Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1305, 135. löggjafarþing 327. mál: meðhöndlun úrgangs (EES-reglur, rafeindatækjaúrgangur).
Lög nr. 73 11. júní 2008.

Lög um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 3. gr. laganna bætast eftirfarandi skilgreiningar í viðeigandi stafrófsröð, svohljóðandi:
 1. Framleiðandi og innflytjandi: aðili sem, óháð þeirri sölutækni sem er notuð,
  1. framleiðir og selur raf- og rafeindatæki undir eigin vörumerki,
  2. endurselur raf- og rafeindatæki, undir eigin vörumerki, sem aðrir birgjar framleiða; endursöluaðilinn telst þó ekki vera framleiðandi ef vörumerki framleiðandans er á tækjabúnaðinum eins og kveðið er á um í i. lið, eða
  3. flytur raf- og rafeindatæki inn eða út úr landinu í atvinnuskyni.
 2. Raf- og rafeindatæki: búnaður sem þarf rafstraum eða rafsegulsvið til að geta starfað á réttan hátt og búnaður til að framleiða, flytja og mæla slíkan rafstraum og rafsegulsvið, sbr. viðauka I.
 3. Raf- og rafeindatækjaúrgangur: raf- eða rafeindatæki sem er úrgangur, þ.m.t. allir íhlutir, undireiningar og aukahlutir sem eru hluti af búnaðinum.
 4. Raf- og rafeindatækjaúrgangur frá heimilum: raf- og rafeindatækjaúrgangur sem kemur frá heimilum, einnig raf- og rafeindatækjaúrgangur frá verslun, iðnaði, stofnunum og annars staðar frá sem er að eðli og umfangi svipaður þeim sem kemur frá heimilum.
 5. Skilakerfi: fyrirtæki eða aðili sem tekur að sér ábyrgð framleiðanda og innflytjanda á raf- og rafeindatækjaúrgangi.


2. gr.

     Á eftir II. kafla laganna kemur nýr kafli, III. kafli, Raf- og rafeindatækjaúrgangur, með níu nýjum greinum, svohljóðandi, og breytast númer annarra greina og kafla samkvæmt því:
     
     a. (14. gr.)
Skyldur sveitarfélaga varðandi raf- og rafeindatækjaúrgang.
     Söfnunarstöðvar sveitarfélaga skulu hafa aðstöðu fyrir móttöku á raf- og rafeindatækjaúrgangi frá heimilum eins og nánar er kveðið á um í reglugerð. Ber þeim að taka við slíkum úrgangi frá heimilum gjaldfrjálst. Sveitarfélögum er heimilt að innheimta gjald fyrir afnot skilakerfa af slíkri aðstöðu í samræmi við gjaldskrá sem ráðherra setur að fenginni tillögu stýrinefndar og umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
     Söfnunarstöðvum sveitarfélaga ber einnig að taka við öðrum raf- og rafeindatækjaúrgangi en frá heimilum og er heimilt að taka gjald til að standa undir kostnaði við móttöku og geymslu hans.
     Sveitarfélögin skulu veita leiðbeiningar um hvernig beri að flokka og skila raf- og rafeindatækjaúrgangi til söfnunarstöðva sveitarfélaga.
     
     b. (15. gr.)
Ábyrgð framleiðanda og innflytjanda á raf- og rafeindatækjaúrgangi.
     Framleiðandi og innflytjandi skulu bera ábyrgð á þeim raf- og rafeindatækjum sem framleidd eru hér á landi eða flutt inn og falla undir viðauka I. Í ábyrgð framleiðanda og innflytjanda felst að þeir skulu fjármagna og tryggja meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs að frátalinni söfnun til söfnunarstöðvar sveitarfélaga. Skulu framleiðendur og innflytjendur uppfylla skyldur sínar með rekstri eigin skilakerfis eða með aðild að sameiginlegu skilakerfi fleiri framleiðenda og innflytjenda. Ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á geymslu og söfnun frá söfnunarstöð sveitarfélaga nær til landsins alls án tillits til hvar varan er seld og skal allur raf- og rafeindatækjaúrgangur sem fellur undir lög þessi fara til meðhöndlunar. Seljandi raf- og rafeindatækja sem falla undir lög þessi og seld eru í tollfrjálsri verslun hér á landi og ætluð til innlendra nota ber ábyrgð framleiðanda og innflytjanda samkvæmt lögum þessum.
     Umhverfisráðherra getur, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, kveðið á um í reglugerð að framleiðanda og innflytjanda annarra raf- og rafeindatækja en raf- og rafeindatækja fyrir heimili sé heimilt að gera samkomulag um að kaupandi raf- og rafeindatækis yfirtaki ábyrgð skv. 1. mgr. Tilkynna ber stýrinefnd raf- og rafeindatækjaúrgangs um gerð slíkra samninga. Umhverfisstofnun skal leita umsagnar stýrinefndar og skilakerfa við gerð tillagna að reglugerð.
     
     c. (16. gr.)
Upplýsingaskylda framleiðenda og innflytjenda.
     Framleiðandi og innflytjandi skulu í upplýsingum sem ætlaðar eru til dreifingar til kaupanda upplýsa um hvar sé heimilt að skila raf- og rafeindatækjaúrgangi, að hægt sé að skila raf- og rafeindatækjaúrgangi frá heimilum án greiðslu og að ábyrgst sé að hann verði meðhöndlaður í samræmi við gildandi reglur.
     
     d. (17. gr.)
Upplýsingar til þeirra er meðhöndla úrgang.
     Framleiðendur og innflytjendur skulu veita upplýsingar um rétta meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs til þeirra sem hafa starfsleyfi til að meðhöndla raf- og rafeindatækjaúrgang. Slíkar upplýsingar skulu veittar eigi síðar en ári frá því að raf- og rafeindatæki var markaðssett.
     
     e. (18. gr.)
Skilakerfi.
     Hlutverk skilakerfis er að:
 1. kosta geymslu raf- og rafeindatækjaúrgangs frá heimilum á söfnunarstöðvum sveitarfélaga,
 2. tryggja söfnun og móttöku á raf- og rafeindatækjaúrgangi frá söfnunarstöðvum sveitarfélaga og í samráði við sveitarfélögin, alls staðar á landinu,
 3. tryggja að raf- og rafeindatækjaúrgangur sé meðhöndlaður af atvinnurekstri sem hefur gilt starfsleyfi.

     Skilakerfi skal hafa nægt fjármagn frá framleiðendum og innflytjendum til að tryggja að það geti staðið undir skuldbindingum fyrir hönd viðskiptavina sinna.
     Skilakerfi skal kosta geymslu, safna og taka á móti og koma til meðhöndlunar því heildarmagni raf- og rafeindatækjaúrgangs sem jafngildir markaðshlutdeild þeirra framleiðenda og innflytjenda sem samning hafa við skilakerfið hvort sem um er að ræða sameiginlegt skilakerfi eða skilakerfi sem er fjármagnað af einum framleiðanda eða innflytjanda.
     Skilakerfi ber að leggja fram tryggingu um fjárhagslega ábyrgð vegna starfsemi sinnar. Umhverfisráðherra setur að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar reglugerð um upphæð og form hinnar fjárhagslegu ábyrgðar. Heimilt er í reglugerðinni að undanþiggja skilakerfi, sem hefur innan sinna vébanda ákveðinn fjölda framleiðenda og innflytjenda og eru með tiltekna lágmarksmarkaðshlutdeild, tryggingu um fjárhagslega ábyrgð. Umhverfisstofnun skal leita umsagnar stýrinefndar og skilakerfa, svo og annarra hagsmunaaðila, við gerð tillagna að reglugerð.
     Áður en skilakerfi hefur starfsemi skal það afla leyfis Umhverfisstofnunar. Með umsókn um leyfi til rekstrar skilakerfis ber að fylgja trygging um fjárhagslega ábyrgð, sbr. þó 2. málsl. 4. mgr., ásamt umsögn stýrinefndar. Umsóknargjald er 100.000 kr. og skal það standa undir kostnaði við yfirferð umsóknar og útgáfu leyfis.
     Skilakerfi ber að leggja fram upplýsingar til stýrinefndar um að það uppfylli kröfur samkvæmt ákvæðum greinar þessarar.
     
     f. (19. gr.)
Stýrinefnd raf- og rafeindatækjaúrgangs.
     Sérstök stýrinefnd raf- og rafeindatækjaúrgangs skal hafa umsjón með starfsemi skilakerfa.
     Umhverfisráðherra skipar fimm manna stýrinefnd raf- og rafeindatækjaúrgangs. Skulu fjórir skipaðir samkvæmt tilnefningum frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu og einn án tilnefningar sem er formaður nefndarinnar og skal hafa sérþekkingu á samkeppnismálum.
     Stýrinefnd getur leitað hagkvæmra leiða til þess að söfnun, móttaka og meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs frá heimilum fari fram með landfræðilega skynsömum hætti. Ber henni að leita eftir áliti Samkeppniseftirlits.
     Hlutverk stýrinefndar er að:
 1. halda skrá yfir framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja og hafa eftirlit með því að þeir séu skráðir í skráningarkerfið,
 2. reka skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda,
 3. safna upplýsingum frá skilakerfum um magn raf- og rafeindatækjaúrgangs og ráðstöfun hans og vinnslu þeirra upplýsinga og skila þeim til Umhverfisstofnunar,
 4. reikna hlutfall þess raf- og rafeindatækjaúrgangs sem einstökum skilakerfum ber að safna eftir flokkun sem fram kemur í viðauka I í samræmi við markaðshlutdeild,
 5. meta hvort skilakerfi uppfylli skyldur sínar,
 6. meta hvort skilakerfi geti staðið undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum,
 7. móta stefnu um starfsemi sína, svo sem helstu áherslur, verkefni og starfshætti, og leggja fyrir ráðherra til staðfestingar.

     Telji stýrinefnd að skilakerfi uppfylli ekki skyldur sínar ber henni að tilkynna það til Umhverfisstofnunar. Stofnuninni er þá heimilt að beita skilakerfi þvingunarúrræðum samkvæmt lögum þessum og ef brot eru alvarleg að svipta skilakerfi leyfi til að starfa.
     Stýrinefnd skal innheimta gjald af skilakerfum til að standa undir kostnaði við uppbyggingu og rekstur stýrinefndar sem hlýst af ákvæðum laga þessara, svo sem stofnkostnaði, rekstri skráningarkerfis, sbr. 20. gr., og kostnaði við störf stýrinefndar. Skal gjaldið vera í samræmi við markaðshlutdeild þeirra innflytjenda og framleiðenda sem aðild eiga að viðkomandi skilakerfi. Skilakerfi geta óskað eftir upplýsingum frá stýrinefnd um samsetningu gjalda. Gjöld mega ekki vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu.
     
     g. (20. gr.)
Skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda.
     Framleiðanda og innflytjanda raf- og rafeindatækja ber að skrá sig hjá skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda a.m.k. 15 dögum áður en vara sem fellur undir viðauka I er markaðssett hér á landi.
     Stýrinefnd getur falið öðrum aðila að annast hlutverk stýrinefndar skv. a–d-lið 4. mgr. 19. gr. með samningi. Skulu ákvæði laganna um heimildir og skyldur stýrinefndarinnar einnig gilda um samningsaðilann, svo sem um þagnarskyldu, sbr. 3. mgr. 21. gr.
     Umhverfisráðherra skal að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar setja reglugerð um skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda. Í henni skal fjallað um skyldu framleiðanda og innflytjanda raf- og rafeindatækja til að skrá sig og skila upplýsingum um innflutning eða framleiðslu á raf- og rafeindatækjum til stýrinefndar og á hvaða hátt það skuli gert. Umhverfisstofnun skal leita umsagnar stýrinefndar og skilakerfa, svo og annarra hagsmunaaðila, við gerð tillagna að reglugerð.
     
     h. (21. gr.)
Eftirlit með framleiðendum og innflytjendum.
     Telji stýrinefnd að framleiðandi eða innflytjandi hafi ekki skráð sig í skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda og að hann framleiði eða flytji inn raf- eða rafeindatæki sem falla undir viðauka I skal stýrinefnd tilkynna það til Umhverfisstofnunar. Stofnunin skal að fenginni tilkynningu stýrinefndar gefa hugsanlegum framleiðanda og innflytjanda kost á að tjá sig um hvort hann framleiði eða flytji inn raf- eða rafeindatæki sem falla undir viðauka I. Umhverfisstofnun sker úr um hvaða raf- og rafeindatæki falla undir lög þessi. Umhverfisstofnun skal taka ákvörðun um hvort leggja skuli fyrir viðkomandi framleiðanda eða innflytjanda að skrá sig í samræmi við lög þessi. Ef aðili verður ekki við tilmælum Umhverfisstofnunar um skráningu er stofnuninni heimilt að beita þvingunarúrræðum samkvæmt lögum þessum.
     Stýrinefnd er heimilt að óska eftir upplýsingum frá toll- og skattyfirvöldum um heildarmagn, magn í einstökum flokkum, sbr. viðauka I, og magn frá einstökum framleiðendum og innflytjendum vegna framleiðslu og innflutnings á raf- og rafeindatækjum sem falla undir lögin. Ákvæði 188. gr. tollalaga, nr. 88/2005, og 117. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum, skulu ekki vera því til fyrirstöðu að starfsmenn toll- og skattyfirvalda veiti stýrinefnd upplýsingar samkvæmt þessari grein.
     Stýrinefnd er bundin þagnarskyldu um atriði er varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum og eðli máls.
     
     i. (22. gr.)
Reglugerðir um raf- og rafeindatæki.
     Ráðherra er heimilt, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar sem leita skal umsagnar um tillögurnar hjá stýrinefnd, skilakerfum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, að setja reglugerð um eftirtalin atriði:
 1. fjölda gámastæða sem til staðar skulu vera fyrir skilakerfi á söfnunarstöðvum sveitarfélaga, sbr. 14. gr.,
 2. bann við sölu á raf- og rafeindatækjum sem ekki er unnt eða erfitt er að endurnota eða endurnýta,
 3. takmörkun eða bann á sölu á raf- og rafeindatækjum til annarra landa á Evrópska efnahagssvæðinu og utan þess, svo og reglur um söluna,
 4. lágmarkskröfur um meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs,
 5. nánari ákvæði um skyldu framleiðenda, innflytjenda, sveitarfélaga og seljenda til að upplýsa kaupendur raf- og rafeindatækja, sbr. ákvæði 16., 17. og 18. gr.,
 6. skyldu framleiðanda og innflytjanda til að merkja raf- og rafeindatæki sem falla undir viðauka I,
 7. skyldur innflytjanda sem selur raf- og rafeindatæki í atvinnuskyni í póstverslun, netverslun eða á sambærilegan hátt beint til heimila hér á landi,
 8. þau markmið sem framleiðanda og innflytjanda ber að ná árlega um söfnun, endurnýtingu og endurnotkun og hlutverk Umhverfisstofnunar til að hafa eftirlit með því að þau markmið náist,
 9. ítarlegri skrá yfir þau raf- og rafeindatæki sem falla undir yfirflokka í viðauka I,
 10. nánari útfærslu á hvenær og hvernig skilakerfi sækja raf- og rafeindatækjaúrgang frá söfnunarstöðvum sveitarfélaga,
 11. nánari útfærslu á skyldu stýrinefndar til að safna upplýsingum frá skilakerfum um magn raf- og rafeindatækjaúrgangs og ráðstöfun hans, vinnslu þeirra upplýsinga og skil á þeim til Umhverfisstofnunar.


3. gr.

     Við 23. gr. laganna, er verður 32. gr., bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     Rísi ágreiningur milli stýrinefndar, skilakerfa eða sveitarfélaga vegna söfnunarstöðva sveitarfélaga um framkvæmd laga þessara skal vísa málinu til úrskurðar ráðherra.

4. gr.

     Við lögin bætist viðauki sem orðast svo ásamt fyrirsögn:
VIÐAUKI I
Flokkar raf- og rafeindatækja.
     Raf- og rafeindatæki sem hönnuð eru til notkunar við rafspennu sem fer ekki yfir 1.000 volt þegar um er að ræða riðstraum og ekki yfir 1.500 volt þegar um er að ræða jafnstraum:
 1. Stór heimilistæki.
 2. Lítil heimilistæki.
 3. Upplýsingatækni- og fjarskiptabúnaður.
 4. Neytendabúnaður.
 5. Ljósabúnaður.
 6. Raf- og rafeindatæki (að frátöldum stórum, föstum tækjum til iðnaðar).
 7. Leikföng og tómstunda-, íþrótta- og útivistarbúnaður.
 8. Lækningatæki (að frátöldum ígræðsluvörum og vörum sem bera smit).
 9. Vöktunar- og eftirlitstæki.
 10. Sjálfsalar.


5. gr.

Innleiðing á tilskipunum.
     Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/96/EB frá 27. janúar 2002 um raf- og rafeindabúnaðarúrgang og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/108/EB frá 8. desember 2003 um breytingu á tilskipun 2002/96/EB um raf- og rafeindabúnaðarúrgang, sem vísað er til í 1. undirmgr. í lið 32fa í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 82/2004 og með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 134/2004.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja skulu skrá sig hjá skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda fyrir 1. október 2008 og eiga aðild að skilakerfi frá sama tíma. Ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á raf- og rafeindatækjum og úrvinnslu þess úrgangs sem af þeim hlýst samkvæmt lögum þessum tekur gildi 1. janúar 2009.

7. gr.

Breyting á lögum um úrvinnslugjald.
     Við 15. gr. laga nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, bætist ný málsgrein er verður 5. mgr., svohljóðandi:
     Úrvinnslusjóði er heimilt að gera samninga um að taka að sér verkefni sem falla undir lög um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003. Slíkir samningar skulu samþykktir af ráðherra.

Samþykkt á Alþingi 30. maí 2008.