Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 634  —  3. mál.
3. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2019.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Í 1. mgr. 57. gr. b laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, eru sett takmörk á heimildir lögaðila til að draga frá skattskyldum tekjum vaxtagjöld og afföll vegna lánaviðskipta við tengda aðila. Skv. b-lið 3. mgr. greinarinnar á ákvæðið ekki við ef lánveitandi ber ótakmarkaða skattskyldu hérlendis. Undanþága þessu fellur brott 1. janúar 2019 skv. 3. gr. laga nr. 59/2017, sbr. 2. tölul. 26. gr. þeirra laga sem breytt var með 48. gr. laga nr. 96/2017.
    Brottfall undanþágunnar getur aftrað fyrirtækjasamstæðum frá sameiginlegri lántöku sem gæti hækkað fjármögnunarkostnað þeirra. Í nefndaráliti meiri hluta við 2. umræðu um fyrirliggjandi frumvarp kom fram að á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins væri unnið að gerð frumvarps þar sem m.a. væri tekið á fyrrgreindu atriði. Frumvarpið hefur verið lagt fram (433. mál) en í ljósi þess að ólíklegt er að afgreiðsla þess takist fyrir árslok leggur meiri hlutinn til nýtt orðalag á b-lið 3. mgr. 57. gr. b laga um tekjuskatt, í stað þess sem fellur brott um komandi áramót líkt og að framan greinir.
    Fyrr á þessu þingi afgreiddi nefndin frumvarp til laga um breytingu á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, og fleiri lögum (162. mál) með nokkrum breytingum, sbr. lög nr. 117/2018. Á meðal þeirra breytinga sem nefndin lagði til voru tilgreining á gjalddaga vörugjalds og álags, sbr. 7. efnismgr. 3. gr. laganna, sem skyldi vera 10 dögum eftir dagsetningu úrskurðar um álagningu. Ábending hefur borist um að betur færi að gjalddagi viðkomandi gjalds væri 15. dagur næsta mánaðar eftir álagningu gjaldsins. Tryggði það betur samræmi gjalddaga og einfaldaði álagningu gjaldsins. Þá væri sú framkvæmd í samræmi við stefnu stjórnvalda um fækkun opinberra gjalddaga. Meiri hlutinn fellst á ábendinguna og leggur til viðeigandi breytingu á 3. gr. laga nr. 117/2008.
    Af tæknilegum ástæðum leggur meiri hlutinn jafnframt til breytingu á ákvæði til bráðabirgða XV í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, sem gerð var grein fyrir í nefndaráliti meiri hlutans við 2. umræðu.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir 19. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Í stað orðanna „og 2017 “ í ákvæði til bráðabirgða XV í lögunum kemur: 2017, 2018 og 2019.
     2.      Við bætist nýr kafli, XX. kafli, Breyting á lögum um breytingu á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum um bifreiðagjald og lögum um virðisaukaskatt, nr. 117/2018, með einni grein, 30. gr., sem orðist svo:
                  2. málsl. 7. efnismgr. 3. gr. laganna orðast svo: Krafan fellur í gjalddaga 15. dag næsta mánaðar á eftir álagningu vörugjalds samkvæmt þessu ákvæði.
     3.      Við bætist nýr kafli, XXI. kafli, Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum, með einni grein, 31. gr., sem orðist svo:
                  B-liður 3. mgr. 57. gr. b laganna orðast svo: vaxtagjöld eru greidd vegna lánaviðskipta innan samstæðu sem nýtur heimildar til samsköttunar skv. 55. gr., eða uppfyllir skilyrði til samsköttunar, þegar öll félög samstæðu eru heimilisföst á Íslandi.
     4.      Í stað orðanna „og 22.–27. gr.“ í 3. mgr. 29. gr. komi: 23.–28. og 31. gr.

Alþingi, 6. desember 2018.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Bryndís Haraldsdóttir. Brynjar Níelsson.
Ólafur Þór Gunnarsson. Ásgerður K. Gylfadóttir.