Ferill 512. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 839  —  512. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um niðurgreiðslu flugfargjalda ungmenna milli Vestur-Norðurlanda.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna hvort gera megi samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um niðurgreiðslu flugferða ungmenna milli landanna þriggja.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 1/2019 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 23. október 2019 í Nuuk. Greinargerð þessi er byggð á greinargerð ályktunarinnar.
    Þrátt fyrir að Ísland, Færeyjar og Grænland hafi eitt sinn tilheyrt sama konungsríki hefur aðeins lítill hluti ungmenna í löndunum þremur tækifæri til að ferðast til þessara nágrannalanda sinna og kynna sér menningu þeirra. Til þess að tryggja áframhaldandi gott samstarf milli landanna um sameiginlega hagsmuni er nauðsynlegt að gera vestnorrænum ungmennum kleift að kynnast nágrannalöndum sínum, menningu þeirra og íbúum.
    Flugfargjöld milli vestnorrænna landa og innan þeirra eru mjög há. Vestnorræn ungmennafargjöld, eða lækkað verð á flugmiðum fyrir ungt fólk, mundi gera ungmennum landanna mögulegt að ferðast milli landanna þriggja í auknum mæli. Hægt væri að byggja á fyrirmynd evrópsku Interrail-lestarmiðanna þannig að lækkun fargjalds gilti í ákveðinn tíma. Því er lagt til að ríkisstjórnirnar skoði hvort unnt yrði að bæta flugfélögum landanna mögulegt tap sem hlytist af því að koma á vestnorrænum ungmennafargjöldum.
    Að öðrum kosti gætu vestnorræn ríki komið á fót sjóði sem veitti ungmennum landanna styrki til að ferðast til annarra vestnorrænna landa. Eins og staðan er nú hafa ungmenni á Vestur-Norðurlöndum tækifæri til að sækja um styrki til ferðalaga á vegum íþróttafélaga, skóla eða menningarhópa. Í því samhengi er vert að nefna Grænlandssjóð og NATA (North Atlantic Tourism Association). Hins vegar geta ungmenni sem ferðast á eigin vegum milli landanna þriggja ekki sótt um styrki til þess.
    Ályktun þessi er lögð fram í þeim tilgangi að styðja við ferðalög ungmenna milli landanna þriggja í þágu vestnorræns samstarfs til framtíðar.