Ferill 374. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 1055  —  374. mál.
Fyrirvari.

Síðari umræða.Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 um breytingu á bókun 31 (samvinna á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins) við EES-samninginn (sameiginlegar efndir samkvæmt Parísarsamningnum fyrir árin 2021–2030).

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhönnu Bryndísi Bjarnadóttur frá utanríkisráðuneyti og Helgu Barðadóttur og Kjartan Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Nefndin óskaði einnig eftir svörum við tilteknum spurningum frá ráðuneytunum tveimur og bárust þau nefndinni nokkru síðar. Svörin eru birt á vef Alþingis sem erindi með máli þessu. Þá er þar einnig opinber kynning sem nefndin og umhverfis- og samgöngunefnd fékk á málinu á sameiginlegum fundi nefndanna í aðdraganda þingmáls þessa, sbr. reglur um þinglega meðferð EES-mála.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 frá 25. október 2019 um breytingu á bókun 31 (samvinna á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og að fella inn í samninginn eftirfarandi gerðir sem varða samkomulag Íslands, Noregs og Evrópusambandsins um sameiginlegt markmið um samdrátt í losun á tímabilinu 2021–2030:
     1.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/841 frá 30. maí 2018 um að fella losun gróðurhúsalofttegunda og upptöku frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt inn í loftslags- og orkurammann fram til ársins 2030 og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 525/2013 og ákvörðun nr. 529/2013/ESB.
     2.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/842 frá 30. maí 2018 um bindandi árlega skerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda aðildarríkjanna frá 2021–2030 sem stuðlar að loftslagsaðgerðum til að uppfylla skuldbindingar samkvæmt Parísarsamningnum og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 525/2013.
     3.      Hluta ákvæða reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1999 frá 11. desember 2018 um stjórnun orkusambandsins og aðgerða í loftslagsmálum, um breytingu á reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 663/2009 og (EB) nr. 715/2009, tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 94/22/EB, 98/70/EB, 2009/31/EB, 2009/73/EB, 2010/31/ESB, 2012/27/ESB og 2013/30/ESB, tilskipunum ráðsins 2009/119/EB og (ESB) 2015/652 og um niðurfellingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 525/2013.
     4.      Hluta ákvæða reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 525/2013 frá 21. maí 2013 um fyrirkomulag við vöktun og skýrslugjöf að því er varðar losun gróðurhúsalofttegunda og skýrslugjöf að því er varðar aðrar upplýsingar á landsvísu og á vettvangi Sambandsins sem varða loftslagsbreytingar og um niðurfellingu á ákvörðun nr. 280/2004/EB.
     5.      Hluta ákvæða framkvæmdarreglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 749/2014 frá 30. júní 2014 um skipulag, snið, framlagningarferli og yfirferð á upplýsingum sem aðildarríkin láta í té samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 525/2013.
    Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Nefndin leggur áherslu á að vönduð umræða fari fram á Alþingi um þær gerðir sem kunna að koma til umfjöllunar þingsins í kjölfar samþykktar þingsályktunartillögu þessarar.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Silja Dögg Gunnarsdóttir og Smári McCarthy voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 4. mars 2020.

Sigríður Á. Andersen,
form., frsm., með fyrirvara.
Ari Trausti Guðmundsson. Bryndís Haraldsdóttir.
Logi Einarsson. Ólafur Ísleifsson,
með fyrirvara.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir.