Ferill 699. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1181  —  699. mál.
Stjórnartillaga.Tillaga til þingsályktunar


um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.


Frá fjármála- og efnahagsráðherra.    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra framkvæmd eftirfarandi ráðstafana á grundvelli heimilda í fjáraukalögum fyrir árið 2020 um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru:
     1.      Að 15.000 m.kr. fjárheimild til átaksins verði skipt á verkefnaflokka í samræmi við áætlun í töflu 1.
     2.      Að fjárveitingum til átaksins verði skipt á einstök fjárfestingarverkefni í samræmi við áætlun í töflu 2.
     3.      Að framlög verði færð til annarra verkefna innan sama verkefnaflokks, takist ekki að hefja öll skilgreind verkefni fyrir 1. september 2020.
     4.      Að framlög verði færð til annarra verkefnaflokka, verði ljóst að ekki takist að nýta öll framlög innan einstaks verkefnaflokks fyrir 1. apríl 2021.

Tafla 1 – Sundurliðun fjárheimilda eftir verkefnaflokkum.
Tegund verkefna Framlög (m.kr.) Vægi (%)
Viðhald og endurbætur fasteigna 2.008 13
Nýbyggingar og meiri háttar endurbætur 700 5
Samgöngumannvirki 6.210 41
Orkuskipti, grænar lausnir og umhverfismál 1.365 9
Önnur innviðaverkefni 1.617 11
Rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar 1.750 12
Stafrænt Ísland og upplýsingatækniverkefni 1.350 9
Samtals 15.000 100

Tafla 2 – Sundurliðun fjárveitinga eftir fjárfestingarverkefnum.
Viðhald og endurbætur fasteigna Fjárhæð 2020 m.kr.
Heilbrigðisstofnanir 400
Lögreglu- og sýslumannsembætti 210
Framhaldsskólar 411
Ýmsar fasteignir ríkisins 730
Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhús 195
Fasteignir Alþingis 62
Samtals 2.008
Nýbyggingar og meiri háttar endurbætur Fjárhæð 2020 m.kr.
Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík 200
Landhelgisgæslan – flugskýli 100
Endurhæfingardeild Landspítalans við Grensás 200
Áfangaheimili fyrir þolendur heimilisofbeldis 100
Öryggisvistun 100
Samtals 700
Samgöngumannvirki Fjárhæð 2020 m.kr.
Flughlað á Akureyri og akbraut á Egilsstaðaflugvelli 350
Flugstöð á Akureyri 200
Hafnarframkvæmdir 750
Breikkun brúa 700
Hringtorg 200
Vegaframkvæmdir og hönnun 1.860
Óveðurstengd verkefni 150
Framkvæmdir við tengivegi 1.000
Viðhald vega 1.000
Samtals 6.210
Orkuskipti, grænar lausnir og umhverfismál Fjárhæð 2020 m.kr.
Orkuskipti í samgöngum og átak í bindingu kolefnis 500
Uppbygging göngustíga innan friðlanda 315
Aðstaða á vegum þjóðgarða 300
Jökulsárlón 50
Fráveitumál – uppbygging hjá sveitarfélögum 200
Samtals 1.365
Önnur innviðaverkefni Fjárhæð 2020 m.kr.
Aukin framlög til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða 200
Ofanflóðavarnir 350
Varnir gegn landbroti 75
Ísland ljóstengt 400
Fjárfesting vegna stjórnunar og samhæfingar innviða 592
Samtals 1.617
Rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar Fjárhæð 2020 m.kr.
Framlög í Rannsóknasjóð og Innviðasjóð 400
Aukin framlög í Tækniþróunarsjóð 400
Framlög í landbúnaði og sjávarútvegi. 200
Framlag til menningar, íþrótta og lista. 750
Samtals 1.750
Stafrænt Ísland og upplýsingatækniverkefni Fjárhæð 2020 m.kr.
Endurnýjun upplýsingatæknikerfa og efling tækniinnviða 500
Nýsköpun í heilbrigðisþjónustu 150
Stafrænt Ísland 500
Þróun gagnagrunna á vegum hins opinbera 135
Þingmannagátt 65
Samtals 1.350

Greinargerð.

    Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2020 sem lagt var fram á vorþingi er lagt til að veitt verði 15 ma.kr. fjárheimild til sérstaks tímabundins fjárfestingarátaks til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Þá er einnig í tillögu að heimildargrein í því frumvarpi gert ráð fyrir að ráðherra verði veitt heimild til: „Að veita framlög í sérstakt tímabundið fjárfestingarátak til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu með arðbærum fjárfestingum sem auka eftirspurn eftir vinnuafli. Skilyrði framlaga til verkefnis er að það hefjist eigi síðar en 1. september 2020 og sé að fullu lokið eigi síðar en 1. apríl 2021.“
    Í tillögu þessari er lagt til að Alþingi álykti að fela fjármála- og efnahagsráðherra framkvæmd ráðstafana á fjárheimild málaflokksins 34.20 Sértækar fjárráðstafanir á grundvelli heimildarákvæðis í lið 7.28 í fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 2020. Í tillögunni er að finna nánari sundurliðun á framangreindum heimildum niður á verkefnaflokka og einstök fjárfestingarverkefni. Á grundvelli þess verði unnt að stofna til fjárfestinga til að spyrna við því áfalli á efnahag landsins sem leiðir af heimsfaraldri vegna kórónuveirunnar. Ráðstöfun þessi á sér ekki hliðstæðu en til hennar er gripið við þær sérstöku aðstæður sem nú ríkja. Útbreiðsla kórónuveirunnar og ráðstafanir til að hamla útbreiðslu hennar hafa þegar haft áhrif á efnahagslífið og samfélagið allt og búast má við að þau áhrif muni aukast. Núverandi efnahagsástand, með hratt minnkandi eftirspurn og efnahagsslaka, lítilli fjárfestingu og langvarandi fjárfestingarhalla, kallar á að ráðist verði í fjárfestingar á vegum hins opinbera. Ljóst er þó að opinber fjárfestingarverkefni sem ætlað er að bregðast við djúpum en tímabundnum samdrætti eftirspurnar vegna útbreiðslu COVID-19 verður að vera hægt að ráðast í með skömmum fyrirvara. Áhrif opinberrar fjárfestingar á eftirspurn í hagkerfinu geta því verið þó nokkur án þess að ýta undir verðbólgu eða leiða til hærra vaxtastigs.
    Almennt getur ríkissjóður aukið fjárfestingar sínar til að ná tveimur efnahagslegum markmiðum:
     1.      Styðja við eftirspurn með áherslu á framkvæmdir sem nýta í sem mestum mæli innlenda framleiðsluþætti.
     2.      Stuðla að aukinni framleiðni með áherslu á efnahagslega arðbær verkefni.
    Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2020 er lagt til að ráðist verði í allt að 15 ma.kr. sérstakt tímabundið fjárfestingarátak sem ætlað er að vinna gegn þeim samdrætti í hagkerfinu sem heimsfaraldurinn hefur í för með sér. Við blasir að afleiðingar samdráttarins geta orðið alvarlegar og er sérstök hætta á því að atvinnuleysi aukist verulega. Þó að bein áhrif séu einkum á fyrirtæki í ferðaþjónustu í fyrstu er ljóst að samdrátturinn getur haft afleidd áhrif á margar atvinnugreinar. Átakinu er ætlað að stuðla að arðbærum fjárfestingum sem auki eftirspurn eftir vinnuafli og framleiðslugetu hagkerfisins. Gert er ráð fyrir því að ráðist verði í fjölbreytt verkefni á málefnasviðum flestra ráðuneyta. Mikilvægt er að verkefnin skapi eftirspurn eftir ólíkum tegundum starfa, jafnt kvenna sem karla og að þau dreifist um landið.
    Við undirbúning þessara ráðstafana var auk framkvæmda sem fjármagnaðar eru beint af ríkissjóði leitað eftir upplýsingum frá félögum í eigu ríkisins um mögulega flýtingu fjárfestinga. Miðað við þær upplýsingar sem bárust telja félögin mögulegt að flýta framkvæmdum um sem nemur allt að 5 ma.kr. til ársins 2020. Að hluta til kann flýting slíkra fjárfestinga að kalla á aukið hlutafé frá ríkinu og var því í frumvarpi til fjáraukalaga leitað eftir heimild til slíkrar hlutafjáraukningar í því skyni að auka fjárfestingargetu opinberu félaganna.
    Í því skyni að styðja við eftirspurn og atvinnu til skamms tíma var fjárfestingartillögum safnað saman sem unnt væri að ráðast í strax á árinu 2020. Einnig var safnað saman verkefnum sem hægt væri að hefja á komandi árum í tengslum við áformað fjárfestingarátak. Gengið er út frá því að um sé að ræða fjárfestingarverkefni í þeim skilningi að þau verði eignfærð í ríkisreikningi eða að þau feli í sér fjármagnstilfærslu ríkissjóðs til annarra geira hagkerfisins, s.s. sveitarfélaga, sem nýta tilfærsluna til fjárfestingar.
    Við yfirferð á fjárfestingarverkefnum vegna ársins 2020 var sérstök áhersla lögð á mannaflafrek verkefni sem hægt væri að ráðast í á líðandi ári við fyrsta áfanga átaksins. Á grundvelli þessa var lagt til að skapaður væri rammi fyrir allt að 15 ma.kr. til fjárfestingarverkefna. Framangreind framlög koma til viðbótar um 74 ma.kr. framlögum til fjárfestingar sem gert er ráð fyrir í gildandi fjárlögum fyrir árið 2020 en aukningin nemur u.þ.b. fimmtungi.
    Í meðfylgjandi töflum er að finna nánara yfirlit yfir einstök verkefni. Rétt er að taka fram að um er að ræða sömu verkefni og lágu til grundvallar fjáraukalagafrumvarpinu en flokkun verkefna hefur verið breytt lítils háttar og því eru fjárhæðir í töflu 1 aðrar en í sambærilegri töflu í frumvarpinu. Miðað er við að ráðist verði í fjölbreyttar tegundir verkefna, s.s. viðhald og nýbyggingu fasteigna, framkvæmdir í samgöngukerfinu með áherslu á viðhaldsframkvæmdir, tengivegi og breikkun brúa, verkefni á sviði upplýsingatækni, nýsköpunar, grænna lausna sem og önnur innviðaverkefni. Í mörgum tilfellum verða fjármunir veittir til að flýta verkefnum sem nú þegar eru fjármögnuð í gildandi fjármálaáætlun eða eru á formlegu undirbúningsstigi. Í slíkum tilfellum skapast svigrúm fyrir önnur verkefni á gildistíma fjármálaáætlunar.
    Nánar um einstaka verkefnaflokka sem lagðir eru til grundvallar í þingsályktunartillögunni:
     *      Viðhald og endurbætur fasteigna: Um er að ræða fjölbreytt viðhalds- og endurbótaverkefni sem taka til fasteigna margra ráðuneyta og dreifast víða um landið. Flest þeirra verða unnin á vegum Ríkiseigna. Viðhald og endurbætur á Hörpu kalla á samstarf með Reykjavíkurborg sem er meðeigandi ríkisins í Hörpu.
     *      Nýbyggingar og meiri háttar endurbótaverkefni: Um er að ræða undirbúningsverkefni vegna nokkurra bygginga á vegum þriggja ráðuneyta. Verkefni verða unnin í samvinnu viðkomandi ráðuneyta og Framkvæmdasýslu ríkisins.
     *      Samgöngumannvirki: Um er að ræða fjölbreyttar nýframkvæmdir en einnig viðhaldsverkefni. Verkefnin eru um land allt og taka til allra samgöngugreina, þ.e. vega, flugvalla og hafna.
     *      Orkuskipti, grænar lausnir og umhverfismál: Um er að ræða verkefni á ábyrgðarsviði umhverfis- og auðlindaráðuneytis sem meðal annars endurspegla áherslu á loftslagsmál og uppbyggingu á friðlýstum svæðum.
     *      Önnur innviðaverkefni: Um er að ræða fjölbreytt verkefni tengd ólíkum þáttum samfélagsinnviða. Meðal verkefna er ýmiss konar mikilvæg styrking innviða sem ætlað er að bæta úr veikleikum sem fram hafa komið í óveðrum undanfarinna mánaða.
     *      Rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar: Um er að ræða framlög sem að mestu munu renna til faglegra sjóða sem munu veita fjármuni til einstakra verkefna.
     *      Stafrænt Ísland og upplýsingatækniverkefni: Um er að ræða fjölbreytt verkefni á sviði nýsköpunar, upplýsingatækni, netöryggis og stafrænnar þjónustu. Verkefnunum verður stýrt af fjármála- og efnahagsráðuneyti í samstarfi við önnur ráðuneyti og ýmsar lykilupplýsingatæknistofnanir ríkisins.
    Þar sem brýnt er að verkefni fari sem fyrst af stað er sett það skilyrði að þau hefjist eigi síðar en 1. september 2020 og verði að fullu lokið eigi síðar en 1. apríl 2021. Tekið skal fram að þegar um undirbúnings- eða hönnunarverkefni er að ræða verða síðari áfangar framkvæmdir frá og með árinu 2021.
    Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2020 er fjárheimild vegna fjárfestingarátaksins færð á málefnasviðið 34 Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðherra. Gert er ráð fyrir að fjárveitingar verði millifærðar þaðan til málefnasviða viðkomandi fagráðuneyta, þegar þau hafa lagt fram áætlanir um einstök verkefni sem uppfylla sett viðmið um stöðu undirbúnings og tímasetningar sem yfirfarin verða af fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Náist ekki að hefja einstök verkefni innan verkefnaflokks fyrir 1. september 2020 er gert ráð fyrir því að framlög verði nýtt í þágu annarra verkefna innan sama verkefnaflokks að því gefnu að slík verkefni uppfylli sömu viðmið um stöðu undirbúnings og tímasetningar. Þá er einnig miðað við að heimilt verði að færa framlög til annarra verkefnaflokka, verði ljóst að ekki takist að nýta öll framlög innan einstaks verkefnaflokks fyrir 1. apríl 2021.
    Í undirbúningi er stærra fjárfestingarátak sem ætlunin er að taki til áranna 2021–2023. Ýmis brýn verkefni bíða þess átaks, þar á meðal verkefni sem þarfnast meiri undirbúnings til að raunhæft sé að hrinda þeim af stað fyrir árslok. Í þessari þingsályktunartillögu er eftir sem áður lagt til að veittir verði fjármunir til undirbúnings og hönnunar verkefna sem brýnt þykir að verði hluti þess átaks. Jafnframt er í sumum tilvikum um að ræða ný verkefni sem taka til margra ára og þurfa því að eiga trygga framhaldsfjármögnun. Þá er vert að geta þess að við fjárfestingarátak áranna 2021–2023 er áformað að lögð verði umtalsverð áhersla á aukna fjármögnun rannsókna og nýsköpunar. Lögð er áhersla á að hefja verkefni á því sviði þegar árið 2020, eins og þingsályktunartillagan ber með sér.


Viðauki.

Nánari lýsing á fjárfestingarverkefnum fyrir árið 2020.


Viðhald og endurbætur fasteigna
Ábyrgðaraðili Flokkun verkefnis Lýsing m.kr.
Ríkiseignir Viðhald og endurbætur á
húsnæði heilbrigðisstofnana
Endurbætur á sjúkrahúsinu á Selfossi. Breytingar innanhúss á sjúkrahúsinu í Stykkishólmi. Utanhússviðhald á heilsugæslunni á Akranesi. 400
Ríkiseignir Viðhald og endurbætur á húsnæði lögreglu- og sýslumannsembætta Endurbætur á húsnæði lögreglunnar á Akranesi og við Hverfisgötu í Reykjavík. Viðhald á húsnæði sýslumannsembættis í Stykkishólmi. 210
Ríkiseignir Viðhald og endurbætur á húsnæði framhaldsskóla Viðhald á Verkmenntaskólanum á Akureyri og Tækniskólanum á Skólavörðuholti. Utanhússviðgerðir á málmiðnaðardeild Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Viðhald á framhaldsskólum Húsavíkur og Hamrahlíðar. Endurnýjun á klæðningu á húsnæði Menntaskólans að Laugarvatni. 411
Ríkiseignir Viðhald á ýmsum fasteignum á vegum ríkisins Endurbætur á vegum Gljúfrasteins/Jónstótt. Endurbætur utanhúss á Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg í samstarfi við Minjavernd. Framkvæmdir við Landbúnaðarháskólann að Reykjum. Endurskipulagning á vinnurýmum Stjórnarráðsins. Endurbætur á byggingu á öryggissvæði Keflavíkurflugvallar vegna aðstöðu fyrir ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslu. 730
Fjármála- og efnahagsráðuneytið Viðhald og endurbætur vegna Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúss Frágangur lóðar og jarðhæðar við Hörpu, endurbætur vegna LED-væðingar og aukins orkusparnaðar sem og vegna þakviðgerða. 195
Alþingi Viðhald á fasteignum Alþingis Hönnun og endurbætur á þingsal, viðhald á eignum við Kirkjustræti og gluggaskipti í Skúlahúsi. 62
Samtals 2.008
Nýbyggingar og meiri háttar endurbætur
Ábyrgðaraðili Flokkun verkefnis Lýsing m.kr.
Heilbrigðisráðuneytið Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík Áformað að byggja nýja hjúkrunardeild á Húsavík sem kemur í stað eldri byggingar á lóðinni. 200
Dómsmálaráðuneytið Landhelgisgæslan flugskýli Bygging flugskýlis fyrir Landhelgisgæsluna á Reykjavíkurflugvelli sem nýtt verður undir þyrlur. 100
Heilbrigðisráðuneytið Endurhæfingardeild Landspítalans við Grensás Viðbygging við endurhæfingardeild Landspítala á Grensási, Reykjavík. 200
Félagsmálaráðuneytið Áfangaheimili fyrir þolendur heimilisofbeldis Verkefnið snýr að því að styrkja starfsemi Kvennaathvarfsins til að flýta framkvæmdum áfangaheimilis Samtaka um kvennaathvarf. 100
Félagsmálaráðuneytið Öryggisvistun Áform um byggingu sérhæfðs húsnæðis vegna vistunar á einstaklingum 18 ára og eldri sem þurfa öryggisvistun. Einnig hugsað fyrir þá sem hafa fengið rýmkun frá réttargeðdeild. 100
Samtals 700
Samgöngumannvirki
Ábyrgðaraðili Flokkun verkefnis Lýsing m.kr.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið Flughlað á Akureyri og akbraut á Egilsstaðaflugvelli Stækkun á flughlaði á Akureyrarflugvelli til að geta aukið umsvif og öryggi flugvallarins. Ný akbraut/flughlað á Egilsstaðaflugvelli til að tryggja öryggi loftfara á flugvelli og styrkja hlutverk flugvallarins sem varaflugvallar. 350
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið Flugstöð á Akureyri Millilandaflugstöð á Akureyri. Viðbygging vestur af norðurenda núverandi flugstöðvar. 200
Vegagerðin Hafnarframkvæmdir 1) Dýpkun: Sandgerði, Ólafsvík, Þorlákshöfn, Þórshöfn, Súðavík. 2) Grjótverkefni: Bakkafjörður, Njarðvík, Keflavík, Sauðárkrókur. 3) Landfylling á Bíldudal. 4) Sjóvarnir á ýmsum stöðum vegna tjóns í óveðrum. 5) Stálþilsverkefni á Djúpavogi. 750
Samgöngumannvirki (frh.)
Ábyrgðaraðili Flokkun verkefnis Lýsing m.kr.
Vegagerðin Breikkun brúa Breikka einbreiðar brýr á vegakerfinu. 1) Köldukvíslargil á Norðausturvegi. 2) Gilsá á Völlum á Skriðdals- og Breiðdalsvegi. 3) Botnsá í Tálknafirði. 4) Bjarnadalsá í Önundarfirði. 5) Núpsvötn. 6) Stóra-Laxá á Skeiða- og Hrunamannavegi. 7) Skjálfandafljót á Hringvegi hjá Fosshóli við Goðafoss. 700
Vegagerðin Hringtorg Vegaframkvæmdir og öryggisaðgerðir við hringtorg við Landvegamót, á Eyrarbakkavegi og á Flúðum. 200
Vegagerðin Vegaframkvæmdir og hönnun Vegaframkvæmdir, viðbót við gildandi fjárveitingar: 1) Borgarfjarðarvegur–Reykjanesbraut. 2) Krýsuvíkurvegur–Hvassahraun. 3) Snæfellsnesvegur um Skógarströnd. 4) Suðurlandsvegur, Bæjarháls–Vesturlandsvegur. 5) Suðurlandsvegur, Fossvellir–Norðlingavað. 6) Hringvegur um Heiðarsporð (Biskupsbeygja). 7) Vesturlandsvegur, Langitangi–Hafravatnsvegur. 8) Þverárfjallsvegur um Refasveit og Skagastrandarvegur um Laxá. 9) Hönnun og undirbúningur vegna útfærslu Breiðholtsbrautar frá Jaðarseli að Suðurlandsvegi. 10) Hönnun og undirbúningur vegna breikkunar Reykjanesbrautar frá Fjarðarhrauni að Mjódd. 1.860
Vegagerðin Óveðurstengd verkefni Í kjölfar óveðurs í vetur er þörf á endurnýjun ýmissa kerfa og mæla. Upplýsingagátt vega, upplýsingakerfi um veður og sjólag, endurnýjun öldudufla, færanleg lokunarhlið, sjávarhæðarmælingar og frumrannsóknir hafna og stranda. 150
Vegagerðin Framkvæmdir við tengivegi Vegaframkvæmdir vegna tengivega. Setja bundið slitlag á malarvegi um allt land. Fjárveiting dreifist um allt land í hlutfalli við þá tengivegi sem eftir eru á hverju svæði með malarslitlagi.
1.000
Vegagerðin Viðhald vega Ýmsar aðgerðir í viðhaldi á vegum sem dreifist um land allt. Viðbót við fjárveitingar skv. samgönguáætlun. 1.000
Samtals 6.210
Orkuskipti, grænar lausnir og umhverfismál
Ábyrgðaraðili Flokkun verkefnis Lýsing m.kr.
Umhverfis- og
auðlindaráðuneytið
Orkuskipti í samgöngum og átak í bindingu kolefnis Markmið verkefnisins er að hraða innviðauppbyggingu til að stuðla að orkuskiptum í samgöngum á landi og haftengdri starfsemi. Sérstaklega verður horft til bílaleiga og þungaflutninga á landi og rafvæðingar hafna. Einnig verði aukið við átak til bindingar kolefnis með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis. 500
Umhverfis- og
auðlindaráðuneytið
Uppbygging göngustíga innan friðlanda 1) Dyrhólaey; gerð göngustíga og tengdra innviða. 2) Friðland að fjallabaki; viðhald og uppbygging gönguleiða og tengdra innviða. 3) Gjáin í Þjórsárdal; bæta aðgengi með gerð göngustíga, göngubrúa og tengdra innviða. 4) Þingvellir; styrking og uppbygging göngustíga í sunnanverðri þinghelgi á Þingvöllum. 315
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið Aðstaða á vegum þjóðgarða Uppbygging á aðstöðu fyrir þjóðgarða. Til skoðunar er að byggja upp og bæta aðstöðu Vatnsjökulsþjóðgarðs við Skaftafell. Einnig er til skoðunar að byggja upp aðstöðu við Mývatn. 300
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið Jökulsárlón Verkefnið felur í sér fyrsta áfanga uppbyggingar grunninnviða á Jökulsárlóni með uppbyggingu bílastæðis, aðkomuvegar, heimtaugar ásamt spennivirki, vatnsveitu og ljósleiðaratengingu. 50
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið Fráveitumál – uppbygging hjá sveitarfélögum Í samræmi við stjórnarsáttmála er stefnt að átaki í fráveitumálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga, en veruleg þörf er á uppbyggingu í þessum málaflokki. 200
Samtals 1.365
Önnur innviðaverkefni
Ábyrgðaraðili Flokkun verkefnis Lýsing m.kr.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið Aukin framlög til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða Aukið fjármagn til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða til að hraða uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum sem stuðla að öryggi ferðamanna og verndun náttúru landsins. 200
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið Ofanflóðavarnir Flýta framkvæmdum við ofanflóðavarnir á yfirstandi ári: 1) Urðir, Hólar og Mýrar á Patreksfirði. 2) Lambeyrará, Eskifirði. 3) Nes- og Bakkagil í Neskaupstað. 350
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið Varnir gegn landbroti Unnið að vörnum vegna ágangs vatna á land. Markmiðið er að verja gróið og ræktað land og mannvirki. (Vegir og brýr eru ekki þar talin með.) 75
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið Ísland ljóstengt Ísland ljóstengt, aukið átak. Markmiðið er að nær öll heimili og fyrirtæki í dreifbýli hafi aðgang að ljósleiðaratengingu. 400
Vekefni á vegum margra aðila Fjárfesting vegna stjórnunar og samhæfingar innviða Verkefni tengd óveðri í vetur. Margháttaðar aðgerðir til að stýra betur og samhæfa grunninnviði landsins, flýta verkefnum, efla viðbrögð, kaupa búnað og varaafl og auka vöktun náttúrurvár. 592
Samtals 1.617
Rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar
Ábyrgðaraðili Flokkun verkefnis Lýsing m.kr.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið Framlög í Rannsóknasjóð og Innviðasjóð Efla Rannsóknasjóð og Innviðasjóð með það að markmiði að tryggja alþjóðlegt samkeppnishæfi á vísindastarfi og rannsóknaumhverfi með bættri fjármögnun. 400
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið Aukin framlög í Tækniþróunarsjóð Aukin framlög í Tækniþróunarsjóð til eflingar nýsköpun og til að skapa ný störf sem byggja á hugviti og þekkingu. 400
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið Framlög í landbúnaði og sjávarútvegi Framlög til fjárfestingar í innlendri garðyrkju og nýsköpunar á sviði matvælaframleiðslu og rannsókna á lífríki hafsins. 200
Mennta- og menningarmálaráðuneytið Framlag til menningar, íþrótta og lista Átaksverkefni í menningu og listum með styrkveitingum til menninga- og listaverkefna fyrir almenning. Þannig verður komið til móts við samkomubann með því að landsmenn fái notið menningar og lista með nýstárlegum hætti m.a. með þverfaglegu samstarfandi listgreina. Stuðningur við íþróttastarf í samkomubanni og skráning menningarminja. 750
Samtals 1.750
Stafrænt Ísland og upplýsingatækniverkefni
Ábyrgðaraðili Flokkun verkefnis Lýsing m.kr.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið Endurnýjun upplýsingatæknikerfa og efling tækniinnviða Endurnýjun á lykilgrunnkerfi hjá hinu opinbera til að minnka rekstraráhættu og til að mæta kröfum sem gerðar eru til grunnþjónustu hjá viðkomandi stofnunum. Um er ræða verkefni sem m.a. varða 1) hröðun á innleiðingu starfræns skrifstofuumhverfis ríkisins, 2) endurnýjun upplýsingakerfa Sjúkratrygginga, 3) Strauminn (X-Road), 4) tölvuský ríkisins, 5) málaskrárkerfi ríkisstofnana og 6) umbætur á kerfum Þjóðskjalasafns Íslands 500
Stafrænt Ísland og upplýsingatækniverkefni (frh.)
Ábyrgðaraðili Flokkun verkefnis Lýsing m.kr.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið Framlög til nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu Átaksverkefni til stuðnings nýskapandi lausnum í heilbrigðisþjónustu. Markmiðið er að efla varnir gegn núverandi vá og beita nýrri nálgun í heilbrigðisþjónustu og forvörnum, á grunni heilbrigðisstefnu. Verkefnið verður leitt af verkefnastofu um Stafrænt Ísland í samstarfi við atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið. 150
Fjármála- og efnahagsráðuneytið Stafrænt Ísland hröðun á fjárfestingu í formi átakssjóðs Verkefnið er að hraða enn frekar stafvæðingu opinberrar þjónustu í samstarfi við stofnanir. Með þessu móti væri verið að fullnýta þá afkastagetu sem Stafrænt Ísland hefur tök á í tengslum við nýafstaðið útboð á stafrænni þjónustu með samstarfi við 18 þverfagleg teymi í atvinnulífinu. Hröðun á 400–500 þjónustuferlum sem t.a.m. snúa að leyfisveitingum fyrirtækja, fjölskyldu- og forræðismálum hjá sýslumönnum, rafrænum þinglýsingum, stafrænum umsóknum um vegabréf og fæðingarorlof. Einnig verður hugað sérstaklega að eflingu netöryggis. 500
Fjármála- og efnahagsráðuneytið Þróun gagnagrunna á vegum hins opinbera 1) Áframhaldandi þróun sjúkraskrárkerfis m.a. til að ná betur utan um biðlista og samskipti við almenning. 2) Gerð gagnagrunna í barnavernd svo hægt sé að safna og miðla upplýsingum með markvissari hætti. 3) Þóun gagnagrunna á vegum menntamála 4) Þróun stýrikerfis á vegum Tryggingastofnunar. Verkefnum verður stýrt af fjármála- og efnahagsráðuneyti í samstarfi við viðkomandi ríkisaðila. 135
Alþingi Þingmannagátt Þingmannagátt er hluti af þróun stafrænnar þjónustu fyrir kjörna fulltrúa þjóðarinnar þar sem öll gögn sem tengjast þingstörfum þeirra eru á einum stað. 65
Samtals 1.350