Ferill 345. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 1208  —  345. mál.
Viðbót.

Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019–2023.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríu Erlu Marelsdóttur, Ólaf Sigurðsson, Davíð Bjarnason, Vilhjálm Wiium, Þórdísi Sigurðardóttur, Erlu Hlín Hallgrímsdóttur og Ingunni Þorsteinsdóttur frá utanríkisráðuneyti, Geir Gunnlaugsson frá Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, Irmu Jóhönnu Erlingsdóttur og Védísi Ólafsdóttur frá Jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna, Hafdísi Hönnu Ægisdóttur og Berglindi Orradóttur frá Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna, Árna Bragason frá Landgræðslu ríkisins, Guðrúnu Helgu Jóhannsdóttur frá Barnaheillum – Save the Children, Ragnar Schram frá SOS – Barnaþorpum, Bjarna Gíslason frá Hjálparstarfi kirkjunnar og Sólrúnu Maríu Ólafsdóttur og Guðnýju Nielsen frá Rauða krossinum á Íslandi.
    Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, Jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Landgræðslunni, Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og sameiginleg umsögn frá Rauða krossinum á Íslandi, SOS – Barnaþorpum, Barnaheillum – Save the Children og Hjálparstarfi kirkjunnar.
    Í lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, nr. 121/2008, er kveðið á um að ráðherra skuli fimmta hvert ár leggja fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi um stefnu stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands til fimm ára í senn þar sem fram komi markmið og áherslur í málaflokkum. Tillögunni er ætlað að marka þessa stefnu fyrir árin 2019–2023. Þá er lögð fyrir aðgerðaáætlun á tveggja ára fresti, sbr. fylgiskjal I með tillögunni. Grundvöllur stefnunnar eru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, áðurnefnd lög um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands og lög um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu, nr. 73/2008. Tillagan var lögð fyrir þróunarsamvinnunefnd í samræmi við lög um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands og fylgir umsögn hennar sem fylgiskjal II með tillögunni. Drög að tillögu til þingsályktunar voru sett í samráðsgátt stjórnvalda og í lokadrögum að stefnunni var reynt eftir fremsta móti að taka tillit til þeirra þriggja umsagna sem bárust. Þá fylgir skýrsla um framkvæmd þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2013–2016 sem fylgiskjal III með tillögunni. Í skýrslunni kemur fram að þróunarsamvinna Íslands skilar árangri og leiðir til aukinnar hagsældar og framfara í fátækum samfélögum.
    Tillagan felur í sér að Ísland styðji framtíðarsýn heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra veröld og að stefna Íslands taki jafnframt mið af þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland hefur gerst aðili að, samþykkt eða fullgilt, til að mynda á sviði mannréttinda, og Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál. Sérstaklega er tilgreint að Ísland styðji það markmið Sameinuðu þjóðanna að iðnríki skuli veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum (VÞT) til þróunarsamvinnu auk þess markmiðs að veita í það minnsta 0,2% af VÞT til fátækustu þróunarlandanna. Þá er í tillögunni kveðið á um að alþjóðleg þróunarsamvinna halda sessi sínum sem ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu og mikilvægur hlekkur í þjóðaröryggisstefnu landsins. Aðild að Sameinuðu þjóðunum verði áfram kjarninn í þróunarsamvinnu Íslands og nauðsynlegt sé að virkja ólíka aðila til samstarfs svo ná megi settum markmiðum. Mannréttindi skuli höfð að leiðarljósi í allri stefnunni þar sem jafnrétti kynjanna og réttindi barna og annarra berskjaldaðra hópa skuli vera í forgrunni. Meginhugtök stefnunnar eru: Ábyrgð, árangur og áreiðanleiki.
    Í þeim umsögnum sem bárust og við meðferð málsins fyrir nefndinni ríkti samhljómur um að tillagan væri jákvæð og að henni bæri að fagna. Helstu athugasemdir sneru að því að ekki væri gengið nægilega langt í að ná því yfirlýsta markmiði að framlög Íslands til þróunarsamvinnu yrðu 0,7% af VÞT. Þó væri vissulega jákvætt skref að stefnt væri að því að framlögin verði 0,35% af VÞT árið 2022. Jafnframt var vakin athygli á mikilvægi aukinnar þátttöku borgarasamfélagsins og atvinnulífsins á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Loks var bent á að skoða þyrfti nánar það fyrirkomulag að hluta af því fjármagni sem fer í málaflokkinn er varið til aðstoðar flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd á Íslandi, en í stefnunni er vísað í fjármálaáætlun varðandi framlögin.
    Nefndin fagnar því að tillagan sé fram komin og telur hana vera til bóta. Mikilvægt sé að íslensk stjórnvöld styðji áðurnefnd markmið Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki veiti sem nemur 0,7% af VÞT til þróunarsamvinnu og að íslensk stjórnvöld veiti í það minnsta 0,2% af VÞT til fátækustu þróunarlandanna. Nefndin fagnar þeirri verulegu hækkun sem varð á framlögum til þróunarsamvinnu á tímabilinu frá 2013–2017 og telur lykilatriði að framlögin séu vel nýtt og að sýnt sé fram á árangur af starfi Íslands. Nefndin tekur jafnframt undir þau sjónarmið sem fram komu við meðferð málsins að mikilvægt sé að vinna ötullega að því að ná 0,7% markmiðinu.
    Nefndin telur jákvætt að Háskóli Sameinuðu þjóðanna hafi veglegan sess í stefnunni líkt og raunin er og telur mikilvægt að áfram verði lögð áhersla á að byggja upp færni einstaklinga og styrk stofnana í þróunarríkjum með starfsemi Jafnréttisskólans, Jarðhitaskólans, Landgræðsluskólans og Sjávarútvegsskólans. Þá tekur nefndin undir þau sjónarmið sem fram komu við meðferð málsins að til bóta sé að landgræðsla sé orðin sérstakt áherslusvið undir sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda auk loftslags- og umhverfismála. Nefndin telur jafnframt að áhugavert gæti verið að kanna nánar möguleika á aukinni þátttöku borgarasamfélagsins og atvinnulífsins.
    Nefndin leggur til breytingar á orðalagi í takt við ábendingar sem nefndinni bárust í umsögnum um tillöguna.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við kaflann Áherslur og markmið:
     1.      C-liður 2. tölul. 4. mgr. orðist svo: Endurheimt vistkerfa, sjálfbær landnýting og takmörkun landhnignunar (í samræmi við Heimsmarkmið nr. 15).
     2.      1. mgr. II. undirkafla, Verndun jarðarinnar og sjálfbær nýting náttúruauðlinda, orðist svo:
                  Íslensk stjórnvöld stuðli að því að auka viðnámsþrótt samfélaga til að örva hagvöxt á grundvelli jafnaðar og sjálfbærrar auðlindanýtingar auk þess sem gripið verði til aðgerða vegna loftslagsbreytinga. Áhersla verði einkum lögð á nýtingu jarðhita og endurnýjanlega orku, sjálfbæra nýtingu auðlinda hafs, vatna og lands, endurheimt vistkerfa og ráðstafanir til að auka mótvægisaðgerðir og aðlögunarhæfni samfélaga vegna áhrifa af völdum loftslagsbreytinga.
     3.      4. mgr. II. undirkafla, Verndun jarðarinnar og sjálfbær nýting náttúruauðlinda, orðist svo:
                  Veitt verði aðstoð til að takmarka landhnignun og endurheimta vistkerfi sem hafa raskast. Slíkar aðgerðir stuðli m.a. að auknu fæðuframboði, bættri vatnsmiðlun og aukinni kolefnisupptöku í jarðvegi og gróðri. Þannig verði dregið úr skaðlegum áhrifum loftslagsbreytinga. Sérstök áhersla verði lögð á uppbyggingu þekkingar og færni á sviði sjálfbærrar landnýtingar og landgræðsluvistfræði.

    Þorgerður K. Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.
    Gunnar Bragi Sveinsson, Logi Einarsson og Smári McCarthy skrifa undir álit þetta með fyrirvara sem þeir hyggjast gera grein fyrir í ræðu.

Alþingi, 25. mars 2019.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form., frsm.
Ari Trausti Guðmundsson. Ásgerður K. Gylfadóttir.
Bryndís Haraldsdóttir. Gunnar Bragi Sveinsson, með fyrirvara. Logi Einarsson, með fyrirvara.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Smári McCarthy, með fyrirvara. Þorgerður K. Gunnarsdóttir.