undir haturstal.
    Á undanförnum árum hefur verið unnið að verkefninu Ekkert hatur – orðum fylgir ábyrgð hér á landi. Fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins annast eftirtaldir aðilar útfærsluna: SAFT, Heimili og skóli – landssamtök foreldra, SAMFÉS, Landssamband æskulýðsfélaga og Æskulýðsvettvangurinn, í samstarfi við Mannréttindaskrifstofu Íslands. Verkefnið stendur fyrir jafnrétti, virðingu, mannréttindi og fjölbreytileika. Því er beint gegn hatursáróðri, kynþáttafordómum og mismunun á netinu. Markmiðin eru meðal annars að stuðla að vitundarvakningu um hatursáróður og haturstal á netinu meðal ungs fólks, kynna það fyrir mikilvægi miðlalæsis, styðja það við að verja mannréttindi á netinu og utan þess og auka vitund gegn hatursáróðri á netinu. Styðja þarf enn frekar við verkefnið sem snýr að ungu fólki en einnig þarf að koma á laggirnar sambærilegu verkefni sem nær til samfélagsins alls. Hægt er að efla verkefnið Ekkert hatur – orðum fylgir ábyrgð sem lið í aðgerðum til að sporna gegn haturstali og kalla þá aðila sem koma að því til samstarfs um vitundarvakningu og gerð samfélagssáttmála sem hafi bæði skýrslu ECRI-nefndar Evrópuráðsins frá 2016 og skýrslu Mannréttindaskrifstofu Íslands frá 2013 að leiðarljósi.

A.9. Vitundarvakning um einelti og ofbeldi á vinnustöðum.
    Stýrihópurinn hefur fjallað um einelti og ofbeldi á vinnustöðum bæði á fundum með fulltrúum Vinnueftirlitsins og á svæðisbundnum fundum. Fram hefur komið að ekki liggur fyrir hve mörg fyrirtæki í landinu fari eftir ákvæðum reglugerðar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, nr. 1009/2015. Þá hafa félagasamtök greint frá því að þolendur framangreindrar háttsemi á vinnustöðum hafi leitað til þeirra eftir að hafa horfið frá vinnustað í kjölfar eineltis í þeirra garð, þrátt fyrir að farið hafi verið yfir málið af hálfu atvinnurekanda og gerandi jafnvel gengist við háttseminni. Á því tímabili sem reglugerðin hefur verið í gildi, eða frá árslokum 2015 og fram í miðjan október 2018, hefur Vinnueftirlitið gefið út 140 fyrirmæli til vinnustaða vegna mála sem falla undir reglugerðina og komið hafa til kasta eftirlitsins. Síðla árs 2017 kom í ljós að kynbundið einelti og ofbeldi á vinnustöðum og í íþróttastarfi var mun meira en talið hafði verið. Konur hafa stigið fram og greint frá einelti og ofbeldi í sinn garð sem ekki hafi verið brugðist við eða þær ekki treyst sér til að greina frá. Má rekja þessa framgöngu kvenna fyrst og fremst til hinnar alþjóðlegu #églíka/#metoo-vakningar. Með aðgerðinni verða vinnustaðir aðstoðaðir við að koma málum í rétt horf en í vakningunni fælist meðal annars kynning, útgáfa, fræðsla og leiðbeiningar um gerð skriflegrar áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað, þar á meðal áætlanir um forvarnir, með sérstakri áherslu á sálfélagslegt vinnuumhverfi. Nauðsynlegt er að gera stöðumat á því hve margir vinnustaðir hafi gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað svo mögulegt sé að meta árangur aðgerðarinnar.

A.10. Fræðsla um úrræði fyrir þolendur ofbeldis um allt land.
    Stýrihópurinn skiptir landinu upp í níu landsvæði: Suðurland, Norðurland eystra, Norðurland vestra, Austurland, Vestfirði, Vesturland, Suðurnes, Vestmannaeyjar og höfuðborgarsvæðið. Skiptingin hefur verið borin undir heimafólk á hverju svæði á fundum stýrihópsins með lykilfólki og alls staðar fengið góð viðbrögð. Á hverju landsvæði eru lykilsamstarfsaðilar, þ.m.t. lögregla, félagsþjónusta og barnavernd, heilbrigðisþjónusta, sýslumaður, skólaþjónusta o.fl. Sumarið 2013 útbjó Suðurnesjavaktin bæklinginn Býrð þú við ofbeldi? og lét dreifa honum á öll heimili á Suðurnesjum. Bæklingurinn inniheldur upplýsingar á þremur tungumálum um helstu birtingarmyndir ofbeldis og úrræði og þjónustu sem stendur þolendum til boða á svæðinu. Aðgerðin felst í því að bæklingurinn verði staðfærður fyrir hvert landsvæðanna níu og honum dreift markvisst á hverju svæði. Bæklingurinn verði einnig aðgengilegur á upplýsingavef, sbr. aðgerð C.2. Hann verði endurskoðaður reglulega og þýddur á algengustu erlendu tungumálin í vefútgáfu.

B. Viðbrögð – verklag og málsmeðferð.
    Þessi hluti áætlunarinnar fjallar um aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að bæta verklag og meðferð ofbeldismála hjá lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum. Annars vegar er lögð áhersla á bætta fræðslu fyrir starfsfólk þessara stofnana, meðal annars með tilliti til sérstöðu viðkvæmra hópa í samfélaginu. Hins vegar er sjónum beint að bættum verkferlum og réttarúrbótum, þ.m.t. miðlun upplýsinga sem lúta að þagnarskyldu, refsivernd gegn hatursglæpum og reglum um sáttamiðlun. Er ætlunin að umræddar aðgerðir stuðli að heildstæðari umgjörð um meðferð ofbeldismála innan réttarvörslukerfisins sem leiði af sér aukna skilvirkni, betri samskipti milli stofnana og upplýstara starfsumhverfi.

B.1. Stuðlað að menntun um ofbeldismál fyrir þá sem starfa innan réttarvörslukerfisins.
    Byggt er á því að ákveðin sí- og endurmenntun innan réttarvörslukerfisins leiði til þess að þeir sem starfa innan þess séu meðvitaðir og stöðugt upplýstir um hinar mismunandi birtingarmyndir ofbeldis í þjóðfélaginu og hafi bæði þekkingu og kunnáttu til að bregðast við og greina mál með fullnægjandi hætti frá upphafi til enda. Slík áhersla á ofbeldi í víðara samhengi, til að mynda frá sjónarhorni viðkvæmra hópa, muni skila sér í bættum viðbrögðum og skilningi á málaflokknum í heild af hálfu þeirra sem starfa innan kerfisins.

B.2. Lagaákvæði og reglur um þagnarskyldu hindri ekki framvindu mála.
    Við meðferð og rannsókn ofbeldisbrota hjá lögreglu geta komið upp ýmis álitaefni um það hvort lögreglu sé rétt og heimilt að miðla tilteknum upplýsingum sem hún telur nauðsynlegt að aðrar stofnanir og embætti hafi aðgang að. Við slíkar aðstæður þarf að meta hverju sinni hvort eigi að ganga framar, nauðsyn á upplýsingaflæði eða friðhelgi og einkahagsmunir þess aðila sem upplýsingarnar fjalla um. Þessi vinna mun snúa að því að greina núverandi lagaumhverfi að þessu leyti og skoða sérstaklega hvort þörf sé á réttarúrbótum til að liðka fyrir eðlilegum og nauðsynlegum samskiptum og upplýsingaflæði milli lögreglu og annarra stofnana í tengslum við rannsókn einstakra mála. Er ljóst að í þeirri vinnu muni einnig þurfa að taka ríkt tillit til sjónarmiða um persónuvernd í ljósi þeirra viðkvæmu upplýsinga sem unnið er með hverju sinni.

B.3. Heimildir stofnana og félagasamtaka til að afla upplýsinga úr sakaskrá ríkisins.
    Skipaður verði starfshópur sem verður falið það verkefni að greina núverandi heimildir stofnana og félagasamtaka sem starfa með börnum til að afla upplýsinga úr sakaskrá og meta þörfina á mögulegum úrbótum. Við vinnu hópsins skal hliðsjón vera höfð af lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018.

B.4. Sáttamiðlun í sakamálum.
    Dómsmálaráðuneytið mun greina núverandi lagagrundvöll og regluumgjörð um sáttamiðlun í sakamálum í því skyni að meta þörf á réttarúrbótum. Verður við þá vinnu höfð hliðsjón af norrænni réttarskipan en flestar aðrar Norðurlandaþjóðir hafa farið þá leið að setja sérstaka löggjöf um úrræðið. Þá verður farið yfir núverandi verklag hjá lögregluembættum landsins, við meðferð mála sem fara í sáttameðferð, og leitast við að greina hvort og að hve miklu leyti embættin hafi fylgt eftir niðurstöðum í skýrslu nefndar um tilraunaverkefni um sáttamiðlun í sakamálum frá árinu 2009. Meginmarkmið ráðuneytisins er að koma meðferð þeirra sakamála sem fara í sáttamiðlun í formlegan farveg og afgreiða þau í fullu samræmi við núgildandi lög og fyrirmæli ríkissaksóknara nr. 8/2017, auk þess að tryggja fullnægjandi skráningu þeirra mála sem fara í sáttamiðlun svo að unnt verði að meta hvort úrræðinu hafi verið beitt og með hvaða árangri.

B.5. Bætt áverkaskráning í Slysaskrá Íslands.
    Slysaskrá Íslands er varðveitt hjá Embætti landlæknis sem fer með daglega umsjón hennar en skráin á stoð í lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007. Fjöldi skráningaraðila var í upphafi takmarkaður við fjóra. Þeim fjölgaði á hinn bóginn jafnt og þétt til ársins 2009 og hafa verið 18 talsins síðan þá. Nánast allar heilbrigðisstofnanir senda upplýsingar í slysaskrá auk lögreglunnar, Vinnueftirlitsins og eins tryggingafélags. Nauðsynlegt er að endurskoða Slysaskrá Íslands, bæði tæknilega og hugmyndafræðilega, þar sem tæknilegar uppfærslur á skránni hafa ekki farið fram frá stofnun hennar árið 2001. Eingöngu eru skráðar lágmarksupplýsingar í slysaskrána og er skráningu á margan hátt ábótavant. Litlar upplýsingar liggja fyrir um alvarleika meiðsla og mögulegar orsakir þeirra. Slysaskrá Íslands nær ekki til allra slysa sem verða á Íslandi og því er nauðsynlegt að fá fleiri stofnanir til að skrá í grunninn, meðal annars Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Framþróun í skráningarkerfum hefur verið mikil seinasta áratuginn en það sem stendur helst í vegi fyrir því að fleiri aðilar skrái í Slysaskrá Íslands er að stofnanir eiga erfitt með að aðlaga sín kerfi að tæknilega úreltum hugbúnaði slysaskrárinnar. Áreiðanleg slysa- og áverkaskráning er forsenda þess að hægt sé að kortleggja helstu áhættuþætti slysa og áverka og móta aðgerðir til að draga úr tíðni þeirra og alvarleika.

C. Valdefling – samstarf og samhæfing.
    Þessi hluti áætlunarinnar fjallar um valdeflingu og stuðning við fullorðna þolendur ofbeldis. Samstarf og samhæfing, meðal annars á milli ríkisstofnana, sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka, gegnir hér lykilhlutverki og er oft og tíðum forsenda þess að þolendur nái bata. Valdefling í þessu samhengi felur í sér að ná tökum á eigin lífi með því að vinna úr afleiðingum ofbeldis, skila skömminni, og ná andlegu og líkamlegu atgervi á ný. Aðgerðir í þessum hluta fjalla um greiðan aðgang að upplýsingum, þjónustu og úrræðum, vernd viðkvæmra hópa gegn ofbeldi og umsjón og eftirfylgni með þessari aðgerðaáætlun í heild sinni.

C.1. Starfsemi Bjarkarhlíðar – þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis fest í sessi.
    Bjarkarhlíð – þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis er tilraunaverkefni til þriggja ára og samstarfsverkefni velferðarráðuneytisins, Reykjavíkurborgar, dómsmálaráðuneytisins, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Stígamóta, Drekaslóðar, Samtaka um kvennaathvarf, Kvennaráðgjafar og Mannréttindaskrifstofu Íslands. Í Bjarkarhlíð er veitt samhæfð, heildstæð þjónusta og ráðgjöf undir einu þaki á forsendum brotaþola. Velferðarráðuneytið hefur veitt fjármagn til verkefnisins sem tryggir tvær stöður sérfræðinga. Reykjavíkurborg hefur tryggt starfseminni húsnæði og viðhald þess og heldur borgin einnig utan um reksturinn. Þá hefur rannsóknarlögreglumaður frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fasta viðveru í Bjarkarhlíð í fullu starfi. Framlag annarra samstarfsaðila felst í ráðgjöf og þjónustu við þolendur í Bjarkarhlíð. Aðsókn í Bjarkarhlíð, sem tók formlega til starfa í mars 2017, hefur farið langt fram úr væntingum, en á árinu 2017 sóttu alls 316 einstaklingar þangað þjónustu sem sýnir mikla eftirspurn eftir þjónustu á borð við þá sem þar er veitt. Það er því afar mikilvægt að verkefninu verði tryggður áframhaldandi stuðningur enda einstakt dæmi um farsælt samstarf lykilaðila á þessu sviði. Unnið er að því að fá nágrannasveitarfélögin til þátttöku í verkefninu en engum sem leitar til Bjarkarhlíðar er synjað um þjónustu vegna búsetu. Varðandi áframhaldandi fjármögnun verkefnisins er lagt til að velferðarráðuneytið veiti 15 millj. kr. til verkefnisins á árinu 2019 og 20 millj. kr. árlega frá og með árinu 2020. Gert er ráð fyrir að 20 millj. kr. framlag stjórnvalda til verkefnisins í tengslum við Aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins á árunum 2019–2021 verði varanlegt frá og með árinu 2022.

C.2. Upplýsingavefur um ofbeldi.
    Kallað hefur verið eftir sameiginlegu vefsvæði sem hýsi margs konar efni um ofbeldismál, þ.m.t. skýrslur og niðurstöður rannsókna um afleiðingar ofbeldis og áhrif aðgerða, fræðsluefni af ýmsu tagi ætlað bæði börnum og fullorðnum, upplýsingar um þjónustu og úrræði á vegum opinberra aðila, félagasamtaka og einkaaðila. Á vefsvæðinu verði enn fremur tenglar við önnur vefsvæði sem hafa að geyma upplýsingar um ofbeldi, svo sem heilsuvera.is sem er í umsjón Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar á landsvísu. Þá er fyrirhugað að sett verði upp vefsíða á vegum Jafnréttisstofu um verkefnið Byggjum brýr – brjótum múra þar sem vistuð verða gögn tengd því verkefni. Gert er ráð fyrir að upplýsingavefurinn verði vistaður hjá Bjarkarhlíð.

C.3. Stuðningur við þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi.
    Íbúar á landsbyggðinni hafa ekki aðgang að sambærilegri þjónustu og Bjarkarhlíð veitir. Ef mið er tekið af aðsókn í Bjarkarhlíð má gera ráð fyrir að þörfin sé viðlíka á landsbyggðinni. Lykilaðilar innan lögreglunnar á Norðurlandi eystra, Akureyrarbæjar, Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og Aflsins hafa tekið höndum saman og undirbúa nú stofnun sams konar þjónustuúrræðis á Akureyri og er það þróunarverkefni til tveggja ára. Fleiri aðilar munu koma að stofnun þjónustumiðstöðvarinnar. Gert er ráð fyrir að miðstöðin verði í húsakynnum Aflsins á Akureyri sem eru í eigu bæjarins. Þá er gert ráð fyrir að miðstöðin veiti þolendum frá Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra þjónustu en engum yrði vísað frá með tilliti til búsetu. Háskólinn á Akureyri hefur tekið þátt í undirbúningnum og mun sjá um mat á verkefninu. Tillaga að þessari aðgerð var unnin að ósk og í samráði við heimamenn.

C.4. Viðbragðsteymi um sérhæfða ráðgjöf til þolenda ofbeldis á landsbyggðinni.
    Þolendur ofbeldis sem búsettir eru á landsbyggðinni standa ekki jafnfætis íbúum á höfuðborgarsvæðinu þegar um er að ræða aðstoð og ráðgjöf í kjölfar ofbeldis auk þess sem sérfræðiþekking á þessu sviði er takmörkuð utan höfuðborgarsvæðisins. Það er mikilvægt að brotaþolum standi til boða þjónusta í heimabyggð eins fljótt og unnt er og er hér lagt til að starfsmenn lögreglu, félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu, sem og fulltrúar samtaka sem koma að málum þolenda ofbeldis, geti kallað eftir aðstoð sérfræðings í slíku teymi sem kæmi á staðinn án tafar og veitti brotaþola nauðsynlegan stuðning og ráðgjöf. Einnig verði stuðst við fjarfundabúnað þegar við á, til dæmis þegar um er að ræða eftirmeðferð eða eftirfylgni með málum. Ráðgjöf frá utanaðkomandi sérfræðingateymi á ekki síst við þegar um er að ræða brotaþola sem búa í fámennari byggðum þar sem mikil nánd og jafnvel ættartengsl geta hindrað að þeir leiti sér aðstoðar. Gert er ráð fyrir að Bjarkarhlíð verði milligönguaðili um ráðgjöf sérfræðingateymisins.

C.5. Tímabundið leyfi frá störfum í kjölfar ofbeldis.
    Þolendur ofbeldis þurfa iðulega að takast á við margþætt verkefni bæði beint í kjölfar ofbeldisins og síðar þegar viðkomandi vinnur úr afleiðingum þess. Enn fremur getur það verið tímafrekt fyrir þolendur að sinna ýmsum erindum fari mál þeirra í gegnum réttarvörslukerfið. Tímabundið leyfi frá störfum gerir þolendum kleift að takast á við þessi óhjákvæmilegu verkefni án þess að það hafi neikvæð áhrif á atvinnuþátttöku þeirra, þar á meðal atvinnuöryggi. Enn fremur gefur það vinnuveitendum færi á að styðja starfsmenn sína eftir því sem við á og viðurkenna þar með að þolendur ofbeldis þurfi tíma til að leita sér aðstoðar til að vinna úr afleiðingum þess. Önnur ríki sem standa framarlega í viðbrögðum við ofbeldi hafa farið sambærilegar leiðir, svo sem Ástralía og Nýja-Sjáland. Hópurinn skal eftir atvikum eiga samráð við þau samtök sem sérhæfa sig í þjónustu við þolendur ofbeldis.

C.6. Stuðningur við svæðisbundið samráð um aðgerðir gegn ofbeldi.
    Velferðarráðuneytið veitir árlega styrki af safnliðum fjárlaga vegna verkefna á sviði félagsmála. Í framangreindum heimsóknum stýrihóps út á land hefur hópurinn hvatt til þess að heimamenn komi á svæðisbundnu samstarfi á sviði aðgerða gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Heimsóknum í landshlutana hefur einnig verið fylgt eftir af framkvæmdaaðilum verkefnisins Byggjum brýr – brjótum múra en markmiðið með því er að styðja heimamenn enn frekar til samstarfs. Aðgerðinni er ætlað að hvetja frjáls félagasamtök, í samstarfi við opinbera aðila, til að sækja um styrki til verkefna á sviði forvarna og fræðslu, styrkingar viðbragðsaðila og/eða valdeflingar þolenda í kjölfar ofbeldis og stuðla þannig að auknu svæðisbundnu samstarfi framangreindra aðila á þessu sviði. Verkefnastyrkir velferðarráðuneytisins til félagsmála eru auglýstir einu sinni á ári.

C.7. Fjölbreyttari meðferðarúrræði fyrir gerendur í ofbeldismálum.
    Kallað hefur verið eftir fjölbreyttari meðferðarúrræðum fyrir gerendur í ofbeldismálum og þá sem eru í áhættuhópi. Heimilisfriður, meðferðar- og þekkingarmiðstöð um ofbeldi í nánum samböndum, er sem stendur eina meðferðarúrræðið sem gerendum býðst. Einnig þarf að huga að meðferðarúrræðum meðan á afplánun stendur. Félags- og jafnréttismálaráðherra hefur skipað starfshóp sem á að kortleggja og skilgreina úrræði og þjónustuþörf fyrir gerendur í hvers kyns ofbeldismálum og leggja fram tillögur um úrbætur. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili niðurstöðum í árslok 2019. Þá má benda á að dómsmálaráðuneytið hefur birt aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins þar sem farið er ítarlega yfir aðgerðir er snúa að virkari úrræðum fyrir sakborninga í kynferðisbrotamálum.

C.8. Hagsmunagæsla aldraðra þegar grunur er um að þeir séu beittir ofbeldi.
    Á fundi stýrihópsins með fulltrúum Landssambands eldri borgara, lögreglu og félagsráðgjafa hjá Reykjavíkurborg um málefni aldraðra kom fram að skortur væri á tiltækum úrræðum þegar grunur leikur á að aldrað fólk hafi verið beitt ofbeldi. Sérstaklega var tekið fram að það vantaði bæði vettvang og valdheimildir til þess að geta stigið inn í mál þegar grunur vaknar en starfsfólk í heimaþjónustu, á öldrunarstofnunum og aðstandendur vita oft ekki hvernig bregðast skuli við. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn fari yfir hvaða leiðir séu mögulegar í þessum efnum og leggi fram tillögur þar um.

C.9. Mat á þörf fyrir kvennaathvörf á landsbyggðinni.
    Á síðustu árum hefur grettistaki verið lyft í heimilisofbeldismálum og mikið áunnist. Samræmdu verklagi hefur víða verið komið á, þverfaglegt samstarf ýmissa aðila á þessu sviði hefur aukist og ekki síst hefur átt sér stað mikil vitundarvakning og opinber umræða. Þannig hefur málum fjölgað og fleiri þolendur leita í ýmis stuðningsúrræði í kjölfar ofbeldis. Takmörkuð úrræði eru fyrir þolendur á landsbyggðinni sem þurfa í mörgum tilvikum að leita til höfuðborgarsvæðisins eftir sérhæfðri þjónustu. Kvennaathvarfið í Reykjavík er úrræði fyrir konur og börn þeirra þegar dvöl í heimahúsum er þeim óbærileg vegna ofbeldis en sambærileg úrræði er ekki að finna á landsbyggðinni. Erlendir eftirlitsaðilar hafa gert athugasemdir við að ekki séu í boði úrræði á borð við Kvennaathvarfið utan höfuðborgarsvæðisins. Stofnaður verði starfshópur sem falið verður að kortleggja og meta hvort þörf sé fyrir úrræði á borð við Kvennaathvarfið á landsbyggðinni til að tryggja þolendum ofbeldis aðgang að sérhæfðum stuðningsúrræðum óháð búsetu.

C.10. Samræmd velferðarþjónusta fyrir þolendur mansals fest í sessi.
    Framkvæmdateymi um mansalsmál tók til starfa haustið 2015 og er á forræði velferðarráðuneytisins. Teymið er boðað til fundar þegar upp koma einstök mál þar sem grunur er um mansal en hlutverk þess er að tryggja að þolendur mansals fái viðeigandi þjónustu. Hér er meðal annars átt við öruggt húsnæði, framfærslu, félagslega ráðgjöf og heilbrigðisþjónustu í samræmi við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri glæpastarfsemi og bókun við þann samning til að koma í veg fyrir, berjast gegn og refsa fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn, svokölluð Palermó-bókun. Teymið er skipað fulltrúum frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Samtökum um kvennaathvarf, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og/eða frá lögregluumdæminu þar sem þolandi dvelur eða býr, velferðarsviði Reykjavíkurborgar og/eða félagsþjónustu þess sveitarfélags þar sem þolandi dvelur eða býr og velferðarráðuneytinu. Þá er oft leitað til stéttarfélaga vegna einstakra mála. Framkvæmdateymið hefur verið boðað til funda vegna um það bil tíu mála þar sem grunur hefur verið um mansal. Hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborg er fyrir hendi þekking og sérhæfing í meðferð mansalsmála. Með þessari aðgerð verður teymið fest í sessi og því fundið viðeigandi aðsetur í Bjarkarhlíð þar sem sérfræðingar frá fjölmörgum aðilum starfa. Einnig verður aðgengi þjónustuaðila á landsbyggðinni að ráðgjöf um úrræði betur tryggt þegar þeir hafa mansalsmál til meðferðar.

C.11. Leiðbeinandi reglur um velferðarþjónustu fyrir þolendur mansals.
    Sérfræðingar í velferðarþjónustu sem taka á móti þolendum og mögulegum þolendum mansals hafa lýst óöryggi sínu varðandi hvaða þjónustu eigi að veita þegar mál þar sem grunur leikur á mansali koma upp og hver aðkoma annarra þjónustuaðila eigi að vera. Leiðbeinandi reglur stuðla að auknu öryggi sérfræðinga á vettvangi og samþættari þjónustu. Lykilatriði í málsmeðferð er að samstarfsaðilar vinni saman með það að markmiði að tryggja velferð brotaþola og meints brotaþola, þó þannig að rannsóknarhagsmuna sé gætt. Hér er meðal annars um að ræða greiða miðlun upplýsinga og annað samstarf aðila, þ.m.t. milli félagsþjónustu sveitarfélaga, heilsugæslu og lögreglu. Leiðbeinandi verklagslegum er ætlað að renna stoðum undir slíkt samstarf.

C.12. Árlegur landssamráðsfundur um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.
    Markmið með árlegum landssamráðsfundum er að gefa fulltrúum ráðuneyta, ríkisstofnana, sveitarfélaga, frjálsra félagasamtaka, rannsóknarstofnana og annarra sem láta sig þess mál varða tækifæri til að bera saman bækur sínar, kynna nýjungar, niðurstöður rannsókna og koma á framfæri tillögum til úrbóta með það að markmiði að draga úr og koma í veg fyrir ofbeldi. Staðan á framkvæmd þessarar aðgerðaáætlunar yrði meðal annars kynnt á þessum fundum. Velferðarráðuneytið í samstarfi við dómsmálaráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið undirbúi og boði til hinna árlegu funda.

C.13. Eftirfylgni með aðgerðaáætlun þessari.
    Ráðuneytin þrjú sem eiga aðild að þessari aðgerðaáætlun bera hvert um sig ábyrgð á framkvæmd hennar. Ráðinn verði verkefnisstjóri og eftirfylgni tryggð í samstarfi ráðuneytanna.


Fylgiskjal.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.