Ferill 511. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 838  —  511. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um vestnorræn umhverfisverðlaun hafsins.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að kanna möguleika á að koma á vestnorrænum umhverfisverðlaunum hafsins í samstarfi við landsstjórnir Færeyja og Grænlands.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2019 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 23. október 2019 í Nuuk. Greinargerð þessi byggist á greinargerð ályktunarinnar.
    Heimurinn stendur frammi fyrir áskorunum af völdum loftslagsbreytinga og mengunar. Nauðsynlegt er að standa vörð um líffræðilega fjölbreytni, þróa sjálfbæra orku og finna sjálfbærar lausnir í matvælaframleiðslu. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun hafa sett þessi málefni á oddinn.
    Á sama tíma er áhugi á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum sífellt að aukast og keppast stórveldi um áhrif á svæðinu og ítök í þeim náttúruauðlindum sem þar er að finna. Samkeppni um yfirráð yfir náttúruauðlindum á landi hefur sett mark sitt á mannkynssöguna en auðlindir hafsins munu leika lykilhlutverk í alþjóðastjórnmálum í framtíðinni.
    Hafið hylur um 70% af flatarmáli jarðar og eru auðlindir hafsins mjög vannýttar. Ríki og alþjóðastofnanir hafa í auknum mæli beint sjónum sínum að hafinu. Sem dæmi má nefna stofnun árlegrar ráðstefnu um hafið ( Our Ocean) sem hefur dregið til sín sífellt fleiri þátttakendur síðustu ár. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur einnig lagt aukna áherslu á hafið og lífríki þess og sama má segja um umhverfissamtök, frjáls félagasamtök og fyrirtæki.
    Mikilvægt er að Vestur-Norðurlönd taki fullan þátt í þessari auknu umræðu um hafið. Löndin hafa talsverða sérstöðu hvað varðar stærð yfirráðasvæðis þeirra á hafi og hversu mjög þau reiða sig á auðlindir hafsins. Nauðsynlegt er að standa vörð um rétt þjóða til sjálfbærrar nýtingar auðlinda hafsins. Umræðu um friðun stórra svæða á norðurslóðum þarf að mæta með upplýsingagjöf um ábyrga fiskveiðistjórn og atvinnustarfsemi. Ísland, Færeyjar og Grænland ættu því að leggja sig eftir því að móta umræðu um þessi málefni á alþjóðlegum vettvangi.
    Stofnun vestnorrænna umhverfisverðlauna hafsins myndi vekja athygli alþjóðasamfélagsins á mikilvægi hafsins fyrir komandi kynslóðir og heimsbyggðina alla. Verðlaunin yrðu veitt fyrir sérstakt frumkvæði og vinnu að umhverfisvernd í hafi eða sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda. Verðlaunin yrðu veitt frumkvöðlum, samtökum, fyrirtækjum, sveitarfélögum, ríkisstjórnum, stofnunum eða einstaklingum, hvort sem er á Vestur-Norðurlöndum eða utan þeirra. Verðlaunin myndu vekja athygli alþjóðlegra aðila á mikilvægi hafsins fyrir komandi kynslóðir.