Ferill 380. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 646  —  380. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Ásmundi Friðrikssyni um frumkvöðla og hugvitsfólk.


     1.      Hefur ráðherra kynnt sér niðurstöður úr viðamikilli könnun sem gerð var af Umbótastofnuninni í Stokkhólmi um að einungis 20% hugmynda frumkvöðla og hugvitsfólks komi frá háskólaumhverfinu, 47% frá einstaklingum á vegum fyrirtækja og 33% frá óháðum einstaklingum? Telur ráðherra að svipuð staða sé hér á landi?
    Ráðuneytið hefur ekki fengið umrædda könnun til skoðunar. Ráðherra er ekki kunnugt um að slík könnun hafi verið gerð hér á landi.

     2.      Hvernig skiptist opinber stuðningur við þessa hópa hér? Hvernig er t.d. háttað styrkveitingu ríkisins vegna nýsköpunar frjálsra félagasamtaka í ljósi þess að ráðuneytið hefur nú hafnað öllum fjárstuðningi við Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna (SFH) og Félag kvenna í nýsköpun (KVENN)?
    Opinberu stuðningsumhverfi nýsköpunar sem heyrir undir ráðuneyti ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, má í grunninn skipta í fernt, þ.e.:
       a.      Nýsköpunarmiðstöð Íslands (NMÍ) en fjölþætt starfsemi hennar miðar ekki síst að einstaklingum og smærri fyrirtækjum. Áætlað er að 55% þeirra sem koma í leiðsögn til NMÍ séu óháðir einstaklingar, frumkvöðlar og sprotafyrirtæki, 15% frumkvöðlar tengdir háskólaumhverfinu og 30% starfandi fyrirtæki
                 Um er að ræða leiðsögn um vernd hugmynda, þróun nýsköpunar og stofnun og rekstur fyrirtækja.
       b.      Samkeppnis- og styrktarsjóðir, af þeim er Tækniþróunarsjóður stærstur og veitti hann samtals 442 styrki á árabilinu 2014–2018. Þar af runnu 72,4% styrkjanna til verkefna á vegum fyrirtækja, 17% fóru til verkefna sem óstofnuð félög eða einstaklingar voru í forsvari fyrir, 5,4% til verkefna innan háskóla og 5,2% til verkefna á vegum rannsóknastofnana.
                 Yfirlit yfir styrki og sjóði á vegum ráðuneytisins má sjá á vefsíðunni www.stjornarradid.is/default.aspx?PageID=511b979b-3866-11e6-80c7-005056bc217f.
       c.      Endurgreiðslur kostnaðar vegna rannsókna og þróunar, en lögum samkvæmt ná skattendurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar eingöngu til fyrirtækja.
       d.      Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, en hlutverk sjóðsins er að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingum í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Þetta gerir sjóðurinn með því að fjárfesta í sprotafyrirtækjum sem eru stofnuð af frumkvöðlum. Nýverið voru kynnt áform um stofnun Kríu frumkvöðlasjóðs sem hafi þann tilgang að vera hvati vísifjárfestinga (e. Venture Capital). Eins og segir í fréttatilkynningu frá 28. nóvember sl, er Kría frumkvöðlasjóður hugsaður sem hvatasjóður sem fjárfestir í vísisjóðum (e. Venture Capital) og mun auka aðgengi að fjármagni og tryggja samfellu í fjármögnunarumhverfi frumkvöðla og nýsköpunar.
    Að auki veitir ráðuneytið tvisvar á ári styrki til verkefna og viðburða á málefnasviðum ráðherra en upplýsingar þar að lútandi má finna á vefsíðunni www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=12e58d6e-dde0-11e9-944d-005056bc4d74.
    Ráðuneytið hefur að jafnaði ekki veitt frjálsum félagasamtökum styrki vegna rekstrar. Undantekningar frá þessu eru þó t.d. styrkir til Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna á árabilinu 2011–2017.

     3.      Hver er afstaða ráðherra til „Svartrar skýrslu um nýsköpun“ sem SFH og KVENN gáfu út í apríl 2019?
    Stuðningsumhverfi nýsköpunar þarfnast stöðugrar endurskoðunar og ráðherra leggur áherslu á opið samtal við hagaðila nýsköpunar, hvort sem er meðal frumkvöðla og fyrirtækja eða aðila úr stuðningsumhverfinu. Málefnalegar ábendingar og upplýsingar frá þeim sem málið varðar eru að jafnaði vel þegnar og teknar til gaumgæfilegrar skoðunar innan ráðuneytisins. Hið sama á við um þá skýrslu sem hér um ræðir.
    
     4.      Hafa konur á meðal frumkvöðla og hugvitsfólks notið sérstaks stuðnings og hvernig hefur sá stuðningur skipst á milli hópa?
    Sem dæmi um stuðning sem sérstaklega hefur verið beint að konum má nefna brautargengisnámskeið NMÍ. Þau hafa verið starfrækt frá árinu 1996 og hafa rúmlega þúsund konur útskrifast af þeim. Kannanir sýna að yfir 50 þeirra eru með fyrirtæki í rekstri.
     Svanni – lánatryggingasjóður kvenna veitir lán til kvenna með góðar viðskiptahugmyndir en hann er í eigu félagsmálaráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Jafnframt má nefna að „atvinnumál kvenna“ eru styrkir ætlaðir konum sem eru að vinna að viðskiptahugmynd eða þróa verkefni. Styrkirnir eru á vegum velferðarráðherra (félags- og barnamálaráðherra) en verkefnið er vistað hjá Vinnumálastofnun.

     5.      Til hvaða félaga og félagasamtaka frumkvöðla og hugvitsfólks er og verður leitað til vegna þátttöku í
                  a.      stýrihópi um mótun nýsköpunarstefnu,
                  b.      Vísinda- og tækniráði,
                  c.      ráðgjafarnefnd Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands,
                  d.      stjórn eða fagráði Tækniþróunarsjóðs,
                  e.      fyrirhuguðu nýsköpunar- og frumkvöðlaráð,
                  f.      stofnsetningu fyrirhugaðs safns nýsköpunar og tækniþróunar,
                  g.      undirbúningi þeirra breytinga á Vísinda- og tækniráði, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og sjóðakerfi nýsköpunar sem boðaðar eru í nýsköpunarstefnu fyrir Ísland?
     a.      Stýrihópur um mótun nýsköpunarstefnu hefur lokið störfum en hann skipuðu fulltrúar allra þingflokka, samstarfsnefndar háskólastigsins, Vísinda- og tækniráðs, Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins. Með stýrihópnum starfaði sérstök þriggja manna verkefnisstjórn en í henni sátu fulltrúar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis auk formanns sem skipaður var af ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Á vegum verkefnastjórnar og stýrihóps var haft samráð við vel á annað hundrað frumkvöðla, fyrirtækja og annarra hagaðila nýsköpunar hér á landi. Þar á meðal voru haldnir þrír fundir með fulltrúum SFH og KVENN, þar sem samtökin komu sjónarmiðum sínum á framfæri. Auk þess var leitað var til erlendra sérfræðinga og rýnt í bæði innlend og erlend gögn um málefnið. Nýsköpunarstefna var auk þess grundvölluð á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, Parísarsamkomulaginu frá árinu 2015 um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og greiningu Vísinda- og tækniráðs á helstu áskorunum þjóðarinnar í vísindum og tækni.
     b.      Í lögum um Vísinda- og tækniráð, nr. 2/2003, er mælt fyrir um hvernig skipa skuli í ráðið:
                  –      Samstarfsnefnd háskólastigsins tilnefnir fjóra.
                  –      Alþýðusamband Íslands tilnefnir tvo.
                  –      Samtök atvinnulífsins tilnefna tvo.
                  –      Forsætisráðherra sem jafnframt er formaður ráðsins skipar tvo.
                  –      Ráðherra vísindamála tilnefnir tvo.
                  –      Ráðherra atvinnuvega-, atvinnuþróunar og nýsköpunar tilnefnir tvo.
                  –      Ráðherra heilbrigðismála tilnefnir einn.
                  –      Ráðherra umhverfismála tilnefnir einn.
             Fulltrúi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra er Ragnheiður H. Magnúsdóttir.
     c.      Í lögum um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007, er mælt fyrir um að við Nýsköpunarmiðstöð Ísland (NMÍ) skuli vera starfandi sérstök ráðgjafarnefnd. Undanfarin ár hefur engin slík ráðgjafarnefnd verið starfandi.
     d.      Í lögum um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007, er mælt fyrir um hvernig skipa skuli í sex manna stjórn Tækniþróunarsjóðs;
                  –      Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skipar einn.
                  –      Samtök atvinnulífsins tilnefna tvo.
                  –      Samtök iðnaðarins tilnefna einn.
                  –      Tækninefnd Vísinda- og tækniráðs tilnefnir einn.
                  –      Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tilnefnir einn.
        Fulltrúi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og stjórnarformaður sjóðsins er Tryggvi Þorgeirsson. Tækninefnd Vísinda- og tækniráðs skipar í fagráð.
     e.      Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra settu nýverið á fót svokallaða hugveitu ráðherra til að vera þeim og ráðuneytum þeirra til liðsinnis og ráðleggingar varðandi málefni nýsköpunar og frumkvöðla. Ráðið er skipað tíu sjálfstæðum reynslumiklum frumkvöðlum og fjárfestum, fimm konum og fimm körlum.
     f.      Stofnsetning safns nýsköpunar og tækniþróunar er ein af mörgum áherslum í nýsköpunarstefnu sem hefur ekki enn komið til skoðunar.
     g.      Málið er í vinnslu og niðurstaða liggur ekki fyrir.

     6.      Er fyrirhugað að gera þjónustusamninga við frjáls félagasamtök á sviði nýsköpunar um samfélagsverkefni verði eftir því leitað?
    Eins og áður hefur komið fram hefur ráðuneytið að jafnaði ekki veitt frjálsum félagasamtökum á sviði nýsköpunar styrki til rekstrar eða verið með fasta þjónustusamninga. Ef ráðuneytinu berast erindi þar að lútandi eru þau skoðuð og tekin ákvörðun í hverju tilviki fyrir sig.