Ferill 148. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 724  —  148. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023.

Frá minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar fagnar því að tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga til næstu 15 ára ásamt aðgerðaáætlun til fimm ára sé nú lögð fram í fyrsta skipti og telur hana innihalda þá meginþætti sem snúa að verkefnum sveitarfélaga til lengri tíma. Minni hlutinn er í flestum atriðum sammála þeirri tillögu til þingsályktunar sem hér er lögð fram. Þá telur minni hlutinn að ríkisvaldið eigi almennt að hvetja til sameiningar sveitarfélaga.
    Hins vegar leggst minni hlutinn alfarið gegn því að ríkisvaldið gangi fram um að þvinga fram sameiningar sveitarfélaga með lögum líkt og lagt er til með tillögunni, án tillits til aðstæðna á hverju svæði eða vilja íbúa í viðkomandi sveitarfélögum. Minni hlutinn hafnar því jafnframt alfarið að sameiningar sveitarfélaga séu þvingaðar fram með lögum án tillits til sjálfsákvörðunarréttar sveitarfélaga og án þess að íbúum þeirra sé veitt tækifæri til að hafa þar áhrif á niðurstöðuna.
    Minni hlutinn bendir á að fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að samráði við smærri sveitarfélög hefði verið ábótavant. Gagnrýndu fulltrúar smærri sveitarfélaga þar sérstaklega hvernig staðið var að því að mæla með samþykkt þingsályktunarinnar á XXXIV. landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Stærri sveitarfélögin hefðu því í raun samþykkt að hinum fámennari yrði gert að sameinast. Minni hlutinn telur það orka tvímælis að meiri hluti sveitarfélaga geti með samþykktum sínum ákveðið að leggja til að leggja niður önnur sveitarfélög í trássi við vilja margra þeirra
    Minni hlutinn bendir á að sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga er bundinn í stjórnarskrá, sbr. 78. gr. hennar þar sem segir að sveitarfélög skuli sjálf ráða sínum málum eftir því sem lög ákveða. Minni hlutinn telur hins vegar að ríkið geti komið að sameiningum sveitarfélaga með því að í samráði við þau séu settir fram hvatar til að liðka fyrir slíkum sameiningum. Þegar sameiningarkostir séu metnir þurfi einnig að líta til landfræðilegra aðstæðna. Mikilvægt sé að ganga ekki of hart að sveitarfélögum og ýta á sameiningar endi kalli þær bæði á vandaðan undirbúning með aðkomu íbúa á lýðræðislegum vettvangi, auk þess sem tryggja þurfi að gætt sé samhliða að því að til staðar sé bæði fjármagn við undirbúning og síðan uppbyggingu og viðhald innviða.
    Minni hlutinn bendir á að mörg minni sveitarfélög hafi lagst gegn hugmyndum um lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga á Íslandi eins og þær birtast í tillögu að þingsályktun um stefnumótandi áætlun í málefni sveitarfélaga og aðgerðaráætlun þar sem þær fari gegn þeim sterka þræði lýðræðis og sjálfsákvörðunarréttar sem í henni er.
    Að framansögðu virtu leggur minni hlutinn til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    1. liður í II. kafla falli brott.

Alþingi, 13. desember 2019.

Karl Gauti Hjaltason,
frsm.
Bergþór Ólason.