Ferill 953. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1880  —  953. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022.

Frá 3. minni hluta fjárlaganefndar.


Inngangur.
    Lög um opinber fjármál, nr. 123/2015, tóku gildi 1. janúar 2016. Lögunum er ætlað að bæta lagaumhverfi opinberra fjármála þar sem dreginn er lærdómur af reynslu undanfarinna áratuga og reynslu annarra ríkja. Lagt er upp úr mikilvægi þess að hlutlægt mat sjálfstæðra sérfræðinga, fjármálaráðs, liggi fyrir á framkvæmd fjármálastefnunnar, kveðið er á um það í 13 gr. laganna. Lögin mynda heildstæða umgjörð um opinber fjármál. Alþingi og Stjórnarráðið hafa leitast við að tileinka sér þau nýju vinnubrögð sem birtast í lögunum. Það má því segja að ákveðinn reynslutími hafi verið á framkvæmd laganna fram að þessu. Á þeim skamma tíma sem lögin hafa verið sú reglufesta sem fylgja ber þegar kemur að opinberum fjármálum má segja að nú fyrst reyni á lögin hvað varðar endurskoðun stefnumótunar, þegar lengsta hagvaxtarskeiði í sögu þjóðarinnar er lokið og við tekur niðursveifla sem óvíst er hversu djúp verður eða langvinn.
    Það verður að teljast óheppilegt að við þessar aðstæður skuli fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar vera að grípa til þess að endurskoða nýsamþykkta fjármálastefnu. Óneitanlega veldur það áhyggjum af því að í framtíðinni verði það regla fremur en undantekning að við aðstæðum sem þessum verði brugðist með því að endurskoða stefnuna. Á þetta bendir Alþýðusamband Íslands í umsögn sinni en það telur að of fljótt hafi verið gripið til þess að endurskoða stefnuna. Það geti skapað óheppilegt fordæmi um viðbrögð í framtíðinni.

Skilyrði fyrir breyttri fjármálastefnu.
    Samkvæmt 10. gr laganna um opinber fjármál þurfa ríkar ástæður að vera fyrir hendi svo heimilt sé að endurskoða gildandi fjármálastefnu. Lögin nefna í því sambandi óviðráðanlegar aðstæður, efnahagsáfall og þjóðarvá sem fullgilt tilefni til endurskoðunar. Rétt er að benda á að í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um opinber fjármál segir m.a. um 10. gr. að fjármálastefna verði „á hinn bóginn ekki endurskoðuð af þeirri ástæðu að markmið hennar náist ekki vegna almennra veikleika í fjármálastjórn hins opinbera við framkvæmd gildandi stefnu“. 3. minni hluti telur nauðsynlegt að skilgreina vel hvað teljist áföll af þessu tagi. Til greina kemur að skilgreina slíkar aðstæður með tilgreindum stærðum settum fram sem hlutfall af landsframleiðslu og öðrum mikilvægum þjóðhagsstærðum til að þau teljist raska gildandi fjármálastefnu. Þessi viðmið hafa ekki verið skilgreind og hljóta því alltaf að verða matskennd. Með því dregur úr getu Alþingis til að sinna lögbundnu eftirlitshlutverki sínu við framkvæmd fjármálastefnu og fjármálaáætlunar.
    Nauðsynlegt er að stjórnvöld geri grein fyrir því hvaða hlutföll og stærðir geti haft þau áhrif að fjármálastefnunni sé breytt. Greiningar þurfa að liggja fyrir um hversu stórt heildaráfallið þurfi að vera til að það kalli á endurskoðun fjármálastefnu. 3. minni hluti telur þetta vera of matskennt eins og það birtist nú. Fjármála- og efnahagsráðherra sagði við 1. umræðu málsins að það væri skynsamlegt að endurskoða stefnuna. Það eitt og sér er ekki nægilegt og telst andstætt markmiðum laga um opinber fjármál. Í þeim kemur fram að tilgangurinn sé að setja almenn markmið um þróun opinberra fjármála sem breið sátt ríki um. Því skuli markmið fjármálastefnu einungis endurskoðuð ef aðstæður er óviðráðanlegar, svo sem vegna þjóðarvár eða alvarlegs efnahagsáfalls. Þannig er stuðlað að efnahagslegu jafnvægi til lengri tíma og skapaðar forsendur fyrir nýtingu mannafla, fjármagns og auðlinda. Því skjóta skökku við þau orð fjármála- og efnahagsráðherra að endurskoða þurfi stefnuna vegna almennra skynsemisjónarmiða. Faglegt greining ráðuneytisins verður að liggja fyrir á því hvenær sé þörf á endurskoðun stefnunnar og niðurstaðan eða leyfð frávik þurfa að vera innan þeirra marka sem Alþingi hefur ákveðið, hvar vikmörkin liggi, við hvaða stærðir sé miðað, hversu stór áföllin þurfi að vera til þess að ráðast þurfi í endurskoðun. Nauðsynlegt er að fyrir liggi greiningar og sviðsmyndir sem hjálpi Alþingi að meta hvenær efnahagsáföll sem hlutfall af efnahagstærðum eru orðin það mikil, hvert fyrir sig og samanlagt, að ástæða sé til að leggja fram nýja fjármálastefnu. Eðlilegt hefði verið að hafa sérstakan kafla í þingsályktunartillögunni þar sem farið væri yfir þessa þætti. Síðan er það fjármálaráð sem veitir lögum samkvæmt Alþingi umsögn um það hvort tilefnið til endurskoðunar á gildandi stefnu hafi verið réttmætt, sbr. 10. gr. laganna. Áhrifin á almenning, fjölskyldur og fyrirtæki á að birtast í sviðsmyndum. Það væri vandaðri og eðlilegri framsetning og myndi styrkja umræðu um málið verulega.

Stuttur líftími gildandi fjármálastefnu.
    Ríkisstjórnin hefur á sínum stutta líftíma sett sér fjármálastefnu og fjármálaáætlun sem ekki reyndust nægilega varfærnislegar og er það ekki í anda laganna um opinber fjármál enda sátu stjórnvöld föst í heimatilbúinni spennitreyju, sem fjármálaráð hafði varað við, sem og 3. minni hluti. Hafa ber í huga að fjármálastefnan er rétt rúmlega árs gömul og það tók ríkisstjórnina ekki lengri tíma en svo að gera sjálfa sig afturreka með eigin stefnu. Ljóst má vera að málið hefði ekki átt að koma ríkisstjórninni á óvart þar sem umsagnaraðilar á borð við fjármálaráð, Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins að ónefndum 3. minni hluta vöruðu við því að góðærið gæti ekki haldið endalaust áfram. Því var ástæða til að sýna mun meiri varkárni í gerð fjármálastefnu en gert var af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin kaus að horfa fram hjá því sem hún hafði verið vöruð við af þeim sem best til þekkja. Ljóst má vera að ríkisstjórnin bjó ekki nægilega vel í haginn heldur kaus að trúa því að lengsta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar mundi aldrei taka enda. Viðskiptaráð Íslands kveður fast að orði í umsögn sinni um breytingar á gildandi fjármálastefnu. Ráðið telur hana vera afleiðingu óhóflegrar bjartsýni. Undir þetta tekur Alþýðusamband Íslands og telur að það sé slæmt fyrir trúverðugleika fjármálastefnunnar til framtíðar hvernig stjórnvöld héldu á málum við gerð gildandi stefnu. Það er óheppilegt að í fyrsta skipti sem reynir á þetta fyrirkomulag sem er búið að koma á í opinberum fjármálum til að gefa aukinn fyrirsjáanleika og festu, skuli strax þurfa að fara í að endurskoða stefnuna.
    Þriðji minni hluti er ekki bjartsýnn á að ríkisstjórninni takist betur upp að þessu sinni við breytingu á gildandi fjármálastefnu. Enda bendir margt til þess að að enn sé ríkisstjórnin ekki meðvituð um stöðuna, a.m.k. ekki hvað alvarlega stöðu ferðaþjónustunnar varðar. Þannig gerir spá Hagstofu Íslands ráð fyrir 11% samdrætti í ferðaþjónustu en forsvarsmenn ferðaþjónustunnar gera hins vegar ráð fyrir að samdrátturinn milli ára geti orðið allt að 20%. Fram undan sé mun skarpari niðusveifla í ferðaþjónustunni en áður var talið. Í maímánuði fækkaði komum erlendra ferðamanna til landsins um 24% miðað við sama mánuð í fyrra. Er það mesti samdráttur frá því talningar hófust.
    Í áliti meiri hluta fjárlaganefndar um gildandi fjármálastefnu, frá því í mars 2018, er bent á að yfirgnæfandi fjöldi flugsæta sem er í boði til Íslands sé hjá tveimur flugfélögum og það auki áhættu í ferðaþjónustunni. Allir vita síðan hvernig fór fyrir öðru þessara tveggja flugfélaga, flugfélaginu WOW air, og er gjaldþrot félagsins í raun önnur af tveimur meginástæðum þess að hér er lögð fram endurskoðuð fjármálastefna. Segja má því að ríkisstjórnin hafi í raun verið meðvituð um áhættuna en kosið að horfa fram hjá henni og þar með brotið eitt af grunngildum stefnunnar, sem er varfærni. Meiri hlutinn hafði áhyggjur af aukinni áhættu í ferðaþjónustunni við gerð fjármálastefnu en gerði ekkert með þær áhyggjur. 3. minni hluti benti á það í áliti sínu um gildandi fjármálastefnu að í ljósi þess að um stóran áhættuþátt væri að ræða ætti meiri hluti fjárlaganefndar að leggja mat á hann í fráviksspá. Það var ekki gert.
    Í ljósi þeirrar stöðu sem er komin upp er mikilvægt að ráðherra leggi áherslu á frekari fráviksspár við framlagningu fjármálastefnu og fjármálaáætlunar, sem og vegna annarra mikilvægra þjóðhagsmála. Auk þess þarf að rökstyðja á grundvelli þeirra þær ákvarðanir sem stjórnvöld hafa tekið ákvörðun um að fylgja.

Umsögn fjármálaráðs – áfellisdómur yfir fjármálastjórn ríkisstjórnarinnar.
    Í umsögn fjármálaráðs um tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun nr. 10/148, um fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022, segir að þær breytingar á hagþróun eða sú niðursveifla sem nú er hafin í efnahagslífinu og birtist í nýjustu spá Hagstofu Íslands sé ekki fullgilt tilefni til endurskoðunar á gildandi fjármálastefnu. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur í málflutningi sínum og rökstuðningi fyrir endurskoðun fjármálastefnunnar einkum lagt áherslu á tvennt sem réttlæti nauðsyn endurskoðunar. Það er annars vegar samdráttur í ferðaþjónustu vegna gjaldþrots flugfélagsins WOW air og hins vegar loðnubrestur. Fjármálaráð telur að það sem bætist ofan á og knýi um leið á um endurskoðunina sé veikleikar í fjármálastjórn og merki um að samdrátturinn gæti orðið enn skarpari og lengri en nýjasta hagspáin gerir ráð fyrir. Ráðið telur grundvallarveikleika í fjármálastjórn ríkisstjórnarinnar. Það sé sá vandi sem birtist í endurskoðun fjármálastefnunnar en ekki veikum efnahagsforsendum. Hagvaxtarþróun er lakari en ríkisstjórnin gerir ráð fyrir og þess vegna þurfi að endurskoða stefnuna. Ríkisstjórnin hefur ekki gert ráð fyrir þessu í útgjalda- og tekjuáformum sínum. Fjármálaráð bendir á að verði það ekki gert gæti farið svo að endurskoða þurfi fjármálastefnuna aftur innan skamms tíma. Ljóst má vera að stjórnvöld hafa hunsað ábendingar fjármálaráðs um að gefnar forsendur í fjármálastefnu væru of jákvæðar. Auk þess er rétt að benda á það sem kemur fram í áliti fjármálaráðs að stjórnvöld hafa ekki alltaf gefið grunngildum tilhlýðilegt vægi í verklagi og umfjöllun.
    Fjármálaráð hefur bent á að fjármálastefnan kallar á að pólitískar áherslur birtist þar með markvissum hætti þegar þær fela í sér þjóðhagsleg markmið og hafa áhrif á efnahagsframvindunina. Þetta á sérstaklega við nú þegar fjallað er um aðhaldsaðgerðir og væntanlegar fjárhæðir þeirra. Lítið er þó um stefnumörkun í sambandi við hverju verði breytt og hvaða stefnu stjórnvöld ætli að fylgja. Hér er því aftur lagt af stað með veikleika í stefnumótun þó að ætlunin hafi verið að styrkja stefnumótunina. Við endurskoðun á fjármálastefnunni á að fjalla með skýrum hætti um fyrirheit stjórnvalda, greiningu nýrrar stefnumörkunnar og væntanlega ráðstöfun tekna og útgjalda. Fjármálastefnan á að standa ein og óstudd og vera nægilega ítarleg. Ljóst er að fjármálastefnan stendur engan veginn undir þeim væntingum sem til hennar verður að gera um að hún sé nægilega skýr og ítarleg. Þó að stjórnvöld auki gagnsæi stefnumörkunar og varpi ljósi á vandamálin sem fram undan eru og reyni þannig að bæta verklag og ákvarðanatöku, þá birtast hér engu síður veikleikar sem nauðsynlegt hefði verið að taka á strax.
    Alþýðusamband Íslands bendir í umsögn sinni á að viðbrögð ríkisstjórnarinnar við ábendingum fjármálaráðs hafi verið takmörkuð, telft sé á tæpasta vað. Þó svo að í þessari tillögu sé gerð ákveðin aðlögun þá sé hagspáin sem stuðst er við full bjartsýn. Það sé bjartsýni að gera ráð fyrir því að niðursveiflan verði skammvinn og hagkerfið komið á fullt á næsta ári.
    Rétt er að vekja athygli á því að ríkisstjórnin ákvað einhliða og án alls samráðs að skerða framlög til Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Kom sú ákvörðun sveitarfélögunum í opna skjöldu enda gert ráð fyrir samstarfi ríkis og sveitarfélaga um þessi málefni í lögunum um opinber fjármál. Ríkisstjórnin hefur nú dregið þessi áform til baka í kjölfar harðra mótmæla sveitarstjórnarmanna. 3. minni hluti vonar að framvegis verði samskipti ríkis og sveitarfélaga í formi samráðs, eins og áskilið er í lögum um opinber fjármál.

Misvísandi hagspár.
    Stóra spurningin við endurskoðun fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar er trúverðugleiki þeirrar hagspár sem byggt er á. Ríkisstjórnin lagði til grundvallar við gerð gildandi fjármálastefnu þjóðhagsspá Hagstofunnar, eins og henni ber að gera. Hins vegar telur 3. minni hluti að ríkisstjórnin hafi ekki gætt nægilegrar varúðar við beitingu þeirrar spár, sérstaklega þegar litið er til þess hversu lengi hagvaxtarskeiðið hefur varað sem að mati sérfræðinga er lengsta hagvaxatarskeið í efnahagssögu landsins.
    Spá Hagstofunnar er töluvert bjartsýnni en t.d. spár greiningadeilda Íslandsbanka og Arion banka. Setja má spurningarmerki við það hversu lítil áhrif fækkun ferðamanna hefur í spá Hagstofunnar. Einkaneysluspá Hagstofunnar er auk þess bjartsýn í ljósi aukins atvinnuleysis og samdráttar í útflutningsgreinum. Hagstofan gerir ráð fyrir 2,4% vexti einkaneyslu í ár sem verður að teljast nokkuð bratt miðað við allar vísbendingar. Haustið gæti orðið þungbært. Veturinn gæti orðið nokkuð þungur. Ekki er að sjá mjúka snertilendingu í haust og vetur, þetta kemur m.a. fram í hagspá greiningardeildar Arion banka.
    Skýr merki kólnunar á fasteignamarkaði eru að koma fram. 1. apríl sl. seldust 84% íbúða undir ásettu verði og í byggingu eru um 4.000 íbúðir. Ekki verður séð að spá Hagstofunnar horfi nægilega til afleiddra áhrifa samdráttar í ferðaþjónustu, t.d. áhrifa á fjárfestingar. Mikilvægt er að fylgjast vel með fasteignamarkaðinum á komandi mánuðum. Viðbúið er að lækkun verði á verði fasteigna næstu 12–18 mánuði. Áhrifin hvað aðra fjárfestingu varðar munu birtast á næsta ári og telur greiningadeild Arion banka að á næsta ári verði áframhaldandi samdráttur. Fjárfesting komi því til með að hafa meiri áhrif inn í framtíðina. Bankinn spáir meiri stíganda í atvinnuleysi og verðbólgu.
    Greiningardeild Íslandsbanka telur einnig að Hagstofan sé of bjartsýn í sinni hagspá. Nefnir bankinn sérstaklega hin afleiddu áhrif og telur að það eigi enn eftir að harðna á dalnum. Ef allar vísbendingar og spár eru lesnar saman óttast greiningardeildin það sama og fjármálaráð, að það sé enn þá verið að byggja á of bjartsýnum spám. Niðurstaðan er sú að allir stóru viðskiptabankarnir þrír mála dekkri mynd af stöðu mála en Hagstofan spáir og er lögð til grundvallar fjármálastefnunni.

Óvissa með meðferð óvissusvigrúms – stjórnvöldum gefinn laus taumurinn.
    Viðskiptaráð segir í umsögn sinni að fjármálastefna sem byggð er á bjartsýnustu spám gangi gegn grunngildum um varfærni í opinberum fjármálum. Meiri hlutinn hefur brugðist við þessu að einhverju leyti með því að hækka óvissusvigrúmið úr 0,4% af vergri landsframleiðslu í 0,8%. Skynsamlegt er að auka svigrúm fyrir óvissu í fjármálastefnunni, þar sem óvissa hefur aukist frá því að þjóðhagsspá Hagstofunnar var gefin út. Ef efnahagsástandið versnar er gengið á óvissusvigrúmið. Enda verði ekki gengið á það af öðrum ástæðum en lakari framvindu efnahagsmála. Að sama skapi hefur verið felldur inn í stefnuna ásetningur um að ef efnahagsframvindan verði hagfelldari en nú er spáð verði afgangur af afkomu aukinn í samræmi við auknar tekjur af meiri hagvexti. 3. minni hluta virðist ljóst að hér sé miðað við spár Hagstofunnar en jafnframt þurfi að skýra betur hvernig slíkur afgangur verði reiknaður út og hvernig eigi að meta að hvaða marki tekjuauki stafi af hagvexti og að hvaða marki af öðrum breytingum. 3. minni hluti telur að með framsetningunni hafi stjórnvöld meira sjálfdæmi eða fullkomið svigrúm til að meta á eigin forsendum hver afgangurinn sé en þar sem Alþingi er gert ábyrgt fyrir stefnumótuninni hefði meiri hlutinn átt að setja reglur um hvernig með skyldi farið þar sem að öðrum kosti er illmögulegt fyrir Alþingi að sinna eftirlitshlutverki sínu.
    Með fyrir fram ákvörðuðu óvissusvigrúmi, sem meiri hlutinn leggur til að verði hækkað eins og fyrr greinir, fellst ásetningur og skuldbinding stjórnvalda um að markmið í árlegum fjármálaáætlunum verði að skila betri afkomu en segir í fjármálastefnunni sem því nemur. Reynast forsendur hagspár lakari en gert er ráð fyrir í spá Hagstofunnar geta stjórnvöld nýtt þetta svigrúm til að laga afkomu hins opinbera í sama mæli. Þetta skilgreinda óvissusvigrúm er eingöngu ætlað í þessu skyni. Nánari reglur er ekki að finna í breytingartillögu ríkisstjórnarinnar við þingsályktunina um fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022. Því telur 3. minni hluti að meiri hlutinn ætti að skýra þetta ákvæði betur og setja reglur um beitingu þess í nefndaráliti sínu þannig að ríkisstjórnin geti ekki túlkað breytingar á einstaka hagstærðum eða efnahagsforsendum eftir eigin höfði. Ekki verður séð að Alþingi geti sinnt eftirlitshlutverki sínu ef sá sem eftirlitið beinist að, sem í þessu tilviki er ríkisstjórnin, getur upp á sitt einsdæmi ákveðið eftirlitsreglurnar. 3. minni hluti hvetur meiri hlutann til þess að ganga frá þessu í samræmi við stefnumörkun Alþingis þannig að faglegar forsendur liggi fyrir. 3 minni hluti áréttar að stefnumörkun er samþykkt á Alþingi og á ábyrgð þingsins og því gengur ekki upp að stefnunni sé fylgt án eftirlitsreglna og skilyrða sem þingið setur.

Góðæri ekki nýtt til að búa í haginn.
    Útgjöld ríkisins hafa að undanförnu aukist ár frá ári samfara miklum uppgangi og vaxandi skatttekjum. Stjórnvöld einfaldlega treystu því að tekjur mundu vaxa samfellt á líftíma gildandi fjármálastefnu. Það var of mikil bjartsýni eins og nú hefur komið á daginn. Þetta kemur m.a. fram í umsögn Samtaka atvinnulífsins. Þrátt fyrir uppgang og auknar skatttekjur var ríkissjóður rekinn með lágmarksafgangi. Það getur varla talist skynsamleg fjármálastjórnun. Nýta átti góðærið til að búa í haginn fyrir niðursveifluna. Nú lítur út fyrir að tekjur ríkissjóðs dragist umtalsvert saman, um allt að 35–40 milljarða kr. á ári eða um 256 milljarða kr. á tímabilinu án mótvægisráðstafana. Ríkissjóður verði því rekinn með halla næstu árin. Það eru mikil vonbrigði að um leið og hagvaxtarforsendur bresta þurfi skyndilega að leggja fram nýja fjármálastefnu. Þó er jákvætt að stjórnvöld hafa nýtt uppsveifluna til þess að greiða niður skuldir, sem bæði styrkir stöðu ríkissjóðs og dregur úr vaxtakostnaði. Taka ber undir með Samtökum atvinnulífsins um að afkomuviðmið ríkissjóðs eigi að taka mið af hagsveiflunni. Gallinn við afkomuregluna er sá að hún tekur ekki mið af hagsveiflunni hverju sinni. Þannig að þegar mikill uppsveifla er í efnahagslífinu og skatttekjur vaxa er mjög einfalt að uppfylla afkomuviðmiðin jafnvel samfara miklum útgjaldavexti eins og við höfum séð síðustu ár. Á móti kemur að það er þeim mun erfiðara að uppfylla regluna þegar hagvaxtarforsendur breytast og slaki myndast í efnahagslífinu, líkt og nú er að gerast. Ef afkomuviðmiðin hefðu tekið mið af hagsveiflunni hefði verið meira svigrúm hjá stjórnvöldum til að skila minni afkomu í dag vegna breyttra efnahagsforsendna.
    Ríkissjóður hefur hlutverki að gegna þegar dregur saman í efnahagslífinu. Að auka við opinbera fjárfestingu er jákvætt í samdrætti. Að sama skapi á ríkissjóður að halda að sér höndum þegar vel gengur í efnahagslífinu. Á toppi hagsveiflunnar var hins vegar ekkert lát á útgjöldum hins opinbera. Fyrir rétt rúmu ári þegar við ræddum fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára gætti mikillar bjartsýni á ríkisstjórnarheimilinu. Lögð var áhersla á áframhaldandi uppsveiflu, áframhaldandi útgjaldastefnu og að ríkissjóður yrði áfram rekinn með afgangi. Rúmu ári síðar blasir raunveruleikinn við ríkisstjórninni. Niðurstaðan er sú að tekjur dragast verulega saman og ríkissjóður verður rekinn með halla næstu fjögur árin. Það sem vekur mesta athygli við þessa endurskoðuðu fjármálastefnu er að strax á næsta ári á allt að vera komið í lag að mati ríkisstjórnarinnar sem byggir á forsendum þjóðhagsspár Hagstofunnar. Þessarar sömu ríkisstjórnar og hlustaði ekki á varnaðarorð sérfræðinga fyrir ári.
    Á þenslutímum á að koma í veg fyrir að útgjöld aukist í takt við vaxandi skatttekjur vegna meiri efnahagsumsvifa. Þannig að þegar meiri afgangur myndast hjá hinu opinbera sé hann tekinn til hliðar úr hagkerfinu og með því dregið úr heildareftirspurn. Á samdráttartímum, eins og núna, er svo hægt að snúa dæminu við. Skatttekjur dragast þá saman en hægt er að halda útgjöldunum föstum og með þeim hætti skapast halli sem vinnur á móti samdrætti í eftirspurninni. Miðflokkurinn hefur lagt áherslu á nauðsyn þess að lækka álögur á fólk og fyrirtæki, enda telst Ísland vera háskattaríki.

Að snúa vörn í sókn.
    Við blasir að stjórnvöld þurfa að huga að því hvernig unnt sé að nýta betur það fjármagn sem úr er að spila. Breyttar efnahagshorfur kalla fram auknar áherslur á forgangsröðun, skilvirkni og hagræðingu í opinberum rekstri. Mikilvægt er að fyrirhugaðar breytingar verði ekki til þess að draga úr getu ríkissjóðs til að standa undir nauðsynlegum útgjöldum til velferðarmála og uppbyggingar innviða. Stjórnvöld verða að standa við gefin loforð í tengslum við kjarasamninga. Ekki má hrófla við þeim eða hinum félagslega stöðugleika þegar farið verður í aðlögunaraðgerðir. Alþýðusamband Íslands bendir á að fari kaupmáttarþróun hjá ríkinu umfram 0,5% á ári næstu þrjú árin, sem er mun minna en að jafnaði, muni stofnanir þurfa að mæta því með aðhaldi. Þetta kemur verst niður á velferðar- og heilbrigðisþjónustunni þar sem launakostnaður er hár.
    Þriðji minni hluti bendir á að fara verður vandlega yfir tekjuöflun ríkisins nú þegar aðhald er fram undan í ríkisfjármálum. Því ber að fagna að ríkisstjórnin hafi ákveðið að fresta lækkun bankaskattsins. Stjórnvöld gegna mikilvægu hlutverki við að milda áhrif niðursveiflunnar. Þess vegna mega stjórnvöld ekki víkja frá áformum sínum um skattalækkanir. Þá eru áform um auknar opinberar framkvæmdir sem er jákvætt á þessum tímapunkti. Ríkisstjórnin hefur þanið út ríkisbáknið frá því að hún tók við völdum. Miðflokkurinn hefur gagnrýnt þá stefnu. Nú er tækifæri til þess að hverfa frá henni. Samtök atvinnulífsins benda á að nú sé gott svigrúm til þess að draga úr útgjöldum án þess að til niðurskurðar komi. Það þarf að horfa til nágrannaríkja í auknum mæli, straumlínulaga stjórnsýsluna og nýta önnur rekstrarform til þess að auka skilvirkni, t.d. á sviði heilbrigðis- og menntamála. Jafnframt benda samtökin á mikilvægi þess að draga lærdóm af síðustu niðursveiflu en á árunum 2009–2011 voru skattar hækkaðir og opinberum framkvæmdum frestað. Nú tíu árum síðar eru skattar enn háir og uppsöfnuð fjárfestingaþörf hins opinbera hleypur á hundruðum milljarða króna.

Lokaorð.
    Ríkisstjórnin leggur af stað í þá vegferð að endurskoða fjármálastefnu sína sem einungis hefur verið í gildi í rétt rúmt ár. Tilgangurinn virðist hafa verið að viðhalda útgjaldastefnu þrátt fyrir fyrirsjáanlegan samdrátt á tekjum ríkisins. Það kemur fram í umsögn fjármálaráðs að erfitt sé að sjá að sá samdráttur sem nú er spáð svari til þess alvarleika sem lagaákvæðið um umfang efnahagsáfalla kveður á um. Ráðið ályktar að hér leggist allt á eitt, skellur í efnahagsstarfseminni og veikleikar í fjármálastjórn ríkisstjórnarinnar. Fjármálaráð hefur staðfest að þegar ríkisstjórnin tók ákvörðun um að endurskoða fjármálastefnuna var ekki tilefni til þess. Hins vegar kom síðar í ljós að líkur benda til þess að samdrátturinn verði enn meiri en þá lá fyrir og því geti skapast þær aðstæður að réttlætanlegt sé að endurskoða stefnuna.
    Fram hefur komið í umfjöllun um fyrri fjármálastefnur að stjórnvöld hafi ekki gefið grunngildum nægilegt vægi við verklag sitt og umfjöllun um þau. Í því sambandi má benda á að í nýlegri heimsókn framkvæmdastjóra NATO til landsins kom skýrt fram sú skoðun hans, fyrir hönd bandalagsins, um mikilvægi þess að halda sig við grunngildi, sérstaklega þegar á bjátaði. Hér veitir eitt stærsta og flóknasta bandalag heims mikilvæga leiðsögn í því hvernig slíkum skipulagsheildum er stýrt faglega og hvernig þau ná árangri. Vonandi munu stjórnvöld því framvegis skipa grunngildum laganna um opinber fjármál þann sess sem þeim ber til þess að hægt sé að ná þeim árangri sem stefnt er að hverju sinni.

Alþingi, 18. júní 2019.

Birgir Þórarinsson.