Ferill 585. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 985  —  585. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 242/2018 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.


Frá utanríkisráðherra.



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 242/2018, frá 5. desember 2018, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/720 frá 29. apríl 2015 um breytingu á tilskipun 94/62/EB að því er varðar að draga úr notkun á þunnum burðarpokum úr plasti.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 242/2018, frá 5. desember 2018 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 (sbr. fskj. I), og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/720 frá 29. apríl 2015 um breytingu á tilskipun 94/62/EB að því er varðar að draga úr notkun á þunnum burðarpokum úr plasti (sbr. fskj. II).
    Þar sem fyrirhugað var að gera lagabreytingar í tengslum við innleiðingu fyrrgreindar tilskipunar hér á landi var ákvörðun nr. 242/2018 tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir. Hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.

2. Um upptöku ESB-gerða í EES-samninginn og um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Á hverju ári er nokkur fjöldi ESB-gerða tekinn upp í EES-samninginn með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þó er um að ræða tiltölulega lágt hlutfall af heildarfjölda þeirra gerða sem ESB samþykkir. Í skýrslu utanríkisráðuneytisins, Gengið til góðs – skref í átt að bættri framkvæmd EES-samningsins, kemur fram að á tímabilinu frá árinu 1994 til ársloka 2016 tók Ísland upp 13,4% þeirra gerða sem ESB samþykkti á sama tímabili.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Almennt hafa íslensk stjórnvöld einungis gert stjórnskipulegan fyrirvara þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem lagabreytingar verða gerðar í tengslum við innleiðingu hennar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/720 frá 29. apríl 2015 um breytingu á tilskipun 94/62/EB að því er varðar að draga úr notkun á þunnum burðarpokum úr plasti.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/62/EB var samþykkt til að koma í veg fyrir eða draga úr neikvæðum áhrifum af umbúðum og umbúðaúrgangi á umhverfið. Þó að burðarpokar úr plasti teljist umbúðir í skilningi þeirrar tilskipunar felur hún ekki í sér sértækar ráðstafanir vegna notkunar slíkra poka. Núverandi umfang notkunar á burðarpokum úr plasti hefur í för með sér mikinn úrgang og óskilvirka notkun á auðlindum og er búist við að það aukist ef ekki er gripið til aðgerða. Árið 2010 notaði hver einstaklingur í ríkjum Evrópusambandsins að meðaltali 200 plastpoka á ári. Í landsáætlun hér á landi um meðhöndlun úrgangs fyrir árin 2013–2024 er gert ráð fyrir að Íslendingar noti um 70 milljónir plastpoka á ári, sem svarar til þess að hver einstaklingur noti rúmlega 200 plastpoka árlega.
    Í tilskipun (ESB) 2015/720 eru lagðar skyldur á aðildarríki Evrópusambandsins að minnka notkun á plastpokum sem eru þynnri en 0,05 millimetrar en undir það falla bæði þunnir grænmetispokar og hefðbundnir innkaupapokar úr plasti. Í þeim ráðstöfunum gæti falist að nota landsbundin markmið um minni notkun, að viðhalda eða innleiða efnahagsleg stjórntæki, sem og markaðshindranir að því tilskildu að þær séu hóflegar og án mismununar. Í tilskipuninni er kveðið á um að slíkar ráðstafanir geti verið mismunandi eftir umhverfisáhrifum af endurnýtingu þunnra burðarpoka úr plasti eða af förgun þeirra, eiginleikum þeirra hvað varðar myltingu, endingu þeirra eða sértækri fyrirhugaðri notkun. Með tilskipuninni er stefnt að því að a.m.k. öðru eftirfarandi markmiði verði náð: Annars vegar að notkun burðarpoka úr plasti sem falla undir tilskipunina verði ekki meiri en sem svarar 90 slíkum pokum á einstakling fyrir árslok 2019 og 40 slíkum pokum fyrir árslok 2025. Hins vegar að slíkum pokum verði ekki dreift af söluaðilum án endurgjalds, nema að öðrum úrræðum sem skila ekki lakari niðurstöðu hafi verið hrint í framkvæmd.
    Aðildarríkjunum er heimilt að nýta ráðstafanir svo sem efnahagsleg stjórntæki og landsbundin markmið um minni notkun varðandi hvers konar burðarpoka úr plasti án tillits til þykktar þeirra. Jafnframt er aðildarríkjunum heimilt að takmarka markaðssetningu burðarpoka úr plasti að því gefnu að þau gangi ekki lengra en nauðsynlegt er og að takmörkunin feli ekki í sér mismunun.
    Aðildarríkin skulu tryggja að lífbrjótanlegir og myltanlegir burðarpokar úr plasti séu merktir í samræmi við forskriftir sem kveðið verður á um í framkvæmdarreglugerð Evrópusambandsins. Burðarpokar úr plasti, sem oft eru merktir sem niðurbrjótanlegir með oxun, innihalda aukefni sem eru hvatar að niðurbroti plastefnisins í öragnir sem safnast upp í umhverfinu.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Fyrirhugað er að gera breytingar á ákvæðum laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, í tengslum við innleiðingu á ákvæðum tilskipunar 2015/720. Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur lagt fram frumvarp á yfirstandandi löggjafarþingi til breytinga á lögunum. Í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar eru í frumvarpinu lagðar til ráðstafanir til að tryggja að eigi síðar en 31. desember 2019 verði fjöldi burðarpoka úr plasti sem hver einstaklingur notar að jafnaði árlega 90 pokar eða færri og eigi síðar en 31. desember 2025 verði fjöldinn 40 pokar eða færri. Þá er lagt til að frá 1. júlí 2019 verði óheimilt að afhenda burðarpoka, þ.m.t. úr plasti, án endurgjalds á sölustöðum vara og að gjaldið verði sýnilegt á kassakvittun.

5. Samráð við Alþingi.
    Í reglum Alþingis um þinglega meðferð EES-mála er kveðið á um að ESB-gerðir, sem fyrirhugað er að fella inn í EES-samninginn en munu ekki taka gildi á Íslandi nema að undangengnu samþykki Alþingis, skuli sendar utanríkismálanefnd til umfjöllunar. Við upphaflega greiningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á efni gerðarinnar var komist að þeirri niðurstöðu að fullnægjandi lagaheimildir til innleiðingar gerðarinnar væri að finna í ákvæðum 5. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og 43. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Í samræmi við þá niðurstöðu var gerðin ekki send utanríkismálanefnd til umfjöllunar. Við upptöku gerðarinnar í EES-samninginn hafði ráðuneytið hins vegar ákveðið að gera tilteknar breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir í tengslum við innleiðingu gerðarinnar og var ákvörðunin því tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Gerðin hlaut kynningu fyrir utanríkismálanefnd í tengslum við upptöku hennar í EES-samninginn.


Fylgiskjal I.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 242/2018 frá 5. desember 2018
um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar,
prófanir og vottun) við EES-samninginn).


www.althingi.is/altext/pdf/149/fylgiskjol/s0985-f_I.pdf



Fylgiskjal II.




Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/720 frá 29. apríl 2015
um breytingu á tilskipun 94/62/EB að því er varðar að draga
úr notkun á þunnum burðarpokum úr plasti.


www.althingi.is/altext/pdf/149/fylgiskjol/s0985-f_II.pdf